136. löggjafarþing — 82. fundur
 17. feb. 2009.
umræður utan dagskrár.

ástæða Breta fyrir að beita hryðjuverkalögum á Ísland.

[14:18]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil gjarnan inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig þetta mál stendur en aðdragandinn er sá að þann 8. október síðastliðinn ákváðu Bretar að kyrrsetja eigur Landsbankans og beittu svokölluðum hryðjuverkalögum. Aðdragandinn var nokkuð sérstakur og það komu geysilega misvísandi skilaboð frá ráðamönnum þjóðarinnar. Þar vil ég nefna sérstaklega fyrrverandi ráðherra, hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, Árna M. Mathiesen og Geir H. Haarde. Þessir hv. þingmenn sem voru þá ráðherrar áttu bæði símtöl og fundi með ráðamönnum í Bretlandi og létu hafa ýmislegt eftir sér á opinberum vettvangi sem varð til þess að Bretar ákváðu að beita þessum hryðjuverkalögum. Það er skýring Bretanna.

Það kom fram í neðri deild breska þingsins, og ég vil vitna beint í þetta, virðulegi forseti, hjá Ian Pearson, aðstoðarráðherra efnahagsmála í breska fjármálaráðuneytinu. Hann sagði í þinginu, með leyfi forseta:

„Ýmsar yfirlýsingar voru gefnar af forsætisráðherra Íslands um að íslenskir innstæðueigendur yrðu verndaðir sem merkir að réttindi breskra kröfuhafa hefðu getað raskast í samanburði við réttindi annarra. Þrátt fyrir endurteknar tilraunir til að leita fullvissu gat ríkisstjórn Bretlands ekki fengið skýringar frá Íslandi um stöðu breskra kröfuhafa við upplausn Landsbankans. Í ljósi þessarar stöðu var fyrirskipun um kyrrsetningu eigna Landsbankans 2008 gefin út 8. október.“

Það er því alveg ljóst að að einhverju leyti komum við okkur sjálf í þessi vandræði.

Það kom líka fram á opinberum vettvangi, virðulegi forseti, hjá seðlabankastjóra á morgunfundi Viðskiptaráðs 18. nóvember að seðlabankastjóri býr yfir upplýsingum og ég ætla að vitna í ræðu seðlabankastjóra, með leyfi forseta:

„Ég hef engar áhyggjur af þessu vegna þess að þegar málin verða rannsökuð hljóta fleiri samtöl að verða birt. Mér er kunnugt um efni þeirra og mér er kunnugt um hvað í raun réði afstöðu breskra stjórnvalda.“

Af þessum sökum og miðað við hvernig málið er vaxið tel ég að við verðum að fá upplýsingar í þinginu um hvernig málið stendur í dag. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvert er mat hans á því, af hverju beittu Bretar okkur hryðjuverkalögum? Urðu þessi misvísandi skilaboð ráðamanna okkar til þess? Er einhverjum upplýsingum haldið frá opinberri umræðu á vegum stjórnvalda eða opinberra stofnana vegna þessa máls? Og þar vil ég sérstaklega tilgreina orð seðlabankastjóra. Af hverju er ekki búið að aflétta hryðjuverkalögunum, þ.e. þessari frystingu? Íslensk stjórnvöld báðu um það sérstaklega með bréfi og þetta er hægt að lesa í tilkynningu frá íslenskum stjórnvöldum 6. janúar. Er hægt að fara fram á það við Breta að þeir taki ábyrgð á Icesave-skuldbindingunum í ljósi þess að þeir beittu okkur þessum hryðjuverkalögum? Eiríkur Bergmann hélt þessu fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 í fyrrakvöld. Og hvernig gengur yfirleitt að semja um þessar Icesave-skuldir? Hvernig er staðan á þeim viðræðum?

