136. löggjafarþing — 87. fundur
 24. feb. 2009.
fullgilding Árósasamningsins.

[13:46]
Mörður Árnason (Sf):

(Utanrrh.: Má ég spyrja hæstv. ráðherra?) Forseti. Það væri ágætt að ráðherrarnir spyrðu hver annan, því það hefði mikið skemmtigildi hér í þinginu ef sá liður væri tekinn upp.

Úr því að færi gefst langar mig til að spyrja hæstv. umhverfisráðherra um ákaflega gleðilega yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um gildistöku Árósasamningsins, hvernig hann hefur verið undirbúinn og hvort, sem ég geri mér ekki grein fyrir, (Utanrrh.: Málið er ...) hægt er að — já, þá kemur bara hæstv. utanríkisráðherra hér á eftir, forseti, og bætir við. Ég tel nú að þótt báðir ráðherrar hafi mikið vit á þessu máli beri umhverfisráðherra ábyrgð á málaflokknum sem slíkum þó að utanríkisráðherra geri vissulega samningana í nafni forseta Íslands, ég minni á það að utanríkisráðherra (Gripið fram í.) gerir þá í nafni forseta Íslands og íslensku þjóðarinnar.

Það sem ég ætlaði að ræða hér — ef ég kemst að, hæstv. forseti, fyrir málgleði hæstv. utanríkisráðherra — var það að Árósasamningarnir eru ekki einfalt mál. Er rétta leiðin að samþykkja þá hér á þinginu eða þarf áður að renna í gegn þeim lagabreytingum sem nauðsynlegar eru og komu fram í mikilli skýrslu sem unnin var á vegum ýmissa ráðuneyta, undir forustu embættismanns úr umhverfisráðuneytinu, á síðasta kjörtímabili? Í hvaða röð er þetta gert og hvernig má vænta þess að gangurinn verði við þessa — og ég endurtek — ánægjulegu ákvörðun hinnar nýju ríkisstjórnar?



[13:48]
umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hélt að við hæstv. utanríkisráðherra ætluðum að fara hér saman í ræðustólinn en hann guggnaði greinilega á síðustu metrunum.

Ég vil þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir fyrirspurnina. Ég er jafnglöð og hann yfir því að ríkisstjórnin skuli nú hafa tekið þá ákvörðun að Árósasamningurinn verði fullgiltur á Íslandi. Fullgilding þýðir að hann verði að fullu leiddur í lög og það er ekki fyrr en við höfum gert þær lagabreytingar sem samningurinn krefst að við getum fullgilt hann. Við undirrituðum samninginn 1998 þegar hann var alveg glænýr, ég held að ég muni það rétt að hæstv. þáv. umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir hafi undirritað hann. Einu sinni hefur verið komið með þingsályktunartillögu hingað í þingsali og þá af hæstv. þáverandi utanríkisráðherra Halldóri Ásgrímssyni, sem lagði til að þingið staðfesti þá undirritun. Nú er svo komið að í sjálfu sér þarf ekki neina slíka þingsályktunartillögu lengur, það þarf bara að leiða í lög þá þriðju stoð sem enn hefur ekki verið leidd í lög á Íslandi og varðar aðkomu eða möguleika einstaklinga og félagasamtaka á réttlátri málsmeðferð í málum er varða umhverfið. Tvær leiðir eru færar í þeim efnum, annars vegar stjórnsýsluleið svokölluð, þ.e. í gegnum úrskurðarnefndir eða stjórnsýslunefndir, og hins vegar í gegnum dómstóla, þ.e. að opna fólki og félagasamtökum greiða leið að dómstólunum.

Í skýrslu sem gefin var út í september 2006 er nákvæmlega lýst á hvern hátt þessar lagabreytingar sem eftir er að gera þurfa að vera. Nú höfum við komið okkur saman um það, ég og hæstv. ráðherrar utanríkismála og dómsmála, að þrír lögfræðingar, einn úr hverju þessara þriggja ráðuneyta, verði settir í að gera frumvörpin klár. Þau verði að öllum líkindum blanda af þessum tveimur leiðum. Að einhverju marki getum við farið stjórnsýsluleiðina en síðan er ljóst að við þurfum að (Forseti hringir.) opna dómstólana og það verður gert með sjálfstæðum frumvörpum.



[13:50]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra skýr svör við þessari óundirbúnu fyrirspurn og ég hygg að kannski sé ekki hægt að ætlast til að við þingmenn fáum fleiri svör þar til frumvörpin koma fram. Það er ekki um það að ræða að hér komi þingsályktunartillaga um staðfestingu heldur einstök mál.

Þetta er ákaflega gleðilegt og sýnir hver árangurinn er af því að koma Sjálfstæðisflokknum út úr Stjórnarráðinu, því hann hefur í öll þessi 18 ár sem hann hefur setið þar, fram til þessa dags eða fram til þessa mánaðar, staðið á móti staðfestingu þessa sáttmála af einhverjum dularfullum ástæðum. Nánast allir flokkar aðrir hafa reynt að koma þessu á og má minna á að fyrsta staðfestingartillagan kom frá Halldóri Ásgrímssyni, fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins. Það verður ánægjulegt fyrir þá þingmenn sem eru hér í salnum að koma þessu máli í gegn, sem er mikið framfaramál í umhverfismálum og almennum stjórnmálum og félagsmálum á Íslandi.



[13:51]
umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir orð þingmannsins. Nú leggjum við allt kapp á það að klára að vinna þessi frumvörp í ráðuneytunum. Ég mun standa vaktina í þeim efnum og vona og treysta því að þess verði ekki langt að bíða að þau verði lögð hér fram.

Af því að Sjálfstæðisflokkurinn og þvermóðska hans gagnvart þessu máli sérstaklega er nefnd langar mig til að nefna hér eitt mál sem við munum eftir, þegar ákvæðum í lögum um gjafsókn var breytt fyrir örfáum árum þannig að möguleikar fólks á því að komast að dómskerfinu í gegnum gjafsókn voru þrengdir. Ég man númerið á greininni sem felld var niður, 126. gr., b-liður, og það var kappsmál sjálfstæðismanna á sínum tíma að gera það og það fór í gegn sem lög frá Alþingi. Ég lagði hins vegar fram breytingartillögu við það mál og kem til með að vinna að því áfram að gjafsóknarákvæðin verði rýmkuð og tel að innleiðing Árósasamningsins hafi í för með sér að þau verði að rýmka. Sömuleiðis hef ég heyrt að þingmenn hugleiði jafnvel möguleikann á að flytja tillögur um þessa rýmkun nú þegar á þessu þingi, jafnvel einhvern tíma á næstu dögum þannig að ég lít svo á að á næsta leyti sé líka að rýmka gjafsóknarákvæðin sem ég tel að verði til mikilla bóta.