136. löggjafarþing — 94. fundur
 4. mars 2009.
kosningar til Alþingis, frh. 1. umræðu.
frv. LB o.fl., 368. mál (persónukjör). — Þskj. 622.

[18:04]
Geir H. Haarde (S):

Virðulegi forseti. Ég vil segja nokkur orð um það frumvarp sem mælt var fyrir fyrr í dag um breytingar á kosningalögunum. Ég vil að það komi strax fram að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki aðili að flutningi þessa máls og var ekki gefið færi á að koma með athugasemdir eða ábendingar varðandi frumvarpið þótt málið hafi vissulega verið kynnt fyrir flokknum. Þessi vinnubrögð fara mjög í bága við það sem tíðkast hefur þegar breytingar hafa verið gerðar á kosningalögum og kannast ég ekki við það þau 22 ár sem ég hef setið á þingi að staðið hafi verið að málum með þessum hætti.

Mér er reyndar illskiljanlegt hvers vegna þetta tiltekna mál er nú svo mikilvægt í augum núverandi stjórnarflokka vegna þess að ég minnist þess ekki að það hafi nokkurn tímann borið á góma í fyrri ríkisstjórn að brýnt væri að breyta reglum um kosningar til Alþingis.

Ástæðan fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki þátt í því að leggja þetta frumvarp fram er hins vegar ekki sú að við séum endilega á móti því að opna möguleika á auknu persónukjöri við kosningar. Við teljum hins vegar, eins og komið hefur fram, að slík breyting þurfi miklu meiri og betri undirbúning en hér hefur átt sér stað og miklu meiri umræður í þjóðfélaginu sjálfu. Þær hafa nákvæmlega engar verið í tengslum við málið núna.

Við teldum fara vel á því að ef það ætti að stíga skref sem þetta væri gerð tilraun, t.d. í næstu sveitarstjórnarkosningum í sveitarfélögum sem þess kynnu að óska, sem gengi út á að prófa hvernig svona fyrirkomulag virkar og hvort ánægja yrði með það hjá viðkomandi kjósendum.

Hugmyndin sem slík er að sjálfsögðu umræðunnar virði, en á henni eru hins vegar ýmsir ágallar. Það eru þeir sem ekki hafa verið ræddir nægjanlega mikið að okkar dómi og það eru þeir sem gera það að verkum að ýmsir hafa fyrirvara á þessu máli, efnislega séð, burt séð frá vinnubrögðum og tímasetningu.

Með frumvarpi sem þessu er í raun og veru verið að flytja prófkjörin hjá flokkunum inn í sjálfar kosningarnar. Þannig háttar til um þessar mundir að ég held að allir stjórnmálaflokkarnir séu meira og minna búnir að skipuleggja hjá sér einhvers konar prófkjör eða forval. Slík barátta er oft hörð eins og við þekkjum og þess eru dæmi að menn hafi legið sárir eftir slík átök og það hafi tekið ákveðinn tíma að jafna mál á milli manna eftir slíkt.

Ég held að menn þurfi að hugsa það alveg í þaula hvernig þeir sjá fyrir sér kosningabaráttu, t.d. til Alþingis, þar sem takast á stjórnmálaflokkar ef stjórnmálamennirnir innan flokkanna eru síðan innbyrðis að takast á um röðun í sæti á lista. Og hver er leiðtogi listans í hverju kjördæmi fyrir sig ef þannig háttar til og hver er talsmaður hans ef ekki er búið að ganga frá því fyrir fram?

Annað mál sem þetta snertir er svo það að við höfum nýlega samþykkt hér á Alþingi frumvarp um fjármál stjórnmálaflokka þar sem kveðið er á um fjármögnun prófkjörsbaráttu. Ef þetta tvennt blandast saman, prófkjörsbarátta og kosningabarátta, hvernig á þá að víkja reglunum um fjármögnun að slíku nýju dæmi? Það hefur ekki verið hugsað í þessu frumvarpi. Hvernig á að ganga frá fjárveitingum eða fjáröflun í þessu skyni? Á að telja fjárstyrki til einstakra frambjóðenda með framlögum til flokkanna innan þess hámarks sem leyfilegt er að gefa flokkunum af hálfu einstaklinga eða fyrirtækja eða á að fara einhverja aðra leið í því? Þessum spurningum hefur ekki verið svarað en það hefði verið eðlilegt að taka á slíkum atriðum í þessu frumvarpi og breyta því þar með í bandorm og breyta þessum lögum þá í leiðinni. Þetta er eitt af því sem ekki hefur verið fjallað um svo að ég nefni bara nokkur atriði í þessu sambandi sem mér finnst leika vafi á.

Ég hef látið koma hér fram fyrr í dag að við teljum þess utan að þetta mál sé allt of seint fram komið. Kosningar eiga að fara fram samkvæmt upplýsingum sem fram hafa komið á blaðamannafundi forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar 25. apríl. Þangað til eru rúmar sjö vikur. Í tilmælum frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, og frá Feneyjanefndinni svokölluðu, sem starfar, að ég hygg, á vegum Evrópuráðsins, er farið yfir hvað teljast góðar venjur og góðir siðir þegar kemur að kosningareglum. Báðir aðilarnir telja að ekki eigi að breyta reglunum nema með mjög góðum fyrirvara fyrir kosningar. Í ÖSE-skjalinu um þetta er talað um að reglum eigi ekki að breyta nema ár sé í kosningar, að minnsta kosti. Reyndar er það Evrópuráðsnefndin, Feneyjanefndin, sem talar um eitt ár, hinn hópurinn talar um mjög góðan fyrirvara.

Ég tel að gera verði greinarmun hér á efnisbreytingum á kosningalögunum og svo tæknilegum eða smávægilegum breytingum. Ég tel að við getum leyft okkur að breyta kosningalögunum, þótt með stuttum fyrirvara sé, ef um er að ræða hreinar tæknilegar breytingar eins og við höfum reyndar gert þessa dagana og hefur stundum áður verið gert. En tillagan sem gerð er í frumvarpinu hér í dag er ekkert smámál, hún er um að gjörbreyta eðli kosningafyrirkomulagsins. Þess vegna þarf að gefa eðlilegan fyrirvara á slíku. Þess vegna held ég mig við það sem ég hef áður sagt, það stendur til með þessu að breyta leikreglunum í miðjum leik. Það bara gengur ekki upp að mínum dómi, þegar flokkarnir eru farnir að vinna eftir gildandi reglum og allir hafa gengið út frá því að stillt yrði upp með hefðbundnum hætti.

Menn verða síðan að gera upp við sig hvort þeir vilja efnislega flytja prófkjörin inn í kosningarnar sjálfar og þar hefur hver og einn þá skoðun sem hentar en ég er efasemdamaður í því efni þótt ég telji sjálfsagt að ræða þetta mál.

Síðan hefur önnur spurning komið hér fram í andsvörum fyrr í dag. Spurt var hvort flutningsmenn hefðu leitað af sér allan grun um það hvort í þessu efni, varðandi breytingar sérstaklega á 110. gr. kosningalaganna, ætti við það ákvæði stjórnarskrár að til að geta gert breytingar þyrfti tvo þriðju hluta alþingismanna, tvo þriðju samþykktra atkvæða á Alþingi, til að slíkar breytingar næðu fram að ganga.

Um þetta ríkir vafi og lögð hafa verið fram tvenns konar lögfræðiálit í þessu skyni þar sem lagt er á þetta mat. Ég tel ekki að við þurfum sérstaklega á því að halda að kalla fram lögfræðileg vafaatriði eða ágreining um mál sem þetta eins og nú standa sakir í þjóðfélaginu. Ég tel að nóg sé komið af slíku, ríkisstjórnin er að taka ákveðna áhættu gagnvart stjórnarskránni við ráðningu á nýjum seðlabankastjóra, við höfum ekki gert okkur mat úr því hér í þingsal en ég tel ekki að bæta eigi fleiri slíkum vafaatriðum inn í þá þjóðfélagsmynd sem við erum að fást við hér á Alþingi núna. Það á ekki að búa til lögfræðileg álitamál að ástæðulausu, það á ekki að kalla fram vafa um það hvort gerningar framkvæmdarvalds eða löggjafarvalds standist stjórnarskrána.

Við vitum aldrei hvenær einhver fer í mál og lætur á slíkt reyna. Og hvað gera menn ef ákvarðanir eru dæmdar ógildar af þar til bærum dómstólum við aðstæður sem þessar? Ég tel að um þetta ríki vafi, ég hef séð lögfræðiálit sem hníga í báðar áttir hvað þetta atriði varðar og það eitt nægir manni til að sýna fram á að það er vafi í málinu og honum hefur ekki verið eytt.

Ég vil svo bæta því við, virðulegi forseti, að Alþingi hefur mörgum mikilvægum hnöppum að hneppa um þessar mundir. Ríkisstjórnin hefur kynnt það að hún sé búin að afgreiða ein 29 þingmál, frumvörp og þingsályktunartillögur, sem taka þurfi til afgreiðslu hér á Alþingi. Einhver þeirra eru komin fram, eitt eða tvö mál hafa þegar verið afgreidd, annað er í þingflokkum stjórnarflokkanna og enn annað er ekki einu sinni komið það langt. Sum þessara mála eru það sem kallast mundu góð mál í þeim skilningi að um þau ætti að geta orðið góð sátt og eins og margoft hefur komið fram munum við í Sjálfstæðisflokknum greiða fyrir öllum slíkum málum sem varða hagsmuni atvinnulífs og einstaklinga í þeirri efnahagskreppu sem nú er við að fást. En mál sem þetta á ekkert erindi inn í þann skjalabunka. Það er af nógu öðru að taka hér á Alþingi þótt ekki sé verið að eyða tímanum í mál af þessu tagi um þessar mundir. Það væri miklu nær að taka þetta frumvarp til hliðar við núverandi aðstæður, sameinast um að láta á það reyna hvort hægt væri að breyta lögum um kosningar til sveitarstjórna á næsta vetri með góðum fyrirvara, ekki með örfárra vikna fyrirvara, og gera tilraun með þetta fyrirkomulag. Það held ég að væri vitið meira en snúa sér nú á Alþingi að öðrum og veigameiri og meira aðkallandi þingmálum en vera ekki að sóa tímanum í mál sem þetta, hvorki hér í þingsal né í þingnefndum. Á það reyndar við um eitt eða tvö önnur mál sem mér skilst að ríkisstjórnin ætli að freista að koma hér fram en hafi ekkert með að gera þá þröngu stöðu í efnahagsmálum sem uppi er.