Ég veit að hæstv. ráðherra hlýtur að þekkja það vel af því að viðræðurnar við Breta fara fram á vegum utanríkisráðuneytisins. Einnig vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því í ljósi þess sem hv. þm. Geir H. Haarde sagði í viðtali hjá BBC í þættinum „Hardtalk“ aðspurður um hvort hann hefði talað við Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, eftir að Bretarnir beittu okkur hryðjuverkalögum, en þá sagði hv. þm. Geir H. Haarde: „Ég hefði kannski átt að gera það.“ Er hæstv. utanríkisráðherra kunnugt um hvort núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hafi átt samtöl við breska ráðamenn og þá við forsætisráðherra Breta, Gordon Brown, í ljósi alvarleika þessa máls? Getur hæstv. ráðherra upplýst þingið og þjóðina um stöðuna á hryðjuverkalögunum, af hverju er ekki búið að aflétta frystingunni? Hvernig standa samningarnir vegna Icesave? Getum við tengt þessi mál saman í ljósi þess að Bretar fóru fram af mikilli hörku? Og því hefur verið mótmælt hér af talsverðum myndarskap, m.a. af hæstv. utanríkisráðherra. Er hægt að fara fram á það við Bretana að þeir taki meira á sig af Icesave-skuldbindingunum? Af því að eins og ég skil málið samþykkti síðasta ríkisstjórn, bæði sjálfstæðismenn og samfylkingarmenn að borga þessar skuldbindingar. Er hægt að koma sér einhvern veginn undan því, hæstv. ráðherra?



[14:23]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp. Það var mikið spurningaflóð sem dembt var yfir hæstv. vesalings utanríkisráðherra og ég mun reyna að svara þeim öllum. Ég vil samt segja eins og ég hef margoft sagt áður að ekki er hægt að finna nokkurt hjá íslenskum ráðamönnum, þ.e. fyrri ríkisstjórn eða núverandi ríkisstjórn, sem gefur nokkurt tilefni til þessarar framkomu bresku ríkisstjórnarinnar. Það er ekkert sem réttlætir það eða afsakar það að þeir hafi með þessum hætti beitt hermdarverkalögunum gegn fornri vinaþjóð. Og ég verð að segja að mér finnst sem hið sögulega minni Breta hafi ekki verið sterkt þegar þeir gerðu það. Við erum gömul vinaþjóð sem á sínum tíma opnuðum okkar land fyrir þeim á stund þeirra stærstu neyðar, þ.e. í baráttunni um Bretland árið 1940. Það var líka kynslóð afa okkar hv. þingmanns sem á sínum tíma hætti lífi sínu til að færa þeim mat þegar þá skorti fisk. Það er rétt að það komi hér fram að Íslendingar misstu að tiltölu í seinni heimsstyrjöldinni jafnmarga og Bandaríkjamenn í stríðinu. Þetta finnst mér þurfa að koma fram vegna þess að þeir hafa farið með svo óafsakanlegum og óverjandi hætti gagnvart okkur.

Hv. þingmaður spyr hvort það hafi verið misvísandi skilaboð frá íslenskum ráðamönnum sem kunni að hafa leitt til þeirrar staðreyndar að þeir beittu hermdarverkalögunum gegn okkur. Ég tel að svo sé ekki. Ég tel ekki að það hafi verið neinar yfirlýsingar af hálfu íslenskra ráðherra sem leiddu til þessa. Og ég tel ekki að það hafi verið misvísandi yfirlýsingar millum íslenskra ráðherra á þeim tíma.

Ég vísa til þess að fyrrverandi fjármálaráðherra Árni Mathiesen átti vel þekkt samtal við Alistair Darling á sínum tíma. Það samtal hefur verið birt og í því samtali kemur ekkert fram sem gefur tilefni til þess sem Alistair Darling sagði í frægu viðtali að morgni 8. október þegar hann sagði að íslenska ríkisstjórnin hefði sagt bresku ríkisstjórninni að hún hygðist ekki standa við skuldbindingar sínar. Þvert á móti kom það ítrekað fram í samtali þáverandi fjármálaráðherra að hann vísaði til bréfs frá 5. október þar sem íslenska ríkisstjórnin sagði það alveg svart á hvítu að hún mundi standa við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem hún hefði veitt. Á þessum tíma var því ekkert sem gaf tilefni til þessa.

