136. löggjafarþing — 96. fundur
 6. mars 2009.
virðisaukaskattur, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 289. mál (hækkuð endurgreiðsla vegna vinnu á byggingarstað). — Þskj. 660, brtt. 669.

[13:30]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að sjá enga stjórnarþingmenn í salnum, eingöngu þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru jú ágætir. En ég hefði gjarnan viljað sjá hér einhverja nefndarmenn frá stjórnarflokkunum sem leggja fram þetta mál.

Hér ræðum við mál sem er dæmi um það sem við getum kallað gott mál, dæmi um það sem við ættum að vera að eyða tíma okkar í á þinginu þessa dagana. Þetta er mál sem eykur atvinnusköpun og verðmætasköpun í samfélaginu og í því felast aðgerðir í þágu heimilanna, í þágu fyrirtækjanna. Þetta er mál sem er þáttur í að vinna gegn atvinnuleysisbölinu sem er mesta böl sem samfélagið á við að etja um þessar mundir. Þetta er mál sem við eigum að eyða tíma okkar í en það eru aðeins nokkrir dagar eftir af þessu þingi. Það er betra og ánægjulegra að taka þátt í umræðu um uppbyggileg atriði í stað þess að ræða grundvallaratriði varðandi stjórnarskrá og kosningalöggjöf sem þurfa lengri og ítarlegri umfjöllun og aðkomu allra flokka í ferlinu. Þar er óttaleg hraðsuða á ferðinni hjá stjórnarflokkunum.

Það er samstaða um þetta mál og flokkar eins og Framsóknarflokkurinn, sem styður þessa ríkisstjórn falli, Frjálslyndi flokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa boðið þessari hæstv. ríkisstjórn að greiða fyrir málum sem þessu í þinginu, fyrir málum sem skipta heimilin og atvinnulífið máli og eykur verðmætasköpun í samfélaginu. Það verður ekki skilið á milli ástands í atvinnulífi og öryggis heimilanna. Það er samofið og getur hvorugt gengið vel án sæmilegra aðstæðna á báðum stöðum. Atvinnulíf blómstrar ekki ef óöryggi og örvænting hrjá einstaklingana og heimilin og heimilin blómstra ekki ef fólk hefur ekki atvinnu og sér tilveru sinni ógnað með allri þeirri lömun sem atvinnuleysi hefur í för með sér.

Í umræðu um þetta mál hafa komið fram mikilvægar breytingar á því í meðförum þingsins sem er eðlilegt þó að vissulega hefði maður viljað sjá þær ganga lengra að einhverju leyti. Það er mjög mikilvægt að inn í frumvarpið skyldi bætt byggingu frístundahúsa vegna þess að við erum í þeirri stöðu að efnahagshrunið varð nánast yfir nótt og afleiðingar þess eru ógurlegar. Það er fjöldinn allur af ófrágengnum byggingum sem eru komnar vel á veg en erfitt er að ljúka við og að selja við þær aðstæður sem uppi eru. Þetta getur vonandi orðið til þess að hvetja til aukinnar starfsemi og frágangs á þeim byggingum þannig að þau þjóni tilgangi sínum.

Fyrir liggur breytingartillaga frá hv. þingmönnum Gunnari Svavarssyni og Árna M. Mathiesen. Eins og fram hefur komið eru ákveðnir þættir sem hugsanlega mætti ganga lengra í eins og tillaga þeirra gerir ráð fyrir og mun ég styðja hana. Í svo góðu máli er mjög mikilvægt að málinu sé lokið fullkomlega þannig að það þjóni tilgangi sínum. Af minna tilefni hefur hæstv. forsætisráðherra séð ástæðu til þess að stöðva störf þingsins tímabundið til þess að undirbúa mál. Kannski er réttlætanlegt að beita slíkum vinnubrögðum nú, að fresta örlítið umræðu til að setjast yfir þau atriði sem komið hafa fram við 3. umr. og eru til bóta í þessu ágæta máli. Við gætum þá lokið því alveg síðar í dag eða í kvöld.

Aðeins hefur verið rætt um þá vinnu sem fer fram við viðhald bygginga og nýbygginga úti í bæ. Umhverfið sem byggingariðnaðurinn starfar í er auðvitað orðið það tæknivætt að margt af þeirri vinnu sem vinna þarf og með sem hagkvæmustum hætti, fer fram á verkstæðum úti í bæ. Framleiðsla glugga í nýbyggingar hefur verið nefnd sem dæmi og af því að sú vinna fer fram á verkstæði úti í bæ er hún undanskilin í þessari tillögu og er það miður. Við hefðum þurft að ganga alla leið og loka málinu.

Það er eitt sem ég velti fyrir mér og hefði viljað fá svar við frá nefndarmönnum í nefndinni en það er sú missögn sem er í frumvarpinu og kveður á um að við nýbyggingar skuli endurgreiddur virðisaukaskattur af þeirri vinnu sem fer fram á byggingarstað. Þar eru þessir gluggar undanskildir en viðhald þeirra er ekki nefnt þannig að ef einhver skiptir um glugga í húsinu sínu og gerir það þannig að betri eign, fæst virðisaukaskattur væntanlega endurgreiddur af þeirri vinnu. Það er ekki hægt að lesa þennan texta öðruvísi.

Megintilgangurinn með frumvarpi þessu er að efla atvinnustig í þeim greinum þar sem stöðnunin sem er í samfélagi okkar er einna mest. Ástandið er hvað erfiðast í byggingargeiranum. Við erum að reyna að koma hjólunum aftur af stað með þessari umræðu og afgreiðslu frumvarpsins. Það er annað sem er mikilvægt og er sérstaklega nefnt í greinargerð með frumvarpinu en það er að þetta muni draga úr svokallaðri svartri atvinnustarfsemi. Ég er alveg klár á því að þetta mun draga úr svartri atvinnustarfsemi eins og allar skattalækkanir sem að þessu snúa, gera. Þær eru til þess fallnar að minnka hvatann til þess að stunda svarta atvinnustarfsemi og skjóta peningum undan skatti. Ég held að það sé ekki síður mikilvægt til lengri tíma litið í þessu máli.

