136. löggjafarþing — 89. fundur
 26. feb. 2009.
þingsköp Alþingis, 1. umræða.
frv. StB o.fl., 315. mál (fækkun fastanefnda). — Þskj. 545.

[17:57]
Flm. (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Í frumvarpi því sem ég mæli hér fyrir er gert ráð fyrir breytingum á lögum um þingsköp Alþingis sem snúast um breytingar á skipulagi fastanefnda Alþingis, fjölda þeirra og þeim málaflokkum sem undir þær heyra.

Fastanefndir eru 12 en samkvæmt frumvarpinu verða þær sjö. Eftirfarandi eru heiti nefndanna og málaflokkar sem gert er ráð fyrir að undir þær heyri samkvæmt frumvarpinu:

1. Allsherjar- og menntamálanefnd. Undir hana heyri dóms- og kirkjumál, menntamál, menningarmál, stofnanir Alþingis, Stjórnarráðið o.fl.

2. Atvinnumálanefnd. Undir hana heyri iðnaðar- og orkumál, landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál, byggðamál og ferðamál.

3. Efnahags- og viðskiptanefnd. Undir hana heyri skattamál, verslunar-, viðskipta- og bankamál og efnahagsmál almennt.

4. Fjárlaganefnd. Undir hana heyri tekjur og gjöld ríkissjóðs.

5. Heilbrigðis- og félagsmálanefnd. Undir hana heyri heilbrigðismál, almannatryggingar og félagsþjónusta, húsnæðismál og vinnumál.

6. Umhverfis- og samgöngunefnd. Undir hana heyri umhverfismál, vega-, hafna- og flugmál, siglingar, fjarskipti og sveitarstjórnarmál.

7. Utanríkismálanefnd. Undir hana heyri utanríkismál, varnar- og öryggismál og málefni Evrópska efnahagssvæðisins.

Við síðustu breytingar á lögum um þingsköp Alþingis voru gerðar nokkrar lagfæringar á störfum og starfsumhverfi fastanefnda Alþingis. Breytingarnar miðuðu að því að efla starf nefndanna, m.a. með því að ráðherrar komi oftar á fundi þingnefndanna. Samhliða breytingunum var gert samkomulag á milli þeirra flokka sem stóðu að breytingunum sem m.a. miðaði að því að aðstoða minni hluta í nefndum og efla eftirlitshlutverk nefndanna sem er mjög mikilvægt að gerist. Eftir að þessar breytingar tóku gildi 1. janúar 2008 beitti ég mér fyrir því á vettvangi forsætisnefndar Alþingis að samþykkja reglur um opna nefndafundi en bráðabirgðareglur um slíka fundi voru samþykktar á vettvangi forsætisnefndar í júní og nýjar reglur síðan afgreiddar af hálfu forsætisnefndarinnar nú í janúar.

Sú endurskipulagning á fastanefndum Alþingis sem lögð er til í þessu frumvarpi er að nokkru leyti framhald af síðustu breytingum sem gerðar voru á störfum nefndanna. Markmið breytinganna er að styrkja og efla nefndastarfið enn frekar ásamt því að gefa nefndunum meira og betra svigrúm til starfa. Önnur helstu rökin fyrir breytingunum vil ég tilgreina hér á eftir:

Í fyrsta lagi munu breytingarnar efla löggjafarstarfið. Fastanefndirnar verða færri og mun hver nefnd fjalla um fleiri málaflokka en er í dag. Það gefur nefndarmönnum m.a. meiri möguleika á að hafa heildaryfirsýn yfir tengd málasvið. Slíkt mun jafnframt styrkja eftirlitshlutverk þingsins. Það er í samræmi við þá stefnu sem forsætisnefnd þingsins mótaði með skipun sérstakrar nefndar sem vinnur að því að undirbúa tillögur um breytingar sem eiga að styrkja og efla eftirlitshlutverk Alþingis og hefur borið vinnuheitið eftirlitsnefndin.

Í öðru lagi munu breytingarnar fela í sér hagræðingu í störfum fastanefndanna. Með fækkun fastanefnda gefst tækifæri fyrir nefndirnar til að funda oftar og lengur ef þörf krefur. Það hefur oft verið erfitt að komast hjá því að fundir nefndanna skarist þegar fjöldi þeirra er svo mikill, en með fækkun þeirra í sjö mun draga úr þessum árekstrum og auðveldara verður að skipuleggja fundi nefndanna. Þá munu skapast betri tækifæri og tími til að halda opna nefndafundi, en slíkir fundir krefjast oft meiri tíma en hefðbundnir nefndafundir.

Þingmenn eiga oft sæti í fleiri en einni nefnd og jafnvel fjórum, en með fækkun og stækkun nefnda munu þingmenn almennt sitja í einni nefnd en nokkrir þeirra þó í tveimur nefndum. Slíkt mun einfalda skipulag nefndastarfsins og leiða til betri nýtingar á fundartíma nefndanna. Sérstaklega mun þetta eiga við á nefndadögum. Æskilegt mun t.d. vera að nefndarmenn í fjárlaganefnd sitji ekki í öðrum nefndum.

Rétt er að geta þess að nefndastarfið, eins og nú háttar til og varðar hina opnu nefndafundi, er mjög mikilvægt og ég vil undirstrika að með því að fækka nefndum skapast skilyrði til þess að hafa fleiri opna nefndafundi og gefa þannig þjóðinni færi á að fylgjast með störfum nefndanna á Alþingi.

Í þriðja lagi munu breytingarnar leiða til þess að skipulag starfa á nefndasviði Alþingis verður einfaldara og aukið svigrúm gefst til þess að hver fastanefnd geti haft yfir að ráða öflugum hópi sérfræðinga og annars starfsfólks. Þannig verður hægt að veita hverri nefnd meiri aðstoð og betri þjónustu en nú er hægt að gera.

Það er sannfæring mín að eftirlitshlutverk fastanefnda Alþingis muni aukast á næstu árum og ljóst að með möguleika á opnum fundum muni það eftirlit verða opnara og öllum aðgengilegra, líkt og á þingfundum. Mikilvægt er að styrkja nefndastarfið, skipulag þess og starfsaðstöðu áður en þessi þróun fer af stað að marki.

Reiknað er með að tímatafla með fundartímum nefndanna verði ákveðin fyrir fram, með nægilegu svigrúmi þó til aukafunda, þannig að enginn þingmaður sé settur í þá stöðu að vera á fundum á tveimur stöðum samtímis.

Loks er þess að geta að flokkarnir eiga samkvæmt frumvarpinu að tilnefna varamenn í nefndum, allt að þeim fjölda sem þeir eiga af aðalmönnum. Þetta fyrirkomulag er einfaldara í sniðum en nú viðgengst með þá einu nefnd sem hefur fastákveðna varamenn, en formlegra en það fyrirkomulag staðgengla nefndarmanna sem unnið er eftir í öðrum nefndum, sbr. 3. mgr. 17. gr. þingskapa, þar sem þingflokki er heimilt að tilnefna varamann um stundarsakir í forföllum aðalmanns. Þetta auðveldar boðun funda í nefndum og er það fyrirkomulag sem tíðkast í nágrannaþingum.

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir helstu atriðin um breytingar á þingskapalögunum er varða skipan nefnda Alþingis. Mikilvægt er að okkur takist að ljúka þessu máli nú fyrir þingslit og kosningar til þess að gengið verði til skiptingar í nefndir á grundvelli þeirrar skipunar sem frumvarpið gerir ráð fyrir þegar nýtt þing kemur saman.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpið gangi til 2. umr. og allsherjarnefndar en get þess í lokin að flutningsmenn að þessu frumvarpi með mér eru hv. þingmenn Valgerður Sverrisdóttir og Jón Magnússon.



[18:05]Útbýting:

[18:06]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka til máls í 1. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum. Hv. þm. Sturla Böðvarsson hefur sem 1. flutningsmaður mælt fyrir því en hann flytur það ásamt þingmönnunum Jóni Magnússyni og Valgerði Sverrisdóttur.

Ég tel að almennt eigi sú regla að gilda og menn eigi að reyna að hafa hana í heiðri eftir því sem frekast er kostur að um þingsköp Alþingis sé þverpólitísk samstaða. Hér er verið að fjalla um þær almennu leikreglur sem gilda í störfum Alþingis og mikilvægt er að um þann ramma sé góð pólitísk samstaða. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gagnrýndum það á sínum tíma þegar afgreidd voru þingskapalög snemma á síðasta þingi að gerðar voru breytingar sem fóru í bága við það sjónarmið sem við höfðum uppi í þeim málum og lítill vilji virtist vera þá til að teygja sig í þá átt að um það gæti tekist fullkomin samstaða.

Þau mál sem fjallað eru um í þessu frumvarpi eru ekki pólitísks eðlis, a.m.k. ekki flokkspólitísks, heldur eru þetta atriði sem lúta fyrirkomulagi þingstarfanna og þess vegna er þeim mun mikilvægara að mínum dómi að ekki sé verið að takast á um slíka hluti þvert á flokkspólitískar línur.

Það er að sjálfsögðu líka álitamál hvernig skipa eigi þingstörfunum. Hér er verið fyrst og fremst að fjalla um nefndaskiptinguna og lagt til að starfandi séu sjö fastanefndir á Alþingi í stað þeirra 12 sem nú starfa og gert ráð fyrir því að í hverri nefnd séu níu þingmenn. Í dag eru níu þingmenn í öllum nefndum nema í fjárlaganefnd, þar eru 11, en ég skil það þannig að frumvarpið geri ráð fyrir að breyting verði á fjölda nefndarmanna í fjárlaganefnd og þeim fækki úr 11 í níu.

