136. löggjafarþing — 95. fundur
 5. mars 2009.
kosningar til Alþingis, frh. 1. umræðu.
frv. LB o.fl., 368. mál (persónukjör). — Þskj. 622.

[16:24]
Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Fyrri hluti þessarar umræðu fór fram í gær, eins og við vitum, og hefur ekki alveg verið samfella í umræðunni vegna anna á þinginu. En mig langar að byrja á því að tala um þetta mál almennt áður en ég ræði um einstaka útfærslur sem þarna koma fram.

Ég vil segja í upphafi að ég tek undir þau sjónarmið að æskilegt sé að efla persónukjör í þingkosningum. Ég held að það séu svo sem margar leiðir færar í því efni og er áhugi meðal stjórnmálamanna og í þjóðfélaginu almennt á að gera breytingar til að styrkja persónukjör.

Þau miklu mótmæli sem urðu fyrir utan þinghúsið í vetur hafa áreiðanlega ýtt við mörgum hér innan dyra um að knýja fram breytingar á kosningalöggjöfinni núna og raunar stjórnarskránni einnig og á morgun munum við taka fyrir breytingar á stjórnskipuninni sem er frumvarp frá stjórnarflokkunum og Framsóknarflokknum. Ég tel að meginástæðan fyrir því að þessi mál koma svona bratt inn í þingið núna séu mótmælin og sú ólga sem varð í samfélaginu í kjölfar hrunsins.

Ég vil að menn hugsi vel um mál af þessum toga sem varða breytingar á því hvernig við kjósum fulltrúa okkar, hvernig við veljum fólk á listum, hvernig við umgöngumst stjórnarskrána og hvernig við breytum stjórnarskránni. Allir þessir þættir eru hornsteinar og grundvöllur lýðræðisskipunar okkar. Mér finnst að við eigum að fara með gát þegar við gerum breytingar og mér finnst að við þurfum að hafa tíma til að hugsa þær. Það þarf að hafa ákveðna ró yfir slíkum breytingum og mér líkar ekki að hafa of mikinn asa á þeim.

Þess vegna verð ég að segja að ég skil ekki alveg af hverju menn vilja afgreiða málið svona hratt. Ég hefði kosið að við byrjuðum þessa umræðu og tækjum hana svo aftur upp að loknum kosningum og lykjum henni á komandi vetri.

Þetta mál mun fara að lokinni þessari umræðu inn í allsherjarnefnd þar sem það verður tekið til athugunar og ég á von á því að þar komi fram ýmis sjónarmið í málinu. Það fær vonandi vandaða og góða umfjöllun.

Það liggur ljóst fyrir að í Sjálfstæðisflokknum er mjög ríkt persónukjör í prófkjörum. Ég hygg raunar að prófkjörsleiðin sem farin er á Íslandi sé ekki algeng í öðrum löndum. Vegna þess að menn segja að Sjálfstæðisflokkurinn sé svo óskaplega mikið á móti þessu frumvarpi og svo mikið á móti persónukjöri, vil ég taka fram að prófkjör Sjálfstæðisflokksins eru gríðarlega fjölmenn og í raun og veru alveg einsdæmi hér á landi. Ég held því fram að persónukjör í þeim flokki sé mjög verulegt nú þegar.

Það frumvarp sem liggur fyrir er dálítið ruglingslegt að mínu mati. Ég hef áhyggjur af því að þar sé verið að leggja til fleiri en eina leið. Þar er bæði talað um raðaða lista og óraðaða lista, að flokkar eigi að geta ákveðið hvort þeir hafi raðaðan lista eða óraðaðan lista og gangi til kosninga með mismunandi fyrirkomulag fyrir framan sig.

Það er meira að segja svo að það getur verið mismunandi á milli kjördæma. Það finnst mér slæmt. Ég hefði kosið að við næðum samkomulagi um að ein leið yrði valin. Ef nota á óraðaðan lista á það að vera þannig en það á ekki að vera tilviljunum háð hvort hann er óraðaður eða ekki, eins og mér sýnist vera um að ræða hér. Ég er ekki hlynnt því að um tvöfalt fyrirkomulag sé að ræða.

Í kosningalögunum er nú þegar ákvæði um að hægt sé að breyta röðun á lista, að strika út fólk á lista og raða upp á nýtt þannig að þetta er ekki alveg glæný hugmynd í kosningafyrirkomulagi okkar. Þetta er í lögunum en einhvern veginn hefur mér fundist lítið fara fyrir því í umræðunni. Ég held að það hafi bara ekki verið nefnt og mér finnst það dálítið merkilegt.

Í greinargerðinni er fyrst og fremst fjallað um hvernig staðan er í öðrum löndum og síðan er farið nákvæmlega yfir reiknireglur. Mér finnst þessi greinargerð ekki hjálpa manni óskaplega mikið. Ég sé fyrir mér að við í allsherjarnefnd þurfum að fá marga gesti til okkar til að útskýra málið en ég vil þó nefna að það eru ýmsar leiðir nothæfar í þessu. Svíar nota ákveðna leið sem er þannig að maður getur krossað við nafn á lista til að hafa áhrif á persónukjör. Þá er gerð breyting þannig að maður getur annars vegar kosið lista og hins vegar getur haft með persónulegt atkvæði. Það er ein leið sem hægt er að skoða. Þetta er kallað hálft skref, mjúk leið að persónukjöri. Sumir ganga miklu lengra, t.d. Finnar, en aðrir ganga ekki eins langt í þessu efni.

Í greinargerðinni er talað um að við séum með lokaða flokkslista og sagði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson við 1. umr. að við værum í hópi landa eins og Bólivíu, Búlgaríu, Ekvador og Gíneu. Hann lét í veðri vaka að það væri ekki góður félagsskapur fyrir Íslendinga og þyrftum við að komast úr þessum hópi til annarra Evrópuþjóða sem eru með persónukjör, svo sem Austurríki, Belgía, Danmörk o.s.frv.

Mér finnst ekki rétt að tala svona og ég skil ekkert í hv. þingmanni gera það. Ég vil svara því á þann veg að það er ákveðið persónukjör þegar í gildi hér. Prófkjörin eru það. Það eru ákveðnar leiðir í kosningalögunum. Það er ekki nefnt í þessari greinargerð og hefði þurft að koma skýrar fram að mínu áliti.

Ég spurðist fyrir um það í upphafi umræðunnar í gær hvernig flutningsmenn líta á samspil þessa frumvarps við 31. gr. stjórnarskrárinnar og 6. mgr. hennar sem kveður á um að breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta sem mælt er fyrir um í lögum verði aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi. Það þýðir að þegar menn gera breytingar eins og þessar er um að ræða breytingar sem hafa mikil áhrif á þingsæti og þá þurfum við aukinn meiri hluta. Mér finnst eðlilegt að svo sé. Mér finnst eðlilegt þegar menn hlutast til um svona verkefni að það sé aukinn meiri hluti á þinginu. Hins vegar skildi ég hv. þm. Lúðvík Bergvinsson svo í gær að mikil áhöld væru um það og að hann væri alls ekki viss um að það þyrfti aukinn meiri hluta, heldur væri nóg að hafa einfaldan meiri hluta í þessu efni.

Það er mál sem þarf að rannsaka. Þetta verðum við að vita og mun allsherjarnefndin auðvitað rannsaka þetta og kalla til sín menn til þess að fara yfir málið. Ég felli mig ekki við það sem fram kom í gær að þetta gæti komið í ljós með atkvæðagreiðslu með frumvarpinu. Það getur aldrei gengið. Við verðum að vita þetta fyrir fram. Ef það er samdóma álit manna, sem ég hygg að muni koma í ljós, að 2/3 þurfi er enn þá mikilvægara að betri samstaða náist á þinginu um þessar breytingar. Þá er enn þá mikilvægara að við í stjórnarandstöðunni höfum meiri aðkomu að málinu og að málið fái að þroskast með eðlilegum hætti.

Ég skil satt að segja ekki af hverju liggur svona óskaplega á. Við höfum rætt um mál í dag sem skipta að mínu áliti verulega miklu fyrir þá atburði átt hafa sér stað og það ástand sem ríkir í landinu. Við vorum t.d. að ræða frumvarp um breytingar á virðisaukaskatti sem skiptir verulega miklu máli fyrir fyrirtækin og atvinnulífið í þessu landi. Það er mál sem við sjálfstæðismenn styðjum heils hugar. Við höfum sagt það allan tímann að við munum styðja þau mál sem munu hjálpa til við að koma atvinnulífinu í gang og fyrirtækjunum í landinu.

Þess vegna finnst mér svo mikill óþarfi að nýta þennan mikilvæga tíma fram að kosningum til þess að tala um mál sem liggur ekki svo óskaplega mikið á að afgreiða. Við erum komin af stað í kosningabaráttu. Það er sjálfsagt að leggja þetta mál til kynningar, skoða það og ræða stuttlega og leyfa því síðan að þroskast í sumar og taka það aftur upp í haust, þá með meira samkomulagi á milli flokkanna.

Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að setja á fót stjórnlagaþing og við munum ræða það á morgun. Ég held að það sé ýmislegt þar sem vert er að skoða. En ef það er skoðun ríkisstjórnarflokkanna að það þurfi að samþykkja slíkt stjórnlagafrumvarp núna til þess að breyta stjórnarskránni, af hverju gerum við þá breytingar á stjórnarskránni í millitíðinni? Af hverju á að breyta kosningalögunum núna? Af hverju gerum við það ekki bara í einu lagi þegar búið er að kjósa? Af hverju liggur okkur svona óskaplega mikið á?

Ef ég svara eigin spurningu held ég að það sé vegna þess að sú mikla hreyfing sem varð hér fyrir utan húsið og ég nefndi í upphafi, hafi haft þau áhrif að stjórnarflokkarnir telja sig knúna til þess að svara því strax með einhverjum hætti.

Ég segi þá á móti: Við getum alveg gert það með því að leggja svona frumvarp fram og bíða svo. Við getum ekki farið af stað með frumvarp sem ekki er almenn samstaða um og við getum ekki haft mörg vafaatriði í því og samþykkt það svona vanbúið eins og mér finnst það vera. Ég tek það aftur fram mér finnst alveg óþarft að bjóða kjósendum í landinu upp á að vera með tvöfalt kerfi.

Svo getum við líka horft á þetta út frá sjónarmiðum landsins í heild. Kjördæmin eru mjög sérkennileg mörg hver. Landsbyggðarkjördæmin gríðarlega víðfeðm og Reykjavík er skipt í tvennt. Hvaða áhrif hefur svona breyting á jafnvægi í landinu? Hvaða áhrif hefur það t.d. á Suðurkjördæmið að fara í persónukjör í kosningum? Er hætta á því að allir þingmennirnir komi af þéttbýlisstöðunum? Er hætta á því að Selfoss og Reykjanesið hafi alla þingmenn? Gæti það gerst að sveitirnar fyrir austan fengju engan málsvara nema neðarlega af listanum? Hvernig ákveðum við hvernig við heyjum kosningabaráttuna? Hvernig ákveðum hverjir fara á þessa óröðuðu lista? Er það gert með því að menn auglýsi sig, að mest geti 100 menn boðið sig fram? Á síðan að raða? Hvernig verður dreifingunni háttað? Eða eru það kannski flokkarnir sem munu koma með einhvers konar lista fyrst? Erum við þá ekki hvort sem er farin að velja? Allt eru þetta spurningar sem við þurfum að leita svara við í nefndinni.

Hver leiðir þennan lista þegar kosningabaráttan hefst með allt fólkið á óröðuðum lista? Hvert á þetta fólk að fara? Við hvaða kjósendur ætla frambjóðendur að tala? Ætla sumir að vera á Höfn í Hornafirði en aðrir í Keflavík? Er þá ekki hætta á því að þeir sem eru í Keflavík verði kosnir en ekki þeir sem eru á Höfn í Hornafirði af því að það eru svo fáir þar?

Þetta eru allt sjónarmið sem við þurfum að skoða. Við þurfum ákveðinn tíma til að gera það og við skulum ekki flýta okkur of mikið. Ég heyrði það í gær og las það í Morgunblaðinu eða í einhverju blaði í dag að sjálfstæðismenn væru þvert á móti hugmyndunum. Það er ekki svo en við viljum hins vegar fá að skilja málið og ræða það og átta okkur á því hvaða afleiðingar það hefur. Þær afleiðingar eru ekki alveg skýrar í mínum huga og ég hygg að þannig sé það með marga.

Ég gat nú ekki betur heyrt og mér sýnast vera áhöld um það hjá mörgum stjórnarsinnum hvernig við ætlum að túlka einstaka hluti og hvaða áhrif þetta muni hafa. Þess vegna segi ég: Við skulum vanda okkur við þetta. Við skulum ekki taka þetta mál fram yfir þau brýnu mál sem liggja fyrir þinginu.

Hæstv. fjármálaráðherra lagði nýlega fram frumvarp sem snýr að séreignarsparnaði. Það er mjög mikilvægt mál. Við þurfum að tala um það en ekki þetta núna. En við getum hins vegar lagt það fyrir nefndina til að skoða þetta og fengið til okkar gesti og tekið það aftur upp í haust. Við getum prófað það í sveitarstjórnarkosningunum. Það eru sveitarstjórnarkosningar á næsta ári og er líklega mismunandi hvernig sveitarstjórnarmenn líta á það. En það er kannski ekkert vitlaust að gera prufu á svona kerfi í slíkum kosningum en ekki fara beint með það í alþingiskosningar.

Aðalatriðið er: Öll mál sem snúa að kosningalöggjöfinni, stjórnskipuninni, hornsteinum íslenskrar skipunar, þurfa ákveðinn tíma. Ég neita því ekki að oft hefur það tekið of langan tíma en fyrr má nú vera. (Forseti hringir.)



[16:40]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir allt það sem kom fram í ræðu hv. þm. Ólafar Nordal og ekki síst um það sem hún kom inn á um samstöðuna sem skiptir miklu máli í þessu. Jafnframt að það skiptir höfuðmáli á þeim dögum sem eftir eru í þinghaldinu að taka fyrir og ræða þau mál sem skipta samfélagið máli, fjölskyldurnar, fyrirtækin. Við verðum að leggja aðaláherslu á þau mál.

Mig langar til að koma með eina litla fyrirspurn til hv. þingmanns vegna þess að hún kom inn á prófkjör í ræðu sinni og lýsti því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið að þeim. Ég er alveg sammála skýringunni sem þar kom fram en mig langar að spyrja hvað þingmanninum finnst um að prófkjör allra flokka verði sama dag á sama seðli. Valið yrði á listana með þeim hætti í stað þess flokkarnir héldu allir prófkjör á mismunandi tímum og fólk færi í kross á milli flokka til að taka ákvörðun um hverjir sætu á hinum einstöku listum viðkomandi flokka. Það yrðu sem sagt nokkurs konar forkosningar með einum auðum seðli og menn mundu raða því fólki á lista sem þeir hafa áhuga á að kjósa.

Ég minnist þess að þetta var viðhaft í sveitarfélaginu Ölfusi fyrir 25–30 árum og gafst það vel. En það var einn ákveðinn stjórnmálaflokkur sem sprengdi þetta fyrirkomulag. En nú er spurningin: Er ástæða fyrir okkur á Alþingi að taka upp eða skoða þetta fyrirkomulag?



[16:42]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta hefur verið rætt stuttlega, bæði í þessu húsi og annars staðar, hvort skynsamlegt sé að hafa einhvers konar forval. Ég hygg að nú þegar kosningar ber svona brátt að hafi menn verið að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að velja á lista með skjótum hætti. Hér um bil allir flokkar velja núna um helgina eða þá næstu. Það hefur auðvitað áhrif á þingstörfin.

Ég held að þetta sé eitt af því sem við eigum að horfa til og sem við verðum að velta fyrir okkur. Við höfum ekki talað mjög mikið um breytingar á kosningalöggjöfinni undanfarin missiri. Við höfum talað um að gera þurfi ákveðnar breytingar en við ekki talað um einstakar útfærslur.

