136. löggjafarþing — 86. fundur
 23. feb. 2009.
um fundarstjórn.

mál á dagskrá.

[17:30]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að koma hingað upp í púlt og undrast yfir öllum þessum breytingum sem hafa orðið á dagskrá þingsins. Allir í samfélaginu átta sig á þessum vandræðagangi sem er á stjórnarheimilinu varðandi framgang og viðgang frumvarpa úr nefndum, en gott og vel með það. Það er hins vegar eðlilegt að við sem þingmenn fáum að vita hvaða dagskrá bíður okkar á morgun. Má búast við því að það verði svipað umhorfs í þinginu á morgun eins og var í dag? Langt er liðið á dag og við erum ekki enn þá byrjuð að ræða ýmis mál. Það er þetta sem við höfum varað við lengi. Það þarf að nýta tíma þingsins í að ræða brýnustu málin. Og brýnustu málin eru efnahagsmálin, brýnustu málin eru atvinnumálin og þau komast ekki á dagskrá þingsins.

Þess vegna hljótum við að spyrja og krefja forseta upplýsinga: Hvers má vænta á morgun? Við hverju má búast á morgun? Við ætlumst til þess að hægt sé að ganga að ákveðnum málum gefnum, þ.e. brýnustu hagsmunamálum þjóðarinnar sem eru efnahags- og atvinnumál.



[17:31]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þjóðin bíður í ofvæni eftir einhverjum aðgerðum. Það er mikill vandi sem steðjar að heimilunum. Fólk er að missa vinnuna, fyrirtæki eru að fara á hausinn. Skuldastaða heimilanna er geigvænleg, bankarnir eru óstarfhæfir og það er beðið eftir málum frá hæstv. ríkisstjórn. Og það gerist ekkert. Við erum að ræða þingmannamál daginn út og daginn inn vegna þess að það er ekkert annað sem liggur fyrir. Ég spyr hæstv. forseta: Er meiningin að stjórna þinginu svona áfram, að það sé frestun og frestun á fundum aftur og aftur og það gerist ekki neitt? Þjóðin bíður eftir því að mál verði leyst og mál komi fram á þinginu sem við getum leyst.



[17:32]
Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Þingfundur átti að byrja kl. 3 síðdegis og það voru níu mál á dagskrá. Ekkert þeirra var þess eðlis að það réttlætti að fundi yrði frestað án nokkurra skýringa og ég hlýt að spyrja virðulegan forseta: Hvað veldur því að þingfundi er ekki haldið áfram svo sem dagskrá þingsins kveður á um? Hvað veldur því að þingfundi er ítrekað frestað án nokkurra skýringa? Ég spyr: Hvenær er meiningin að einhver breyting verði á þessum ítrekuðu frestunum og hvað var meiningin að þingfundur stæði lengi? Við hljótum að krefjast svara varðandi þessi atriði.

Það hefur verið talað um að það skipti höfuðmáli — talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa talað um að það eigi fyrst og fremst að einhenda sér í þau mál sem máli skipti til bjargar heimilunum í landinu. Ég spyr: Hvar eru þau mál? Er það vegna þess að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) er ekki tilbúin með eitt eða neitt sem þingfundi er frestað hér? Það er engin samstaða innan ríkisstjórnarinnar um það að taka þau mál sem máli skipta á dagskrá fundarins.



[17:34]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að harma það að við séum ekki enn þá gengin til dagskrár í dag en ekki síður stíg ég hér upp til að gera við það alvarlegar athugasemdir að milli þess sem forseti þingsins frestar hér fundi kemur forsætisráðherra fram í fjölmiðlum og lýsir því yfir að vegna þess að viðskiptanefnd hafi ekki tekist að afgreiða það sem kalla má „skipulagsbreytingar“ í Seðlabankanum séu brýnar efnahagslegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í uppnámi.

Maður hlýtur að spyrja: Hvaða efnahagsaðgerðir eru það? Hvar eru þær á dagskrá þingsins og hvernig má það vera að menn haldi því fram í fullri alvöru að einhverjar slíkar aðgerðir séu í uppnámi vegna þess að viðskiptanefnd ætlar að taka sér fáeina daga í að fara nánar ofan í mál sem hún er með til umfjöllunar og varða, eins og ég sagði áðan, skipulagsbreytingar og skipurit Seðlabankans? Það er auðvitað stóralvarlegur hlutur að forsætisráðherra (Forseti hringir.) segi við þjóðina að það einfalda mál (Forseti hringir.) komi í veg fyrir efnahagslegar aðgerðir sem eru ekki á dagskrá þingsins.



[17:35]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er auðvitað skemmtan að því að sjá þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma upp og ræða fundarstjórn forseta. Það er á hinn bóginn eðlilegt að þeir geri það því að þetta er óvenjulegur dagur á þinginu. Ástæðan er auðvitað, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson veit af því að hann hefur fylgst með fréttum, sú að það þarf að ná hér tökum á hagstjórn í landinu og það verður ekki gert með öðrum hætti en þeim að skipulagsbreytingar (Gripið fram í.) takist í Seðlabanka Íslands.