Þetta eru þau sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri, virðulegi forseti. Auðvitað er hægt að tína til margt fleira sem snertir þetta mál, ég tel hins vegar að sú vinna sem unnin hefur verið sé um margt gagnleg og ég vil sérstaklega þakka aðalsérfræðingi ríkisstjórnarinnar og landsmanna, Þorkeli Helgasyni, sem situr hér í hliðarsal og hefur unnið þetta mjög samviskusamlega eins og ævinlega þegar til hans hefur verið leitað um að greiða úr vandamálum eða útskýra mál sem varða kosningalögin og það sem þeim tilheyrir. Ég er ekki að draga úr því að það er gott að þetta kemur fram og að menn geti haft þetta til hliðsjónar ef síðar meir verður ákveðið að ráðast í breytingar sem þessar sem ég teldi sem sagt heppilegt og hyggilegt að fresta til haustsins og gera þá vel undirbúna tilraun í einhverjum sveitarstjórnum sem bjóðast til að taka þátt í slíku.



[18:17]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Geirs H. Haarde að hann sagði að hér væri verið að gjörbreyta eðli kosningafyrirkomulagsins. Mig langar til að inna þingmanninn eftir viðhorfi hans til þess álitamáls að í dag er það þannig að hægt er að breyta fyrirkomulaginu. Hægt er að breyta listum í dag ýmist með því að strika út nöfn eða breyta röðun lista og slíkar aðgerðir kjósenda geta haft áhrif á það hverjir verða endanlega kjörnir þingmenn viðkomandi lista. Telur hann að með þeim breytingum sem eru heimilar í dag samkvæmt kosningalögum sé verið að gjörbreyta eðli kosningafyrirkomulagsins? Ef við t.d. tækjum þá leið að auka vægi þess að breyta listum frá því sem er í dag, þannig að breytingarnar hefðu mun meira vægi en í dag, væri verið að gjörbreyta kosningafyrirkomulaginu með því? Að slepptum þeim hugmyndum sem eru í frumvarpinu og aðeins væri verið að fara þá leið að áhrif kjósandans á að breyta lista frá því sem er í dag væri aukið, væri þá að hans mati verið að gjörbreyta kosningafyrirkomulaginu?



[18:19]
Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég átti við er að með því að samþykkja þær tillögur sem felast í þessu frumvarpi væri verið að gera grundvallarbreytingu á kosningafyrirkomulagi okkar með því að í stað þess að kjósa eingöngu um flokka og geta gert minni háttar breytingar á röð, eins og hv. þingmaður benti á, væri boðið upp á það og jafnvel ætlast til þess að kjósendur réðu alfarið uppstillingu á lista hvers flokks. Þó að reyndar sé sagt núna að flokkarnir eigi að geta valið, sem er náttúrlega ruglingslegt og mundi valda ruglingi meðal kjósenda, og jafnvel að geta valið á milli kjördæma sem gerir málið heldur snúnara sömuleiðis.

Það sem ég átti við með því að nota þessi orð, að þetta væri grundvallarbreyting á fyrirkomulaginu, var auðvitað það að ef menn vilja gera slíka breytingu verður að ætla fólki eðlilegan aðdraganda að slíku. Ég nefndi þetta í samhengi við þann ársfyrirvara sem sérfræðiaðilar úti í heimi tala um að eðlilegt sé að miða við þegar breytingar eru gerðar á kosningalögum, að það sé ekki hrapað að slíkum breytingum örfáum vikum fyrir kosningar þegar enga brýna nauðsyn ber til þess og engar nauðir rekur til þess að gera slíka breytingu. Það er það sem ég er að vekja athygli á.



[18:20]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég var eiginlega að inna þingmanninn eftir var hvort breyting á núverandi fyrirkomulagi þannig að vægi þess að breyta listum yrði aukið verulega frá því sem nú er, hvort í því mundi að hans mati felast gjörbreyting eða grundvallarbreyting á eðli kosningafyrirkomulagsins burt séð frá því hvað sagt er í því frumvarpi sem hér er til umræðu. Mig langar að inna þingmanninn eftir viðhorfi hans til þess sérstaklega ef sú leið yrði farin að breytingar á listum hefðu miklu meira vægi en í dag og það væri eina breytingin sem gerð væri, hvort það væri grundvallarbreyting á kosningafyrirkomulaginu.



[18:21]
Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé ekki að þetta atriði skipti máli. Ég tel hins vegar að ef slík breyting yrði gerð, segjum sem svo að gerð yrði sú breyting, sem hv. þingmaður er að tala um, að vægi svona útstrikana t.d. og númeraraðar yrði breytt og það aukið, þá tel ég að slík breyting sé þess eðlis að hún þyrfti miklu meiri fyrirvara og miklu meiri undirbúning en verið er að tala um hér í dag, um þessar sjö vikur.



[18:22]
Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er kannski á svipuðum nótum og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson var áðan. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé ekki um neina grundvallarbreytingu að ræða og ekki neitt í takt við þá kröfu sem ÖSE gerir um þennan fyrirvara því að þetta er ekki það mikil breyting. Staðreyndin er sú að í dag er heimilt að breyta listum, kjósendum er heimilt að gera breytingar á listum, og reyndar þannig að ef allir kjósendur tiltekins flokks í tilteknu kjördæmi eru sammála um að gera tilteknar breytingar þá geta þeir snúið listanum á haus. Það er einfaldlega þannig ef þeir taka sig saman um það.

Með þessum breytingum er hins vegar verið að auka vægi kjósenda í þeim skilningi að ekki þarf jafnmikið til til að breyta listanum. Það er kannski þetta, virðulegi forseti, sem ég vil koma á framfæri, að flokkarnir geta eftir sem áður ákveðið að hafa sinn lista óraðaðan eða boðið upp á þennan valkost. Þetta er einungis möguleiki á að færa aukið vald til kjósenda. Og þegar af þeirri ástæðu, af því að hv. þingmaður talaði um að það væri álitaefni hvort þyrfti aukinn meiri hluta í þinginu eða ekki, þá er staðreyndin sú að 82. gr. heimilar breytingar og jafnvel miklar breytingar. Hér er því ekki um að ræða neina eðlisbreytingu á lögunum. Lögin kveða einnig skýrt á um það hvenær þarf samþykki tveggja þriðju hluta í þinginu. Það eru, ef ég man rétt, ákvæði 106. og 107. gr. og ekki önnur. Hér er verið að breyta ákvæðum 82. gr., samanber 110. gr. Því tel ég alveg fráleita hugmynd, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að hér þurfi samþykki tveggja þriðju hluta þingmanna.



[18:24]
Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Frú forseti. Það má vel vera að hv. þingmaður hafi þá skoðun að lögin um kosningar séu stjórnarskránni æðri og af því að það stendur í kosningalögunum að þetta eigi bara við 108. gr. og 106. gr. þá komi 110. gr. ekki til álita hvað varðar þetta ákvæði í stjórnarskránni. Þessar greinar eru allar í sama kaflanum og kaflinn heitir Úthlutun þingsæta. Það er verið að tala um það í stjórnarskránni að ekki megi breyta ákvæðum um úthlutun þingsæta nema með tveimur þriðju atkvæða á Alþingi.

Ég ætla ekki að blanda mér í þann lögfræðilega ágreining. Ég vek bara athygli á að hann er til staðar vegna þess að hér liggur fyrir vel rökstutt lögfræðiálit um það að menn væru að kalla yfir sig vafamál sem er fullkomlega ástæðulaust við núverandi aðstæður. Það er ekki eins og nauðsyn brjóti lög í þessu efni að það sé einhver slík nauðsyn sem kalli á þetta.

En varðandi það hvort þetta sé mikil eða lítil breyting þá er náttúrlega aðalatriðið það, samanber þau tilmæli sem ég hef vitnað til utan lands frá, að þegar ferlið er komið í gang þá eiga menn réttmætar væntingar, eins og lögfræðingar kalla það, til þess að reglum verði ekki breytt. Það er nákvæmlega það sem er, það er margt fólk að gefa kost á sér í prófkjör í öllum flokkunum og gerir sér þar með væntingar og vonir um að ná ákveðnum sætum en auðvitað á grundvelli þeirra reglna sem gilda um kosningarnar í dag. En það væri, held ég, mjög óeðlilegt gagnvart slíkum aðilum að ætla núna að segja að prófkjörið skipti engu máli, það verði bara raðað upp á nýtt á kjördag o.s.frv. Menn ganga til þessa leiks á grundvelli ákveðinna reglna, menn vita hvernig kosningalögin eru gagnvart útstrikunum og þess háttar en eiga væntingar um annað og þær eru réttmætar.



[18:26]
Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega geta flokkarnir nýtt sér þau prófkjör sem nú fara fram. Ef þeir ákveða að hafa raðaða lista þá geta þeir nýtt sér þessi prófkjör, ef þeir ákveða annað geta þeir ákveðið með prófkjörum hverjir það eru sem komast í kassann á kjördag.

Hins vegar vildi ég nefna þetta: Ef sú skoðun hv. þingmanns að breyting á 82. gr. feli í sér að það kalli á tvo þriðju hluta, þá er staðreyndin sú að núgildandi lög fara þá væntanlega gegn stjórnarskrá vegna þess að m.a. í síðustu kosningum voru tveir hv. þingmenn sem urðu þó þingmenn færðir niður á grundvelli þess sem gerist samkvæmt 82. gr. Í því felst breyting en það var engin krafa (Forseti hringir.) gerð um það þá að það þyrfti tvo þriðju til að samþykkja það.