En þegar málið fer á dagskrá koma ýmsar aðrar hugmyndir fram sem geta verið miklu betri en þær sem liggja fyrir. Það er það sem ég kalla eftir, að málið fái að þroskast í þinginu og úti í samfélaginu. Það er nauðsynlegt fyrir kjósendur og okkur öll sem kjósum í þessu landi að við fáum tilfinningu fyrir því í hvaða átt er verið að stefna.

Þegar maður reynir að útskýra það frumvarp sem hér liggur fyrir er ekki endilega alveg skýrt í huga fólks að það eigi að fara að kjósa eftir því núna í vor vegna þess að málið er svo nýtt og algjörlega óljóst. Það er það sem ég átta mig ekki á.

Af hverju er verið að bjóða fólkinu í landinu upp á þetta? Af hverju er verið að rugla fólkið í landinu með þessu? Af hverju tölum við ekki frekar um þau mál sem ég taldi upp áðan og sem við þurfum að skoða? Við afgreiðum þetta mál með eðlilegum hætti í haust, ræðum það hvarvetna í samfélaginu. Það á t.d. eftir að ræða það á vettvangi lögfræðinnar. Það er fróðlegt að vita hvaða sjónarmið eru þar uppi. Hefur þetta verið rætt mikið í háskólasamfélaginu? Á kaffistofum? Þetta þarf allt að eiga sér eðlilega umræðu sem ég legg höfuðáherslu á (Forseti hringir.) að fari fram núna.



[16:44]
Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við það mikilvæga viðfangsefni laganna sem eru lög um kosningar til Alþingis. Það er ekki á hverjum degi sem við fáum tækifæri til þess á hinu háa Alþingi að fjalla um breytingar á stjórnarskrá eða lögum um kosningar til Alþingis og þess vegna er mikilvægt að okkur gefist góður tími til þess að fara yfir þessi mál. Það sem hér er fjallað um sérstaklega og lýtur að auknu persónukjöri í kosningum til Alþingis, er að mínu mati afar mikilvægt. Ég er fylgjandi því að við aukum möguleika kjósenda á að velja á milli einstaklinga. Ég tel að við Íslendingar höfum verið að þróa það allvel með, eins og hér hefur komið fram, prófkjöri hjá einstaka flokkum, mismunandi umfangsmiklum prófkjörum, sumir flokkar láta sér nægja tiltölulega þröngan hóp, aðrir hafa opin prófkjör o.s.frv. En hér er verið að tala um að á kjörseðli eigi kjósandinn þess kost að velja og raða.

Ég tel þetta geysilega mikilvæga umræðu í lýðræðissamfélagi okkar og hún þarf að fara fram á Alþingi. Hún þarf að fara fram um allt þjóðfélagið. Við þurfum að fá almenning með okkur og sannfæra hann um að þær breytingar sem við viljum gera núna á kosningafyrirkomulaginu séu sannfærandi. Ég verð að viðurkenna að mér brá nokkuð þegar fregnir bárust af því að á Íslandi væru nú eftirlitsmenn frá alþjóðlegri stofnun sem fylgist með og hefur eftirlit með kosningum í lýðræðisríkjum. Hér inni í þingsalnum er einmitt þingmaður sem þekkir slíka vinnu, eftirlit með kosningum. Ég veit ekki til þess að það hafi áður gerst á Íslandi í aðdraganda kosninga að það sjáist til slíkra eftirlitsmanna. Hvað er að gerast? Hafa áform um breytingar nokkrum vikum fyrir kosningar á kosningalöggjöf leitt til þess að eftirlitsstofnanir alþjóðasamfélagsins telji ástæðu til að hafa sérstaklega auga með kosningum á Íslandi?

Ég tel þetta umhugsunarefni og eitt af því sem við þurfum að velta fyrir okkur og huga að. En hvað um það, ég tel að þessi umræða sé geysilega mikilvæg og við alþingismenn eigum að taka höndum saman um að ganga til breytinga sem eru til góðs og eru líklegar til að efla tilfinningu almennings í landinu, tilfinningu kjósenda, fyrir vali í kosningum. Við þurfum að standa þannig að málum að kosningaþátttaka minnki ekki á Íslandi, hún hefur verið að minnka víða í nágrannalöndum okkar. Meðal annars liggur fyrir í greinargerð með þessu frumvarpi að það val sem t.d. er boðið upp í Svíþjóð hefur ekki leitt til þess að kosningaþátttaka hafi aukist eða fleiri og fleiri hafi valið þann kost að velja eftir því kerfi sem Svíarnir hafa sett upp hvað varðar aukið persónuval.

En hvað um það, við höfum þetta frumvarp fyrir okkur og við þurfum að taka afstöðu til þess. Ég hlýddi á framsöguræðu 1. flutningsmanns frumvarpsins, hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, og ég verð að viðurkenna að hann sannfærði mig ekki um að þær aðferðir sem settar eru upp í þessu frumvarpi séu sú leið sem við eigum að fara, enda kemur fram í greinargerðinni — og hann vakti sérstaka athygli á því — að það kynnu að vera aðrir kostir í spilunum. Nefndin þyrfti að fara ofan í það hvort frumvarpið sem hv. þingmaður mælti fyrir væri þess eðlis að gera þyrfti grundvallarbreytingar á því. Ég held að allsherjarnefnd, sem fær þetta til meðferðar, þurfi svo sannarlega að skoða þetta mjög vandlega.

Um leið og ég undirstrika að ég vil taka þátt í breytingum sem auka persónuvalið, velja hina réttu leið sem við getum náð sátt um, þarf að tryggja að við séum ekki að eyða tímanum í þessa umræðu núna, um svona frumvarp sem e.t.v. liggur fyrir að komist ekki í gegnum þingið vegna þess að samkvæmt 32. gr. stjórnarskrárinnar þurfi tvo þriðju þingmanna til að samþykkja slíkar breytingar á kosningareglunum.

Það liggur fyrir lögfræðiálit innan þingsins. Í niðurstöðu þess segir að um þá breytingu á kosningalögunum sem við fjöllum um, gildi ákvæði 32. gr. um að tvo þriðju hluta atkvæða á Alþingi þurfi til að gera breytinguna. Allsherjarnefnd þarf að fara ofan í þetta og kynna sér það vandaða lögfræðiálit sem liggur fyrir innan þingsins og þarf að skoða. Við eigum ekki að standa frammi fyrir því að talið verði að við höfum breytt lögum hér sem varða kosningar til Alþingis þannig að ekki standist stjórnarskrána. Það gæti leitt til þess að kosningin yrði kærð, enda varar einn af höfundum frumvarpsins við þessu í grein í Fréttablaðinu í gær. Þar kemur fram að sú leið sem gert er ráð fyrir að farin verði í frumvarpinu, sé umdeild, það sé umdeilt hvort þetta ákvæði stjórnarskrárinnar gildi um frumvarpið. Hann gengur ekki lengra en svo en vekur athygli á að það sé umdeilt. Það segir mér að þetta þurfi að skoða alveg sérstaklega.

Annað sem var í þessu ágæta blaði sem vitnað var til og vakti reyndar athygli mína var það — sem er allt annað mál — að fram kom hjá hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að þau hafa miklar áhyggjur af því að mál gangi ekki nógu hratt fram í þinginu. Þau telja að mál gangi ekki eins og nauðsynlegt sé, eins og segir í Fréttablaðinu, svo ég vitni til þess, með leyfi forseta:

„Þá létu ráðherrar í veðri vaka að það stæði upp á þingið að hafa hraðar hendur.“

Um hvað erum við að fjalla? Erum við að fjalla um bráðnauðsynlegar aðgerðir fyrir heimilin, fyrirtækin og bankakerfið í landinu? Nei, við erum að fjalla um breytingar á kosningalöggjöfinni sem ég tel að sé nauðsynlegt að fara yfir en ég tel að það sé ekki forgangsmál sem ryðji öðrum mikilvægum málum frá og til hliðar. Ég er alveg sammála hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að við þurfum að gæta þess að þau mál sem eru mikilvæg fyrir efnahagsstöðuna í landinu og það alvarlega ástand sem hér er og er nauðsynlegt að afgreiða til að koma til móts við það ástand.

Þetta vildi ég nefna hér í framhjáhlaupi af þessu tilefni.

Hvað varðar hins vegar það frumvarp sem hér er til meðferðar tel ég að það sé mjög mikilvægt að breytingarnar feli í sér að útfærslan á kerfinu sé einföld. Ég hef miklar efasemdir um að það sé skynsamlegt að mismunandi aðferðir séu hjá flokkunum. Einn flokkur velur frambjóðendur og fastsetur á listann í prófkjöri á meðan annar flokkur býður upp á að stilla upp óraðað og lætur kjósendum eftir röðun. Ég tel að það sé ekki kostur eins og hér er gert ráð fyrir sem æskilegum möguleika. Ég tel a.m.k. að allsherjarnefnd þurfi að fara mjög vandlega ofan í þetta fyrirkomulag. Við viljum ekki hrapa að neinum breytingum sem gera framkvæmd kosninga til Alþingis Íslendinga flókna og líklega til þess að fjöldi atkvæðaseðla gæti orðið ógildur þó að sem betur fer muni fólk að sjálfsögðu kynna sér vel þær reglur sem eru í gildi.

Ég tel engu að síður mikilvægt að þetta atriði sé á þann veg að ein regla gildi um framboð allra flokkanna á Íslandi. Þá er spurningin: Hvaða aðferð er best? Það tel ég að allsherjarnefnd þurfi að skoða vandlega og er æskilegt að við finnum sameiginlega leið sem við getum samþykkt, helst samhljóða, á Alþingi. Það væri mjög af hinu vonda ef efnt yrði til mikils ófriðar um þetta mál. Ég verð að segja alveg eins og er að miðað við framsögu 1. flutningsmanns var ekki verið að gefa færi á miklum málamiðlunum þar. Fullyrt var að lögfræðiálit sem varðar 32. gr. stæðist ekki sem gerir ráð fyrir því að tveir þriðju þingmanna verði að samþykkja breytingarnar þannig að ekki var gefið neitt færi á mikilli umfjöllun eða miklum breytingum á þessu frumvarpi nema þá gjörsamlega í grundvallaratriðum.

Hæstv. forseti. Ég tel sem sagt að við þurfum að fara mjög vandlega yfir þetta og ítreka almennan stuðning minn við aukið persónuval. Ég vænti þess og vona svo sannarlega að hv. allsherjarnefnd nái að fjalla þannig um frumvarpið að við fáum aftur inn í þingið vandaða lagasmíði sem við getum sameinast um, hvort sem það verður á þessu vori eða að þeir sem hér verða áfram fái tækifæri til að afgreiða það næsta haust.



[16:56]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Efnahagshrunið sem við stöndum frammi fyrir á Íslandi í lok tæplega 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins er vissulega mikið úrlausnarefni úr að greiða og ummæli forsætisráðherra okkar, sem ekki voru kannski nákvæmlega endursögð í fjölmiðlum, lutu að því að það mundi mæða mikið á Alþingi að koma þeim fjölmörgu og brýnu björgunarmálum hér í gegn sem við vitum að þingið þarf að reyna að afgreiða áður en það fer heim í kosningar. Þau voru ekki í niðrandi merkingu sögð, heldur þvert á móti af skilningi á því að mikið mun mæða á þinginu.

En lýðræðið er líka mikilvægt og ég held að það sé líka mikilvægt verkefni að koma til móts við þjóðina og háværar kröfur hennar um aukið lýðræði sem tengist m.a. þeim atburðum sem orðið hafa á Íslandi. Að öðru leyti verð ég að segja að ég veit ekki hvort hv. þm. Sturla Böðvarsson og fyrrverandi forseti Alþingis er best manna til þess fallinn að mæra virðingu Alþingis eins og hann talar til sumra starfsbræðra sinna, t.d. í blaðagrein í dag þar sem hann segir, með leyfi forseta, eftirfarandi:

„Á mínum langa ferli í stjórnmálum hef ég ekki áður orðið vitni að öðrum eins vinnubrögðum og þeim sem Jóhanna og Steingrímur J. viðhafa á öllum sviðum. Og það er vert að minnast þess og rifja upp að þau komust til valda í skjóli ofbeldisfullra aðgerða gegn Alþingi. Aðgerða sem ráðherra Vinstri grænna hefur hreykt sér af að hafa staðið að baki og margir telja að hafi verið skipulagðar í skjóli Vinstri grænna bæði innan þingsins og utan.“

Þetta eru einhver ömurlegustu ummæli sem ég hef lengi séð frá stjórnmálamanni. Þetta eru ómagaorð, þetta eru órökstuddar og rangar dylgjur um starfsbræður hv. þingmanns í stjórnmálum og ég lýsi sérstakri skömm minni á því að Sturla Böðvarsson, hv. þingmaður og fyrrverandi forseti Alþingis, skuli leyfa sér málflutning af þessu tagi. Ég kýs að nota ræðustól á Alþingi til að lýsa skömm minni á þessum málflutningi hv. þm. Sturlu Böðvarssonar og mun ekki svara því að öðru leyti.



[16:59]
Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér sannaðist það að sannleikanum verður hver sárreiðastur þegar hlustað er á stóryrði og gífuryrði hæstv. fjármálaráðherra. Það mæðir vissulega mikið á Alþingi og það mæddi vissulega mikið á Alþingi í haust og það sem af er vetri. Ég tel að alþingismenn hafi langflestir staðið bærilega vel í fæturna og fengist við þau mikilvægu verkefni sem um er að véla á hinu háa Alþingi. Gífuryrði í garð einstakra þingmanna héðan úr ræðustól af hálfu hæstv. fjármálaráðherra vekja auðvitað athygli og þau snerta þingmenn, vissulega. En ég hvet hæstv. fjármálaráðherra, vegna þeirra orða sem hann viðhafði hér, til að kynna sér það sem bókað er í fundargerð forsætisnefndar fimmtudaginn 22. janúar sl. Þá gæti hann kannski áttað sig á því um hvað ég er að tala.



[17:00]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Forseti. Mér er nákvæmlega sama hvað er bókað í forsætisnefnd Alþingis. Ég sem formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs veit fyrir hvað sá flokkur stendur og veit að hann hefur ætíð og alltaf lagst gegn hvers kyns beitingu ofbeldis. Ég hvatti héðan úr þessum ræðustóli til þess þegar sem mestur óróleiki var í þjóðfélaginu að allir gættu stillingar og hófs og hef ævinlega og ætíð fordæmt allt ofbeldi. Það er algerlega óboðlegur óhróður sem er beint nánast að heilli ríkisstjórn og stjórnmálaflokki, tal af þessu tagi að ríkisstjórn hafi komist til valda í skjóli ofbeldisfullra aðgerða gegn Alþingi. Þetta er svo yfirgengilegur málflutningur að hann dæmir sig auðvitað algerlega sjálfur. Ég kalla það ekki gífuryrði nema þá það að vitna í hv. þm. Sturlu Böðvarsson. Það má auðvitað segja að það sé viss tegund gífuryrða að leggja það á Alþingi og ræðutíðindin að vitna orðrétt í hv. þingmann en það var það sem ég gerði. Að öðru leyti hafði ég ekki um þetta önnur orð en þau að ég lýsti skömm minni á þessum málflutning hv. þingmanns. Þetta er með því allra lágkúrulegasta og fyrirlitlegasta sem ég hef séð íslenskan stjórnmálamann lengi reyna, að fara í opinberri blaðagrein fram með þessum hætti gagnvart ríkisstjórn og stjórnmálaflokkum og starfsfélögum sínum í pólitík að ekki bara láta að því liggja, heldur nánast segja það berum orðum að menn hafi komist til valda á grundvelli ofbeldisaðgerða gegn Alþingi sem þeir hafi sjálfir skipulagt. Þetta er svo fjarri öllum veruleika og hv. þingmaður hlýtur að vita að það er alrangt, þetta er ósannur, ómaklegur og óviðeigandi óhróður sem er hv. þingmanni til sérstakrar skammar og að hann skuli kjósa að merkja starfslok sín á Alþingi með þessum hætti er auðvitað ömurlegt. Þetta heitir að enda illa, frú forseti, verð ég að segja.



