136. löggjafarþing — 90. fundur
 2. mars 2009.
fjármálafyrirtæki, 1. umræða.
frv. SVÓ o.fl., 111. mál (kynjahlutföll í stjórnum). — Þskj. 120.

[18:05]
Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, þar sem ég er 1. flutningsmaður. En auk mín flytja málið hv. þm. Samfylkingarinnar Guðbjartur Hannesson, Ásta R. Jóhannesdóttir og Ellert B. Schram.

Í 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að ný málsgrein bætist við 51. gr. laganna, svohljóðandi:

„Við kjör í stjórn skal tryggt að í stjórninni sitji sem næst jafnmargar konur og karlar.“

Nú er það þannig, frú forseti, að nokkuð er um liðið síðan ég lagði þetta mál fram og ætlaði að ræða hér á hv. Alþingi og veit að ýmsir hv. þingmenn hugðust taka til máls við umræðuna. En þegar ég lít yfir salinn sýnist mér að ekki séu miklar líkur á því að margir taki til máls. (Gripið fram í: Það er einn þingflokkur hér.) En það er einn heill hv. þingflokkur staddur í salnum. Það er rétt. Þannig að það er aldrei að vita nema hv. þingmenn og þingflokkur frjálslyndra eins og hann leggur sig muni blanda sér í málin um kvóta í stjórnum fjármálafyrirtækja. Nógu mikið var rætt um kvótamál almennt hér áðan.

Þetta mál gengur út á það, frú forseti, að tryggja hlut kynjanna í stjórnar- og áhrifastöðum fjármálafyrirtækja. Ég held að atburðir síðustu vikna hafi sýnt að þörf er á nýrri nálgun og hugsun við stjórnun fjármálafyrirtækja á Íslandi.

Lengi hefur verið rætt um lögfestingu á jöfnun kynjahlutfalls í stjórnum fjármálafyrirtækja og um það eru mjög skiptar skoðanir. Norðmenn og ýmsar aðrar þjóðir hafa t.d. farið þá leið að lögfesta hlutfallið til að tryggja jafnræði kynja í stjórnum fjármálafyrirtækja. Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að jafna kynjahlutfallið í stjórnum opinberra hlutafélaga.

Í nýlegum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram sú regla að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Sama regla gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélög eru aðaleigandi að. Enn fremur er í 1. mgr. 63 gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, kveðið á um að við kjör í stjórn opinbers hlutafélags skuli tryggt að í stjórninni sitji sem næst jafnmargar konur og karlar.

Nú þegar stærstu bankar landsins verða í aðaleigu ríkisins og hlutfall kynjanna í stjórn þeirra þarf að vera sem jafnast — ekki minna en 40% í samræmi við jafnréttislög — er eðlilegt að þessi regla eigi við um öll fjármálafyrirtæki landsins. Með breytingum samkvæmt frumvarpinu væri tryggt að hlutur kynjanna í stjórn fjármálafyrirtækja yrði eins jafn og kostur er á, en orðalagið „sem næst jafnmargar konur og karlar“ felur í sér að þar sem fjöldi stjórnarmanna er almennt oddatala, oftast þrír, fimm eða sjö, skuli hlutfallið vera eins jafnt og verið getur á þeim forsendum. Er þetta ekki hvað síst mikilvægt nú eftir þær hræringar sem orðið hafa á fjármálamarkaði og þar sem búast má við auknu atvinnuleysi í þessum geira á næstu missirum. Ljóst er að fram til þessa hafa konur ekki átt greiðan aðgang að stjórnum banka eða fjármálafyrirtækja. Er það miður, ekki síst þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á fjárhagslegan ávinning fyrirtækja af því að auka hlutfall kvenna í stjórnum. Hið sama á reyndar við um stjórnunarstöður og hlutdeild kvenna þar. Því er enn brýnna en áður að huga að jafnrétti á vinnumarkaði og þá ekki hvað síst með tilliti til aðgangs að stjórnunar- og ábyrgðarstöðum. Að auki er afar mikilvægt að stjórnir fjármálafyrirtækja séu þannig samsettar að gætt sé að fjölbreytileika, þar sem um er að ræða fjárvörslumenn almennings. Atburðir síðustu daga, vikna og mánaða sýna að allur almenningur getur staðið og fallið með svona fyrirtækjum.

Ég vonast til þess að góðar umræður verði um málið. Ég sé að heldur hefur fjölgað hér í þingsalnum frá því að ég hóf mál mitt og á ég von á því að fá góðan stuðning við þessari tillögu sem nú gengur til nefndar og getur vonandi, ef vel er haldið á spöðum, komið aftur til þingsins og orðið að lögum. Hver veit?



[18:10]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mig langar til að ræða stuttlega það mál sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir hefur nú mælt fyrir og varðar breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. En þar er gert ráð fyrir því að við kjör í stjórnir fjármálafyrirtækja og þeirra fyrirtækja sem heyra undir lög um fjármálafyrirtæki frá 2002 skuli tryggt að í stjórninni sitji sem næst jafnmargar konur og karlar.

