136. löggjafarþing — 84. fundur
 19. feb. 2009.
stjórnarskipunarlög, 1. umræða.
frv. GÁ o.fl., 15. mál (þjóðareign á náttúruauðlindum). — Þskj. 15.

[17:17]
Flm. (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Flutningsmenn eru Guðni Ágústsson, fyrrverandi þingmaður, Birkir J. Jónsson, Bjarni Harðarson, fyrrverandi þingmaður, Höskuldur Þórhallsson, Magnús Stefánsson, Siv Friðleifsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir.

Eins og kom fram hjá hæstv. forseta er þetta 15. mál þingsins þannig að það gefur til kynna að það var lagt fram í upphafi þings.

Hæstv. forseti. Frumvarp þetta var áður flutt á 135. löggjafarþingi. Í júnímánuði 1998 var í kjölfar samþykktar þingsályktunar kjörin á Alþingi níu manna nefnd sem fékk það hlutverk, með leyfi forseta, ég vitna orðrétt:

„... að fjalla um auðlindir sem eru eða kunna að verða þjóðareign, m.a. öll verðmæti í sjó og á hafsbotni innan efnahagslögsögu, svo og í almenningum, afréttum og öðrum óbyggðum löndum utan heimalanda, námur í jörð, orku í rennandi vatni og jarðhita.“

Nefndinni var enn fremur falið að skilgreina, ég vitna orðrétt, með leyfi forseta:

„... þessar auðlindir á skýran hátt og hvernig skuli með þær farið.“

Í þessari auðlindanefnd áttu sæti Jóhannes Nordal formaður, Eiríkur Tómasson varaformaður, Ari Edwald, Guðjón Hjörleifsson, Lúðvík Bergvinsson, Margrét Frímannsdóttir, Ragnar Árnason, Styrmir Gunnarsson og Svanfríður Jónasdóttir.

Á vegum auðlindanefndar var unnið umfangsmikið starf. Þar á meðal var aflað álitsgerða lögfróðra manna á þeim réttarreglum sem talið var að giltu um eignarrétt að mismunandi tegundum náttúruauðlinda. Hafa þær reglur ekki breyst síðan í neinum meginatriðum.

Auðlindanefnd skilaði áfangaskýrslu í marsmánuði 1999 og síðan lokaskýrslu sinni í septembermánuði 2000. Í þeirri skýrslu gerði nefndin m.a. tillögu um að tekið yrði upp í VII. kafla stjórnarskrárinnar nýtt ákvæði þar sem náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti, yrðu lýstar þjóðareign. Er tillaga nefndarinnar tekin svo til orðrétt upp í þetta frumvarp.

Þess má geta að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Geirs Haardes, þeirrar sem ríkti til kosninga 2007, var að finna svofellt ákvæði með leyfi forseta:

„Ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá. Sérstaklega skal tekið fram að ekki var gert ráð fyrir í lokaskýrslu auðlindanefndar að samþykkt tillögu nefndarinnar til breytingar á stjórnarskránni mundi sjálfkrafa leiða til grundvallarbreytinga á núverandi aflahlutdeildarkerfi („kvótakerfi“) samkvæmt þágildandi lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sbr. nú lög nr. 116/2006. Þvert á móti var eitt af markmiðum tillögunnar að gera réttarstöðu þeirra, sem njóta veiðiheimilda á grundvelli 7. gr. þeirra laga, skýrari en hún er samkvæmt núgildandi lögum, auk þess sem stefnt var að því að tekið yrði upp gjald fyrir þær heimildir, eins og gert hefur verið með V. kafla laganna um veiðigjald, sbr. lög nr. 85/2002.“