[17:02]
Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli á því að hér er verið að ræða um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis þegar hæstv. fjármálaráðherra notar tækifærið til að tala með þeim hætti sem hann gerði hér og ég endurtek að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Það sannaðist hér á hæstv. fjármálaráðherra sem hefur leyft sér að veitast með þeim hætti sem hann gerði að þingmanni. Hv. þingmaður og hæstv. ráðherra sem hefur staðið hér í ræðustól á þinginu og notað orðbragð og framgöngu og látbragð sem enginn annar þingmaður hefur leyft sér (JM: Jú, Ögmundur Jónasson.) svo ég þekki til. Úr háum söðli hefur sá þingmaður og hæstv. ráðherra ekki að detta. (Fjmrh.: Ég hef aldrei verið víttur á Alþingi.)



[17:04]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessi hv. þingmaður sem hér talaði síðast, Sturla Böðvarsson, var eitt sinn forseti Alþingis, fram til 1. febrúar sl. Svo kemur hann núna sem almennur þingmaður og hefur áhyggjur af því að það þurfi að skoða mál það sem hér er til umræðu nokkuð betur vegna þess að einhver hafi sagt að það kynni að brjóta í bága við stjórnarskrá. Má ég rifja upp og biðja hv. þingmann að rifja upp viðbrögð sín við þeim varnaðarorðum sem flutt voru á Alþingi 11. desember sl. þegar sýnt var að það var verið að brjóta stjórnarskrána með því að taka af mönnum lögvarðan rétt til þess að fara í mál við gömlu bankana.

Við þessu var varað í ræðustól á Alþingi. Við þessu var varað í nefndarálitum. Við þessu var varað á skrifstofu forseta Alþingis eins og upplýst hefur verið hér í þingsölum þegar hv. þm. Atli Gíslason gekk á fund þess sem þá var forseti og hér talaði áðan. Og hvað skyldi þessi hv. þingmaður hafa gert til þess að gæta virðingar Alþingis þegar stjórnarskráin er annars vegar? Nákvæmlega ekki neitt. Svo líða 2 mánuðir og 9. febrúar sl. fellur dómur í héraðsdómi: Þessi lög brjóta gegn stjórnarskránni. Þess vegna er það, frú forseti, að nú er verið að reyna að bæta fyrir þessi afglöp sem þáverandi forseti Alþingis átti auðvitað að stöðva en hafði ekki manndóm í sér til.



[17:05]
Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og oft áður virðist sannleikurinn ekki vera nærri hv. þingmanni sem hér talaði. Hún talaði hér um tiltekið frumvarp sem hv. viðskiptanefnd var með til meðferðar. Það er alveg rétt að við áttum ágætan fund, við hv. þm. Atli Gíslason, þar sem hann fór yfir málefnin og ræddi um þau atriði sem hann vildi nefna sérstaklega og vara við. Það er rangt hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, eins og margt annað sem frá henni kemur, að þáverandi forseti Alþingis hafi ekki brugðist við. Hann brást við, fundaði með formanni nefndarinnar og starfsmönnum þingsins sem unnu á nefndasviði að þessu máli og óskaði eftir því að farið yrði ofan í málið að nýju. Það var niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að þess gerðist ekki þörf vegna þess að á leiðinni væru frekari breytingar á þessum lögum og það væri gert ráð fyrir því að nefndin flytti breytingar á þessari löggjöf sem tryggði þá stöðu sem nauðsynlegt væri að tryggja.

Ég vísa algerlega til föðurhúsanna fullyrðingum og stóryrðum hv. þingmanns í minn garð.



[17:07]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í nefndaráliti sem hv. þm. Atli Gíslason lagði fram vegna þeirra laga sem ég hef hér tekið til umræðu og brjóta gegn stjórnarskránni segir, með leyfi forseta:

„Þar er breytingartillaga við 2. gr. tekin upp 116. gr. gjaldþrotaskiptalaga án þess að lögfesta um leið ákvæði 117. gr. Með því er tekinn af stjórnarskrárbundinn réttur einstaklinga og lögaðila til að leita til dómstóla um ágreining auk annarra frávika.“

Stjórnarskrárbundinn réttur einstaklinga og lögaðila af þeim tekinn. Það var á hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að heyra að það væri allt í lagi að brjóta stjórnarskrána, svona í bili ef bara önnur lagasmíð væri í farvatninu sem mundi leiðrétta það innan tíðar. Það var niðurstaða hans sem hann lýsti hér áðan sem forseti Alþingis í því máli. Það er nákvæmlega það sem ég sagði, hér fóru lögin í gegn þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir og hefur nú verið staðfest fyrir dómi að voru lögleysa og stjórnarskrárbrot.

Hv. þingmaður verður ekkert maður að meiri þó að hann beri á mig lygar og ég ætla hvorki að kveinka mér undan því né vísa því til föðurhúsanna vegna þess að ég tel þennan hv. þingmann ekki marktækan í þeim efnum.



[17:08]
Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi umræða er auðvitað komin út á nokkuð sérstakan og mjög hálan ís af hálfu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur. (Gripið fram í.) Út af fyrir sig er það er ekkert nýtt að í þinginu standi deilur um áhrif frumvarpa eða laga sem verið er að … (ÁI: … dómurinn kom.) eða laga sem hér hafa verið afgreidd. Þarna stendur tiltekin deila og ég held að það sé langeðlilegast að hv. þingmaður sem nú gegnir þeirri ábyrgðarmiklu stöðu að vera formaður viðskiptanefndar taki til við að vinna að þessu máli sem hv. þingmaður talar hér um. (Gripið fram í.) Nú hefur hún tækifæri til þess, hún hafði það líka meðan málið var afgreitt í gegnum samstarfsmann hennar, en það er algerlega rangt að forseti Alþingis þá hafi ekki brugðist við með þeim eðlilega hætti sem forseti getur gert með því að beina til viðkomandi nefndar að skoða málið að nýju.

Ég vísa þessum stóryrðum öllum til föðurhúsanna og vænti þess að hv. þingmaður kynni sér málin betur áður en rokið er upp með þeim orðum og þeirri orðræðu sem hér var viðhöfð.



[17:10]
Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér er á dagskrá mál sem varðar grundvallaratriði í því hvernig við kjósum í þessu landi. Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að það sé rætt en þá ber svo við að næstum enginn stjórnarsinni er í salnum og þeir sem eru í salnum taka til við að tala um eitthvað allt annað en þetta mál snýst um. Af hverju vill enginn þeirra tala við okkur um það mál sem hér er verið að ræða, af hverju vilja menn ekki gera það? (EBS: Við komumst ekki að, þið eruð svo mörg á mælendaskrá.) Af hverju vilja menn ekki tala um að þetta frumvarp, hugsanlega, ef menn fallast ekki á að það þurfi aukinn meiri hluta, er þá líka brot á stjórnarskránni? Af hverju vill enginn tala um það, hvernig stendur á því að menn koma hér og ráðast á einstaka menn út af allt öðru máli en því sem hér á að ræða? Af hverju megum við ekki tala um þetta frumvarp sem snýr að grundvallaratriði í þessu landi? Og aftur á morgun, stjórnarskráin, ætlar enginn að vera viðstaddur þá? Ætlar enginn að taka þátt í þeirri umræðu? Hvað á þetta eiginlega að þýða?



[17:11]Útbýting:

[17:12]
Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Mismunandi sjónarmið kunna að vera um það hver séu brýnustu verkefnin sem standa eigi í við þær aðstæður sem við búum við í dag. Það liggur fyrir að frumvarpið sem hér er til umræðu, um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis, var sett í ákveðinn forgang við umræðu í gær. Jafnframt er ákveðið að hér skuli halda áfram og reyna að klára þá umræðu sem um er að ræða.

Ég hefði talið að það væru mörg önnur brýnni mál sem Alþingi þyrfti að sinna heldur en einmitt þetta frumvarp á þessum tíma. Ég hefði talið að brýnna væri að sinna málum sem varða hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu heldur en það frumvarp sem hér er um að ræða. Ég skal ekki orðlengja það heldur fjalla um efni þessa frumvarps og hver séu brýnustu verkefnin varðandi breytingar á kosningalögum og stjórnarskrá.

Mesta óréttlætið sem við búum við í dag hvað kosningalög varðar er sú staðreynd að kosningarréttur landsmanna er ekki jafn. Um er að ræða að verulegur munur er á atkvæðum fólks. Það munar allt að helmingi á vægi atkvæðis hvers kjósanda.

Í stjórnarskránni, 31. gr., er kveðið á um eftirfarandi:

„Ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, eru eftir alþingiskosningar helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi skal landskjörstjórn breyta fjölda þingsæta í kjördæmum í því skyni að draga úr þeim mun. Setja skal nánari fyrirmæli um þetta í lög.“

Þessi ákvæði er að finna í kosningalögum, í 8. gr. En mismunun er lögfest. Í stjórnarskrá lýðveldisins er lögfest óréttlæti þess efnis að allt að helmingsmunur skuli vera á milli kjósenda, þ.e. að kjósendur í ákveðnum kjördæmum skuli hafa helmingi meira atkvæðavægi en kjósendur í öðrum kjördæmum. Það er óviðunandi óréttlæti að ekki skuli hafa verið hægt að þurrka þetta í burtu og miða við það að kjósendur hafi allir sama rétt, einn maður eitt atkvæði. Það er grundvallaratriði og grundvallarforsenda lýðræðis. Það hefði verið það brýnasta sem hefði þurft að gera varðandi breytingar á stjórnarskrá, varðandi breytingar á kosningalögum, að koma á jafnrétti og jafnræði fólksins í landinu þannig að hver maður hefði eitt atkvæði óháð því hvar hann býr í landinu.

Þetta er spurningin um lýðkjör. Og það er nú einu sinni þannig að mannréttindi og kosningarréttur eru ekki fyrir fermílur, fjöll, akra eða engi heldur fyrir fólk. Fólk á að hafa sömu mannréttindi, sömu lýðréttindi, óháð því hvar það býr á landinu. Þess vegna er brýnt að koma á breytingum á kosningalögum og stjórnarskrá hvað þetta varðar. Það er forgangsatriði sem ætti að vera til umræðu varðandi breytingar á kosningalögum og komi fram breytingar á stjórnarskipunarlögum er það forgangsatriði að koma á jöfnuði milli kjósenda í landinu.

Það frumvarp sem hér er til umræðu fjallar um það að heimilað sé að bjóða fram óraðaða framboðslista. Þrátt fyrir að í greinargerð sé talað um að færi gefist á persónukjöri í kosningum og talað um óraðaða framboðslista þá eru þeir í raun ekki óraðaðir. Þeir eru raðaðir miðað við ákvæði lagafrumvarpsins, þeir eru raðaðir eftir stafrófsröð. Hins vegar er um það að ræða að hlutað er til um það hvar byrjað er í stafrófsröðinni, og það er í sjálfu sér ekki óraðaður listi.

Ef hluta ætti til um það og listi væri óraðaður væri í raun verið að miða við að hlutað væri til um hvert einasta sæti. Það væri þá miklu eðlilegra en að hafa þann hátt á sem frumvarpið gerir ráð fyrir þar sem eingöngu er hlutað til einu sinni og síðan raðast stafrófsröðin áfram eftir það, þ.e. í staðinn fyrir hugsanlega að byrja á A þá byrja menn á G eða S og síðan í beinu framhaldi þangað til komið er að — með svipuðum hætti og iðulega er við nafnakall hér í kosningum á Alþingi.

Það eru nokkur atriði sem tæknilega eru ágalli á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er í 2. gr. talað um það að ef kemur fram listi þar sem fleiri nöfn eru á en kjósa skal skuli hluta til um þau nöfn sem skulu felld á brott. Þá eru menn komnir út í það að teningur ráði kasti um það hvort viðkomandi sé í framboði eða ekki. Nú er sá háttur á ef um er að ræða slíka hluti þá eru það þeir sem aftastir eru sem falla brott af listanum en þarna gæti það þess vegna verið í tölvutæku formi hver væri í framboði fyrir viðkomandi framboð, þannig að það væri þurrkað út eftir atvikum svo sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Þá er verið að tala um það að yfirkjörstjórn skuli tölusetja nöfn eftir stafrófsröð og hluta síðan um það hver skuli vera efstur á listanum. Eins og ég vísaði til hér áðan þá er það spurning: Af hverju ekki að hluta til um alla?

Fyrir liggur að ef þessi háttur yrði að veruleika væri um óskaplega flókinn hlut að ræða. Það væri erfitt fyrir kjósandann að átta sig — það væri erfitt að lesa í vilja kjósandans þegar um slíka hluti er að ræða sem hér er lagt til og spurningin er hver ávinningurinn eigi að verða.

Fólk skipar sér í stjórnmálaflokka og stjórnmálasamtök og ágreiningur er um það hverjir séu líklegastir til að geta verið bestu málsvarar viðkomandi stjórnmálasamtaka eða stjórnmálaflokka. Stjórnmálaflokkarnir hafa fullt leyfi til þess að ákveða það með hvaða hætti þeir velja fulltrúa sína og gera það með mismunandi hætti. Sumir með prófkjörum, aðrir með því að stilla upp af trúnaðarmannaráði og/eða sérstökum kjörstjórnum. Í sjálfu sér getur það allt saman verið gott og blessað. Spurningin gæti kannski verið um það að koma í veg fyrir að of mikið flokksræði myndist í því lýðræðiskerfi sem við búum við.

Það er ákveðið viðfangsefni að berjast gegn flokksræðinu og reyna að tryggja sem frjálsasta stöðu þeirra sem starfa innan stjórnmálaflokka en ekki er verið að leysa úr því viðfangsefni með því sem hér um ræðir. Miklu frekar er verið að búa til vandamál sem hægt er að vera laus við. (PHB: Það er verið að auka það.) Það er verið að auka við vandamálið. Í sjálfu sér verður ekki séð að það leysi eitt eða neitt eða sé líklegt til að koma á skilvirkara lýðræði í landinu eða líklegra til þess að koma á meiri festu í stjórnarframkvæmd.

Ég skoðaði athugasemdir í greinargerð við frumvarpið og leitaði að því hvort einhver fordæmi væru nefnd um það að nokkur svona skipan væri til staðar í þeim lýðræðislöndum sem við eigum einhvern skyldleika við. Og svo er ekki. Það er verið að nefna það að t.d. í Finnlandi og í Danmörku hafi menn heimildir til þess að breyta töluröð á listum og geti, auk þess að kjósa flokkslista, kosið sérstakan frambjóðanda. Það er í sjálfu sér allra góðra gjalda vert. Það er spurning hvort ekki væri ástæða til að skoða slíkar breytingar á kosningalögum þannig að menn sem njóta sérstakra persónuvinsælda gætu hugsanlega náð kjöri þó að þeir væru kannski ekki skráðir ofarlega á þeim flokkslista sem þeir eiga sæti á.

Mig minnir að í einu tilviki í Danmörku hafi t.d. komið til þess, af því þar eru reglur um útstrikanir og breytingar á listum með öðrum hætti en hér — þetta er nú sagt allt eftir minni — að í borgarstjórnarkosningum í einni útborg Kaupmannahafnar hafi maður sem var í heiðurssætinu, sem var fyrrverandi formaður danska Íhaldsflokksins, verið færður efst og verið kosinn í borgarstjórnina þvert gegn vilja sínum. Kjósendur vildu færa manninn í heiðurssætinu í fyrsta sætið.

Í sjálfu sér væri það góðra gjalda vert að skoða breytingar á kosningalögum hvað þetta varðar. En ekki er verið að gera það hér. Hér er verið að leggja til algjöran rugling í því hvernig stilla eigi upp. Ég get ómögulega samþykkt að það horfi til neinna framfara eða aukins eða bætts lýðræðis í landinu.