Það hefur sýnt sig að skattalækkanir hækka í mjög mörgum tilfellum þegar til lengri tíma er litið og auka tekjur ríkissjóðs vegna þess að þá kemur meira upp á yfirborðið. Þegar skattheimtan er sanngjörn verður meiri vilji til að borga skattana. Við höfum dæmi um það. Þá veltir maður fyrir sér gildistíma breytinganna þar sem reiknað er með að þær falli úr gildi 1. janúar 2011. Með öðrum orðum hljótum við með því að senda þau skilaboð til samfélagsins að við viljum auka aftur svarta atvinnustarfsemi, eða hvað? Ef aðgerðinni er ætlað að draga úr svartri atvinnustarfsemi hlýtur afnám hennar að verða til þess að auka aftur svarta atvinnustarfsemi.

Það er mikilvægt að umræða skuli eiga sér stað um svo gott mál vegna þess að undirbúningur verður að vera góður í málum sem þessu. Hann verður auðvitað að vera góður í öllum málum en það hefur aðeins verið nefnt hér að við værum að drepa málum á dreif með því að ræða um hluti sem mættu jafnvel verða enn betri. Ég sé fulla ástæðu til þess að við gefum okkur allan þann tíma sem við höfum til þess og að þær góðu hugmyndir sem fram hafa komið nú við 3. umr. málsins fái mikla athygli. Eins og ég sagði áðan hefur hæstv. forsætisráðherra beitt sér fyrir því að þingstörf stöðvist tímabundið af minna tilefni en þessu, á meðan verið er að undirbúa mál. Mikilvægt er til að svona mál nái markmiði sínu vel og örugglega að enginn ágreiningur sé um einhver atriði í því þegar upp er staðið.

Þetta er dæmi um gott mál sem við eigum að eyða tíma þingsins í núna, mál sem eflir atvinnustarfsemi í landinu, eyðir atvinnuleysisbölinu og eflir atvinnu í landinu. Eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talaði um í ræðu sinni fyrr í vikunni er þetta eitt af þeim málum sem við sjálfstæðismenn viljum gera hæstv. ríkisstjórn tilboð um að ljúka í stað þess að eyða tíma okkar í mál sem þurfa miklu lengri og ítarlegri umfjöllun.

Hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á það í ræðu sinni áðan að þetta frumvarp væri það fyrsta frá núverandi ríkisstjórn sem fram væri komið og væri að afgreiðast og stæði vörð um velferðarkerfið. Það er heilmikið til í því og segir mikið um vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar, að ekki skuli meira vera komið fram á stjórnartíma hennar þrátt fyrir öll fyrirheitin. Atvinnumálin skapa velferðarkerfið. Öflug atvinnustarfsemi færir okkur það fjármagn og þá atvinnu sem við þurfum til þess að halda uppi sterku og öflugu velferðarkerfi, þar verður ekki skilið á milli.

Þá komum við að því vandamáli sem þessi ríkisstjórn stendur frammi fyrir og sem við sjálfstæðismenn stóðum frammi fyrir í síðustu ríkisstjórn með samfylkingarmönnum. Við komum að grundvallaratriði um stefnu í atvinnumálum. Við sjáum í verkum hæstv. ríkisstjórnar hvernig gengur þegar kemur að mikilvægum atvinnumálum. Við sjáum það endurspeglast í umræðu um álver í Helguvík þar sem samstaðan er engin. Þetta er nákvæmlega það sama og við áttum við að etja, sjálfstæðismenn, (Gripið fram í.) í tíð síðustu ríkisstjórnar. Okkur gekk ekkert með Samfylkinguna þegar kom að atvinnumálum og stefnuuppbyggingu í atvinnumálum. Þar er stefna okkar sjálfstæðismanna skýr, virðulegi forseti, hún er skýrari en annarra stjórnmálaflokka á Alþingi. Hún byggir á því að nýta náttúruauðlindir lands og sjávar og því að byggja upp sterka atvinnuvegi. Þessar grunnstoðir atvinnulífsins munu leiða af sér sprotafyrirtæki, hátækniiðnað og annað sem þarf til til að byggja hér upp mannvænlegt samfélag.



[13:46]
Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta fer að verða dálítið kostuleg umræða, verð ég að segja. Við erum hér í 3. umr. um mál sem almenn samstaða er um í þinginu á milli allra flokka. Við 2. umr. voru fluttar sameiginlegar breytingartillögur frá fulltrúum allra flokka, sameiginlegt nefndarálit, og við 3. umr. hafa tveir þingmenn flutt breytingartillögu sem ég hef fyrir hönd okkar í mínum flokki og meiri hlutans í nefndinni sagt að við mundum styðja.

Ég veit því ekki betur en að almenn samstaða sé um þetta mál og lögð er á það rík áhersla af öllum sem hér hafa talað að þetta sé mikið þjóðþrifamál og þurfi að komast í gegn. Engu að síður koma þingmenn Sjálfstæðisflokksins hver á fætur öðrum og flytja langar ræður sem eðli málsins samkvæmt hefðu átt heima við 2. umr. málsins. Mörgum af þeim álitamálum sem hv. þm. Jón Gunnarsson dró hér upp var svarað við 2. umr. málsins, m.a. að því er lýtur að gluggaeiningum og slíkum málum, húseiningum, hvort hægt sé að gera greinarmun á því sem er framleitt hér innan lands eða erlendis, og því hefur verið svarað að slíkt er ekki mögulegt á grundvelli EES-samningsins.

Ég fæ því ekki betur séð en að hér sé fyrst og fremst verið að reyna að tefja daginn vegna annarra mála sem eru á dagskrá fundarins síðar í dag. Mig grunar satt að segja að það sé tilgangur þeirra sjálfstæðismanna en ekki endilega að tefja fyrir þessu máli.

Varðandi gildistökuna höfum við í nefndinni lagt til lengri gildistöku en í stjórnarfrumvarpinu vegna þess að við töldum mikilvægt að ná hér inn öllu árinu 2010 — og að það muni auka svarta atvinnustarfsemi eftir það, á því verður þá að taka á þeim tímapunkti. Þetta er ráðstöfun sem okkur finnst brýnt að grípa til til að örva byggingarstarfsemina núna (Forseti hringir.) og þess vegna er skynsamlegt að hafa á henni tímamörk til að hvetja til að menn fari núna en ekki síðar (Forseti hringir.) í þessar framkvæmdir.



[13:48]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til þess eru nú þrjár umræður um mál að ræða þau og koma þá fram með ábendingar og leiðréttingar ef svo sýnist. Annars þyrftum við bara að hafa tvær umræður.

