136. löggjafarþing — 88. fundur
 25. feb. 2009.
skattamál.
fsp. REÁ, 294. mál. — Þskj. 520.

[14:10]
Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. fjármálaráðherra. Ég bíð eins og aðrir í ofvæni eftir því að sjá aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu sem lítið bólar á. Meðan ekkert liggur fyrir lifir almenningur í óvissu og á erfitt með að gera áætlanir sínar til lengri eða skemmri tíma. Ein óvissan sem uppi er að mínu mati varðar áform ríkisstjórnarinnar um skattheimtu. Við núverandi efnahagsaðstæður er eðlilegt að leitað sé allra leiða við að draga úr útgjöldum ríkisins og endurskoða tekjupósta þar. Það er eðlilegt, en það skiptir ákaflega miklu máli við þessar aðstæður hvernig það er gert.

Þegar áætlanir venjulegs fólks eru í uppnámi vegna hækkandi lána og lækkandi launa er mikilvægt að stjórnvöld auki ekki á óvissuna. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra aðeins um fyrirætlanir hans í skattamálum. Ég beini sjónum mínum sérstaklega að hinum svokallaða, reyndar oft ranglega nefndur svo, hátekjuskatti. Ég tek strax fram hér í upphafi til að forðast allan misskilning að áhyggjur mínar beinast fyrst og síðast að venjulegu vinnandi fólki, venjulegum skattgreiðendum. Fólk hefur gert skuldbindingar, m.a. í húsnæðismálum, miðað við þær tekjur sem það hefur og því slæmt að hafa yfirvofandi skattheimtu í óvissu. Þegar hinn svokallaði hátekjuskattur var afnuminn hér á landi árið 2006 var hann allt annað en hátekjuskattur og lagðist á tekjur fólks yfir 350.000 kr. Þetta var vondur skattur og vinnuletjandi og bitnaði ekki síst á ungu fólki, barnafjölskyldum, fólki sem vann mikið, oft tímabundið, við að koma sér þaki yfir höfuðið. Framkvæmdin var líka með þeim hætti að skatturinn var greiddur eftir á þannig að sveiflur í launum milli ára eða tímabundnar launabreytingar gátu komið illa við fólk. Fólk greiddi skattinn ári síðar þegar launin höfðu kannski lækkað mikið og þetta kom sér oft illa.

Hæstv. fjármálaráðherra var fyrr í vetur einn flutningsmanna frumvarps sem hafði það að marki að leggja þrepaskipt álag á hærri tekjur, sem sagt var markmiðið að koma hér aftur á hátekjuskatti í gegnum fjölþrepaskattkerfi. Þannig liggur það fyrir að ráðherranum hugnast þessi leið afar vel.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í Morgunblaðinu þann 4. febrúar sl. að við skattahækkanir sem hugsanlega gætu orðið af hálfu þessarar ríkisstjórnar þyrfti fólk með meðaltekjur ekki að óttast að settur yrði á hátekjuskattur sem miðaðist við einhverjar lágar tekjur. Þetta var allt reyndar mjög óljóst. Forsætisráðherrann skilgreindi ekki frekar hvað fælist í meðaltekjum, reyndar ekki heldur hvað fælist í lágum tekjum eða háum ef því er að skipta. Formaður Samfylkingarinnar sagði á hinn bóginn fyrir jól að hátekjuskattur væri fyrst og síðast táknrænn skattur sem gæfi ekki mikið í aðra hönd, væntanlega vegna þess að tekjumörkin þurfa að vera það lág til að skatturinn fari að gefa af sér þær tekjur sem um munar. Þetta stangast allt saman á og þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort hann geti útskýrt þetta betur fyrir mér og greint mér frá fyrirætlunum sínum og flokks hans í þessum efnum.

Fyrirspurn mín til fjármálaráðherra er:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að lagður verði á svokallaður „hátekjuskattur“? Ef svo er, hver verða tekjumörkin og hvað er áætlað (Forseti hringir.) að slíkur skattur skili ríkissjóði miklum tekjum?