Ég vil strax lýsa því yfir að ég er sammála því markmiði sem sett er fram með frumvarpinu. Ég tel mjög þýðingarmikið, ef svo má segja, að jafnréttið haldi innreið sína í þessi vé sem stjórnir fjármálafyrirtækja eru og hafa verið. Reyndar er það svo að í nýrri stjórn Kaupþings banka sitja bara konur, ef ég man rétt, og er það nýlunda í stjórn fjármálafyrirtækis hér á landi. En kannski má segja að í ríkisbönkunum eða bönkunum sem nú eru orðnir ríkisbankar séu tiltölulega hæg heimatökin hvað það snertir, einn og sami eigandinn, það er ríkið, á að geta tryggt að eins góð skipting sé á milli kynja í stjórnum og unnt er. Og þegar bankaráð ríkisbankanna þriggja eru tekin saman hygg ég að það sé nokkuð góð dreifing milli kynja.

En það er ekki almenna reglan og hefur alls ekki verið og eins og kom fram í máli hv. flutningsmanns vekja þeir síðustu atburðir sem hér hafa átt sér stað á fjármálamarkaði og í bankastarfsemi okkur kannski til umhugsunar um hvort ekki sé bæði löngu tímabært og brýnt að tryggja að bæði kynin séu vel sett innan stjórna þessara fyrirtækja og gert sé ráð fyrir að hvort kyn um sig eigi að minnsta kosti 40% hlutdeild í stjórnum fyrirtækjanna.

Nú má vel velta því fyrir sér hvort við ættum að ganga lengra en þetta frumvarp gerir ráð fyrir, því hér er talað um að tryggt skuli að í stjórnum sitji sem næst jafnmargar konur og karlar. Norðmenn hafa t.d. gengið mun lengra og sett ákveðin skilyrði fyrir því að í öllum fyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöll skuli vera að minnsta kosti 40% hlutdeild hvors kyns um sig í stjórnum. Þar var beitt ákveðnum viðurlögum, nefnilega þeim að sagt var berum orðum að ef fyrirtækin hefðu ekki uppfyllt þetta ákvæði laganna fyrir tiltekinn aðlögunartíma sem var gefinn væri skylt að leysa upp viðkomandi fyrirtæki eða hlutafélag.

Það er auðvitað býsna harkaleg aðgerð í sjálfu sér. En eftir því sem ég best veit brást allur markaðurinn í Noregi vel við lagasetningunni og gerði ráðstafanir til að koma til móts við hana í öllum meginatriðum. Ég hygg að þar í landi gangi menn lengra en að tala bara um fyrirtæki sem skráð eru á markað, hlutafélög, heldur gildi þessar reglur almennt.

Ég tel sem sagt að mikið álitamál sé hvort hér ætti jafnvel að ganga lengra en þetta frumvarp gerir ráð fyrir og mér finnst eðlilegt að þingnefndin sem fær málið til umfjöllunar velti þeim spurningum upp og fái upplýsingar um hvernig þetta hefur verið framkvæmt annars staðar og hvaða reynsla er komin á lagasetninguna eða svipaða lagasetningar, eins og t.d. í Noregi, þar sem við vitum að hefur verið gengið mjög langt.

Einnig held ég að þingnefndin sem fær þetta til meðferðar þurfi að skoða hvort ekki þurfi að setja einhvers konar viðurlög. Eftir því sem mér sýnist er hér ekki gert ráð fyrir sérstökum viðurlögum við því ef þessi markmið laganna nást ekki fram, ekki er tekið fram hvort menn fái einhvern aðlögunartíma til að fullnægja lagaákvæðinu eða hvernig tryggja eigi að ákvæðið nái fram að ganga.

Það væri fróðlegt að heyra hvernig hv. flutningsmanni sér fyrir sér að eftirfylgnin verði. Hvaða tæki eru til í stjórnkerfinu til að tryggja að markmiðið nái fram að ganga og það sitji sem næst jafnmargir karlar og konur í stjórnum fjármálafyrirtækja? Jafnframt hefði ég viljað heyra viðhorf 1. flutningsmanns til þess hvort hún og aðrir flutningsmenn frumvarpsins hefðu leitt hugann að því að þetta ákvæði næði ekki eingöngu yfir fjármálafyrirtæki heldur hefði það víðara gildissvið og við færum hér yfir fyrirtæki almennt. Þannig að ákvæðið væri sem sagt ekki bundið við fjármálafyrirtæki einvörðungu heldur almennt um fyrirtæki á markaði eða skráð fyrirtæki í fyrstu atrennu. Ég vildi gjarnan heyra viðhorf flutningsmanna, hvort þeir hafi leitt hugann að því.

Ég tel að markmiðið með þessu frumvarpi sé afar jákvætt og styð það heils hugar. En velti fyrir mér í því samhengi hvort tilefni sé til að ganga jafnvel enn lengra en hér er gert. Ég velti upp spurningunni um eftirfylgni og hvernig tryggja eigi að markmiðið náist, hvort hugsanlega þurfi að setja einhvers konar viðurlagaákvæði eða hvort eðlilegt sé að ákvæði sem þetta nái til breiðari hóps fyrirtækja en fjármálafyrirtækja. Þetta eru þær vangaveltur sem ég vil koma með inn í umræðuna og væri fróðlegt að heyra hvernig hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur sér það fyrir sér.