Hins vegar er rétt að rifja það upp að annar íslenskur ráðamaður sem ekki situr í ríkisstjórninni, þ.e. seðlabankastjóri, var líka í margfrægu viðtali við sjónvarpsþáttinn Kastljós kvöldið áður þar sem hann í reynd sagði að Ísland hygðist skipta um kennitölu og ekki standa við skuldbindingar sínar. Það er hugsanlegt að hér sé um að ræða þá misvísun sem hv. þingmaður vísar til. Sömuleiðis, þegar hv. þingmaður spyr um það hvort íslensk stjórnvöld sitji á upplýsingum eða hafi ekki látið allar upplýsingar koma fram, þá segi ég það að eftir því sem ég veit best er engar slíkar upplýsingar að finna í neinu ráðuneytanna. Hins vegar er það svo, eins og hv. þingmaður sagði áðan, að seðlabankastjóri flutti líka ræðu á þingi Viðskiptaráðs 18. október þar sem hann sagðist búa yfir upplýsingum úr samtölum sem hefðu átt sér stað sem mundu skýra málið. Þetta tel ég að hafi verið ákaflega gáleysisleg ummæli og þau hafi verið til þess fallin að skaða verulega málstað Íslendinga t.d. varðandi málsóknir.

Ég vek líka eftirtekt hv. þingmanns á því að í Financial Times á sínum tíma voru þessi ummæli seðlabankastjóra túlkuð með nákvæmlega sama hætti og ég er að túlka, þ.e. í Financial Times voru þessi ummæli lögð út með þeim hætti að í þeim fælist viðurkenning og eins og þeir sögðu, fyrsta viðurkenningin á því af hálfu íslensks stjórnvalds að Íslendingar bæru með einhverjum hætti ábyrgð á þessu.

Á ríkisstjórnarfundi í morgun var Icesave-málið rætt og meðal annars framvinda þess og á næstu dögum verður kynnt formleg samninganefnd Icesave-málsins af okkar hálfu og hver mun leiða hana, vonandi fyrir vikulokin. Það hafa ekki farið fram miklar viðræður í þessu máli síðustu vikur, hvorki af hálfu síðustu ríkisstjórnar á þessu ári né heldur þeirrar sem núna situr. Við í núverandi ríkisstjórn hyggjumst hins vegar gera gangskör að því að ná þessu máli saman með þeim hætti sem viðunandi er

Hv. þingmaður spyr mig jafnframt um það hvort mér sé kunnugt um það að núverandi forsætisráðherra hafi átt samtöl við breska forsætisráðherrann. Ég held að svo sé ekki, mér er ekki kunnugt um það. Við íslenskir ráðherrar höfum hins vegar á síðustu vikum átt viðræður við sendiherra þessara þjóða og lagt drög að viðræðum um þetta mál.



[14:28]
Geir H. Haarde (S):

Herra forseti. Vissulega var aðgerð Breta, að beita Íslendinga hryðjuverkalöggjöf, fullkomlega ófyrirgefanleg eins og ég reyndar sagði í því BBC-viðtali sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til. Það á ekki að leita sökudólga á Íslandi í því máli eins og mér heyrðist tilhneiging til í máli hv. málshefjanda. En hún gat þess að fram hefði komið í breska þinginu að fólk vildi kenna því um í Bretlandi að Íslendingar og sérstaklega þáverandi forsætisráðherra sem hér stendur hefði lýst því yfir og öll ríkisstjórnin að við mundum tryggja allar innstæður í bönkunum á Íslandi. Ég vissi ekki betur en um slíka yfirlýsingu hefði verið alger samstaða á Alþingi og hún var auðvitað lykilatriði til að koma í veg fyrir það að íslenska innlenda bankakerfið mundi hrynja. Það var algert lykilatriði að lýsa því yfir. Og ef menn halda að það hafi haft einhver áhrif á stöðu erlendu kröfuhafanna í Landsbankanum eða hinum bönkunum þá er það bara misskilningur og enn meiri misskilningur ef menn hafa nýtt það sem ástæðu fyrir því að grípa til þessarar löggjafar. Þetta er alger fjarstæða. Menn verða að setja sig inn í stöðu mála á Íslandi á þessum tíma til að skilja hversu mikilvægar þær yfirlýsingar okkar voru að við mundum verja innstæður í íslenskum bönkum og jafnvel þó að það væru prófessorar uppi í háskóla sem stóðu þar og æptu hástöfum: Bankarnir eru að hrynja, bankarnir eru að hrynja. Með þeim afleiðingum að fólk rauk í bankana til að taka þar út peninga. Þetta verður allt saman rannsakað og þetta mun allt saman koma í ljós.