Ef menn vildu skoða breytingar sem gætu hamlað flokksræði og væru líklegar til þess að koma á öðrum hlutum en þeim sem hér er um að ræða er til miklu virkari leið til þess og það er að gera breytingar á 43. gr., sbr. 32. gr. kosningalaganna. Í 43. gr. kosningalaganna eru nefnilega ákveðin ákvæði sem mönnum sést oft yfir og hafa gleymt. Í 2. mgr. 43. gr. laga um kosningar segir, með leyfi forseta:

„Nú hafa stjórnmálasamtök fleiri lista en einn í sama kjördæmi og skal þá merkja þá A, AA …, B, BB … o.s.frv. eftir því sem við á.“

Þannig að heimild er til þess fyrir flokksmenn að bera fram fleiri en einn lista. Þannig gætu t.d. framsóknarmenn borið fram tvo lista í Reykjavíkurkjördæmi norður. Sjálfstæðismenn gætu þess vegna borið fram þrjá lista, D, DD og DDD, í einhverju öðru kjördæmi o.s.frv.

Vandamálið í sambandi við þetta kemur fram í 32. gr., lokamálsgreininni þar, með leyfi forseta:

„Ef sá sem ákveður framboðslista eða staðfestir hann endanlega samkvæmt reglum stjórnmálasamtaka ber fram mótmæli gegn því að listi sé í framboði fyrir þau samtök skal úrskurða að slíkur framboðslisti teljist ekki vera í framboði fyrir þau.“

Segja má að þarna hafi verið sett inn óeðlilegt ákvæði og eðlilegra hefði verið að gera kröfu til þess að þeir sem vildu bera fram lista í nafni flokks væru þá löglega skráðir flokksmenn í flokkinn.

Á sínum tíma þegar umræður voru um kosningalög, og um þetta ákvæði sérstaklega, þ.e. 24. apríl 1959, sagði þáverandi formaður stjórnarskrárnefndar, Bjarni Benediktsson, í framsöguræðu sinni fyrir meirihlutaáliti þeirrar nefndar sem um þetta fjallaði, með leyfi forseta:

„Ef margir eru í kjöri, fimm eða sex, og kosið hlutfallskosningu þá er ljóst í fyrsta lagi að kjósandinn getur valið um fleiri menn á hverjum lista og er ekki bundinn við þá röðun sem er á listanum þegar hann er lagður fram af flokkssamtökunum. En eins verður þá að muna að minni áhætta er fyrir óánægða flokksmenn að bera fram sérstakan lista ef hlutfallskosningar eru vegna þess að þá er líklegt að meiri líkur séu til þess að minni hlutinn geti komið að sínum manni og þó klofningur verði í flokki þurfi það ekki að leiða til þess að sætið glatist alveg heldur geti af tveimur mismunandi flokkslistum jafnvel tveir mismunandi menn verið valdir.“

Hann heldur síðan áfram, með leyfi forseta:

„Þetta aukna frjálsræði kjósenda sést berlega af tali manna um það að þessari skipun sé sérstaklega fylgjandi hætta á smáflokkum. Sú hætta er í raun og veru ekki annað en það að kjósendur megi sjálfir velja þann sem þeim líkar. Sumir kalla það hættu. Aðrir kalla það aukið frjálsræði.“

Kosningalögin búa til og geyma heimildir fyrir mjög miklu frjálsræði hvað þetta varðar. Þess vegna á sú breytingartillaga sem hér er verið að tala um á kosningalögunum ekki erindi og skiptir í sjálfu sér ekki öðru máli en því að valda ákveðnum ruglingi. Ekki er tekið á því sem mestu máli skiptir, að þurrka út ójöfnuðinn milli landsmanna, þannig að einn maður hafi eitt atkvæði. Í öðru lagi skiptir það engu máli, flokksræðið verður eftir sem áður ríkjandi.



[17:27]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mjög góðar umræður hafa verið um lýðræðið og hvernig hægt er að koma áhrifum kjósenda í gegnum flokka til Alþingis þannig að krafa þjóðarinnar eða þeirra fjöldasamkunda sem hafa verið hérna í vetur um að menn hafi meiri áhrif á Alþingi næði fram að ganga.

Það er ekki einfalt að koma því við að hinn almenni kjósandi hafi áhrif á þá einstaklinga sem skipa á endanum Alþingi Íslendinga. Menn hafa reynt margar aðferðir. Við höfum verið með alls konar kerfi. Ég tek undir það sem hv. þm. Jón Magnússon sagði áðan um misvægi í atkvæðavægi. Það er náttúrlega í reynd ólíðandi og ég tek undir með honum að það er mikið mál að sumir kjósendur hafi hálft atkvæði og aðrir kjósendur hafi fullt atkvæði eftir því hvar þeir búa á landinu. Það er náttúrlega eitthvað sem þyrfti kannski að laga fyrst og fremst. Þetta hef ég bent á mörgum sinnum í gegnum tíðina.

Hvernig komum við svo vilja kjósenda í gegnum flokkapólitíkina inn á Alþingi? Eins og ég gat um er það ekki einfalt. Menn mynda jú flokka vegna þess að þeir hafa sameiginlega stefnu, sameiginlega lífssýn í meginmálum. Það er alrangt sem sumir halda að þeir sem eru í einhverjum einum flokki séu allir með sömu skoðun og sömu lífssýn. Í meginmálum standa þeir saman í sinni stefnu.

Það frumvarp sem við ræðum nú gengur út frá því að flokkar geti boðið fram annars vegar raðaða lista og hins vegar óraðaða lista. Þá er hugsunin væntanlega sú að í óröðuðum lista hafi kjósandinn val um hvaða menn skipi þann lista og það er hárrétt. Spurningin sem skilin er eftir er: Hvað gerist með hina röðuðu listana, hvernig voru þeir valdir? Var það flokksstjórnin sem tók ein ákvörðun um það einhvers staðar í bakherbergjum, e.t.v. eftir heilmikla umræðu fram og til baka eða var það gert í prófkjöri?

Nú vill svo til að minn flokkur hefur í gegnum tíðina verið flokka duglegastur að stunda raunveruleg prófkjör meðal flokksmanna sinna sem segir það að flokksmenn flokksins hafa heilmikið um það að segja hvernig listi flokksins er uppbyggður á meðan aðrir flokkar hafa verið með tilnefningar og einhverja nefnd sem raðar á listann sem er á margan hátt mjög ólýðræðislegt.

Það sem gert er ráð fyrir hér er að annars vegar verði þetta raðaður listi sem hugsanlega er valinn með prófkjöri og hins vegar listi sem valinn er í lokuðum herbergjum, sem sagt ekkert prófkjör og engin áhrif kjósandans, hvorki flokksmannsins né annarra á þann lista. Síðan verði annar flokkur af óröðuðum listum þar sem fólk getur kosið. Þar kemur hins vegar vandamál sem ekki er tekið á og ekki rætt almennilega um. Ef við tökum t.d. Sjálfstæðisflokkinn, þar væru mjög margir sem mundu vilja bjóða sig fram, segjum 100 manns, hvernig á að velja þá úr? Ef menn gæta ekki að sér og setja of marga á listann verður hreinlega með hlutkesti einhver fjöldi tekinn út af þeim svo að fjöldinn verði réttur á endanum. Það finnst mér eiginlega vera sísta lýðræðið, frú forseti, af þessu öllu, það er eiginlega það sísta. Flokkur sem lendir í því að 100 manns vilji bjóða sig fram yrði væntanlega að hafa prófkjör eða beita annarri aðferð til að lenda ekki í því að besta fólkið á listanum yrði kannski vinsað úr með hlutkesti, sem yrði náttúrlega versta niðurstaðan. Ef mjög margir bjóða sig fram enda menn í rauninni með svipað kerfi og áður, þ.e. annaðhvort yrði prófkjör sem raðar mönnum á lista eða einhver nefnd raðar mönnum á lista. Svo koma kjósendur aftur og endurraða þeim sama lista. Það getur því dálítið skrýtin niðurstaða komið út úr því. Þetta er eitthvað sem þarf að ræða mjög nákvæmlega því að menn mega ekki kastað til þessa höndum.

Menn hafa líka bent á að það að breyta kosningalögum svona stuttu fyrir kosningar — ekki er langt í kosningar, þær eiga að vera 25. apríl að því er sagt er, ekki er búið að ákveða það — sé mjög ólýðræðislegt. Margir flokkar eru t.d. búnir að ákveða prófkjör, sumir eru meira að segja búnir að tilnefna fólk. Vinstri grænir eru búnir að tilnefna sína menn í einu kjördæmi og mjög hæpið að sá flokkur færi í því kjördæmi að koma með óraðaðan lista, það yrði mjög skrýtið, frú forseti. Menn hefðu hugsanlega hegðað sér öðruvísi ef lagafrumvarpið hefði legið fyrir áður. Þá hefðu þeir hugsanlega komið með óraðaðan lista því að þeir hefðu viljað láta kjósendur hafa meiri áhrif á listann.

Þarna komum við aftur að því hvort það sé yfirleitt tækt að samþykkja frumvarp svona rétt fyrir kosningar. Ég átti fund í morgun með fulltrúum frá ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, þar sem þeir eru að skoða væntanlegar kosningar. Þetta er eitt af þeim atriðum sem þeim hefur verið bent á og eru þeir að skoða hvort það sé tækt. Sú niðurstaða mun væntanlega liggja fyrir nokkuð fljótlega án þess að ég sé nokkuð að segja að hún sé á neinn hátt bindandi.

Ég er hins vegar ekki mjög hrifinn af frumvarpinu að því leyti til að þegar þingmenn hafa farið í prófkjör vita þeir að það er mjög hatrömm barátta, því miður. Það má eiginlega segja að í ferlinu rekist menn aldrei á persónulega baráttu nema í prófkjörum og eins náttúrlega þegar verið er að stilla upp lista, þá geri ég ráð fyrir að það séu líka ansi mikil átök og sárindi. Út úr prófkjörum koma oft því miður leiðindi og sárindi. Þeir sem tapa sætta sig ekki við það og kenna fólki um óheiðarleg vinnubrögð, þetta þekkjum við úr öllum þeim prófkjörum sem hafa verið hér á landi, mörg dæmi hafa komið upp. Ég tel að mjög mikilvægt sé að slík sárindi séu að mestu leyti lögð til hliðar fyrir kosningar og dálítill tími líði frá prófkjöri og þar til kosningar verða einmitt til þess að flokkurinn geti farið heilsteyptur í kosningar. Að afstöðnum kosningum þarf að mynda ríkisstjórn og menn geta lent í því að ef mikil sárindi eru gæti orðið virkilega erfitt bæði milli flokka og innan flokks að koma saman heilsteyptu liði.

Eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir, þ.e. að flytja prófkjörin inn á kosningadaginn, eru menn ekki bara að slást á milli flokka heldur er þeir að slást innbyrðis, innan þess flokks sem er með óraðaðan lista. Það getur skaðað þann flokk heilmikið og í raun eyðilagt lýðræðið. Ég tel að menn hafi ekki hugsað það alveg til enda og þeir sem hafi hannað þetta séu kannski ekki alveg með það á hreinu hvernig svona prófkjör fara fram og hvað þau geta valdið miklum sárindum og leiðindum. Ef t.d. allir listar væru óraðaðir mundu kosningarnar felast í því að menn væru að berjast milli flokka en líka innan flokkanna. Það mundi allt dynja í auglýsingum: Kjósið Jón á lista A o.s.frv. Þetta yrði því dálítið skrýtin staða.

Það sem ég hef látið mér detta í hug til þess að leysa þennan vanda er að flokkarnir hefðu sameiginlegt prófkjör, t.d. þrem eða fjórum mánuðum fyrir kosningar, þar sem við komum í veg fyrir það að kjósendur séu að hafa áhrif á fólk á öðrum listum, eins og hefur komið fram í sumum bæjarfélögum, t.d. á Siglufirði. Þar held ég að 100% bæjarbúa hafi kosið í öllum prófkjörum sem þar voru haldin, sem þýddi að fólk blandaði sér inn í uppstillingu á listum sem það ætlaði ekkert að kjósa. Það væri miklu skynsamlegra að hafa bara eitt sameiginlegt prófkjör í hverju kjördæmi. Þá mundu menn fyrst velja sér lista og svo gætu þeir raðað innan þess lista og 100 manns gætu verið á listanum þess vegna, eða eins og í Reykjavík, 29 manns hjá sjálfstæðismönnum. Mér litist miklu betur á slíkt fyrirkomulag að sameiginlegt prófkjör yrði hjá öllum flokkunum. Síðan gætu menn farið í venjulega hefðbundna kosningabaráttu og haft til þess góðan tíma og menn væru búnir að vinna á sárindunum að mestu leyti þegar kemur að kosningum.

Þegar menn ræða um svona kosningafyrirkomulag hljóta menn að velta vöngum yfir því og margir hafa spurt: Hvernig stendur á því að tvö kjördæmi eru í Reykjavík? Hvernig stendur á því að við erum með sex kjördæmi á landinu og sum þeirra óskaplega stór og önnur miklu minni, af hverju er þetta svona? Þá vil ég rifja upp að þetta er ákveðin málamiðlun á milli þess að hafa landið allt eitt kjördæmi, eins og sumir, sérstaklega í Samfylkingunni, tala um, að hafa landið allt sem eitt kjördæmi og sjá það sem eina lausn á öllum vanda. Það mundi örugglega jafna atkvæðisréttinn, það er ekki spurning, og laga hann heilmikið. En það mundi gera flokksræðið miklu sterkara vegna þess að þá væri það einn flokkur sem raðar á allt landið og miðin. Sá efsti á sínum lista yrði mjög sterkur, yrði efstur yfir allt landið. Hann væri alveg gefinn forsætisráðherra, það þarf ekki að ræða það neitt frekar. Sá sem yrði númer tvö, þrjú og fjögur yrði mjög sterkur einstaklingur í flokknum. Kjósendur hefðu því miklu minna val um einstaklingana. Nú erum við með sex kjördæmi og sex einstaklingar eru valdir númer eitt í kjördæmunum. Með því að hafa sex kjördæmi hefur kjósandinn meira val um einstaklingana en ef allt landið væri eitt kjördæmi og flokksræðið vex.

Hinar öfgarnar eru einstaklingskjördæmi, það yrðu 63 einstaklingskjördæmi þar sem kosið yrði um einn þingmann úr hverju kjördæmi. Það hefur hins vegar afskaplega mikla ókosti og jaðrar við að það sé ekki einu sinni lýðræði vegna þess að flokkur sem er með tiltölulega lítið fylgi, t.d. eins og í Bretlandi 20–30%, gæti orðið undir í öllum kjördæmum og fengi ekki einn einasta mann. Annar flokkur sem er með 55% atkvæði í öllum kjördæmunum fengi alla menn, alla þessa 63. Það sem meira er, hver einasti þingmaður yrði mjög sterkur einstaklingur og gæti orðið erfiður í samvinnu vegna þess að hann þyrfti ekki að óttast neitt nema kjósendur sína í því litla kjördæmi. Flokksræðið yrði því nánast núll en einstaklingshyggjan mjög sterk.

Til að finna lausn á þessum tveimur öfgum sem ég nefndi — landið allt eitt kjördæmi, sem þýðir mikið flokksræði og lítil áhrif kjósenda á efstu menn, því að allt landið mundi kjósa þá, og hins vegar einmenningskjördæmi — þá er umrædd leið valin, þ.e. sex kjördæmi. Því kemur sú furðulega staða upp að Reykjavík er skipt í tvö kjördæmi sem skipt er eftir Miklubrautinni og nánast tilviljun sem virðist ráða því hvorum megin kjördæmis menn liggja.