Athugasemdir okkar við málið eru fyrst og fremst uppbyggilegar, þær snúa fyrst og fremst að því að reyna að bæta gott mál og gera það enn betra. Það er ekki gert til að drepa öðrum málum á dreif, alls ekki. Við munum leggja okkur fram um að ljúka þessu máli hér í dag og viljum alls ekki standa í vegi fyrir því, við viljum bara gefa okkur þann tíma sem þarf til að fara í þetta.

Ég kom inn á það áðan í ræðu minni að ákveðin missögn væri í frumvarpinu.

Það segir í 2. gr., með leyfi forseta:

„... endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað.“

Í næstu setningu segir, með leyfi forseta:

„Jafnframt skal á sama tímabili endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess.“

Ekkert kemur fram um það hvort það er á byggingarstað eða þar sem húsið er eða hvort það er á verkstæði úti í bæ við að smíða gluggana í húsi sem verið er að skipta um glugga í. Ég er að benda á mögulega meinbugi á frumvarpinu og það er gert til þess að það megi laga það. Eins og ég sagði áðan hefur hæstv. forsætisráðherra stöðvað störf þingsins af minna tilefni en því að við kannski gæfum hlé til að fara betur yfir málið og klára mögulega meinbugi á því hér við 3. umr. þannig að gott mál megi koma enn betra úr afgreiðslu Alþingis.



[13:50]
Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er sjálfsagt eðlilegt að þessi athugasemd komi upp en ég ætla líka að vekja máls á því að þetta álitamál kom til umfjöllunar á vettvangi efnahags- og skattanefndar, nákvæmlega það sem hv. þingmaður er hér að tala um. Það sem við verðum að hafa í huga er að breytingin sem verið er að gera á lögunum um virðisaukaskatt er að auka endurgreiðsluhlutfallið úr 60% í 100%, það er ekki verið að gera neinar aðrar breytingar á frumvarpinu. Það sem hv. þingmaður kallar misræmi — það var upplýst í efnahags- og skattanefnd að þetta ákvæði hefur verið skilgreint þannig af ríkisskattstjóra að endurbótaverkefnin eigi jafnframt við um það sem unnið er á byggingarstað alveg eins og með nýbyggingarnar sjálfar. Það er sú framkvæmd sem ríkisskattstjóri hefur viðhaft og byggir vafalaust á lögskýringargögnum með þessu máli þegar það var afgreitt á sínum tíma.

Hér er ekki verið að fjalla um neinar breytingar á þessum forsendum. Hér er bara verið að fjalla um hækkunina á endurgreiðsluhlutfallinu úr 60% í 100%. Að öðru leyti er framkvæmd laganna með sama hætti og verið hefur til þessa og einnig að því er lýtur að þessu atriði. Það hefur verið skilningur manna, og ríkisskattstjóri hefur framkvæmt þetta þannig, að hvað varðar endurbóta- og viðhaldsverkefnin sé endurgreiðslan miðuð við slík verkefni sem unnin eru á byggingarstað alveg eins og með nýbyggingar þannig að þar er ekkert misræmi á milli.

Vel kann að vera að menn geti sett spurningarmerki við hvort sú framkvæmd stenst orðalag laganna en þá þyrftu menn að líta í lögskýringargögn frá því að frumvarpið var samþykkt á sínum tíma en í þessu frumvarpi er engin breyting gerð hvað þetta snertir. Það er þá annað mál sem þyrfti að skoða, þ.e. framkvæmd laganna sjálfra, menn geta spurst fyrir um það hjá ríkisskattstjóra og þá hugsanlega beitt sér fyrir breytingum ef menn telja það nauðsynlegt hvað þetta atriði varðar.



[13:52]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir svör hans um störf nefndarinnar. Það vekur furðu hjá mér að fyrst þetta atriði kom sérstaklega til umræðu í nefndinni hefur það greinilega þótt þess virði að það þyrfti að ræða það. Þá vekur það mér furðu að þetta hafi ekki einfaldlega verið orðað með þeim hætti að á því væri enginn vafi eða þá að á því yrði tekið í greinargerð með frumvarpinu, það kemur ekkert fram um það. (Gripið fram í.) Ja, það er hægt að sjá það í orðanna hljóðan í lagatextanum að hægt er að vekja upp spurningar um þetta. Þrátt fyrir túlkun ríkisskattstjóra á þessu máli er það fyrir breytingu laganna. Við erum að breyta hér lögum sem hann þarf þá væntanlega að túlka aftur.

Hv. þingmaður kom ekki inn á, ekki svo að ég tæki eftir, þær vangaveltur mínar að þegar þessi breyting á lögunum rennur út 31. desember 2010 og gömlu lögin taka gildi 1. janúar 2011 þá séum við að senda þau skilaboð að við viljum efla aftur svarta atvinnustarfsemi í landinu. Einn megintilgangur þessara laga, það kemur fram í greinargerðinni, er að skref sem þetta muni draga úr svartri atvinnustarfsemi í byggingariðnaði. Þetta er þjóðarböl og ég tek innilega undir það, en erum við þar með að segja að við ætlum að auka aftur svarta atvinnustarfsemi þegar þessi lög renna sitt skeið á enda?



[13:54]
Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. Jón Gunnarsson talaði um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði skýra stefnu í atvinnumálum. Það má til sanns vegar færa að það sé skýr stefna að vera með gjafakvótakerfi í sjávarútvegi sem brýtur mannréttindi á sjómönnum og hefur gert til margra ára. Það má líka tala um kvótakerfi í landbúnaði sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið á bak við og varið í langan tíma.

Það er dapurlegt þegar hv. þingmaður telur sér trú um að stefnan í atvinnumálum hjá sjálfstæðismönnum sé sú besta í heimi. Það er langur vegur frá og þeir eru einkavinavæðingarsinnar og hafa verið. Þeir gáfu bankana og þeir hafa gefið fiskinn í sjónum fáum útvöldum og viðhaldið þessu kvótakerfi bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Það er ekki til þess að styrkja atvinnu að vera með slíkt fyrirkomulag og hafa aðalatvinnugreinar þjóðarinnar með þeim hætti sem raun ber vitni.