Varðandi samtöl mín við forsætisráðherra Bretlands þá er auðvitað því til að svara að ég gerði tilraun til að ná í hann 9. október en talaði í staðinn við fjármálaráðherrann. Ég hafði talað við hann 5. október fyrir hrunið en reyndi auðvitað að ná í hann daginn eftir að hrunið varð en úr því gat ekki orðið og því orðaði ég það þannig sem ég gerði í þessu viðtali. Ég hefði kannski átt að fylgja því eitthvað meira eftir en ég taldi nægilegt að tala um þetta við fjármálaráðherrann úr því sem komið var.



[14:31]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar er ekki í fyrsta skiptið á dagskrá Alþingis í vetur. Það er stórt í sniðum og varðar íslensku þjóðina miklu. Það má segja að að mörgu leyti hafi lítið hreyfst eða þokast í þessu máli undanfarna tvo mánuði og ég ætla að leyfa mér að gagnrýna forustu fráfarandi ríkisstjórnar fyrir það hvernig á þessu máli var haldið.

Hér hefur m.a. verið vakið máls á því að hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra hafi aldrei rætt við breskan starfsbróður sinn eftir að hryðjuverkalögunum var beitt og það var m.a. staðfest í viðtali við hv. þm. Geir H. Haarde í breska sjónvarpinu nýverið. Þar sagði hann jafnframt að hann hefði ef til vill átt að gera það og ég tel að það hafi verið mikil mistök af hálfu íslenskra stjórnvalda að leggjast ekki í diplómatískan víking, ef svo má segja, strax og þetta mál kom upp til að reyna að forða því sem unnt væri að forða á þeim tímapunkti til að reyna að koma samskiptum Íslands og Bretlands í eðlilegan farveg. En því miður var það ekki gert.

Þessu til viðbótar koma síðan ummæli seðlabankastjóra um að hann einn hafi vitneskju um það hvað rak Breta til þess að beita hryðjuverkalögunum gegn Íslendingum. Þær upplýsingar fást hins vegar ekki. Það er auðvitað algerlega óviðunandi að við svo sé búið.

Ég hef látið það koma fram að þetta mál hefur verið á vettvangi utanríkismálanefndar hér í þinginu og verður það áfram. Ég mun gera ráðstafanir samkvæmt ósk þingmanna til að fá ráðherra, bæði hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, á fund (Forseti hringir.) utanríkismálanefndar til að gera grein fyrir því máli. Ég vonast til þess að það geti orðið fyrr en síðar.



[14:33]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegur forseti. Mér finnst það kannski liggja fyrir sem aðalatriði í þessu máli að starfsemi atvinnufyrirtækja á fjármálamarkaði er á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra. Þetta eru einkafyrirtæki og það sem þau taka sér fyrir hendur innan ramma laganna er á þeirra ábyrgð en ekki ríkisvaldsins í þeim löndum þar sem þau starfa.

Sú ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar og Alþingis að grípa inn í starfsemina með því að yfirtaka hinn innlenda þátt íslensku bankanna var ekki gerð af þeim ástæðum að íslenska ríkisstjórnin teldi sig þurfa að taka ábyrgð á starfsemi bankanna, heldur til þess að geta haft hér innan lands starfandi greiðslumiðlunarkerfi og bankastarfsemi. Án þess væri íslenska þjóðfélagið óstarfhæft. Það var neyðarráðstöfun fyrir íslenska hagsmuni að grípa inn í það ferli.

Það verður síðan samkomulagsatriði milli eigenda nýju íslensku bankanna og erlendu kröfuhafanna á gömlu bankana um skilin á milli nýju og gömlu bankanna. Þar er ekki um að ræða að íslensk stjórnvöld séu að grípa inn í til þess að hlunnfara erlenda kröfuhafa. Það verður unnið að málinu með því markmiði að ná samkomulagi um þessi skil. Það gengur ekki upp öðruvísi. Við getum ekki lokið málinu án samkomulags.

Það sem mér finnst kannski vera óvarlegt eru ummæli hv. frummælanda sem spurði ráðherrann hvort hægt væri að koma sér undan því að borga. Okkur hefur verið borið á brýn að við ætluðum ekki að borga og það hefur verið borið til baka. Við megum ekki, að mínu viti, taka þannig til orða að það sé hægt að skilja ummæli okkar hér á Alþingi á þann veg að við ætlum að koma okkur undan því að borga það sem okkur ber. Það ætlum við okkur ekki að gera, (Forseti hringir.) virðulegur forseti.



