136. löggjafarþing — 95. fundur
 5. mars 2009.
eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 313. mál (afnám laganna). — Þskj. 543, frhnál. 649.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[13:39]

Brtt. í nál. 649 samþ. með 33 shlj. atkv.

Frv., svo breytt, samþ. með 34 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AtlG,  ÁÓÁ,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  BÁ,  BJJ,  BjarnB,  BBj,  EyH,  GMJ,  GuðbH,  GSB,  GSv,  HSH,  HHj,  IllG,  JM,  KVM,  KaJúl,  KÓ,  MS,  MÁ,  ÓN,  PHB,  RR,  SKK,  SF,  SJS,  StB,  VS,  ÞSveinb,  ÞBack,  ÖJ.
29 þm. (ArnbS,  ÁKÓ,  ÁJ,  ÁMM,  ÁRJ,  ÁMöl,  BjörgvS,  BjörkG,  EKG,  EMS,  EBS,  GHH,  GAK,  GÞÞ,  HerdÞ,  HöskÞ,  JóhS,  JBjarn,  JónG,  KJak,  KolH,  KHG,  KÞJ,  KLM,  LB,  REÁ,  SVÓ,  ÞKG,  ÖS) fjarstaddir.
10 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[13:40]
heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er söguleg stund þegar Alþingi nemur nú úr gildi forréttindi þingmanna, og sérstaklega ráðherra, í lífeyrismálum. Gegn þessum sérréttindum hefur verið mikil andstaða í þjóðfélaginu og gegn þessum sérréttindum og þessum ósóma hefur verið barist bæði utan þingsins og innan. Nú hefur baráttan skilað árangri. Þetta er ekki bara söguleg stund á Alþingi, við erum að stíga skref til sátta gagnvart þjóðinni. Ég fagna þessari niðurstöðu.



[13:42]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég held að hér sé merkileg stund, kannski ein af hinum merkilegri á þessu kjörtímabili. Hér er verið að taka af almenn forréttindi þingmanna og ráðherra í lífeyrismálum og við erum einkum að taka til baka (Gripið fram í: Forseta.) það fráleita frumvarp sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur báru fram, reyndar ásamt ýmsum öðrum í byrjun, [Háreysti í þingsal.] árið 2003. (Gripið fram í.) Já, það er rétt. Nú höfum við haft þrjár umræður til að ræða það og hafi menn hlýtt á mitt mál í þeim þremur umræðum ættu þeir að vita hvað ég meina vegna þess að ég hef talað nokkuð bert og ljóst um söguna um það sem hér lá á bak við.

Ég held að þetta sé verulegur áfangi í réttlætisátt og til framfara og þetta muni að einhverju leyti sætta þing og þjóð. Það er athyglisvert að það þurfti að setja Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarandstöðu (Forseti hringir.) til að þjóðin gæti haft vit fyrir þinginu í þessu máli. Ég segi já.



[13:43]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Hér eru afnumin svokölluð eftirlaunalög sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi fluttu á sínum tíma. (GAK: Ekki rétt.) Eins og sjá má greiði ég atkvæði með frumvarpinu enda er ég hlynntur þeim meginbreytingum sem þar koma fram.

Það sem skortir hins vegar á þetta frumvarp, og ég vil beina því til ríkisstjórnarinnar, er að tekið verði á því að alþingismenn hlutist til um eigin kjör. Ég tel að ríkisstjórnin ætti að beita sér fyrir því að kjararáði verði falið að ákvarða öll okkar kjör, ekki einungis þingfararkaupið, heldur einnig lífeyrisréttindi og öll önnur kjör sem við njótum. Ástæðan fyrir því að deilurnar um þessi mál eru svo miklar er sú að þingmenn hafa sjálfir fjallað um eigin kjör. (Forseti hringir.) Þannig á það ekki að vera og ég tel eðlilegt að í framhaldinu verði kjararáð (Forseti hringir.) fengið til þess að ákvarða öll okkar kjör.