[14:13]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er athyglisvert að hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir spyr hér fjármálaráðherra og virðist hafa mestar áhyggjur af því hvort til standi að leggja á svokallaðan hátekjuskatt. Hv. þingmaður gerir sér væntanlega ljóst að áralöng óstjórn í efnahagsmálum og fjármálum þjóðarinnar, undir forustu Sjálfstæðisflokksins, hefur leitt yfir þjóðina miklar efnahagslegar hörmungar og niðursveiflu í efnahagsmálum sem á sér vart fordæmi, a.m.k. ekki á Norðurlöndum. (Gripið fram í.) Hluti af þessu hruni efnahagslífsins er auðvitað þess eðlis að hann kemur niður á sameiginlegum sjóðum landsmanna með hundruð milljarða króna skuldaaukningu ríkissjóðs, gríðarlegum útgjöldum og vaxtakostnaði sem getur orðið af stærðargráðunni 100 milljarðar króna á einhverra ára bili. Þessi reikningur er áfallinn, það er búið að leggja á þessa skatta og það er efnahagsóstjórn og efnahagshrun sem umfram alla aðra flokka er ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sem leggur á þennan skatt.

Hann er staðreynd vegna þess að þessa hluti mun þurfa að borga. Og hvernig á að gera það? Þessir skattar eru sannarlega arfleifð frá fyrri ríkisstjórn, það er verkefni þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að reyna að greiða úr þessum málum og bjarga samfélaginu í gegnum veturinn. Að sjálfsögðu tekur hún ekki ákvarðanir í skattamálum á öndverðu fjárlaga- og skattaári, hún situr í 80 daga eða hvað það nákvæmlega verður. Það bíður hins vegar ríkisstjórna á komandi árum að leysa úr þessum gríðarlega vanda og afla ríkinu tekna til að standa undir samneyslunni, velferðarþjónustunni — og borga skuldirnar sem Sjálfstæðisflokkurinn skilur eftir sig. Ef einhver kann betri ráð til þess en m.a. þau að reyna að afla einhverra tekna með sanngjörnum og réttlátum hætti þannig að þeir borgi sem eitthvað hafa til að borga með lýsi ég eftir því.

Það er alveg á hreinu að áherslur þessarar ríkisstjórnar í skattamálum verða ekki þær sem Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrir á veltiárunum, að dekra sérstaklega við best setta fólkið, tekjuhæsta fólkið. Er það virkilega þannig að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi hér ekkert annað til að hafa áhyggjur af en tekjuhæsta fólkið í landinu? (Gripið fram í.) Það liggur í þessari fyrirspurn að þar liggi áhyggjur Sjálfstæðisflokksins, ekki af lágtekjufólki, ekki af atvinnulausum, nei, af þeim sem eru svo vel settir að hafa fulla atvinnu og góðar tekjur.

Málið stendur einfaldlega þannig að breytingar á skattamálum eru ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar af augljósum ástæðum. Það verður verkefni nýrrar ríkisstjórnar. Hins vegar er undirbúningur undir fjárlög næsta árs og ríkisfjármálaramma til meðallangs tíma í verkefni núverandi ríkisstjórnar vegna þess að það þarf að undirbúa. Hefðbundinn fjárlagaundirbúningur er að sjálfsögðu í gangi.

Þá þarf að leita leiða til þess að brúa gríðarlegt bil milli tekna og gjalda ríkissjóðs sem við stöndum frammi fyrir. Skildi ekki ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins eftir fjárlög fyrir þjóðina með 150 milljarða króna halla? Jú, ef ég man rétt. Ætla menn að reka þetta lengi þannig? Hvernig endar það? Það endar þannig að vaxtakostnaður drekkir samfélaginu, drekkir ríkinu, ef það rekur sig með halla af þessari stærðargráðu endalaust. Það væri sama útkoma og kom út úr því að reka viðskipti Íslands við útlönd með dúndrandi viðskiptahalla á löngu árabili. Það þarf nefnilega alltaf að borga slíka reikninga að lokum, það verða einhverjir að gera það.

Það skal vera algerlega á hreinu að ef ég fer höndum um það á næsta kjörtímabili hvernig þessum byrðum verður dreift verður reynt að gera það á félagslegan og sanngjarnan og réttlátan hátt. Ég tek undir þau orð forsætisráðherra að að sjálfsögðu er markmið að hlífa fólki með lágar tekjur og meðaltekjur eins og kostur er. Hvað þýðir það? Væntanlega þá að þeir sem eru best settir leggja meira af mörkum. Það er félagslega réttlátt, sanngjarnt, samábyrgt fyrirkomulag í anda þess besta sem þekkist á norræna vísu. Og að slíku munum við vinna.

