136. löggjafarþing — 80. fundur
 12. feb. 2009.
tekjustofnar sveitarfélaga og gatnagerðargjald, 2. umræða.
stjfrv., 185. mál (lögveðsréttur fasteignaskatts og endurgreiðsla gatnagerðargjalds). — Þskj. 228, nál. 527.

[11:52]
Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, og lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, með síðari breytingum.

Samgöngunefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Hermann Sæmundsson og Hjördísi Stefánsdóttur frá samgönguráðuneyti.

Umsagnir bárust frá þó nokkrum aðilum en frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að breyta tvennum lögum er varða sveitarfélögin, annars vegar lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, þar sem lagt er til að lögveðsréttur fasteignaskatts vegna áranna 2009 og 2010 gildi í fjögur ár í stað tveggja, og hins vegar lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, þar sem lagt er til að frestur sveitarfélaga til þess að endurgreiða gatnagerðargjald verður lengdur úr 30 dögum í 90 daga.

Nefndin ræddi á fundum sínum tillögur þær sem kynntar eru í frumvarpi þessu og á fundi kom fram að tillögurnar byggjast á samkomulagi milli ríkisvaldsins og sambands sveitarfélaga sem miðar að því að skapa betri rekstrarlegar forsendur fyrir sveitarfélög til að mæta þeim tímabundnu erfiðleikum sem ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar nú um stundir.

Nefndin fjallaði um þær athugasemdir sem fram hafa komið og lúta að því til hvaða ára heimild um lengingu lögveðs vegna fasteignaskatts skuli ná. Hafa þar komið upp þau sjónarmið að láta heimildina einnig ná til áranna 2007 og 2008. Sú heimild sem kveðið er á um í frumvarpinu er tímabundin lausn til að koma til móts við gjaldendur í ljósi efnahagsástandsins sem leiddi af bankahruninu síðastliðið haust. Vanskil fyrir efnahagshrun eru til komin vegna annarra þátta og ættu því ekki að falla undir þessa heimild.

Loks fjallaði nefndin um þau sjónarmið sem upp hafa komið um hvort heimild sú sem getið er í 1. gr. frumvarpsins ætti að ná til allra fasteignagjalda en ekki eingöngu fasteignaskatts. Þeir þættir sem mynda fasteignagjöldin aðrir en fasteignaskatturinn, svo sem holræsagjald, vatnsgjald, o.fl. eru ólíkir í grunninn og er lagastoð þeirra að finna í mörgum lögum. Því þótti ekki ástæða til að fara í heildarendurskoðun á fasteigngjöldunum að svo stöddu en taka heldur fasteignaskattinn einan þar sem hann er langstærsti hluti gjaldstofnsins. Með hliðsjón af þeim markmiðum frumvarpsins að koma til móts við sveitarfélögin vegna efnahagsástandsins telur nefndin það hagsmunamál fyrir gjaldendur að breyting verði gerð vegna aukinna vanskila í kjölfar kreppunnar.

Nefndin gerir ekki athugasemdir við frumvarpið sem slíkt en vekur athygli á að fyrirvari sem lagður er til í 3. gr. frumvarpsins er orðinn nokkuð langur, á fundi nefndarinnar kom fram að hann á rætur að rekja aftur til ársins 1996.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Árni Johnsen var fjarverandi við afgreiðslu málsins en að öðru leyti skrifa allir nefndarmenn í hv. samgöngunefnd undir þetta nefndarálit.



[11:55]
Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég er einn þeirra nefndarmanna sem skrifa undir nefndarálit vegna þessa frumvarps og er samþykkur þeim breytingum sem hér er verið að fjalla um og skýrt kemur fram í nefndarálitinu út á hvað þær ganga.