[13:45]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með að við skulum afgreiða þetta mál. Hér er verið að samræma réttindi alþingismanna og annarra opinberra starfsmanna sem greiða í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ég vek athygli þingmanna á því að hér er efnislega verið að samþykkja það sem grænu flokkarnir lögðu til á síðasta ári, Framsóknarflokkur og Vinstri hreyfingin – grænt framboð. [Háreysti í þingsal.] Það er verið að samþykkja það sem þessir flokkar lögðu til, að færa þessi réttindi til samræmis við það sem gengur og gerist hjá öðrum opinberum starfsmönnum. Það er mjög ánægjulegt að við skulum hafa náð Samfylkingunni á okkar band í umræðunni því að þegar hún starfaði með Sjálfstæðisflokknum var hún ekki reiðubúin til að stíga þessi skref. (Gripið fram í: Birkir Jón …) Hér erum við að stíga mjög söguleg skref. Það er mikilvægt að þjóð og þing gangi í takt og við viljum — (Gripið fram í.) ég heyri að (Gripið fram í.) sumir þingmenn Samfylkingarinnar eiga erfitt undir þessari umræðu (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) en ég vil að lokum segja, frú forseti, að ég fagna þessari breytingu. Þetta er nákvæmlega í þeim anda sem Framsóknarflokkur (Forseti hringir.) og Vinstri grænir (Gripið fram í.) lögðu til fyrir nokkrum mánuðum og ég fagna því þrátt fyrir óp og köll samfylkingarmanna um að þeir hafi skipt um skoðun.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn að gefa þeim hv. þingmanni sem er í ræðustól tækifæri til að tala þannig að til heyrist.)



[13:46]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Sá fylgir kaleikur þingmannsstarfinu að þingmenn þurfa alltaf með einum eða öðrum hætti að hlutast til um það hvernig þeirra kjaramálum er háttað með lögum. Þeir geta vissulega falið öðrum að úrskurða um það en sá kaleikur verður aldrei í eðli sínu frá hinu sérstaka starfi tekinn að Alþingi þarf sjálft að skipa þessum málum, annaðhvort með eigin ákvörðunum eða fela þær öðrum.

Ég fagna sérstaklega niðurstöðu þessa máls. Ég þakka hv. efnahags- og skattanefnd fyrir góða vinnu og held að þær breytingar sem gerðar voru á málinu í meðförum nefndarinnar séu til bóta, lagaskilin skýr og frumvarpið í þeim besta búningi sem það getur orðið. Niðurstaðan er gleðileg. Hér lýkur löngum og leiðinlegum kafla í þingsögunni, í pólitískum deilumálum og í samskiptum Alþingis og þjóðarinnar. Ég vona að þetta viti á gott og boði ásamt með öðru upphaf hins nýja Íslands í þeim efnum að þjóðin deili betur kjörum í heild sinni en áður hefur verið. Ég vek athygli á því, frú forseti, að það var myndun núverandi ríkisstjórnar (Forseti hringir.) sem gerði þennan sigur mögulegan.



[13:47]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er fagnaðarefni að þessi hneisa sé loks afmáð. Þó að við höfum sum greitt atkvæði gegn frumvarpinu á sínum tíma held ég að enginn í þessum sal slái sérstakar pólitískar keilur á því að fjalla um það. Málið var einfaldlega þinginu til skammar og málsmeðferðin ekki síst. Við eigum að læra af því í framhaldi af hruninu og muna héðan í frá að ekki eiga að gilda aðrar reglur um ráðherra en aðra menn í landinu, og eins hitt að við eigum aldrei að leyfa okkur að beygja svo góð vinnubrögð í þinginu eins og gert var í þessu máli sem keyrt var í gegn þegar það varðaði okkur sjálfa á örfáum dögum og með kolröngum upplýsingum um hvaða kostnaður mundi fylgja því.