Vonandi hefur þetta svarað spurningunni. Á 80 daga starfstíma þessarar ríkisstjórnar verða ekki lagðir á nýir skattar en það er augljóst mál að það verkefni bíður nýrrar ríkisstjórnar (Forseti hringir.) að takast á við þessa hluti og með vorinu verða þeir hlutir orðnir útfærðir og sá sem hér stendur í sporum (Forseti hringir.) fjármálaráðherra, hver sem það verður þá, getur þá gefið fyllri svör.



[14:19]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir snarpa og góða ræðu. Nú er það svo, þó að menn tali öðruvísi, að íslenska tekjuskattskerfið er í mörgum þrepum. Það er í raun og veru síþrepakerfi vegna þess að persónuafslátturinn sér til þess að hin raunverulega prósenta af heildartekjum er lægst hjá þeim sem hafa lægstar tekjur, en þó yfir skattleysismörkum, og hæst á þá sem hafa hærri tekjur og fer stigvaxandi. Það sem skiptir miklu máli í þessu er þess vegna upphæð persónuafsláttarins. Ef persónuafslátturinn er lágur verður skattinnheimtan þannig að hinir hæstu borga lægri prósentu en ella væri ef hann er hár. Það sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði á sínum 18 árum í fjármálaráðuneytinu var að lækka alltaf persónuafsláttinn þannig að ekki var eingöngu um það að ræða að hinn svonefndi hátekjuskattur væri afnuminn heldur var skatturinn lækkaður á hátekjumönnum með þeim hætti. Ég tel að hátekjuskattur komi til (Forseti hringir.) greina sem ein ráðstöfunin í okkar efnum en þá verður það að vera í heiðri að það sé raunverulegur hátekjuskattur (Forseti hringir.) og ekki skattur á meðaltekjur eins og hv. fyrirspyrjandi tók reyndar fram hér.



[14:20]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hreinskilið svar. Það fór ekki fram hjá neinum sem á þetta hlustaði að hann lofaði hátekjuskatti og skattahækkunum, bæði fyrir hönd Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, ef þeir fengju tækifæri til þess eftir kosningar og það ber að þakka slíka hreinskilni.

Það er líka rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni, að skattkerfið sem við höfum núna er stighækkandi. Það þýðir að eftir því sem menn hafa hærri tekjur greiða þeir hærra hlutfall. Það er þetta samspil prósentunnar og persónuafsláttarins sem gerir það að verkum. Vandinn við það, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að setja fleiri þrep, eins og hátekjuskattinn, er sá að það eykur mjög hættuna á jaðaráhrifum. Menn töluðu áður um jaðarskatta og það var mjög áberandi í kosningabaráttunni, t.d. 1995, vegna þess að menn töpuðu hreinlega á því að hækka í tekjum og kom það mjög illa niður á ungu fólki, sérstaklega ungu fólki með miklar skuldir. Það er alveg ljóst að ef menn (Forseti hringir.) ætla að fjölga skattþrepum þá er sú hætta fyrir hendi, en það er búið að lofa þessum skatti eins og hér hefur komið fram.



[14:21]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það er greinilegt að það er tungunni tamast sem er hjartanu kærast hjá hæstv. fjármálaráðherra sem lýsti því hér yfir að framtíðarstefna hans og flokks hans og þessarar ríkisstjórnar inn í næsta kjörtímabil sé að hækka skatta. Því var þó lýst yfir að þetta væri slíkt stórmál að ríkisstjórn sem ætlar að sitja í 80 daga mundi ekki ráðast í skattahækkanir fyrir kosningar þó svo að hún ætli að ráðast í miklar breytingar á stjórnarskránni og í rauninni að endurskrifa stjórnskipulagið sem er auðvitað ekki minna mál.