Í 1. gr. laga nr. 116/2006 segir nú orðrétt, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Í álitsgerð tveggja lagaprófessora, þeirra Sigurðar Líndals og Þorgeirs Örlygssonar, sem tekin var á sínum tíma saman fyrir auðlindanefnd, er þessi lagagrein skýrð svo að þar sé ekki kveðið á um einkaeignarrétt heldur sé nærtækast að telja að greinin feli í sér almenna markmiðsyfirlýsingu. Sá fyrirvari sem gerður sé í niðurlagi greinarinnar hafi þau áhrif að lögin verði miklu síður skilin á þann veg að með þeim hafi verið stofnað til stjórnarskrárvarins eignarréttar einstakra manna yfir veiðiheimildum. Í fyrirvaranum felist jafnframt vísbending um að sú stjórnarskrárvernd sem fyrir hendi sé sæti ákveðinni takmörkun. Að áliti þeirra Sigurðar og Þorgeirs væri þannig ekkert því til fyrirstöðu að innkalla úthlutaðar veiðiheimildir í áföngum á lengra tímabili og endurúthluta þeim að því tilskildu að þeir sem fengið hafa úthlutað slíkum heimildum í núverandi kerfi og öðlast hafa á þeim grundvelli stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi, fái sanngjarnan og hæfilegan frest til að laga rekstur sinn að breyttu laga- og rekstrarumhverfi.

Í samræmi við framangreinda tillögu um breytingu á stjórnarskránni og miðað við að svonefnd veiðigjaldsleið yrði fyrir valinu, svo sem síðar varð, setti auðlindanefnd fram í lokaskýrslu sinni svohljóðandi hugmynd að breyttri 1. gr. laga um stjórn fiskveiða og ég vitna beint í textann, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru þjóðareign. Markmið laganna er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofnanna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthluta má veiðiheimildum til einstaklinga og lögaðila gegn gjaldi að því tilskildu að þeim verði ekki breytt nema með minnst fimm ára fyrirvara svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.“

Fyrir utan að mæla svo fyrir um að gjald skuli tekið fyrir veiðiheimildir má segja að frumvarp þetta að nýju stjórnarskrárákvæði, sem er eins og áður segir samhljóða tillögu auðlindanefndar á sínum tíma, mundi hafa tvenns konar réttaráhrif á núgildandi stjórnkerfi fiskveiða:

Í fyrsta lagi yrði því slegið föstu, eins og gert var á sínum tíma með lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur, að þjóðin eða ríkið væri eigandi nytjastofna á Íslandsmiðum. Þar með yrði komið í veg fyrir að einstaklingar eða lögaðilar gætu eignast beinan eignarrétt að þessum auðlindum, t.d. fyrir hefð. Jafnframt mundi þetta styrkja stöðu Íslands í samningaviðræðum við aðra aðila, t.d. Evrópusambandið, um yfirráð yfir þessum auðlindum.

Í öðru lagi yrði kveðið á um það, svo að ekki færi lengur á milli mála, hvers eðlis réttur þeirra er sem þegar hefur verið úthlutað veiðiheimildum á grundvelli laga um stjórn fiskveiða. Um yrði að ræða óbeinan eignarrétt á borð við hefðbundin leigu-, afnota- og ítaksréttindi. Þar með yrði eytt þeirri réttaróvissu sem nú ríkir, ekki síst í ljósi niðurlagsákvæðisins í 1. gr. laganna. Samkvæmt álitsgerð þeirra Sigurðar Líndals og Þorgeirs Örlygssonar er ekkert því til fyrirstöðu, samkvæmt gildandi lögum, að núverandi veiðiheimildir yrðu innkallaðar. Það atriði í tillögu auðlindanefndar, að heimild til afnota eða hagnýtingar verði annaðhvort að vera tímabundin eða uppsegjanleg með hæfilegum fyrirvara, er því ekkert nýnæmi frá lögfræðilegu sjónarmiði heldur staðfesting á gildandi rétti.

Rétt er að leggja áherslu á það til þess að fyrirbyggja misskilning að með samþykkt þessa frumvarps yrði ekki hróflað við stjórnarskrárvörðum eignarrétti eða atvinnuréttindum þeirra sem öðlast hafa slík réttindi nú þegar á grundvelli 1. mgr. 72. gr. og 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Þvert á móti yrði því slegið föstu, svo sem fram kemur í 3. málsl. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins, að þegar fengin heimild til afnota eða nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum í þjóðareign teldist til óbeinna eignarréttinda sem njóta verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar eins og hver önnur eignarréttindi.

