136. löggjafarþing — 78. fundur
 10. feb. 2009.
lögskráning sjómanna, 1. umræða.
stjfrv., 290. mál (heildarlög). — Þskj. 516.

[14:46]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um lögskráningu sjómanna. Frumvarpið er afrakstur heildarendurskoðunar á gildandi lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987.

Lögskráning sjómanna eins og tíðkast hefur hér allt frá árinu 1930 er einsdæmi en tilgangur hennar er fjölþættur. Í fyrsta lagi er henni ætlað að tryggja sönnun fyrir því hverjir hafi verið um borð í skipi ef það ferst. Þá er lögskráningin liður í eftirliti með því að sjómenn um borð hafi lögboðin starfsréttindi, að tryggja að lögboðin slysatrygging sé í gildi og jafnframt að fyrir liggi gögn um haffæri skips. Þá felst einnig í henni skráning á siglingatíma sjómanna og hefur siglingatíminn verið nýttur til útreiknings á skattafslætti sjómanna.

Lögskráningu sjómanna má rekja aftur til ársins 1889 í lögskráningarbálk farmannalaga. Þá framkvæmd sem þekkist í dag við lögskráningu má hins vegar rekja til laga um lögskráningu sjómanna er tóku gildi árið 1930, eins og áður sagði. Má eiginlega dást að hvílík framsýni þar hefur verið hvað þetta varðar. Efnislega hafa litlar breytingar orðið á lögunum síðan að því undanskildu að nú er við framkvæmd lögskráningar gerð krafa um að sjómenn hafi hlotið öryggisfræðslu frá Slysavarnaskóla sjómanna eða hjá öðrum viðurkenndum aðila.

Megintilgangur þessa frumvarps er að gera framkvæmd lögskráningarinnar einfaldari en áður og minnka skriffinnsku með rafrænni skráningu og er þá mjög eðlilegt að þetta frumvarp sé flutt frá ráðuneyti fjarskiptamála.

Lagt er til að skipstjórar og/eða útgerðarmenn beri ábyrgð á lögskráningunni sjálfir í gegnum lögskráningarkerfið og að þeir annist framkvæmd hennar. Fyrir þá skipstjóra eða útgerðarmenn sem ekki vilja nýta sér þann möguleika verður engu síður hægt að lögskrá með svipuðu fyrirkomulagi og áður. Í þeim tilvikum geta skipstjórar sent tilskilin gögn eða upplýsingar til stofnunar eða embættis sem eftir nánari ákvörðun samgönguráðherra sér um framkvæmdina í stað sýslumanna og tollstjóra áður.

Með notkun rafrænna skilríkja verður hægt að tryggja að upplýsingarnar stafi frá réttum aðila hverju sinni. Við framkvæmd lögskráningar verða upplýsingar frá skipstjóra eða útgerðarmanni bornar saman við upplýsingar í gagnagrunni hjá Siglingastofnun þannig að ganga megi úr skugga um að þær séu réttar, m.a. varðandi gildi skírteina, tryggingar og haffæri skips.

Í frumvarpinu er lögð til sú meginbreyting frá gildandi lögum að lögskráningin tekur nú til allra sjómanna sem starfa um borð í skipum sem skráningarskyld eru hér á landi. Í gildandi löggjöf nær skráningin til allra sjómanna sem ráðnir eru til starfa á skipum sem skráð eru hér á landi og eru 20 brúttótonn eða stærri. Fallið er frá stærðartakmörkunum enda ekki lengur taldar forsendur fyrir því að gera greinarmun á eftirliti með kröfum um tilskilin réttindi og tryggingar eftir stærð skipa.

Virðulegi forseti. Við framkvæmd lögskráningar verður ekki lengur gerð krafa um yfirlýsingu tryggingafélags og að líf- og slysatrygging sé í gildi. Þess í stað er samfara þessu frumvarpi gert ráð fyrir breytingu á lögum um eftirlit með skipum. Þar er lagt til að skip fái ekki haffærisskírteini nema í gildi sé lögboðin líf- og slysatrygging. Er sú leið farin þar sem haffærisskírteinið er á rafrænu formi og tengt gagnagrunninum um lögskráningu sjómanna. Með því að tengja yfirlýsinguna við útgáfu haffærisskírteinis þarf að ráðast í færri breytingar á lögskráningarkerfinu en ella.

Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir því að frumvarp þetta hafi í för með sér verulegar breytingar á lögskráningunni sem slíkri þar sem tilgangur hennar og markmið verða svipuð og áður.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri heldur legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.



[14:50]
Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Breytingin með þessu frumvarpi er aðallega sú að í staðinn fyrir 12 brúttólestir er nú farið í 20 brúttólestir. Það þýðir að nú eru fleiri lítil skip en áður sem ekki þurfa lögskráningu. Slysatíðni um borð í skipum og skipstapar eru miklu meiri og fleiri á litlum skipum en stórum. Það er það sem ég rek augun í við fyrstu sýn.