[18:28]
Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að þingmaðurinn sé að tala um það sem á að tala hér um. Það stendur í stjórnarskrárákvæðinu að ekki megi gera breytingu á því sem kallað tilhögun á úthlutun þingsæta sem fyrir er mælt í lögum nema að aukinn meiri hluti alþingismanna samþykki það. Og álitamálið er þá hvort 110. gr., sem er náttúrlega meginefni þessa frumvarps, falli undir þetta ákvæði í stjórnarskránni eða ekki. Það er það sem menn greinir á um og þar er vafinn. Það hefur ekkert að gera með breytingar sem voru gerðar síðast. Það hefur ekkert að gera með lögin eins og þau eru núna eða síðustu þingkosningar. Það hefur bara með það að gera hvort þurfi tvo þriðju þingmanna til að gera breytingar á 110. gr. kosningalaga, samanber þetta ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er risinn upp vafi, það er risinn upp lögfræðilegur ágreiningur. Því skyldum við kalla slíkt yfir okkur eins og nú standa sakir?



[18:29]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Geir H. Haarde var að vitna í Feneyjanefnd Evrópuráðsins og ÖSE að það sé óæskilegt að breyta kosningalöggjöf skömmu fyrir kosningar. Það eru alveg rök fyrir því og mjög eðlileg rök, hvar er byrjað o.s.frv. og menn verða að hafa einhvern aðdraganda að reglunum sem þeir spila eftir.

En mig langar til að inna hv. þingmann eftir því hvort sú leið sem hér er valin, að bjóða upp á þetta val, hvort hv. þingmaður telji að það komi að hluta til til móts við þessi sjónarmið. Af því að þá geta flokkarnir valið að vera í óbreyttu kerfi, að gera engar breytingar, og þeir sem vilja gera breytingar hjá sjálfum sér, þeir flokkar bjóði upp á óraðaða lista. Telur hv. þingmaður að þetta komi til móts við þær ábendingar að það eigi ekki að breyta kosningalögum stuttu fyrir kosningar? Maður mundi alveg fallast á þau rök ef verið væri að breyta algjörlega um kerfi. Ef allir þyrftu að ganga inn í nýtt kerfi þegar ferlið er hafið væri það mjög óeðlilegt.

Svo vil ég líka spyrja hv. þingmann út í þetta kerfi yfirleitt, að geta valið, ef það yrði nýja kerfið. Segjum að það yrði samþykkt hérna eða væri til umræðu á miðju kjörtímabili, segjum það. Hefur hv. þingmaður skoðun á því hvort það að flokkarnir geti valið yfirleitt sé rétt eða rangt?

Í Danmörku geta flokkarnir valið óraðaðan lista eða raðaðan. Þar er þetta val. En það hafa líka komið fram sjónarmið um að eðlilegt væri að það sama gilti um öll framboð. Annaðhvort væru allir með óraðað eða allir með raðað. Hefur hv. þingmaður skoðun á þessu? Og ég bendi á að ég ímynda mér þá að slík umræða færi fram á miðju kjörtímabili en ekki rétt fyrir kosningar.



[18:31]
Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrsta spurningin var þessi: Er ekki skárra að menn geti valið um þetta og flokkar sem vilja geti þá haldið sín prófkjör? Jú, það má segja að það sé skárra en það er bara svo ruglingslegt fyrir kjósandann þó að það standi í frumvarpinu að það eigi að merkja listana raðaður listi og óraðaður listi. Ég held að við verðum a.m.k. að reyna að prófa þetta einhvers staðar í sveitarstjórnum áður en farið er alla leið með svona mál. Við höfum ekki sömu hefðir í þessum efnum, sömu venjur og t.d. í nálægum löndum, svo sem í Danmörku þar sem svona persónukjör er, þar sem er gríðarlega flókið kosningakerfi, þar sem sum nöfn eru feitletruð á framboðslistum, þar sem sumir raða nöfnum í stafrófsröð og aðrir ekki, aðrir í þeirri röð sem flokksforustan telur að sé hin rétta o.s.frv. Ég held að við eigum að halda okkur við það sem er minnst ruglandi í þessum efnum.

Svo er líka að því að huga, ef við erum að tala um eitthvað sem gerist á miðju kjörtímabili, að það er allt í lagi og sjálfsagt mál að breyta kosningalögum á miðju kjörtímabili sem koma þá til framkvæmda kannski tveimur árum seinna því að þá hafa allir tíma og möguleika á að laga sig að því. Það er kannski eðlilegast að gera þetta með það góðum fyrirvara. Ég er ekki að segja að þessar breytingar sem slíkar komi ekki til álita en mér finnst ekki boðlegt að koma með þær þegar flokkarnir eru komnir af stað með sinn kosningaundirbúning í formi forvala og prófkjara og allt þetta.

Því má ekki gleyma heldur að í Danmörku t.d. er fyrirkomulagið allt öðruvísi. Þar er stillt upp til framboðs löngu fyrir kosningar. Flokkarnir eru klárir í kosningar hvenær sem er vegna þess að það er hefð fyrir því að þær geti orðið hvenær sem er. Þannig er það í sumum nálægum löndum þar sem forsætisráðherrann boðar kosningar með stuttum fyrirvara og flokkarnir eru klárir í slaginn og þurfa ekki að fara í prófkjör og persónuvalið á kjördag leysir síðan úr ákveðnum vandamálum við svoleiðis aðstæður.



[18:33]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Danir ráða við að hafa þetta flókna kerfi, ég veit ekki til þess að þar séu miklu fleiri atkvæði ógild en ég hef reyndar ekki skoðað það sérstaklega og ekki heyrt af því. En ég vil ítreka seinni spurningu mína og set þetta í ímyndað dæmi. Ef við erum að ræða þetta mál á miðju kjörtímabili — ég vil ekki fá svör um að þetta séu léleg vinnubrögð, allt of seint o.s.frv. — telur hv. þingmaður að hugmyndin um að flokkar geti valið sé óheppileg, hún sé bara of ruglandi yfirleitt? Mundi hv. þingmaður vera því andsnúinn að styðja svona mál þar sem þetta val væri í boði ef sú umræða færi fram á miðju kjörtímabili?



[18:34]
Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mig hafa svarað þessari spurningu í ræðu minni áðan. Ég er ekki andvígur svona breytingum í sjálfu sér en ég tel hins vegar að það þurfi að fara mjög vel yfir þær. Það fylgja því heilmiklir gallar að flytja prófkjör yfir á kjördaginn sjálfan. Menn þurfa að gera þetta upp við sig. Ég hef ekki endanlega gert það upp við mig. Ég vil ræða þetta betur en ég tel að þetta geti vel verið framkvæmanlegt ef fólk fær aðlögun og nægan tíma til að skilja hvað er í gangi, þetta þarf að gerast með talsverðum aðdraganda og almennilegri kynningu sem ekki hefur átt sér stað núna. Þetta mál dúkkar allt í einu upp í stjórnarsáttmála nýrrar minnihlutastjórnar. Hún er að reyna að knýja fram alls kyns mál þó að hún sé í minni hluta í þinginu og þetta mál var aldrei rætt í fyrri ríkisstjórn. Það kom mér satt að segja mjög á óvart að þetta mál skyldi allt í einu vera orðið eitthvert stórmál hér og þess virði að taka dýrmætan tíma þingsins í það.



[18:35]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að blanda mér í þá umræðu sem hér er hafin um frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis á þskj. 622 sem er flutt af þingflokksformönnunum, hv. þingmönnum Lúðvíki Bergvinssyni, Jóni Bjarnasyni, Siv Friðleifsdóttur og Grétari Mar Jónssyni.

Þegar hefur farið fram nokkur umræða um ýmis grundvallaratriði sem tengjast þessu máli. Í framsögu sinni með málinu gerði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins þannig að ég ætla út af fyrir sig ekki að endurtaka þau en velta upp nokkrum sjónarmiðum sem þegar hafa komið fram og eru að sjálfsögðu álitamál í þessu efni.

Í fyrsta lagi hafa menn staldrað við tímasetningu þessa frumvarps og velt því fyrir sér hvort skynsamlegt sé að koma með frumvarp til laga um breytingu á kosningalögum svo skömmu fyrir kosningar eins og raun ber vitni. Það er skoðun mín, og ég get að því leyti tekið undir með hv. þm. Geir H. Haarde, að það sé almennt skynsamlegt að fjalla um breytingar á kosningalögum í nokkurri fjarlægð frá kosningunum sjálfum. Það er betra að setja vissa fjarlægð á milli umræðunnar um fyrirkomulag og tilhögun kosningalaganna og síðan kosninganna sjálfra. Að því leyti til eru ábendingar sem hv. þm. Geir H. Haarde hefur vísað til og koma m.a. frá ÖSE og Evrópuráðinu og ég hef skoðað auðvitað ekkert óeðlilegar í sjálfu sér.

Hins vegar verður líka að líta til þess að við höfum verið í nokkuð óvenjulegum aðstæðum í vetur í íslensku samfélagi. Það hefur verið mikill órói í samfélaginu og það hefur skapast mikið vantraust á milli almennings í landinu og stjórnvalda. Á fjölmennum mótmælafundum í höfuðborginni og víðar um land hafa komið fram kröfur um miklar kerfisbreytingar og opnari og gagnsæjari stjórnsýslu og aukna aðkomu almennings að því hverjir verða kjörnir inn á löggjafarsamkomuna. Þetta eru vissulega óvenjulegar aðstæður sem ég held að sé óhjákvæmilegt að við tökum tillit til. Þess vegna er ekki að undra þegar ríkisstjórnin var mynduð um mánaðamótin janúar/febrúar að þetta væri eitt af þeim atriðum sem ríkisstjórnarflokkarnir settu inn í verkefnaskrá sína að þeir vildu beita sér fyrir. Það var svar við mjög þungri og háværri kröfu úti í samfélaginu og sem ég held að við öll í hjarta okkar séum sammála, að það eigi að gefa kjósendum kost á að hafa meira að segja um það hvaða einstaklingar ná kjöri úr þeim flokkum sem viðkomandi kýs að greiða atkvæði sitt. Við erum að mæta því með þessu frumvarpi. Þess vegna lít ég á tímasetningu frumvarpsins svolítið í því ljósi og tel að það séu rök fyrir því að koma með málið inn á þessum tímapunkti í aðdraganda næstu kosninga og það sé brýnt að við fjöllum um það og freistum þess að ná því fram að það geti orðið að lögum fyrir þær alþingiskosningar sem núna fara í hönd.