Jafnframt er gerð sú tillaga að breytingu að þingflokkar tilnefni fasta varamenn í nefndir, jafnmarga og þeir eiga aðalmenn. Sú regla gildir í dag einungis um utanríkismálanefnd en hér er gert ráð fyrir að þetta verði hin almenna regla.

Um efnisatriði frumvarpsins — burt séð frá því að ég tel að flytja hefði átt frumvarp til laga um breytingu á þingskapalögunum af öllum þingflokkum — vil ég segja að ég tel að margar athyglisverðar hugmyndir séu hér á ferðinni. Mér finnst sjálfsagt mál að skoða það að nefndum þingsins verði fækkað og málasvið þeirra þannig breikkað en að sjálfsögðu er að mörgu að huga í því efni. Ljóst er að málaflokkunum sem þingið fjallar um mun ekkert fækka þó að nefndirnar verði færri. Sömu mál verða að sjálfsögðu undir eftir sem áður og það getur auðvitað orðið snúnara fyrir þingflokka, ekki síst þingflokka sem hafa ekki mörgum þingmönnum á að skipa, að komast yfir öll þau mál sem nefndirnar fjalla um. Það má t.d. hugsa sér að skoða þingflokk sem í dag á einn fulltrúa í allsherjarnefnd og einn fulltrúa í menntamálanefnd, sem hér lagt er til að verði sameinaðar, ætti hugsanlega aðeins einn fulltrúa í sameinaðri nefnd eftir þessa breytingu. Álagið yrði því þeim mun meira á viðkomandi en áður var. Því er að mörgu að hyggja í þessu þó að ég sé þeirrar skoðunar að vel komi til álita að fækka þingnefndunum.

Um einstakar tillögur í þessu efni get ég tekið undir þau sjónarmið sem eru á bak við t.d. tillögu um eina atvinnumálanefnd sem fjallar um atvinnumálin á breiðum grundvelli, sameinaða efnahags- og skattanefnd annars vegar og viðskiptanefnd hins vegar. Mér finnst það vera tillaga sem vel geti gengið upp og sömuleiðis um heilbrigðis- og félagsmálanefnd. Ég hef meiri efasemdir um aðrar tillögur. Um hugmyndina um sameiningu umhverfisnefndar og samgöngunefndar eru hygg ég tvö sjónarmið uppi. Ég er þeirrar skoðunar að skynsamlegt geti verið að sameina umhverfisnefnd og samgöngunefnd, líkt og gert hefur verið á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur, þar beitti ég mér fyrir því þar sem við höfum litið svo á að samgöngumálin séu eitt allra stærsta umhverfismálið. Þau sjónarmið hafa líka heyrst a.m.k. í þingflokki mínum að það geti orkað tvímælis á löggjafarþinginu að sameina þessar nefndir í eina þar sem umhverfisnefnd fer meira með eftirlit með alls konar verklegum framkvæmdum meðan samgöngunefndin fjallar um framkvæmdaþáttinn. Þar gætu því hagsmunir stangast á. Ég tel eðlilegt að það sjónarmið verði skoðað alveg sérstaklega í umfjöllun um þetta mál.

Um tillögu um sameiningu allsherjarnefndar og menntamálanefndar hef ég miklar efasemdir. Ég tel að þar séu í eðli sínu mjög ósamkynja málaflokkar og henti ekki vel að setja þá saman í eina nefnd. Ég hefði heldur viljað sjá að allsherjarnefndin væri áfram ein enda hefur hún býsna mikið undir eins og reynslan sýnir. Við höfum séð það bæði á þessu þingi og áður að mjög mörg stór mál koma til úrlausnar og vinnslu í allsherjarnefnd og ég hygg að varla sé á það bætandi að bæta við heilum málaflokki eins og menntamálum þar inn.

Vitaskuld má skoða annars konar skiptingu ef menn vilja halda sig við fjöldann sjö en það væri ekki frágangssök að mínu áliti þó nefndirnar væru átta en ekki sjö eins og hér lagt er til. Það er allt saman efni sem hlýtur að koma til skoðunar við umfjöllun á vettvangi þeirrar þingnefndar sem fær málið til umfjöllunar.

Rauði þráðurinn í þessu er m.a. sá að reyna að tryggja það að þingmenn eigi ekki sæti í allt of mörgum þingnefndum eins og gerist í dag. Það er kostur við tillöguna að þingmenn mundu væntanlega flestir eiga aðeins sæti í einni nefnd og geta helgað sig henni, í einhverjum tilvikum hugsanlega tveimur, en það væru viðbrigði frá því sem er í dag þegar margir þingmenn eiga sæti í þremur og jafnvel fjórum þingnefndum. En aftur kemur upp þetta sjónarmið sem ég nefndi áðan að sérstaklega fyrir litla þingflokka sem eiga kannski bara einn mann í stórri nefnd þá getur verið býsna mikið undir að þurfa að dekka heilu málasviðin eins og allsherjar- og menntamálanefnd eða efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd gerir í dag. Þarna eru ýmis álitamál uppi. Inn á þetta kemur líka umræðan um aðstoð við nefndastörfin. Ekki fyrir löngu síðan var sett á laggirnar aðstoðarmannakerfi þingmanna landsbyggðarkjördæmanna. Ég var mjög gagnrýninn á það fyrirkomulag. Ég taldi að betra hefði verið að beina þeim kröftum og því fjármagni sem til þess var varið til að styðja við nefndastarf þingflokkanna, taldi það betra og tel reyndar enn að skynsamlegt væri að gera ráðstafanir til að þingflokkarnir gætu hver fyrir sig verið með meiri aðstoðarvinnu á vettvangi einstakra nefnda, svipað og nefndasviðið er skipt þar sem nefndarritarar sinna ákveðnum nefndum hver. En þetta eru líka viðhorf sem mér finnst rétt að fái þá umfjöllun á vettvangi allsherjarnefndar sem mun fá þetta mál til umsagnar.

Ég tel að hugmyndin um að fastir varamenn komi upp í nefndum geti verið til bóta og rétt geti verið að þingflokkar tilnefni fasta varamenn í nefndir en það kæmi þó kannski ekki í veg fyrir að í undantekningartilvikum þyrftu aðrir að geta hlaupið í skarðið og eftir sem áður þyrfti að vera heimild til þess, en almenna reglan um að það séu varamenn held ég að sé til bóta.

Virðulegi forseti. Ef ég held mig við efnisatriði frumvarpsins þá tel ég að ýmislegt sé í því sem getur horft til betri vegar frá því sem er í dag en annað sem ég hef miklu meiri efasemdir um. Ég fæ væntanlega tækifæri til að ræða það betur á vettvangi allsherjarnefndar þar sem ég á sæti. Ég held að í þessu efni væri gagnlegt að allsherjarnefnd viðaði að sér gögnum og upplýsingum um hvernig svona fyrirkomulagi er háttað í þjóðþingunum í kringum okkur, meðal annars er lýtur að því hvaða mál heyra saman, hvort þingmenn séu almennt bara í einni nefnd eða fleiri og hugsanlega hvort jafnvel þyrfti, þó menn færu í fastanefndir með þessum hætti, annars konar nefndir svo sem eftirlitsnefnd, eins og mér heyrðist hv. þm. Sturla Böðvarsson nefna í framsögu sinni.

Þegar á heildina er litið finnst mér eðlilegt að frumvarpið fái málefnalega umfjöllun á vettvangi allsherjarnefndar og það verður þá að koma í ljós í þeirri vinnu hvort almennur stuðningur er við málið eins og það er lagt fyrir eða hvort menn vilja gera á því einhverjar breytingar. Ég áskil mér að sjálfsögðu allan rétt til að koma með breytingartillögur þegar málið er þar til umfjöllunar.



[18:17]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég fagna því að við ræðum það frumvarp sem hér er á dagskrá um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Hér er um grundvallarmál að ræða og ég vil segja það í upphafi míns máls að ég styð það markmið sem hv. flutningsmenn, hv. þingmenn Sturla Böðvarsson, Jón Magnússon og Valgerður Sverrisdóttir, leggja fram í þessu þingmáli. Markmiðið hlýtur að vera það að gera störf þingsins skilvirkari en þau eru í dag, að auka hagræðið í störfum þingsins. Við hljótum jafnframt með því sem hér er lagt til að fækka nefndum þingsins úr tólf niður í sjö að fylgja þeim breytingum eftir á sviði framkvæmdarvaldsins og fækka þar með ráðuneytum. Ég hefði viljað sjá að þeim yrði fækkað hið fyrsta og þá ekki í ósvipaða veru og frumvarpið sem við ræðum hér mælir fyrir um. Það þarf að auka hagræðið í rekstri hins opinbera. Ég er ekki að segja að það sé einhver sparnaðarlykt af því frumvarpi sem við ræðum hér. En ég held að við getum fengið mun meira og miklu skilvirkara kerfi ef við fækkum þessum nefndum.

Það er alveg rétt sem hv. þingmenn hafa sagt hér að álagið getur verið ótrúlegt fyrir þingmenn jafnvel í litlum þingflokkum. Ég man að á þar síðasta kjörtímabili voru þingmenn Framsóknarflokksins í allt að fjórum nefndum og við slíkt álag er náttúrlega varla hægt að búa. Þessu þarf að breyta. Við þurfum að hafa það í huga þegar þetta er rætt.