Ég vildi rétt aðeins, frú forseti, koma inn á þetta til að upplýsa hvernig þessi staða er. Það er alltaf mjög erfitt að láta hinn almenna kjósanda hafa áhrif á endanlegan lista. Það sem við hv. þingmenn þurfum kannski að vinna mest á er einmitt flokksræðið sem mér finnst vera allt of sterkt. Það er eitthvað sem þingið þarf virkilega að fara að vinna í, að auka veg Alþingis. Ég hef svo sem mörgum sinnum bent á að það er eiginlega ekkert frumvarp sem Alþingi samþykkir samið af þingmönnum sjálfum og ég vil breyta því. Ég vil að nefndir þingsins semji frumvörp. Ég vil líka að ráðherrar séu ekki þingmenn, þeir séu ekki bæði að greiða atkvæði á löggjafarsamkundunni og vera um leið framkvæmdarvald.



[17:42]Útbýting:

[17:43]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Afsakið biðina en ég tók á stökk utan úr húsi þegar ég frétti að komið væri að mér eða þeir ekki komnir sem á undan mér voru á mælendaskránni. Ég ætla ekki að tala lengi eða a.m.k. ekki svona í byrjun. En ég vil segja að kosningalöggjöf, kosningakerfi eru með þeim hætti að vinnu við þau er í raun og veru aldrei lokið eins og stundum er sagt um hagstjórnina, um efnahagsmálin þegar þeim er líkt við heimilisstörfin, við uppþvott og matargerð. Kosningakerfi í lýðræðisríki, þó að það gangi í sjálfu sér vel, þarf að laga að breyttum aðstæðum, að því samfélagi sem sífellt er á hreyfingu og að vilja almennings, vilja fólksins í landinu, þess lýðs sem ræður hverju sinni eða á hvaða tíma. Þetta merkir ekki að heppilegt sé að breyta kosningakerfi eða löggjöf þegar mönnum dettur í hug, þegar vindar blása í einhverjar áttir en það er eðlilegt að á ákveðnum fresti sé farið yfir þetta, kjörnir fulltrúar geri það eftir umræðu eða samfara umræðu meðal almennings.

Aðstæður okkar nú eru óvenjulegar og sá endurómur sem í eyru mín hefur borið af umræðu um þetta mál, einkum sjálfstæðismanna, hefur vakið mér furðu því mér virðast þeir ekki hafa áttað sig á því hversu margt hefur breyst undanfarnar vikur og mánuði, hversu djúp áhrif bankahrunið, gjaldeyriskreppan og sá lífskjaraskjálfti sem varð í september og október og enn stendur yfir, hversu djúp áhrif hann hefur haft á alla hugsun manna hér á landi. Hann hefur m.a. hrundið því fram og gerði mjög fljótt að það verði að breyta kosningalöggjöfinni og kosningareglunum og þótt auðvitað séu margir menn í umræðu eða á fundum ekki á einu máli um það er alveg augljóst í hvaða átt það hefur stefnt. Það hefur stefnt í þá átt að minnka vægi flokkanna, flokksvélanna, hinna einstöku forustumanna flokkanna á löggjafarstörf og framkvæmdarvald í landinu og auka vægi kjósenda sjálfra, auka vægi almennings, gera lýðræðið beinna, gefa fólki rétt á því að velja meira en það getur með núverandi löggjöf hér á landi. Það hafa, í ákaflega stuttu máli, verið miklar vísbendingar, athugasemdir og kröfur uppi um að auka vald hvers einstaks kjósanda þannig að hann sé ekki bundinn við að kjósa fyrst og fremst bókstaf, kjósa lista, heldur geti hann líka valið einstaklinga. Í stuttu máli gengur það frumvarp sem hér er til umræðu út á það að færa kosningalöggjöf okkar í þá átt án þess þó að kollvarpa stjórnarskránni eða gera breytingar á stjórnarskránni sem ekki er tækifæri til hér eða kollvarpa þeirri almennu skipan sem við höfum haft nokkuð langan tíma.

Menn hafa haft það á móti þessu frumvarpi og fært það fram í umræðunni að ekki sé gott að gera miklar breytingar og það er auðvitað von að menn komi úr Sjálfstæðisflokknum og segi það. Sjálfstæðisflokkurinn var búinn til á sínum tíma — var það ekki árið 1929, segi ég og horfi á Ellert Schram hv. þm. og félaga minn úr Samfylkingunni, sem ætti að þekkja það frá sínum ungu árum? Og hann kinkar kolli. Sjálfstæðisflokkurinn var búinn þannig til árið 1929 að tveir flokkar sameinuðust, annar nánast smáflokkur sem hét Frjálslyndi flokkurinn og hinn stór flokkur sem hét Íhaldsflokkurinn. Það er ekki nema von að íhaldsmenn komi hér og neiti öllum breytingum og telji þær til skaða og óþurftar því að það er hlutverk íhaldsmanna. Það er út af fyrir sig ágætt hlutverk í hinni stöðugu og eilífu deilu í samfélaginu á milli íhaldsmanna og nýjungamanna, milli þess sem á frönsku er kallað „les modernes“ og „les anciens“ og kenndir eru við stjórnmáladeilur í franskri fortíð.

Á hinn bóginn verður að segja það við íhaldsmenn að í íslenskri kosningalöggjöf höfum við þrátt fyrir allt farið nokkuð mikið yfir, farið nokkuð um víðan völl. Alþingi hófst með einmenningskjördæmum og í þeim einmenningskjördæmum var hreint persónukjör. Menn voru ekki merktir flokkum og skipuðust í flokka á þinginu eftir skoðunum sínum og viðhorfum og afstöðu til einstakra mála og það er eins og flestir vita ekki fyrr en í lok 19. aldar sem til verður einhvers konar flokkakerfi eftir afstöðunni til sjálfstæðismálsins og síðan myndast flokkakerfi sem í mjög stórum dráttum ríkir enn. Það myndast á tímum iðnvæðingar á Íslandi, verkalýðsbaráttu og stéttastríðs, og árið 1916 er oft nefnt í tengslum við það. Það flokkakerfi sem þá myndaðist og sem má í stórum dráttum telja hið sama, stéttaflokkakerfið, þó að sá tími sé liðinn, hefur líka búið við ýmsa skipan í kosningalöggjöf og væri auðvitað vert að fara yfir það en það er ekki tilgangur minn hér heldur að sýna að við höfum sennilega verið nokkuð breytingagjörn miðað við sögu ýmissa annarra þjóða í þessum efnum.

Þá vil ég líka taka fram að það er rétt hjá íhaldsmönnum að það borgar sig ekki að vera með miklar stökkbreytingar í þessum málum. Ég held að það frumvarp sem hér er rætt uppfylli þetta tvennt, sérstaklega með því að gefa þeim framboðum sem það vilja færi á því að haga sér eins og þau hafa gert með því að flokkar bjóði fram lista sem er raðað á þann hátt sem við þekkjum og kjósandi hafi þá möguleika gagnvart þeim lista sem hann hefur haft undanfarið, þ.e. að strika yfir mann eða breyta röð manna með því vægi sem það hefur þannig að þeir sem ekkert vilja gera þurfa ekki að gera neitt. Flokkarnir eða framboðin geta sett fram lista eins og þeir hafa verið og kjósendur sem þá vilja kjósa ganga að þeim lista og gera það við hann sem þeim sýnist.

Önnur framboð sem vilja stíga þetta skref til aukinna áhrifa kjósenda og til meira persónukjörs í kosningunum sjálfum — því að innan sviga verður að segja það hér að vöntuninni á persónukjöri í kosningunum sjálfum hefur verið mætt eða úr henni hefur verið bætt með sínum hætti í prófkjörum sem við höfum af ýmsa reynslu og þau framboð sem vilja þetta geta þá gert þetta, þ.e. boðið fram óraðaða lista eða, sem er auðvitað einn kosturinn í viðbót, boðið fram lista sem í sjálfu sér er óraðaður nema með þeim hætti að í þeim felst leiðbeining fyrir kjósendur um stefnu framboðsins í þessum efnum.

Ég held, forseti, að á tímum eins og þessum eigi maður — og þá er ég kannski ekki að tala um pólitík heldur um kraftana inni í manni sjálfum — ekki að láta eftir íhaldsmanninum í sér, sem alltaf er til og er hollur og góður og varar við og gætir að því að ekki sé rasað um ráð fram, heldur eigi maður að þora, maður eigi að beita hugrekki sínu og virkja nýjungagirnina og stíga skrefið fram á við þó að maður viti ekki alveg, það sé ekki alveg hægt að reikna út með stærðfræðilegri nákvæmni hvert það leiðir.

Ég hef þannig nokkuð snúist í afstöðu minni til persónukjörsins því að ég viðurkenni að í fyrstu var ég tregur að ganga svona langt og sjálfsagt að ég upplýsi hvers vegna það var. Það var ekki vegna þess út af fyrir sig að ég vantreysti kjósendunum heldur einkum vegna þess að mér ógnaði það hvernig framboð gæti orðið sem færi á óraðaðan lista, hvernig það mundi geta orðið að prófkjör bættust við í kosningunum sjálfum þannig að þetta færi fram á sama tíma. Ég held að úr þeim galla verði leyst. Ég held að flokkarnir og kjósendur þeirra, fjölmiðlarnir og aðrir þeir sem koma við sögu í stjórnmálabaráttu leysi úr þessum málum eins og alltaf gerist. Ég held t.d. að svarið við þessum ótta mínum um að prófkjörin færist inn í flokkaframboðin sjálf sé ósköp einfaldlega þannig að ef framboð er svo veikt og svo óburðugt að boðskapur þess til kjósenda spillist með því að frambjóðendur séu að olnboga sig hver fram fyrir annan sé það framboð ósköp einfaldlega ekki þess virði að það nái miklum áhrifum í kosningunum. Ég held að viðbrögð frambjóðendanna eða framboðsins, flokksins, ef ég má nota það nafn — ég geri þá skilgreiningu að það þurfi ekki endilega að vera stjórnmálaflokkur heldur aðili sem býður fram — að viðbrögð hans yrðu annaðhvort þau að auka agavald yfir frambjóðendum þannig að þeir höguðu sér með verðugum hætti gagnvart kjósendum eða þá að frambjóðendurnir mundu sameinast af tillitssemi við málstaðinn um að þetta sé ósköp einfaldlega val kjósendanna og menn gæti ákveðins jafnræðis sín á milli í framboðunum.

Önnur rök sem auðvitað er vert að skoða varða kjósendur sjálfa. Það er auðvitað góð regla og gullin að reyna að hafa hlutina eins einfalda og hægt er, að nota sum sé ekki þá meintu þýsku reglu að hafa hlutina eins flókna og mögulegt er heldur einmitt á hinn veginn. Við höfum búið við tiltölulega einfalt kosningakerfi að okkur finnst vegna þess að við erum vön því. En það er ákaflega auðvelt að finna kosningakerfi sem okkur finnast flókin, kosningalöggjöf sem við skiljum ekkert í við hraða yfirsýn. Þó er það þannig að Danir og Írar, þannig að maður nefni bara þær þjóðir, Þjóðverjar og aðrar grannþjóðir okkar hafa búið við slíka kosningalöggjöf áratugum saman og enn er lýðræði í þeim löndum og kjósendur kvarta ekki heldur venja sig á að skoða þá kosti sem fyrir hendi eru og taka þátt í þeim kosningum eins og ekkert sé. Og þó að Þjóðverjar, Danir og Írar séu gott fólk eru þeir ekki svo miklu gáfaðri en Íslendingar að við getum ekki að einhverju leyti skoðað fleiri kosti í kosningalöggjöf okkar en nú finnast þó að ég sé ekki að mæla með flækju eins og t.d. er í írska kosningakerfinu, m.a. vegna þess að sú flækja dregur nokkuð úr spennu í kosningunum og þar koma úrslit ekki í ljós fyrir en mörgum dögum seinna.

Ég gæti haldið áfram með ýmsar athugasemdir af þessu tagi. Þegar ég skoða frumvarpið í heild sinni, eins og maður á að gera við 1. umr. um mál í þinginu, finnast mér þær allar frekar léttvægar. Stóru spurningarnar eru þessar: Ætlar þingið að láta undan þeirri kröfu í landinu að áhrif kjósenda verði aukin og dregið úr vægi flokkanna um leið? Ætlar þingið að klára mál sem það sjálft hefur auðvitað rætt heillengi eða ætlar það að láta fallast niður í tregðulögmálið og reyna eins og kostur er að láta eins og hér hafi ekkert gerst í september, október, nóvember, desember og janúar í mesta bankahruni og mestu efnahagslægð Íslandssögunnar?



[17:58]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég gekk í salinn áðan og hv. þm. Mörður Árnason var að gæla við þá hugmynd að hleypa út íhaldsmanninum í sjálfum sér varð ég glaður og vonaði að hann tæki sæmilega íhaldssama afstöðu til þess máls sem hér liggur fyrir en svo virðist þó ekki vera. Þetta segi ég vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að hæfileg íhaldssemi sé nauðsynleg varðandi leikreglur um kosningalög. Kosningalög eru þess eðlis að þau eiga ekki að taka tíðum breytingum, þau eiga að vera aðgengileg og þekkt og breytingar eiga að gerast með góðum fyrirvara áður en kemur til kosninga. Ég held að um þetta hljóti flestir að vera sammála.

Það eru tvö önnur atriði í máli hv. þm. Marðar Árnasonar sem ég ætlaði að víkja að. Annars vegar það atriði sem hann nefndi varðandi samspil persónukjörs og kosninga, hættuna á því að prófkjör færist inn í kosningar. Mér fannst hv. þingmaður skauta heldur létt yfir þann þátt vegna þess að við verðum auðvitað að horfa á það að kosningarnar ganga ekki einungis út á það að velja flokka heldur líka að velja fólk og þeir sem eru í framboði eru auðvitað að berjast fyrir því að ná kjöri sjálfir, þess vegna fara þeir í framboð, flestir. Það er óeðlilegt og ekki raunsætt að ætla að persónukjörið muni ekki leiða til þess að það komi til blóðugra átaka milli manna sem ella væru samherjar alveg fram á kjördag eins og gerist oft í prófkjörum í dag.

Þetta held ég að menn verði að hafa í huga. Persónukjör hefur ýmsa kosti (Forseti hringir.) en menn verða líka að huga að göllunum og fara vel yfir málið áður en ákvarðanir eru teknar.



[18:00]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Ég held, forseti, að í hverjum manni takist á eitthvað sem Frakkar mundu kalla „les modernes“ og „les anciens“ og stundum komi þeir tímar að það sé rétt að nýjungamaðurinn, framfaramaðurinn eða hvað við viljum kalla það, hafi betur og stundum komi þeir tímar að það sé gott að halda heldur fastar utan um íhaldsmanninn.

Núna held ég að séu þeir tímar að við eigum að vera óhrædd við að stíga skrefið ef við eigum að vera hugrökk. Og ef við ætlum ekki að breyta þeim hlutum sem við núna höfum á borðinu að breyta, ef við ætlum ekki að gera það núna, þá spyr ég sjálfan mig: Hvenær á að gera það? Við kunnum söguna, ég og hv. þm. Birgir Ármannsson sem er vel að sér í stjórnarskrármálum og kosningalöggjöf, og vitum að það hefur gengið mjög erfiðlega að breyta þessum hlutum og þeim er yfirleitt ekki breytt fyrr en í óefni er komið. Ég tel að núna sé rétti tíminn til að stíga það skref.

Um prófkjör og kosningar er það að segja að ég ósköp einfaldlega treysti á þroska framboðanna og endurtek að ég held að óeining og sundurlyndi meðal frambjóðenda á sama lista, ef þeir eru á barkanum hver á öðrum ef svo má segja, mundi skemma fyrir þeim gagnvart kjósendum. Það mundi minnka kjörfylgi þeirra og þeir ættu þá ekki annað skilið en það að aðrir kæmust að sem sýna meiri þroska, meiri samstöðu og virða meira málstað sinn en persónulegan metnað.



