136. löggjafarþing — 88. fundur
 25. feb. 2009.
gjaldfrjáls göng.
fsp. RÓ, 304. mál. — Þskj. 533.

[14:31]
Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ólafsdóttir) (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langar til að fá svar við spurningu minni hvort hæstv. samgönguráðherra hyggist beita sér fyrir gjaldfrjálsri umferð um Hvalfjarðargöng líkt og flokkur hans lagði til fyrir síðustu kosningar. Í síðustu kosningum lofuðu samfylkingarmenn gjaldfrjálsum göngum, afhentu fólki frímiða í göngin og sögðu að ef þeir kæmist til valda yrði gangagjaldið afnumið. Þar á meðal stóð núverandi forseti Alþingis — ekki þó sá sem situr í stól forseta í augnablikinu — við göngin með sínu fólki og lofaði gjaldfrjálsum göngum. Einnig var þetta loforð Samfylkingarinnar í kosningabæklingum og í öllum ræðum manna þar á bæ, alla vega á Vesturlandi.

Samfylkingin talaði um Sturlaðar samgöngur með stórum staf og var þar vitnað til fyrrverandi samgönguráðherra. En samgöngurnar eru enn þá sturlaðar með litlum staf. Þar sem samgönguráðherra Samfylkingarinnar er ekki enn búinn að afnema gjaldið af göngunum samkvæmt loforðum samfylkingarmanna spyr ég: Er jafnræðisreglunnar samkvæmt stjórnarskránni gætt þó að göngin hafi verið byggð í einkaframkvæmd?

Þessi gjaldtaka var barn síns tíma en er til háborinnar skammar á tímum mikilla erfiðleika í þjóðfélaginu. Við íbúar Norðvesturlands eigum ekki að þurfa að vera 2. flokks þjóðfélagsþegnar með aukna skattlagningu á við aðra landsmenn þar sem engin önnur göng í landinu eru gjaldskyld. Stöðugt er verið að safna gögnum og rannsóknum fyrir öðrum samhliða göngum og hvað skyldi það hafa kostað? Og hvað skyldi rúmlega 300 þúsund manna þjóð hafa að gera með önnur göng þegar milljónaþjóðir munu láta sér nægja ein göng? Álagið sem stundum er við göngin er vegna þess að gjaldskýlið stoppar umferð og með afnámi gjaldtökunnar mundi umferðin ganga mun betur fyrir sig. Ég ræddi við Gylfa Þórðarson, forstjóra Spalar, í morgun og hann sagði mér að skuldir Spalar væru um það bil 4 milljarðar í dag vegna misgengis vísitölu og gengis. Gróðinn sem talinn var koma fram í fjölmiðlum á sínum tíma var vegna gengishagnaðar.

Ef farið yrði í framkvæmdir samhliða núverandi göngum undir Hvalfjörð mundi Vegagerðin sennilega standa að þeim, eða það taldi Gylfi líklegast. Ég spyr: Telur ráðherra að farið verði í slíkar framkvæmdir og ef svo er, hvers vegna? Hvað höfum við við önnur göng að gera í því ástandi sem nú er? Ég spyr líka: Væri ekki viturlegra að laga veginn á Kjalarnesinu og að göngunum?



[14:34]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Veggjald um Hvalfjarðargöng hefur lækkað heil ósköp frá því að göngin voru opnuð sumarið 1998. Umferðin var mun meiri en ráð var fyrir gert og auknar tekjur gera mögulegt að láta viðskiptavinina njóta þess með lægra gjaldi en ella. Miðað var við í upphafi að veggjaldið fylgdi vísitölu neysluverðs en reyndin er sú að það hefur lækkað, bæði í krónum talið og miðað við verðlag.

Sem dæmi um það má nefna að gjald fyrir einstaka ferð venjulegs fólksbíls í 1. flokki árið 1998 var 1.000 kr. Það ætti að vera 1.560 kr., miðað við mars 2008 — ég er með það gamlar tölur — en var, miðað við sömu vísitölu, 800 kr. Lægsta mögulega áskriftargjald fyrir venjulegan fólksbíl sem var í upphafi 600 kr. 1. júlí 2008, ætti sennilega að vera 935 kr. 1. mars 2008 og töluvert hærra nú. En nú er það 230 kr. þannig að við sjáum hvað áunnist hefur hvað þetta varðar.