Það er einn algengur misskilningur úti í samfélaginu og mér finnst að við þurfum að hafa það á hreinu í þessari umræðu, að þingmenn fái greitt fyrir hverja einustu nefnd sem þeir sitja í og fái greitt fyrir hvern einasta fund. Það er alrangt. Það er ekki greitt fyrir neinn fund og það er ekki greitt neitt sérstaklega fyrir neina nefnd heldur er það þannig að ef viðkomandi gegnir formennsku í viðkomandi nefnd þá fær hann 15% álag ofan á þingfararkaup þannig að mér finnst vera mjög útbreiddur misskilningur í samfélaginu um það að eftir því sem menn eru í fleiri nefndum þá fái þeir meira greitt. Það er misskilningur sem við þurfum að leiðrétta.

Ég tel að við þurfum að þoka þessum málum áfram. Ég held að með breytingum sem þessum mundi hver og ein nefnd fá meiri þjónustu og sérfræðiaðstoð og það veitir svo sannarlega ekki af því að efla þá aðstoð við nefndir þingsins. Og það má velta því fyrir sér hvort kraftarnir séu að dreifast um of vegna þess að við erum með of margar nefndir og hvort þingmenn hafi þá heildaryfirsýn sem væri æskileg. Ef við tökum til að mynda þá tillögu sem hér er, að sérstök atvinnumálanefnd verði stofnuð á vettvangi þingsins sem undir heyrðu, iðnaðarmál, orkumál, landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál, byggðamál og ferðamál, þá held ég að viðkomandi þingmenn sem sætu í slíkri nefnd hefðu miklu betri yfirsýn yfir íslenskt atvinnulíf og slíkt er mjög mikilvægt.

Í öðru lagi finnst mér það líka vera mjög gott sem stendur í greinargerð með frumvarpinu að markmiðið með þessu sé að auka eftirlitshlutverk Alþingis. Ég held að síðustu ár hafi sýnt okkur fram á að þurft hafi að efla það hlutverk þingsins, sérstaklega fjárlaganefndar þingsins og við þurfum þess vegna að auka sérfræðiaðstoð við nefndir Alþingis til að þingið standi undir því hlutverki sem því er ætlað að fylgjast með störfum framkvæmdarvaldsins og það þurfum við að bæta, hæstv. forseti.

Án þess að ég ætli að lengja mál mitt mikið þá vil ég nefna önnur álitamál sem mér finnst að við þurfum að ræða hér og það eru þessi svokölluðu meirihlutastjórnmál, þ.e. að þeir flokkar sem mynda ríkisstjórn hafi forustu í öllum nefndum þingsins. Mér finnst það ekkert sjálfgefið og ég mundi vilja að við skoðuðum það að hver og einn stjórnmálaflokkur sem fær kjör á Alþingi fái nefndarformennsku í hlutfalli við atkvæðamagn sitt. Framúrskarandi fólk er í öllum þingflokkum á Alþingi og ég tel að við þurfum að láta á það reyna að allir stjórnmálaflokkar fái að koma að því að leiða nefndir á vettvangi þingsins. Slíkt hefur því miður ekki tíðkast í allmörg ár en eins og ég segi hér, svo ágætir sem þingflokkarnir eru þá er það þannig að mér finnst að við þurfum að hleypa fleirum af forustustörfum á vettvangi Alþingis Íslendinga og við þurfum að koma okkur út úr þessum meirihlutastjórnmálum sem hafa viðgengist á undanförnum árum. Ég held að það sé ákveðið ákall um að við hugsum þessa hluti upp á nýtt. Tökum sem dæmi að Framsóknarflokkurinn fengi eftir kosningarnar í vor — vonandi fær hann mikið fylgi — segjum sem svo að hann fengi 16% fylgi (Gripið fram í: Fimm.) 16 og að nefndirnar væru sjö þá væri eðlilegt að sá flokkur fengi formennsku í einni nefnd. Sjálfstæðisflokkurinn með 33% fylgi, ef við tökum sem dæmi — sumum finnst það greinilega of mikið — að hann fengi tvo í samræmi við það magn atkvæða sem á bak við viðkomandi flokk er. Ég varpa þessu svona fram í umræðuna hvað þingmönnum finnist um það að við skoðum það að dreifa þessu valdi í samræmi við stuðning við flokka á þingi.

Ég er líka hjartanlega sammála því varðandi þá sem sitja í fjárlaganefnd Alþingis að miðað við það verkefnasvið sem er á sviði fjárlaganefndar er ekki mikið svigrúm fyrir þá nefndarmenn að vera í öðrum nefndum. Mér finnst í raun að við þurfum að fara að endurskilgreina fjárlagaferlið og auka líka vægi fagnefndanna. Ég mundi vilja sjá að sett yrðu ákveðin rammafjárlög þar sem menn setja stefnu, heildarmarkmið, hvað á að setja í hvern og einn málaflokk. Þegar kemur síðan að úthlutunum á fjárlögum þá vil ég einfaldlega að nefnd eins og heilbrigðis- og félagsmálanefnd ynni út frá einhverjum tilteknum ramma. Eins og þetta hefur verið þá hefur sá rammi vissulega verið fyrir hendi en síðan hefur fjárlaganefnd oftar en ekki í framhaldinu kallað til félagasamtök og fleiri aðila og stækkað rammann. Það hefur óheyrilega mikil vinna farið fram á vettvangi fjárlaganefndar þingsins til þess að stækka þessa ramma. Ég hefði frekar viljað sjá að menn væru búnir að móta þessa ramma fyrir fram og það væri þess vegna á forræði viðkomandi fagnefnda að úthluta úr þeim. Þannig gæti fjárlaganefnd þingsins einbeitt sér enn meira að því gríðarlega mikilvæga eftirlitshlutverki sem hún á að gegna í störfum á Alþingi. Það þarf að dreifa kröftunum og það þarf að gera fjárlagavinnuna miklu skilvirkari en hún hefur verið á undanförnum árum. Það að menn stækka þessa ramma eftir á hefur leitt af sér, og ég hef skoðað það, að umsóknir um styrki á fjárlögum hafa margfaldast á undanförnum árum og eru nú komnar yfir 1.000. Til samanburðar fyrir aðeins örfáum árum, tíu árum eða svo, þá voru þær á milli 100 og 200. Það segir sig náttúrlega sjálft að ef þessi þróun heldur áfram út í hið óendanlega þá verða komnar mörg þúsund umsóknir til fjárlaganefndar um einhver sértæk verkefni sem hún er að taka ákvörðun um og það fer gríðarlegur tími, dýrmætur tími í störfum fjárlaganefndar, í afgreiðslu þessara mála og tala ég nú af eigin reynslu. Ég held að við þurfum að skoða þessa hluti algerlega upp á nýtt. Með þessu er ég ekki að segja að það eigi að taka fjárveitingavaldið af Alþingi eða við eigum að láta framkvæmdarvaldið eingöngu úthluta þessu öllu. En ég tel að við þurfum að dreifa þessu valdi innan þingsins út í fagnefndirnar því við erum með þessu frumvarpi — eins og ég hef sagt hér þá styð ég meginatriði þess og vil að það verði skoðað sérstaklega í nefnd og útiloka svo sem ekki neinar breytingar — við erum að styrkja faglegan grundvöll og faglega aðstoð og ráðgjöf við þessar nefndir. Það segir sig sjálft að ef við gerum það þá eru þeir nefndarmenn sem sitja í þeim nefndum hvað best fallnir til þess að ákveða hvernig við skiptum þeim fjármunum sem við veitum af fjárlögum hverju sinni.

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa því yfir að ég er mjög ánægður með að þetta frumvarp skuli komið fram og ég held að þetta sé angi af fjölmörgu sem við þurfum að taka til endurskoðunar á vettvangi þingsins og reyndar almennt í opinberri stjórnsýslu. Það er alveg ljóst að á erfiðum tímum sem eru fram undan — staða ríkissjóðs er mjög erfið og bág — þurfum við að taka erfiðar ákvarðanir. Við þurfum að hagræða hjá hinu opinbera í rekstrinum og þess vegna þurfum við að skoða allar leiðir sem eru fallnar til þess að draga úr útgjöldum ríkisins með það að markmiði að gera samt starfið skilvirkara en það hefur verið. Ég mæli þess vegna með því að þetta mál fái mikla og góða umræðu á vettvangi væntanlega allsherjarnefndar og segi að orð eru til alls fyrst og við þurfum að vinna mjög markvisst að því að endurskoða þessi mál því að nú þurfum við að fara að horfa í hverja einustu krónu. Það er sjálfsögð krafa um það úti í samfélaginu að hér á þessum vinnustað og öðrum gætum við fyllsta hagræðis og reynum að sýna fólki fram á að Alþingi er skilvirkt í sínum störfum og það veitir svo sannarlega ekki af því á þeim tímum sem við nú lifum. Ég er viss um að það er markmið þeirra sem flytja þetta frumvarp að bæta störf þingsins og ég tel að meginandi frumvarpsins sé í þá veru að verði það samþykkt, hugsanlega með einhverjum breytingum, þá verði störfin hér mun skilvirkari heldur en þau eru nú.



[18:28]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að bregðast aðeins við því sem fram kom í máli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, þ.e. sem hann nefndi um trúnaðarstörf í þinginu, formennsku í nefndum og væntanlega á það við varaformennsku sömuleiðis.