Það er sorglegt að hv. þingmaður skuli vera að tala um skýra stefnu í atvinnumálum. Mér fannst nauðsynlegt að koma þessu að í andsvarinu. Það eru ekkert annað en öfugmæli sem hv. þingmaður heldur hér fram. Ef eitthvað er og ef Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti einhvers staðar að taka til í sínum ranni og endurskoða stefnumál sín þá er það í atvinnumálum. Þeir tala fyrir frelsi einstaklingsins til athafna og gjörða á hátíðisdögum og ættu því að hugleiða þessa spurningu mína: Hvar er frelsi til athafna í landbúnaði eða sjávarútvegi í dag? Það er ekki til. Þeir eiga stærstan hluta í því að koma þessu í þann farveg sem þetta er og bera mestu ábyrgðina á því hver staða okkar (Forseti hringir.) í efnahagsmálum er í dag.



[13:56]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikill er máttur okkar sjálfstæðismanna, það er alveg ljóst samkvæmt ræðu hv. þm. Grétars Mars Jónssonar.

Það er alveg rétt að Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, hann stendur vörð um þessar grunnatvinnugreinar og hefur gert það. Sjálfstæðisflokkurinn mun gera það áfram. Það þýðir ekki að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki reiðubúinn til umræðu um einhverjar skynsamlegar leiðir í sjávarútvegsmálum, leiðir sem gætu þá enn treyst þann öfluga atvinnuveg sem við eigum.

Það verður að segjast eins og er að hv. þm. Grétar Mar Jónsson hefur ekki staðið fyrir málefnalegri umræðu um þessi mál. Allt of mikil einfeldni og upphrópanir hafa einkennt málflutning hans. Það er engin spurning um það að íslenska sjávarútvegskerfið hefur þó stuðlað að því að við höfum nýtt þessa auðlind með einhverjum besta hætti sem við getum gert ef horft er til þeirra þjóða sem við berum okkur saman við. Við erum eitt af fáum löndum ef ekki eina landið í heiminum sem hefur sjávarútveg sem skilar jafnmiklu í þjóðarbúið og sjávarútvegur okkar gerir. Það gengur einfaldlega ekki upp að fara með einhverjum byltingarkenndum aðferðum í endurskipulagningu á þeim geira. Við erum að tala um atvinnugrein sem skilar um 50% af útflutningsverðmætum okkar, skapar gríðarleg verðmæti og greiðir mikla skatta. Öðruvísi er það annars staðar þar sem miklir styrkir fylgja gjarnan þessari grein.

En við sjálfstæðismenn erum, ég ítreka það, tilbúnir hvenær sem er og reiðubúnir til (Forseti hringir.) að taka þátt í umræðu um skynsamlegar leiðir í sjávarútvegsmálum.



[13:59]
Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er land hér stutt frá okkur sem heitir Færeyjar og 80–90% af tekjum þeirra eru af sjávarútvegi. Þeir breyttu á einum degi úr kvótakerfi eins og við höfum yfir í sóknardagakerfi, dagakerfi kalla þeir það. Þeir eru að lána íslensku þjóðinni peninga, þeir urðu fyrstir til að bjóða okkur peningalán þegar kerfið okkar hrundi og það hrundi að stærstum hluta út af því að við höfðum innleitt braskkerfi með óveiddan fisk í sjónum sem mátti leigja, selja og veðsetja.

Þeir eru ofan á, við erum undir. Við eigum að taka okkur þá til fyrirmyndar en ekki tala eins og sjávarútvegur þar sé ríkisstyrktur, svo er ekki. Sjávarútvegurinn þar hefur haldið kjörum þeirra uppi alla tíð og byggt upp eyjarnar og það er eins hjá okkur. Það er ekki fyrr en við fórum að braska með veiðiheimildir að íslenskt þjóðfélag fór til — ég þori ekki að segja það sem mér datt í hug og var komið fram á varir mínar. En íslenskur sjávarútvegur hefur verið ríkisstyrktur í 25 ár. Það er ekkert annað en ríkisstyrkur að hafa leyfi til að leigja, veðsetja og selja eins og raunin er.

Fyrir einu og hálfu ári var þessi ríkisstyrkur í raun þúsund milljarðar. Það var hægt að selja veiðiheimildir á Íslandi fyrir þúsund milljarða og þetta var gjöf til fárra útvalinna. Það er skrýtið fyrir flokk sem kennir sig við frelsi og gortar af því í tíma og ótíma að frelsi sé lausnin, (Forseti hringir.) frelsi einstaklingsins til athafna og gjörða. (Forseti hringir.) Það er ekki þannig, sjálfstæðismenn fara ekki með rétt mál þegar þeir halda því fram (Forseti hringir.) að Sjálfstæðisflokkurinn sé eini flokkurinn sem tali af alvöru (Forseti hringir.) um atvinnumál.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að virða tímamörk.)



[14:01]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er aftur um einföldun að ræða í málflutningi hv. þm. Grétars Mar Jónssonar sem heldur því fram að sjávarútvegsstefna Íslands og íslenska sjávarútvegskerfið sé orsök efnahagshrunsins í heiminum. Það er ekki hægt að taka mark á svona málflutningi.

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson er meðvitaður um það og hann þekkir þessi mál vel og honum er fullkunnugt að stærstur hluti af aflaheimildum sem eru í dag í okkar sjávarútvegskerfi hafa gengið kaupum og sölum. Það má vel vera ... (Gripið fram í: Það er lygi.) Það má vel vera að á einhverjum tímapunkti (GMJ: Það er lygi.) í þessari sögu hafi verið stigin skref sem hefði þurft að stíga með öðrum hætti. En það er ekki svo auðvelt að spila til baka í þeim efnum. Það er auðvelt að vera hér með raup og hástemmdar yfirlýsingar. En við verðum að ræða þetta af ábyrgð og festu. Við verðum að ræða þetta þannig að þessi atvinnugrein geti búið við traust og til þess erum við sjálfstæðismenn tilbúnir. Við erum tilbúnir til þess að ræða það hvort til séu einhverjar leiðir sem megi sætta þau sjónarmið sem uppi eru. En það byggist ekki á því að kollsteypa þessu kerfi.

Hann vitnar hér í frændur okkar, Færeyinga, (GMJ: Þeir gerðu það.) og reynslu þeirra af sóknarkerfinu. Hver er staða í þorskveiðum Færeyinga í dag, virðulegi þingmaður? (GMJ: Góð. Hún er góð.) Hún er góð, já. (Gripið fram í: Já.) Þeir veiða nokkur þúsund tonn af þorski í dag, (GMJ: Þeir eru að veiða meira ...) innan við tíu þúsund tonn. Er hún góð? Það er bara eins og þingmaðurinn hafi ekki rætt við menn þar og kynnt sér þessi mál nægilega vel. (GMJ: Þetta er ...) Hún er bara ekki góð (Forseti hringir.) vegna þess að þeirra stefna hefur (Forseti hringir.) ekki alveg gengið upp.



