136. löggjafarþing — 89. fundur
 26. feb. 2009.
sala Morgunblaðsins.

[10:48]
Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Okkur hafa borist þær fréttir að það sé búið að selja Morgunblaðið valinkunnum hópi auðmanna, nánar tiltekið öflugum mönnum í íslenskri útgerð. Þá vakna ýmsar spurningar í sambandi við þessa sölu, t.d. hversu mikið var afskrifað af skuldum Morgunblaðsins og ýmsar slíkar spurningar, eins og t.d. hvernig stóð á því að þetta blað var svo lengi rekið áfram með bullandi tapi og algjörlega án nokkurs fjárhagslegs ávinnings fyrir bankann. Í þessu sambandi má glöggt sjá að þegar slíkur hópur kaupir Morgunblaðið, eins og þetta útgerðarfólk gerir, vakna spurningar um það, því að það eru miklar deilur í samfélaginu um kvótakerfið, þjóðinni finnst kvótakerfið ranglátt, ömurlegt og hafa skapað spillingu í þessu landi — þá vakna spurningar um það hvort þetta sé ekki til þess að vekja upp enn frekari hugsanir um meiri og meiri spillingu þegar slíkur hópur manna sem ég vil annars ekki segja neitt ljótt um eignast slíkan fjölmiðil (Gripið fram í.) og getur haldið til streitu eða komið sínum sjónarmiðum og viðhorfum fram með þessum fjölmiðli án þess að aðrir hafi aðgang að.



[10:50]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta mál hefur alfarið verið í höndum viðkomandi banka og væntanlega bankaráðs þess banka eins og stærstu mál eru. Ég hef ekki komið nálægt því, það hefur ekki komið inn á mitt borð og ekki verið rætt við mig, enda er það ekki þannig sem kaupin eiga að gerast á eyrinni að eigandinn í þessu tilviki eða sá sem fer með eignarhaldið fyrir hönd þjóðarinnar sé að ráðskast með það hvernig bankinn leysir úr einstökum málum. Þá fyrst held ég að ástæða væri til að hafa áhyggjur og gera athugasemdir ef það hefði verið þannig að ég hefði eitthvað verið með puttana í því eða reynt að stýra því hvernig bankinn færi með málefni þessa fyrirtækis. Það hefur ekki verið, það er algerlega á hreinu að þetta hefur alfarið verið unnið af bankanum sjálfum (Gripið fram í.) og þangað verður þá að beina fyrirspurnum um það hvernig með þetta mál hefur verið farið. (GMJ: Gjafakvótaþegar.)



[10:51]
Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Auðvitað getur ráðherrann ekki skipt sér af hverju einstöku máli þar sem banki þarf að gera upp fyrirtæki, en það eru gríðarlega mörg viðfangsefni sem bankarnir standa frammi fyrir, eins og t.d. banki sem situr uppi með útgerð sem er með allt niður um sig, kannski vegna þess að hún keypti hlutabréf í banka sem fór á hausinn en var ekki að sinna útgerð o.s.frv. Bankinn þarf að svara því hvernig vinna eigi úr slíkum málum. Þetta mál vekur hins vegar sérstaka athygli vegna þess að talað er um fjölmiðla sem fjórða valdið í landinu. Þegar fjórða valdið — Morgunblaðið er hluti af því — fer svona algjörlega í hendur lítils hagsmunahóps og talsmanns ákveðins, hvað eigum við að segja, atvinnuvegar hlýtur að vakna upp sú spurning hvort þetta sé eðlilegt. Sú spurning hlýtur líka að vakna upp hvort við þyrftum ekki (Forseti hringir.) að dusta rykið af fjölmiðlalögunum og bæta þau og koma með fjölmiðlalög (Forseti hringir.) sem hægt er að sætta sig við.



[10:53]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, bankarnir eru með mörg og afar vandasöm verkefni í sínum höndum í þeim tilvikum sem mikilvæg fyrirtæki hafa komist í þá erfiðleika að bankarnir eru í raun og veru komnir með þau í gjörgæslu eða í sínar hendur. Að sjálfsögðu skiptir miklu máli að þar sé þá faglega og vel að endurskipulagningu slíkra fyrirtækja staðið, endurfjármögnun eða sölu þeirra. Ég held að við verðum bara að treysta því og vona að svo sé gert. Það er líka mikilvægt að slík ferli séu sem gagnsæjust, veittar séu hlutlægar upplýsingar bæði um hvernig er unnið og á hvaða forsendum ákvarðanir eru teknar. Í þeim tilvikum að bankarnir leysa úr þessum málum sjálfir eru þau alfarið hjá þeim og það væri þá ekki nema horfið væri að því ráði, sem reyndar er í skoðun og undirbúningi, að einhver slík tilvik færðust yfir í hendur eignaumsýslufélags sem meðferð þeirra yrði önnur.

Um aðra þætti mála sem lúta að fjölmiðlalöggjöf eða samkeppnismálum og hættunni á hringamyndun og öðru slíku má að sjálfsögðu margt ræða og ég geri ekki lítið úr því að það er þörf á því að (Forseti hringir.) endurskoða allt það umhverfi eins og hlutirnir hafa gengið fyrir sig á Íslandi.