Hitt er svo annað hvaða mál eru hér komin fram. Ég hygg að það sé nóg að gera í nefndum hjá hv. þm. Jóni Magnússyni og öðrum þeim sem hér kvarta því að ríkisstjórnin hafi komið fram ýmsum þörfum málum og önnur séu á leiðinni samkvæmt tilkynningum sem um það hafa verið fluttar. Við skulum taka saman höndum um að afgreiða þau mál, en mikilvægast núna í dag er að þær breytingar sem meiri hluti þings og meiri hluti þjóðar er sammála um að þurfi að gera á Seðlabanka Íslands gangi í gegn.



[17:36]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég hefði kosið að fá frekari upplýsingar frá þér en ekki hv. þm. Merði Árnasyni sem hefur tekið sér ákveðið forsetavald og komið með útskýringar hingað upp í pontu. Ég tel rétt og eðlilegt að við þingmenn fáum upplýsingar frá þér, herra forseti.

Það er hins vegar alveg með ólíkindum að mál sem Samfylkingin til að mynda hefur haft á heilanum svo vikum skiptir skuli ekki vera fullbúnara en svo að þingmenn þurfi að skoða það betur. Málið stendur ekki og fellur með tveimur dögum sem menn vilja taka sér í þingnefndinni, í viðskiptanefnd. Að sjálfsögðu ekki. Þess vegna krefjumst við þess að fá tækifæri í þingsal til að ræða þessi brýnu efnahags- og atvinnumál sem Samfylkingin og fleiri eru að tala um, stjórnarflokkarnir. Hvar eru málin? Við viljum fá að ræða þau.



[17:37]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. forseti á alla mína samúð í þessu máli. Hann hefur fengið það erfiða hlutskipti að stjórna þinginu þegar það er þannig að ríkisstjórnin kemur fram með vanbúin mál án þess að geta lagt þau fram með neinum sómasamlegum hætti. Ótal breytingartillögur við þetta frumvarp um Seðlabankann liggja fyrir og þegar þær hafa verið afgreiddar í þinginu liggur aftur fyrir að málið er svo illa undirbúið og illa úr garði gert að það þarf frekari skoðunar við. Það er undarlegt að ríkisstjórnarmeirihlutinn skuli ekki fallast á að gera það og taka í það þessa fáeinu daga.

Aðalatriðið er að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir spurði hæstv. forseta mjög einfaldra spurninga og ég held að það mundi greiða mjög fyrir þingstörfum, eins og oft var hér sagt áður og fyrr, ef reynt yrði að upplýsa með hvaða hætti hugmyndin væri að halda áfram þingstörfum. Og þótt ég meti mikils orð hv. þm. Marðar Árnasonar hefði ég satt að segja kosið að hæstv. forseti mundi svara því fyrir hönd þingsins (Forseti hringir.) hvernig yrði haldið áfram og hvernig yrði háttað þessari vinnu sem þingið vill vinna að mikilvægum málum til að rétta (Forseti hringir.) efnahag þjóðarinnar.



[17:38]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti vakti athygli á því í upphafi þegar fundi var frestað fyrr í dag að ástæðan væri sú að þingflokkar stjórnarmeirihlutans óskuðu eftir því að fá tíma til að vinna að málum og — (ÞKG: Meiri hluta? Minni hluta.) já, stjórnarminnihlutans, stjórnarflokkanna. Þær upplýsingar lágu fyrir. Það kom svo fram í upphafi þessa fundar að ætlunin er að ljúka málum og taka þau fyrir með hefðbundnum hætti á morgun þannig að þessu tvennu sé svarað. Ég tek undir þær fyrirætlanir og það er auðvitað ágætisáminning til okkar allra í þinginu að við ætlum að reyna að nýta tímann vel og koma málum vel áfram. Hver og einn þingmaður verður að hjálpa okkur við það eftir bestu getu.



[17:39]
Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þér fyrir að koma fram með þessar upplýsingar. En það er alveg ótrúleg leiksýning í gangi í þinginu. Maður skilur þetta ekki, það er komið hingað aftur og aftur og þingfundi frestað. Af hverju var ekki þingfundi bara frestað í dag svo almennir þingmenn gætu snúið sér að sínum verkum? Ég bara skil ekki hvað mönnum gengur til með þessu því að ríkisstjórnin er einfaldlega að koma sér í sjálfheldu. Til hvers er verið að dramatísera þetta með þessum hætti? Af hverju er núna ekki hægt að bíða í 2–3 daga eins og Framsóknarflokkurinn hefur óskað eftir, fá niðurstöðu í það mál og vinna eðlileg verk á meðan? Af hverju getum við ekki verið að vinna hérna önnur verk á meðan? Ég skil það ekki.

Ég er tilbúinn til að ganga til allra góðra verka með hæstv. ríkisstjórn, allra góðra verka, og þess vegna er alveg fáránlegt að vera hér heilan dag, gera ekki neitt og geta ekki einu sinni fengið upplýsingar um það að hér eigi ekki að þinga. (Gripið fram í: Jæja.)