[14:03]
Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með þeim sem hafa talað við þessa umræðu og sagt að hér sé í sjálfu sér um gott mál að ræða varðandi það að létta af eða auka endurgreiðslu, endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis allt að 100% af virðisaukaskatti og vegna endurbóta við viðhald og annað og auk þess eru þær breytingartillögur sem koma frá efnahags- og skattanefnd til þess að gera frumvarpið betra.

Þetta er eitt af þeim málum sem verður að segjast að sé gott mál sem frá ríkisstjórninni kemur enda er það stutt af öllum flokkum. Hins vegar vill svo til eins og með svo margt annað sem þaðan kemur að of skammt er gengið miðað við þann tíma sem ríkisstjórnin hefur haft og þann aðdraganda sem varð að stjórnarmynduninni, þ.e. að hér er dæmi um að of skammt sé gengið og of smátt hugsað.

Talað er um að örva byggingariðnaðinn og að sjálfsögðu er nauðsynlegt að gera það. En þetta er eingöngu einn liður í því sambandi. Það er svo margt annað sem kemur til skoðunar varðandi það hvernig eigi að koma þeirri starfsemi í eðlilegt horf eða alla vega í eitthvert horf og þá þarf miklu meira til að koma en það sem hér er um að ræða.

Ég vil benda á í fyrsta lagi það sem kom fram í máli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar áðan þegar hann talaði um heildstæða stefnu og heildstæðar leiðir og vísaði þá til bankanna og hvernig bankastarfsemin væri í dag. Það fer ekkert af stað, það verður ekkert atvinnulíf í landinu nema það sé eðlileg lánastarfsemi. Sú starfsemi er ekki fyrir hendi í dag og hún verður ekki á meðan stýrivextirnir eru eins og þeir eru og vextirnir sem um er að ræða og atvinnulífinu bjóðast. Það er eitt atriðið.

Það sem skiptir máli er ekki bara að örva byggingariðnaðinn. Hann þarf virkilega á örvun að halda en það er miklu meira sem kemur til. Það þarf að örva allan þjónustuiðnaðinn. Þá koma til skoðunar hlutir eins og til dæmis stimpilgjald svo að kaup og sala á húsnæði geti verið með eðlilegum hætti. Ég flutti frumvarp í haust þar sem fjallað var um að fella stimpilgjald alfarið niður við kaup á húsnæði og ég tel að það skipti máli við að örva þau viðskipti.

Fleira kemur upp í hugann sem hefði þurft að skoða og mætti skoða þess vegna af hv. efnahags- og skattanefnd varðandi það að gera nauðsynlegar breytingar á virðisaukaskattslögunum. Þannig er að þjónusta fasteignasala er virðisaukaskattsskyld og þar er um að ræða verulegar fjárhæðir greiddar við eigendaskipti þegar fasteign er keypt eða seld. Spurningin er þessi: Er það eðlileg gjaldtaka? Væri eðlilegt að fella þá virðisaukaskattsskyldu starfsemi niður? Það er eitt atriðið.

Ég talaði um það hér í umræðum þegar við vorum að fjalla um frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti, nauðungaruppboð og ýmislegt fleira að það sem skipti skuldara í þessu landi meira máli en það sem ríkisstjórnin var að leggja til, það væri að fella niður réttargjöldin. Í þessu sambandi, af þessu tilefni er full ástæða til þess að benda á að þjónusta lögmanna er virðisaukaskattsskyld og þar er iðulega um að ræða gjaldheimtu ríkisins sem væri eðlilegt að yrði felld niður. Ég bendi til dæmis á greiðslu virðisaukaskatts vegna innheimtukostnaðar. Við það búa skuldugustu og verst settu borgararnir og þeir þurfa að greiða 24,5% virðisaukaskatt ofan á þá gjaldtöku sem er vegna innheimtu á kröfunum. Ef ríkisstjórnin vildi virkilega koma til móts við þá skuldsettustu í þjóðfélaginu felldi hún niður virðisaukaskatt af þessari starfsemi svo að dæmi sé tekið.

Annað dæmi sem má taka í því sambandi er varðandi skipti á þrotabúum. Þar er líka um að ræða virðisaukaskattsskylda starfsemi sem væri eðlilegra að yrði tekin út og felld niður. Það skal tekið undir það með þetta frumvarp að það er vissulega góðra gjalda vert og af hinu góða og við sjálfstæðismenn styðjum það og höfum viljað greiða fyrir því á alla lund og gerum en það er bara byrjunin því að meira verður að koma til ef það er virkilegur vilji og ætlan ríkisstjórnarinnar að koma atvinnulífinu hér í virkilegan gang á nýjan leik.

Ég nefni hér sem sagt þau atriði sem hefðu þurft að koma til varðandi breytingar á virðisaukaskattslöggjöfinni. Það má nefna til viðbótar margvíslegan þjónustuiðnað svo sem viðgerðarþjónustu og margt fleira sem full ástæða er til þess að skoða hvort ekki sé ástæða til þess að gera breytingar á eða heimila jafnvel endurgreiðslu þegar um slíkt er að ræða til þess að örva þann iðnað líka.

Staðreyndin er einfaldlega sú í dag að atvinnulífið er meira og minna að hægja á sér. Fleiri og fleiri eru að verða atvinnulausir. Hvernig getum við örvað atvinnustarfsemi, komið hjólum atvinnulífsins sem fyrst til þess að fara að snúast af þeim hraða að fleiri fái atvinnu eða til að koma í veg fyrir að fleiri missi atvinnuna? Jú, við gerum það fyrst og fremst með því að efla einkaframtakið, efla smáatvinnureksturinn og smáfyrirtækin. Það er einfaldasta leiðin. Það er leiðin sem kostar minnst að fara. Það er sú leið sem ríkisstjórnin hefði átt að einbeita sér að. En það er þar eins og í svo mörgu öðru að á þeim rúma mánuði sem liðinn er frá því að ríkisstjórnin tók við völdum hefur nánast ekkert gerst. Nánast engir hlutir hafa verið afgreiddir nema það að afgreiða mál um Seðlabanka Íslands sem ríkisstjórnin setti í algjöran forgang og virtist vera upphaf og endir þeirra hluta sem ríkisstjórnin teldi að þyrftu að vera í forgangsröðun. Það er svo merkilegt með það að eftir það virðist vindurinn meira og minna vera horfinn eða farinn úr stjórnarliðinu. Hér er verið að leggja fram frumvarp sem er í sjálfu sér góðra gjalda vert. En eins og ég hef bent á í máli mínu þarf miklu meira til að koma.

