136. löggjafarþing — 81. fundur
 16. feb. 2009.
um fundarstjórn.

ummæli ráðherra og beiðnir um utandagskrárumræður.

[15:38]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé nokkuð ljóst miðað við það svar sem hæstv. heilbrigðisráðherra gaf hér við fyrirspurn að full ástæða er til að hann fari að verða við þeim beiðnum um utandagskrárumræðu sem legið hafa fyrir um langa hríð í þinginu og hæstv. ráðherra hefur ekki treyst sér til að verða við. Annars vegar beiðni frá hv. þm. Eygló Harðardóttur, um heilbrigðisþjónustu, sem hefur legið hér fyrir síðan 20. janúar, og hins vegar frá hv. þm. Ástu Möller, um ráðstafanir heilbrigðisráðherra til að ná markmiðum fjárlaga 2009 um lækkun útgjalda í heilbrigðisþjónustunni.

Einhverra hluta vegna hefur hæstv. heilbrigðisráðherra ekki treyst sér til að verða við þessum beiðnum og ég hlýt að spyrja hæstv. forseta hvort hann fari ekki að óska eftir því við heilbrigðisráðherra að hann verði við skyldum sínum sem ráðherra og ræði þessi mál í þinginu. Mér (Forseti hringir.) heyrist vera full þörf á því eftir þau svör sem hér hafa verið gefin.



[15:40]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að það er nokkuð sérstakt að hlusta á hæstv. ráðherra ráðast á mig hér úti í sal. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að segja sannleikann um þetta mál. Það liggur fyrir að sú reglugerð sem hann var að kynna og aðgerðir er nokkuð sem hafði verið í undirbúningi í ráðuneytinu mjög lengi, eins og færsla úr dýrari lyfjum í ódýrari og varðandi börn 18 og yngri. Sömuleiðis kom lækkun á smásöluálagningu frá 1. janúar og 1. febrúar á heildsöluálagningu sem hæstv. ráðherra var að skreyta sig með að væri eitthvað sem hann væri búinn að gera. Fleira mætti nefna.

Hæstv. ráðherra fór hamförum yfir því í þinginu fyrir nokkrum vikum hvernig ríkisstjórnin gengi fram í niðurskurði varðandi sjúklingaskatta og annað slíkt. Af hverju í ósköpunum heldur hann því áfram, þegar hann er orðinn ráðherra, (Forseti hringir.) sem hann barðist svo svakalega gegn?



[15:41]
heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek því fagnandi að taka umræðu um heilbrigðismálin og hæstv. forseti hefur beint því til mín að við tökum slíka umræðu. Ég gef skýrslu í þinginu næstkomandi fimmtudag og það er mér ánægjuefni að gera það. Þar mun ég m.a. koma inn á þessi mál, t.d. þá reglugerð sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson undirritaði á síðasta starfsdegi sínum og var frábrugðin þeirri sem ég undirritaði núna í síðustu viku. Við skulum bara fara mjög rækilega yfir það og yfir vinnubrögðin líka, yfir þær beisku pillur sem hv. þingmaður ætlaði mér að framfylgja og síðan hvað var á prjónunum hjá honum.

Ég mun þá líka spyrjast fyrir um hvað hafi valdið þeirri ákvarðanafælni sem hlýtur að hafa verið til staðar í ráðuneytinu af hálfu hæstv. fyrrverandi ráðherra. Hvernig stóð á því að ekki var gengið frá reglugerð í byrjun árs í stað þess að láta einn sjötta hluta ársins líða? Hvers vegna var ekki tekin ákvörðun? (Gripið fram í.) Reglugerðin sem samþykkt var gerir ráð fyrir sparnaði (Forseti hringir.) fyrir Tryggingastofnun upp á 650 millj. kr. en sú reglugerð sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) hafði undirritað er með mun lægri upphæð, um 100 millj. kr. Þetta eru staðreyndir málsins.



[15:42]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti gaf leyfi til að hefja umræðu um fundarstjórn forseta. Ég vil biðja menn um að halda sig við þá umræðu. Það hefur komið fram að hér mun verða flutt skýrsla um heilbrigðismál síðar í vikunni og gefst þá tækifæri til að ræða þessi mál mun ítarlegar.



[15:42]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég mun halda mig við umræðu um fundarstjórn forseta. Af því að fram kom hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur athugasemd við að ekki hefði farið fram utandagskrárumræða um heilbrigðismál þá er rétt að Eygló Harðardóttir bað um það fyrir nokkru síðan. Ég veit að hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur reynt að finna tíma með hæstv. heilbrigðisráðherra og mér skilst að flytja eigi skýrslu um heilbrigðismál á fimmtudaginn og ég fagna því. En í þessu sambandi vil ég benda á, af því að hér er verið að finna að fundarstjórn forseta, að ég er mjög ánægð með að á morgun skuli komast á dagskrá utandagskrárumræða sem sú er hér stendur bað um og hefur beðið miklu, miklu lengur en beiðni Sjálfstæðisflokksins um umræðu um heilbrigðismál. Það er verið að reyna að fara eftir einhverri röð í þinginu og loksins kemst umræðan um hryðjuverkalöggjöfina á dagskrá á morgun.



[15:44]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Bara í tilefni af þessari umræðu þá er loksins búið að fá þessi svör frá hæstv. heilbrigðisráðherra. Það hefur gengið mjög illa að fá þau svör en það gerðist loksins hér, að hann er tilbúinn til að ræða heilbrigðismál á Alþingi. Við hljótum að fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli sjá ástæðu til þess eftir langan tíma að ræða við þingið um stefnumál sín sem hann hefur birt með einhverjum hætti í fréttatilkynningum en hefur ekki treyst sér til að ræða innan þings.