[18:17]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það frumvarp sem við ræðum nú, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, varpar upp nokkrum spurningum, t.d. hvort nýju bankarnir séu ekki örugglega ríkisfyrirtæki, hvort ríkið eigi þá ekki. Nú hefur enginn lagt fram hlutafé í þessa banka og þeir eru í rauninni eignalausir í augnablikinu, það vantar að setja inn í þá eigið fé. Ef þeir eru í eigu ríkisins ættu þeir að heita ohf., og ég hef grun um að þeir eigi að heita ohf. og vera opinber hlutafélög, og þá falla þeir nákvæmlega undir það ákvæði sem lagt til í þessu frumvarpi, að það eigi að kjósa jafnmarga borgara af hvoru kyni í stjórn. Þá er stjórn Kaupþings í rauninni brot á lögum vegna þess að þar eru eingöngu konur og í lögum um opinber hlutafélög stendur að það eigi að vera jafnt kynjahlutfall í stjórninni. Og einmitt talandi um eftirlitið sem nefnt var rétt áðan þá sýnir það sig að þó nokkuð mörg fyrirtæki sem eru alfarið í eigu opinberra aðila hafa ekki starfað eins og þau séu opinber hlutafélög, ohf. Ég nefni t.d. Þróunarfélagið á Keflavíkurflugvelli, sem er greinilega ohf., Keflavíkurflugvöll ohf. Þessi fyrirtæki öll ættu að hlíta reglum laga um opinber hlutafélög, t.d. að þar sé jafnt kynjahlutfall í stjórn, að halda eigi alla aðalfundi opinberlega, að þingmenn og kjörnir fulltrúar eigi rétt á að sækja þessa fundi o.s.frv. Fylgni við lögin virðist ekki nægilega góð, að menn fylgi lögunum ekki nægilega vel. Þetta sýnir sig best með skipun í stjórn Kaupþings þar sem eru eingöngu konur sem stendur sem brýtur þá þetta ákvæði laganna um opinber hlutafélög.

Svo kemur aftur það sjónarmið sem ég nefndi í sambandi við það, frú forseti, að hvers eiga þær konur að gjalda sem þurfa þá að víkja úr stjórninni, örugglega mjög hæfar, fyrir einhverja karlmenn sem væntanlega eru þá ekki eins hæfir vegna þess að annars hefðu þær ekki verið valdar? Þar kemur upp mjög ankannalegur vinkill á þessu talningakerfi sem sumir eru uppteknir af, að vera alltaf að telja fjölda manna eftir kyni í stjórnum og ráðum. Ef þetta frumvarp verður að lögum ættu þau eingöngu við um fjármálafyrirtæki sem ekki fóru á hausinn, Straum og MP-banka o.s.frv., og þau fyrirtæki eru náttúrlega með rekstur meira og minna í útlöndum, þannig að ég ætla að vona að þetta verði ekki til þess að þau taki pokann sinn og yfirgefi landið.

Það var líka rætt við lagasetninguna um opinber hlutafélög að þetta kynni að verða til þess að það myndaðist tvenns konar stjórn, sú opinbera sem hittist öðru hverju og drekkur kaffi og svo einhver minni stjórn sem tekur ákvarðanir.



[18:21]
Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu um það mál sem ég mælti fyrir áðan. Það er kannski fyrst til að taka að ég held að við hv. þm. Pétur H. Blöndal verðum seint sammála í jafnréttismálum. Þannig er það bara og þannig held ég að það verði. Að halda því fram að fjármálafyrirtæki flýi land vegna þess að þau þurfi að fylgja jafnréttislögum finnst mér nú frekar langsótt en látum það liggja á milli hluta. Ég held að við verðum að átta okkur á því að nýir tímar kalla á nýja hugsun og nýja nálgun. Karlakapítalisminn, eins og ég hef kallað það, varð gjaldþrota á Íslandi í byrjun október og ég held að það sé rækilega kominn tími til að við loftum út úr þeim karlakytrum sem hingað til hafa ráðið öllu í okkar samfélagi. Þá er ég ekki að tala um það, eins og mátti skilja á máli hv. þingmanns, að setja þar inn eingöngu konur. Þetta snýst um það að tryggja að ekki sé lýðræðishalli í landinu, að ekki sé lýðræðishalli í þeim stofnunum þar sem ráðum er ráðið í okkar samfélagi, þar með talið fjármálastofnunum en við vitum hversu gríðarlega mikil völd fylgja því að fara með stjórnun í fjármálafyrirtækjum. Þessi tillaga gengur eingöngu út á að tryggja að þetta jafnvægi sé í lagi.