[18:02]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Mörður Árnason er bjartsýnismaður eins og kom fram í andsvari hans. Það má vel vera að hann hafi rétt fyrir sér. Ég hef hins vegar ekki trú á öðru og geri ekki ráð fyrir öðru en að þingmenn og aðrir frambjóðendur til Alþingis muni keppa, ekki bara á flokksforsendum heldur líka á eigin forsendum og það getur leitt til þess ástands sem ég vék að í fyrra andsvari mínu.

Varðandi það að nú sé tíminn til breytinga, sem kom fram í svari hv. þm. Marðar Árnasonar, þá velti ég því fyrir mér hvort það sé skynsamlegt að ganga til breytinga af þessu tagi í einhverju skyndi. Ég spyr: Ef raunverulegur áhugi er í samfélaginu á því að auka vægi persónukjörs, gera menn þá ráð fyrir að sá áhugi verði dottinn niður í sumar eða haust? Er það þá mikill áhugi?

Ég held að við eigum að horfa á það að taka tíma í svona breytingar. Við eigum ekki að rjúka til í einhverju óðagoti og ákveða breytingar jafnvel þótt krafa sé um það í þjóðfélaginu. Krafa sem reyndar hefur ekki verið mæld með neinum hætti svo ég viti til, krafa sem hefur ekki komið fram með neinum hætti í kosningum. Hvorki flokkur hv. þm. Marðar Árnasonar né aðrir flokkar sem eiga sæti á þingi börðust fyrir persónukjöri þegar kom til alþingiskosninga síðast. Kjósendur hafa aldrei sagt sína skoðun. Væri ekki heppilegra, hv. þm. Mörður Árnason, að þeir flokkar sem vilja koma á persónukjöri hér á landi með einhverjum hætti útskýri hugmyndir sínar fyrir kjósendum í næstu kosningum og vinni síðan að breytingum af yfirvegun á grundvelli (Forseti hringir.) þeirra kosningaúrslita?



[18:05]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Birgir Ármannsson, hv. þingmaður, er svartsýnn íhaldsmaður og ég virði fullkomlega þá lífsafstöðu. Svartsýnn íhaldsmaður var líka afi Péturs í Pétri og úlfinum sem bannaði honum að horfa á heiminn fyrir utan múrinn. Pétur óhlýðnaðist því banni og því er ekki að neita að Pétur lenti í nokkru ævintýri við það, en ef hann hefði ekki farið yfir múrinn, ef hann hefði látið svartsýna íhaldsmanninn, afa sinn, ráða þá ættum við heldur ekki hið ágæta tónverk Pétur og úlfinn.

Nú væri þetta eiginlega nægt svar. En til að hugga hinn svartsýna íhaldsmann, Birgi Ármannsson, og hv. þingmenn félaga hans þá er það þeim til upplýsingar að segja að þeir geta haldið áfram að höfða til svartsýnna íhaldsmanna í hópi íslenskra kjósenda með því að bjóða fram lista á nákvæmlega sama hátt og þeir hafa gert hingað til. En við bjartsýnir framfarasinnar höfðum til okkar kjósenda og bjóðum þeim að taka þátt í nýjum tímum og persónukjöri með okkur.



[18:06]
Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég hleyp hér nánast í skarðið fyrir 1. flutningsmann þessa frumvarps, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem hefur fjarvistarleyfi í dag og hefur ekki getað verið viðstaddur þessa umræðu. Þar sem ég geri ráð fyrir að nú sé að renna upp að mælendaskrá sé lokað og hún sé tæmd, þá vildi ég aðeins í niðurlagi þessarar umræðu fara nokkrum orðum um frumvarpið án þess að það verði í löngu máli gert.

Þetta frumvarp til laga, um breytingar á lögum um kosningar, er flutt af fulltrúum fjögurra flokka, þ.e. Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins. Andstaðan gagnvart frumvarpinu hefur fyrst og fremst og nær eingöngu komið úr röðum Sjálfstæðisflokksins. Helstu rök talsmanna þess flokks eru þau að þetta beri of brátt að og það þurfi að bíða og skoða og átta sig betur á frumvarpinu og afleiðingum þess. Út af fyrir sig eru það réttmætar athugasemdir en þá verða menn líka að átta sig á að þetta er ekkert venjulegt ástand sem við upplifum og það er kannski fyrst og fremst ástæðan fyrir því að þetta frumvarp er flutt núna.

Frumvarpið er afsprengi þess hruns sem átti sér stað í þjóðfélaginu og þess áfalls sem öll þjóðin hefur orðið fyrir. Spurt hefur verið hver beri sökina á hruninu og hvar sökudólgarnir séu. Þó að ég ætli ekki að fara að benda á neinn slíkan þá liggur auðvitað ábyrgðin einhvers staðar, ekki endilega hjá einhverri tiltekinni stofnun eða einhverjum einum eða tveimur einstaklingum heldur er um að ræða pólitíska ábyrgð sem sést best á því að ýmsir alþingismenn hafa undanfarna daga beðist opinberlega formlegrar afsökunar vegna þess að þeir hafi kannski ekki staðið vaktina. Þeir hafi verið of sjálfumglaðir og værukærir og eftir atvikum flokkshollir.

Í raun og veru eru menn að segja með þessum afsökunarbeiðnum að þeir hafi látið þetta yfir sig ganga af því að þeir treystu á að flokkurinn þeirra mundi fylgjast með þessu. Þeir eru að viðurkenna ráðherraræðið og að þeir hafi verið leiðitamir í þingstörfum sínum gagnvart forustu viðkomandi flokka. Er ég þá ekki að varpa sök eða tala um einhvern sérstakan flokk í því sambandi.

Þessar játningar fela það raunverulega í sér að fólk er að viðurkenna það sem hefur líka vakið reiði á götum úti, að flokkarnir hafi haft of sterk tök bæði í þinginu og hjá framkvæmdarvaldinu. Gegn þessu flokksræði hafa menn verið að bregðast, enda held ég að óhætt sé að segja að undirtektir undir það séu hjá þjóðinni allri. Hún reis upp gegn þessu flokksræði og hefur gert kröfur um að brjóta það niður. Þingmenn sem hér sitja hafa í raun og veru líka viðurkennt þennan sannleika og þessa staðreynd.

Í þessu andrúmslofti og við þessar kringumstæður er frumvarpið flutt, til að bregðast við og bjóða upp á aðrar aðferðir til að kjósa fólk inn á Alþingi. Menn eru að bjóða flokksræðinu byrginn og þegar gerð er tillaga um persónulegt kjör í þingkosningum í þá átt sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir að þá er verið að svara þessu kalli.

Það má að sjálfsögðu endalaust velta því fyrir sér hvort þetta frumvarp sé nægilega þroskað. Ég held hins vegar að það sé afar vel unnið og sé raunhæf aðferð til að taka upp nýjar aðferðir til kjörs til Alþingis ef menn eru á annað borð sammála um að breytinga sé þörf. Hér er um það að ræða að boðið er upp á það að flokkar geti bæði haldið uppi gamla fyrirkomulaginu með að stilla upp röðuðum lista og svo valið hinn kostinn að stilla upp óröðuðum lista og þá er það bara val hvers og eins flokks hvaða aðferð hann notar.

Uppstilling óraðaðra lista er engin nýlunda. Það hefur verið prófað og reynt í öðrum löndum, kannski með misjöfnum árangri. Þetta er viðurkennd aðferð þar sem jafnvel er gengið enn þá lengra og kjósendum boðið upp á að krossa við lista A en merkja svo kannski við frambjóðendur á lista B. Þannig er gengið mun lengra en gert er þó í þessu frumvarpi.

Ég lýsi stuðningi mínum við að þetta frumvarp nái fram að ganga. Ég reikna með að það verði vandlega skoðað í nefnd og þar verði svarað ýmsum þeim efasemdum og spurningum sem fram hafa komið í þessari umræðu og eiga eftir atvikum allar meira og minna rétt á sér. Grundvallaratriðið er að þarna er verið að opna fyrir leið til að nálgast kjósendur og draga úr flokksræðinu.

Fjórir þingflokkar af fimm standa að frumvarpinu. Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa miklar efasemdir um að þetta sé tímabært en þá er svarið einfaldlega það að Sjálfstæðisflokkurinn getur einn og sér ákveðið að halda sig við gamla fyrirkomulagið, að stilla upp röðuðum lista og gera þá kröfu til kjósenda sem vilja krossa við Sjálfstæðisflokkinn að þeir samþykki þá uppröðun sem flokkurinn hefur ákveðið, annaðhvort með uppstillingum eða með prófkosningum. Það verður þá ákvörðun hvers og eins flokks. Nú hafa flestir ef ekki allir stjórnmálaflokkarnir boðað til forkosninga og prófkosninga og jafnvel þó að slíkar kosningar fari fram getur hver og einn flokkur ákveðið fyrir sig hvort hann heldur sig við þá listauppstillingu sem samþykkt verður í slíkum kosningum eða hvort hann breyti því og bjóði óraðað.

Mér finnst frumvarpið tímabært vegna þess að það er svar við þeim viðbrögðum sem hrunið hefur leitt af sér í þjóðfélaginu. Kjarni málsins er sá að verið er að bregðast við og gegn flokksræði og færa völdin til kjósenda í vaxandi mæli og að því leyti er verið að gera þá kröfu til alþingismanna og þeirra sem veljast inn á þing að þeir láti hvorki flokkshollustuna né ráðherraræðið stjórna sínum störfum og standi sína vakt og séu ekki eins leiðitamir og fyrirrennarar þeirra hafa sumir hverjir viðurkennt að þeir voru.

Herra forseti. Ég held að ég þurfi ekki að hafa þessa ræðu lengri. Ég tel að hér sé um að ræða hið ágætasta mál, frumvarp sem hefur verið vel unnið og ég mælist til þess að það fái góða meðferð og athugun í nefnd og verði síðan látið á það reyna hvort það náist fram sem samþykkt lög áður en þessu þingi lýkur.



[18:15]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Til að fyrirbyggja allan misskilning vil ég taka fram að mér finnst áhugavert að skoða hugmyndir um hvernig auka megi vægi persónukjörs í sambandi við kosningar. Ég held að okkur þingmönnum beri skylda til að skoða mismunandi kosti í því sambandi og tel að það hefði átt að gera áður en komið var fram með frumvarp á elleftu stundu, ef svo má segja, og mönnum stillt upp við vegg og sagt: Takið þetta og samþykkið eða verið á móti. Ég held að það hefði verið miklu eðlilegri aðdragandi að máli af þessu tagi.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi í sambandi við flokksræðið get ég vel tekið undir þá hugsun sem kom fram í orðum hans að í sjálfu sér sé jákvætt að auka vægi og ábyrgð þingmanna sjálfra, þá hugsanlega með einhverri útfærslu á persónukjöri og draga þannig úr flokksræði.

Í flokki hv. þm. Ellerts B. Schrams er flokksræðið með þeim hætti að prófkjör er haldið og tilkynnt á blaðamannafundi tveggja stjórnmálamanna hverjir lendi í fyrsta, öðru og þriðja sæti. Þannig að hv. þingmenn verða svolítið að líta í eigin barm þegar þeir tala um flokksræði.

Hv. þingmaður ætlaði ekki að undanskilja neinn flokk og því held ég að hann hafi að hluta til verið að hugsa um sinn eigin flokk í þessu sambandi.

Athugasemdir mínar og margra annarra sjálfstæðismanna lúta fyrst og fremst að því að ekki eigi að koma með breytingar á kosningalögunum (Forseti hringir.) á elleftu stundu, heldur undirbúa þær vel og í sátt.



[18:17]
Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að karpa við hv. ágætan þingmann Birgi Ármannsson fram eftir kvöldi. Ég vil vísa því á bug að flokksræði sé meira í Samfylkingunni eða yfirleitt þar. Enda þótt einhverjir tveir eða þrír forustumenn flokksins hafi tilkynnt að þeir gefi kost á sér í fyrsta, annað eða þriðja sæti liggur það í orðunum að þeir ganga ekki út frá því sem vísu að þau sæti falli þeim í skaut heldur er um að ræða tilkynningu um það, eins og gerist líka í Sjálfstæðisflokknum, að menn bjóða sig fram í tiltekin sæti og svo reynir á hvort þeir ná þeim eða ekki.

Ég get ítrekað það sem ég reyndar hélt að hefði komið fram í máli mínu áðan að vissulega hefði þetta mál um breytingar á kosningalögum þurft lengri aðdraganda og meiri tíma og þurft að þroskast í höndum okkar. Ég get alveg tekið undir að þetta ber brátt að.

En það er svo margt óvanalegt í þjóðfélaginu um þessar mundir og svo margt þarf að gera og ég held að nauðsynlegt sé að bregðast sem allra fyrst við mjög mörgu sem upp á borðið hefur komið vegna þess að tafir í þessum efnum í fjögur ár leiða kannski til þess að ekkert verður gert þegar frá líður.

Nú tökumst við á við það sem við höfum meira og minna öll viðurkennt að flokksræðið hefur verið ráðandi hér. Við erum að reyna að draga úr því og þetta er mjög áhrifarík aðferð til þess að ná upp sjálfstæði alþingismanna og Alþingis á kostnað þess flokksræðis sem því miður hefur m.a. leitt af sér þetta mikla hrun sem við stöndum frammi fyrir.



[18:19]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi komið að kjarna málsins þegar hann talaði um að það ástand sem hefur skapast í þjóðfélaginu á undanförnum mánuðum kalli á ýmsar aðgerðir og breytingar. Ég held að þetta frumvarp um breytingar á kosningalögum sé mjög aftarlega í röðinni þegar horft er til þeirra verkefna sem nauðsynlegt er að grípa til bæði hér á þingi og á vettvangi ríkisstjórnar.

Ég er þeirrar skoðunar að á þeim skamma tíma, í raun og veru örfáum þingdögum, sem eftir eru fram að kosningum sé miklu mikilvægara að vinna að verkefnum sem lúta að hagsmunum fyrirtækja og heimila og tryggja að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki. Tryggja að hér verði ekki fjöldagjaldþrot og fjöldaatvinnuleysi. Ég held að það séu miklu mikilvægari verkefni sem ættu frekar að vera í forgangi en breytingar á kosningalögunum.

Varðandi það hvort nú sé rétti tíminn til breytinga er ég þeirrar skoðunar að ef, eins og ég kom að í andsvari við hv. þm. Mörð Árnason hér áðan, raunverulegur áhugi er hjá kjósendum og stjórnmálamönnum til að gera breytingar í þessa veru með því að auka með einhverjum hætti vægi persónukjörs og gera hugsanlega aðrar breytingar sem lúta að stjórnskipun landsins held ég að sá áhugi verði ekki dottinn niður í maí eða júní. Ég held að sá áhugi hljóti að lifa og ég spyr hvort ástæða sé til að taka ákvarðanir í þessum efnum, hvort sem er um kosningalög eða stjórnskipan, í tilfinningaróti eftir erfiða reynslu og hrun á fjármálamarkaðnum. Er rétt að taka slíkar ákvarðanir af óyfirveguðu máli með skömmum undirbúningi og eftir skamman tíma hér í þinginu?



[18:22]
Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað þarf þingið að taka á þeim stóru málum sem snúa að heimilunum og atvinnulífinu. Það er líka gert og hér hafa verið umræður og afgreiðslur á ágætum málum í allan dag og verða næstu daga.

En þetta er ekki spurning um annaðhvort/eða heldur um bæði/og að sinna þeim bráðaúrræðum sem snúa að heimilum og fyrirtækjum og líka að bregðast við þeirri lýðræðislegu kröfu sem gerð er til Alþingis og stjórnmálaflokkanna um breytingar á vinnulagi og skipulagi. Ég held að ekki þurfi að setja þetta í einhverja forgangsröð. Þetta eru allt saman mjög mikilvæg verkefni. Við höfum alveg tíma og þrek til þess að sinna hvoru tveggja.

