136. löggjafarþing — 82. fundur
 17. feb. 2009.
um fundarstjórn.

umræða um frumvörp um eftirlaun.

[14:11]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í byrjun fundar greiddum við atkvæði um afbrigði fyrir þriðja mál á dagskrá sem er frumvarp frá ríkisstjórn Íslands, 313. mál, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra og alþingismanna og hæstaréttardómara. Því miður láðist mér þá, herra forseti, að geta þess að ég er með þingmál, nr. 308, með lægra númer sem var ekki dreift fyrr en nú í byrjun fundar.

Ég vildi gjarnan að þessi mál yrðu rædd saman. Þau eru algjörlega sambærileg og ættu að ræðast saman. Ég vil því beina því til hæstv. forseta hvort hann geti fundið einhverja leið, t.d. með því að boða nýjan fund, til þess að hægt verði að ræða bæði málin saman og þetta er beiðni mín til hans.



[14:12]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Sem svar við þessu vill forseti segja að það er ekki venja að taka inn ný mál eftir að búið er að leita afbrigða varðandi dagskrá og því mun þetta mál koma á dagskrá síðar. Ég vil þó segja að það var einmitt ætlun mín á sínum tíma að reyna að leiða mál saman inn í þingið og það verður reynt að gæta þess að málið fái umfjöllun í nefnd samhliða hinu málinu eða að minnsta kosti þá liggur málið frammi og fær þá væntanlega umfjöllun. Ég mun reyna að hlutast til um að málið komi inn í nefnd jafnframt þó að það náist ekki á dagskrá í dag.



[14:13]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Af reynslu minni þá hef ég oft orðið var við að fundi hefur verið slitið, mál tekin út af dagskrá og fundur boðaður í kjölfarið strax, einmitt til þess að leysa svona vandamál.

Ég vil því fara fram á það við hæstv. forseta að hann geri það í þetta skiptið. Þetta eru tvö mál en vegna anna í nefndasviði Alþingis þá var mínu máli ekki dreift fyrr en núna rétt fyrir byrjun fundar. Ég hefði átt að geta þess í byrjun fundar að fara fram á að það yrði tekið á dagskrá en því miður láðist mér það en þetta mætti sem sagt leysa með því að boða til nýs fundar.



[14:14]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil bara árétta það sem kom fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals að það er möguleiki fyrir forseta að leysa málið með þeim hætti sem hann nefnir, þ.e. að fundi verði slitið núna og boðað til nýs fundar þannig að hægt verði að taka málið á dagskrá og ræða þessi tvö mál saman.



[14:14]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti hefur greint frá því að hann muni ekki taka þetta mál á dagskrá í dag eða óska eftir því að fundi verði slitið, nýr settur og leitað afbrigða varðandi þetta mál. Ég tel ekkert tilefni til þess en hef komið með yfirlýsingu um að ég mun greiða fyrir því að það komist inn í nefnd engu að síður samhliða hinu málinu.



[14:15]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hlýt að benda á að þetta er þvert gegn því sem hæstv. forseti hefur boðað fram að þessu um það hvernig hann vilji að þingstörfin gangi fram. Hann er með þessu móti að ganga gegn eigin stefnumörkun í því hvernig hann hefur viljað haga þinghaldinu. Ég vil bara árétta að þetta er mjög vel fær möguleiki eins og fram hefur komið.



[14:15]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í þeim önnum sem við stöndum frammi fyrir bendi ég á að í gegnum tíðina hefur það iðulega verið gert að boða til nýs fundar til að taka málin aftur fyrir. Ef það verður ekki gert núna og ef það verður gert seinna á kjörtímabilinu sem eftir lifir þings, þá mun ég gera alvarlega athugasemd við það. Ég vil ekki að þingmönnum sé mismunað bara af því að þeir eru almennir þingmenn en ekki ráðherrar.



[14:16]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Að gefnu tilefni vill forseti taka fram að það er rétt hjá hv. þm Arnbjörgu Sveinsdóttur að ég hafi talað um að taka tvö mál samhliða. Það var brotið að ósk Sjálfstæðisflokksins með því að krefjast þess að ég tæki inn greiðsluaðlögunarmálið á undan og biði ekki eftir stjórnarfrumvarpi sem ég var búinn að boða. Ég ætla að leyfa mér að taka það hlutverk alvarlega að stjórna þinginu en eltast ekki við óskir einstakra þingmanna eða flokka beint úr fundarsal en ég óska eftir góðu samstarfi við undirbúning funda áfram sem hingað til. Við munum svo ræða í framhaldinu við þingflokksformenn um forgangsmálin sem óskað er eftir að tekin verði til afgreiðslu. Fjölmörg þingmál bíða sem þingmenn hafa óskað eftir að koma á dagskrá og ég hef óskað eftir því við þingflokksformenn og þá sem sitja í forsætisnefnd að fulltrúar flokkanna forgangsraði málum til mín og þetta er ekki eitt af þeim málum.