Það breytir ekki því að vissulega eru ýmis álitamál í frumvarpinu og það er reyndar í greinargerðinni með frumvarpinu sjálfu gerð grein fyrir þeim álitamálum sem komu upp og þarf að ræða og fjalla um og það hlýtur að vera verkefni þingsins og þeirrar þingnefndar sem fær málið til meðferðar að fara í saumana á þeim álitamálum og móta sér skoðanir á þeim og vonandi komast að einhverri góðri niðurstöðu um það hvernig frumvarpið verður síðan best afgreitt og gert að lögum. Ég ætla að nefna nokkur af þessum álitamálum.

Í fyrsta lagi er spurningin um valkvætt fyrirkomulag. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að framboð geti valið um hvort það stillir upp sínum framboðslista óröðuðum eins og það er kallað eða röðuðum. Með röðuðum framboðslista er gert ráð fyrir ámóta eða áþekku fyrirkomulagi og gerist í dag, að flokkur eða framboðsaðili ákveði röðunina á framboðslistanum fyrir fram og það er ekki hægt að gera miklar breytingar á þeim, þ.e. þær breytingar sem kosningalögin eins og þau eru í dag heimila, útstrikanir og endurröðun sem vissulega hefur lítið vægi í gildandi kosningalögum. Hins vegar er óraðaður listi, sem er hugsanlega settur upp í stafrófsröð og hlutað til um fyrsta staf eða bara raðaður í stafrófsröð eins og landsmenn kunna stafrófið flestir og síðan sé númerað og það sé alfarið sú númering sem kjósendur gera sem ræður því hvaða einstaklingar ná kjöri. Sjálfum fyndist mér heppilegra að það væri eitt fyrirkomulag sem væri látið ganga yfir alla en að það sé valkvætt. Það getur aukið á rugling og í öllu falli tel ég að ef um valkvætt fyrirkomulag er að ræða væri heppilegt að breyta líka fyrirkomulagi kjörseðlanna. Í staðinn fyrir að vera með kjörseðil þar sem allir flokkar eru nefndir á einum kjörseðli sem gæti þá verið mismunandi hvort er raðaður eða óraðaður listi þá væri skynsamlegra að fara t.d. þá leið sem er í Noregi að í kjörklefanum er bunki með kjörseðil fyrir hvern einasta framboðslista og viðkomandi tekur þann framboðslista sem hann vill kjósa, gerir á honum breytingar, setur hann í umslag og þannig fer hann í kjörkassann. Þetta er tæknilegt atriði og er ekkert úrslitaatriði í þessu. Ég nefni þetta bara sem eitt af þeim álitamálum sem þarf að fjalla um.

Í öðru lagi nefni ég fléttulistana, þ.e. hvernig við tryggjum sem jafnast hlut kynjanna í stjórnmálum inn á Alþingi. Ég hef áhyggjur af því að fyrirkomulagið með algerlega óraðaða lista geti gert okkur mjög erfitt fyrir að viðhafa einhvers konar fléttulista eða lista þar sem er jafnt hlutfall karla og kvenna og að því leyti til séum við hugsanlega að tefla í tvísýnu því starfi sem þrátt fyrir allt hefur verið unnið á undanförnum árum, og meira hjá sumum stjórnmálaflokkum en öðrum, að tryggja sem jafnast hlut beggja kynja á Alþingi. Ég mun þess vegna vilja velta því fyrir mér í vinnu nefndarinnar hvort hægt sé að taka á þessu með einhverjum hætti, t.d. í óröðuðum listum.

Hér hefur verið nefnt að með því að vera með algerlega óraðaða lista séum við að færa prófkjörin inn í kosningarnar. Þar fari þá fram keppni á milli manna alveg fram á kjördag fremur en keppni á milli stefnumála og stjórnmálaflokka. Ég held að þetta séu algerlega gild rök eða athugasemd eða álitamál, hvernig sem við viljum orða það, sem við þurfum líka að velta fyrir okkur. Hér tel ég t.d. að einhvers konar leiðbeinandi röðun af hálfu stjórnmálaflokka á listum mundi geta tekið á þessu. Hún getur líka hugsanlega tekið á vandanum varðandi fléttulistana en þá er það að mínu viti algert skilyrði að allar breytingar á slíkum leiðbeinandi röðuðum lista hafi miklu meira vægi en í núgildandi kosningakerfi.

Það hefur verið minnst á að það sé lögfræðilegt álitaefni hvort þurfi tvo þriðju meiri hluta Alþingis til að gera þær breytingar sem hér er fjallað um á lögunum þar sem verið er að tala um að það þurfi tvo þriðju meiri hluta til að gera breytingu á tilhögun á úthlutun þingsæta. Ég verð að segja alveg eins og er að ég get ekki alveg séð rökin fyrir því að þetta falli undir þá grein vegna þess að í gildandi kosningalögum er hægt að gera breytingu á tilhögun við úthlutun þingsæta. Það er hægt að gera breytingar og dæmi eru um það í sögunni að það hafa orðið breytingar, kjósendur hafa gert breytingar á úthlutun þingsæta með útstrikunum eða umröðunum og þess vegna finnst mér þetta ekki heyra undir þetta ákvæði sem hér er verið að vísa til um tvo þriðju meiri hluta Alþingis. Ég geri mér alveg grein fyrir því að menn hafa teflt fram ólíkum lögfræðilegum álitum í þessu efni en í mínum huga finnst mér að við séum ekki að gera þær breytingar hér sem eru í andstöðu við það sem er í gildandi kosningalögum hvað þetta áhrærir.

Þetta eru helstu álitamálin sem koma upp í huga minn við yfirferð á þessu máli og ég vísa til töluliðar í greinargerð með þessu frumvarpi, tölulið IV, þar er fjallað um fleiri leiðir en frumvarpið sjálft gerir ráð fyrir, sérfræðingahópurinn sem kom að samningu þessa frumvarps. Þar getur hann um eða útlistar fleiri leiðir en frumvarpið sjálft gerir ráð fyrir og þar á meðal er þessi leið sem er einhvers konar leiðbeinandi röðun á framboðslista, að flokkar geti fyrir fram haft forval eða prófkjör og raðað upp sínum listum, komið með það sem leiðbeinandi röðum og þá er ekki vandamálið hver á að vera talsmaður listans, eins og hv. þm. Geir Haarde gerði að sérstöku vandræðamáli í ræðu sinni áðan. Þá er hægt að taka tillit til sjónarmiða sem framboðsaðilar kunna að vilja hafa eins og um fléttulista milli kynja eða taka tillit til sjónarmiða innan stórra landsbyggðakjördæma um að hafa fulltrúa frá ólíkum svæðum o.s.frv. Mér finnst þó algert lykilatriði við slíka útfærslu að allar breytingar hafi verulegt vægi þannig að röðunin við þá útfærslu sem hér er fjallað um í greinargerð, þessi leiðbeinandi röðun hafi ekkert óskaplega mikið vægi í sjálfu sér, kannski þriðjung eða eitthvað þess háttar, hlutföllin 2:1 eru nefnd í greinargerðinni sem möguleg. Það má hugsanlega hugsa sér eitthvað annað í því efni, þannig að kjósandinn hafi verulega mikil áhrif á það hvernig listinn lítur endanlega út með því að númera á listann 1, 2, 3, 4 upp á nýtt. Þetta finnst mér vel fær leið og ég mundi alla vega vilja að allsherjarnefnd skoðaði hana sérstaklega, hugsanlega sem viðbótarleið inn í frumvarpið eins og það er lagt fram. Það er reyndar gerð grein fyrir því hér að þá værum við komin mjög nálægt danska kerfinu og mér finnst alveg mögulegt að skoða það, eða þá að þessi leið kæmi í stað annarrar þeirrar leiða sem gerð er grein fyrir í frumvarpinu eða jafnvel beggja ef menn vilja fara þá leið að það sé bara ein regla sem gildir fyrir alla sem mér finnst líka alveg koma til álita og mundi að mörgu leyti vera einfaldari í framkvæmd en að bjóða upp á ólíkar leiðir. Það er visst flækjustig í því gagnvart kjósendum, það er ekki hægt að neita því. En þetta eru samt sem áður leiðir sem eru þekktar annars staðar og því ættum við ekki að geta gert það eins og nágrannaþjóðirnar og ráðið við það. Ég hef ekki stórar áhyggjur af því.

Þetta eru svona helstu álitamálin, frú forseti, sem koma upp í hugann þegar ég fer yfir þetta mál. Mér finnst mikilvægt að við tökum þetta frumvarp til efnislegrar umfjöllunar bæði í þinginu og í nefnd. Mér finnst sjálfum mjög mikilvægt og spennandi að geta náð fram breytingum á kosningalögum sem auka möguleika kjósenda til að hafa áhrif á röð frambjóðenda eða hverjir ná kjöri af þeim listum sem viðkomandi kýs að kjósa en ég neita því ekki að það eru nokkur álitamál sem ég mundi vilja fara yfir betur og fá sérfræðinga á fund nefndarinnar til að velta upp ólíkum hliðum á þessum álitamálum. Ég vonast að sjálfsögðu til að þetta mál fái framgang fyrir kosningar og áður en þing lýkur störfum þannig að þær breytingar sem þingið kemur sér saman um að gera á kosningalögum taki gildi við þær kosningar sem nú fara í hönd.



[18:49]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir málefnalega ræðu þar sem hann kom víða við. Mér fannst flest í málflutningi hans gagnlegt og gott þó að ég sé ósammála þeirri niðurstöðu hans að rétt sé að ljúka þessum breytingum fyrir kosningarnar í vor.