Ég er þeirrar skoðunar að ákvæði um það eigi að vera bundið í þingskapalögin, að trúnaðarstörf, til dæmis forusta í nefndum eigi að skiptast á þingflokka í hlutfalli við það fylgi sem þeir fá í kosningum. Það á ekki að vera eins og var hér áður þegar það var reynt að stjórnarandstaðan færi með formennsku í einhverjum nefndum, að það væri nánast þannig að hún væri að þiggja það góða boð stjórnarmeirihlutans hverju sinni að taka við forustu í nefndum. Þetta er sjálfsagður réttur vegna þess að kjósendur, óháð því hvaða flokk þeir kjósa, eiga sama rétt inn á löggjafarsamkomuna. Þess vegna finnst mér að það eigi að binda það í þingskapalögin og tek undir með hv. þingmanni hvað þetta snertir. Þetta ætti þess vegna að koma inn í sjálf þingskapalögin en ekki bara vera samkomulagsatriði hverju sinni þannig að minni hlutinn eða stjórnarandstaðan sé upp á náð og miskunn meiri hlutans í hverju tilviki fyrir sig.

Sömuleiðis væri þá nefndarsætunum öllum, heildarfjölda nefndarsæta, skipt eftir hlutfalli. Það gerist nefnilega með hlutfallskosningu í hverja nefnd fyrir sig að stjórnarmeirihlutinn getur fengið og fær iðulega fleiri sæti en hann ætti rétt á ef eingöngu væri miðað við hlutfallið sem hann fær í kosningum hverju sinni. Þetta þyrfti líka að gera.

Varðandi síðan fækkun ráðuneyta sem þingmaðurinn kom inn á þá er ég þeirrar skoðunar að það sé ekki sjálfgefið að nefndaskipan á löggjafarsamkomunni endurspegli ráðuneytisskiptinguna. Af hverju á það að vera þannig að ef mönnum dettur í hug að breyta ráðuneytisskipaninni, eins og hér var gert síðast, að þá þurfi endilega að breyta þingnefndunum? Má ekki löggjafarsamkoman skipuleggja sín störf eftir því sem henni hentar (Forseti hringir.) burt séð frá því hvað hentar í ráðuneyti og einstökum ríkisstjórnum hverju sinni?



[18:31]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Á hátíðis- og tyllidögum segja stjórnmálamenn að valdið komi frá fólkinu, frá almenningi og er eðlilegt að það endurspeglist í störfum þingsins. Við erum greinilega sammála, ég og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, um að það eigi að endurspeglast í kjörfylgi flokkanna á Alþingi hvaða formennsku og varaformennsku í nefndum þeir eigi að gegna.

En af því við hv. þingmaður erum komnir í umræðu um þetta almennt bendi ég á að eftir að hin geysistóra ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók til starfa, kusu þeir flokkar saman í nefndir. Við skulum taka sem dæmi mikilvæga nefnd sem er EFTA-nefndin sem á að fylgjast með samstarfi okkar á hinu Evrópska efnahagssvæði. Í þá nefnd fengu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fjóra fulltrúa af fimm. Þá var einn eftir til skiptanna sem ég held að hafi komið frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Ég held að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hafi verið í þeirri nefnd og sé enn í þeirri nefnd.

En tveir flokkar voru þar af leiðandi sjálfvirkt útilokaðir frá því að geta starfað í þeirri nefnd, eins mikilvæg og hún er. Ég veit að hv. þingmaður veit það. Það hljómar mjög ankannalega ef tveir stjórnmálaflokkar, í þessu tilviki Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn, geta ekki fengið aðkomu að nefnd, áheyrn eða eitthvað slíkt. Ég held því að í pælingum okkar um fastanefndir þingsins þurfum við líka að skoða alþjóðasamstarfið og hvernig við getum á sem lýðræðislegastan hátt hleypt öllum stjórnmálaflokkum að því mikilvæga starfi. Það hefur sýnt sig í því hruni sem átt hefur sér stað á Íslandi að menn þurfa að standa vaktina og fylgjast með. Að sjálfsögðu eiga allir stjórnmálaflokkar (Forseti hringir.) að fá að vera í því starfi. Ég spyr því hv. þingmann um hans sjónarmið í (Forseti hringir.) þessu.



[18:33]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þm. Birki Jóni Jónssyni um þetta atriði. Það er ekkert eðlilegt við að ríkisstjórnarmeirihluti eins og síðast var hér, sem hafði tvo þriðju þingmanna á bak við sig, hefði 80% hlutdeild í einni nefnd eins og alþjóðanefndinni sem hv. þingmaður nefndi.

Ég talaði sjálfur fyrir því þegar ég ræddi um skipan yfirkjörstjórna um land allt, sem allar eru fimm manna, að fráfarandi síðasta ríkisstjórn tók fjögur sæti af fimm í öllum nefndunum þó að hún ætti að sjálfsögðu ekki fylgi fyrir því. Það var vegna þess að hlutfallsreglan var notuð. Ég er því þeirrar skoðunar að það eigi taka nefndarsætin í fastanefndum og alþjóðanefndum og skipta þeim eftir fylgi þannig að flokkur sem hefur 15% fylgi fái 15% hlutdeild í heildarsætafjölda í fastanefndum. Hið sama á við um alþjóðanefndirnar. Síðan verða flokkarnir að sjálfsögðu að koma sér saman um það hvernig það skiptist nákvæmlega.

Þetta getur leitt til þess að ríkisstjórn sem hefur t.d. 33 þingmenn á bak við sig hefur ekki sjálfkrafa meiri hluta í öllum nefndum en það er líka allt í lagi. Þannig á það alveg að geta unnist í lýðræðissamfélagi þar sem þingið á að vera sjálfstætt.

Ég minni á að í þjóðþingunum í kringum okkur, t.d. í Noregi þar sem ég þekki til, er nefndarformennsku skipt á alla flokka eftir stærð og eftir fylgi. En flokkarnir tilnefna líka talsmenn í einstöku nefndum þar sem þeir hafa ekki formann. Flokkarnir hafa engu að síður talsmann í hverjum málaflokki sem kemur fram fyrir hönd viðkomandi flokks þó að flokkurinn gegni ekki formennsku þar. Það getur verið mikilvægt fyrir stjórnarflokk sem ekki á formann í tiltekinni nefnd að hann hafi þó alla vega formlega tilnefndan talsmann. Það er fyrirkomulag (Forseti hringir.) sem við gætum hiklaust skoðað.



[18:35]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er mikill samhljómur hjá okkur hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni í þessu máli og er það vel. Ég verð að segja að síðustu vikur á Alþingi hafa verið byltingarkenndar að því leytinu til að þegar ég sit í sölum Alþingis finnst mér loksins að ég hafi raunveruleg áhrif. Sú breyting sem átt hefur sér stað í íslenskum stjórnmálum eftir að minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna tók við hefur leitt til þess að vægi Alþingis hefur aukist til muna.

Við horfðum upp á það og lásum um það í dagblöðum hvað ríkisstjórnin og forustumenn hennar ætluðu sér að gera og hvaða mál ætti að afgreiða. Í raun og veru var það bara í tilkynningaformi. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að við þurfum að lyfta Alþingi Íslendinga á þann stall á ný að það sé hið raunverulega löggjafarvald. Að það sé framkvæmdarvaldið sem starfi í umboði löggjafarvaldsins en ekki öfugt eins og því miður hefur verið á undangengnum árum.

Ég segi því í ljósi þess sem hv. þingmaður sagði áðan, að hafi ríkisstjórnin nauman meiri hluta getur það alveg farið þannig við kosningar í nefndir þingsins að hún hafi jafnvel ekki meiri hluta í nefndum. Þannig er lýðræðið. Við skulum því endurskoða þessi mál og hafa það þá til hliðsjónar að meginverkefnið hlýtur að vera að styrkja stöðu Alþingis, styrkja stöðu nefnda þingsins, styrkja stöðu alþingismanna þannig að það sé framkvæmdarvaldið sem hlítir þeim en ekki öfugt. Það er mikilvægt að við höfum það hugfast í þeirri vinnu sem fram undan er að við aukum veg og virðingu Alþingis að nýju sem mér hefur því miður fundist á skorta á undangengnum áratugum.



[18:37]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér afskaplega mikilvægt mál. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sturlu Böðvarssyni fyrir að vinna enn einu sinni að hag Alþingis vegna þess að þær breytingar sem gerðar voru fyrir nokkru á því að takmarka ræðutíma t.d. og fleira, sem gert hefur vinnuna á þingi miklu skilvirkari, eru honum að miklu leyti að þakka. Ég vil að það komi skýrlega fram.

Undanfarið hefur verið mikil gerjun í þjóðfélaginu. Við urðum fyrir gífurlegu áfalli, íslensk þjóð. Þegar vel gengur er mjög erfitt að breyta hlutum vegna þess að það gengur allt þokkalega. Ef breyta á einhverju kemur það niður á einhverjum. Þá rís hinn sami upp á afturlappirnar og talar við þingmanninn sinn og ráðherrann og ekkert verður af breytingunum. (Gripið fram í: Nú?)