Í ágætri ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar áðan gerði hann grein fyrir hugmyndum Framsóknarflokksins í efnahagsmálum. Hann ræddi um að Framsóknarflokkurinn hefði komið með heildstæðar tillögur varðandi þau sjónarmið og efni sem hér væri um að ræða. En það er nú einu sinni þannig að Framsóknarflokkurinn er aukahjólið undir vagni ríkisstjórnarinnar, það hjól sem ekki má fara undan vegna þess að þá er ríkisstjórninni þrotinn krafturinn og týnist á tröllatungu ef svo ber undir.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi ýmislegt úr þessari tillögusmíð framsóknarmanna og gat um að þar væri um að ræða hluti sem þyrftu til að koma til þess að atvinnulífið gæti gengið í landinu. Ég get tekið undir þau sjónarmið sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson setti fram í því efni. Vissulega er það alveg rétt hjá honum að margt af því sem þar er verið að leggja til eru nauðsynlegar aðgerðir til þess að hjól atvinnulífsins geti snúist. Þetta eru tillögur og sjónarmið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig sett fram í atvinnumálum og skiptir miklu máli að komi fram. Munurinn er sá að margar af þeim tillögum og hugmyndum hafa ratað hér inn í þingsali sem mál sem barist er fyrir. Hins vegar hefur á það skort bæði hjá þessu aukahjóli ríkisstjórnarinnar og hvað þá heldur ríkisstjórninni að þeir settu öll hjólin undir og stýrðu í þá átt sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson varaformaður Framsóknarflokksins talaði um að væri stefna Framsóknarflokksins vegna þess að þau mál hafa engin ratað inn í þingsali eða verið flutt frumvörp til þess að standa á bak við þau mál.

Það skiptir máli fyrir okkur í dag að reynt sé að greiða fyrir þjónustustarfseminni sem mest má vera, að hún sé örvuð. Forsenda þess er að bankarnir séu opnir og séu ekki bara innheimtustofnanir heldur einnig lánastofnanir. Það skiptir máli að vaxtastig sé eðlilegt þannig að það geti borgað sig að reka atvinnustarfsemi í landinu, að það geti verið um arðbæran atvinnurekstur að ræða í landinu. Enginn atvinnurekstur stenst það vaxtastig sem er í landinu í dag. Þessi orð hafa hljómað úr þessum ræðustól ítrekað í marga mánuði. Hæstvirtir ráðherrar hafa hver um annan þveran komið og haldið þessu fram þannig að hér er ekki um neina nýlundu eða ný sannindi að ræða sem ég er að koma fram með hér. Munurinn er hins vegar sá að ráðherrarnir, stjórnarflokkarnir halda um stjórnartaumana og hafa möguleika á því að gera bragarbót í þessu máli, gera ráðstafanir til þess að um geti verið að ræða eðlilega fjársýslu og eðlilega lánastarfsemi í landinu. En það hafa þeir ekki gert. Meðan það gerist ekki getum við í sjálfu sér afgreitt frumvörp eins og þetta sem eru góðra gjalda verð. En þau munu stranda. Atvinnulífið mun ekki örvast meðan ekki verður sköpuð umgjörð utan um það þannig að það geti verið arðvænt og arðskapandi.

Eins og ég minntist á áðan í ræðu minni skiptir mestu máli að hlúa að starfsemi smáfyrirtækjanna og einstaklingsfyrirtækjanna. Það er einfaldast og það er ódýrast, auk þess sem þar er um að ræða kraft sem getur komið þar til sögu. Skuldsett fyrirtæki hverfa út af markaðnum en þá geta minni fyrirtækin og einstaklingsfyrirtækin tekið upp þá þjónustu og skapað sér aukinn arð og veitt aukna atvinnu við það að færa út starfsemi sína. Með því mundu færri störf tapast. Með því mundu jafnvel ný störf skapast og að því hljótum við að stefna.

Af því að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er eini stjórnarliðinn sem situr í salnum fyrir utan hæstv. forseta vil ég leyfa mér að eiga orðastað við þennan hv. þingmann Vinstri grænna þar sem sá flokkur hefur farið fram á þeim grundvelli að verið sé að sökkva landinu þegar byggð eru upp arðsöm fyrirtæki og að hin versta mengun sé að tröllríða öllu. Því vil ég leyfa mér að segja þetta: Það er ekki til að mínu viti ógeðfelldari hlutur eða meiri mengun en fjöldaatvinnuleysi. Núverandi ríkisstjórn ber ábyrgð á fjöldaatvinnuleysi vegna þess að hún hefur ekki komið fram neinum þeim raunhæfu aðgerðum sem geti horft til arðsköpunar og aukinnar atvinnu og hagsældar í landinu. Þetta frumvarp er gott. Það hef ég ítrekað tekið fram. En það er bara byrjunin á því sem þarf að gera eða réttara sagt getur komið til sem stuðningsatriði þegar við erum búin að koma eðlilegri lánastarfsemi í gang. Þegar við erum búin að koma vöxtum í eðlilegt horf. Það verður síðan að gera þá bragarbót varðandi lánastarfsemina að verðtryggingin verði felld niður. Það getur enginn staðið undir því að borga verðtryggð lán í því þjóðfélagsástandi sem við búum við í dag.

Því ætti að vera forgangsatriði hjá ríkisstjórninni að færa verðtrygginguna aftur til baka til þess sem eðlilegt getur talist, þess vegna til þess tíma sem var fyrir efnahagshrunið þannig að menn skoði hvort ekki sé eðlilegra að fara þá leið en þá sem Framsóknarflokkurinn leggur til þó að þar sé ýmislegt ágætt.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að hér er um mál að ræða sem er ástæða til þess að afgreiða sem allra fyrst. En hér er aðeins verið að stíga örlítið skref í rétta átt.



[14:18]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Í morgun gagnrýndi ég ríkisstjórnina harðlega fyrir forgangsröðun hennar varðandi þau mál sem hafa verið tekin til umræðu á Alþingi í þessari viku. Tíma þingsins hefur fyrst og fremst verið eytt í að ræða um ný kosningalög og svo hefur ríkisstjórnin haft uppi áform um að ræða breytingar á stjórnarskránni.