Það er auðvitað margt sem þarf að skoða, eins og hvaða reglugerðarþættir það eru eins og í 7. gr. frumvarpsins um reglugerðarheimild. Það þyrfti nánari útlistun og síðast en ekki síst undanþágurnar frá því að vera með lögskráningu sem hugsanlegt er að gera eins og stendur í frumvarpinu, á hafsögubátum, dráttarbátum, björgunarskipum, frístundafiskiskipum og farþegaskipum til skoðunarferða.

Það er mjög sérkennilegt. Ég get fallist á það hvað varðar björgunarskipin sem þarf að manna einn, tveir og þrír ef eitthvert óhapp verður og þau þurfa að komast á sjó hvort sem það eru skráð á þau eða ekki. Og kannski hafnsögubáta þar sem menn koma og fara úr vinnunni og er kannski ekki hægt að vera með þá alla skráða. Þó ætti það nú að vera hægt. En t.d. er engin ástæða að undanskilja dráttarbáta og frístundaskip lögskráningu. Oft eru það útlendingar sem leigja frístundaskip. Ég held að það væri mjög þarft að vera þar með skráningu og vita hverjir eru um borð á hverjum tíma. Sama á við farþegaskip (Forseti hringir.) í skoðunarferðum.



[14:52]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Mér heyrðist hann vera sáttur við það sem hér er verið að gera enda er verið að einfalda kerfið í takt við einfaldara Ísland og taka upp nútímaskráningu með rafrænum hætti.

En varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um 7. gr. um undanþágur vek ég sérstaka athygli á því að ráðherra er heimilt að veita undanþágu, honum er ekki skylt að verða við þessu. Það geta að sjálfsögðu verið sjónarmið eins og ég hef heyrt frá hv. þingmanni um að ekki sé ástæða til að hafa alla þá báta í lögskráningarkerfinu sem þarna eru taldir upp. Þess vegna er þetta inni sem heimildarákvæði.



[14:53]
Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er vert að spyrja vegna þess að nú eru komin ný skírteini fyrir skipstjórnarmenn, þ.e. svokölluð frístundaskírteini: Hver er munurinn á frístundaskírteini og svokölluðu 30 tonna pungaprófi sem verið hefur í gildi hér til margra ára? Það væri mjög fróðlegt að heyra þó að það snerti ekki kannski þetta frumvarp beint.

Það má líka forvitnast um ábyrgðina sem er skipstjórans að skrá á skipið en hann má fela útgerðarmanninum að gera það. En ef útgerðarmaðurinn gleymir að skrá á skipið eftir að skipið er farið á sjó er ábyrgðin eftir sem áður hjá skipstjóranum og hann fær dóm eða refsingu ef skráning er ekki rétt á skipinu. Það á auðvitað við í fleiri tilfellum varðandi skipstjórnarmenn eins og t.d. um kvótatilfærslu á skip og af skipum sem koma inn á ábyrgð skipstjórans. Skipstjórar vilja náttúrlega bera mikla ábyrgð.

En í þessu tilfelli er staðan sú að þeim er falið að gera það og þeir geta falið útgerðarmanni að lögskrá á skipið. Ef það bregst einhverra hluta vegna, útgerðarmaðurinn gleymir að skrá eða vanrækir það viljandi út af því að viðkomandi aðila vantar kannski réttindi eða eitthvað þess háttar, er skipstjórinn orðinn ábyrgur fyrir því þó svo að úgerðarmaðurinn hafi átt að sjá um það.

Það eru þessar reglugerðir sem eru alltaf stóra spurningin í svona tilfellum. Þess vegna spyr ég sérstaklega um skipstjórnarréttindi, þessi venjulegu, þessi svokölluðu 30 tonna pungapróf, og frístundaskírteinin.



[14:55]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við ræddum fyrr í vetur um frístundafiskibátana en ekkert er orðið klárt með þá af því það er ekki orðið að lögum. Málið liggur hjá samgöngunefnd og er í vinnslu þar. Ég trúi því að (Gripið fram í.) þau sjónarmið sem hv. þingmaður nefnir séu til umræðu þar.

Varðandi reglugerðarþættina er það eins og gengur og gerist í lagasetningu okkar um heimildir til að útfæra suma hluti nánar. Þeir eru hafðir þarna inni eins og áður.

Hvað varðar samspil skipstjóra og útgerðarmanns vil ég trúa því og treysta að það verði gott þannig að það sé ekki þannig að skráningunni sé vísað yfir og svo gleymi útgerðarmaður eða skipstjóri að skrá á skipið. Þetta er eitthvert útfærsluatriði sem skipstjóri og viðkomandi útgerðarmaður verða að koma sér saman um.