[14:35]
Jón Magnússon (U):

Virðulegi forseti. Hér hafa talað bæði hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, en lítið kemur fram hjá þeim um það hvað olli því að Bretar beittu hryðjuverkalögunum þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekki verið mynduð í gær, heldur sé nú þó nokkur tími liðinn, a.m.k. sá tími að ríkisstjórnin hefði átt að getað aflað sér upplýsinga hefði verið vilji til þess.

Það var upplýst á viðskiptanefndarfundi í morgun að Landsbanki Íslands er enn undir hryðjuverkalögum. Það var talað um að það hamlaði mjög starfsemi bankans sem er ríkiseign og það skiptir því máli að ríkið gæti að hagsmunum eignar sinnar og reyni að koma í veg fyrir að þessari löggjöf verði beitt áfram gagnvart þessari ríkisstofnun þannig að hún geti með eðlilegri hætti stundað starfsemi sína. Það er grundvallaratriði.

En það virðist ekki hafa valdið ráðamönnum í núverandi ríkisstjórn neinum vandkvæðum að þannig skuli þetta vera. Hæstv. utanríkisráðherra kemur hér upp og talar um það hvernig hlutirnir hafi verið á sögulegum forsendum sem vissulega var allt saman rétt, og satt sagt frá.

En Bretar beittu hryðjuverkalögunum og það hefur ekki fengist skýring á því á hvaða lagalega grundvelli þeir gerðu það. Miðað við það lagaákvæði enska sem um er að ræða get ég ekki séð að um þau tilvik hafi verið um að ræða sem réttlæti beitingu hryðjuverkalaganna. Þess vegna skiptir gríðarlegu máli að sækja málið af öllum þeim þunga sem mögulegt er af hálfu íslenskra stjórnvalda til þess að við verðum ekki fyrir meira tjóni en við höfum orðið og við firrum okkur tjóni sem við annars yrðum fyrir með því að þessi hryðjuverkalög voru sett og hafa verið í gildi.



[14:37]
Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Íslenska þjóðin situr uppi með risastóran reikning í kjölfar þess að græðgi og fjárhagsleg gredda ungra bankamanna reið þeim að fullu. Vandinn er hins vegar sá að menn vita ekki hversu stór þessi reikningur er því að ekki hefur enn fengist upplýst um lagalegan grundvöll þess að íslenska ríkið, þ.e. íslenska þjóðin, sé hinn rétti skuldari, hvað þá um réttarstöðu okkar vegna beitingar hryðjuverkalaganna í kjölfarið.

Framganga íslenskra ráðamanna í málinu var mjög misvísandi þótt hæstv. utanríkisráðherra haldi öðru fram, að ekki sé minnst á pólitískt tvist algjörlega ópólitísks seðlabankastjóra í beinni útsendingu.

Ég minni á að Íslendingar eru ekki eina þjóðin sem stendur frammi fyrir gölluðu regluverki sem nær ekki yfir svo víðtækt hrun eins og raunin varð á um og það hlýtur að vera hagur allra þessara þjóða að dómstólar skeri úr um ágreining og ábyrgðir. Íslendingar munu ekki láta kúga sig til að verða öðrum víti til varnaðar og stjaksetja sig í samfélagi þjóðanna þó að ráðamenn hennar hafi verið máttlausir og ráðalausir framan af.

En ef ekki á að leita sökudólgsins hér á landi vil ég gjarnan vita hvort hæstv. utanríkisráðherra hefur svör við eftirfarandi spurningum.

1. Fyrrverandi ríkisstjórn hafði látið gera úttekt á því hvort dómstólaleiðin vegna þessarar framgöngu Breta væri tæk í Bretlandi. Ráðgjöfin sem ríkisstjórnin fékk var sú að það þjónaði ekki hagsmunum íslenska ríkisins en íslenska þjóðin vill vita hvers vegna. Hvaða hagsmunir eru það sem ekki er hægt að uppfylla? Og hvers vegna er ekki hægt að uppfylla þá?

2. Bent hefur verið á að hugsanlega megi skjóta málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu en þá þarf að vera búið að reyna aðrar tiltækar kæruleiðir. Spurt er: Stendur til að láta reyna á það?

3. Að hve miklu leyti hangir leit að rétti okkar vegna beitingar hryðjuverkalaganna saman við samninga um Icesave-skuldbindingar Landsbanka þarlendis? Með öðrum orðum, voru Íslendingar fórnarlömb í þessu máli og létu þvinga sig, m.a. með þessum aðgerðum, til að setjast að (Forseti hringir.) samningaborði án þess að láta reyna á dómstólaleiðina? Eða getur hæstv. utanríkisráðherra upplýst þingheim og þjóðina alla um það hvað er eiginlega í gangi?



