136. löggjafarþing — 88. fundur
 25. feb. 2009.
rekstur skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
fsp. BjörkG, 312. mál. — Þskj. 542.

[15:39]
Fyrirspyrjandi (Björk Guðjónsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. heilbrigðisráðherra lýtur að því hvaða hugmyndir hann hefur um nýtingu á nýjum skurðstofum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem hafa ekki haft næg verkefni til að tryggja rekstur þeirra.

Fyrrverandi heilbrigðisráðherra hugðist gera skipulagsbreytingar á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði sem fólu það m.a. í sér að hluti af þeim skurðaðgerðum sem framkvæmdar eru á St. Jósefsspítala áttu að flytjast á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Nú hefur hæstv. heilbrigðisráðherra ákveðið að hætta við breytingarnar á St. Jósefsspítala. Sú ákvörðun hefur mikil áhrif á áform Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem bjó sig undir að umsvif mundu frekar aukast en minnka þar sem fyrirhugaðar breytingar voru hugsaðar til að efla starfsemina á nýjum fullkomnum skurðstofum og þar með efla stofnunina í heild til að taka við verkefnum frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem eitt af kragasjúkrahúsunum svokölluðu. Samningur var undirritaður á síðasta ári vegna þeirrar samvinnu og veit ég ekki betur en að það samstarf gangi mjög vel.

Nú háttar þannig til á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að þar standa tvær nýjar og fullkomnar skurðstofur nánast ónotaðar. Nýtingin er nú þannig að önnur skurðstofan er notuð fjóra daga vikunnar en hin stendur enn ónotuð. Í þessum nýju skurðstofum liggur um það bil 150 milljarða kr. fjárfesting og þær nýttar jafnlítið og raun ber vitni. Þær hlýtur að vera hægt að nýta töluvert betur, skurðstofurnar eru einungis í 50 km fjarlægð frá höfuðborginni og samgöngur á Suðurnesjum eru mjög góðar.

Nú hefur viðsnúningur hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi St. Jósefsspítala sett starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja enn einu sinni í uppnám. Nú standa stjórnendur frammi fyrir því að þurfa að skera niður, m.a. með því að segja upp bakvöktum á skurðstofum sem þýðir enn frekari samdrátt í nýtingu þeirra.

Eins og hæstv. heilbrigðisráðherra veit hefur mikil óvissa einkennt starfsemi heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í mörg ár. Með skipulagsbreytingu fyrrverandi heilbrigðisráðherra var að nást ágæt niðurstaða varðandi reksturinn á skurðstofunum og hefði þessi breyting náð fram að ganga hefði niðurskurður ekki þurft að vera eins mikill þar sem stofnunin hefði getað haft tekjur vegna aukinna umsvifa á skurðstofum.

Þess vegna spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvaða úrræði eru í stöðunni fyrir stofnunina? Eða er kannski ætlunin að láta skurðstofurnar standa ónotaðar til framtíðar?



[15:42]
heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Björk Guðjónsdóttur fyrir þessa fyrirspurn sem varðar rekstur skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Spurt er um fyrirætlanir varðandi rekstur skurðstofu þar.

Eins og Alþingi er kunnugt hafa orðið talsverðar umræður um fyrirhugaða starfsemi á skurðstofum á höfuðborgarsvæðinu almennt og hafði fyrirrennari minn í embætti, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, uppi hugmyndir um ýmsar breytingar í þeim efnum, m.a. að loka skurðstofunni á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og færa stóran hluta þeirrar starfsemi inn á skurðstofurnar á Suðurnesjum sem ekki eru að fullu nýttar eins og hér hefur komið fram.

Ég hef ákveðið að fara betur yfir allar upplýsingar sem að þessu máli snúa og hef í dag skipað nefnd sem hefur það verkefni með höndum að samhæfa starfsemi á Landspítala – háskólasjúkrahúsi annars vegar og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hins vegar. Í þessari nefnd sitja forstjórar þessara stofnana tveggja auk fulltrúa lækningasviðs og hjúkrunarsviðs. Að nefndinni eiga einnig aðild fulltrúar almannasamtaka á svæðinu, hollvinasamtaka sjúkrahússins og félags eldri borgara auk fulltrúa frá sambandi sveitarfélaga á svæðinu. Þarna er reynt að kalla saman að máli fulltrúa þeirra stofnana sem tengjast þessari samhæfingu og þá er ég að horfa til Landspítalans og sjúkrahúss Suðurnesja auk þessara almannasamtaka.

