136. löggjafarþing — 87. fundur
 24. feb. 2009.
skuldbreyting húsnæðislána.

[13:39]
Eygló Harðardóttir (F):

Hæstv. forseti. Skuldir eru að sliga íbúa landsins. Daglega berast fréttir af erfiðleikum fólks við að halda íbúðarhúsnæði sínu og greiningarfyrirtæki áætla að tíu fyrirtæki verði gjaldþrota dag hvern.

Morgunblaðið fjallar um vanda húseigenda í morgun í framhaldi af skýrslu ASÍ um skuldir heimilanna. Þar kemur fram að eigið fé margra húseigenda er upp uppurið eða neikvætt og greiðslubyrði hafi þar að auki þyngst gífurlega. Því er ekkert skrýtið að manni bregði við þegar hæstv. félagsmálaráðherra, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, lýsir því yfir í svari sínu við fyrirspurn hv. þm. Helgu Sigrúnar Harðardóttur um gengistryggð lán að ekki sé tímabært að bregðast við með skuldbreytingu lána eða afskriftum þó að gengistryggð lán heimilanna hafi hækkað ákaflega mikið sem og verðtryggð lán.

Ég spyr: Hvenær er tímabært að bregðast við með skuldbreytingu lánanna eða hreinum afskriftum þegar fjöldi Íslendinga hefur misst húsnæði sitt eða þegar enn fleiri hafa misst atvinnuna?

Í gær kynnti forusta Framsóknarflokksins tillögur um niðurfellingu húsnæðislána. Í henni leggjum við til að öll húsnæðislán verði færð frá bönkunum til Íbúðalánasjóðs miðað við þá afskrift sem varðar lánasöfnun við flutninginn frá gömlu bönkunum til nýju bankanna. Skylda okkar er umtalsverð. Íbúðalánasjóður veitir síðan flata 20% niðurfellingu skulda vegna allra húsnæðislána hjá sjóðnum og þannig verður tryggt jafnræði milli þeirra sem áttu húsnæðislán hjá bönkunum og Íbúðalánasjóði. Það byggist á því að gömlu bankarnir fengu lánasöfn gömlu bankanna með verulegum afslætti og erlendir kröfuhafar eru í langflestum tilvikum búnir að afskrifa nánast allar sínar eignir í gömlu íslensku bönkunum. Við teljum að ef þeir skuldsettu mundu ná sér aftur á strik væri von til að fá jafnvel eitthvað upp í þessar skuldir. Jafnframt er mikilvægt fyrir óskuldsett eða lítið skuldsett heimili að vandamálið færist ekki yfir á þau með lækkandi fasteignaverði og almennri verðhjöðnun.

Því ítreka ég spurningu mína til hæstv. félagsmálaráðherra: Hvenær verður tímabært að bregðast við með skuldbreytingu lánanna eða hreinum afskriftum? Hver ætlar að setjast í dómarasæti um hver eigi rétt á að fá niðurfellingu og hver ekki?



[13:41]
félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir þessa fyrirspurn. Hún vitnar í svar sem ég gaf hv. þm. Helgu Sigrúnu Harðardóttur skriflega á dögunum og fréttir hafa borist af þar sem segir og tekið er út úr svarinu að ekki sé tímabært að bregðast við skuldbreytingu gengistryggðra lána í afskriftum. Í fyrirsögn á þessari frétt er svolítið snúið út úr svari mínu þannig að hv. þingmaður sér það nú þegar hann les í gegnum svarið að í fyrirsögn kemur ekki alveg afstaða þeirrar sem hér stendur til þessa málaflokks. Þegar við metum hvaða leiðir skuli farnir til að bregðast við þessum skuldum þarf að gæta að jafnréttissjónarmiðum og hafa þau að leiðarljósi.

Það eru tvenns konar flokkar af lánum sem þarna eru til umræðu og þetta eru margþætt vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Það eru annars vegar gengisbundnu lánin og síðan verðtryggðu lánin. Það þarf að gæta fulls jafnræðis milli lántakenda þannig að einum hópi sé ekki hyglt umfram annan. En þessi mál eru á verksviði annars ráðuneytis heldur en míns, þ.e. viðskiptaráðuneytisins, en ég veit að þar er unnið hörðum höndum að því að leysa þau. Það er mjög mikilvægt að vanda til verka og stíga varlega til jarðar þegar þessi mál eru afgreidd en ég verð að vísa frekari útfærslum til hæstv. viðskiptaráðherra sem þessi málaflokkur heyrir undir.



[13:43]
Eygló Harðardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við hefðum kannski átt að skipta á ráðherrum strax í upphafi eins og tilkynnt var í byrjun. En ég vil hvetja hæstv. viðskiptaráðherra til að skoða tillögur okkar framsóknarmanna varðandi niðurfellingu á skuldum og sérstaklega af því að það tengist stofnun sem er undir félagsmálaráðuneytinu, þ.e. Íbúðalánasjóði. Ef ég fer aðeins nánar út í hugmyndir okkar þá sjáum við ekki fyrir okkur að þetta feli í sér umtalsverð útgjöld fyrir ríkið en með þessu er verið að gera upp tap erlendra kröfuhafa í bönkunum. Hins vegar viðurkennum við að ríkið gæti þurft að kaupa fasteignalán með afslætti af lífeyrissjóðum og sparisjóðum til að setja inn í Íbúðalánasjóð til að tryggja jafnræði fasteignalánanna og lántakanna.

Sparisjóðirnir eru hins vegar þegar í samstarfi við Íbúðalánasjóð og hafa sumir selt sjóðnum fasteignalán sín. Kostnaður við þetta, að okkar mati, nemur um 10% af því sem ætlunin er að eyða í endurfjármögnun bankanna. Væri áhugavert að heyra frá hæstv. félagsmálaráðherra hvernig henni líst á þessar hugmyndir.



[13:45]
félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan heyrir málaflokkurinn undir hæstv. viðskiptaráðherra. Aftur á móti heyra málefni Íbúðalánasjóðs undir félags- og tryggingamálaráðuneytið. Ég hef svo sem skoðað þann þátt sem varðar lán heimilanna sem snúa að Íbúðalánasjóði en mér hefur ekki gefist tóm til að skoða tillögur Framsóknarflokksins. Þær komu fram í gær og ég vil aftur vísa til hæstv. viðskiptaráðherra sem er að vinna að þessum málum. Ég efast ekki um að hann muni skoða allar þær leiðir sem komið hafa fram og snúa að því hvernig hægt er að bregðast við til að verja heimilin. Það er mjög mikilvægt og ég veit að hæstv. viðskiptaráðherra er með slíka vinnu í gangi og hefur verið í samráði við bankana, Íbúðalánasjóð og félags- og tryggingamálaráðuneytið í þeirri vinnu. Ég geri ráð fyrir að tillögur komi þaðan á næstunni.