Ég vil nefna nokkur atriði sem hann vék að í máli sínu. Í fyrsta lagi vil ég lýsa andstæðri skoðun við mat hans á því hvort tvo þriðju eða einfaldan meiri hluta þingmanna þyrfti til að koma breytingunum í gegn. Ég get komið nánar að því síðar í þessari umræðu en eftir lestur kosningalaga og stjórnarskrárákvæða er það mín niðurstaða að tveggja þriðju sé þörf í þessu tilviki. En það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefndi að fyrir liggja mismunandi álit færra lögfræðinga á þessu atriði og mikilvægt að að þessu verði hugað í nefndinni, eins og reyndar þeim fjölmörgu álitamálum sem hann gat um og ég get tekið undir. Ég held að bæta mætti við listann um álitamálin sem hv. þingmaður nefndi en þau eru vissulega fyrir hendi og krefjast þess að málið fái ítarlega umfjöllun í nefnd.

Ég vil undirstrika að öll þau álitamál sem eru uppi í þessu máli og eins þær mismunandi hugmyndir sem eru í gangi í þjóðfélaginu um útfærslu persónukjörs sýna okkur einfaldlega fram á að við erum ekki stödd á þeim tímapunkti, málið er ekki nægilega þroskað til að rétt sé að klára það fyrir kosningar í vor. (Forseti hringir.) Það er mín grundvallarafstaða í málinu.



[18:52]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Sú er hér stendur er einn meðflutningsmanna þessa máls sem við ræðum og ég ætla ekki að fara mikið út í frumvarpið lið fyrir lið, það gerði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson ágætlega í framsögu sinni. Þetta mál, aukið persónukjör, gengur að sjálfsögðu út á það að færa meira vald til fólksins og minnka flokksræðið þeim mun meira, ef svo má að orði komast. Við höfum verið að skoða þessi mál sérstaklega í Framsóknarflokknum og ég vil minna á að við samþykktum á flokksþingi okkar ályktun um að frumvarp um stjórnlagaþing yrði flutt hér í þinginu og það höfum við gert. Það er einmitt í sama anda, við viljum fá fólkinu meira vald og að valdið verði að einhverju leyti tekið úr höndum þingsins t.d. þegar þarf að semja nýja stjórnarskrá því mat okkar er að algjörlega sé útséð um að þingið og þingmenn geti farið í einhverja heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Við höfum ekki náð saman um það hingað til þannig að það er um að gera að koma því í hendurnar á stjórnlagaþingi. Mikil samstaða var um ályktunina á flokksþingi okkar og ég er mjög ánægð með viðtökurnar sem þetta mál hefur fengið hjá bæði Vinstri grænum og Samfylkingunni hér í þinginu og vona að það komist í gegn sem fyrst.

Hér erum við að tala um að auka vald fólks í kjörklefanum og áður en ég fer inn í málið langar mig að lesa upp, virðulegur forseti, þá ályktun sem Framsóknarflokkurinn samþykkti á síðasta flokksþingi en þar var ályktað sérstaklega um nýja kosningalöggjöf.

Tilvitnun hefst, með leyfi forseta:

„Ályktun um nýja kosningalöggjöf.

Markmið. Við kosningar til Alþingis og sveitarstjórna verði leitað leiða til að persónukjör og vægi kjósenda aukist við röðun á lista. Jafnframt verði reynt að skapa meiri tengsl milli kjörinna fulltrúa og kjósenda. Leitast verði við að tryggja sem jafnast vægi atkvæða á landsvísu.

Leiðir. Frambjóðendum hvers lista skal einungis raðað eftir stafrófsröð á kjörseðil.

Kjósendur raði fulltrúum á lista og kjósi þannig viðkomandi lista.

Fyrstu skref. Framsóknarflokkurinn beiti sér fyrir því að Alþingi setji af stað vinnu við að breyta kosningalögunum sem hafi þessi markmið að leiðarljósi.“

Því er alveg klárt að Framsóknarflokkurinn vill innleiða persónukjör og að það persónukjör fari fram í kjörklefanum. Sá vandi sem okkur er á höndum nú er að við erum að ræða þessi mál mjög skömmu fyrir kosningar og sú gagnrýni sem hefur komið fram á það er alveg réttmæt. Við teljum hins vegar að í ljósi þess að frumvarpið gerir ráð fyrir því að hægt sé að velja persónukjörið en líka að sleppa því og velja óbreytta leið sé ásættanlegt að skoða þetta mál betur hér í þinginu og flytja það fram og skoða vel í nefnd.

Málið er ágætlega unnið og það hefur Þorkell Helgason stærðfræðingur gert og mætir menn með honum, Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður, Eiríkur Tómasson prófessor og Gunnar Helgi Kristinsson prófessor og frumvarpið byggir á þeirri vinnu.

Í greinargerð frumvarpsins er dregið fram að mjög misjafnt er hvernig þetta er á milli landa. Persónukjör hefur mjög mikið vægi í Finnlandi, í Danmörku og Svíþjóð er aðeins veikari útgáfa og á Íslandi og í Noregi eru svokallaðir lokaðir flokkslistar, þannig að Norðurlöndin hafa valið mjög misjafnar leiðir.

Það er líka athyglisvert, sem fram kemur í greinargerðinni, að þegar Svíar breyttu lögunum og juku vægi persónukjörs dró úr áhuganum á að nýta sér það þannig að Svíar nýttu það minna og minna á milli kosninga. Það kom mér svolítið á óvart þegar ég kynnti mér það. Ég hélt að kjósendur mundu hafa meiri og meiri áhuga á persónukjörinu en það var ekki þannig í Svíþjóð. Þróunin í Danmörku var í hina áttina, þar óx þátttaka kjósenda í vali á frambjóðendum, allt frá 1990 hefur helmingur kjósenda nýtt sér þennan rétt þannig að mjög skrýtið er hversu ólík þróunin hefur verið milli Norðurlandaþjóðanna. Svíar misstu áhugann á milli kosninga en Danir fengu meiri og meiri áhuga á persónukjörinu. Ómögulegt er að segja hvernig það yrði hjá okkur.

Virðulegur forseti. Ég var nýlega á opnum borgarafundi Samstöðu um persónukjör sem haldinn var í Iðnó. Hann var merkilegur fyrir þær sakir að þar kom fram mjög mikil gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn varðandi þetta mál og að sumu leyti fannst mér sú gagnrýni ganga of langt. Ég benti þar á og ætla líka að gera það hér að þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki nú með húrrahróp yfir þessu máli hefur hann samt kannski gengið lengst flokkanna í prófkjörum, oft verið með opin prófkjör, sem er auðvitað eitt form af persónukjöri. Því er ekki hægt að líta á þessi mál frá einni hlið og ég vildi halda þessu til haga af því að nú hafa flokkarnir meira og minna ákveðið að fara í prófkjör fyrir þær kosningar, sem fram undan eru. Að vísu fæstir í opin prófkjör og ég er ekki viss um að nokkur hafi valið beint opið prófkjör heldur prófkjör þar sem flokksbundnir félagar taka þátt, en það er form af persónukjöri.

Við framsóknarmenn viljum gjarnan ganga lengra og færa persónukjörið úr flokkunum og inn í kjörklefann. Það eru samt líka gallar við það og það get ég alveg sagt þó að Framsóknarflokkurinn sé fylgjandi því og ég líka. Þingmenn í Finnlandi, sem hafa rætt persónukjörið sem þar er, hafa bent á að erfitt sé að henda reiður á kynjahlutfallinu. Þó að Finnar hafi verið mjög duglegir að koma konum inn á þingið hefur tilhneigingin verið sú að frægt fjölmiðlafólk, frægir íþróttakappar o.s.frv. hafa átt auðveldara með að komast að í persónukjöri því að það er fólk sem almenningur þekkir meira og kýs á listum flokkanna. Öðruvísi val fer væntanlega fram þegar persónukjörið fer inn í kjörklefana.

Af því að nú eru flokkarnir flestir komnir af stað í prófkjör vil ég taka upp eitt mál í þessari umræðu og það er sænska kerfið. Færa má rök fyrir því að óréttmætt sé að láta alla þingmenn fara í gegnum prófkjör sem svo eigi ekki að hafa neitt vægi heldur væru listarnir óraðaðir og með því væri verið að gefa prófkjörunum, sem eru í gangi, langt nef. Þess vegna velti ég fyrir mér sænsku leiðinni og ég heyrði að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson var kannski á svipuðum slóðum og ég í þessu, hvort til álita komi í allsherjarnefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, að skoða aðeins sænsku leiðina. Hún er þannig að þá hafa flokkarnir möguleika á að færa inn raðaða lista, sem koma þá væntanlega úr prófkjörum eða með einhverjum hætti úr flokkakerfinu, og síðan hafi kjósendur mun meira val en þeir hafa í dag á Íslandi gagnvart því að breyta þeirri röðun í kjörklefanum.

Í Svíþjóð er það t.d. þannig að ef 8% kjósenda setja einhvern einstakling á röðunarlista í 1. sæti eða krossa við hann þannig að hann fái sem mest vægi færist hann upp á listanum. Nú velta Svíar því fyrir sér að gera þetta kerfi enn þá kvikara, af því að þeir finna að minnkandi áhugi er á persónukjöri, væntanlega af því að fólk telur sig ekki hafa nógu mikil áhrif svona, og eru að velta því fyrir sér að færa þröskuldinn niður í 5%, þannig að einungis 5% kjósenda þurfi að kjósa viðkomandi aðila til að hann færist upp listann.

Ég vil líka koma að einu atriði í viðbót að og verð að viðurkenna það, hæstv. forseti, að þetta val truflar mig svolítið, þó að ég styðji þetta frumvarp og telji að valið sé af hinu góða í stöðunni sem erum nú í af því að prófkjörin eru byrjuð o.s.frv. Við skulum taka ímyndað dæmi um að einhverjir flokkar velji að hafa raðaða lista og vera í gamla kerfinu en aðrir velji óraðaða lista og fara inn í nýja kerfið. Þá spyr ég mig: Mun það valda því að kjósendur, sem eru væntanlega nýjungagjarnir — hver er ekki nýjungagjarn? Það eru mjög margir nýjungagjarnir — kjósi flokka sem bjóða upp á óraðaðan lista bara til þess að prófa það, bara til þess að fá þá tilfinningu, jafnvel flokk sem þeir hafa kannski ekkert sérstaklega mikinn áhuga á og mundu ekki kjósa ef allir listarnir væru óraðaðir eða allir listarnir væru raðaðir. Að þeir kysu viðkomandi lista bara af því að hann byði upp á þetta val. Þetta truflar mig svolítið, ég verð að viðurkenna það.