Samkvæmt erindisbréfi er þessari nefnd gert að skila frá sér áliti 16. mars nk. Ég vil taka það fram að einnig er að störfum nefnd sem er að skoða svipað og samsvarandi verkefni varðandi St. Jósefsspítala. Sú nefnd á að skila af sér 12. mars, þ.e. nokkrum dögum áður, enda var hún skipuð fyrir fáeinum dögum. Það er verið að hraða þessu starfi því að ég tek undir með hv. þingmanni að óvissan er slæm og mikilvægt að greiða úr þessum málum hið allra fyrsta. Mikilvægast af öllu er þó náttúrlega að fá lausn sem sátt er um í umhverfinu og er jafnframt hagkvæm fyrir skattborgarana.



[15:45]
Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Staða Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hefur lengi verið erfið og sýnt hefur verið fram á að ekki hafi verið rétt gefið við reiknilíkön heilbrigðisstofnana. Fjárveitingar hafa ekki verið í nokkru samræmi við íbúafjölda. Í sumar lofaði hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra leiðréttingu og allir fóru glaðir af þeim fundi, en það var svikið. Fyrri ríkisstjórnir hafa vanrækt Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og stuðningur Reykjanesbæjar, meiri hluti sjálfstæðismanna, hefur því miður verið í skötulíki við stofnunina. Það má allt að því ætla að svelta hafi átt þessa heilbrigðisstofnun til einkavæðingar.

Nú heyri ég að Reykjanesbær, meiri hluti sjálfstæðismanna, hafi uppi fyrirætlanir um heilbrigðisstofnunina, þ.e. um einkavæðingu skurðstofunnar. Ég spyr hv. þm. Björk Guðjónsdóttur: Hverjar eru fyrirætlanir Reykjanesbæjar í þessum efnum? Hvað hyggjast þeir fyrir? Hvað vokir bak við þar? Hvernig stendur á þessu stuðningsleysi meiri hluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ við heilbrigðisstofnunina?



[15:46]
Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Björk Guðjónsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Hún á rétt á sér og ég vil taka undir það sem í henni kemur fram. Vandamálin þarf leysa varðandi heilbrigðisstofnunina á Suðurnesjum. Það hafa lengi verið tiltekin vandamál en þetta er stór og myndarleg stofnun sem hefur burði og húsnæði og aðstöðu til að gera vel fyrir þá íbúa sem þarna búa og horft hefur verið til þess að stofnunin geti þjónað víðar á þessu svæði.

Ég fagna því að nefnd skuli vera sett á stofn af hæstv. heilbrigðisráðherra til að skoða þessi mál. Það kemur kannski eitthvað út úr slíku. En mig langar að skjóta inn lítilli spurningu vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi og Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja: Er fyrirhugað að einhverjar slíkar nefndir komi þar að málum líkt og nefnt var áðan þannig að fara megi yfir þá starfsemi sem þar er?



[15:47]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björk Guðjónsdóttur fyrir fyrirspurnina og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. Ég held að mikilvægt sé að menn fari rétt með mál og tali málefnalega um þetta. Hv. þm. Atli Gíslason veit að hann hefur ekki farið rétt með með því að tala um að verið sé að svelta einhverja stofnun, hvort sem það er þessi eða einhver önnur, til einkavæðingar.

Vandinn er sá eins og hæstv. ráðherra er meðvitaður um að margar skurðstofur eru á þessu svæði. Fyrir liggur að við þurfum að spara um 7.000 millj. kr. og liggur mjög á að komast að niðurstöðu. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða líka þá vinnu sem farið hefur fram í ráðuneytinu á undanförnum mánuðum áður en hann kemst að niðurstöðu, því að þrátt fyrir allt verða menn líka að hafa í huga að mikil tækifæri eru í þessu. Það er ekki rétt að bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafi verið áhugalítil. Þvert á móti hafa ýmsir aðilar verið mjög áhugasamir um að nýta þá aðstöðu þar sem atvinnuleysi er hvað mest til að koma atvinnustarfsemi af stað og eru þar mjög miklir möguleikar. Við Íslendingar verðum að nýta þá nú þegar í að veita öðrum þjóðum heilbrigðisþjónustu. Þar eru mikil sóknarfæri fyrir landsmenn og sérstaklega heilbrigðisstarfsfólk.



[15:49]
Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins blanda mér í þetta og ég fagna fyrirspurn hv. þm. Bjarkar Guðjónsdóttur.

