136. löggjafarþing — 92. fundur
 4. mars 2009.
um fundarstjórn.

fyrirvarar í nefndaráliti.

[12:20]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nú háttar svo til að við erum að fara í atkvæðagreiðslu um mikilvægt mál, eftirlaun ráðherra, þingmanna o.s.frv. Í gær var fyrri hluti 2. umr. um þetta mál og fyrir þeim fundi lá nefndarálit frá gervallri allsherjarnefnd sem var út af fyrir sig ánægjulegt að sjá. Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins, forseti, skrifuðu undir það nefndarálit með fyrirvara. Einn af þeim gerði grein fyrir fyrirvara sínum í gær, hv. þm. Pétur Blöndal, og það var nokkuð um þann fyrirvara rætt og breytingartillögur hv. þingmanns við þetta frumvarp. Hinir tveir þingmennirnir, hv. þingmenn Ragnheiður Elín Árnadóttir og Ármann Kr. Ólafsson, skýrðu hins vegar ekki fyrirvara sinn við frumvarpið, þannig að við erum jafnnær um það hvaða álit þeir hafa og hvers vegna þeir gerðu fyrirvara við frumvarpið. Þessir tveir þingmenn, forseti, Ragnheiður Elín Árnadóttir hv. þm. og kollega hennar Ármann Kr. Ólafsson, eru heldur ekki hér í salnum við þessa atkvæðagreiðslu og geta ekki upplýst okkur um hvaða álit þau hafa á þessu frumvarpi sem veldur því að þau gera fyrirvara við það. Þau hafa heldur ekki fjarvistarleyfi. Ég spyr forseta um það hvort ekki þurfi að áminna þingmenn um það þegar þeir gera fyrirvara við frumvörp að skýra þann fyrirvara út með einhverjum hætti (Forseti hringir.) og mæta til atkvæðagreiðslu um þau mál sem þeir leggja hér fyrir.



[12:22]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að hv. þm. Pétur Blöndal gerði hér gaumgæfilega grein fyrir sínum fyrirvara í gær og menn hafa eðlilegar ástæður fyrir því ef menn gera það ekki og eru fjarstaddir. Mér fannst þetta ósköp undarleg athugasemd en kannski ekkert óeðlilegt í ljósi þess hvaða þingmaður átti í hlut sem kom upp í pontu, (Gripið fram í: Háttvirtur.) hv. þingmaður, hvernig sá hv. þingmaður hugsar og nálgast málið. Ég skil hann hins vegar ekki öðruvísi en svo en að hann sé einfaldlega að krefjast frestunar á málinu, frestunar á afgreiðslunni. Ég set mig í sjálfu sér ekki upp á móti því ef menn ætla að fresta þessu máli. Mér finnst það hins vegar miður að málflutningurinn sé með þeim hætti að reynt sé að gera fyrirvara þingmanna, sem eru eðlilegir fyrirvarar og réttur þingmanna til mála, tortryggilega. Það er mjög sérkennileg hugsun.



[12:23]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er eins og í þjóðsögunni þegar hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kemur upp í stólinn að sjaldan bregður mær vana sínum, hún ræðst á manninn en ekki málefnið og hún verður að eiga það við sjálfa sig og sína kjósendur og sitt fólk.

Það sem ég geri hins vegar athugasemd við og fullkomlega þinglega athugasemd við er að þegar nefndarmenn hafa fjallað um mál og gera við það fyrirvara á nefndaráliti, eiga þeir að skýra þann fyrirvara með einhverjum hætti. Ég geri ráð fyrir að þeim gefist kostur á því við 3. umr. að gera það en þetta er sumsé þannig að málið sem við höfum falið þeim að kanna í sinni nefnd, þau gera okkur ekki grein fyrir því hvernig sú könnun fór fram og hvaða fyrirvara þeir gera við málið og hvaða skoðun þeir hafa á því. Og þeir eru heldur ekki, eins og ég bendi á, mættir í salinn til þessarar atkvæðagreiðslu þó að þeir hafi ekki beðið forseta um leyfi (Forseti hringir.) til fjarvistar. Ég hvet forseta eindregið (Forseti hringir.) til þess að tala við þessa þingmenn og segja þeim frá því að hér sé beðið um það að þeir geri grein fyrir fyrirvara sínum og þeir geri það þá við 3. umr. málsins hvenær sem hún fer fram.



[12:24]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er — og já, ég ætla ekki að bregða út af vana mínum — að mér finnst risið ekki hátt á hv. þingmanni og mér finnst hann ekki bera nægilega mikla virðingu fyrir samherjum sínum sem eru kollegar hans á þinginu þó að þeir séu í öðrum flokki. Ég tel að hv. þingmaður eigi að bera meiri virðingu fyrir afstöðu þeirra en hann lætur uppi og lætur í veðri vaka hér í ræðustól.

Það er alveg ljóst að hv. þm. Pétur H. Blöndal kom hér upp í gær og gerði ekki eingöngu grein fyrir fyrirvara sínum heldur líka fyrirvara annarra þingmanna. Það er alkunna og alþekkt að það er oftast nær einn þingmaður sem gerir grein fyrir (Gripið fram í.) fyrirvörum viðkomandi þingmanna. Hv. þingmaður verður þá bara að hlusta betur þegar hann er hér viðstaddur en ekki að gera eitthvað annað.