Þá er skortur á katastrófu, eins og sumir segja. Við höfum orðið fyrir áfalli á Íslandi. Það er ekkert gamanmál. Það er virkilega alvarleg staða en það gefur okkur tækifæri til að gera breytingar. Menn eru tilbúnir í breytingar þegar katastrófa er í samfélaginu. Ákallið í mótmælunum úti á Austurvelli, ákallið frá þjóðinni, eins og ég skil það — ég þekki náttúrlega ekki alla þjóðina, ég er ekki einn af þeim — en mín tilfinning er sú að mikil krafa sé um að lýðræðið og gagnsæið sé aukið. Það er krafa um að Alþingi sé styrkt.

Það er ekki spurning, og það geta allir þingmenn borið upp í flokkum sínum, hver og einn einasti, að flokksræði hefur verið mjög sterkt á Íslandi og það hefur verið mjög sterkt ráðherraræði. Það eimir eftir af því enn þá. Ég minntist á að á morgun skipar einn ráðherra allt Seðlabankaliðið, alla stjórnina eins og hún leggur sig. Þetta verður sem sagt Jóhönnubankastjórn (Gripið fram í.) þannig að það er sterkt ráðherraræði.

En ég held að nú sé krafa um að Alþingi sé styrkt og við verðum að bregðast við því. Þetta frumvarp er hluti af því. Þegar þingmenn eru í færri nefndum hafa þeir meira gildi í hverri nefnd fyrir utan að það gefur ákveðið merki um að breyta eigi ráðuneytunum líka þó að það sé ekki endilega samsvörun á þar á milli. Ég tel að það sé mjög brýnt að sameina iðnaðarráðuneyti og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti og hugsanlega fleiri verkefni og setja allt inn í nýtt atvinnumálaráðuneyti. Ég held að það sé mjög brýnt. Jafnvel má þá kljúfa önnur ráðuneyti upp sem eru allt of stór. Frumvarpið finnst mér vera afrakstur ákveðinnar lýðræðisgerjunar í þjóðfélaginu.

En ég vil gera miklu meiri og miklu alvarlegri breytingar. Mesta breytingin sem ég hef talað fyrir, fyrir mörgum árum, er sú að ekkert frumvarp verði samþykkt á Alþingi sem alþingismenn hafa ekki samið sjálfir. Nú er þessu akkúrat öfugt farið. Það er leitun að frumvörpum sem alþingismenn hafa samið sem Alþingi samþykkir síðan sem lög.

Hvaða máli skiptir það? Jú, sá sem semur texta í fyrsta skipti þarf ekki að svara fyrir að textinn sé svona eða hinsegin. Hann setur endanlegan ramma. Allir sem koma að málinu seinna meir þurfa að rökstyðja breytingarnar. Þeir þurfa að segja: Þetta er galli, við þurfum að breyta þessu. Segjum t.d. að þetta sé frumvarp um samkeppnismál. Hverjir skyldu nú yfirleitt semja þau í dag? Starfsmenn Samkeppniseftirlitsins vegna þess að þeir vita jú mest um málið. Það eru sérfræðingarnir. Síðan fer það í ráðuneyti viðkomandi ráðherra, í þessu tilfelli viðskiptaráðherra. Hann og starfsmenn þurfa að leggja blessun sína yfir málið og þeir þurfa að rökstyðja breytingarnar sem starfsmenn Samkeppniseftirlitsins þurftu ekki að gera. Síðan fer málið í ríkisstjórn. Hún þarf að rökstyðja það ef hún gerir breytingar á því. Síðan fer það til stjórnarflokkanna. Þeir þurfa líka að rökstyðja breytingar. Svo fer málið í nefnd á Alþingi í umræðu o.s.frv. Allir þurfa að rökstyðja breytingarnar nema sem sá setti textann upp upphaflega. Hann þarf ekki að rökstyðja eitt eða neitt. Hann er oft að vinna í framkvæmd laganna. Hann er að vinna með borgurunum og smíðar vopn í hendurnar á sjálfum sér.

Ég skora á hv. þingmenn að lesa t.d. 109. gr. skattalaga. Eflaust er hún samin af einhverjum skattheimtumanninum. Hún er bönnuð börnum sú grein, hún er svo skelfileg. Það er svo mikið af álögum, það er svo mikið um fangelsisvistun og ég veit ekki hvað, ef menn fara ekki að vilja embættismannanna.

Ég held að þingmenn mundu aldrei setja svona ákvæði í lög ef þeir semdu frumvarp sjálfir. Það held ég að yrði mjög mikil breyting. Og það skemmtilega er að það þarf alls engu að breyta, hvorki lögum né stjórnarskrá eða neinu. Það eina sem þarf að gera er að Alþingi gerir uppreisn og segir: Uppreisn Alþingis. Það gæti bæði þýtt að Alþingi rísi upp og verði mikið og merkilegt og eins að það gerir byltingu. Þetta er sem sagt tvírætt orðalag, uppreisn Alþingis, (Gripið fram í: Gott.) og meira að segja stuðlað. Ég held að þetta sé krafa tímans.

Þessa ákvörðun um breytingu mundu alþingismenn taka með sjálfum sér og segja við ráðherrana: Ef þið viljið gera einhverja breytingu á lögum skulið þið snúa ykkur til viðkomandi nefndar og spyrja hana hvort hún sé til í að semja um það frumvarp. Hið sama gætu einstaklingar, fyrirtæki og samtök gert. Þau geta snúið sér til nefndarinnar og sagt: Það vantar að laga eitthvað t.d. í barnaverndarlögum. Þau gætu t.d. sagt það við félagsmálanefnd eða allsherjarnefnd eða hvað sem það heyrir undir. Það þarf að breyta einhverju í umferðarlögum. Þá tekur sú nefnd ákvörðun um hvort hún mun vinna að málinu eða ekki. Allir nefndarmenn kæmu að sjálfsögðu að vinnslu málsins, stjórnarandstaðan líka. Hún getur orðið undir í málinu af því menn eru ekki sammála henni en þá verður það bara þannig. Hún veit þó hvað er að gerast.

Þetta yrði tiltölulega einföld breyting, mjög einföld. Við þyrftum að sjálfsögðu að stækka nefndasviðið mjög mikið. Við mundum flytja fólkið úr ráðuneytunum því að það erum við sem borgum það hvort sem er. Alþingi veitir fjárveitingar. Það getur veitt þær til nefndasviðs eins og til ráðuneytanna til að semja frumvörp.

Þetta er breyting sem ég held að mundi styrkja Alþingi óskaplega mikið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég legg til að þingmenn komandi þings eftir kosningarnar, eftir prófkjörin og allt saman, stuðli að þessari breytingu.

Varðandi fjárlögin er ég sammála hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að þingið á að gera rammafjárlög. En sérnefndirnar eiga ekki að úthluta peningunum. Það á viðkomandi ráðuneyti að gera og bera á því ábyrgð gagnvart þinginu. Þær fjárveitingar sem þingið samþykkir ber enginn ábyrgð á vegna þess að þingið á að hafa eftirlit með þeim. En það samþykkti þessar fjárveitingar sjálft, þar er nefnilega brotalömin.

Mér finnst að þingið eigi að setja rammafjárlög og segja t.d.: Menntamálanefnd eða fjárlaganefnd samþykkir að í söfn eigi að setja svo og svo mikla peninga., 300 millj. kr., eða hvað það er. Leggja á jafna áherslu á landsbyggðina og Reykjavíkursvæðið og leggja áherslu á þetta og hitt. Svo fer peningurinn út til ráðuneytisins og viðkomandi ráðherra setur kannski allt saman í kjördæmið sitt. Ef hann gengur þannig þvert á vilja Alþingis í þeim efnum verður samþykkt á hann vantraust. Þá ber hann ábyrgð gagnvart Alþingi vegna fjárveitinganna.

Það sem ég legg til er að Alþingi taki til sín löggjafarvaldið, sem það hefur samkvæmt stjórnarskránni en hefur afsalað sér einhvern tímann í ferlinu, en láti frá sér framkvæmdarvaldið sem það hefur tekið til sín í gegnum tíðina.

Alþingi ræktar fíkniefnahunda í Vestmannaeyjum. Það er reyndar búið að taka það út, ég hef gert mikið grín að þessu. Alþingi þýðir bækur og stendur í alls konar málum. Það byggir torfkofa á Grænlandi og ég veit ekki hvað. Það er með ólíkindum hvað Alþingi skiptir sér af framkvæmdum. Það ber enginn ábyrgð á slíkum framkvæmdum þannig að ég legg til að menn fari að mínum ráðum.

Ég get tekið undir allt í þeirri góðu umræðu sem átti sér stað áðan um lýðræði í nefndunum og nefndarformennsku. Mér fannst það mjög góð umræða og hún á að fara fram. Ég vil endilega að innan þingsins sé lýðræði. En það er fleira sem ég vil benda á. Í umræðum í þinginu fær stærsti flokkurinn jafnmarga menn í eldhúsdagsumræðum og minnsti flokkurinn sem þarf jafnvel að mæta tvisvar í ræðustól af því hann hefur ekki nógu mikinn mannskap. Það finnst mér mjög ósanngjarnt. Ég hef stundum stungið upp á því í gríni að Sjálfstæðisflokkurinn mundi kljúfa sig í tvennt til að fá tvöfalt fleiri ræðumenn. Það er líka eitthvað sem þarf að laga varðandi nefndarformennsku.