Ég vil af þessu tilefni minna á að þetta frumvarp er hluti af þeim aðgerðum sem fyrrverandi ríkisstjórn stóð fyrir að yrðu lögfestar til þess að koma til móts við heimilin í landinu og þá fasteignaeigendur sem um er að tefla. Það er algerlega nauðsynlegt að skapa þau skilyrði sem breytingarnar fela í sér til að auðvelda sveitarfélögunum að koma til móts við þá sem ekki geta staðið í skilum með gjöld af eignum sínum.

Hins vegar kom fram í nefndinni að ef til vill væri og ég tel að í rauninni sé mjög mikilvægt og nauðsynlegt að efna til heildarendurskoðunar um þessa gjaldtöku, fasteignagjöldin almennt. Fasteignagjöldin eru ekki bara fasteignaskatturinn heldur lóðaleiga og sorphreinsunargjald og fleira en um þessi gjöld gilda mismunandi reglur þegar kemur að lögveðsheimildum.

Til að lengja ekki þessa umræðu vil ég hvetja til þess að horft verði til endurskoðunar hvað þessa löggjöf varðar og vísa þá til yfirlýsingar sem Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórnin undirrituðu 10. október sl. þar sem fjallað var um samstarf vegna stöðu efnahagsmálanna, samstarf milli ríkisins og milli sveitarfélaganna. Ég tel mjög mikilvægt að litið verði rækilega yfir alla löggjöf sem varðar tekjur sveitarfélaganna og þjónustu þeirra og sem varðar einstaklinga og félög sem eiga fasteignir, í þeim tilgangi að auðvelda sveitarfélögunum að rífa sig upp úr þeim erfiðleikum sem fylgja hruni bankakerfisins og varða atvinnulífið í landinu. Það kemur síðast en ekki síst niður á sveitarfélögunum þegar gjaldendur geta ekki staðið í skilum. Það er því af mörgu að taka en þetta frumvarp er mikilvægur þáttur í því að koma til móts við það ástand sem er.



[11:58]
Ármann Kr. Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa mælt og í ljósi efnahagsástandsins er nauðsynlegt að koma fram með það frumvarp sem hér um ræðir. Það er ljóst að efnahagshrunið kemur illilega niður á sveitarfélögunum en þó með öðrum hætti en hjá ríkinu. Tekjufallið verður í rauninni miklu minna þrátt fyrir allt. Hins vegar hafa mörg sveitarfélög farið mjög illa út úr hruninu, ekki bara vegna bankakreppunnar heldur vegna þess að tekjufallið hefur orðið talsvert. Þetta er í rauninni mjög erfið staða en þrátt fyrir allt hafa sveitarfélögin forgangskröfu í fasteignir þegar kemur að því að kröfur gjaldfalla, þá hafa sveitarfélögin forgangsrétt í kröfurnar. Engu að síður er nauðsynlegt að veita það svigrúm sem hér er veitt og þetta frumvarp kemur inn á og þess vegna held ég að allir hljóti að fagna því.

Ég held að þetta svigrúm geti í rauninni orðið til þess að miklu síður verði gengið að aðilum. Fólk fær meira svigrúm til að koma sínum málum fyrir vind sem er náttúrlega gríðarlega mikilvægt. Það er mjög slæmt þegar sveitarfélagið gengur fram í því að innheimta skuldir sínar mjög hart, kannski þegar bankakerfið er tilbúið til að veita svigrúm. Slíkt gæti orðið til þess að fasteignir færu á uppboð sem annars væri hægt að bjarga með því að gefa einstaklingum og fyrirtækjum lengri tíma til að afla fjármuna og rétta úr kútnum og komast fyrir vind.