Á sama tíma eru til mótrök gagnvart því sem ég er að segja hér, virðulegur forseti, sem er danska kerfið. Í Danmörku er alltaf boðið upp á þetta val, þannig að þeir sem eru nýjungagjarnir geta valið þá flokka sem bjóða upp á valið.

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu er það rétt sem hér kom fram hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni og hjá hv. þm. Geir H. Haarde, að þægilegast væri og skýrast ef löggjöfin væri eins einföld og hægt er að hafa hana og það sama gengi yfir alla flokka, það væri svona þægilegast. En í þeirri stöðu sem við erum tel ég eðlilegt að við bjóðum upp á þetta val og látum á það reyna hvort þingið vill ganga alla leið í því og samþykkja frumvarpið sem hér liggur fyrir.

Deilur hafa komið upp um lögfræðileg atriði, hvort þurfi tvo þriðju þingmanna til að samþykkja þetta mál til að það verði að veruleika. Ef það er reyndin — og ég tel að við þurfum að skoða þetta í nefnd, ekki ætla ég að kveða upp úr um það hér og nú hver hefur rétt fyrir sér í því — að einn þriðji þingsins geti stoppað málið af er málið væntanlega fallið af því að ég heyri að einn þingflokkur hér er ekki sáttur við málið, þannig að þá mundi það væntanlega ekki ná fram að ganga.

Svo vil ég að lokum, virðulegur forseti, nefna það, af því að ég nefndi hér áðan fundinn sem Samstaða um persónukjör hélt, að þar gaf hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon — það var svo merkilegt að viðkomandi hæstv. ráðherra skyldi þora að gera það — tölulegt gildi á líkunum á því hvort málið færi í gegn eða ekki. Hæstv. ráðherra sagði að hann teldi 60% líkur á að málið færi í gegn. Ég ætla ekki að kveða upp úr um hvort það er rétt tala eða ekki en ég get svo sem nefnt sömu tölu, en við verðum að sjá hvernig þetta fer.

Kannski erum við alþingismenn ekki réttasta fólkið til þess að fjalla um þetta mál yfirleitt. Við erum alltaf svo upptekin af eigin stöðu, eins og er kannski bara mannlegt, og alveg er hægt að færa rök fyrir því að stjórnlagaþing, sem er fjær þessum daglega vettvangi sem stjórnmálamennirnir sjálfir eru á, ætti einmitt að fjalla um svona mál þannig að ef þetta mál fer ekki í gegn núna tel ég að það ætti að taka það fyrir á stjórnlagaþingi og stjórnlagaþingið ætti að koma með tillögur í þessum efnum af því að þar verða aðilar sem eru ekki uppteknir af eigin stöðu. Þar munu ekki verða neinir þingmenn, engir ráðherrar og ekki dómarar, alla vega samkvæmt því frumvarpi sem við höfum flutt, það væri kjörinn vettvangur til að skera úr um þetta, ef okkur tekst ekki að klára þetta nú hér í þinginu.



[19:05]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða hér í dag breytingar á kosningalögum og málið er borið fram af þingflokksformönnum stjórnarflokkanna og Framsóknarflokks og Frjálslyndra. Ég verð að játa að mér finnst þetta virðingarleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart kosningaferlinu og kosningalöggjöfinni mjög undarlegt. Hér hlaupa menn til á síðustu stundu og ætla sér að henda í gegnum þingið með hraði breytingu á fyrirkomulagi kosninga eftir að boðað hefur verið til þeirra, þó að sú kynning hafi raunar enn sem komið er aðeins verið í fjölmiðlum. Ég hlýt að gera alvarlegar athugasemdir við svona verklag.

Hæstv. forseti. Það mátti heyra á máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að þau eru sannarlega ekki sannfærð um efni málsins. (SF: Ég er flutningsmaður.) Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir tekur fram að hún sé flutningsmaður (Gripið fram í.) en það mátti líka heyra á máli hennar þar sem hún rakti mörg atriði sem hún hefur ekki sannfæringu fyrir í frumvarpinu. Því hlýt ég að spyrja: Hvers vegna leggja menn svona mikið á sig við að leggja hér fram með hraði þetta mál og ætlast til þess að lokið verði við breytingu á kosningalögum á þessum skamma tíma fyrir boðaðan kjördag?

Eins og mátti heyra á máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur hefur hún allar þessar efasemdir og hún gaf sér það í rauninni að Sjálfstæðisflokkurinn mundi stoppa málið fyrir flutningsmenn þannig að þeir þyrftu ekki að standa við málið þegar upp yrði staðið. Hún taldi töluleg rök frá ekki ómerkari manni en fjármálaráðherra, held ég að hún hafi nefnt, um að þetta ætti að skoða og athuga en ekki væru nokkrar líkur á að þetta færi í gegn vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að stoppa málið. Ég ætla ekki að fullyrða að við björgum hv. þingmanni þannig úr snörunni með þetta mál sem hún hefur enga sannfæringu fyrir.

Hæstv. forseti. Það er grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi að stjórnvöld geti ekki breytt leikreglum eftir að blásið hefur verið til kosninga, að ríkjandi flokkur geti ekki boðað til kosninga einn daginn og síðan breytt þeim forsendum sem flokkum er ætlað að vinna eftir þann næsta. Það er grundvallaratriði sem við verðum að horfa til.

Forsætisráðherra hefur komið því á framfæri í gegnum fjölmiðla að hér verði kosið til þings 25. apríl. Út frá þeirri forsendu hafa flokkarnir gengið og eru nú í óðaönn við að skipa framboðslista sína og undirbúa kosningabaráttu miðað við gildandi kosningalöggjöf. Það ferli er langt komið víðast hvar og þá kemur ríkisstjórnin fram með mál sem setur þetta allt saman á annan endann. Það þýðir ekkert fyrir stjórnarliða að halda því fram að þessar tillögur breyti engu þar sem mönnum standi til boða tvær leiðir, annars vegar að stilla upp svokölluðum röðuðum lista og hins vegar því sem menn vilja kalla óraðaðan lista, það er um eðlisbreytingu á innihaldi kosningalaganna að ræða og það er verið að breyta fyrirkomulagi kosninganna eftir að fyrstu skrefin hafa verið tekin í átt til kosninga og þau skref stigin að boða til prófkjara og flokksfólk víða um land er auðvitað tilbúið með þá vinnu. Um það snýst þessi gagnrýni. Það er sama hvað menn reyna að snúa út úr því, þannig er þetta bara.

Það heyrist á göngum þingsins að sumir flokkar ætli sér að boða til prófkjörs og hafa nú þegar boðað til prófkjörs en ætla síðan að bjóða upp á óraðaða lista í kosningunum. Á hvaða leið eru menn þá með það fólk sem starfar í flokkunum, fólk sem leggur mikið á sig í þessari vinnu við prófkjörin og við uppröðun á listana, grasrótina í flokkunum? Hvað er verið að hrekja þetta fólk út í slíka vinnu?

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði fyrr í dag að öllum flokkum hefði verið boðið að gerast meðflutningsmenn að þessu frumvarpi. Það er í sjálfu sér alveg rétt hjá hv. þingmanni, hann kom að máli við mig hálftíma áður en frumvarpið var lagt fram á Alþingi og þá var mér boðið að setja nafn mitt við frumvarpið. Mér var sem sagt boðið að kvitta undir tilbúið frumvarp en ég mátti ekki hafa neinar skoðanir á því. Ég mátti ekki leggja fram einhverjar tillögur til breytingar á því. Mér var sem sagt ekki boðið að koma að undirbúningnum og hafði enga möguleika á því að hafa áhrif á efnistök þess, sem ég reikna með að flutningsmenn frumvarpsins hafi haft tök á, hafi lagt í þá vinnu sem tilheyrir því að flytja frumvarp á Alþingi. Það er sem sagt samráðið sem var haft um málið.

Hingað til hefur verið venjan að hafa samráð á milli flokkanna þegar kemur að því að breyta kosningalöggjöfinni. Það er nauðsynlegt, kosningalöggjöfin er þess eðlis að þar verður að hafa ríkt samráð. Flokkarnir verða að hafa samráð sín á milli og efna til ítarlegrar og vandaðrar umræðu um slík mál, ekki bara í þinginu heldur í samfélaginu öllu. Þessi umræða hefur ekki farið fram, samráðið er ekkert. Fólkið í landinu hefur ekki fengið að átta sig á efni þessa máls og það á að fara að kjósa eftir mánuð, eða rúmlega það.

Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð en það er reyndar í takt við svo margt annað sem þessi minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur staðið fyrir. Samráð við stjórnarandstöðuna um stærri mál þekkjast ekki í orðabókum þeirra. Hér þarf allt að gerast með miklu hraði og vönduð vinnubrögð eru aukaatriði, það höfum við orðið vör við á þeim dögum sem ríkisstjórnin hefur setið.

Forgangsröðunin hjá ríkisstjórninni er einkennileg. Ofurkapp hefur verið lagt á stjórnkerfisbreytingar en brýnustu verkefnin í samfélaginu mega sem sagt bíða. Ég spyr: Væri ekki nær að eyða dýrmætum tíma þingsins fram til kosninga í að ræða um og vinna að brýnum málum vegna stöðu heimila og fyrirtækja í landinu? Við hljótum að geta spurt þeirrar spurningar þegar margt brennur á hér í efnahagslífinu. Mega stjórnkerfisbreytingar ekki bíða fram yfir kosningar þannig að að þeim megi vinna með vönduðum hætti og sem víðtækastri sátt? Þetta eru grundvallarspurningar.

Hæstv. forseti. Nokkur praktísk atriði koma upp í hugann við lestur frumvarpsins umfram þessi atriði sem ég hef nú þegar nefnt og snerta slælegan undirbúning þess. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og Árni Þór Sigurðsson fóru yfir mörg þessara atriða og nefndu m.a. kynjahlutföllin og mörg önnur atriði sem þyrfti sérstaklega að skoða hvernig ætti að vinna að — og ég tek undir það. Þetta er eitt af því sem ég held að jafnréttissinnar í allsherjarnefnd hljóti að skoða mjög vandlega þegar farið verður yfir málið þar.