Eins og ég benti á í þeirri ræðu hafa breytingar á kosningalögunum og stjórnarskránni ekkert með það að gera að slá skjaldborg um heimilin í landinu, að berjast gegn atvinnuleysi og fyrir uppbyggingu atvinnulífsins eða að endurreisa bankana. Það eru þau meginverkefni sem núverandi ríkisstjórn vildi leggja áherslu á. Ég tel að það séu þau mál sem við ættum að ræða hér frekar en breytingu á kosningalögum eða stjórnarskránni.

Það frumvarp sem hér er til umræðu fjallar um virðisaukaskatt og ég fagna því sérstaklega. Ég fagna því að verið sé að ræða mál sem felur í sér breytingar á lögum sem eru til þess fallnar að hvetja til aukinnar atvinnustarfsemi. Í nefndaráliti hv. efnahags- og skattanefndar segir að markmiðið með því að hækka hlutfall endurgreiðslu virðisaukaskatts sé að hvetja til aukinnar starfsemi á byggingarmarkaði og draga úr atvinnuleysi. Ég er sammála því markmiði og ég er sammála því að þetta frumvarp er til þess fallið að ná þeim markmiðum. Þess vegna fagna ég því að ríkisstjórnin hafi lagt þetta mál fram og sýni nú hug sinn í verki með því að snúa sér að þeim málum sem skipta mestu fyrir fyrirtækin, atvinnulífið og fólkið í landinu.

Það hefur komið fram í umfjöllun nefndarinnar að Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafi sett fram tillögur um tímabundna hækkun á hlutfalli endurgreiðslu í samræmi við þetta frumvarp. Það er gott til þess að vita að þingið ætli sér að verða við kröfum og tilmælum samtaka atvinnurekenda sem hafa það að markmiði að auka atvinnusköpun og berjast gegn atvinnuleysinu vegna þess að atvinnuleysið er það versta sem getur komið fyrir þjóðfélag okkar.

Í dag ganga u.þ.b. 15 þúsund manns atvinnulausir (GMJ: 16 þúsund.) eða 16 þúsund manns, hv. þm. Grétar Mar Jónsson, einstaklingar sem hafa misst vinnuna. Þetta er auðvitað ógnvænleg þróun. Við höfum séð háar atvinnuleysistölur í löndunum í kringum okkur en samsetning atvinnulausra á Íslandi er allt önnur en í þeim löndum sem við kjósum að bera okkur saman við. Hér á Íslandi er að missa vinnuna vel menntað fólk í hálaunastörfum sem er óþekkt eða a.m.k. mun minna vandamál í löndunum í kringum okkur. Atvinnuleysið á Íslandi er því allt öðruvísi samsett en annars staðar. Það er veruleg hætta á því að ef ekkert verður að gert muni það leiða til þess að þetta ágæta fólk muni leita eftir atvinnu og lífsviðurværi fyrir fjölskyldur sínar á erlendri grundu sem væri auðvitað afar óheppilegt fyrir samfélagið.

Ég fagna því sérstaklega að hér sé lögð fram breytingartillaga sem gerir það að verkum að frumvarpið og sú regla sem þar er lagt til að verði lögfest nái til starfa arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga vegna þess að við höfum orðið vör við að í þessum greinum hefur atvinnuleysi orðið þó nokkuð mikið, ekki síst hjá arkitektum. Mér skilst að arkitektastofur margar hverjar séu að tæmast vegna verkefnaskorts. Umrædd breytingartillaga mun því vonandi leiða til að atvinnutækifærum þessara stétta og annarra muni fjölga, okkur veitir ekkert af því að halda þessu fólki í vinnu, halda uppi áframhaldandi atvinnuuppbyggingu í landinu og þess vegna fagna ég þeirri breytingu.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mikið lengri, frú forseti, ég vildi bara í ljósi þess sem ég sagði í morgun þegar ég kvartaði yfir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar koma þessum sjónarmiðum mínum á framfæri. Mér finnst þetta gott mál. Þó að þetta sé auðvitað lítið skref í rétta átt sýnir þetta þó viðleitni og vilja til að ýta undir atvinnusköpun í landinu, en betur má ef duga skal. Við sjálfstæðismenn höfum lýst því yfir að við erum reiðubúin til þess að greiða fyrir öllum slíkum málum hér í þinginu. Það höfum við margsagt og við þær yfirlýsingar munum við standa.



[14:25]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég styð þetta frumvarp og ég styð breytingartillöguna sem komin er frá gaflaranum, hv. þm. Árna Mathiesen og Hafnfirðingnum, hv. þm. Gunnari Svavarssyni. (ÞKG: Tveir góðir gaflarar.) Þeir eru ekki gaflarar, hv. þingmaður, því að annar þeirra er ekki fæddur í Hafnarfirði. Gaflarar eru þeir sem eru fæddir þar og Hafnfirðingar þeir sem hafa búið þar, og hv. þingmaður er ekki sjálf gaflari. (ÞKG: Nei, því miður.) Já, því miður.

(Forseti (ÞBack): Ég minni hv. þingmenn á að beina orðum sínum til hæstv. forseta.)

Hæstv. forseti. Ég styð þetta frumvarp og þessa breytingartillögu og að öllu gríni slepptu er þetta skref í rétta átt. Þó að þetta muni ekki leysa neinn stórvanda þá hjálpar það til að einhverju leyti að taka þarna inn arkitektana, tæknifræðinga, verkfræðinga og hugsanlega einhverja aðra eftirlitsaðila og fella niður virðisaukaskatt af þeirra vinnu, það hjálpar auðvitað. Þetta er hænufet í rétta átt og sjálfsagt að styðja þetta. Atvinnuuppbygging er auðvitað aðalmálið og að efla atvinnurekstur og sérstaklega þann atvinnurekstur sem býr til gjaldeyristekjur og skapar mörgu fólki vinnu og síðan að koma í veg fyrir aukið atvinnuleysi.

Við þurfum líka að huga að þeim atvinnurekstri sem sparar gjaldeyri og við getum framleitt ýmislegt innan lands sem sparar okkur gjaldeyrisútstreymi, að því þarf að huga líka.