Vegna þess sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði, og ég vil þakka honum fyrir ágæta ræðu, þá er þetta auðvitað löngu tímabær og brýn umræða. Tillagan sem hér er flutt tekur mið af jafnréttislögunum eins og þau eru í dag og voru samþykkt þegar þeim var breytt síðast. Auðvitað velti ég því fyrir mér þegar ég var að skoða þetta mál hvort það ætti að ganga lengra. Ég legg hins vegar ekki mat á það hér og nú en mér finnst sjálfsagt að það verði skoðað í þingnefndinni hvort ganga eigi lengra og jafnvel að láta þetta ná til annarra fyrirtækja. Það hefur verið mjög athyglisvert að skoða þetta mál, ef maður skoðar gögn og pælir í þeirri umræðu sem fór fram í Noregi á sínum tíma og víðar á Norðurlöndunum varðandi þetta, hún er mjög keimlík umræðunni sem hefur ávallt farið fram á Íslandi um þetta, mjög í anda þess sem hv. þm. Pétur Blöndal bar upp áðan. Hins vegar er sannleikurinn sá og niðurstaðan sú eins og t.d. í Noregi að þá hefur verið býsna mikil ánægja með þetta fyrirkomulag. Ég veit alla vega ekki um eitt einasta fyrirtæki sem hefur flúið land eða flutt starfsemi sína frá Noregi vegna þess að það hafi þurft að uppfylla þessi ákvæði. Ég er alveg tilbúin til að skoða að þetta verði útvíkkað og við látum þetta ganga yfir önnur fyrirtæki.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson spurði mig út í viðurlögin. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að mér er í fyrsta lagi frekar illa við að setja inn svona viðurlagaákvæði án þess að láta fyrst reyna almennilega á það sem stendur í frumvarpinu. Ef menn neyðast hins vegar til þess einhverra hluta vegna að fara þá leið að beita sektum eða eitthvað slíkt er sjálfsagt að skoða það. Ég held hins vegar, frú forseti, að mórallinn í samfélaginu, ég leyfi mér að orða það svo, sé þannig núna að menn hafi áttað sig á því að það er einfaldlega kominn tími til þess að við gætum að þessum hlutum og að hlutirnir séu í lagi hér. Mig langar að nefna eitt fyrirtæki sem er eingöngu rekið af konum, fjármálafyrirtæki sem heitir Auður Capital og ég hygg að sé eitt af þeim fyrirtækjum sem standi bara býsna vel í augnablikinu, en þær konur sem hafa rekið það fyrirtæki og borið uppi þá starfsemi hafa lýst því yfir í fjölmiðlum núna í kjölfar bankahrunsins og kreppunnar að yfirlýst stefna þeirra hafi einmitt verið varfærin fjárfestingarstefna og að ana ekki út í hluti án þess að hugsa þá til enda, svo því til haga haldið.

Ég vil að endingu þakka fyrir umræðuna og almennt jákvæð viðbrögð sem tillagan hefur fengið.



[18:26]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að mótmæla því sem hv. þingmaður gaf í skyn að ég sé ójafnréttissinnaður, það er afskaplega ósanngjarnt. Ég er jafnréttissinnaður en ekki endilega milli kynja heldur milli fólks. Lýðræðishalli getur myndast við fléttulista þegar hæfara fólkið fær ekki kosningu af því að farið er eftir kynjum.

Það getur líka myndast lýðræðishalli í stjórn Kaupþings þegar hæf kona eða tvær þurfa að yfirgefa stjórnarsætin út af þessu frumvarpi fyrir einhvern karlmann sem er þá væntanlega óhæfari.

Hv. þingmaður kom ekkert inn á það sem ég nefndi í ræðu minni. Ég hélt að hv. þingmaður mundi ræða dálítið umræðuna, um t.d. það að bankarnir eru ohf. og eiga að fara að þeim lögum sem hér er talað um. Það var ekki orð um það. Það var ekki orð um það að þetta gildir nú þegar fyrir þrjá stærstu banka landsins. Ég veit ekki til hvers umræðan er ef framsögumaðurinn tekur ekkert mið af því sem sagt er.

Auðvitað fylgja því gríðarlega mikil völd að vera í stjórnum fjármálafyrirtækja og ég hef oft nefnt það sem mælikvarða á hvort jafnrétti náist að skoða aðalfund Seðlabankans, hversu margar konur eru þar. Ég hef margoft rætt það sem mælikvarða á það hvort jafnrétti hafi náðst. En hvort menn telji það endilega og setji fólk í stjórn bara af því að það er konur, það breytir engu, held ég, ekki nokkrum sköpuðum hlut. (Gripið fram í.) Þetta er nefnilega ekki spurningin um það að ráðherra skipi móður sína, frænku sína, systur sína og dætur inn í stjórnir opinberra fyrirtækja. Það er ekkert meira jafnrétti fyrir það. Það er spurning um að ráða hæfasta fólkið í hvert einasta starf, hæfasta fólkið hvort sem það er karl eða kona. Út á það gengur það. Mitt jafnrétti gengur út á það að hæfasta fólkið fái stöðurnar en ekki endilega bara af því að það er konur eða af því að það er karlar.



[18:28]
Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi í ræðu minni áðan að ég hefði tekið mið af þeirri umræðu sem fram fór og reyndi eftir besta megni að svara því sem fram kom. Ef hv. þingmaður er ósáttur við þau svör þá verðum við að ræða þetta við betra tækifæri og undir öðrum formerkjum en tvær mínútur í stuttu andsvari leyfa. Auðvitað var ég ekki að halda því fram að hv. þingmaður væri ójafnréttissinnaður. Ég var hins vegar að draga það fram að sú sem hér stendur og hv. þm. Pétur Blöndal verðum, held ég, mjög seint sammála í jafnréttismálum vegna þess að okkar nálgun á jafnréttismál er mjög ólík. Ég skilgreini mig sem femínista sem ég held að hv. þingmaður geri ekki. En vegna þess að hv. þingmaður talaði um hæfustu einstaklingana þá ætla ég að leyfa mér að hafa efasemdir um að allir þeir einstaklingar sem hingað til hafa verið valdir í stjórnir fjármálafyrirtækja í gegnum árin og hafa nánast undantekningarlaust verið karlmenn, hafi alltaf verið hæfustu einstaklingarnir. Ég ætla að leyfa mér að efast um það, hv. þingmaður.