Fyrir það fyrsta tel ég það nokkrum vandkvæðum bundið að með því að bjóða fram óraðaðan lista sé enginn einn einstaklingur í fyrirsvari fyrir framboðið. Eða felst það ekki í því að stjórnmálaflokkarnir raði ekki sjálfir sínu fólki í þá röð sem flokksmenn vilja sjá þá, er það ekki spurningin? Ætla menn kannski að velja framboðinu oddvita sem kemur fram fyrir framboðið í fjölmiðlum og veita honum þannig ákveðið forskot á aðra félaga sína á listanum sem keppast um þingsætin? Þetta hýtur að vera grundvallarspurning. Sjálf hef ég tekið þátt í prófkjöri þar sem keppt var um forustusæti og ég átta mig ekki á því hvernig hefði átt að velja milli þeirra sem forustumann lista til að taka þátt í umræðum og slíku áður en hann hefur verið valinn.

Eins og ég skil málið gefst flokkunum samkvæmt frumvarpinu tækifæri til að velja á milli þess að bjóða fram lista eins og venjan hefur verið undanfarið — og það er að flokksstofnanir viðkomandi stjórnmálaflokks velji þá frambjóðendur sem flokksmenn vilja að séu í framboði í nafni flokksins — og þess að þeir senda frá sér nafnalista og velta því ferli yfir á kjósendur. Það liggur þá í hlutarins eðli að frambjóðendur þeirra samtaka sem bjóða fram óraðaðan lista verða að fá álíka rúman tíma til að kynna sig fyrir kjósendum, hvort sem það er á framboðsfundum eða í fjölmiðlum. Ég sé fyrir mér að í mínu kjördæmi þyrfti margt að breytast. Framboðsfundir mundu missa sjarmann enda gagnlegt fyrir kjósendur að geta mætt á fundi í heimabyggð sinni og hlustað á fulltrúa allra framboða flytja mál sitt og svara fyrirspurnum, það er það form sem við höfum haft. Slíkar samkomur yrðu nær óhugsandi ef þar ættu að mæta sex eða sjö sinnum, sem sagt listafjöldinn, 20 manns til að koma sér og sínum málefnum á framfæri. Hvernig á þetta að gerast?

Við vitum hvernig prófkjörsbaráttan er, við höfum dæmin allt í kringum okkur í dag. Hún er á margan hátt annars eðlis en við eigum að venjast úr kosningabaráttu vegna alþingiskosninga þar sem einstaklingar sameinast um tiltekin stefnumál sem eru lögð fram fyrir kjósendur. Þetta hlýtur allt að koma fram í kosningabaráttunni.

Þriðja atriðið sem snýr að praktískum þáttum er samspil þessa frumvarps og laganna sem samþykkt voru 2006 um fjármál stjórnmálaflokkanna. Hvernig fara þessi lög saman, hvað á að gilda um hina óröðuðu lista? Þetta eru atriði sem ég vænti að menn muni skoða í nefnd.

Að síðustu má kannski til gamans huga að kosninganóttinni. Hún er löng en í því býr vissulega ákveðinn sjarmi. Við sem höfum farið í gegnum prófkjör þekkjum líka hversu flókin talningin er og hægfara. Talning atkvæða með hinu nýja fyrirkomulagi yrði álíka flókin og tímafrek og raunin er þegar prófkjör eru annars vegar þegar verið er að tala um óraðaðan lista. Hvernig ætla menn að snúa sér í því þegar búið er að telja atkvæði þeirra sem bjóða fram raðaða lista nokkru áður en talningu hinna óröðuðu lista yrði lokið? Ætla menn einungis að tilkynna um heildarúrslit eða hætta að tilkynna um stöðu talningar af og til allan tímann? Ætla þeir e.t.v. að halda því fyrirkomulagi áfram að birta þá heildarniðurstöðu eins framboðs tiltölulega snemma og láta hin óröðuðu framboð bíða þar til síðar? Hluti af miklum kosningaáhuga og kosningaþátttöku hér á landi er spennan sem ríkir í kringum kosningar og kosninganóttina ef svo má að orði komast.

Hæstv. forseti. Persónukjör er fallegt orð, það hljómar vel og rennur ljúflega ofan í marga. Tilfinningar flæða og lýðræðisástin fer að brenna í brjóstum margra við það eitt að heyra þetta orð. Þetta orð er þess eðlis að margir líta fram hjá þeim vandkvæðum sem felast í framkvæmdinni og skella skollaeyrum við þeim sjónarmiðum.

Ég hef rakið örfá atriði sem ég tel að gætu reynst erfið við framkvæmd kosninganna. Það eru mörg fleiri sem má hér nefna en þó skiptir mestu undirbúningur málsins og það verklag sem var viðhaft. Þetta mál held ég að ríkisstjórnin ætti að taka til baka og skoða betur. Það má geyma það fram yfir kosningar og þá er hægt að blása til samráðsvettvangs flokkanna og jafnvel fleiri aðila til að ræða málið og reyna að ná um það sátt. Það er eina færa leiðin þegar breyting á kosningafyrirkomulaginu er annars vegar. Við hlaupum ekki í gegnum svona grundvallarbreytingar á fyrirkomulaginu án vandaðrar umræðu og málsmeðferðar. (Forseti hringir.) Við erum hér að fjalla um lýðræðislegan grundvöll lýðveldisins og fyrir þeim grundvelli eigum við að bera virðingu, hæstv. forseti.



[19:21]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var svolítið sérstök ræða, verð ég að segja. Það var ekkert jákvætt við persónukjör. Það var bara allt neikvætt. Þetta var samfelld runa af neikvæðum sjónarmiðum gagnvart persónukjöri. Persónukjörið var hreinlega skotið í kaf í þessari ræðu.

Ég er svolítið hissa á því vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum tíðina verið flokka duglegastur við að vera með opið prófkjör. Þeir hafa sagt öllum að koma og veskú raða upp lista, allir eiga að koma og hafa áhrif á hann. Nú er verið að flytja persónukjörið inn í kjörklefann þannig að mér finnst engin rökvísi í þessu. Þessi ræða kom mér verulega á óvart. Hún var miklu neikvæðari gagnvart persónukjöri en ræða hv. þm. Geirs H. Haarde sem var talsmaður Sjálfstæðisflokksins hér áðan. Hann sá þó eitthvað jákvætt í þessu og vildi ræða málin.

Við framsóknarmenn sjáum mjög margt jákvætt við persónukjör og ég vil andmæla því — sem kom fram hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur — að ég hafi enga sannfæringu fyrir málinu og sé að vonast til þess að Sjálfstæðisflokkurinn reddi hinum flokkunum úr einhverri klípu eða eitthvað slíkt. Það er alls ekki þannig. Ég færði í ræðu minni rök fyrir persónukjöri og lýsti hér samþykkt Framsóknarflokksins, við viljum persónukjör.

Ég leyfði mér hins vegar að draga fram ýmsa galla á persónukjöri í heiðarlegri umræðu, mér finnst það bara eðlilegt. Nefndi t.d. að í Finnlandi hefði alls konar fólk sem er frægt í samfélaginu komist að, fólk sem hefði kannski ekki svo mikið að segja í stjórnmálum út af fyrir sig, mér finnst það galli. Ég vil mótmæla því að ég hafi ekki sannfæringu fyrir þessu máli, ég er einn af flutningsmönnum þess.



[19:23]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom mjög skýrt fram í máli mínu að ég tel að þetta eigi að ræða og hef ekki lagt neitt annað til. En ég legg til að það verði gert þegar nægur tími gefst til þess að vinna málið og fara t.d. yfir þau sjónarmið sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir dró hér upp. Þetta er mál sem virkilega þarf að leggja vinnu í og skoða hvernig best verður fyrir komið.

Ekkert verður gert á nokkrum dögum en við getum tekið vinnuna upp aftur eftir kosningar ef hv. þingmaður telur að það sé betra vinnulag að fara í gegnum einar kosningar og rekast á öll vandkvæðin sem fylgja þessu. En ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það að þarna eru mörg vandkvæði sem mjög mikil ástæða er til að skoða vandlega.

Ég var einfaldlega að meta málflutning hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur þegar ég nefndi það að á máli hennar mætti skilja að hún reiknaði með því að Sjálfstæðisflokkurinn brygði fæti fyrir málið. Það er alls ekki svo að hv. þingmaður geti treyst því, síður en svo. Því eins og hér hefur komið fram erum við fyllilega tilbúin að ræða breytingar á kosningalögunum en við höfum margendurtekið og margfarið yfir það að fullkomin ástæða er til þess að gera það mjög vandlega. Vinna það mjög vel og leysa úr þeim spurningum sem einmitt hafa komið fram í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, sem er nú flutningsmaður að málinu, og í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, sem (Forseti hringir.) er stuðningsmaður þess.



[19:25]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að maður þurfi ekkert að vera neitt svakalega snjall til þess að draga þá ályktun að Sjálfstæðisflokkurinn sé frekar mikið á móti málinu miðað við það hvernig hv. þingmenn flokksins hafa talað við þessa umræðu. Þeir tala hreinlega gegn persónukjöri, gegn þessu máli.

Talað er um að þetta komi allt of seint, þetta komi þegar leikurinn er hafinn og þetta eigi að gera síðar og megi skoða síðar. Ég held að ekki þurfi að tala til þeirrar sem hér stendur í þeim tón að hún geti ekki treyst því að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að bregða fæti fyrir málið. Ég sé ekki annað en að Sjálfstæðisflokkurinn bregði fæti fyrir málið miðað við málflutninginn. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að greiða þessu máli atkvæði sitt.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn styður málið sem ég flyt hér ásamt fleiri þingmönnum þá bara verður það samþykkt. Það er hið besta mál. (Gripið fram í.) Það yrði annaðhvort samþykkt óbreytt eins og það er flutt hér eða því verður breytt í nefnd.

