136. löggjafarþing — 76. fundur
 6. feb. 2009.
um fundarstjórn.

ný starfsáætlun þingsins.

[11:04]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Sjálfstæðisflokkurinn vill greiða fyrir störfum þingsins, m.a. að hægt sé að ræða frumvarpið um Seðlabanka Íslands í dag á degi sem ekki var á starfsáætlun þingsins. Hæstv. forseti tilkynnti í gær af forsetastóli að starfsáætlunin hefði verið felld úr gildi með ákvörðun forsætisnefndar. Ég geri í sjálfu sér ekki athugasemd við það en hins vegar væri afskaplega gott fyrir framhald starfa í þinginu að það kæmi einhver lína um það hver starfsáætlunin á að vera fram undan. Hver er stefna forseta t.d. varðandi þinglok? Hvernig er hægt að skipuleggja starfið til að við getum klárað sem flest mál fram að kosningum? Eins og hér kom fram er mjög skammur tími fram að kosningum, við erum hugsanlega að tala um þinglok í lok febrúar. Það væri afskaplega gott fyrir störf okkar að við fengjum einhver svör frá forseta um þetta.



[11:05]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti mun taka þessa ósk til skoðunar og fjalla um það í forsætisnefnd.