Við ræddum um daginn um stjórnarskrá sem Framsóknarflokkurinn kom með. Þar voru að vísu nokkrir tæknilegir gallar en ég held að það sé líka eitthvað sem við þurfum að taka á. Ef maður les stjórnarskrána sést að hún er skrýtin, mjög skrýtin. Það stendur að forseti Íslands geri samninga við erlend ríki. Forsetinn skipar æðstu embættismenn o.s.frv. Hann skrifar undir lög og einhver gæti haldið að hann sé afskaplega valdamikill maður. Svo kemur ein lítil grein þar sem segir að forsetinn láti ráðherra framkvæma vald sitt og allt hitt er bara allt í plati. (Gripið fram í.) Þannig að stjórnarskráin segir ekki rétt frá. Hún á að segja rétt frá. Það þarf að laga hana alveg frá grunni og á það hefur verið bent undanfarið.

Ég held að það sé mjög mikilvægt til að svara kalli tímans. Til að svara kalli almennings, til að svara kalli þjóðarinnar um aukið lýðræði og aukið gagnsæi þurfa menn virkilega að fara að skoða þessa hluti og ég held að nú sé lag. Það er ekki lengur skortur á katastrófu. Við höfum lent í gífurlegu áfalli og menn eru tilbúnir til að gera breytingar. Þá eiga menn að nota tækifærið og breyta.

Ég held að það gæti orðið þjóðinni mjög til hagsbóta til framtíðar litið ef menn mundu virkilega ætla að breyta. Það frumvarp sem við ræðum hér er eitt af tveimur skrefum eða þremur sem þingið hefur staðið frammi fyrir í þeim efnum. Búið er að samþykkja verulega breytingu á þingsköpunum sem var að mínu mati mikið til bóta. Ég vil aftur þakka hv. þm. Sturlu Böðvarssyni fyrir frumkvæði hans í því máli. Síðan eiga menn að ræða frumvarpið og gera á því breytingar ef þeim sýnist og samþykkja það.



[18:50]
Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að frumvarpið sé mjög af því góða og geti orðið til þess að laga ýmis vinnubrögð í Alþingi. Þegar ég sem nýliði kom hingað og fór að fylgjast með starfinu og velta fyrir mér af hverju hlutirnir væru framkvæmdir með þeim hætti sem við erum að horfa upp á spyr maður sig: Af hverju er ekki hægt að gera hlutina öðruvísi? Af hverju er ekki hægt að gera þetta á annan hátt? Maður veltir ýmsu fyrir sér.

Ég get tekið undir flest það sem fram hefur komið bæði hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni og eins hjá hv. þm. Pétri Blöndal. Það er þó eitt sem hefur alltaf stungið mig mikið og það er þegar frumvörpum eða þingsályktunartillögum er vísað til nefnda, þá eru þau ekki afgreidd úr nefndinni. Frumvörp og þingsályktunartillögur eru látin liggja, þau eru söltuð í nefndunum. Ég hefði talið að það væri mikilvægt atriði að þau fengju afgreiðslu, hvort sem það er frumvarp eða þingsályktunartillaga, og að þau yrðu afgreidd í nefndunum, samþykkt til umræðu aftur inn í þingið eða hafnað. Ekki nota þá aðferð sem við þekkjum að mál eru látin liggja, þau eru söltuð og það er ekkert gert með þau.

Ég get alveg tekið undir það sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi um muninn á stórum og litlum flokkum. En við skulum ekki gleyma því að (Forseti hringir.) að Sjálfstæðisflokkurinn mun væntanlega minnka núna og aðrir flokkar (Forseti hringir.) stækka, samanber Frjálslynda flokkinn.



[18:52]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þessi síðustu orð hv. þingmanns þá eru margir sem ylja sér við dagdrauma og það er ágætt, það gefur deginum og lífinu lit.

Ég hef margoft rætt meðhöndlun frumvarpa og þingsályktana í nefndum. Mér finnst að nefnd eigi alltaf að afgreiða mál á þokkalegum tíma, umsagnarferli og annað slíkt, og svo á hún náttúrlega að afgreiða málið. Hún á að gera fernt við hvert einasta mál. Hún á annaðhvort að leggja til að Alþingi samþykki það eða hafni því. Hún á að leggja til að frumvarpið verði sent til þeirra sem sömdu það vegna galla í samningunni eða vísa því til — gömul hugsun — til ríkisstjórnarinnar, ég tek það aftur, ég ætla að hætta við þá fjórðu leið af því að ég vil ekki að ríkisstjórnin geri neitt annað en að framkvæma, hún er nefnilega framkvæmdarvaldið.

En ég get alveg tekið undir þetta. Við eigum ekkert að vera að hugsa um sálarheill þeirra sem sömdu frumvarpið. Það er alveg hægt að leggja til að frumvarp verði fellt, það er af því að skoðanir viðkomandi þingmanns verða undir og þá sætta menn sig bara við það. Ég hef margoft horft upp á rauða töflu hérna, glóandi rauða af tillögum sem ég hef flutt og hafa verið kolfelldar. Sálarheill mín var alveg í lagi eftir það.



[18:54]
Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því sem hv. þm. Pétur Blöndal segir og tekur undir. Hann hefur áður flutt tillögur um þetta og hefur haft og er með svipaðar skoðanir á þessum málum og ég. Það er því ekki annað hægt en að fagna því.

Þetta virkar oft þannig á menn að þeir þykjast vera sammála málinu þangað til það fer í nefnd. Svo þegar það liggur í nefndinni vilja þeir ekki eða treysta sér ekki til að greiða atkvæði gegn málinu, hvernig sem það er, eða samþykkja það. Þetta er mjög slæmur siður hjá þingmönnum í þingnefndum að afgreiða ekki málin hvort sem þau eru æskileg eða ekki. Þá kemur auðvitað í ljós hvað menn vilja og þá kemur betur í ljós hvað þingmenn vilja í þessum málum. Þeir geta ekki falið sig með því að salta mál í nefndum.

Mér finnst sjálfsagt að koma inn á þetta. Ég tel það vera mikið atriði að fá þingið og nefndirnar til að starfa eftir eðlilegum vinnubrögðum. Ég tel að það sé partur af því að ganga þannig til verka að við þurfum ekki að skammast okkar fyrir það hvernig við svo sem greiðum atkvæði um mál. Það liggur þá ljóst fyrir hvað menn vilja gera í þeim efnum.



[18:56]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp frá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni og fleirum varðandi fækkun nefnda hjá Alþingi, frumvarp sem má líta á sem rökrétt framhald af breytingu á þingsköpum sem hv. þm. og fyrrverandi forseti Alþingis hafði beitt sér fyrir og náð verulegum árangri í því að bæta starfsskilyrðin á þinginu og mikilvægt innlegg í umræðuna.

Gríðarleg vakning hefur orðið á þeim stutta tíma sem ég hef verið í þinginu. Ég hef orðið var við það að menn krefjast þess sífellt meira og meira að þingið verði eflt og styrkt, það verði sjálfstæðara og óháðara framkvæmdarvaldinu og um leið hafa menn verið að berjast fyrir því að starfsskilyrði í þinginu verði bætt. Ég held að ástæða sé til að taka undir alla þessa þætti, þetta er allt saman mikilvægt og nauðsynlegt að vinna að því. Samtímis má þó segja að auðvitað verða menn að skoða leiðirnar hvernig þetta er best gert.

Í þeim tillögum sem liggja fyrir á að fækka nefndum niður í sjö. Það er hugmyndin sem kemur fram í greinargerðinni, þ.e. að efla starf nefndanna, gera það skilvirkara og minnka árekstrana, sem er mjög mikilvægt. Nefndarfundir eru gjarnan settir á sama tíma og rekast því á. Einstakir nefndarmenn sem margir hverjir sitja í tveimur til þremur eða þremur til fjórum nefndum verða að velja á milli og kalla þá inn varamenn. Breytingin ætti að bæta skipulagið, það yrði auðveldara að koma á nefndarfundum og skipuleggja nefndavinnuna. Í greinargerðinni kemur líka fram að hægt sé að auka sérfræðiaðstoð og skerpa fókusinn á þeim málum sem verið er að vinna að.

Ég ætla þó í byrjun að segja að ég sem nýr þingmaður fékk tækifæri til að starfa sem formaður í einni nefnd, félags- og tryggingamálanefnd, og sat jafnframt í menntamálanefnd og fjárlaganefnd. Ég verð að viðurkenna að það var ómetanlegt tækifæri til þess að kynnast einmitt mörgum málaflokkum í þinginu. Ég hafði getað séð fyrir mér að maður hefði setið í einni nefnd, t.d. menntamálanefnd eða einhverri slíkri, sem í sjálfu sér hefði skerpt fókusinn en það sem gæti gerst og er ákveðin hætta á þegar menn fækka nefndum og menn verða í sérhæfðari málaflokkum — að vísu eru þessar nefndir með býsna stór mál undir — verði þetta þannig að í svipaðri umfjöllun og er í dag verði menn sérfræðingar í ákveðnum málum, fjalli eingöngu um þau og greiði síðan atkvæði í öðrum málum eftir því sem talsmaður viðkomandi flokks segir eftir að hafa setið í nefndinni.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn hafi breiða skírskotun og hafi góða yfirsýn í nefndunum og í mörgum málaflokkum. Það er því ákveðinn galli þegar fækka á nefndum, þjappa málum saman og menn verða að fjalla um takmarkaðri málaflokka.