Ég hef áhyggjur af því að heimilin í landinu ráði ekki við skattahækkanir. Það er rétt að hér hefur orðið efnahagshrun en þegar við horfum upp á háa vexti, háa verðbólgu, lækkun launa, atvinnuleysi, hrun krónunnar og fleira slíkt þá held ég að stjórnvöld ættu að forðast að stíga það skref að hækka (Forseti hringir.) skatta á fólkinu í landinu og taka enn hærra hlutfall launa þeirra í sína vörslu en þau gera nú þegar.



[14:23]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég verð að segja eins og er að mér finnst það býsna vogað af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega frjálshyggjumönnunum tveimur, sem töluðu á undan mér, hv. þingmönnum Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Sigurði Kára Kristjánssyni, að tala um skattamál í þessu umhverfi. Það er eins og þeir hafi ekki áttað sig á að það er gjaldþrot efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins að kenna að við stöndum í þessum sporum. Eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði hér í afarsnarpri ræðu hefur sú efnahagsstefna og sú skattastefna gert það að verkum að við stöndum í þessum sporum núna. Vaxandi ójöfnuður hefur átt sér stað í íslensku samfélagi undir stjórn Sjálfstæðisflokksins á síðustu 18 árum og einhver þarf að borga, við vitum það. Við vitum að einhver þarf að borga. Það er ekki hægt að koma upp í ræðustól Alþingis og ætla núna í aðdraganda prófkjöra að gera allt fyrir alla. Það er einfaldlega ekki hægt. (Gripið fram í.) Þetta snýst um að breyta þarf skattkerfinu, taka upp þrepaskipt skattkerfi og hækka persónuafsláttinn. (Forseti hringir.) Það er eina leiðin til að jafna skatta á milli þeirra sem meira hafa milli handanna og hinna sem hafa minna.



[14:24]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að við ræðum skattamál og ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra í því að það er verk næstu ríkisstjórnar að móta langtímastefnu í skattamálum. Ég vil hins vegar minna ágæta sjálfstæðismenn á það, sem koma hér upp sem boðberar skattalækkunar, að í valdatíð þeirra hefur samneyslan aukist ár frá ári. Skattar á fólk og fyrirtæki hafa þannig almennt verið að hækka. Ríkið hefur verið að taka til sín meira í samneysluna en ekki öfugt. (Gripið fram í.) Sjálfstæðismenn geta ekki komið hér upp sem boðberar skattalækkana ef við horfum á þau verk sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir á umliðnum 18 árum. (Gripið fram í.) Samneyslan hefur verið að aukast ár frá ári og um það verður ekki deilt. Framsóknarflokkurinn er ekki Sjálfstæðisflokkurinn. Framsóknarflokkurinn er ekki endilega á móti lítilli samneyslu en hins vegar verða sjálfstæðismenn að átta sig á því að þeir hafa verið að auka samneysluna (Forseti hringir.) á undangengnum árum. Þeir hafa verið að auka við báknið en ekki minnka það þvert á stefnu Sjálfstæðisflokksins.



[14:25]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það sér algjör óþarfi fyrir stjórnarliða að vera viðkvæmir fyrir því þó að spurt sé um skattamál á hinu háa Alþingi. Við skulum minnast þess að það kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þeirrar sem nú situr, að hún ætli sér að fara í skattahækkanir. Það er fullkomlega eðlilegt að spyrja hver meiningin sé með því en það væri jafnframt gott fyrir þingmenn og aðra þjóðfélagsþegna að fá upplýsingar og skilgreiningar á því hvað eru háar tekjur og hvað eru millitekjur. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi skautað býsna létt í gegnum svörin við þessu þegar einfaldlega var verið að spyrja um hvað ríkisstjórnin eigi við þegar hún talar um að hún ætli að hækka skatta. (MÁ: Hún hefur ekkert talað um það.) Það kom að vísu loksins fram (Forseti hringir.) núna að hún ætli ekki að gera það á þessu kjörtímabili heldur strax eftir kosningar.