[14:56]
Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Hér er til umræðu frumvarp frá hæstv. samgönguráðherra um lögskráningu skipa og rétt á eftir mun hann mæla fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um eftirlit með skipum. Þessi mál hanga töluvert saman. Mig langar í stuttu máli gera grein fyrir afstöðu sjálfstæðismanna í samgöngunefnd gagnvart því frumvarpi sem hér liggur fyrir.

Ég get ekki farið í nákvæmar útlistanir á skipstjórnarréttindum eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson getur gert í sínum ræðum. Það nú reyndar svo að í samgöngunefnd situr einnig annar mjög reyndur skipstjórnarmaður, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson. Það hefur satt að segja reynst mjög gagnlegt í störfum nefndarinnar, sérstaklega þegar til umræðu eru mál er varða réttindi skipstjórnarmanna, að hafa svo reyndan skipstjórnarmann eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson í nefndinni. Ég held að ég tali fyrir munn margra nefndarmanna að við hlustum vel þegar hann lýsir skoðunum sínum á þeim réttindum sem þarna þarf að líta til.

Það sem er verið að leggja til er einföldun á kerfinu. Verið er að gera breytingu í átt að rafrænni skráningu sem ég tel vera mjög til bóta. Það er líka verið að gera breytingar á því hvar tryggingayfirlýsing liggur fyrir og færa hana frá lögum um lögskráningu sjómanna yfir til laga sem varða eftirlit með skipum. Mér finnst það vera réttmæt og eðlileg breyting.

Síðan er það sem varðar stærð þeirra skipa sem þarf að lögskrá. Það getur vel verið að sitt sýnist hverjum í því efni og ég á þá von á því að nefndin taki það til skoðunar.

Við sjálfstæðismenn munum greiða fyrir framgangi þessara frumvarpa og leggja okkar af mörkum í samgöngunefnd til þess að þessi mál fái þar góða afgreiðslu.



[14:58]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Það sem er að í þessu frumvarpi er breytingin úr 12 brúttótonnum í 20 brúttótonn. Það er að mínu mati stóri gallinn við frumvarpið og ef einhvers staðar er þörf að vera með skráningu liggur hún í því að við hefðum þurft að vera með hana á smærri bátunum þar sem slysatíðnin er mest, eins og ég kom hér inn á áðan. Maður spyr sig: Af hverju er verið að leggja áherslu á að vera með skráningarskyldu á stærri skipum en ekki á smærri? Það er hlutur sem er rétt að athuga.

Á dagróðrabátum eru miklar breytingar. Ef maður veikist einn dag á að afskrá hann og það á að afskrá þann sem leysir hann af hvort sem róðurinn er 20 eða 30 tímar. Það er í rauninni mikil vinna fyrir skipstjóra að halda utan um þetta og gleyma þessu ekki því að ef hann gleymir þessu og Landhelgisgæslan kemur um borð í viðkomandi skip þar sem er einn ólögskráður eða fleiri er það auðvitað hið versta mál og lögbrot.

Ég kom líka inn á það áðan að skipstjóra er heimilt að fela útgerðarmanni að annast lögskráninguna. Það er alveg rétt. En það er oft þannig að það fer á milli skips og bryggju þannig lagað séð, skilaboðin komast ekki til skila og annað í þeim dúr og þetta gleymist. Á mörgum skipum er búin að vera rafræn lögskráning til margra ára og menn hafa sent í tölvutæku formi til skráningarstjóra upplýsingar um áhöfn sem er að fara í veiðiferð, sérstaklega á skipum sem eru lengur úti en sólarhringinn. Þá er það oftast gert þannig, hvort sem það er á togurum eða loðnuskipum eða stórum línuskipum og öðrum í þeim flokki skipa sem eru ekki í þessum svokölluðu dagróðrum.

Reglugerðarþátturinn er þáttur sem er dálítið óþolandi við alla lagagerð hérna á þinginu. Það er eins og stendur í 7. gr. um reglugerðarheimildir. Síðan vita menn ekkert hverjar þær eru eða hvernig þær verða. Ráðherra er heimilt í reglugerð að veita undanþágu frá ákvæðum laga þessara um lögskráningarskyldu áhafna tiltekinna skipa, svo sem hafnsögubáta, dráttarbáta, björgunarskipa, frístundaskipa og farþegaskipa til skoðunarferða.

Eins og ég hef sagt get ég alveg tekið undir þetta hvað varðar björgunarskip en önnur skip sé ég ekki ástæðu til að tala um í þessum flokki og alls ekki farþegaskip til skoðunarferða eða frístundaskip þar sem eru að hluta til eða jafnvel eingöngu útlendingar um borð í. Ég hef gert athugasemd við hvernig staðið er að útgerð þeirra skipa og kröfur um réttindi fyrir þá menn sem taka frístundaskip á leigu til að stunda fiskveiðar.