Ég nefndi það í ræðu minni, og fleiri hafa gert það, að eðlilegt væri að skoða líka sænsku leiðina, þ.e. að röðun sem kemur út úr prófkjöri hjá flokkunum, eða er á einhvers konar formi hjá flokkunum, hafi einhver leiðbeinandi áhrif en að kjósendur geti samt breytt þeirri röðun með sæmilega léttum hætti, að kjósendur hafi þá áhrif á röðunina þrátt fyrir að fram komi raðaður listi. Þannig er það í Svíþjóð. Mér finnst ekkert útilokað að menn geti sameinast um það og þá standa prófkjörin, sem eru hafin, fyllilega fyrir sínu.



[19:27]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hér var talað um tón þá segi ég: Hv. þingmaður þarf ekkert að senda mér einhvern tón þó að ég hafi efasemdir um þetta mál í heild sinni og þá sérstaklega vinnubrögðin.

Ég held að í hjarta sínu sé hv. þingmaður innilega sammála því að hægt hefði verið að standa betur að þessu, m.a. hefði þurft að skoða þær hugmyndir sem hún er greinilega mjög hrifin af, sænsku leiðina — það er allt annað mál en það sem hér er flutt. Ég tel eðlilegt að við ræðum slíkar útfærslur. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það að það er mál sem endilega ætti að skoða líka.

En yfirlýsingarnar sem fylgja þessu máli eru þær að það eigi væntanlega að klárast svona. Eða eru einhverjir möguleikar á að snarbreyta málinu, fara sænsku leiðina? Í því felst mikil leiðbeining um vinnu allsherjarnefndar, sem fer væntanlega yfir málið, ef menn eru tilbúnir að ræða alla aðra möguleika en koma fram í frumvarpinu. Það hlýtur að hafa sitt að segja líka hvað varðar þann tíma sem menn ætla að taka sér í málið — ef í nefndinni á að skoða ýmsar útfærslur á kosningalöggjöfinni samfara umfjöllun um málið.

Miðað við kosningadaginn 25. apríl, sem nú hefur verið boðaður, hlýtur þetta að vera heilmikil stefnumótun fyrir allsherjarnefnd, þ.e. að hún eigi (Forseti hringir.) að fara yfir kosningalöggjöf í hinum ýmsu löndum.



[19:29]
Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu hv. þingmanns kom m.a. fram að núverandi stjórnarflokkar hefðu ekkert samráð við stjórnarandstöðuna. Ég held að vert sé að rifja upp að um er að ræða minnihlutastjórn og hún kemur engu fram nema í samstarfi við stjórnarandstöðuna. Það liggur líka fyrir að af þremur flokkum í stjórnarandstöðu eru tveir á málinu. Mér finnst það ekki sæmandi stærsta stjórnarandstöðuflokknum að láta eins og hann sé fórnarlamb, eins og enginn hafi við hann talað og hann hafi ekkert af þessu máli heyrt.

Ég hef setið fundi þar sem formaður flokksins kom að umræðu um þetta mál. Ég talaði við hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur um það hvort þau hefðu áhuga á að vera á málinu en svo var ekki. Ég virði þau sjónarmið en ég vil ekki hafa Sjálfstæðisflokkinn volandi hér í ræðustól eins og hann sé eitthvert fórnarlamb og enginn vilji við hann tala og ekkert sé við stjórnarandstöðuna talað. Við komum engu í gegn nema í samráði við stjórnarandstöðuna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta sé klárt í umræðunni.

Í annan stað vil ég líka taka undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem sagði að öll röksemdafærsla hv. þingmanns væri á þann veg að hún væri andvíg málinu. Mér finnst það allt í lagi. Þá eiga menn að standa í lappirnar og vera andvígir málinu og viðurkenna að þeir séu andvígir persónukjöri eða að minnsta kosti því máli sem hér liggur fyrir. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður bætti svo um betur í lokin þegar hún sagði að hún hefði miklar áhyggjur af kynjahlutfallinu. Það verða nú að teljast þó nokkur tíðindi að sjálfstæðismenn séu alveg ómögulegir yfir því að kynjahlutföllin skuli ekki vera rétt í þingflokkum.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að langt er seilst eftir rökum til þess að finna málinu eitthvað til foráttu. Það er ekki nógu gott í grundvallarmáli um að veita almenningi aukið vægi að einasta framlagið séu rök af þessu tagi eða yfirlýsingar um að vinnubrögðin séu ómöguleg. Það er ekki svo. Við höfum að vísu haft skamman tíma en (Forseti hringir.) vinnubrögðin hafa verið til fyrirmyndar.



[19:32]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt málið. Við höfum haft skamman tíma. Er það ekki grundvallaratriði? Hér er hent fram máli og formenn allra þingflokka nema (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokksins bera málið fram, sem er alveg fyllilega réttmætt af þeirra hálfu.

Hins vegar hefur verið boðað að ríkisstjórnin ætli sér að klára málið á mjög skömmum tíma. Ég tel mig vita hvenær málið fór af stað því sérfræðingur nefndarinnar Þorkell Helgason, sem er mjög mætur maður, hafði samband og vildi kynna útfærsluna strax þegar fyrstu drög voru komin að málinu.

Ég tel mig ekkert fórnarlamb í þessu, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. En málið er bara einfaldlega þannig að ekki komu allir stjórnmálaflokkarnir að því. Það er rétt að taka það fram

Í mínum flokki er hefð að hafa prófkjör og af því að hv. þingmaður nefndi kynjahlutföll þá var það ekki ég sem dró það fram sem sjónarmið mitt í umræðunni, heldur dró ég fram að þetta væri sjónarmið sem hv. flytjandi málsins Siv Friðleifsdóttir nefndi og hafði áhyggjur af, sem og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson.

Það er sem sagt hefð í mínum flokki að í undirbúningi kosninga tökum við nokkra rimmu innan okkar raða og höldum prófkjör og tökum slaginn þar (Forseti hringir.) en síðan sameinumst við um að flytja stefnu flokksins sem hefur verið mótuð (Forseti hringir.) á landsfundi og teljum eðlilegt að þannig sé því háttað. En við erum tilbúin til að ræða alla aðra hluti í þessu líka.



[19:34]
Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi bara í andsvari mínu að hv. þingmaður tók einmitt undir þá hugsun eða þau sjónarmið sem fram komu um að kynjahlutföll gætu verið í hættu ef þessi leið yrði farin. Hið sama á alveg eins við í prófkjörum.

En kjarninn í þessu er sá — vegna þeirrar gagnrýni sem hér hefur komið fram um að tíminn hafi verið skammur — að skammt er síðan ríkisstjórnin tók við. Þessi ríkisstjórn snýst um lýðræðismál og efnahagsmál, eins og kemur fram í verkáætluninni. Ég trúi ekki öðru en að hv. þingmaður hafi tekið eftir þeirri lýðræðisvakningu, nánast byltingu, sem hefur orðið í samfélaginu í vetur. Krafan er að almenningur hafi meira um það að segja hverjir setjist inn á þing. Þetta er aðferð til þess.

Ef Alþingi kemur ekki til móts við þau sjónarmið sem eru í samfélaginu og slær ekki í takt við sálarlíf samfélagsins þá er Alþingi ekki á réttri leið. Hér setjum við fram frumvarp um persónukjör sem er í takt við kröfu samfélagsins. Hv. þingmaður og Sjálfstæðisflokkurinn eru andvíg málinu og ég virði það sjónarmið. Það er í góðu lagi.

En fjórir þingflokkar af fimm leggja til að þessi leið verði farin og þetta verði síðan unnið í nefnd. Hvað kemur út úr nefndinni þegar þingið fær málið í hendurnar og vinnur með það? Hvort tillaga um breytingar komi út úr nefndinni verður að koma í ljós.

Meginatriðið er það að krafa samfélagsins er aukið vægi almennings við val á alþingismönnum. Hér er frumvarp til að koma til móts við það. Ef þingflokkar eru andvígir því þá eiga þeir að segja það en ekki skýla sér á bak við vinnubrögð eða annað þess háttar vegna þess að frumvarpið er mjög vel unnið (Forseti hringir.) og einfalt í sjálfu sér. Stjórnmálaflokkar geta valið (Forseti hringir.) um raðaðan lista eða óraðaðan. Miklu flóknara er það nú ekki. (Gripið fram í.)



[19:36]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef margtekið fram að ég er ekki andvíg persónukjöri sem slíku og kem úr umhverfi þar sem við röðum upp á lista okkar með prófkjörum, sem er í sjálfu sér persónukjör.

En þetta er skammur tími. Þetta hefur ekki verið unnið á eðlilegan hátt. Bara úr þessum ræðustól hefur í kvöld verið boðuð gjörbreyting á frumvarpinu. Það gerði hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og taldi að frumvarpið ætti að vera einhvern veginn allt öðruvísi.

Ég tel þetta mjög mikið mál og lýðræðislegan grundvöll undir lýðræðislegu starfi okkar í landinu. Þess vegna legg ég til, hæstv. forseti, að þegar fjallað verður um þetta mál í nefnd þingsins verði opnir fundir. Breytingar voru gerðar á þingsköpunum þannig að nú er möguleiki á að hafa opna fundi.

Ég legg til, hæstv. forseti, að þannig verði farið með þetta mál svo almenningur í landinu geti áttað sig á því um hvað það fjallar. Að málið verði unnið á opnum fundum allsherjarnefndar til að það geti verið fært fram þannig að almenningur í landinu hafi skilning á því um hvað það snýst.

Ef það er einlægur vilji stjórnarflokkanna (Gripið fram í: Stjórnarandstöðu.) að þetta mál fari fram þá held ég að eðlilegasta leiðin væri að menn ræddu þetta opið og almenningur í landinu gæti fylgst með þeirri umræðu í gegnum opna fundi. Því full ástæða er til að ræða þessi mál. Eins og hv. þingmaður nefndi þá er mikil (Forseti hringir.) lýðræðisbylting í landinu og menn (Forseti hringir.) hafa mikinn áhuga á þeim málum. Það er þá eins gott að ræða þau fyrir opnum tjöldum.



[19:39]Útbýting: