136. löggjafarþing — 92. fundur
 4. mars 2009.
um fundarstjórn.

dagskrá og fyrirkomulag þingfunda.

[12:02]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi fara fram á það við virðulegan forseta að hann boðaði nú þegar til fundar þingflokksformanna og ræddi skipulag þinghalds í dag. Hæstv. forseti kom að máli við mig í gær hér á göngunum og tilkynnti mér það að hann ætlaði að taka á dagskrá málið kosningar til Alþingis og mundi gera það eftir fyrirspurnatíma í dag. Þegar dagskráin birtist í dag er hún þannig að það á að hefja þingfund kl. 12 og samkvæmt skipulagi því sem hér birtist okkur á að boða til nýs fundar kl. hálftvö, sem sagt taka fyrir fyrirspurnir. Það á að ræða málið kosningar til Alþingis, persónukjörið, núna á klukkutíma sem gefur færi á því að framsögumaður málsins nær að mæla fyrir því en önnur sjónarmið fá ekki að komast að hér í samhengi við (Forseti hringir.) þetta mál.

Ég spyr hæstv. forseta hvort ekki sé ráð að ræða við formenn þingflokkanna um það hvernig fyrirkomulag eigi að vera á umræðunni.



[12:04]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti tekur fram að haft var samband við formenn þingflokka eins og hv. þingmaður gerði grein fyrir. Það er rétt að þar var talað um að röðin yrði þannig að við byrjuðum á fyrirspurnum. Það reyndist aftur á móti erfitt varðandi það að tryggja að hægt yrði að fá svör við fyrirspurnunum. Eins hafði utandagskrárumræða verið fest þannig að ég ákvað að taka persónukjörsmálið strax upp, gerði ráð fyrir því að það yrði til umræðu á fundi til hálftvö, síðan yrði fundur settur að nýju kl. sex til kl. átta og málið tekið fyrir og ef því yrði ekki lokið þá kæmi það aftur á dagskrá á morgun.

Forseti var einnig búinn að vara við að það gæti orðið fundur milli kl. 18 og 20 og ég vona að þetta tryggi að allir komist að í umræðunni með eðlilegum hætti og geti vakið athygli á sjónarmiðum sínum og mun sjá til þess að tryggt verði að menn geti haldið þingflokksfundi þarna á milli áður en umræðu lýkur í dag, þ.e. að sjá til þess að við tökum þá hlé og tryggjum að það verði fundur milli 18 og 20 til að þingflokkar geti fundað um málið þarna á milli.



[12:05]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það verður að teljast mjög undarlegt skipulag á þinghaldinu að sjónarmið allra flokka í það minnsta fái ekki að komast að þegar málið er tekið á dagskrá. Ég veit eiginlega ekki alveg á hvaða vegferð forseti er með þinghaldið hér. Þarna er stórmál sem við teljum okkur þurfa að ræða, a.m.k. að það komist hér á framfæri sjónarmið í einhverju samhengi, að umræðan verði með einhverjum hætti samfelld. Þetta er satt að segja mjög sérkennilegt. Það eru mjög miklar líkur á því að umræða um þetta mál verði í þremur hlutum eins og forseti ákveður að setja hér upp dagskrána. Og í svona máli sem er grundvöllur að lýðræðisskipulagi í landinu (Forseti hringir.) á að hafa umræðuna með þessum hætti, algjörlega að óþörfu, forseti.



[12:06]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Til að svara þessum ábendingum öðru sinni óska ég eftir að taka það fram að ég leitaði eftir stuðningi við það að þetta mál yrði tekið á dagskrá í gær með afbrigðum. Beðist var undan því af hv. þingflokksformanni sem hér gerir athugasemdir og þá tilkynnti ég að þetta mál yrði tekið á dagskrá í dag. Ber að harma að það skiptist svona en við skulum þá reyna að hefja umræðuna sem fyrst þannig að sem flestir komist að fyrir kl. hálftvö í þessari umræðu.



[12:07]
Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmenn eigi ekki að hafa áhyggjur af því að geta ekki rætt þetta mál. Það er bara undir sömu reglum og önnur mál sem tekin eru fyrir í þinginu, fólk fær að tjá sig um það samkvæmt þingsköpum. Sjónarmið eiga að geta komið fram. Þó að einhver flytji eina ræðu og síðan líði einhver tími vegna þess að önnur mál koma á dagskrá þingsins ætti það ekki að eyðileggja svo mikið fyrir þingmanninum að hann haldi ekki samhengi í málinu. Ég lýsi því yfir að mér finnst ekkert óeðlilegt við störf forseta í þessu máli.



[12:08]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt að haft var samband við þá er hér stendur í gær vegna kvöldfundar og við gerum ekki athugasemd við það að halda kvöldfund, það liggur mikið fyrir í þinginu. Auðvitað er alltaf heppilegra að umræða fari fram í einu rennsli, eins og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir bendir á, en ég vil þó halda því líka til haga að 1. flutningsmaður sem mun tala hér á eftir, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, gerir grein fyrir máli sem allir þingflokkar eru á — nema Sjálfstæðisflokkurinn. Þar koma fram rökin fyrir persónukjörinu og síðan mun talsmaður Sjálfstæðisflokksins væntanlega tala fyrir einhverjum öðrum sjónarmiðum, hugsanlega gegn persónukjöri eða einhverjum öðrum sjónarmiðum þannig að í því rennsli eiga að koma fram sjónarmið allra þingflokka. Síðan verður gert hlé á umræðunni og hún fer í gang aftur síðar. (Forseti hringir.) Sjónarmið flutningsmanna eiga að koma fram og síðan sjónarmið þess þingflokks sem ekki stendur að málinu.



[12:09]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Dreift hefur verið á borð þingmanna dagskrám, tveimur dagskrám fyrir daginn í dag, þ.e. 92. fundar og 93. fundar. Ég sé ekki á þeirri dagskrá, þeirri seinni, að það eigi að ræða þetta mál. Er þá fyrirhugað að halda enn einn fund eða hvernig hefur herra forseti hugsað sér málið? Mér finnst þetta allt dálítið óljóst og erfitt að átta sig á þessu. Ég verð að segja eins og er að þótt maður hafi skilning á því að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir séu að reyna að koma mörgum málum í gegn og reyna að flýta fyrir því, er dálítið undarlegt að þurfa að hlusta fyrst á framsöguræðu og bíða svo kannski í einn dag og fá þá að ræða málið.



[12:10]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti gerði grein fyrir því að þriðji fundurinn mun verða kl. 18 eins og hv. þingmaður spurði um þannig að það er reiknað með því.



[12:10]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Eins og félagi minn, hv. þingmaður í þingflokki sjálfstæðismanna, Pétur H. Blöndal, nefndi, er dálítið erfitt að átta sig á því hvert yfirstjórn þingsins og hæstv. forseti er að fara í skipulagi dagskrár funda hér. Ekki er hægt að sjá að til standi að ræða þetta tiltekna mál nánar hér í dag af þeirri dagskrá sem birt hefur verið en síðan kemur hér tilkynning um annað frá forseta. Mér finnst eðlilegt að ræða kosningalöggjöfina, hún felur í sér grundvallarfyrirkomulag lýðræðisskipunar okkar og það þarf að gera vel og vandlega, sérstaklega þegar stuttur tími er til kosninga. Við þurfum að geta átt eðlileg skoðanaskipti um þau mikilvægu mál. Það er mjög óheppilegt að gera það með einhverjum hléum og í einhverjum bútasaumi. Það verður engin samfella í þeirri umræðu fyrir þá sem taka þátt í henni og þá ekki heldur fyrir þá sem hafa áhuga á að (Forseti hringir.) fylgjast með umræðunni.



[12:12]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að við höfum kannski ekki farið nægilega vel með tímann. Við erum þegar búin að missa 15 mínútur í þessa umræðu sem hefði getað nýst í það að hefja umræðuna sjálfa og að framsögumaður hefði talað fyrir málinu og þeir sem kunna að hafa önnur sjónarmið uppi hefðu komið sjónarmiðum sínum að. Við erum ekki búin að fara vel með fyrstu 15 mínúturnar sem við höfum hér til umráða. (RR: Ekki lengja hana þá.) Ef umræðan klárast ekki geri ég ráð fyrir að á næsta fundi, sem væntanlega verður boðaður strax að loknum þessum fundi, muni þetta mál líka koma á dagskrá þess fundar. (ÓN: Hún er ekki á dagskrá.) Forseti gat ekki vitað hvort umræðan kláraðist á þessum klukkutíma eða ekki og þess vegna kemur þetta mál væntanlega á dagskrá á næsta fundi. Ég gef mér það að umræðan verði vönduð og góð í dag og við reynum að nýta daginn sem best til að fara í þessa umræðu og ljúka henni eins hratt og kostur er og koma öllum sjónarmiðum á framfæri sem er meginatriðið.



