136. löggjafarþing — 93. fundur
 4. mars 2009.
einföldun á almannatryggingakerfinu.
fsp. EBS, 338. mál. — Þskj. 578.

[15:30]
Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram) (Sf):

Hæstv. forseti. Á vordögum árið 2007 þegar allt lék í lyndi var mynduð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og lagður fram stjórnarsáttmáli sem m.a. fól í sér að endurskoða skyldi almannatryggingakerfið. Reyndar var mörgu komið í verk í framhaldi af þeirri stjórnarmyndun á meðan sú stjórn sat, tekjutenging maka var afnumin, persónuafsláttur og skattleysismörk hækkuð og svo mætti áfram telja.

Í samræmi við stjórnarsáttmálann var sett á laggirnar nefnd til að stokka upp þetta flókna og stundum rangláta kerfi og regluverk sem hefur flækt greiðslu bóta og réttindi bæði aldraðra og öryrkja. Öllum er ljóst að öll viðmið og aðstaða í tryggingabótakerfinu hafa laskast verulega í kjölfar bankahrunsins og fjármálakreppunnar. Engu að síður og kannski þess vegna er enn brýnna en fyrr að gera lagfæringar og standa vörð um almannatryggingakerfið.

Mér er kunnugt um að nefndin, sem sett var á laggirnar undir forustu Stefáns Ólafssonar prófessors, hefur starfað áfram þrátt fyrir hrunið og stjórnarskiptin og ég leyfi mér því að beina þeirri spurningu til hæstv. félagsmálaráðherra hvort einhverjar niðurstöður liggi fyrir, hvort nefndin hafi skilað tillögum eða hvort ekki megi treysta því að endurskoðun og uppstokkun tryggingakerfisins séu enn á dagskrá stjórnvalda.

Engum blandast hugur um að á erfiðum tímum í þjóðarbúskapnum er eitt af forgangsverkefnunum að treysta velferðina og velferðarnetið og áríðandi að það sé réttlátt og skilvirkt og komi skjólstæðingum Tryggingastofnunar ríkisins að sem bestum notum. Ég spyr því, virðulegur forseti, og beini spurningu minni til hæstv. félagsmálaráðherra: Hver er staðan í þessum málum nú um mundir?



[15:32]
félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ellerti B. Schram fyrir þessa spurningu um endurskoðun og einföldun á almannatryggingakerfinu og hvað því starfi líði. Eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni skilaði verkefnisstjórnin mjög umfangsmiklum tillögum um fyrstu aðgerðir til að breyta almannatryggingakerfinu í lok ársins 2007 og voru þær flestar lögleiddar á síðasta ári og fólu í sér miklar og mikilvægar breytingar á kjörum elli- og örorkulífeyrisþega með afnámi makatengingarinnar, eins og hv. þingmaður nefndi, afnámi skerðingarbóta vegna séreignarsparnaðar, setningu frítekjumarks á fjármagnstekjur, hækkun frítekjumarks vegna lífeyrissjóðstekna öryrkja og atvinnutekna allra lífeyrisþega og lækkun skerðingarhlutfalls ellilífeyris og svo mætti lengi telja — sem ég ætla ekki að gera, því hv. þingmenn þekkja þetta frá árinu 2007.

Verkefnisstjórninni var síðan ætlað að skila tillögum um langtímastefnumótun og nauðsynlegar lagabreytingar þar að lútandi fyrir 1. nóvember 2008. Ljóst er að ekki er um einfalt verk að ræða og hefur sá tími sem verkefnisstjórnin fékk til umráða reynst of skammur og sérstaklega í ljósi þess sem gerðist í lok síðasta árs. Þá hefur verkefnisstjórnin fengið í hendur ýmis fleiri verkefni svo sem að koma með útfærslur á tillögum um svokallaða lágmarksframfærslutryggingu sem kom til framkvæmda 1. september og tryggir lífeyrisþegum ákveðna lágmarksfjárhæð til framfærslu. Eins og menn vita er sú fjárhæð 180 þús. kr. á mánuði fyrir þá sem njóta heimilisuppbótar og 153.500 fyrir þá sem ekki njóta heimilisuppbótarinnar, þ.e. halda heimili með öðrum.