Ég geri ekki lítið úr því að endurskoða þurfi lýðræðisreglurnar og stjórnmálin af jafnmikilli alvöru og við tökumst á við erfiðleika sem snúa að heimilum og fyrirtækjum. Það er krafa um það og nauðsyn á því að við breytum hugsunarhætti okkar og aðkomu að þeim störfum sem við höfum tekið að okkur þannig að stjórnmálamenn standi vaktina og láti ekki svona ófarir og ósköp yfir sig ganga, svo lengi sem við sjálfir lifum og þjóðin heldur sjálfstæði sínu.



[18:23]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Í upphafi vil ég víkja að aðdraganda málsins. Aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa gert það fyrr í umræðunni, en mér finnst samt sem áður þörf á að víkja að því að þetta mál er unnið og borið fram af minnihlutastjórn í landinu, reyndar með aðkomu Frjálslynda flokksins og Framsóknarflokksins. En það er unnið alfarið af hálfu ríkisstjórnarinnar, öðrum flokkum var boðið að vera með en þeir höfðu ekki áhrif á þá vinnu sem lá að baki frumvarpinu.

Þetta er harla óvenjulegt vegna þess að hingað til, alla vega undanfarna áratugi, hafa breytingar á kosningalögum verið unnar í sátt eða að minnsta kosti með tilraunum til að ná víðtækri sátt um slíkar breytingar. Þetta er mikilvægt vegna þess í stjórnmálum skiptir máli að leikreglur séu skýrar og stjórnmálamennirnir geti einbeitt sér að því að deila um málefnin en þurfi ekki stöðugt að deila um leikreglurnar. Því legg ég áherslu á að farið verði í breytingar af þessu tagi af varfærni. Það finnst mér ekki gert í aðdraganda þessa máls og undirbúningi.

Rétt er að minna á það að ríkisstjórnin sem nú situr tók við völdum um mánaðamótin janúar/febrúar og ákvað þegar að boða til kosninga 25. apríl. Það segir sig sjálft að á þeim tíma sem líður á milli 1. febrúar og 25. apríl þarf ríkisstjórn að forgangsraða. Nú hefur komið fram að ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti samþykkt um það bil 30 þingmál, frumvörp og þingsályktunartillögur, sem hún hefur í hyggju að senda eða hefur þegar sent hingað í þingið. Af þessum málum snúa níu að hagsmunum fyrirtækja og heimila, níu af 30, 21 mál snýr að einhverju öðru.

Nú hefði ég haldið að ríkisstjórnin legði allt kapp á að fá þessi níu mál afgreidd á þeim skamma tíma sem er til stefnu í þinginu. Tími sem er skammur, einmitt vegna þess að þessi sama ríkisstjórn ákvað að efna til kosninga jafnskjótt og raun ber vitni. Það skiptir máli að hafa þetta í huga.

En í stað þess að leggja þessa forgangsröðun til grundvallar þegar mál koma hér inn í þingið, eins og ríkisstjórnin gerir þegar hún lýsir níu af málum sínum sem málum í þágu heimila og fyrirtækja, dembir hún ýmsum öðrum málum hér inn fyrirvaralaust eða fyrirvaralítið sem hún leggur mikið kapp á að koma í gegn. Auðvitað hlýtur það að hafa áhrif á framgang annarra mála. Auðvitað er rétt hjá hv. þm. Ellerti B. Schram sem talaði hér áðan að þingmenn geta tekið á honum stóra sínum og unnið vel á skömmum tíma.

Mér finnst það hins vegar ekki bera vott um rétta eða skynsamlega forgangsröðun eða skynsamleg vinnubrögð að ætla á örskömmum tíma að fara í gegn með, ekki bara þau mál sem eru brýn vegna þess bráða vanda sem við er að stríða í efnahagsmálum, heldur ýmis önnur áhugamál hv. þingmanna og ráðherra ríkisstjórnarflokkanna, eins og það mál sem hér liggur fyrir.

Það segir sig sjálft að ekki er hægt að gera allt. Tíminn er knappur. Tíminn er stuttur. Það er ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna sjálfra að boða til kosninga með svo skömmum fyrirvara og auðvitað verða þeir að gera sér grein fyrir því að þeir geta ekki komið öllu því í verk sem þeir helst vildu.

Þetta finnst mér rétt að taka fram og að ítreka það sem áður hefur komið fram um að ekki hefur verið um að ræða pólitískt samráð um þessar breytingar. Flokkunum hefur verið stillt upp við vegg, tillögurnar hafa verið tilbúnar af hálfu ríkisstjórnarinnar og lagðar á borðið fyrir menn og spurt: Eruð þið með eða eruð þið á móti? Ekki hefur verið um eðlilegt samráð að ræða, þar sem allir hafa komið að borðinu og getað komið sjónarmiðum sínum á framfæri.

Að þessu sögðu vil ég ítreka það sem ég sagði áðan í andsvari að hugmyndir um persónukjör og ýmsar breytingar á kosningalögunum eru góðra gjalda verðar. Ég er alls ekki andvígur því að taka slíkar hugmyndir til umræðu. Ég tel að þær geti verið skynsamlegar. Ég hef sjálfur oft velt fyrir mér ýmsum möguleikum í því sambandi, bæði kerfi á borð við það sem við sjáum í nágrannalöndunum, mismunandi kerfi á milli landa, Danmerkur, Svíþjóðar, Þýskalands, Írlands og fleiri landa. Þetta eru mismunandi leiðir og ég hef oft velt fyrir mér hvort betra væri að koma svipuðu kerfi á hér.

Ég játa það líka að ég hef stundum velt fyrir mér kostum þess að hafa hér einmenningskjördæmi. Það eru kostir og gallar við slíkt fyrirkomulag. En mér finnst að í raun og veru sé það líka spurning sem við þurfum að velta fyrir okkur í því sambandi.

Það sem er að gerast í þessu máli er ekki að mismunandi valkostir hafi verið lagðir á borðið, vegnir og metnir og kostir og gallar skoðaðir — því ekkert kerfi er fullkomið. Það hefur ekki verið gert. Ekki hefur verið horft á mismunandi möguleika og reynt að velja þann besta eða þann sem mest sátt gæti náðst um. Einn kostur er tekinn og honum skellt á borðið og því lýst yfir að fara eigi með hann í gegnum þingið á örskömmum tíma, burt séð frá því hvort um það næst samstaða eða ekki. Það er ekki gott.

Ég held að miklu betra vinnulag væri að ríkisstjórnin og við sem sitjum hér á þingi einbeittum okkur að því næstu vikur að klára og gera vel úr garði þau mál sem hafa raunverulega þýðingu til að bregðast við þeim efnahagsvanda sem við eigum við að stríða. Ég held að við ættum að kynna þau mál fyrir kjósendum og velta því kannski fyrst fyrir í okkar röðum hvað við viljum gera í sambandi við breytingar á kosningalögum og stjórnskipun. Ræða það á landsfundum sem eru fram undan í flestum flokkum. Ég held að við ættum að fara í slíka stefnumótun, leggja síðan stefnu okkar í þeim málum á borðið fyrir kjósendur og gefa þeim kost á að segja skoðun sína. Því þegar talað er um kröfu í samfélaginu byggir það á einhverri mjög ómarkvissri tilfinningu sem ekki hefur verið hægt að færa sönnur á með neinum hætti.

Talandi um þessa tilfinningu í samfélaginu er vissulega rétt að í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað í landinu á síðustu mánuðum hafa margir nefnt aukið vægi persónukjörs sem breytingu sem menn vilja skoða. Gott og vel. En liggur fyrir að leiðin sem ríkisstjórnin býður hér upp á sé sú sem fólk vill fara? Ég hef heyrt í fjölmörgum hörðum áhugamönnum um persónukjör sem vilja fara allt aðrar leiðir, t.d. þá að hægt sé að velja fólk af mismunandi framboðslistum. Þar er gengið töluvert lengra en í þessu frumvarpi. Ef ætlun ríkisstjórnarinnar er að bregðast við einhverri kröfu í samfélaginu held ég að margir úti í samfélaginu sem hafi gert kröfu um persónukjör verði fyrir vonbrigðum þegar þeir kynna sér hvað í frumvarpinu felst.

En nóg um það. Ég tel að mikilvægt sé og rétta leiðin til að nálgast þetta mál að flokkarnir móti stefnu sína í þessu máli. Flokkarnir og önnur framboð sem eru að koma fram móti stefnu sína í þessum málum, leggi hana fyrir kjósendur og sjái hvaða fylgi þau sjónarmið fá í kosningum. Það er eina raunverulega mælingin sem við höfum á vilja kjósenda.

Það hefur raunar verið þannig að undanförnu í samfélaginu að alveg ótrúlega margir og mismunandi hópar og einstaklingar hafa talið sig geta talað fyrir hönd þjóðarinnar í mismunandi málum. Menn sem efna til funda úti og inni og skrifa á internetið með ýmsum hætti telja sig tala í nafni þjóðarinnar fram og til baka. Það er dálítið erfitt að átta sig á hver þjóðarviljinn er ef þau mismunandi sjónarmið sem koma fram hjá þeim eru skoðuð.

En hvernig mælum við þjóðarviljann? Hann hlýtur að vera mældur í kosningum, sem eru hinn eini raunverulegi mælikvarði sem skiptir máli í þessu sambandi.

Í ljósi þess hve skammt er til kosninga er eðlilega nálgunin sú að flokkarnir móti stefnu í þessum málum, leggi hana á borðið fyrir kjósendur og ef kjósendur leggja mikið upp úr því að ná fram breytingum af þessu tagi hljóta þeir að láta það hafa áhrif á sig þegar þeir ganga að kjörborðinu. Vilji kjósenda ætti því að endurspeglast í niðurstöðum kosninganna. Þannig held ég að betra væri að nálgast málið og raunar líka þær stjórnarskrárbreytingar sem við munum ræða í þinginu á morgun. Í stað þess að rjúka til á örfáum vikum og klára einhver mál í bullandi ósætti væri rétt að flokkarnir bæru stefnu sína í þessum málum undir kjósendur og ynnu síðan áfram að framgangi þeirra á grundvelli kosningaúrslitanna. Ég held að það væri mun vitrænni leið.

Eins og fram hefur komið í umræðunni hefur persónukjör sem slíkt bæði kosti og galla. Kosturinn er sá að með auknu vægi persónukjörs styrkist staða stjórnmálamannanna sem slíkra, en um leið eykst í raun ábyrgð þeirra. Þeir þurfa að standa frammi fyrir kjósendum sjálfir og geta ekki falið sig með sama hætti á bak við flokka sína eins og kannski hefur oft gerst. Meiri líkur eru á því að beint og milliliðalaust samband náist á milli kjósenda og þingmanna en ella.

Þetta eru kostirnir. Gallarnir eru hins vegar, eins og hefur komið fram í umræðunni, m.a. fólgnir í því að aukið vægi persónukjörs getur flækt kosningalöggjöfina og kosningaathöfnina sjálfa og almennt er viðurkennt í þeim fræðum að til bóta sé að hafa kosningar og kosningafyrirkomulag einfalt og auðskiljanlegt til að allir kjósendur geti gengið að því, ekki bara þeir sem fylgjast vel með eða eru með einhverjum hætti virkir þátttakendur eða áhorfendur að stjórnmálabaráttunni frá degi til dags.

Annar galli er auðvitað sá sem við ræddum hér áðan, ég og hv. þm. Mörður Árnason, að raunveruleg hætta er á því að sú barátta sem fer nú fram í prófkjörum og hefur vissulega marga galla færist fram á kjördag, standi allan tímann fram á kjördag og einstakir frambjóðendur verði önnum kafnir og uppteknir af því að koma sjálfum sér á framfæri alveg fram undir það síðasta. Það gerir kosningabaráttuna miklu flóknari og erfiðari en þegar flokkarnir hafa útkljáð framboðsmál innan sinna raða áður en kosningabaráttan sjálf hefst. Menn geta þá skipt verkum, stillt upp og samræmt stefnu sína áður en baráttan hefst þannig að kjósendur hafi við slíkar aðstæður skýrari valkosti hvað stefnumál varðar þótt þeir hafi minni valkosti hvað einstaklinga varðar.

Þetta eru allt saman þættir sem þarf að hafa í huga. Ég held að grundvallaratriðið í málinu sé einfaldlega þetta. Við eigum ekki að breyta kosningalögum örfáum vikum fyrir kjördag. Við eigum ekki að breyta leikreglunum þegar leikurinn er hafinn. Við eigum að undirbúa slíkar breytingar vel, velta fyrir okkur mismunandi kostum, vega og meta kosti og galla ólíkra leiða.

Ég vil hins vegar ljúka máli mínu með því að segja að ég hef raunverulegan áhuga á því að skoða þessi mál. Ég tel að mjög margir hv. þingmenn hafi áhuga á því líka. Það heyri ég í mínum flokki og í öðrum flokkum. Menn vilja vinna sig áfram í þessum málum, skoða mismunandi kosti og ræða þá og gera breytingar sem menn ná samkomulagi um. En sú aðferðafræði og sú aðferð sem ríkisstjórnin býður upp á í þessu máli er að mínu mati algerlega ótæk.



[18:38]
Björn Bjarnason (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að þessi aðferð við að leggja fram frumvarp til laga, um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis, er með öllu ótæk. Ekki er unnt að búast við því að á síðustu vikunum fyrir kosningar fari fram umræður um mál sem þetta á þeim grunni sem þarf til þess að víðtæk sátt myndist um málið.

Þegar ég les frumvarpið, virðulegi forseti, og greinargerðina með því sé ég að engin stjórnmálaviðhorf koma fram varðandi málið. Ekki virðist hafa farið fram nein umræða um málið á vettvangi stjórnmálanna á þann veg að færð séu stjórnmálaleg rök fyrir því að þetta sé gert. Þvert á móti hafa komið að ágætir menn, fræðimenn, sem hafa um árabil fjallað um kosningalöggjöfina og verið ráðgjafar nefnda stjórnmálamanna úr öllum flokkum, nefnda sem hafa síðan farið yfir málin og lagt þau fram með rökstuðningi sínum og fært í þann búning sem þarf til þess að það sé líka ljóst að á bak við frumvörp af þessu tagi liggi pólitískar ákvarðanir sem eru teknar með skírskotun til stefnumörkunar á vegum stjórnmálaflokka og þannig sé að málum staðið að augljóst sé að ekki einungis hafi verið lögð sérfræðileg vinna í málið heldur lagt á það pólitískt mat og pólitísk vinna farið fram við úrvinnslu málsins.

Ég var á einum þingflokksfundi sjálfstæðismanna þar sem Þorkell Helgason stærðfræðingur kom og kynnti þessi sjónarmið sem er frá sérfræðinga hálfu sjálfsagt að kynna þegar er farið út í það að velta fyrir sér breytingum á kosningalöggjöfinni í þá veru að koma hér á meira persónukjöri á kjördag. En það var ljóst á þeim fundi að allir þeir sem þar tóku þátt í umræðum voru þeirrar skoðunar að nú væri ekki rétti tíminn til þess að vinna að þessu máli og bjóst raunar enginn við því að það kæmi fram hér með þessum hætti og þess yrði krafist að það yrði afgreitt fyrir kosningar, þegar ákveðið hefur verið í flokkum að efna til prófkjara og ganga til þess að undirbúa lista á grundvelli þeirra reglna sem gilda samkvæmt lögum.

