136. löggjafarþing — 95. fundur
 5. mars 2009.
staða sjávarútvegsfyrirtækja.

[10:59]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég er með óundirbúna fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra um skuldastöðu sjávarútvegsins, áætlaðar tekjur hans á þessu ári og framlegð í íslenskum sjávarútvegi. Ég hef leitast við að fá svör við þessum spurningum alveg frá því að bankarnir fóru á hausinn í haust og ekki fengið nægilega skýr svör að mínu mati. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir þjóðina og þingheim allan að fá að vita hver staðan er, sérstaklega fyrir efnahags- og skattanefnd. Í síðustu viku spurði ég Mats Josefsson, sænskan ráðgjafa sem mun aðstoða við að færa skuldir og eignir úr gömlu bönkunum yfir í nýju bankana, um skuldir sjávarútvegsins. Hann hafði ekki hugmynd um hverjar þær væru. Hann hafði heldur ekki hugmynd um hvaða veð væru á bak við þær skuldir sem flytja átti milli bankanna. Ég tel nauðsynlegt að við vitum það, það sé öllum ljóst og sérstaklega þingmönnum og ráðherrum. Ég spyr þess vegna hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem er líka fjármálaráðherra og ætti þess vegna að vita betur en aðrir hvað skuldirnar eru miklar, hvað framlegðin er mikil í íslenskum sjávarútvegi nú sem stendur og hverjar eru áætlaðar tekjur af sjávarafurðum á þessu ári.



[11:01]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Þetta er fyrirspurn sem erfitt er að svara óundirbúið nema að hafa einhver gögn við höndina og maður verður þá að treysta á minni sitt. En ég get því miður frætt hv. þingmann um að skuldir sjávarútvegsins eru miklar, þær eru allt of miklar. Hann er skuldum hlaðinn. Sú staða versnaði stórkostlega þegar gengi krónunnar hrundi á síðasta ári. Hvort við eigum að giska á að árstekjurnar séu þrefaldar til fjórfaldar, veit ég ekki, en þær eru einhvers staðar nálægt því bili. En vissulega hafa þær lækkað frá áramótum um upp undir 15% ef við reiknum með að þær séu að uppistöðu til í erlendri mynt, sem ég held að sé raunin, fyrir utan einhverja innlenda reikninga sem vega ættu þungt í fjármögnun fyrirtækjanna. Sú gengisþróun er að sjálfsögðu jákvæð fyrir efnahagsreikninginn og skuldahliðina en hún er þó að sama skapi neikvæð fyrir tekjuhliðina, þ.e. færri krónur koma inn fyrir útflutninginn. Annað og verra er þó það að fallandi afurðaverð og birgðasöfnun hafa auðvitað verulega neikvæð áhrif á afkomu greinarinnar núna.

Það er fleira sem gerir þessa mynd óljósa. Sjávarútvegurinn á nokkra tugi milljarða í óuppgerðum gjaldeyrisvarnasamningum í bankakerfinu. Þeirri óvissu er haldið utan sviga í bili — eða innan sviga — og fyrirtækin hafa bent á hversu bagalegt það er fyrir þau að fá ekki niðurstöðu í það mál. Ég hef í höndum skýrslu frá endurskoðunarfyrirtæki sem Samtök sjávarútvegsins létu gera um afkomu stórra fyrirtækja innan greinarinnar. Hún er alvarleg og var þó gert ráð fyrir því þar að gjaldeyrisvarnasamningarnir leystust á tiltekinn hátt. Nú er það mál enn í biðstöðu eða óútkljáð þannig að óvissan um þá hluti, eða nákvæmlega þær tölur sem hv. þingmaður spyr um, er mjög mikil. (Forseti hringir.) En ég skal reyna að taka saman gleggri tölur um þetta og hafa þær til svara á Alþingi sem fyrst.



[11:03]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Skuldastaðan í sjávarútveginum er mjög erfið og við áttum okkur líka á því að það er lækkandi afurðaverð, sennilega á bilinu milli 30 og 40% víðast hvar á mörkuðum okkar erlendis. Framleiðslugjald og samningar eru auk þess erfið fyrir sjávarútvegsfyrirtækin. Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til hugmyndir til lausnar. Við höfum lagt til að veitt yrði meira af fiski til að skapa meiri gjaldeyristekjur. Við höfðum lagt til að handfæraveiðar yrðu gefnar frjálsar yfir sumartímann og við höfum jafnframt lagt til ýmislegt í stjórn fiskveiða til að mæta vanda greinarinnar. Þar er stærsta tillaga okkar innköllun á veiðiheimildum með yfirtektarhluta af skuldum inn í svokallaðan auðlindasjóð. Það væri gaman að vita hvort hæstv. ráðherra sér ekki möguleika á því að verða við einhverjum af þessum óskum.



[11:04]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er ekki mikið svigrúm til aðgerða innan fiskveiðiársins þegar búið er að úthluta öllum veiðiheimildum og ganga frá málum eins og búið var að gera þegar núverandi ríkisstjórn kom til valda. Ég get þó upplýst hv. þingmann um að verið er að skoða ýmis atriði og þó einkum með því hugarfari hvort það gæti haft jákvæð áhrif á atvinnustigið og atvinnusköpun hér innan lands. Það er kannski það sem er mest áríðandi. Þær aðgerðir mundu ekki skipta neinum sköpum t.d. fyrir afkomu stærri sjávarútvegsfyrirtækja, þær væri ekki þess eðlis.

Það sem kæmi íslenskum sjávarútvegi augljóslega best, eins og reyndar öllu íslensku samfélagi, væri umtalsverð og hröð lækkun vaxta. Eitt af því sem ýtir hráefninu út úr landinu og hindrar að það komi til vinnslu innan lands er að vaxtakostnaðurinn er svo hár að fyrirtækin ráða ekki við birgðasöfnun og lagerhald. Þá er valinn sá kostur að reyna að koma aflanum sem fyrst út og fá einhverjar krónur í höndina með því að flytja hann út í gámum eða jafnvel láta skipin sigla. Það er því veruleg ástæða (Forseti hringir.) til að hafa áhyggjur af þeirri þróun og það sem mundi vinna mest með okkur í öllu því (Forseti hringir.) væri lækkun fjármagnskostnaðar.