[12:25]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þeir sem fylgdust með umræðunni í gær vita að ég gerði grein fyrir fyrirvara mínum og fyrirvörum tveggja annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessu máli hvað varðar forseta Íslands, (Gripið fram í.) þ.e. þann fyrirvara að ef ungur maður yrði forseti Íslands og hætti svo eftir eitt kjörtímabil þá sé hann í vondum málum af því að hann fengi hvergi vinnu sem fyrrverandi forseti, mjög ólíklega, og hann fengi engan lífeyri eða mjög lítinn lífeyri. Þetta er eitthvað sem ekki var rætt í nefndinni enda var mikill flýtir á vinnslunni. Þetta var sá fyrirvari sem við vildum hafa á málinu, við þrjú. Svo gerði ég hins vegar líka fyrirvara um það að ég mundi flytja breytingartillögu sem við ræðum hér og greiðum atkvæði um á eftir.



[12:26]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega óhjákvæmilegt í ljósi þessarar umræðu að forseti meti það hvort rétt sé að fresta atkvæðagreiðslunni um þetta mál. Alla vega virðist svo að hv. þm. Mörður Árnason hljóti að vera að óska eftir því að málið komi inn á milli 2. og 3. umr. til að hægt sé að rannsaka það betur. Það var ekki hægt að skilja orð hans öðruvísi en svo að hann teldi að málið væri ekki nægilega vel rannsakað. Þá er náttúrlega gott færi á því að taka málið inn á milli 2. og 3. umr. og rannsaka það betur. Það er auðvitað fullkominn réttur þingmanna að krefjast þess og ég spyr því hæstv. forseta: Mátti ekki skilja orð hans svo að málið kæmi inn til nefndar á milli 2. og 3. umr.? Ég fer þá alla vega fram á það að málið verði tekið til umræðu aftur í nefndinni fyrst látið hefur verið að því liggja að það sé ekki nægilega vel rannsakað.



[12:27]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Virðulegur forseti. Þetta er dálítið undarleg umræða að mörgu leyti. Í umræðu um þetta mál í gær kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal hvaða fyrirvara hann og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera við þetta mál. Jafnframt kom fram sérstakur fyrirvari hv. þm. Péturs H. Blöndals við tiltekna þætti málsins sem lýtur ekki að sömu fyrirvörum og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa. Ég gerði að vísu athugasemd við það að fyrirvarinn sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins gerðu kom ekki fram í umræðu á vettvangi efnahags- og skattanefndar en látum það liggja á milli hluta.

Nefndarálitið er afgreitt með atbeina allra þingmanna nefndarinnar og það kom engin ósk um það á vettvangi hennar að málið gengi til nefndar á milli 2. og 3. umr. Ég mælist til þess að menn komi ekki með þá ósk hér en við því verður að sjálfsögðu orðið ef það er krafa þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins. Hitt er svo annað mál að að sjálfsögðu geta menn tekið til máls við 3. umr. Það er ekkert sem bannar það að menn taki til máls við 3. umr. um mál og geri grein fyrir sínum fyrirvara ef þeir telja að það vanti eitthvað upp á að hann hafi komið skilmerkilega fram.



[12:28]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er eiginlega að verða með ólíkindum hvernig umræður fara fram hér í þingsal. Hér hefur komið fram að hv. þm. Mörður Árnason áttaði sig ekki á þessu, enda afar óvenjulegt í þingsögunni að hv. þm. Pétur Blöndal tali fyrir munn fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokksins en sinn eigin. Það mál hefur hins vegar verið upplýst nú og þar af leiðandi er algjör óþarfi og alveg stórsérkennilegt að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, óski eftir frestun umræðunnar eða að málið fari í nefnd milli 2. og 3. umr. Skrípaleikur Sjálfstæðisflokksins hér er að verða með algjörum ólíkindum.

Virðulegur forseti. Ég verð að segja fyrir mína hönd, og trúlega mun fleiri, að mér er algjörlega nóg boðið.



[12:29]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í ræðu minni var ég að vísa til þess sem hér kom fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni. Hann sagði í ræðustól Alþingis að málið væri ekki nægilega vel rannsakað (MÁ: Það er rangt.) og þess vegna hlýtur að vera eðlilegt að málið fari aftur til nefndar til að hægt sé að skoða það á milli 2. og 3. umr. Hér hefur reyndar verið upplýst að gerð hefur verið grein fyrir öllum þeim fyrirvörum sem við sjálfstæðismenn höfum við málið en ég tel eðlilegt að málið fari aftur til nefndar á milli umræðna fyrst hv. þm. Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur þá skoðun að málið sé ekki fullrannsakað.



[12:30]
Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið ógleymanleg stund hér frá hádegi. Ég mun hugsanlega segja frá þessum hálftíma í bókinni minni. Ég vil ítreka að þegar um málið var fjallað í efnahags- og skattanefnd var góður samhljómur í nefndinni, góður samhljómur um að koma málinu út úr nefndinni eins og á stundum verður í nefndum. Nokkuð góður samhljómur var um að málið fengi framgang í þinginu og gengið yrði til atkvæða um það. Til þess að þessi stund verði ekki mun ógleymanlegri en hún er þegar orðin hvet ég forseta til að hefja atkvæðagreiðsluna.