[14:39]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér í þessari umræðu er grautað saman tvennu af hálfu talsmanna Framsóknarflokksins, annars vegar skuldbindingum sem stafa af Icesave-skuldbindingum og hins vegar beitingu hryðjuverkalaganna.

Hér ýja talsmenn Framsóknarflokksins að því að það sé valkostur fyrir okkur að borga ekki. Það er mjög varhugavert. Við höfum að sjálfsögðu undirgengist þær skuldbindingar vegna Icesave-skuldbindinganna sem leiða af þjóðréttarlegum skuldbindingum okkar og eru í samræmi við þá stefnumörkun og þær yfirlýsingar sem gefnar voru af hálfu stjórnvalda missirum saman í aðdraganda hrunsins.

Hryðjuverkamálið er allt annað. En það er ábyrgðarhluti ef Framsóknarflokkurinn ætlar að leggjast í þann lýðskrumsleiðangur nú í aðdraganda kosninga að reyna að gefa fyrirheit um það að Ísland geti sagt sig úr samfélagi þjóðanna og þurfi ekki að bera ábyrgð á skuldbindingum sínum.

Að því er varðar beitingu hryðjuverkalaganna er það auðvitað aðgerð sem kom mjög illa við íslenska hagsmuni og skaðaði okkur. Það er aðgerð sem vissulega er brýnt að fá upplýsingar um af hverju stafaði. Áðan kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra að ekki hafa komið fram fullnægjandi skýringar um það. Og við leitum auðvitað enn skýringa á því. Það er mjög mikilvægt að af hálfu ráðuneyta verði greitt fyrir því sem kostur er að við fáum heildarmynd af atburðarásinni í aðdraganda hrunsins. Ég held að það skipti miklu máli fyrir opna og heiðarlega þjóðmálaumræðu hér á næstu mánuðum og missirum.

Auðvitað stendur eftir sú fáránlega og fráleita yfirlýsing af hálfu seðlabankastjóra í Kastljósi að Íslendingar ætluðu ekki að efna skuldbindingar sínar sem gat gefið mönnum erlendis til kynna að við ætluðum að hlaupast frá ábyrgðum okkar. Það var mikill ábyrgðarhluti að gefa þá yfirlýsingu.



[14:42]
Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Ég held að það sé löngu orðið ljóst af þeirri umræðu sem fram hefur farið um þetta mál bæði hér og erlendis að beiting hryðjuverkalaganna var fyrst og fremst til heimabrúks. Hún var fyrst og fremst til þess að leita eftir skammtímavinsældum á heimavelli. Það var hins vegar með bakgrunni í því að breskir fjármunir höfðu glatast nóttina áður en Lehman Brothers bankinn féll um miðjan september sem höfðu þá verið fluttir frá London til New York og með bakgrunni í því að bresk stjórnvöld höfðu grunsemdir um að Kaupthing Singer & Friedlander hefði flutt fjármuni frá London til Íslands og kannski eitthvað víðar út í heim. Ég veit ekki um það.

Hins vegar er ljóst að beiting hryðjuverkalaganna var langt umfram það sem var nauðsynlegt, langt umfram það samhengi sem samskiptin voru í um þessi mál á þeim tíma og, eins og kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra, langt umfram það samhengi sem samskipti Íslands og Bretlands hafa verið í í gegnum tíðina. (Gripið fram í.)

Þessi aðgerð hefur líka verið mjög gagnrýnd í Bretlandi, sérstaklega af fjármálakerfinu, og mun líklega hafa veruleg áhrif í framtíðinni ásamt öðru á það hvernig fjármálamarkaðir í Bretlandi munu þróast.

Yfirlýsingar íslenskra ráðamanna, eða sérstaklega íslenskra ráðherra, höfðu því ekkert með þetta að gera eins og hæstv. utanríkisráðherra fór skilmerkilega yfir í máli sínu.