Í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er því lýst yfir að þær náttúruauðlindir og réttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti séu þjóðareign sem ríkið, þ.e. handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds, fari með forsjá fyrir, varðveiti og geti jafnframt ráðstafað í umboði þjóðarinnar samkvæmt 2. mgr.

Vegna þess að aðstæður og viðhorf geta breyst í tímans rás er ekki gert ráð fyrir að náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign verði skilgreind í sjálfri stjórnarskránni heldur verði það gert í almennum lögum. Þó er gengið út frá því að land, landsréttindi, auðlindir og hlunnindi í þjóðlendum sem ekki hafa verið háð einkaeignarrétti verði þjóðareignir, sbr. lög nr. 58/1998, um þjóðlendur, og lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Sömuleiðis nytjastofnar á Íslandsmiðum, sbr. lög nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og auðlindir sem eru á, í eða undir hafsbotninum, utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær, sbr. lög nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Ákvæði þessara laga þyrfti að laga að hinu nýja stjórnarskrárákvæði.

Samkvæmt framansögðu væri ekkert því til fyrirstöðu að löggjafinn felldi fleiri eignir en þær sem að framan greinir undir þjóðareignarhugtakið. Segja má að það hafi þegar verið gert með lögum nr. 59/1928, um friðun Þingvalla. Á sama hátt væri með einfaldri lagabreytingu unnt að gera einhverjar af umræddum eignum háðar einkaeignarrétti í stað þjóðareignarréttar.

Í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er því lýst yfir að náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign megi ekki selja eða láta varanlega af hendi til annarra aðila. Þó er gert ráð fyrir að stjórnvöld geti veitt öðrum aðilum heimild til afnota eða hagnýtingar á slíkum eigum með tilteknum skilyrðum og að teknu tilliti til þeirra markmiða sem greinir í 3. mgr. Með heimild til afnota eða hagnýtingar í 2. mgr. er átt við heimild til afnota eða hagnýtingar sem sérstakt leyfi þarf til þannig að aðrir en leyfishafar geti ekki haft þau sömu not. Þar með fellur almannaréttur, svo sem réttur til umferðar um land, ekki undir þetta hugtak. Kveðið er á um það í niðurlagi 2. mgr., til þess að taka af allan vafa, að heimild til afnota eða hagnýtingar njóti verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar sem óbein eignarréttindi á borð við hefðbundin leigu-, afnota- og ítaksréttindi.

Lagt er til í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins að náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign skuli nýtt í þágu þeirra markmiða sem þar eru greind, og arði af þessum eignum skuli varið í ákveðnum tilgangi eftir því sem tekið er fram í niðurlagi málsgreinarinnar og kveðið yrði nánar á um í lögum.

Um enn frekari röksemdir fyrir frumvarpinu vísast til lokaskýrslu auðlindanefndar sem er að finna á heimasíðu forsætisráðuneytisins.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að þessu frumvarpi verði að lokinni umræðu vísað til sérnefndar um stjórnarskrá Íslands og 2. umr.



[17:30]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Örstutt. Ég fagna þessu frumvarpi framsóknarmanna og þakka flutningsmanni þess hér, hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, fyrir góða greinargerð fyrir málinu. Um þetta mætti hafa langt mál og einhver mundi nú tala lengi um sögu þess og fornar væringar sem ég ætla ekki að gera.

Það er ljóst að a.m.k. meiri hluti stjórnmálaflokkanna og glöggur meiri hluti á Alþingi vill setja ákvæði í stjórnarskrána um að helstu auðlindir Íslands séu í þjóðareign og er þeirrar skoðunar að þar sé ekki um neitt skrautákvæði að ræða heldur raunverulegt efnisákvæði eftir miklar deilur sem hafa verið eitt af leiðarstefjunum í íslenskum stjórnmálum í tvo, þrjá áratugi, þó að ekki sé nú farið lengra aftur í tímann.