Skömmu eftir síðustu kosningar hófst umræða af hálfu rekstraraðila ganganna, Spalar ehf., um að tvöfalda ætti Hvalfjarðargöng á allra næstu árum, enda væri umferðarþunginn orðinn slíkur. Vegagerðin og Spölur ehf. gerðu í því skyni með sér samkomulag árið 2007 m.a. um að hefja frumundirbúning að tvöföldun Hvalfjarðarganga. Í því sambandi þurfti að horfa til margra þátta eins og aukinnar afkastagetu, aukins umferðaröryggis, gerðar umhverfisskýrslu vegna framkvæmdanna og laga og reglna um sérleyfi og útboð. Það var því ljóst að forsendur gjaldfrjálsra ganga væru brostnar. Í mínum huga kom ekki til greina að afnema gjaldtöku á sama tíma og í umræðunni voru hugmyndir um meiri háttar framkvæmdir gerð annarra ganga við hlið þeirra sem nú eru. Sjónarmið mitt var að tvöfalda ætti göngin þegar umferðarþunginn væri orðinn slíkur að það réttlæti slíka framkvæmd.

Á síðasta ári var mun minni umferð en verið hefur undanfarin ár. Má segja að við höfum færst aftur í svipaðan umferðarþunga og var árið 2002. Gjaldfrjáls Hvalfjarðargöng mundu hafa í för með sér mikinn kostnað fyrir ríkið eða ríflega 4 milljarða kr. sem menn sáu fyrir sér að væri kannski raunhæft í kosningunum árið 2007 en það var bragur þess ágæta árs. Það var svona dálítið 2007.

Nú er öldin önnur. Gjaldfrjáls Hvalfjarðargöng voru ekki á stefnuskrá síðustu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og eru heldur ekki á stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en eitt er að yfirtaka skuldirnar, 4 milljarða og ýmsar aðrar skuldbindingar eru þarna líka. Við getum tekið dæmi af rekstrarkostnaði ganganna sem er um 100–120 millj. kr. á ári og vextir af lánum eru nú í kringum 170 millj. kr. þannig að skuldbinding ríkisins, ef af þessu yrði, væri miklu hærri en 4 milljarðar kr.

Ég vildi láta þetta koma fram, virðulegi forseti, í umræðunni en ef við getum ímyndað okkur að skuldbinding ríkisins væri kannski upp undir 6 milljarðar kr. sem væri kostnaðurinn við framkvæmdina, er það sama upphæð og við höfum núna til nýrra útboða á vegum Vegagerðarinnar á þessu ári — 6 milljarðar, ný útboð. Það er sama upphæð og samgönguáætlun var skorin niður um vegna erfiðleika í þjóðarbúskapnum við síðustu fjárlagagerð. En á móti kemur, virðulegi forseti, að á þessu ári, 2009, verður annað mesta framkvæmdasöguár í samgönguframkvæmdum á Íslandi. Við munum vera í samgönguframkvæmdum fyrir allt að 21–23 milljarða kr. á þessu ári sem er erfiðleikaár, eins og við ræðum oft um.

Því segi ég, virðulegi forseti, að þetta ber líka að hafa í huga þegar talað er um að gera Hvalfjarðargöng gjaldfrjáls, þá verður að taka það einhvers staðar frá. Mig langar í lok fyrri ræðu minnar að spyrja hv. þingmann: Hvað mundi hún vilja láta skera niður í samgönguframkvæmdum ef skuldir Spalar yrðu yfirteknar fyrir allt að 6 milljarða kr., hvar ætti að skera niður í samgönguframkvæmdum í staðinn?



[14:39]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að rætt skuli um gjaldfrjáls Hvalfjarðargöng og þakka framsögumanni, hv. þm. Ragnheiði Ólafsdóttur, að vekja athygli á baráttu Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir gjaldfrjálsum göngum. Ég fagna því líka að hv. þingmaður skuli hafa þá óþolinmæði að ætlast til að það yrði klárað á fyrsta eina og hálfu árinu sem ríkisstjórnin sat. Hún náði ekki lengri tíma áður en bankakerfi og fjármálakerfi landsins hrundi.

Verkefnið er enn óleyst og það hefur margt breyst síðan þær kröfur komu fram sem mæla með því að gjaldfrjáls göng verði tekin upp sem fyrst en jafnframt, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, erfiðleikana við að fjármagna þá 4–6 milljarða sem það mundi kosta á næstu árum. Málið er einfaldlega það að þetta er mikið réttlætismál og gjaldið er á hluta þjóðvegar 1 en hvergi annars staðar. Ég held að það sé klárt mál að við þurfum að stefna að því að afnema þetta gjald og þurfum (Forseti hringir.) að finna því leið í sambandi við endurskoðun á gjaldtökum á vegum almennt, því fyrr því betra.



