136. löggjafarþing — 80. fundur
 12. feb. 2009.
aðild að ESB.

[10:52]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra en ætla ekki að blanda mér í pólitískt tilhugalíf hv. þm. Grétars Mars Jónssonar, fyrrverandi varaþingmanns Alþýðuflokksins, og hæstv. ráðherra. Það er þó eitt mál sem ég vildi spyrjast fyrir um sem tengist kannski þessum flokkum. Eins og menn þekkja hefur helsta baráttumál Samfylkingarinnar frá stofnun og fram til þessa verið aðild að Evrópusambandinu. Eins og menn þekkja hefur þetta verið mál sem hún hefur lagt afskaplega mikla áherslu á og það gekk meira að segja svo langt, virðulegi forseti, að formaður Samfylkingarinnar sagði eitthvað í þá veru að ef Sjálfstæðisflokkurinn í síðustu ríkisstjórn mundi ekki sveigja af leið og fara nær Samfylkingunni hvað þá hluti varðaði væri stjórnarsamstarfinu sjálfhætt. Þó svo að formaðurinn hafi nú dregið þau orð eitthvað til baka segir það kannski svolítið um þungann í málinu þegar kemur að Samfylkingunni og Evrópusambandinu.

Það var því athyglisvert þegar hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson lýsti því yfir í útvarpsviðtali að Samfylkingin hefði náð miklu lengra með þetta mál í samstarfi við Vinstri græna en Sjálfstæðisflokkinn og væri þar ólíku saman að jafna. Nú er ekki hægt að greina af verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar að þar hafi menn náð einhverjum árangri til að setja á blað hvað þetta varðaði. Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir þingheim að fá nánari útlistun hæstv. ráðherra á þessu þar sem þetta er ekki skjalfest og fá að vita um ætlanir þessara flokka, sem ætla að starfa saman áfram ef þeir fá umboð til, hvað varðar Evrópumálin og hverjir þessir stóru sigrar Samfylkingarinnar eru í þessu samstarfi á (Gripið fram í.) þeim vettvangi.



[10:54]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég las nú a.m.k. út úr orðum hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar engu minni ástarjátningu í minn garð og Samfylkingarinnar en frá Grétari Mar Jónssyni.

Ég veit að það er áhyggjuefni hjá hv. þingmanni hversu seint og illa gekk í samstarfinu með Sjálfstæðisflokknum varðandi Evrópumálin. Ég tók eftir því að í sjónvarpsþætti á dögunum, í kringum áramótin, virtist hv. þingmaður hafa skipt um skoðun og var skyndilega orðinn Evrópusinni. Nú finn ég það hins vegar á honum að hann er búinn að snúast aftur og þannig tekst Sjálfstæðisflokknum að fara hring eftir hring í Evrópumálunum.

Frá því er skemmst að segja að í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn komst enginn hænufet með Evrópumálin. Það voru uppi tvær, eftir atvikum þrjár, skoðanir og Sjálfstæðisflokkurinn logaði í illdeilum vegna Evrópumálsins. (Gripið fram í: Og gerir það enn.) Fyrrverandi dómsmálaráðherra lýsti því jafnvel yfir á heimasíðu sinni að hætta væri á því að Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði vegna málsins.

Núverandi stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar sem situr, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar með stuðningi Framsóknarflokksins, tekur svo á þessu máli með tvennum hætti. Í fyrsta lagi er því lýst yfir að það eigi að breyta stjórnarskrá á þessu þingi með þeim hætti að auðlindirnar verði sameign þjóðarinnar. Eins og hv. þingmaður veit er það forsenda þess að hægt sé að ganga í Evrópusambandið með fullri reisn.

Í öðru lagi er líka lögð fram tillaga um að sérstakur háttur verði hafður á við að breyta stjórnarskrá í framtíðinni þannig að atkvæðagreiðsla á Alþingi dugi, síðan komi alþingiskosningar og breytingin staðfest með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er að vísu þannig að þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi lýst fylgi við bæði þessi mál, m.a. staðið að gerð frumvarps um hið síðarnefnda, hefur hann líka hlaupist frá því. Alveg eins og með allt sem tengist Evrópu hefur hann enga fasta skoðun. (Forseti hringir.) Það var kannski fyrst og fremst það sem gerði það að verkum að vegna innri misklíðar er (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn ekki stjórntækur flokkur í dag. (Gripið fram í: Svaraðu nú …)



[10:57]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög skýrt og gott svar um stefnu núverandi flokka í Evrópumálum, (Gripið fram í.) ég heyri, og vona að ég fái kannski örlítið lengri tíma, að það er mikill taugatitringur meðal þingmanna Samfylkingarinnar þegar þetta ber á góma. Það er allt í lagi.

En höfum alveg á hreinu, virðulegi forseti, að ég hafna því algjörlega að hér sé eitthvað sambærilegt á ferðinni og pólitískt tilhugalíf hv. þm. Grétars Mars Jónssonar og hæstv. ráðherra. Það er ekki um neitt slíkt að ræða.

Hins vegar er ég enn þá, og ég er kannski einn um það, ekki alveg búinn að átta mig á því hverjir þessir stórsigrar Samfylkingarinnar eru varðandi Evrópumálin í þessu samstarfi. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Er enginn hér inni sem áttaði sig á því eftir svar hæstv. ráðherra? Ég varð ekki var við mikil viðbrögð.

En ég held að hæstv. ráðherra þurfi að útskýra þetta. Ég veit að það kom mörgum vinstri grænum mjög á óvart að það væri búið að taka þennan Evrópukúrs. Og ég hvet þá til að nota tækifærið og ræða ekki um Sjálfstæðisflokkinn, heldur svara því almennilega hvar þessir stóru (Forseti hringir.) sigrar liggja.



[10:58]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Varðandi sigrana sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið í Evrópumálum mætti kannski nota orð skáldsins sem sagði að sigrarnir ynnust allir á undanhaldinu. (Gripið fram í: … svara spurningunni?) Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið á stöðugri hringferð og undanhaldi í Evrópumálum.

Ég hef aldrei sagt að Samfylkingin hafi unnið neina stórsigra í Evrópumálunum. (Gripið fram í.) Það sem ég hef hins vegar sagt er að frá sjónarhóli Samfylkingarinnar náðist með stefnuyfirlýsingunni það sem ég vil kalla tvö hænufet, ekki meira, en það náðist ekkert hænufet (Gripið fram í.) með Sjálfstæðisflokknum. Það eina sem náðist fram þar var að settur var á laggir tvíhöfða þurs, svokölluð Evrópunefnd. Það var það eina sem Sjálfstæðisflokkurinn treysti sér til að gera.

Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn logar í illdeilum og fyrrverandi dómsmálaráðherra hefur sagt það tveimur sinnum opinberlega (Forseti hringir.) að það sé hætta á því að Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði vegna ágreinings um Evrópumálin. (Forseti hringir.) Það er þess vegna sem Sjálfstæðisflokkurinn er ekki stjórntækur. Hann kann hins vegar að (Forseti hringir.) verða það.

Herra forseti. Hann þarf virkilega að taka sig á til að verða það aftur.