136. löggjafarþing — 87. fundur
 24. feb. 2009.
staða ríkisbankanna.

[13:32]
Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Mig langar að beina orðum mínum til hæstv. viðskiptaráðherra og ræða við hann um stöðu ríkisbankanna og þau verkefni sem blasa við á þeim vettvangi. Eins og við vitum er endurreisn bankanna eitt mikilvægasta málið sem fram undan er í íslensku atvinnulífi og gagnvart heimilunum í landinu.

Mig langar að forvitnast um það hjá hæstv. viðskiptaráðherra hvenær sé von á nýjum efnahagsreikningum fyrir bankana. Þegar þeir liggja fyrir er betra að gera sér grein fyrir hvernig best er að skipuleggja ríkisbankana til lengri tíma.

Mig langar líka að inna ráðherrann eftir áformum um sameiningu ríkisbankanna. Ég tók eftir því, eins og fleiri, að fyrir helgina var nafni Glitnis breytt til baka í Íslandsbanka. Menn hafa farið í markaðsherferð til að kynna þetta nýja nafn, Íslandsbanki. Mig langar af því tilefni að heyra hvort það hafi verið ráðgert að reyna að sameina þessa banka með einhverjum hætti í stað þess að fara í slíka vinnu núna vegna þess að það liggur fyrir að það er ærið verkefni fyrir okkur að reka þrjá ríkisbanka og raunar engin sérstök rök fyrir því að þeir eigi að vera þrír. (Gripið fram í.)

Eins langar mig til að vita hvort menn hafi hugsað frekar um aðkomu erlendra kröfuhafa að íslensku bönkunum. Við vitum að það hefur verið rætt sérstaklega hvað varðar Kaupþing. Eru einhver áform uppi af hálfu ráðherra að þessu leyti? Jafnframt vildi ég spyrja ráðherrann um sameiningarmálin. Hefur verið tekin einhver ákvörðun um það? Hefur verið einhver vinna í gangi varðandi erlenda kröfuhafa og hvenær er hægt að vænta þess að einhver niðurstaða eða áform um það muni liggja fyrir af hálfu hæstv. viðskiptaráðherra?



[13:34]
viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Því er til að svara að ekki liggur fyrir nákvæm tímasetning um það hvenær nýir efnahagsreikningar fyrir nýju bankana liggja fyrir. Það hefur tafist aðeins þannig að ég vona að það gerist sem fyrst og jafnframt verði þá hægt að ganga frá öðrum málum, m.a. uppgjörinu á milli gömlu og nýju bankanna og framlagi ríkisins eða Seðlabankans á eigin fé inn í nýju bankana en ég get því miður ekki lofað neinni sérstakri dagsetningu hvað það varðar.

Hvað varðar sameiningu bankanna hefur engin ákvörðun verið tekin um það en hins vegar blasir við að umsvif í bankakerfinu hafa minnkað það mikið frá því sem var allt fram á síðasta haust að bankarnir eru eiginlega of margir eða of stórir þannig að það verður með einhverjum hætti að taka á því máli. Það verður reyndar að skoða það í samhengi, ekki bara við bankana þrjá heldur einnig aðrar fjármálastofnanir, sparisjóði og aðrar minni fjármálastofnanir. Ég sé fyrir mér að þegar framtíðarskipulag íslenska fjármálakerfisins verður dregið upp muni felast í því einhver fækkun bankastofnana frá því sem nú er en það hefur hins vegar engin ákvörðun verið tekin um það nákvæmlega hvernig hún yrði.

Hvað varðar það að hér séu þrír ríkisbankar, eða jafnvel fleiri ef við teljum með sjóði í eigu ríkisins, get ég alveg sagt að ég sé það ekki fyrir mér sem framtíðarfyrirkomulag þannig að það hlýtur að koma að því að við reynum að draga úr umsvifum ríkisins á þeim markaði.

Aðkoma erlendra kröfuhafa er ein af þeim hugmyndum sem verið er að skoða. Ég tel að það væri mjög jákvætt ef hægt væri að koma því við að erlendir kröfuhafar eignuðust einhverja hlutdeild, að minnsta kosti í einhverjum bankanna (Forseti hringir.) en það er ekki frágengið.



[13:36]
Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og jafnframt vil ég að það komi fram að af hálfu sjálfstæðismanna er mikill stuðningur fyrir því að menn leiti leiða til að efla bankakerfið sem nú hefur lent í miklum vanda eins og við þekkjum. Við sjálfstæðismenn teljum að þetta sé mjög brýnt og munum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að svo megi verða. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. viðskiptaráðherra leiti allra leiða til að sameina fjármálastofnanir. Það er alveg rétt að það eru fleiri stofnanir en þessir þrír ríkisbankar sem hægt er að horfa til. Ég held að við þyrftum að fá svör við því eins fljótt og auðið er hvernig menn sjá fyrir sér framtíðarfyrirkomulag á bankastarfsemi í landinu. Enn fremur finnst mér við þær aðstæður sem nú eru mjög brýnt að menn líti með mjög opnum huga til þess að erlendir kröfuhafar komi inn í bankana og við fáum erlent eignarhald inn í bankana. Ég held að það muni styrkja íslenskt fjármálakerfi til muna. Ég vil því hvetja hæstv. viðskiptaráðherra til að koma þeirri vinnu af stað eins fljótt og auðið er.



[13:38]
viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Ég held að ég þurfi ekki að hafa þetta mjög langt því að ég var í grundvallaratriðum sammála þingmanninum. Það er alveg augljóst að til að greiða úr þeim flækjum sem mynduðust við hrun bankanna þarf auðvitað að gera margt og eitt af því er að teikna upp framtíðarskipulag á þessum markaði. Við getum í rauninni ekki lokið vinnu við uppgjör gömlu bankanna og stofnsetningu þeirrar nýju nema við séum með einhverja framtíðarsýn um það hvernig þessi markaður þróast þegar ríkið skilar smám saman þessum stofnunum að mestu eða jafnvel öllu leyti til einkageirans. Þetta er því eitt af þeim verkefnum sem ég og ráðuneytið munu augljóslega horfa til þó að það geti verið einhver ágreiningur um það nákvæmlega hvernig að þeim málum verður staðið og hversu mikil hlutdeild ríkisins verður á þessum markaði næstu missirin.