Ég hef lagt mikla áherslu á það að verkefnisstjórnin haldi áfram því góða starfi sem hún sinnir, enda er aldrei mikilvægara en nú að við hlúum að velferðarkerfinu og treystum það þannig að þeir sem þurfa að treysta á framfærslu þess fái þann stuðning sem þeim ber. Þess vegna er áríðandi að verkefnisstjórnin hraði verki sínu og ég hef beðið hana um að skila umræðutillögum í þessum mánuði. Hér verður um að ræða stefnuskýrslu þar sem reifaðir verða gallar núverandi kerfis og lagðar fram hugmyndir um breytingar og úrbætur. Nýjar hugmyndir munu byggja á heildstæðri endurgerð lífeyrisþáttar almannatryggingakerfisins með mikilli einföldun, auknu gagnsæi og breyttri virkni í samskiptum lífeyrissjóða og almannatrygginga. Í þessu felst m.a. fækkun bótaflokka, hækkun frítekjumarka og breyttar reglur um skerðingarákvæði vegna tekna. Eftir að þær hugmyndir hafa verið kynntar hagsmunaaðilum og öðrum mun verkefnisstjórnin taka þær aftur upp til lokafrágangs og semja tillögur að lagabreytingum um endurskoðun löggjafarinnar. Við endurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar verður að vanda til verka, mikið er í húfi og horfa verður til framtíðar. Sú löggjöf sem við búum nú við er að stofni til gömul og margstagbætt, eins og ég hef oft nefnt í þessum ræðustól.

Nú á sem sagt að gera grundvallarbreytingar á kerfinu í heild en ekki setja plástur á það eins og hefur tíðkast á undanförnum áratugum. Óhjákvæmilegt er að erfitt efnahagsástand hafi áhrif á störf verkefnisstjórnarinnar og fyrirhugaðar breytingar á lífeyriskerfinu. Ég tel ljóst að breytingarnar verði að taka gildi í áföngum en komi ekki allar til framkvæmda á sama tíma. Stefni ég að því að fyrstu breytingarnar í þeirri heildarendurskoðun sem fram undan er öðlist gildi um næstu áramót og þá verði fyrst og fremst um að ræða breytingar sem ekki kosta mikla fjármuni en þjóna þeim tilgangi að einfalda kerfið og gera það gagnsærra. Þannig verður í fyrstu atrennu gerð tillaga um nýtt heildstætt kerfi sem ekki þarf að fela í sér meiri útgjöld en nú eru í lífeyristryggingunum. Hafa þarf í huga að þær lagabreytingar sem verkefnisstjórnin vinnur að verða ekki unnar án þess að litið sé á heildarmyndina. Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins hefur um nokkurt skeið unnið að tillögum sem fela í sér algera endurskoðun á fyrirkomulagi örorkumats. Stefnt er að áherslubreytingu þannig að nálgun matsins sé jákvæðari og litið á hvað fólk getur en ekki hvað það getur ekki. Samhliða hefur verið unnið að fjölgun starfsendurhæfingarúrræða og því miður hefur vinna við breytingar á örorkumatskerfinu gengið hægar en æskilegt er þótt tillögugerð sé komin nokkuð á veg. Ég tel óheppilegt að fjalla um jafnskyld mál og endurskoðun almannatryggingakerfisins og nýtt örorkumatskerfi hjá tveimur ráðuneytum (Forseti hringir.) og hef því ákveðið að leita samráðs við forsætisráðuneytið um hvort færa megi verkefni örorkumatsnefndarinnar til félags- og tryggingamálaráðuneytisins.



[15:37]
Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ellerti B. Schram fyrir að spyrja þessarar mikilvægu spurningar því að beðið er eftir því að við fáum einhverja niðurstöðu í þessi mál og við hljótum öll að stefna að því að þeir fjármunir sem við setjum í almannatryggingakerfið skili sér fyrst og fremst til þeirra sem þurfa á því að halda. Ég held að við getum öll verið sammála um að kerfið sem við búum við í dag er því miður ógagnsætt og flókið, fólk á erfitt með að skilja það og þess vegna er mikilvægt að einfalda það eins og kostur er. Einsýnt er að ný ríkisstjórn mun innleiða nýtt og einfaldara almannatryggingakerfi. Ég vona að við framsóknarmenn fáum aðkomu að þeirri vinnu að afloknum kosningum og við lýsum okkur reiðubúna til að stuðla að því að íslenska almannatryggingakerfið verði öryggisnet sem hjálpar þeim sem þurfa á samfélagslegri aðstoð að halda og við hljótum að stefna að því að búa til betra og einfaldara kerfi til að skapa betra Ísland.



[15:39]
Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrirspurnina og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra svörin. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra áfram með það verk sem hún er greinilega mjög einbeitt í að vinna, að halda áfram með þá vinnu sem fyrri ríkisstjórn hafði um einföldun á almannatryggingakerfinu. Ég held að þar séu veruleg tækifæri til að auka þjónustu við almenning í þessu landi, við þá sem þurfa á þessari þjónustu að halda.

Ég vil líka beina því til hæstv. ráðherra að við þessa öld sem nú er uppi í þjóðfélaginu, og ég veit að hún tekur undir það með mér, skiptir þetta kerfi gríðarlegu máli. Ég held að ef við náum að gera lagfæringar og einfalda kerfið sparist fjármunir sem ég treysti að muni nýtast þeim sem á þurfa að halda og vil þess vegna hvetja hæstv. ráðherra til að líta til þess í öllum sínum verkum að reyna að ná í aukafjármuni til hjálpar þeim sem nú þurfa mest á hjálp að halda.