[18:30]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni, að þeir karlmenn sem hafa skipað stjórnir fjármálafyrirtækja og fyrirtækja á Íslandi hafi almennt verið hæfustu einstaklingarnir, ég stórefast um það. En að þvinga það fram með einhverri jafnréttisáætlun eða talningu á hausum og skipun um að einhver skuli settur í stjórn bara af því hann er kona, það er leið sem mér hugnast ekki. Ég vil heldur að það sé gerð arðsemiskrafa til markaðarins þannig að hann neyðist til að velja hæfasta fólkið hvort sem það er karl eða kona.

Ég þekki það ekki hjá Auður Capital en það getur vel verið að þær konur vilji hafa konur í stjórn en þetta frumvarp mundi gera það að verkum að þær mættu það ekki. Það yrði alla vega að vera þannig að í fimm manna stjórn yrðu að vera a.m.k. tveir karlmenn.

Það er eins með Kaupþing. Ég hugsa að þær konur sem þar sitji séu allar afskaplega hæfar og hafi verið valdar á grundvelli mannkosta. Nú á að fara að setja inn einhverja tvo sem ekki eru valdir á grundvelli mannkosta heldur bara af því þeir eru af ákveðnu kyni.

Fléttulistinn er gott dæmi, við höfum séð sorgleg dæmi um að fólk sem ætti að komast ofar í prófkjörum fellur niður bara af því að það er af tilteknu kyni. Þessi nálgun að telja hausa er því ekki nægilega góð. Menn þurfa að finna út úr því af hverju þetta misrétti er. Af hverju er fjöldi karla og kvenna í atvinnulífinu jafnmismunandi og raun ber vitni? Getur verið að það sé eitthvað sem valdi því eða að það vanti kröfu um arðsemi eða að ákveðnir fordómar séu í gangi í kerfinu? Það skulum við skoða.

En að setja fólk í stjórn bara af því það er af ákveðnu kyni, það er bæði slæmt fyrir viðkomandi einstakling því það munu allir segja: Þú fékkst djobbið bara af því þú er kona eða bara af því þú ert karl, sem er líka slæmt fyrir fyrirtækin sjálf.



[18:32]
Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér varð hugsað til þess þar sem ég sat hér undir andsvari hv. þm. Péturs H. Blöndals að ég hygg að svipuð ræða efnislega séð hafi margoft verið haldin hér á hinu háa Alþingi. Ég hugsa að þegar samtök um kvennalista komu fram á sínum tíma og fluttu þingmál hér í salnum þá hafi þær margoft heyrt svipaðar ræður efnislega og hv. þm. Pétur H. Blöndal flutti áðan.

Hversu lengi höfum við verið að hjakka í sama farinu? Hversu lengi höfum við verið að því? Í áratugi. Og í áratugi höfum við þurft að hlusta á svipaðar ræður og hv. þm. Pétur H. Blöndal flutti áðan og ekkert gerist. Við stöndum enn þá í sömu sporum.

Og af hverju, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal, þetta misrétti? Við þurfum að komast að því af hverju þetta misrétti er til að geta leiðrétt það. Eru menn ekki búnir að reyna að komast að því í áratugi? Ég segi, það er komið nóg af því. Það þarf að grípa til róttækra aðgerða sem virka alveg eins og hefur verið gert í nágrannalöndum okkar þar sem hlutirnir eru til fyrirmyndar, t.d. í Noregi.

Varðandi bankaráðin og það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal um þau þá er það auðvitað þannig að jafnréttið virkar í báðar áttir. Það er enginn að tala um annað og það er bara útúrsnúningur að halda því fram að hér eigi að skipta út öllum körlum fyrir konur. Þetta snýst um að leiðrétta kynjamisréttið og þann lýðræðishalla sem er í þessum stofnunum eins og víða annars staðar í samfélaginu og út á það gengur þessi tillaga og það er engin ástæða til þess að vera að snúa út úr henni eins og hv. þingmaður gerði.



[18:34]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í áratugi hefur verið rætt um jafnréttismál. Það hafa verið sett fjölmörg lög um jafnrétti og það er búið að útrýma öllu ójafnrétti sem finnst í lögum og reglum. En samt næst ekki árangur. Það er búið að setja viðamikil lög um jafnréttisáætlanir, jafnréttisráð. Það er kominn heilmikill jafnréttisiðnaður, frú forseti, í gang. Fólk sem vinnur að því baki brotnu að koma á jafnrétti og samt er ekkert jafnrétti.

Sumir segja að það sé verið að bakka, að það sé ekki verið að nýta besta fólkið í þjóðfélaginu til að stjórna. Þá er það spurningin: Eigum við að halda áfram að telja hausa eða eigum við kannski að skoða hvort sú leið hafi verið ákveðið skipbrot? Hvort sú leið að vera alltaf að telja hausa sé ekki skipbrot í sjálfu sér. Við eigum að reyna að finna út úr því af hverju eigandi hlutafélags ákveður að ráða karlmann í stöðuna sem stjórnarformann eða stjórnarmann í stað þess að ráða konu sem hlýtur þá að fást hæfari. Þeirri spurningu eigum við að velta fyrir okkur. Sá sem tekur ákvörðun um að ráða karlmann sem oft og tíðum er þá óhæfari af því það er svo mikill fjöldi af konum sem ekki fær vinnu sem eru mjög hæfar, af hverju tekur hann þessa ákvörðun? Því þurfum við að svara.