Það hefur stundum borið við þegar verið er að gagnrýna þingið að menn hafi ekki þekkingu í hinu og þessu. Spurningin er þá ef maður situr uppi t.d. með allsherjarnefnd: Eiga þar eingöngu að vera lögfræðingar sem fjalla um málin? Verða þá sérhópar sem fjalla um dómsmálin og málin sem þar eru? Eiga kennarar fyrst og fremst að vera í menntamálanefnd? Að vísu er gerð tillaga um að þessar tvær nefndir verði sameinaðar og spurningin er þá hvort það sé lausn til að brjóta sig út úr þessu eða hvort þarna verði of ólíkum málaflokkum blandað saman.

Ég tel að umræðan sé afar mikilvæg og ég held að tillögurnar séu mjög góðar í heildina en krefjast auðvitað mikillar umræðu áfram og þurfa að skoðast miklu betur. Við vitum hvert markmiðið er, við vitum í meginatriðum hverju við viljum ná fram sem breytingum og það verður að vera leiðarljósið í þeirri vinnu sem fram undan er.

Ég geri ráð fyrir að forsætisnefnd taki málið til umræðu og velti vöngum yfir því með hvaða hætti slík tillaga geti best fengið framgang einmitt með tilliti til þess með hvaða hætti auðveldast er að reka þingið og þar vita fáir betur en hv. þm. Sturla Böðvarsson hvað er skilvirkast í vinnunni hérna.

Mig langar aðeins að blanda mér í umræðu sem hefur komið fram hjá öðrum hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson talaði um meirihlutastjórnmálin, ég hef stundum kallað þetta átakastjórnmál, sem ég hef verið afar ósáttur við þegar þau koma inn í þingið. Mér finnst að menn hafi einmitt dottið í þá gryfju að keppast um að flytja mál til þess að geta merkt sér þau og hafa þá í sjálfu sér oft gleymt því að gæta þess að ná breiðari skírskotun og öflugri stuðningi. Síðan hafa menn gjarnan stillt þessu upp þannig að málið er flutt af minni hlutanum eða af stjórninni og skipað sér í flokka eftir því.

Ég held að ef við hugsum til hagsmuna heildarinnar og til lengri tíma sé meginverkefni þingsins að leita að bestu lausnum, ég kalla þetta lausnastjórnmál, í staðinn fyrir meirihlutastjórnmál eða átakastjórnmál, þar sem við leggjum öll okkar af mörkum til að reyna að ná fram bestu lausn. Verði ágreiningur um þá lausn eða menn hafi skoðanir á ákveðnum þáttum skila þeir séráliti en allir leggi það til sem þeir kunna og geta til þess að vinna málinu sem bestan framgang.

Ég get ekki verið sammála hv. þm. Pétri Blöndal um að það að semja lög eigi endilega að vera þingmanna. Aftur á móti get ég tekið undir að ég held að afar mikilvægt sé að eftir kosningar leggi menn inn í þingið strax hvaða mál þeir vilja að sé unnið að. Það sé síðan reynt í viðkomandi nefndum að forgangsraða því sem menn vilja láta vinna, semja þar þá þætti sem þeir vilja að komi fram með viðkomandi lögum, búa til umhverfi þess hverju menn vilja ná fram. Ég tel að engin vandkvæði séu á því að menn fái þá aðstoð við að semja lögin og vinna þau fyrir okkur því að það er ljóst að við verðum ekki öll sérfræðingar í því að semja textann sem slíkan.

Í rauninni er þetta gert að hluta til svona núna og ég hef stundum furðað mig á þeirri gagnrýni að þingið sé áhrifalaust. Ef við tökum t.d. síðustu ríkisstjórn þá koma þar tveir stórir flokkar inn með öfluga málefnaskrá, leggja saman um að gera stjórnarsáttmála, síðan er farið í vinnu við að semja lagafrumvörp sem framfylgja þeim stjórnarsáttmála. Við getum tekið dæmi um mál sem voru lögð fram eins og verkefnaskrá eða tillögu í sambandi við málefni barna, við getum tekið dæmi um málefni innflytjenda eða barnaverndarmál. Þar eru settir inn málaflokkar, markmið sett fram og hverju við ætlum að ná fram. Þingið afgreiðir það og í framhaldi er farið í það að koma því í framkvæmd af þar til hæfum aðilum og í mörgum tilfellum er það fjöldi manna sem kemur að því, t.d. hagsmunasamtök. Það eru allt upp í 10–20 aðilar sem koma að hverju lagafrumvarpi og ég verð að segja það einlæglega að ég er ekki viss um að ég sé hæfari en þessi 10 manna hópur til þess að draga allt fram í málinu og búa til hvað besta mál. Eftir sem áður er ábyrgðin okkar þingmanna bæði að setja málið í gang og að taka síðan afstöðu til þess hver niðurstaðan verður í lokin.

Þannig sé ég fyrir mér að vinnan verði frekar en að öll vinnan verði á höndum þingmanna jafnvel þó að þeir njóti aðstoðar. Það sérfræðingaveldi sem oft er í ráðuneytunum getur hæglega orðið eins í þinginu, þingmenn koma og fara. Það verði ákveðinn sérfræðingahópur sem er flinkur í því að semja lagafrumvörp og það hafi meiri áhrif en allt annað í sambandi við meðferð mála.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt, ég fagna því að þessar tillögur eru komnar fram. Ég tel mikilvægt að þær verði ræddar og hljóti umfjöllun bæði í allsherjarnefnd og að einhverju leyti hlýtur forsætisnefnd að skoða málið vegna þess að þetta varðar stjórn þingsins og það skiptir miklu máli að við vöndum okkur við slíkar breytingar. Við höfum verið að ræða ýmsa aðra hluti sem tengjast lýðræðisumræðunni. Komið hafa fram tillögur um stjórnlagaþing og þar er verið að ræða um stjórnarskrárbreytingar eins og þegar hafa komið fram í umræðunni. Ég held að mjög mikilvægt sé að við skoðum það og þar verði farið einmitt í gegnum þetta lýðræðisferli allt saman, áhrif almennings, gagnsæið í allri umfjöllun og eitt af því sem m.a. gæti styrkst við þá breytingu að fækka nefndum er sú tillaga sem kom fram á síðasta þingi, þ.e. að halda opna nefndarfundi þar sem útsendingar eru þar sem fólk á kost á að fylgjast með því hvað er að gerast í nefndum vegna þess að sjónvarpsskjáirnir eru á þingsalnum en ekki í nefndunum en þar er obbinn af umræðunni og langmestur tími er í vinnunni í nefndunum. Þess vegna er mjög gott mál að reyna að opna nefndarfundi og hleypa fólki að umræðunni þar og leyfa því að fylgjast með hvernig hún fer fram og auðvitað verður það auðveldara eftir því sem nefndirnar eru færri og sérhæfðari.

Styrkjum lýðræðið, gagnsæið, réttlætið í allri umfjöllun og almannahagsmunina og reynum að auka upplýsingar til almennings. Með því held ég að við getum styrkt þingið og aukið tiltrú á þinginu sem er afar mikilvægt, og ég held að við deilum öll þeirri ósk sem hér höfum starfað.



[19:06]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og málefnalega. Það er eitt atriði sem ég vildi gera athugasemd við eða tvö.

Það er í fyrsta lagi að menn kynnast mörgum málaflokkum. Í sjálfu sér fækkar þeim ekki neitt. Það koma jafnmargir málaflokkar inn. Það heyra fleiri málaflokkar undir eina nefnd, til dæmis allsherjar- og menntamálanefnd eða efnahags- og viðskiptanefnd, heilbrigðis- og félagsmálanefnd. Þarna koma tveir málaflokkar saman þannig að þingmenn munu kynnast jafnmörgum málaflokkum eftir sem áður og það er mjög áhugavert eins og ég get alveg staðfest.

Varðandi sérfræðingaveldi í ráðuneytunum. Ég sé fyrir mér að það yrði flutt inn til þingsins bara þannig en að þingmenn mundu ritstýra verkinu. Svo geta menn sett upp undirnefndir fyrir viðamikil mál, fengið inn hagsmunaaðila og einhverja nefndarmenn sem mundu vinna með nefndinni að því að búa til lagafrumvörp, en það yrði allt saman undir ritstjórn viðkomandi nefndar. Það er það sem skiptir verulega miklu máli meira en þegar — ég segi nú ekki kannski — ráðuneytin eru yfirleitt hlutlaus. Þegar einstaka stofnanir semja frumvörp vilja þær oft hafa eigin hagsmuni meira að leiðarljósi en endilega hagsmuni kjósenda eða borgaranna, en það er einmitt hagsmuna þeirra sem þingið á að gæta. Þess vegna held ég að öll lagasetningin mundi líta öðruvísi út ef þingnefndir hefðu forgöngu og frumkvæði að lagasetningunni.



[19:08]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að enginn ágreiningur sé á milli okkar hv. þm. Péturs H. Blöndals um þetta. Við erum að tala um sömu markmiðin en kannski örlítið ólíkar leiðir að hvað við teljum vera bestu lausn. Ég var að reyna að færa rök fyrir því að ég væri ekki alveg viss um að þetta sérfræðingaveldi, eins og ég kallaði það, það að flytja það inn í þingið í sjálfu sér breytti málinu. Það fer alltaf eftir því með hvaða hætti við vinnum úr hlutunum sjálfir, sem sagt þingmennirnir. Ég held því að við getum verið sammála um að það þarf að skoða þetta. Það er rétt að hjá hv. þingmanni að það er hægt að kynnast málaflokkum. Nefndirnar verða stærri. En eins og þetta er lagt upp, sem eðlilegt er, þá er reynt að sérhæfa þær líka svolítið við ákveðin mál þannig að það er ákveðin hætta á því að menn verði sérfræðingar í því og það verði skuggaráðuneyti þar sem stjórnað er meira og minna í gegnum það. Þessi hætta er nú þegar til staðar. Hér greiða auðvitað margir kannski atkvæði eftir því sem þeir hafa fengið að heyra frá sínum flokksmönnum varðandi hvað sé rétt og rangt.