[15:40]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka það að þessi fyrirspurn kom fram og þær upplýsingar sem hæstv. ráðherra gaf. Ég vek athygli á því að á síðasta kjörtímabili fluttu þingmenn Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins sameiginlega tillögu um framtíðarskipan lífeyrismála og ég held að þar hafi verið lagt upp með nokkuð merkilegt plagg og merkilega framsetningu, sem byggði á því að þeir sem þurfa aðstoð geti fengið hana og síðan verði sérstaklega litið til þess að fólk komist almennt af á þeim tekjum, lífeyrisgreiðslum og þjónustu sem ríkið er tilbúið til að veita og veitir á hverjum tíma.

Nú hagar hins vegar þannig til, hæstv. forseti, að frítekjumark er komið á ýmsar tekjur, fjármagnstekjur, atvinnutekjur og á séreignarsparnaði verður ekki skerðing en út af stendur eitt, venjulegar lífeyristekjur sem skerða tryggingabætur. (Forseti hringir.) Ég beini því sérstaklega til ráðherra að huga að því.



[15:41]
Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim hv. alþingismönnum sem hér hafa tekið til máls og þakka þeim fyrir skilning sem ég held að endurspegli þann samhljóm sem er í þingsölum og í þjóðfélaginu að standa þurfi vörð um almannatryggingakerfið hvernig svo sem öllu reiðir af að öðru leyti. Ég færi líka hæstv. félagsmálaráðherra þakkir fyrir þær upplýsingar sem hér eru gefnar. Þær eru rifjaðar upp bæði af honum og mér að margt gott hefur verið gert síðan 2007 til bóta fyrir þetta kerfi og nú er sem sagt unnið hörðum höndum að því að leggja fram skilvirkari og stærri skýrslu um einföldun og gagnsæi í kerfinu, sem því miður hefur stundum verið allt of flókið og kannski ekki allt of skilvirkt og hefur falið í sér margvíslegar skerðingar sem hinn venjulegi almúgi á erfitt með að átta sig á.

Hér er um að ræða ánægjulegar upplýsingar og merkilegt grundvallarmál sem snýr að því að verja velferðina og þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu og lágmarka þann skaða sem hinir lægst settu bera af þeim áföllum sem þjóðin hefur orðið fyrir. Ég sendi hæstv. ráðherra mínar bestu stuðningskveðjur og hvet til þess að þetta starf haldi áfram og við sjáum eitthvert ljós í þeirri skýrslu sem ráðherrann á von á seinna í vetur.



[15:43]
félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu og tek undir með þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í henni að þetta er eitt mikilvægasta málið í dag við þessar aðstæður. Það almannatryggingakerfi sem við eigum er okkur ákaflega dýrmætt og við verðum að standa vörð um þá sem treysta á það.

Varðandi það sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson nefndi þá er búið að koma inn í lögin lágmarksframfærsluviðmiði til að tryggja að enginn búi við tekjur undir framfærslu. Nefndin er að vinna í því og það verður unnið áfram, ég á von á því að fá tillögur í þessum mánuði og tel mjög mikilvægt að nefndin hraði störfum sínum. Það er alveg rétt að kerfið er allt of flókið, við verðum að einfalda það og það verður að vera gagnsætt.

Ég heimsótti Tryggingastofnun ríkisins í gær og hitti allt starfsfólkið. Þar kom fram hversu mikilvægt er að fólk skilji hvað það fær frá stofnuninni, annars er hætta á að traust á hana verði ekki eins og það ætti að vera, þannig að við verðum að stíga þau skref fljótt að einfalda og auka gagnsæið og þetta verður að vera það öryggisnet sem því er ætlað. Möskvarnir verða að halda, sérstaklega þegar þrengir að, því þarna er fólk sem þarf stuðning.

Ég vil nefna í lokin að einnig hefur verið talað um að sameina jafnvel Tryggingastofnun ríkisins og Vinnumálastofnun í nýja vinnu- og velferðarstofnun, en þetta er nokkuð sem fyrirrennari minn nefndi þegar hún mælti fyrir þeim breytingum sem hún stóð fyrir á sínum tíma. Við þurfum líka að skoða nýskipan í örorkumálunum, eins og ég nefndi. Mjög mikilvægt er að huga að öllum þessum þáttum og auðvitað þarf að horfa á þetta allt saman í heild og ekki eðlilegt að verið sé að skoða þetta aðskilið á mörgum stöðum.

Ég þakka umræðuna og mun (Forseti hringir.) gera allt sem ég get til að ná þessu fram á þeim stutta tíma sem ég hef.