Ég held því fram að það sé vegna þess að hann vilji ekki endilega græða. Ef það væri arðsemiskrafa þá mundi hann alltaf ráða hæfasta einstaklinginn. Þá kæmust u.þ.b. jafnmargar konur og karlar að. Það er mín trú. Ég held að það misrétti sem er í gangi í kerfinu komi fram vegna þess að þetta eru kyn. Auðvitað eru margir karlmenn sem ekki fá stöðu heldur þótt þeir séu mjög hæfir. (SVÓ: Færri.) Það kemur hvergi fram vegna þess að aðrir karlmenn sem eru óhæfari fá stöðurnar. Það er verið að fara eftir flokkspólitískum atriðum, það er verið að fara eftir fordómum o.s.frv. og ættartengslum. Það eru alls konar atriði sem valda því að óhæfara fólk er ráðið í stöðu í stað þeirra sem hæfari eru. Og við eigum eftir að sjá það áfram. Ég óttast að núna þegar þessi fyrirtæki eru öll orðin meira og minna ríkisvædd og þeir sem skipa í stöðurnar hafa engan áhuga á því hvort fyrirtækin skili hagnaði eða ekki þá muni þetta aukast. Þá mun það aukast að ráða menn eftir flokkum og ætterni en ekki eftir hæfileikum. Ég óttast það, því miður.

Þess vegna þurfum við alveg sérstaklega núna að gá að því hvað er það sem veldur því að svona fáar konur eru í stjórnun fyrirtækja í lykilstöðum. Af hverju eru t.d. svona fáar konur á aðalfundi Seðlabankans? Við eigum að velta því fyrir okkur hver sé ástæðan fyrir því en ekki endilega að þvinga fram jafnrétti með því að setja konur í stöður, hvort sem þær hafa hæfileika eða ekki. Það held ég að sé mjög röng leið. Það er að leiðrétta hitamæli sem sýnir ákveðinn hita, honum er bara breytt. Þeir sem ráða í stöðurnar ráða þá að sjálfsögðu frænkur sínar, systur og dætur o.s.frv., burt séð frá hæfileikum. Ég hef því miklar efasemdir um þessar jafnréttisaðferðir allar og leyfi mér að hafa mínar efasemdir áfram. Ég vil endilega að þjóðfélagið nýti hæfileika hvers einasta manns eins og mögulegt er, að jafnrétti sé milli fólks, eins og mögulegt er. Við þurfum að finna út úr því af hverju kemur það fram svona í hlutfalli kynjanna.



[18:38]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. fyrsta flutningsmanni, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, fyrir svörin sem ég fékk við þeim vangaveltum sem ég var með. Ég vil segja það og ég tek undir með henni að ég held að það sé rétt sem kemur fram í máli hennar að reynslan af þeirri leið sem Norðmenn ákváðu að fara í þessu sambandi sé almennt góð og að fyrirtækin hafi í raun og veru brugðist mjög jákvætt við og skjótt og það hafi ekki tekið langan tíma að innleiða þessa nýju reglu um jafnrétti kynjanna í stjórnun fyrirtækja, eins og menn óttuðust þegar lögin voru sett þar.

Þar var settur aðlögunartími. Fyrirtækjunum var gefinn nokkur góður aðlögunartími til að koma þessu jafnrétti á en ef þau náðu ekki að uppfylla þau skilyrði laganna þá var ákvæði um að fyrirtækin yrðu leyst upp. Þetta er auðvitað, eins og ég sagði áðan, augljóslega býsna harkaleg aðgerð sem viðurlög. Það kann vel að vera rétt hjá hv. þingmanni að eðlilegt sé að gefa fyrirtæki og umhverfinu fyrst svigrúm til þess að uppfylla ákvæði þessara laga.

En við vitum hins vegar að þrátt fyrir ákvæði jafnréttislaga hingað til þá hefur nú gengið býsna hægt að innleiða jafnréttið í raun. Þess vegna held ég að það sé mikið álitamál og umhugsunarefni hvort ekki þurfi að taka nokkuð skarpt í. Taka nokkuð djúpt í árinni í þessu efni og setja einhver slík skilyrði eða viðurlög. Ég er alls ekki að segja að ég muni leggja það sérstaklega til enda á ég ekki sæti í þeirri nefnd sem væntanlega mun taka málið til meðferðar. En mér finnst þetta vera álitamál og innlegg í umræðuna á þeim vettvangi, hvort menn vilji gera það.

Ég verð líka að segja vegna orða hv. þm. Péturs H. Blöndals þar sem hann velti vöngum yfir því af hverju konur eru ekki í ríkari mæli í þessum stöðum og svo fáar konur sitji ársfund Seðlabankans o.s.frv., þá held ég að við verðum bara að horfast í augu við að þetta er arfur gamalla tíma ef svo má segja. Þetta er bara staða sem við erum að glíma við í samfélaginu almennt og höfum verið að gera um langa hríð. Það er viðvarandi verkefni að koma á almennilegu jafnrétti kynja. Við glímum við þetta í stjórnmálum en þar hefur okkur samt sem áður orðið mun meira ágengt en almennt í fyrirtækjaumhverfinu. Það er mjög brýnt að við náum árangri þar líka.