[14:41]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Gjaldtaka eða veggjöld koma auðvitað vel til greina og væri fráleitt að hrinda þeirri aðferð frá með öllu en eins og hér háttar til tel ég að tími sé kominn til að endurskoða þetta. Hér er veggjald sem á að standa áratugum saman á einhverri mestu þjóðleið á Íslandi og það er auðvitað fráleitt að halda því fram að menn komist í raun og veru aðra leið þó að enn þá sé hægt að fara fyrir Hvalfjörð.

Það er stundum uppi sá misskilningur að þessi göng, Hvalfjarðargöngin, séu í Norðvesturkjördæmi. Það er ekki, þau tengja saman tvö kjördæmi, þau tengja saman Vesturland og síðan Reykjavík. Þau áttu mikinn hlut að því að stækka höfuðborgarsvæðið og hafa þannig nýst ekki bara höfuðborginni heldur landinu öllu því að um þessi göng þarf líka að fara til Norðurlands. Ég tel að hæstv. samgönguráðherra eigi að taka því vinsamlegar (Forseti hringir.) þegar spurt er um þessa hluti.



[14:42]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er mín afdráttarlausa skoðun að sérstök gjaldtaka á þjóðvegum landsins eigi ekki að eiga sér stað. Þjóðvegirnir eru lífæð allra landsmanna og hluti af því grunnneti sem byggir upp samfélag okkar og starfsemina sem við höldum úti og öllu sem gerist. Þeir eru hluti af grunnnetum samfélagsins. Og þó að menn hafi fundið rök fyrir gjaldtöku á sínum tíma þegar Hvalfjarðargöngin voru gerð við þær aðstæður sem þá voru, eru þau ekki lengur fyrir hendi.

Hvalfjarðargöngin eru hluti af almenna þjóðvegakerfi landsins og ég tel að sá kostnaður sem fólginn er í því, hvort sem það er fjármagnskostnaður eða viðhaldskostnaður, sem er reyndar minni þar en á vegum annars staðar sem eru ofan jarðar, (Forseti hringir.) eigi að vera hluti af samfélagskostnaðinum og þarna eigi allir að sitja við sama borð. En þarna er hreinlega verið að mismuna (Forseti hringir.) fólki eftir búsetu með því að taka sérstakt gjald á þessum vegi.



[14:43]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins út af umræðu um gjaldtöku í vegakerfinu verð ég að lýsa þeirri skoðun og vera aðeins ósammála þeim hv. þingmönnum sem hafa talað hér fyrr. Ég tel að við séum á þeim stað í samgönguuppbyggingu landsins að við verðum að vera tilbúin til að skoða gjaldtöku, ekki bara í Hvalfjarðargöngum heldur líka víðar. Efnahagsástand þjóðar okkar býður einfaldlega ekki upp á það við þessar aðstæður að þetta gjald sé lagt niður. Það er mín sannfæring. Það er líka mín sannfæring að við eigum að vera opin fyrir því í framtíðinni að skoða gjaldtöku víðar, sérstaklega á stórum umferðarmannvirkjum sem verið er að gera kröfu til. Það er verið að gera kröfu til jarðganga hér og þar og við erum einfaldlega þannig stödd í efnahagslífi samfélags okkar að við höfum ekki efni á að gera allt fyrir alla. Þá er ég ekki að tala um að það eigi að eiga sér stað einhver óhófleg gjaldtaka en ég vil hins vegar vera opin fyrir því að það sé skoðað frá öllum hliðum.



[14:44]
Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Það kristallast mjög vel í þessu máli að stjórnarflokkarnir eru ósammála um gjaldtöku í Hvalfjarðargöngin og gjaldtöku almennt og það kristallast líka í þessari umræðu að Samfylkingin er líka ósammála innbyrðis.

En ég verð hins vegar að taka undir með hæstv. samgönguráðherra þegar hann segir í ljósi þess að fjárlagagatið er um 160 milljarðar: Hvar á að fá peningana? Það er auðvitað mjög eðlileg spurning hjá honum. Ég ætla að leggja aðeins í púkkið. Ég held að það væri mjög sniðugt t.d. að fara núna með Vaðlaheiðargöng í einkaframkvæmd, byggja þau göng, taka gjald þar og bjóða síðan jöklabréfaeigendum að verða eigendur þeirra ganga og fá þannig borguð jöklabréfin sín til baka. Þannig gætum við tekið þátt í uppbyggingu innviðanna á Íslandi um leið og þeir eru öruggir um að fá peningana sína (Forseti hringir.) til baka og ríkið gæti síðan ábyrgst ákveðna ávöxtunarkröfu.