[12:13]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég gat ekki skilið betur af fréttum í gær og viðtölum við formenn og forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi en að þar væri samhljómur um að láta þingstörf ganga sem greiðast, um að taka mál til meðferðar og í gegnum þingið eins hratt og vel og kostur væri. Þess vegna finnst mér alveg furðulegt ef Sjálfstæðisflokkurinn er að tefja fyrir því að gengið sé til dagskrár og unnið að málum. Ég legg áherslu á að við fylgjum dagskránni hratt og vel og fylgjum því eftir sem við höfum áður sagt, að góð samstaða sé um að vinna hér hratt og vel.



[12:14]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég hlýddi með undrun á ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Hann ætlast til að þingið ræði mál hans á eingöngu u.þ.b. klukkutíma og hann ber ekki meiri virðingu fyrir málinu en svo. Mér finnst það alveg með ólíkindum. Hann ber heldur ekki meiri virðingu fyrir þingmönnum en svo að við megum ekki tjá okkur um það hvernig störfum þingsins og stjórn þess verði háttað í dag. Ég bara neita því að ég megi ekki ræða hér um það hvernig störfum þingsins verður háttað í dag. Ég beini því til forseta að það sé undarlegt að halda fyrst fund, síðan annan fund þar sem málið er ekki á dagskrá og svo þriðja fundinn þar sem málið verður á dagskrá.



[12:15]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti vill aðeins taka fram varðandi fundinn klukkan 13:30 að hann er samkvæmt hefðbundinni dagskrá á miðvikudögum og við höfum reynt að halda þeirri hefð. Forseti kynnti sér það að til að lengja fund þyrftum við annaðhvort að bæta inn morgunfundi eða kvöldfundi og forseti hefur ákveðið að reyna að halda sig innan þeirra marka sem hafa verið sett í þingsköpum þar sem ekki þyrfti að veita afbrigði til að funda og þess vegna er fundur settur á klukkan tólf.

Við höfum einn og hálfan tíma til að ræða málin, ljúkum svo þeim hefðbundnu störfum sem eru frá klukkan hálftvö til klukkan fjögur þegar þingflokksfundir hefjast og í framhaldi hefur verið boðaður fundur, ef málinu lýkur ekki, klukkan sex í dag til átta sem er innan þeirra marka sem þingsköp gera ráð fyrir. Þetta ætti að liggja alveg ljóst fyrir.

Það hefur einnig verið sagt hér að ef málinu lýkur ekki fyrir klukkan átta verði haldið áfram með það á morgun. Það kann að vera óþægilegt að þetta skiptist á lengri tíma en við vitum aldrei hversu langan tíma mál tekur í þinginu sama hvenær það er sett á dagskrá. Óskað var eftir að þetta mál yrði á dagskrá í gær, það var beðist undan því og þess vegna kemur það inn með eðlilegum hætti í dag. Það hefði getað verið á dagskrá um hálfsexleytið í gær og fram eftir kvöldi ef vilji hafði verið fyrir því.



[12:16]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að lengja umræðuna (Gripið fram í: Nú?) en af því að beint var til mín spurningu vildi ég bara nefna það svo orð mín verði ekki tekin úr samhengi að vissulega getur forseti ekki fullyrt það fyrir fram að mál klárist ekki í umræðunni og sett það síðan áfram á dagskrá á næsta fundi. Í því fólst engin óvirðing. Það er hins vegar staðreynd. Hins vegar gerði ég ráð fyrir að umræðan mundi ekki klárast þó að forseti hafi formsins vegna ekki getað gert þetta. Þess vegna fundust mér orð Péturs H. Blöndals ekki sanngjörn í minn garð í þeirri ræðu sem hann flutti áðan.