Við viljum lifa í samfélagi þar sem jafnrétti kynjanna er í heiðri haft. Og eftir, það má segja, áralanga baráttu fyrir auknu jafnrétti kynjanna getum við ekki boðið ungu fólki, ungum konum eða ungum stúlkum, upp á að okkur verði ekkert ágengt í þessu efni. Það er bara ekki samboðið þeim gildum og meginsjónarmiðum sem við viljum að gildi í íslensku samfélagi. Þess vegna verðum við jafnvel að grípa á stundum til róttækra aðgerða og ráðstafana til þess að ná þeim markmiðum sem ég held að flestir taki undir að minnsta kosti í ræðu. Síðan er spurning hvort menn vilja á borði ná þeim árangri sem menn tala svo fjálglega um þegar það hentar.

Það frumvarp sem hér er lagt fram er viðleitni í þá veru að auka hlut kvenna í stjórnun fjármálafyrirtækja, að ná meira jafnrétti á þessu sviði. Þetta er afmarkað svið. Ég tel að við eigum að huga að því að ganga lengra og láta þetta verða víðtækara. Það kann vel að vera að það sé þá næsta skref. En eftir sem áður finnst mér þetta mjög góð viðleitni sem hér er á ferðinni og styð að málið fái jákvæða meðferð.



[18:43]
Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Þessi umræða virðist nú ætla að verða aðeins lengri en leit út fyrir í upphafi. Það er óhætt að segja að viðbrögð hv. þm. Péturs H. Blöndal hafi komið af stað býsna líflegum umræðum. Það er merkilegt að heyra þingmanninn segja að hann hafi miklar efasemdir um allar jafnréttisáætlanir og hann telji að allt of mikill jafnréttisiðnaður sé rekinn hér og sé í gangi.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Í hvaða stöðu heldur hann að við stæðum í dag ef enginn hefði haldið utan um þessi mál og engin væru jafnréttislögin, að þessi jafnréttismál hefðu bara komið af sjálfu sér? Auðvitað er það ekki þannig. Sjálf hef ég reynslu af því úr störfum mínum í borgarstjórn Reykjavíkur að þar sem markvissar jafnréttisáætlanir voru settar, t.d. um að jafna hlut kynjanna í yfirstjórn borgarinnar, þá virkaði það. Það hafði ekki virkað í 60 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins þar á undan.

Ég hef líka reynslu af því að setja tiltekna markmiðssetningu varðandi launamál til þess að lyfta sérstaklega lægstu launum kvennahópanna. Það virkaði. Ég er ekki viss um að það hefði virkað ef aðferð hv. þm. Péturs H. Blöndal hefði verið notuð.

Niðurstaða mín er því sú að það er ekki hægt að halda því fram að jafnrétti komi af sjálfu sér. Það er ekki hægt að halda því fram að maður eigi ekki að setja neinar reglur, neina umgjörð, að leyfa markaðnum bara að ráða, vegna þess að þá gerist ekki neitt. Það gerðist allt of lítið í jafnréttismálum á Íslandi allt of lengi.

Ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem voru samþykkt í tíð fráfarandi ríkisstjórnar undir forustu hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra þáverandi, Jóhönnu Sigurðardóttur, munu ganga lengra en fyrri lög. Þau veita m.a. Jafnréttisstofu heimild til að hafa eftirlit með því að lögunum sé framfylgt.

Og vegna þess að hv. þingmaður kallaði eftir því eða talaði um að lagasetningin hefði ekki dugað og þess vegna væri hún óþörf af því henni hefði aldrei verið fylgt eftir þá erum við í þessum nýju jafnréttislögum komin inn með heimild fyrir Jafnréttisstofu til þess að grípa inn í, alveg á sama hátt og Samkeppniseftirlitið hefur heimild til að grípa inn í ef því sýnist að eitthvað sé að fara úrskeiðis. Ég tel að sú heimild sé afar mikilvæg og þessi lög veiti okkur kærkomið tækifæri til þess að fylgja, núna jafnvel í fyrsta skiptið lögunum markvisst eftir en þá reynir að sjálfsögðu á Jafnréttisstofu, að hún beiti heimildum sínum og fylgist með að hlutirnir séu í lagi.



[18:46]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði mig hvernig ég héldi að jafnréttisumræðan eða jafnréttið stæði ef ekki væri allur þessi jafnréttisiðnaður, eins og ég kalla það. Ég varpaði þeirri spurningu til hv. þingmanns hvernig stæði á því að frá kvennafrídeginum mikla hefði staðan í rauninni lítið sem ekkert batnað. Ætla menn ekki að fara að spyrja sjálfa sig hvort þeir séu ekki hugsanlega á rangri braut með því að skikka fyrirtæki til að setja sér einhverjar jafnréttisáætlanir og telja hausa í stjórnum, nefndum og ráðum og slíku í stað þess að reyna að finna út úr því hvað er að? Ég barðist fyrir því fyrir ári að tekin yrði upp jafnréttisvottun, þ.e. að fyrirtækin setji sjálfviljug upp reglur sem eiga að leiða til þess að þau ráði fólk með tilliti til hæfileika en ekki eftir einhverjum öðrum sjónarmiðum, kyni, ætterni eða flokkspólitík eða einhverju slíku.

Það náðist sem betur fer fram og er í vinnslu núna. Ég bind miklu meiri vonir við jafnréttisvottun þar sem fyrirtækið sjálft leggur á sig þá vinnu að ráða fólk eftir hæfileikum. Ég vil ekki tala um eftir kyni, því miður, frú forseti, vegna þess að ég lít svo á að vandamálið sé að fólk er ekki ráðið eftir hæfileikum. Það er afleiðing af vandamálinu, það er hitamælirinn sem sýnir að eitthvað er að sem kemur fram í misrétti kynjanna. En það kemur ekki fram þegar óhæfari karlmaður er ráðinn fram yfir hæfari karlmann eða óhæfari kona er ráðin fram yfir hæfari karlmann eða konu.