Þetta er í sjálfu sér mikilvægt og engin leið að leggja of mikla áherslu á það en það er líka mikilvægt í því ljósi að flokkur minn og flokkur hv. flutningsmanns hér áðan hafa lýst yfir þeirri afstöðu að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið og aðrir flokkar eru á hægri leið, sumir mjög hægri en aðrir aðeins hraðari leið, að sömu afstöðu. Eitt af því sem verður að gerast áður en það getur orðið að veruleika er að þjóðareign á auðlind sjávar sé algjörlega skýr vegna þess að ef hún er það ekki er varla hægt að ganga til samstarfs við þjóðir og ríki Evrópusambandsins vegna þess að aðilar innan sambandsins mundu þá geta átt aðgang að auðlind sjávar og keypt sig inn í þann kvóta sem sumir útgerðarmenn hér telja nánast sína eign og einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Illugi Gunnarsson, kallaði hér séreignarrétt þeirra í umræðu fyrir nokkrum dögum. Það er ákaflega mikilvægt að þetta verði gert því að þetta stendur í vegi fyrir því að við getum virt fyrir okkur aðild að Evrópusambandinu.

Í öðru lagi lít ég svo á að fyrst Framsóknarflokkurinn hefur nú sagt A, það hefur hann reyndar gert, þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann gerir það með einhverjum hætti, þá hljóti hann líka að segja B og standi með okkur að því, samfylkingarmönnum og öðrum, að virkja þjóðareign auðlinda sjávar með því að afnema, í áföngum væntanlega, gamla gjafakvótakerfið — það er að vísu þannig að fáir þeirra sem fengu þær gjafir njóta þeirra enn — afnema það fyrirkomulag sem nú er við lýði með því t.d. að innkalla heimildirnar á segjum 20 árum. Að fara þá leið sem kölluð var fyrningarleið í áliti auðlindanefndarinnar sem talað var um áðan og má þá ræða hvernig það yrði nákvæmlega útfært, því að það er ekkert heilagt í þeim efnum.

Þetta vildi ég segja hér af minni hálfu og míns flokks, þó að ég hafi svo sem ekki beðið formlega um leyfi til þess en þetta mál er of augljóst baráttumál míns flokks til að þess leyfis þurfi að biðja. Þakka ég enn fyrir þetta frumvarp og flutningsmanni fyrir gott mál hér í sinni ræðu.



[17:35]
Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar undirtektir. Ég vil taka fram, svo það sé enginn misskilningur, að kannski sagði hv. þingmaður aðeins of mikið þegar hann talaði um afstöðu Framsóknarflokksins til Evrópusambandsins, við komumst ekki að þeirri niðurstöðu að við eigum að ganga í Evrópusambandið heldur að við eigum að sækja um aðild. Það er ekki alveg það sama. Ég vildi að þetta kæmi fram. Að öðru leyti er ég sammála hv. þingmanni um það að ef til þess kæmi að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu þá er mjög mikilvægt að stjórnarskránni hafi verið breytt með þeim hætti sem hér er lagt til.

Í þriðja lagi vil ég taka fram að samþykkt þessarar breytingar á stjórnarskrá Íslands þýðir ekki sjálfkrafa að aflamarkskerfinu, lögum um stjórn fiskveiða, sé breytt. Það er í raun önnur ákvörðun. Til þess að það fari ekkert á milli mála þá er Framsóknarflokkurinn ekki með framlagningu á þessu máli að taka afstöðu gegn því fyrirkomulagi sem hefur verið við lýði á Íslandi á síðustu árum og hefur verið kennt við kvótakerfið. Það er önnur ákvörðun sem þyrfti þá að taka og ég er ekki tilbúin að taka hana í þessari stuttu ræðu minni.



[17:36]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að það er ekki stefna Framsóknarflokksins að ganga í Evrópusambandið. Það er ekki heldur stefna Samfylkingarinnar heldur að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga inn ef nógu góðir samningar nást til þess að hagsmunir Íslands séu í heiðri hafðir við þá inngöngu. Eitt af því sem skiptir mestu máli þar eru einmitt samningarnir um sjávarútveginn og ég tek undir það að forsenda þess að við getum náð slíkum samningum, samningum sem eru viðunandi, er að við höfum sett þetta ákvæði í stjórnarskrá okkar.