[14:44]
Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Efnahagsstefna Sjálfstæðisflokksins, nýfrjálshyggjan, hin óhefta einka- og markaðsvæðing þar sem frelsi var einkavætt en ábyrgðin ekki til síðustu 18 ára er gjaldþrota og þjóðinni blæðir. Maður bíður eftir því að forustumenn Sjálfstæðisflokksins, þingmenn og aðrir, biðji þjóðina afsökunar. Atvinnulausir eru 15.244 manns. Heilbrigðiskerfið hefur verið stórskaðað. Og ein grafalvarleg afleiðing er hér til umræðu í dag.

Hver er ástæða þess að Bretar beittu okkur hryðjuverkalögum? Frá mínum bæjardyrum blasir það við að í raun og veru voru stórfelldir og sviksamlegir fjármagnsflutningar íslenskra auðmanna úr bönkunum, bresku bönkunum sínum eða íslensku bönkunum í Bretlandi, ástæðan fyrir þessari beitingu hryðjuverkalaganna, þ.e. þjófnaður á sparifé bresks almennings, líknarstofnana, sveitarfélaga og fleiri. Og það í kringum reikninga sem hafa verið nefndir glæpsamlegir, Icesave-reikningarnir og fleiri.

Mér er spurn, herra forseti: Af hverju var málið ekki rannsakað strax í kjölfarið sem glæpamál? Af hverju voru viðkomandi ekki yfirheyrðir þá þegar vegna gruns um meint landráð? Það flokkast undir landráð þegar svona aðgerð beinist gegn þjóðinni, aðgerð sem er jafnósanngjörn og hafði jafnafdrifaríkar afleiðingar og raun ber vitni. Af hverju voru þeir ekki yfirheyrðir þegar í stað sem sakborningar vegna hugsanlegra landráða, vegna auðgunarbrota og annarra brota á íslenskri löggjöf og erlendri? Og af hverju var ekkert aðhafst annað í gegnum NATO? Árás á eitt NATO-ríki er árás á þau öll og Bretar beittu ekki sömu aðgerðum gegn Bandaríkjamönnum. Af hverju var ekki farið í gegnum stjórnmálasambandið, í viðræður, í gegnum viðskipti (Forseti hringir.) og í gegnum málsóknir? Af (Forseti hringir.) hverju var ekki aðhafst strax? Auðmennirnir hafa komið (Forseti hringir.) þjóð okkar í koll.



[14:46]
Ragnheiður Ólafsdóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Síðan þetta mál kom upp hef ég furðað mig á því hvað fór á milli Gordons Browns, Alistairs Darlings, Geirs H. Haarde og Árna Mathiesens. Mér finnst þrátt fyrir allt, þrátt fyrir það sem búið er að segja, að ekki sé allt nákvæmlega komið fram sem þeim fór á milli. Mér finnst að þegar bankahrunið varð hafi fyrrverandi ríkisstjórn hreinlega farið á límingunum og misst allt niður um sig.

Af hverju var sendiherra Íslands ekki kallaður heim? Af hverju var sendiherra Breta ekki sendur heim með frímerki á rassinum? Af hverju — og þá langar mig að vitna í orð virðulegs þingmanns Atla Gíslasonar — var þetta ekki rannsakað sem sakamál? Það er öruggt í þessu dæmi öllu að það er saknæmt í gangi eða hefur verið.

Hvað er það sem við vitum ekki og þjóðin er ekki uppfrædd um í þessu máli? Voru miklir fjárflutningar á milli landa? Ég tel það fullvíst, ég get ekki sannað það úr þessum ræðustól en tel það fullvíst. Hvaða upplýsingar eru það sem Seðlabankinn situr á og neitar okkur um? Við skulum ekki gleyma því að hagur fólksins í landinu er í húfi. Þingheimur verður að vera í jarðsambandi við almenning og skilja og hlusta á í hverju þjóðin krefst svara í þessu máli, sem og öðrum.

Ég fullvissa þingheim um að íslenskur almenningur hefur ekki kallað þessar skuldir yfir sig, svo mikið er víst.



[14:48]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin. Þau voru á þá leið að hann hvítþvoði fyrrum samráðherra sína og sagði svo að þetta væri bara allt saman Davíð Oddssyni seðlabankastjóra að kenna. Þetta er ekki svona einfalt, virðulegur forseti.