[13:48]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að biðja þingmenn að fagna þeirri samstöðu sem er að myndast hér um þetta mál. Allir flokkar eiga hlut að máli. Það er ekki einn einasti flokkur hér inni sem getur fríað sig algjörlega ábyrgð í þessu máli (Gripið fram í.) og það er mjög merkilegt að hlusta á þingmenn reyna að fara með einhverja frasa úr fortíðinni og þykjast ekki hafa komið nálægt neinu, hv. þm. Mörður Árnason. (Gripið fram í: Hvernig var atkvæðagreiðslan?) Samfylkingin átti hlut að þessu máli í síðustu ríkisstjórn og vildi þá ekki breyta. Nú eigum við að hefja okkur upp úr þessu karpi, (Gripið fram í.) upp úr þessari fortíð og fagna samstöðunni. Nú eru allir flokkar sammála um þetta, líka Sjálfstæðisflokkurinn. Allir flokkar hafa átt hlut að þessu máli og við eigum að leyfa okkur að fagna saman. Nú er málið bara frá og við förum að vinna í öðrum góðum málum.



[13:50]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir síðustu kosningar var eitt af höfuðstefnumálum Samfylkingarinnar að þessi lög yrðu úr gildi felld að kosningum loknum. Það er nú að takast og við erum að ná fullnaðarsigri. Það kom fram í atkvæðaskýringu af hálfu Samfylkingarinnar fyrir áramót að þar litum við svo á að um áfangasigur væri að ræða, og fullnaðarsigur hefur nú verið unninn. Það skiptir miklu að við gætum að því að setja ekki aftur lög þar sem við slítum sundur friðinn í landinu og búum sumum önnur kjör en öðrum. Við verðum að gæta þess að ein lög gildi fyrir alla og það verði ekki þannig að þingmenn og ráðherrar (Gripið fram í.) verði látnir vera úr eðlilegu samhengi við kjör og skyldur annarra í samfélaginu. (Gripið fram í.)



[13:51]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég vil minna á það að 2003, þegar lögin voru sett og talað var fyrir frumvarpinu af Halldóri Blöndal, þá forseta þingsins, kom ég strax á eftir honum í andsvar, mótmælti frumvarpinu og taldi ekki rétt að þingmenn og ráðherrar væru að búa sér til sér… (SKK: Sigurjón Þórðarson var flutningsmaður.) (Gripið fram í: Formaðurinn studdi það.) Formaðurinn studdi það ekki og tók ekki þátt í atkvæðagreiðslunni og enginn í Frjálslynda flokknum studdi það í atkvæðagreiðslunni, það er ekki rétt og ekki einu sinni Sigurjón Þórðarson. [Háreysti í þingsal.] (Forseti hringir.) Ég hafnaði (Gripið fram í.) því frumvarpi á sínum tíma og mælti gegn því og var sá fyrsti sem gerði það. Á eftir mér kom síðan hæstv. heilbrigðisráðherra sem nú er, Ögmundur Jónasson, og við vorum báðir á móti frumvarpinu strax í upphafi.

Ég segi já við þessu frumvarpi núna.



[13:52]
Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég hef á stundum verið stoltur, sérstaklega þó þegar ég náði að koma fjárauka- og fjárlagafrumvörpum út úr nefnd fyrir 2. og 3. umr. á árunum 2007 og 2008 í nokkuð góðri sátt við fjárlaganefndarmenn þrátt fyrir að við höfum ekki öll verið sammála, hv. þingmenn. Ég mun hins vegar minnast núverandi stundar fyrir það að hafa verið nokkuð stoltur yfir því að hafa verið með öllum hv. þingmönnum í salnum að segja já.



[13:53]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna þeirri samstöðu sem er í þingsalnum um þetta frumvarp en vil engu að síður láta þess getið að ekki gilda ein lög í þessu landi um lífeyrissjóði fyrir landsmenn. Það er lífeyrissjóður opinberra starfsmanna sem við þingmenn kjósum nú að halda okkur í, innan svokallaðrar A-deildar, en 80% þjóðarinnar, kjósenda okkar í þessum sal, eru í öðrum lífeyrissjóðum. Ég hefði kosið að við hefðum haft kjark til að veita þingmönnum frelsi til að velja sér lífeyrissjóð en segi við frumvarpinu: Þetta er skref í rétta átt og ég segi já.