[17:40]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kalla eftir upplýsingum um dagskrá þingfundar á morgun, þ.e. hvort fyrirhugað sé að óundirbúinn fyrirspurnatími færist til morgundagsins. Ég skil hæstv. forseta þannig að ekki verði boðað til fundar í dag heldur flytjist hann til morgundagsins.

Að öðru leyti ítreka ég að við þingmenn sem erum hér mætt til fundar erum reiðubúin til að ræða mál sem snerta hag heimilanna og atvinnulífsins í landinu. Það er ekkert að okkar mati sem kemur í veg fyrir að þau mál séu rædd og tekin til afgreiðslu í þinginu og send til nefnda í vinnu en það er greinilegt af fjölmiðlum að forsætisráðherra telur eitthvað því til fyrirstöðu. Hæstv. forsætisráðherra skuldar þjóðinni og þinginu skýringar á því hvað það er í seðlabankamálinu sem er til eðlilegrar meðferðar í viðskiptanefnd sem kemur í veg fyrir að slík mál séu rædd á þinginu. Það er fullkomlega óljóst.



[17:41]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er mjög dapurlegt að við skulum vera að eyða tíma þingsins í svona mál þegar mörg brýn mál liggja fyrir. Mér sýnist að hæstv. forsætisráðherra hafi sett málin í ákveðna pattstöðu með því að skrifa bréf til seðlabankastjóra og biðja hann um að segja upp. Með því bréfi varð Seðlabankinn óstarfhæfur. Nú er einn seðlabankastjóri búinn að segja upp þannig að í rauninni ætti samkvæmt gildandi lögum að auglýsa þá stöðu. Nú eru fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að koma til landsins í vikunni — við hvaða Seðlabanka eiga þeir að tala?

Það er von að það sé mikið bráðræði hjá ríkisstjórninni að keyra málið í gegn og það er þannig að allt annað er stopp, allt sem varðar hag heimilanna, hag fyrirtækjanna, starfsemi bankanna, allt er stopp vegna þess að þetta bréf var sent út sem býr til svona pattstöðu. Ég verð að lýsa yfir miklum áhyggjum af þessu, herra forseti.



[17:43]
Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Það eru alvarlegir hlutir að gerast í þjóðfélaginu. Eðlileg lánastarfsemi liggur niðri, fyrirtækjunum og heimilunum er að blæða út og það er ekkert sem liggur fyrir frá ríkisstjórninni sem skiptir máli sem aðgerðapakki til hjálpar heimilunum í landinu eða fyrirtækjunum. Á sama tíma er fundum Alþingis frestað aftur og aftur án þess að gefnar séu skýringar fyrr en rétt undir það að þingfundi á að ljúka. Miðað við það sem virðulegur forseti sagði áðan í svari við fyrirspurn hv. þm. Bjarna Benediktssonar gat ég ekki skilið annað en að ekki yrðu frekari þingfundir í dag þar sem hann sagði að þau mál sem væru á dagskrá nú yrðu tekin fyrir á þingfundi á morgun. Ég hlýt að ítreka spurninguna um hvort það hafi verið réttur skilningur minn að þá væri verið að fresta fundum Alþingis í dag og að þessi dagur væri þá til ónýtis.



[17:44]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með þeim þingmönnum sem hafa sagt að það er óvenjulegt að þingfundi sé frestað eins og gert var í dag. Um leið verð ég að lýsa undrun minni á því að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hér hafa stigið upp og lýst yfir áhuga sínum á því að ræða efnahagsmál eru hinir sömu þingmenn og lögðu til á fundi viðskiptanefndar í morgun að málefni Seðlabanka Íslands yrði frestað, með öðrum orðum kæmi ekki til umræðu. Þegar maður fer yfir dagskrána er hér um að ræða lykilmál. Eitt lykilmálið sem lýtur að efnahagsmálum er mál er lýtur að Seðlabanka Íslands. Þessir hinir sömu þingmenn og hafa nú komið í pontu og lýst þeirri skoðun sinni að hér sé engin umræða um efnahagsmál lögðu til á fundi viðskiptanefndar í morgun að málinu yrði frestað, það kæmi ekki á dagskrá, það yrði ekki rætt.

Virðulegi forseti. Það er (Forseti hringir.) afar mikilvægt að það sé einhver samfella í málflutningi hv. þingmanna.



[17:45]
Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Það er afar slæmt ef hæstv. forseti hefur fengið ranga mynd af því sem gerðist í hv. viðskiptanefnd í morgun. Það var ekkert um það að ræða að fresta málefni Seðlabankans. Það var einfaldlega um það að ræða að nefndin vildi vinna málið frekar og var að bíða eftir upplýsingum sem von er á um tillögur frá Evrópska seðlabankanum um það hvernig menn þar hugsa sér að haga starfsemi seðlabanka varðandi fjármálastöðugleika á næstunni. Við erum að vinna með frumvarp um Seðlabankann hér í þinginu og ef við látum renna okkur úr greipum slíkt tækifæri til að skoða þær tillögur sem þarna eru og sjá hvort þær geta passað inn í þá vinnu sem við erum að vinna erum við að vanrækja skyldu okkar. Það var einmitt ekki verið að fresta málinu. Nefndin vildi vinna málið frekar.