Ég ætla ekki að deila um kvótakerfið sem svo er kallað og er auðvitað í tvennu lagi. Annars vegar aflamarksprinsippið og hins vegar hvernig það fór af stað og deilurnar um eignarréttinn á kvótanum og sú þróun sem hér varð fyrst 1983, svo 1990 og loks 1998 með veðsetningarreglunum.

Ég lýsi því bara yfir og þá sem minni skoðun að þegar menn segja A með þessum hætti þá hljóta menn einhvern tímann síðar, þegar tíminn er fullnaður og málið þroskað, að segja líka B og klára svo stafrófið að lokum í sátt og samlyndi með öðrum stjórnmálaflokkum og alþýðu manna hvernig svo sem vopnaviðskipti hafa verið í fortíðinni.



[17:38]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Að gefnu tilefni sé ég ástæðu til að ræða aðeins um sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og er rétt að benda á að það gengur auðvitað ekki að horfa fram hjá því þegar fólk talar um Evrópusambandið, eins og hv. þm. Mörður Árnason gerði, að auðvitað skipta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar miklu máli og hvernig samningur er gerður hlýtur að taka mið af því hvort við ráðum yfir auðlindum okkar eða ekki.

Lagabreytingar til þess að liðka til fyrir hugsanlegri inngöngu eða aðild að Evrópusambandinu eru með þeim hætti að fara verður varlega og fara fetið í því og gera ekki neinar vitleysur. Við þurfum auðvitað að vanda lagagerð eins og lagt er til. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta en ég vara þó við því að við gerum einhver mistök í lagasetningu hvað þetta varðar. Við verðum náttúrlega að taka mið af einu við lagagerð og það er að virða álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, við þurfum að tryggja að það verði gert gagnvart auðlindunum og fiskinum í sjónum sérstaklega, en það virðist blasa við að núverandi ríkisstjórn ætli ekki að taka á mannréttindabrotum á íslenskum sjómönnum. Þess vegna er maður mjög efins um á hvaða vegferð við erum, á hvaða leið við erum. En ég vara við, við skulum passa okkur og gæta okkar hvað þessi mál varðar.



[17:41]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er rétt að þessi ríkisstjórn hefur ekki mikil áform um endurbætur í sjávarútvegsmálum. Þessi ríkisstjórn situr í 80 daga ef henni endist líf til þess sem ég held að gerist nú og það er ekki við því að búast að hún geti látið til sín taka með þeim hætti, verkefni hennar eru ærin fyrir. Hins vegar er það svo, sem ég gleymdi nú að geta um, að í verkefnaskrá hennar er stigið skref í átt að þessu, nefnilega að sjá svo til eða fara fram á það við þingið að það samþykki stjórnarskipunarlög þar sem kveðið verði á um auðlindir í þjóðareign. Ég geri ráð fyrir að þau lög verði með svipuðum hætti og það frumvarp sem hér er til umræðu. Það er fyrsta skrefið til þess að ráða bót á þeim mannréttindabrotum sem þingmaðurinn talar réttilega um og til þess að koma bæði skynsemi og réttlæti í sjávarútvegsskipan okkar.

Ég vonast til þess að næsta ríkisstjórn geti síðan stigið fleiri skref í þessu og ég var að bjóða hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur upp í þann dans hér áðan og mig munar ekkert um að bjóða hv. þm. Grétari Mar Jónssyni að dansa hann með okkur eftir kosningar.



[17:42]
Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er dálítið sérkennilegt að ræða þessi mál út frá þessu vegna þess að í lögum um stjórn fiskveiða stendur t.d. að allur fiskur í sjónum sé þjóðareign. En það er ekki verið að tala um það, það er verið að tala um að útgerðarmenn eigi nýtingarréttinn, geti leigt hann, selt hann og veðsett. Í þessu tilfelli er lítið gagn að því að fá það inn í stjórnarskrána að fiskurinn í sjónum sé þjóðareign, af því að það er í lögum um stjórn fiskveiða og það er líka í lögum um stjórn fiskveiða að hann myndi aldrei eignarrétt. En málið snýst ekkert um það. Útgerðarmenn segja: Við höfum nýtingarréttinn, við megum leigja, veðsetja og selja nýtingarréttinn. Það er það sem koma þarf í veg fyrir. Menn tala hér eiginlega um sitt hvort málið. Enginn útgerðarmaður þrætir fyrir það að þjóðin eigi ekki fiskinn í sjónum og megi eiga fiskinn í sjónum. Gjafakvótakerfið byggir á nýtingarréttinum, eignarhaldinu á nýtingarréttinum og þeim möguleika að geta leigt og selt, á þeirri forsendu að þeim var úthlutað þessu ókeypis í upphafi sem þeir geta svo braskað með. Við megum ekki gleyma því að bankahrunið og þær hörmungar sem yfir þjóðina hafa dunið upp á síðkastið, síðustu fimm mánuði frá því að bankarnir fóru í þrot, liggur í því að við leyfðum mönnum að braska með veiðiheimildir, leigja, selja og veðsetja.