[12:01]
Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Í sjálfu sér þarf ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta mál. Ég vil þó lýsa því yfir hér að ég er afskaplega ánægð með að það virðist ríkja þverpólitísk sátt um frumvarpið sem er afar mikilvægt því eins og hv. þm. Sturla Böðvarsson kom inn á er málið byggt á samkomulagi og samstarfi ríkis og sveitarfélaga, samkomulagi sem var undirritað síðastliðið haust. Ég held að við ættum að sameinast um það á Alþingi þessa daga fram að kosningum að sýna samstöðu um mikilvæg mál sem skipta fólkið í landinu máli, samstöðu um mál sem skipta sveitarfélögin í landinu máli og samstöðu um mál sem skipta fyrirtækin í landinu máli. Hv. þm. Sturla Böðvarsson dró einnig fram að þetta mál hefði verið unnið í tíð fyrri ríkisstjórnar og það er auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni. En í sjálfu sér finnst mér það ekki skipta neinu máli. Þetta góða mál er í höfn með samstarfi allra þeirra flokka sem sitja á Alþingi og ég vil nota tækifærið, frú forseti, undir þessum lið til að brýna okkur á þessum síðustu dögum til að vinna mál eins og hér er gert. Hv. þm. Ragnheiður Ólafsdóttir sagði í ádrepu sinni á þingheim í gær að það lítur auðvitað afar sérkennilega út þessa dagana þegar ástandið í efnahagsmálum er eins og það er að Alþingi Íslendinga skuli eyða tímanum sínum dag eftir dag í að ræða um formsatriði, í að deila um höfundarrétt, í að deila um það hverjir eiga að stýra fundum og svo framvegis. Ég tel að Alþingi Íslendinga setji niður við svona umræður. Ég tel að við öll í þessum sal eigum að hafa þroska og þor til að hefja okkur yfir þessa flokkadrætti. Við eigum að nota þann tíma sem fram undan er. Mér telst svo til í dag að 71 dagur sé til kosninga. Við eigum að hafa pólitískan þroska til að ræða hér málin af skynsemi og yfirvegun því að oftast er það þannig eins og í því máli sem hér er til umræðu að menn eru sammála.

Ég vildi bara nefna þetta hér, frú forseti, í tengslum við þetta þó að það sé svolítill útúrdúr. En þetta frumvarp skiptir sveitarfélögin máli og það skiptir líka máli að hér sé samstaða og menn ræði saman af skynsemi og yfirvegun, afgreiði svona mál fljótt og vel frá þinginu því að fullt af sams konar málum bíða í þingnefndum, fullt af svona málum koma á næstunni frá hæstv. ríkisstjórn og Alþingi þarf að afgreiða þau fljótt og vel.



[12:05]
Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur um að nauðsynlegt sé að sýna samstöðu í góðum málum og þetta er eitt af þeim góðu málum sem fram hafa komið.

Ég get líka tekið undir það að ekki sé skynsamlegt að eyða of miklum tíma í smámál og formsatriði. Í góðum málum og almennt bara eigum við að hefja okkur yfir flokkadrætti. Ég get líka verið sammála um þetta. Ég er sammála þessu öllu saman. Ég held að við hljótum öll á þinginu að vera sammála um þetta. Þess vegna er mér algerlega óskiljanlegt af hverju í ósköpunum verið er að gera góð mál að fáránlegum málum. Til dæmis þegar búið er að koma bankakerfinu fyrir vind, þegar búið er að fá margt gott fólki til að vinna góð störf og allir flokkarnir stóðu að því, af hverju kemur þá ekki forsætisráðherra hér og segir: „Ég bakka upp þetta fólk. Ég er mjög sátt við þetta fólk. Ég vil eindregið leggja það til að þetta ágæta fólk fái frið til að vinna sína vinnu“? Það hefði verið skynsamlegt.

Stærsta málið sem við stöndum frammi fyrir núna er endurreisn bankakerfisins. Við erum öll sammála um það. Af hverju þá að vera að skipta um hesta í miðri á? Af hverju er verið að taka út fólk og lýsa vantrausti á fólk sem búið er að koma sér inn í málin? Þarna hefðum við öll getað verið sammála um stærsta málið. En þá kemur stjórnin og hleypir þessu í loft upp. Þetta skil ég ekki.