[14:27]
Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin svo langt sem þau ná. Ég fékk frekar gamla góða ræðu frá hæstv. ráðherra sem ég hef heyrt áður og svaraði kannski ekki spurningunni beint. Ég tók það sérstaklega fram í fyrirspurn minni til að forðast allan misskilning, og kannski til að forðast að fá þá ræðu frá hæstv. ráðherra sem ég svo fékk, að ég er að hugsa um hag venjulegs vinnandi fólks, fólks sem vinnur baki brotnu við að koma sér upp þaki yfir höfuðið og hefur, hvort sem það er varanlega eða tímabundið, tekjur yfir einhverjum ákveðnum mörkum. Það kemur sér mjög bagalega fyrir þetta fólk, sem lendir kannski í því núna að missa vinnu, missa tekjur og lækka í launum að nú sé líka yfirvofandi skattahækkun.

Hæstv. fjármálaráðherra tók af allan vafa um það að sú ríkisstjórn, sem nú á eftir 60 daga í starfi, ætli að beita sér fyrir skattahækkunum og ég fagna því. En það liggur líka fyrir og hv. þm. Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, staðfesti það að Samfylkingin væri tilbúin til að beita sér fyrir hátekjuskatti, fá hún umboð til, og hæstv. fjármálaráðherra gerði það líka. Það er ágætt, það liggur þá fyrir að þetta er sú leið sem þessir flokkar mundu beita sér fyrir eftir kosningar.

Mig langar til að ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra af því að mér fannst henni ekki svarað: Hverjar telur ráðherra að séu lágar eða meðaltekjur? Það er mjög mikilvægt að kjósendur viti þetta vegna þess að það sem ég hafði eftir hæstv. forsætisráðherra í fyrri ræðu minni: „Við munum vissulega standa þannig að málum að fólk með meðaltekjur þurfi ekki að óttast að settur verði á hátekjuskattur sem miðast við einhverjar lágar tekjur.“ Þetta er allt mjög óljóst og ég mundi gjarnan vilja að hæstv. ráðherra svaraði þessu fyrir sinn hatt.



[14:29]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég get m.a. svarað þannig að 70 milljónir kr. á mánuði eru háar tekjur þegar Ísland átti tekjuhæsta mann Norðurlanda (REÁ: En er það táknrænt? Ég var að spyrja um stefnu þína.) en bjó um hann í sérstakri skattabómull sem Sjálfstæðisflokkurinn bauð upp á. Hvað gerði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) fyrir áramótin? Hún hækkaði tekjuskatt og útsvar samtals flatt um 1,5%. (REÁ: Til að koma í veg fyrir jaðaráhrif.) Var það ekki vegna erfiðleikanna? Var það ekki vegna hallans á ríkissjóði? Var það ekki til þess að reyna að minnka gatið? Skattkerfið flattist hér út í tíð Sjálfstæðisflokksins þótt reyndar væri hátekjuskattur þar við lýði sennilega fyrstu 10, 12 árin af tæplega 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn kvartaði undan því að viðmiðunarmörkin væru of lág, þetta væru ekkert háar tekjur. Hann hækkaði ekki viðmiðunarmörkin. Nei, hann afnam skattinn. (Gripið fram í.) Á tímum þegar ofurlaun stefndu til himins á Íslandi skar Ísland sig úr hvað varðar skattkerfi t.d. Norðurlandanna og margra nálægra ríkja, það var ekkert sérstakt álag á hæstu tekjur, ekki einu sinni á ofurlaunin. (REÁ: Hverjar eru lágar tekjur?) Tekjujöfnunargildi íslenska skattkerfisins hefur minnkað, við höfum þokast upp Gini-stuðulinn svonefnda vegna þess að stefna Sjálfstæðisflokksins var að fletja skattinn út og auka skattbyrðina á lágtekjufólki. Það gerðist með því að skattleysismörkin fylgdu ekki verðlagsþróun, hvað þá launaþróun. Ofan af þessu þarf að vinda. Hitt er rétt sem hér var sagt, að það er mikilvægt að skoða vandlega stöðu venjulegra heimila og þau eru ekki aflögufær um auknar byrðar. Það verður því mjög erfitt að útfæra þetta þannig að við höfum tekjur til að reka samneysluna, til að borga óráðsíuskuldir Sjálfstæðisflokksins og að við getum aflað þeirra án þess að byrðarnar leggist of þungt á fólk sem á í miklum erfiðleikum fyrir. Þetta verður gríðarlega snúið verkefni sem verður vonandi í höndum einhverra manna sem hafa bæði pólitíska sýn og bein til að ráða við það.