[17:44]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það var ekki ætlan mín að ræða þessa hluti svona lengi en ég tel mig samt verða að svara þessu andsvari. Fyrst með því að ég er efnislega algjörlega sammála Grétari Mar Jónssyni eins og hann veit reyndar manna best. Ég held að ég hafi byrjað á undan honum að tala um þessi efni og taka upp þá baráttu sem við höfum sameiginlega verið í í þessu máli. Ég þarf ekkert að endurtaka rök hans um mannréttindin og ég þarf ekki að endurtaka það heldur sem ég hef m.a. bent á og auðvitað margir fleiri að ein af rótum þess vanda sem við eigum nú við að glíma liggur einmitt aftur í kvótakerfið og þær gervieignir sem það bjó til á Íslandi og þá skrýtnu pappírspeninga sem þaðan fóru út í ýmsar skýjaborgir sem nú eru hrundar.

Ég verð hins vegar að segja að ég er ekki sammála honum um að það sé einskis virði að setja ákvæði um þjóðareign auðlinda í stjórnarskrá. Ég tel að það muni mjög styrkja hið fræga ákvæði í lögunum um stjórn fiskveiða og verða til þess að næsta skref sé það að virkja þjóðareignarákvæði stjórnarskrárinnar með því að fara t.d. einhverja útgáfu af hinni svokölluðu fyrningarleið sem minnst er á í starfi auðlindanefndarinnar sem rakið var hér áðan og Samfylkingin hefur gert að sínu, þó að hún sé reiðubúin til ýmiss konar samvinnu um það með ýmsum hætti.



[17:46]
Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er til bóta að fá inn í stjórnarskrána að þetta sé sameign þjóðarinnar, ég þræti ekkert fyrir það, það er ekki verra. Við megum samt ekki gleyma því að þetta er alveg eins í rafmagninu, þetta er alveg eins í auðlindum í jörðu, þ.e. gufunni. Þar eiga ríki eða sveitarfélög borholurnar og eiga gufuna í jörðu, en iðjuverið sem nýtir það og býr til úr því rafmagn eða leiðir heitt vatn í hús er fyrirtækið sem hefur nýtingarréttinn. (MÁ: Það á að borga fyrir það.) Já, já, til 65 ára hafa þessi iðjuver nýtingarrétt, t.d. í Svartsengi og annars staðar. Auðvitað er rétt að borga fyrir það en hagnaðurinn af gjörningnum er ekki í holunni eða landinu sem verið er að nýta heldur í orkuverinu sem selur orkuna.

Það er allt í lagi ef það er gert með þeim hætti að allir standi jafnir að nýtingu. Þegar við gefum nýtingarrétt á holu eða fiski í sjónum erum við farnir að mismuna. Það er sú hætta sem við stöndum frammi fyrir, að við mismunum fyrirtækjum eða einstaklingum með þeim hætti eins og hefur verið gert í sjávarútvegi og ég óttast að verði að stórum hluta líka gert í nýtingarrétti hvað varðar orku í iðrum jarðar og jafnvel annars staðar, m.a. líka í köldu vatni. Þetta eru hlutir sem við þurfum að vara okkur á, að lenda ekki með orkunýtingu með svipuðum hætti og í sjávarútvegi. Við þurfum (Forseti hringir.) auðvitað að passa okkur og við verðum að varðveita auðlindir okkar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til sérn.