Síðan eru það skilríki skipstjórnarmanna og vélstjórnarmanna um borð í skipunum og eftirlitsþátturinn hvað þau varðar. Ef menn eru ekki með skírteini fá þeir sektir. Sektarákvæðin og refsiákvæðin eru allt of há. Brot gegn lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema að þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Tilraun til brota og hlutdeild í brotum á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.

Hvaða vitleysa er það að gera það að stórglæp þegar menn gleyma að skrá menn í skipshöfn? Þar er allt of langt gengið í því að refsa mönnum. Ég tala nú ekki um eins og ég benti á áðan, að skipstjóra er heimilt að fela útgerðarmanni að annast lögskráningu. Svo gerist eitthvað, það ferst fyrir að lögskrá hvort sem það er gert í tölvuskeyti eða jafnvel bara á blaðsnifsi sem breytingarnar eru skráðar á. Það þarf að vera nafn og númer á viðkomandi manni, kennitala og heimilisfang og næstu aðstandendur. Svona hlutir ganga of langt að mínu mati.

Síðast en ekki síst er skipstjórinn ábyrgur í þessu tilfelli. Varðandi öryggismálaþáttinn er verið að tala um að hafa lögskráningu á skipum til þess að vita hverjir eru á viðkomandi skipi. Þess vegna er mjög athyglisvert að hækka markið úr 12 tonnum í 20 tonn þar sem ljóst er að flest skip sem lenda í einhverjum uppákomum eru smærri bátar. Maður hefði haldið að ef einhvers staðar ætti að vera lögbundin skráningarskylda væri það á þessum litlu bátum.

Það er það sem ég geri hvað mestar athugasemdir við í þessu frumvarpi. En ég vil benda á að rafræn lögskráning hefur átt sér stað til margra ára í íslenska fiskiskipaflotanum og líka á fraktskipum.



[15:06]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins vegna þess að mér finnst hafa komið fram smámisskilningur hjá hv. þingmanni. Eins og stendur í 2. gr. gilda lög þessi um áhafnir allra skráningarskyldra skipa á Íslandi sem gerð eru út í atvinnuskyni. Að tala um 12 brúttótonn eða 20 brúttótonn — í gildandi lögum eru 20 brúttótonn og stærri og við erum að færa það niður þannig að við erum að koma til móts við það sem hv. þingmaður gerði að aðalatriði í ræðu sinni.



[15:06]
Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Vel getur verið að um einhvern misskilning sé hér að ræða en í gildandi löggjöf nær skráningin til allra sjómanna sem ráðnir eru til starfa á skipum sem skráð eru hér á landi og eru 20 brúttótonn eða stærri. En áður átti þetta við 12 tonn og stærri. Þannig voru lögin. Ég þekki það sjálfur og hef verið á skipum alveg niður í 12 tonn og þar hefur skráning verið skylda, en á skipum undir 12 tonnum hefur ekkert þurft að skrá þannig að — (Samgrh.: Það er gert núna.) það er ekki gert með þessu, 20 brúttótonn eða stærri. Við erum þá ekki að lesa sama texta. (Samgrh.: Lestu 2. gr.) Ég er að lesa hér 4. gr. (Samgrh.: Hvað stendur í 2. gr.?) Í 2. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Lög þessi gilda um áhafnir allra skráningarskyldra skipa á Íslandi.“

Í athugasemdum við frumvarpið segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er lögð til sú meginbreyting frá gildandi lögum að lögskráningin tekur nú til allra sjómanna sem starfa um borð í skipum sem skráningarskyld eru hér á landi. Í gildandi löggjöf nær skráningin til allra sjómanna sem ráðnir eru til starfa á skipum sem skráð eru hér á landi og eru 20 brúttótonn eða stærri.“

Það er verið að breyta lögunum. Ég held að hæstv. ráðherra verði að gera sér það ljóst en hann virðist ekki vera nægilega vel inni í þessum málum til að átta sig á því út á hvað frumvarp hans gengur og betra væri að hann kynnti sér það betur og vissi um hvað hann væri að tala.



[15:08]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst nú frekar leiðinlegt að munnhöggvast við hv. þingmann um þetta og eins og hann las sjálfur upp úr 2. gr., með leyfi forseta:

„Lög þessi gilda um áhafnir allra skráningarskyldra skipa á Íslandi.“

Í flutningsræðu minni kom fram að þar eru m.a. smábátarnir teknir undir, eins og hv. þingmaður kallaði eftir í ræðu sinni. Verið er að ganga þessa göngu alla þannig að ég skil ekki um hvað hv. þingmaður er að tala og í gildandi lögum í dag er ekki talað um 12 brúttótonn, eins og hv. þingmaður talar um, heldur 20 brúttótonn.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til samgn.