Fyrrum samráðherrar hæstv. utanríkisráðherra tjáðu sig að mínu mati mjög óvarlega og voru með mjög misvísandi skilaboð. Bresk stjórnvöld sáu þetta, eins og allir sem skoða yfirlýsingarnar og líka útskrift af samtalinu sem hv. þm. Árni M. Mathiesen átti við Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta. Það þarf ekki annað en að lesa það til að sjá hvað það er allt byggt á veikum grunni, og algjörlega ljóst að þessi misvísandi skilaboð hljóta að hafa geysileg áhrif á Breta á þeirri ögurstundu sem þarna var. Íslensk stjórnvöld létu skoða hvort þessi aðgerð væri ólögleg, bresk lögmannastofa kvað svo ekki vera og ríkislögmaður tók undir það álit og þjóðréttarfræðingurinn í utanríkisráðuneytinu líka. Íslensk stjórnvöld ákváðu að fara ekki í mál á grunni þessara hryðjuverkalaga í Bretlandi.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni áðan að við erum að blanda saman Icesave-reikningunum og hryðjuverkalögunum. Það er alveg rétt og það var viljandi gert. Það er vegna þeirra sjónarmiða sem hafa komið fram, m.a. á opinberum vettvangi nýlega, hvort við getum með einhverjum hætti reynt að ná fram betri samningum við Breta út af Icesave-reikningunum vegna beitingar hryðjuverkalaganna.

Hér samþykktu Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin svokölluð viðmið, þ.e. að borga Icesave-reikningana — það var samþykkt hérna fyrir stuttu síðan — og fara í viðræður um þau mál. Okkur þingmönnum er svolítill vandi á höndum. Sumir segja: Við getum ráðið við að borga þetta, það er alveg hægt. Tryggvi Þór Herbertsson sagði það í Kastljósinu í gær. Aðrir segja: Við getum ekki borgað þetta, þetta er allt of erfitt. Svo segja sumir: Við getum borgað þetta ef það er vaxtalaust.

Við verðum auðvitað að fá úr því skorið með einhverjum hætti hvort við getum (Forseti hringir.) borgað þessa reikninga eða ekki. Ég tók eftir því, virðulegur forseti, að hæstv. utanríkisráðherra sagðist vilja ná viðunandi (Forseti hringir.) niðurstöðu. Ég ætla að nýta tækifærið hér og spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er viðunandi í þessu sambandi?



[14:51]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég er algjörlega sammála hv. þm. Ragnheiði Ólafsdóttur um að það þarf að koma fram með allar þær upplýsingar sem eru til í þessu máli. Ég tel að stjórnvöld hafi gert það, a.m.k. er mér ekki kunnugt um neitt sem ráðuneyti liggja á í þessum efnum.

Þegar hv. þingmenn, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, tala um að misvísandi yfirlýsingar millum íslenskra ráðherra hafi gert það að verkum að Bretar gripu til þess verknaðar sem fólst í að beita hryðjuverkalögunum verður hún að benda á hver þessi ummæli eru sem stangast á. Það hefur ekki verið gert. Ég las á sínum tíma, þrautlas, útskriftina af samtali Alistairs Darlings og fyrrverandi fjármálaráðherra. Ég sá ekki að þar kæmi neitt fram sem stangaðist á við fyrri yfirlýsingar, m.a. yfirlýsingu fyrrverandi viðskiptaráðherra á forsíðu Morgunblaðsins né heldur þá yfirlýsingu sem kom frá viðskiptaráðuneytinu og íslenskum stjórnvöldum 5. október.

Ég hjó eftir því að eina skýringin sem Alistair Darling gaf á þessum verknaði í viðtali við BBC morguninn sem þetta gerðist var það samtal. Það var ekkert annað samtal sem mér er kunnugt um að hafi átt sér stað á þeim degi millum nokkurs íslensks ráðherra og bresks kollega nema það. Fjármálaráðherra Bretlands sagði bókstaflega að íslenska ríkisstjórnin — hann orðaði það þannig — hefði beinlínis sagt að hún hygðist ekki standa við skuldbindingar sínar. Það var rangt hjá honum. Íslenska ríkisstjórnin sagði það aldrei. Hún hefur þvert á móti sagt að hún muni leitast við, ef þörf er á, að styðja við tryggingarsjóðinn til að hann gæti staðið við þær lágmarksskuldbindingar sem honum ber. Um það verðum við hins vegar að vera sammála og við þurfum að semja um það. Hvað er það sem hægt er að semja um? Það eru auðvitað kjör sem við teljum viðunandi, ásættanleg miðað við málsaðstæður og að við getum risið undir þeim.