[14:46]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það eru tvær hliðar á þessu máli eins og öllum öðrum. Í fyrsta lagi voru göngin mikið framfaraspor fyrir Vesturland. Þau tengdu það við höfuðborgarsvæðið í eitt atvinnusvæði, ferðatími styttist og ferðakostnaður lækkaði. Þannig að jafnvel þótt greitt væri gjaldið í göngin þá sparaði fólk með því að nota þessa samgöngubót. Það er ávinningurinn miðað við það sem var.

Hin hliðin er sú að þetta er frávik frá því sem er að öðru leyti, t.d. á þjóðvegi 1. Það er hvergi greitt gjald fyrir að fara um þann þjóðveg þó að þar hafi verið ráðist í mjög dýrar vegabætur. Það er ljóst af athugunum sem Vífill Karlsson hagfræðingur hefur gert að gjaldið hefur áhrif til þess að draga úr ávinningnum af göngunum á Vesturlandi og það skekkir samkeppnisstöðu Vesturlands gagnvart öðrum nágrannasvæðum höfuðborgarsvæðisins, (Forseti hringir.) t.d. Suðurnesjum og Suðurlandi.



[14:47]
Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ólafsdóttir) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka samgönguráðherra fyrir svörin og ég ætla að svara honum til baka þeim spurningum sem hann beindi að mér, þ.e. hvar eigi að taka fjármunina til þess að koma á móts við eða ríkið yfirtaki.

Eigum við ekki bara að byrja á því að taka það sem nú er á áætlun, tónlistarhúsið, af? Væri það ekki nær? Og að taka utanríkisráðuneytið meira og minna í nefið og skera þar niður? Þar mætti skera ansi mikla fjármuni niður til hjálpar við vegauppbyggingu á landinu.

En ef gjaldtaka á að vera á landinu, af hverju setjum við þá ekki bara toll á alla vegi landsins? (Samgrh.: Viltu það?) Ég vil það ekki en það virðist vera að ráðherra vilji það.

Ég vil benda ráðherra á að til þess að fá lægsta gjald í gegnum göngin þá kostar það einstakling 23–27 þús. kr., sem hann verður að reiða fram fyrir fram. Getur ráðherra séð það fyrir sér í því árferði sem er í dag hvernig fátækir einstaklingar, einstaklingar sem eru í þrotum eiga að reiða þetta fram? Það eru ýmsar hliðar á þessum málum.

Og ef samfylkingarfólk ætlar að gefa slíkt loforð í næstu kosningabaráttu, sem nú er að hefjast, að göngin skuli verða gjaldfrjáls skuluð þið vara ykkur á því að hafa kjósendur að fíflum. Það borgar sig ekki.



[14:49]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu, bæði fyrirspyrjanda og þingmönnum. Hér er rætt um veigamikið atriði sem er gjaldtaka í Hvalfjarðargöngum, í því mikla og góða verki sem varð tíu ára á síðasta ári. Við vitum hvernig var stofnað til þess verks, það var áætlað að veggjöldin mundu borga niður lánin eins og er að gerast núna.

En, eins og ég sagði hér áðan, sitt sýnist hverjum. Ég vil taka undir það sem komið hefur fram, m.a. frá formanni samgöngunefndar Steinunni Valdísi Óskarsdóttur sem fjallaði á ákaflega faglegan hátt um þætti sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir að ræða um, þ.e. að við hugum að því hvernig við ætlum að afla fjár til vegaframkvæmda á komandi árum.

Það er nokkuð ljóst, virðulegi forseti, að bensíngjald, olíugjald og þungaskattur munu ekki og eru ekki að gefa okkur jafnmikið í tekjur til vegaframkvæmda og var áður fyrr. Þau gjöld höfðu ekki hækkað í mörg, mörg ár þegar þau hækkuðu síðast.

Umhverfisvænir bílar sem nú streyma til landsins og munu gera það á næstu árum munu ekki borga slík gjöld til ríkissjóðs. Og hvernig ætlum við þá að haga skattheimtunni? Virðulegi forseti. Ég held að langeðlilegast væri að allir stjórnmálaflokkar settu það á dagskrá hjá sér að ræða þau mál. Það má alveg segja að það sé sanngirnismál, við höfum rætt það ég og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, á upphafsárum þessa kjörtímabils, að eigi jafnræði að gilda um þetta þá þurfi gjaldheimta að vera á fleiri stöðum.

Virðulegi forseti. Þetta er veigamikið atriði í þessari umræðu vegna þess að við verðum að skoða hvernig við ætlum að fjármagna vegaframkvæmdir næstu ára, það mikla verk sem þarf að vinna, vegna þess að þeir sérstöku tekjustofnar sem eru til munu aldrei standa undir (Forseti hringir.) öllu því mikla átaki sem við þurfum að fara í á komandi árum.