Meginmálið er þetta: Við erum að leita að betri leiðum. Það er hlutverkið og þess vegna er umræðan mjög mikilvæg og mjög góð og það innlegg sem hér kom með því frumvarpi sem hér er til umræðu.



[19:09]
Flm. (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær móttökur sem frumvarpið hefur fengið og þær mikilvægu umræður sem hér hafa farið fram. Ég tel það mjög gott innlegg í þá vinnu sem hv. allsherjarnefnd þarf að inna af hendi við meðferð þessa máls. Ég tek undir það sem fram kom hjá þingmönnum að mjög mikilvægt er að allsherjarnefnd fari vel yfir málið og eðlilegt að forsætisnefndin fjalli um það með sínum hætti og færi upplýsingar inn til allsherjarnefndarinnar.

Ég lít svo á að sú breyting sem frumvarpið gerir ráð fyrir sé mjög mikilvæg og ég undirstrika að ég tel að það sé algerlega nauðsynlegt að við tökum þetta mál til afgreiðslu hér núna til þess að nýtt þing geti strax miðað sig við þær breytingar sem við viljum að séu gerðar á nefndaskipan. Við höfum gert miklar breytingar á störfum þingsins í svo mörgu tilliti, ekki bara hvað varðar takmörkun á ræðutíma. Það hefur í raun ekki verið sett mjög mikil takmörkun á umræður hér vegna þess að í staðinn fyrir að takmarka ræðufjöldann er tímalengd hverrar ræðu takmörkuð hér í umræðum í þinginu í raun og veru ásamt síðan því að starfsaðstöðu þingmanna hefur verið gjörbreytt og hún bætt. Það er mjög mikilvægt að minna á það. Síðan undirstrika ég það sem hér hefur komið fram og ég nefndi sérstaklega, að eftirlitshlutverk er svo mikilvægt og það að fækka nefndunum, breikka svið hverrar nefndar, gefur þeim miklu öflugri viðspyrnu til þess að takast á við eftirlitshlutverkið og ég tala nú ekki um að halda opna fundi sem ég tel að eigi eftir að koma í ljós að sé ef til vill sú mikilvægasta af öllum breytingunum sem við höfum verið að gera hér á störfum þingsins, þ.e. að nefndirnar starfi fyrir opnum tjöldum gagnvart ákveðnum málum, ekki öllum málum heldur ákveðnum völdum málum, sem nefndirnar taka til við.

Ég vona að þverpólitísk samstaða náist um þetta mál þó að bara þrír þingmenn flytji það. Ég vona að það megi ekki merkja það á máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að hann ætli að leggjast gegn þessu frumvarpi vegna þess að Vinstri grænir eru ekki aðilar að málinu. Ég vona að ekki beri að skilja orða hans þannig.

Sem betur fer tókst mjög víðtæk samstaða um breytingar á þingsköpunum og þrátt fyrir að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs væru á móti því í grundvallaratriðum hafa þeir unnið mjög vel í samstarfi hér í þinginu á grundvelli þeirra breytinga sem voru gerðar.

Hvað um það. Ég tel mjög mikilvægt að jafnmargir séu í öllum nefndunum og fjárlaganefndin hefur ekkert að gera með ellefu nefndarmenn. Ástæðan fyrir því að ellefu þingmenn eru í fjárlaganefndinni á sér þær skýringar að einn hv. þingmaður að mig minnir sem sætti sig ekki við að vera ekki í fjárlaganefndinni gerði kröfu til þess að komast í hana og það var látið undan þeim þrýstingi og það leiddi til þess að það þurfti að fjölga í nefndinni. Ég þekki þetta vegna þess að ég var í þinginu þegar þetta gerðist. Ég get rifjað það hér upp með öðrum hætti og utan þingsalarins þannig að allt á sínar skýringar. Ég tel að níu manna fjárlaganefnd yrði ekkert síður öflug til sóknar og varnar í ríkisfjármálunum og eftirliti með ríkisfjármálunum eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi réttilega. Fjárlaganefndin þarf að beina sjónum sínum að eftirlitshlutverkinu.

Ég tek undir það að rammafjárlagagerðin er geysilega mikilvæg. Við eigum að færa fjárlagagerðina yfir í að afgreiða fjárlög í tveimur áföngum þannig að fyrst á vorþingi verði ramminn ákveðinn fyrir næsta ár á eftir og síðan er það á haustþinginu sem fjárlaganefndin og fagnefndirnar fjalla um það hvernig eigi að deila inn í rammana fjárlagaþáttunum öllum. Það er því mjög spennandi tími fram undan að mínu mati við að styrkja þingið og ég er mjög ánægður með þann mikla áhuga sem birtist hér í þinginu ekki síst og út um allar jarðir gagnvart því að styrkja stöðu þingsins og skerpa mörkin á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins.

Ég er sammála því sem hér hefur komið fram að ég tel að það eigi að skipta upp í nefndum og formennsku í nefndum og þar á meðal formennsku í forsætisnefnd þingsins á grundvelli kjörfylgis. Ég tel að það eigi að gera. Ég vona að á nýju þingi verði tekið á því. Með því er vilji kjósenda endurspeglaður í störfum þingsins. Þetta er alltaf mjög viðkvæmt og út af fyrir sig er ég ekki sammála því að það sé einhver ávísun á afl þingsins að hér fari að verða viðvarandi minnihlutastjórnir. Ég tel að það sé út af fyrir sig styrkleikamerki að það skapist meiri hluti á bak við ríkisstjórn. En það á ekki að þurfa að þýða að stjórnarandstaða sé algerlega sett til hliðar. Ég tek undir það að ofurvald meiri hluta hér í þinginu hefur oft verið misskilið af hálfu þeirra sem hafa haft meiri hluta. Auðvitað á stjórnarandstaðan að gegna sínu mikilvæga hlutverki og það hefur verið vilji minn hér í þinginu og á meðan ég var forseti þingsins þá lagði ég sérstaka áherslu á að styrkja stöðu stjórnarandstöðunnar. Hvernig gerði ég það? Jú, með því meðal annars að stjórnarandstöðuleiðtogarnir hefðu betri aðstöðu með því að hafa aðstoðarmenn og að þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu betri starfsaðstöðu með því að þeim væru skaffaðir fleiri starfsmenn til verka á nefndasviðinu og fleira mætti nefna.

Hér í umræðunni hefur ýmislegt komið gagnlegt fram sem ég tel að við þurfum að huga að og allsherjarnefndin mun fara yfir og ég vænti þess og skora á hv. þingmenn sem fjalla um þetta í allsherjarnefndinni að fara vandlega yfir þessar tillögur. Ekkert er óbreytanlegt. Þess vegna erum við hér í þinginu að fjalla um hlutina, fara yfir tillögur og gera breytingar á þeim tillögum sem koma hér inn. Ég mun taka því fagnandi ef það finnast betri lausnir enda eru tillögur sem eru í frumvarpsformi afrakstur vinnu sem ég lét framkvæma í þinginu. En ég gerði alltaf ráð fyrir því að á þessu yrðu einhverjar breytingar gerðar. Ég skora hins vegar eindregið á hv. þingmenn að fjölga ekki nefndunum frá því sem hér er gerð tillaga um. Það mun verða stílbrot að mínu mati. Við eigum að finna aðrar lausnir.

Svo er auðvitað alþjóðasamstarfið sem hér var nefnt sérstaklega. Það er kapítuli út af fyrir sig. Síðan tel ég að það þurfi að fjalla um það í þinginu hvernig og hvort ástæða sé til þess að setja á fót sérstaka eftirlitsnefnd eins og er sums staðar. Það tel ég að þurfi að skoða sérstaklega.

Hvað það varðar að fækkun nefnda geti leitt til þrengra sjónarsviðs þá tel ég að svo eigi ekki að þurfa að verða auk þess sem mér finnst ekkert óeðlilegt að innan kjörtímabilsins skipti menn á milli nefnda og nýti þannig þekkingu sína úr starfi í einni nefnd yfir í starf í annarri.

Það eru margar hliðar á þessu öllu saman. Ég held að aðalatriðið sé að verkin séu skilvirk og við sköpum betri aðstæður til þess að sinna löggjafarstarfinu hér og tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal að ég tel að á vettvangi þingnefndanna eigi að gera meira af því að vinna frumvörp. Mér finnst að ríkisstjórnir eigi að gera meira af því — til þess líka að flýta för mála í gengum þingið — að óska eftir því að þingnefndirnar taki tiltekin mál upp og þannig nýti ríkisstjórnirnar þekkinguna í þinginu, í þingnefndunum, í nefndasviðinu til þess að taka á ákveðnum mikilvægum málum.

Þetta ætla ég, hæstv. forseti, að láta duga í þessari umræðu. Ég þakka viðtökurnar sem frumvarpið fær og vænti þess að hv. allsherjarnefnd fari vandlega yfir þetta og að við gerum þetta eins vel úr garði og nokkur kostur er.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allshn.