136. löggjafarþing — 81. fundur
 16. feb. 2009.
íslenskt viðskiptaumhverfi.

[15:11]
Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegur forseti. Árið 2004 skipaði þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, nefnd sem hafði það hlutverk að fjalla um íslenskt viðskiptaumhverfi. Sú nefnd starfaði undir formennsku núverandi hæstv. viðskiptaráðherra og hafði m.a. það hlutverk að koma með tillögur að lagabreytingum, m.a. með hliðsjón af hneykslismálum sem höfðu komið upp erlendis. Ítarlega var fjallað um löggjöf sem fellur undir félagarétt ekki hvað síst er varðar stjórnir og stjórnendur fyrirtækja.

Ein af tillögum meiri hluta nefndarinnar var að koma í veg fyrir að stjórnarformenn fyrirtækja væru jafnframt forstjórar eða framkvæmdastjórar á þeim forsendum að það er m.a. hlutverk stjórnar að hafa eftirlit með stjórnendum og því hefðu starfandi stjórnarformenn þar með eftirlit með sjálfum sér. Í því samhengi var vísað til fordæma í dönskum rétti og í gagnrýni á þetta fyrirkomulag sem tíðkast að einhverju leyti í Bandaríkjunum.

Þegar skýrsla nefndarinnar kom út og tillögur hennar voru kynntar er óhætt að segja að miklar mótbárur hafi komið fram um ýmislegt í skýrslunni, m.a. frá samtökum iðnaðarins og samtökum atvinnulífsins, sérstaklega hvað varðar tillöguna um að bann verði lagt við því fyrirkomulagi að stjórnarformenn gegni samhliða stöðu forstjóra eða framkvæmdastjóra. Einn nefndarmaður skilaði séráliti og taldi að reynsla af þessu fyrirkomulagi hefði verið góð og félag sem hafi þessa leið hafi náð eftirtektarverðum árangri, ekki síst í sókn sinni á erlenda markaði. Aðrir hafa hins vegar bent á að reynsla af þessu fyrirkomulagi hérlendis sé slæm, sérstaklega undanfarin missiri og það sé í besta falli ógagnsætt en jafnframt geti það gefið tækifæri til að hygla stærstu hluthöfum á kostnað þeirra minni og jafnvel séu skýrar vísbendingar um það.

Ég vil fyrst biðja hæstv. viðskiptaráðherra um álit hans á því hvort hann sé sammála því að núverandi fyrirkomulag um að starfandi stjórnarformenn hafi getað haft neikvæðar afleiðingar fyrir íslenskt viðskiptalíf á undanförnum árum og ef svo er hvort ráðherra muni beita sér fyrir breytingum hvað það varðar á hans stutta tíma í viðskiptaráðuneytinu.



[15:14]
viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Þessari fyrirspurn er í raun auðsvarað því að ég er sammála hv. þingmanni Helgu Sigrúnu Harðardóttur, bæði um forsöguna sem hún lýsti ágætlega og um nauðsyn þess að þessu verði breytt, þ.e. að tekið verði á því í hlutafélagalögunum að við getum ekki haft stjórnarformenn sem í reynd eru framkvæmdastjórar viðkomandi fyrirtækja jafnvel þótt annar maður beri formlega séð heiti framkvæmdastjóra.

Eins og hv. þingmaður nefndi mætti þetta verulegri andstöðu á sínum tíma, m.a. hjá þeim sem bentu á að mörg íslensk fyrirtæki þá voru með starfandi stjórnarformenn og töldu að það hefði gefist vel. Nú held ég að óhætt sé að fullyrða, því miður, að reynslan sýnir að þetta fyrirkomulag gafst ekki vel. Mörg þessara fyrirtækja eru nú í verulegum kröggum eða jafnvel orðin gjaldþrota. Á því eru auðvitað margar skýringar og ekki eingöngu þetta skipulag en ég held að sú niðurstaða hversu illa þessi rekstur gekk þegar upp var staðið renni stoðum undir að æskilegra sé að hafa skýrari skil á milli stjórna fyrirtækja sem hafa þá eftirlitshlutverk, auk þess að hafa stefnumótunarhlutverk og síðan framkvæmdastjórna fyrirtækja, eins og reyndar var hugmyndin með því að sett voru í lög ákvæði, sem er enn þá, um að ekki megi kjósa framkvæmdastjóra sem stjórnarformann. Ráðuneytið mun beita sér fyrir því að þessu verði breytt en væntanlega samhliða öðrum breytingum á hlutafélagalögum sem ástæða virðist til að koma í gegn í ljósi reynslu undanfarinna missira af framkvæmd laganna.



[15:16]
Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir svarið. Það gaf mér skýrt til kynna að þetta fyrirkomulag hefur ekki gefist vel í viðskiptalífinu.

Ég vil minna hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á að þetta fyrirkomulag er það fyrirkomulag sem við höfum hér í þinginu líka. Þingið á að hafa eftirlit með ráðherrum sínum sem jafnframt eru hluti af þinginu þannig að ráðherrar eiga sjálfsagt að hafa eftirlit með sjálfum sér. Í því samhengi vil ég minna á mikilvægi frumvarps okkar framsóknarmanna um stjórnlagaþing sem hefur m.a. það hlutverk að endurskoða þrískiptingu ríkisvaldsins, tryggja jafnræði, auka gagnsæi o.s.frv.