Ég vil aðeins koma því að að á Sjúkrahúsinu á Akranesi er rekin mjög góð skurðstofa sem hefur nýst Norðvesturlandi mjög vel, Snæfellsnesi alveg vestur í Dali, Vestfjörðum, Norðurlandi og Húnavatnssýslu. Þar hefur farið fram mjög góð vinna. Fólk af Stór-Reykjavíkursvæðinu og Mosfellsbæ hefur komið og lagst inn á sjúkrahúsið, farið þar í liðskiptaaðgerðir, æðahnútaaðgerðir og ýmiss konar aðgerðir sem hinir færustu læknar og sérfræðingar sem starfa við Sjúkrahúsið á Akranesi framkvæma, og það er mjög ánægjulegt. Ég styð það heils hugar að skurðstofur verði nýttar sem best á Suðurnesjum því ekki veitir af að nýta þau góðu sjúkrahús sem við eigum um landið og þá sérstaklega til að létta undir með Landspítala.



[15:50]
Fyrirspyrjandi (Björk Guðjónsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. Auðvitað fagna ég því að eitthvað er að gerast í þessum málum og hann hafi skipað nefnd, sem ég held að sé mjög gott, til að fara yfir þessi mál. Ég tel það alveg nauðsynlegt og ekki gott að láta fullkomnar og nýjar skurðstofur standa lengi ónotaðar.

Ég vildi með fyrirspurn minni fyrst og fremst vekja athygli á að á Suðurnesjum eru tvær nýjar og fullkomnar skurðstofur sem standa nánast ónotaðar eins og fram hefur komið. Í því geta falist fjölmörg tækifæri ef þeir sem eru við stjórnvölinn eru opnir fyrir slíku. Tækifærin gætu t.d. verið þau að létta á skurðstofum Landspítala með einhvers konar samvinnu á milli þessara stofnana um að nýta skurðstofurnar og sjúkrahúsið fyrir aðgerðir sem þarf ekki að framkvæma á hátæknisjúkrahúsi. Ein af þeim hugmyndum sem unnið var með í tíð fyrrverandi heilbrigðisráðherra var að skurðteymi frá Landspítala störfuðu nokkra daga vikunnar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, nýttu þannig fullkomnar skurðstofur og léttu á skurðstofum Landspítalans. Ég vil jafnframt segja að tækifæri gætu einnig verið í einkarekstri. Ég tel að skynsamlegt væri að skoða allar leiðir í þessum efnum ef það leiðir til þess að fjölga atvinnutækifærum á svæðinu þar sem atvinnuleysi er mjög mikið.

Ég vil að lokum fullvissa hv. þm. Atla Gíslason um að stuðningur meiri hluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar við starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hefur alla tíð verið mjög mikill. Fyrirætlanir bæjarstjórnar Reykjanesbæjar um einkarekstur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eru með þeim hætti að það þarf að gera allt þarna upp í samráði við ríkið sem rekur þessa stofnun.



[15:52]
heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hvað varðar þá spurningu sem fram kom um hvort svipaður háttur verði hafður á varðandi heilbrigðisstofnanir á Selfossi og Vestmannaeyjum, eins og ég hef verið að skýra frá gagnvart St. Jósefsspítala annars vegar og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hins vegar, þá er svarið játandi. Það verður reynt að gera. Það er rétt sem fram kom hjá forvera mínum í embætti að staðreynd er að offramboð er á skurðstofurými á höfuðborgarsvæðinu og spurningin er hvernig við nýtum þetta rými á sem hagkvæmastan hátt.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að í þessu felast ýmis tækifæri. Spurningin er fyrir hverja tækifærin eru. Eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins við þessa umræðu, þykir mönnum rétt að horfa líka til einkareksturs. Í skýrslum forvera míns í embætti var líka að finna hugmyndir um slíkt, að gera sjúkrahúsið á Suðurnesjum að hluta til að einkareknum spítala. Menn mega fyrir mér búa til allan þann einkarekstur sem þeir vilja, alla þá einkaspítala og allan þann einkarekstur sem þeir vilja. Ef menn ætlast hins vegar til þess að ég borgi fyrir það sem skattgreiðandi þá vil ég hafa hönd í bagga. Það er það sem við erum að reyna að gera núna, það er að sjá til þess að fjármunirnir séu nýttir á sem allra hagkvæmastan hátt frá sjónarhóli skattborgarans og með hliðsjón af þörfum og óskum íbúanna á svæðinu og eftir þeirri reglu er nú unnið.