Það sést líka einnig hér að síðan eru taldir upp kostir og hér segir, með leyfi forseta:

„Sérfræðingahópur sá sem kom að samningu frumvarps þessa og fyrr er getið íhugaði fleiri leiðir til þess að auka þátt persónukjörs í lögum um kosningar til Alþingis.“

Hér eru taldir upp nokkrir kostir og síðan segir, með leyfi forseta:

„Sérfræðingahópurinn fjallaði jafnframt um mismunandi aðferðir við merkingar kjósenda á óröðuðum listum og talningu eða uppgjör á þeim merkingum.“

Síðan eru taldir kostir sem helst koma til greina. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Það var niðurstaða hópsins að mæla með aðferð M1, einkum með þeim rökum að það væri fyrirkomulag sem kjósendur þekkja úr prófkjörum, en að vissu leyti er verið að viðhafa „prófkjör“ í kjörklefanum þegar boðnir eru fram óraðaðir listar. Um kosti og galla þessara aðferða má að öðru leyti lesa í fyrrnefndri greinargerð um persónukjör á vefsíðunni landskjor.is.“

Það kemur því hér fram, virðulegi forseti, að þetta er, ef ég má orða það svo, hrátt frumvarp frá sérfræðingum sem ekki hefur fengið neina skoðun á hinum pólitíska vettvangi og síðan hefur verið ákveðið að leggja það fram af formönnum fjögurra þingflokka og taka það hér til umræðu. Ég tel að þetta sé ekki rétt aðferð við afgreiðslu á þeim leikreglum lýðræðisins sem birtast í kosningalöggjöfinni. Ég tel að fram eigi að fara ítarleg og meiri umræða um það utan þingsins og utan hópa sérfræðinga en tími gefst til við afgreiðslu þessa frumvarps.

Þar að auki koma svo hv. þingmenn upp, sem eru meðmæltir þessu frumvarpi, og lýsa því yfir hér í þessum ræðustól að með frumvarpinu sé verið að bregðast við bankahruninu, verið sé að bregðast við ástandi í þjóðfélaginu sem myndaðist vegna bankahrunsins. Engin rök eru fyrir því í greinargerð með frumvarpinu. Hvergi hefur komið fram að það væri liður í því að grípa á þeim vanda sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir vegna þeirra hamfara allra saman að taka tæknilegar ákvarðanir um breytingar á kosningalöggjöf. Það hefur hvergi komið fram, virðulegi forseti, og það er ekki rökstutt í þessu frumvarpi með neinum hætti. Það vantar alla pólitíska umgjörð um frumvarpið.

Hv. þingmenn koma svo hingað upp og segja: Með frumvarpinu er verið að bregðast við bankahruninu og umræðum víða í þjóðfélaginu um nauðsyn þess að viðhafa persónukjör. Það er verið að bregðast við því að brjóta á bak aftur flokksræðið og krafa hefur komið fram — það koma hvergi fram í greinargerð þessa frumvarps neinar röksemdir sem styðja þau sjónarmið að sérstaklega sé verið að taka á bankahruninu eða bregðast við baráttu gegn flokksræði, enda býst ég ekki við því að þessir ágætu sérfræðingar sem sömdu frumvarpið, og þeir nota hvergi í greinargerð sinni neitt sem rökstyður þá skoðun hv. þingmanna, álíti að með frumvarpinu sé verið að bregðast við bankahruninu eða flokksræði.

Eins og hv. þm. Birgir Ármannsson vakti máls á, virðulegi forseti, er furðulegt að heyra hv. þingmenn Samfylkingarinnar tala um þetta mál á þann veg að þeir geti verið málsvarar þess ekki ríki flokksræði og þeir séu í flokki þar sem ekki ríki flokksræði — þar sem menn koma fram og lýsa yfir á fundum, bæði fyrir þessar kosningar og líka fyrir kosningarnar 2003, svo að dæmi séu tekin, að þeir ákveða einhliða hvar menn eiga að sitja á listum án þess að það séu nokkrar kjörnefndir sem koma að því. Það er eins og forustuhópur flokksins komi saman og skipti efstu sætum listanna á milli sín eða einhverjum sætum sem þeir kjósa að velja eftir því hvernig þeir líta á stöðuna. Þeir hafa prófkjörsreglur að engu, þeir segja við kjósendur: Þið skuluð kjósa eins og við segjum og svona á þetta að vera. Þessir menn standa síðan hér í ræðustól, fulltrúar þessa flokks, og láta eins og þeir séu einhverjir málsvarar þess að brjóta á bak aftur flokksræði.

Virðulegur forseti. Ef það væri svo að okkur þingmönnum bæri að líta á frumvarpið sem mikilvægan lið í því að bregðast við bankahruninu á Íslandi hlyti það að koma fram í greinargerðinni, þá hlytu sérfræðingarnir sem sömdu frumvarpið að benda okkur á það að þessi leið sem þeir velja, leið M1, sé besta leiðin til þess að bregðast við stöðu mála í kosningalöggjöfinni vegna bankahrunsins. Að sjálfsögðu gera þeir það ekki því að frumvarpið hefur ekkert með bankahrunið að gera. Það er lagt hér fram til þess að tefja nauðsynlegar umræður á þinginu um afleiðingar bankahrunsins og útleið úr þeim vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir. Það er furðulegt að standa hér, vitandi að kjördagurinn verður 25. apríl, og vera að ræða enn leikreglur sem eiga að gilda varðandi skipan lista og val manna á kjördegi þegar allir flokkar hafa ákveðið prófkjör og þetta frumvarp er sagt af hálfu sérfræðinganna að eigi að koma í stað prófkjara. Þetta er ótrúleg meðferð á tíma og kröftum þingmanna að ríkisstjórninni skuli detta þetta í hug, og þessum þingflokksformönnum, að leggja þetta hér fyrir þingið.

Síðan er það efni málsins: Er það æskilegt í sjálfu sér að auka áhrif kjósenda við val og röðun manna á lista? Það er álitaefni sem sjálfsagt er að velta fyrir sér og sjálfsagt er að skoða. Æskilegt væri að þingnefndin, sem fjallar um málið, gæti kallað til sín þingmenn frá öðrum löndum sem hafa búið við þessi kosningakerfi og fengið þá til þess að lýsa því fyrir þingmönnum sjálfum. Fyrst afgreiða á þetta hér annars vegar af sérfræðingum og hins vegar af þingmönnum í nefnd án þess að tóm gefist til að leita út fyrir nefndaveggi þingsins ætti forseti þingsins að gefa þingnefndinni kost á því að bjóða hingað til lands þingmönnum sem hafa kynnst því kosningakerfi sem hér er verið að leggja til. Þeir gætu þá borið vitni um það hvernig það virkar, hvort þessi breyting á löggjöfinni er til þess fallin t.d. að koma í veg fyrir bankahrun, hvort þeir líti þannig á að þessar aðferðir í þeirra löndum hafi stuðlað að efnahagslegu jafnvægi og stöðugleika í fjármálakerfinu og hvort þeir telji að ef þetta kerfi væri ekki hjá þeim væri meiri óstöðugleiki í fjármálakerfinu svo að vísað sé til raka þeirra þingmanna sem hér hafa talað.

Lítum á aðferðina. Ég er þingmaður sem hef boðið mig fram í kosningum og gengið í gegnum prófkjör. Ég hef tekið þátt í prófkjörum og ég hef haft áhuga á kosningalöggjöfinni og hef rætt hana. Á fyrstu árum mínum hér í þinginu vann ég að því og hafði m.a. hugmyndir um að það mætti fækka þingmönnum. Mér finnst það miklu skynsamlegri viðbrögð við bankahruninu, ef menn ætla að taka á málum sem varða þingmenn, að velta því fyrir sér hvort ekki eigi að breyta kosningalöggjöfinni og stjórnarskrárákvæðum á þann veg að fækka þingmönnum — að spara og draga úr kostnaði og líta þá til þingsins ekki síður en til annarra og gera þá tillögur um róttækar breytingar að því leyti að dregið verði úr kostnaði við þinghaldið og það mætti gera með því að fækka þingmönnum.

Það er annað mál og það er ekki til umræðu hér enda eru þessar tillögur tæknileg útfærsla á mjög þröngum þætti en þætti sem skiptir máli. Í kosningabaráttunni árið 2007 var farið í persónukjör gagnvart mér. Þá var það einn auðmaður hér í landinu sem ákvað að nota fjármuni sína til þess að auglýsa, með mynd af sjálfum sér, í öllum dagblöðunum daginn fyrir kjördag að hann hvetti fólk til þess að strika mig út á kjörseðlinum. Hann fór í persónukjör og hann auglýsti og það bar þann árangur að ég féll niður á listanum. Þótt ég sé hér í þingsalnum og sitji á þingi bar aðför þessa manns þann árangur að ég var strikaður út af nógu mörgum til þess að ég varð ekki í 2. sæti heldur féll niður í 3. sæti á listanum.

Þetta er það sem menn eru að kalla yfir sig. Það er svona andrúmsloft sem menn vilja væntanlega hafa í kosningabaráttu þar sem auðmenn geta komið og beitt áhrifum sínum á sama hátt og þessi maður gerði, eða hópar, og kosningabaráttan verði þá þannig að menn leggi meira upp úr því að einstakir hópar beini spjótum sínum að einstökum þingmönnum og vegi þá og meti og gefi síðan fyrirmæli með auglýsingum eða í krafti fjármagns, eða hvað leið annarri sem menn hafa, til þess að velja fólk á lista, þegar það hefur boðið sig fram fari kosningabaráttan út í þetta. Við höfum dæmi frá kosningabaráttunni 2007 þar sem þessu var beitt með þessum hætti, fjármunum var eytt og varið til þess að ráðast á einn einstakling sem var talinn óvinur eins af því viðskiptaveldi sem síðan — það er miklu nær að tala um það hér en bankahrunið en breytingar í þessa átt til þess að auðvelda mönnum að nota fjármuni sína og krafta til þess að ráða hinu pólitíska andrúmslofti.

Halda menn ekki að þingmenn væru hallari undir slíka menn ef menn óttuðust að þeir mundu beita valdi sínu á þennan veg? Ef menn eru að tala um þetta sem lið í því að koma í veg fyrir bankahrun eða fjármálaóreiðu eða óvissu í þjóðfélaginu held ég að aðrar röksemdir þurfi en þær sem hér hafa komið fram til þess að sannfæra mig um það að þetta sé skynsamlegasta leiðin til þess að skapa festu og það öryggi í stjórnarfarinu og tryggja að þingmenn séu ekki háðir þrýstihópum, fjármagnseigendum eða þeim sem í krafti einhverrar slíkrar aðstöðu geti ráðið því hvernig valið er til þings.

Ég held að það sé nóg fyrir þingmenn að ganga í gegnum prófkjörin samkvæmt þeim leikreglum sem flokkarnir setja um val manna á framboðslista og láta fólk koma að því sem er skráð í viðkomandi flokka og láta það gegnsæi sem ríkir í flokksstarfinu ráða í staðinn fyrir að kalla þetta yfir menn í þingkosningunum sjálfum. Við höfum dæmi, og ekki er hægt að horfa fram hjá þeim dæmum, um hvernig svona valdi er beitt og hvaða ráðum er beitt til þess að reyna að koma í veg fyrir að menn sem — í mínu tilviki var ég talinn andstæðingur einhvers viðskiptaveldis og þá var fjármunum þess og áhrifamætti öllum beitt til þess að koma í veg fyrir að ég kæmist inn á Alþingi.



[18:53]
Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Það er nokkuð liðið á þessa umræðu og fer að sjá fyrir endann á henni. Það undrar mig mjög þegar við ræðum mál af þeim toga sem hér er til umræðu, sem liggur svona óskaplega mikið á af hálfu stjórnarflokkanna að koma í gegn, hversu lítill áhugi er á því af þeirra hálfu. Ég hygg að af hálfu Framsóknarflokksins hafi t.d. einungis einn hv. þingmaður tjáð sig og ég get kannski nefnt 1–2 af hinum flokkunum. Þeir sem hafa verið í salnum hafa flestir verið við önnur störf en þau að hlusta á þessa umræðu og meira að segja gekk það svo langt hér í dag að þingmenn Vinstri grænna lögðu sig í framkróka við að fara í persónulegt stríð við hv. þm. Sturlu Böðvarsson í staðinn fyrir að ræða þetta mál sem svo mikið liggur á að koma í gegn.

Þetta áhugaleysi kemur mér mjög á óvart. Meira að segja fulltrúar í allsherjarnefnd hafa varla getað setið undir þessari umræðu. Samt er ætlast til þess að við tökum málið fyrir í nefndinni og eftir því sem ríkisstjórnarflokkarnir segja liggur óskaplega mikið á að koma þessu öllu á fyrir vorið svo kjósendur sem eiga að kjósa 25. apríl geti valið á lista eftir algjörlega nýjum leiðum sem kjósendur hafa ekki hugmynd um hverjar eru.

Engin umræða hefur farið fram um þetta í landinu, það hefur enginn talað um þetta af þeim mikla þunga sem mér skilst að hafi allt í einu kviknað í ríkisstjórnarherbergjunum núna skyndilega. Hvaðan kemur þessi óskaplega mikla þörf fyrir að reka þetta mál hér áfram þegar menn telja að það þurfi að bjarga — og það þarf að gera — atvinnulífinu í landinu? Af hverju vilja menn eyða þá orkunni í að standa í þessu? Svo þegar til á að taka er enginn hér, það er enginn við umræðuna, 2–3 manneskjur sem eru meira og minna á leiðinni út. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) Það kemur mér mjög á óvart, satt að segja, (Gripið fram í.) mjög á óvart að svo sé.

Ég held að við eigum að bera þá virðingu fyrir kosningakerfinu og líka íbúum í þessu landi að það eigi sér stað einhver umræða um þetta nýja kosningakerfi sem menn eru að fara af stað með núna. Þegar maður skoðar svo þetta frumvarp sem er ekki mjög — ja, greinargerðin gefur manni ekki mikla vísbendingu um tilganginn með frumvarpinu — kemur reyndar fram að þar sem einhvers konar svona aðferð hefur verið valin hefur heldur dregið úr þátttöku, þ.e. þessi aðferð er ekki valin nema að hluta til. Þetta hefur ekkert endilega gefist vel í þeim löndum sem miðað er við þannig að mig undrar að menn skuli vilja fara þessa leið.

Svo á morgun ætlum við að tala um stjórnarskipunina. Ég efast um að þar verði nokkur viðstaddur heldur. (Gripið fram í: Jú, ég.) Það er alveg furðulegt (Gripið fram í.) að svona skuli vera, að þegar verið er að tala um breytingar á íslensku stjórnarskránni, herra forseti, skuli stjórnarsinnar ekki mega vera að því að mæta til þings og ræða þessi mál, eru bara að gera eitthvað allt annað. (Gripið fram í: Í prófkjörum.) Já, maður spyr sig hvað um sé að vera. (ÁI: Eru stjórnarandstæðingar hér eitthvað meira?)

Í þessari umræðu hafa örfáir þingmenn af hálfu stjórnarsinna tekið þátt. Fyrst og fremst hefur þessi umræða verið af hálfu sjálfstæðismanna sem hafa kallað eftir skoðanaskiptum. Maður hefur reynt að varpa fram spurningum til stjórnarsinna en þeir hafa ekkert hirt um að svara þeim. Það eina sem fram hefur komið er einhver skætingur út í fólk um eitthvað sem kemur málinu bara ekkert við og er ekkert um það mál sem við erum að ræða hérna. Það skiptir máli að við vöndum okkur við þetta.

Ég sagði í ræðu minni í dag að það væri sjálfsagt og eðlilegt að velta fyrir sér hvernig best væri að koma fyrir kosningum til Alþingis og sveitarstjórna. En við skulum gera það af ákveðinni ró, við skulum reyna að ná einhverju samkomulagi um það hvernig til á að takast. Það liggur alveg fyrir að það þarf tvo þriðju atkvæða hér á þingi til að koma þessu frumvarpi hér í gegn, það liggur alveg fyrir, þetta hafa menn skoðað, þannig að það verður ekkert gert nema menn komi sér að því að tala við stjórnarandstöðuna hér í stað þess að meðhöndla hana bara eins og hún sé eitthvert skraut, eitthvert punt hér og ekki til nokkurs skapaðs hlutar. Og það eru flokkar sem eru búnir að tala um hversu illa var (Forseti hringir.) farið með þá þegar þeir voru í stjórnarandstöðu, mér þykir ýmislegt hafa breyst síðan þá.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allshn.