Vandamálið er að það er ekki tíðkað að ráða hæfasta fólkið.



[18:49]
Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal spyr af hverju ekkert hafi gerst frá kvennafrídeginum 1975. Auðvitað hefur ýmislegt gerst í jafnréttismálum síðan þá, en allt of lítið. Þá er líka ágætt að velta fyrir sér hver ber ábyrgð á því og hverjir hafi stjórnað hér, hvaða ríkisstjórnir hafi verið við völd þann tíma sem hv. þingmaður talar um. Hefur ekki Sjálfstæðisflokkurinn stjórnað hér meira og minna í 18 ár? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn, ef út í það er farið, ekki stjórnað hér meira og minna í 64 ár? (Gripið fram í.) Hann hefur gert það. Hann hefur ekki verið einráður en hann hefur þó nánast farið með völdin allan þennan tíma og þetta er sá flokkur sem hingað til hefur ekki sýnt mikinn áhuga eða sinnu á jafnréttismálum.

Auðvitað er þetta allt spurning að sýna viljann í verki. Ég fullyrði að fráfarandi ríkisstjórn sem skipuð var þremur körlum af hálfu Samfylkingarinnar og þremur konum — það gaf þeirri ríkisstjórn ákveðna ásýnd og sýndi ákveðinn vilja á meðan ein kona var í ríkisstjórn úr Sjálfstæðisflokknum. Í núverandi ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar eru jafnmargar konur og karlar. Þannig á það að vera, það sýnir jafnréttisvilja í verki og það gefur líka þessari ríkisstjórn ákveðna ásýnd. Ég held að umræða innan ríkisstjórnar og í þinginu verði öðruvísi og sé öðruvísi þegar konur taka þátt til jafns við karla í þessari umræðu — ég vona að hv. þingmaður misskilji mig ekki þannig að hann haldi að ég vilji ekki að karlar taki þátt í þessari umræðu — og láta til sín taka. Þá erum við á réttri leið.



[18:51]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið með félagsmálaráðuneytið mjög lengi. Það er mjög langt síðan það var og undir félagsmálaráðuneytið heyra jafnréttismál. Það er bara þannig. Og það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki sinnt jafnréttismálum. Stærsta mál, að mínu mati, í átt til jafnréttis var fæðingarorlofið sem Sjálfstæðisflokkurinn barðist fyrir og fékk í gegn. Það gerði karla jafndýra á vinnumarkaði og konur gagnvart fæðingarorlofi og átti að ryðja burt síðustu hindruninni svo að algjört jafnræði sé milli karla og kvenna. Þrátt fyrir það hefur það ekki tekist og það eru mér mikil vonbrigði.

Ég horfi á að launamisréttið er áfram til staðar, misrétti í stjórnum atvinnu- og fjármálafyrirtækja og víðar er enn þá til staðar. Samt er búið að setja heilmikið af lögum, nefndum, ráðum og jafnréttisáætlunum, jafnréttisskýrslur hafa verið skrifaðar og jafnréttisþing haldin og ég veit ekki hvað þetta heitir allt saman. Samt miðar ekkert. Ég vildi gjarnan skora á menn sem vinna í þessum málum að skoða eftirfarandi: Getur verið að við gerum eitthvað rangt? En það vilja menn ekki. Menn ætla að halda fast í að hafa jafnmarga karla og konur í stjórn þannig að nú mun ráðherrann sem skipar í stjórnir allra þessara ríkisfyrirtækja velja dætur sínar, tengdadætur, systur, mæður og frænkur í stjórn.



[18:52]
Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að benda hv. þm. Pétri Blöndal á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með fjármálaráðuneytið lengst af þann tíma sem hann hefur verið í ríkisstjórn og allt snýst þetta jú um peninga. Ég hef ekki orðið vör við það að fjármálaráðuneytið undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hafi lagt sérstaka áherslu á að leiðrétta t.d. laun lægst launuðu kvennastéttanna hér á landi.

Allt snýst þetta um peninga og að vísa því yfir á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki farið með félagsmálaráðuneytið — við vitum að þetta snýst um peninga og að fjármálaráðuneytið bakki upp það sem kemur úr fagráðuneytunum.

Það er líka svolítið merkilegt, frú forseti, í umræðum um jafnréttismál að þegar maður krefur Sjálfstæðisflokkinn um orð og efndir í þeim málaflokki og stefnu (PHB: Ég er ekki Sjálfstæðisflokkurinn.) kemur yfirleitt alltaf sama svarið og það er fæðingarorlof feðra. Það var vissulega skref í rétta átt enda held ég að allir séu sammála um það. Nú kallar hv. þingmaður fram í og segist ekki vera Sjálfstæðisflokkurinn. Það er ágætt að vita það en hann er hins vegar þingmaður Sjálfstæðisflokksins og hlýtur að tala fyrir stefnu hans í jafnréttismálum, a.m.k. einhverjum hluta þeirrar stefnu. Ég lýsi þá eftir klárri, skýrri stefnu þess flokks í jafnréttismálum. Ef sú stefna felst fyrst og fremst í því að tala um fæðingarorlof feðra er það býsna rýrt í roðinu. En kannski er það þá bara þannig.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til viðskn.