Það er margt sem hér er hægt að ræða, sem snýr að atvinnumálum og þessu frumvarpi sem gengur út á að fella niður virðisaukaskatt. Við vitum að vaxtaokrið hjá okkur með stýrivexti upp í 18% gengur auðvitað ekki og verðtrygging á lánum ekki heldur. Hugsanlega er hægt að færa þau niður eða aftur á bak eða færa þau aftur í tímann og gera breytingar. Þá værum við að fella niður skuldir sem lentu á ríkissjóði og ríkissjóður þyrfti að borga brúsann. Það eru ekki til neinar barbabrellur í þessu, ekki að lækka skuldir, hvorki á fyrirtækjum né heimilum, það er nú einu sinni staðreynd. Ef það á að gera það þarf ríkissjóður að skattheimta með öðrum hætti. Hugsanlega gæti slíkt verið verjandi í einhverjum tilfellum en menn þurfa auðvitað að fara varlega í slíka gjörninga. Þó svo að það væri auðvitað gaman að geta lækkað skuldir verulega hjá fólki kostar það peninga. Ef það á að fara í 20% niðurskurð á skuldum eins og Framsóknarflokkurinn hefur lagt til þá þarf að finna peninga til þess að hægt sé að gera það eða að auka skattheimtu og skera niður annars staðar í þjóðfélaginu á móti.

Til að byggja upp atvinnulífið og koma hjólum atvinnulífsins í gang og minnka það atvinnuleysi sem er hjá okkur þurfa bankarnir auðvitað að vera virkir og geta tekið þátt í því að hjálpa fyrirtækjum, skaffa rekstrarfé inn í fyrirtæki svo að þau geti snúist. Ég neita því ekki að mér finnst það hafa gengið allt of hægt að færa þessar skuldir úr gömlu bönkunum yfir í nýju bankana og fara yfir hvaða fyrirtæki er raunverulega hægt að aðstoða og hvaða fyrirtæki hreinlega verða að fara í þrot.

Ég átti fund í efnahags- og skattanefnd um daginn með ágætum bankamanni, Mats Josefsson, frá Svíþjóð, og ég verð að segja það að hann olli mér vonbrigðum og hugmyndir hans um íslenskt atvinnulíf og þekking hans á því. Ég held að það hefðu margir getað gert jafn vel eða betur en hann hefur verið að gera hér.

Enn og aftur ítreka ég að ég styð þetta frumvarp. Þetta er hænufet í rétta átt og það er hægt auðvitað að efla atvinnulífið með ýmsum hætti og þetta er eitt skref í þá átt. Við eigum marga aðra möguleika víða í atvinnulífinu sem snúa að nýtingu auðlinda okkar, bæði til sjávar og sveita. Það er það sem við þurfum að gera núna til að komast út úr þessari kreppu og þessum vandræðum, að nýta þá möguleika betur en við höfum gert.



[14:30]
Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram sem hefur verið mjög málefnaleg og gagnleg, enda um mjög mikilvægt málefni að ræða sem snýst um það að draga úr skattheimtu gagnvart þeim sem standa í framkvæmdum. Það er mjög mikilvægt að leita leiða til þess núna við þær aðstæður í efnahagsmálum og atvinnumálum sem við búum við. Það er sem sagt verið að festa í lög ríkari heimildir til að endurgreiða virðisaukaskatt eins og hér er fjallað um.

Það sem leiddi mig til að taka þátt í umræðunni var það að á sama tíma og hér er mikil samstaða innan þingsins um þessa skattalækkun, endurgreiðslu á virðisaukaskattinum, þá les maður um það í dagblöðum í dag að helstu ráðgjafar ríkisstjórnarinnar og ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu þar með eru að fjalla um það á fundum á vegum Samfylkingarinnar væntanlega að hækka eigi skatta. Leiðbeiningarnar sem koma úr þeirri átt og skilaboðin þaðan eru þau að hækka skuli skatta.

Ég held að Alþingi þurfi að gæta sín mjög á því sem hér er á ferðinni. Samkvæmt þessu, og að því er virðist í boði fjármálaráðherra, gengur ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu um í þjóðfélaginu og boðar skattahækkanir á sama tíma og við, löggjafarsamkoman, leggjum á ráðin um skattalækkanir til að koma hjólum atvinnulífsins í gang og fá fólk til að fjárfesta og til að koma í veg fyrir undanskot í skattkerfinu sem ég hélt að viðkomandi ráðuneytisstjóri væri alveg sérstakur, og vonandi hæstv. ráðherra líka, áhugamaður um. Það er því ekki allt sem sýnist í þessu hjá ríkisstjórninni.

Það er líka ástæða til af þessu tilefni, vegna þess að hér er um mjög mikilvægt og gott mál að ræða, að gæta þess að það verði ekki eyðilagt með því að haldið verði áfram á einhverjum öðrum vettvangi að skattleggja fólk sem vill leggja hart að sér með aukinni tekjuöflun til að geta fjárfest í endurbótum og viðgerðum á eigin húsnæði.

En það er fleira sem rekur á fjörurnar þessa dagana. Það verður auðvitað að líta til þess að þetta eitt út af fyrir sig dugar ekki og því er ástæða til að vitna til þess sem kemur fram á heimasíðu eins af forustumönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Svandísar Svavarsdóttur, sem skrifar um það 5. mars á heimasíðu sinni að forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar hljóti að vera að snúa hjólum efnahagslífsins af stað með því að gera bankana starfhæfa, „gera bankana algerlega starfhæfa“, svo vitnað sé nákvæmlega í það sem hún segir, en það eru þeir engan veginn. Þessi forustumaður, sem býður sig nú fram til þings á vegum Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu og ætlar sér stóra hluti, hefur komið auga á þetta þrátt fyrir að ríkisstjórnin virðist ekki hafa komið auga á að bankarnir eru ekki starfhæfir. Það hefur ekki verið gert nægilega mikið til að tryggja að svo sé og svo veri, m.a. með því að hræra í bankaráðum og flæma burtu þá sem tóku að sér í góðri trú að fást við það erfiða verkefni að endurreisa bankana sem hrundu. Þetta vildi ég nefna alveg sérstaklega vegna þess að þetta er mjög alvarlegt mál á sama tíma og við erum að beita okkur á Alþingi fyrir skattalækkunum, endurgreiðslu á virðisaukaskatti í þeim tilgangi að bæta úr fyrir þá sem vilja fjárfesta í atvinnustarfseminni með þeim hætti.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu að öðru leyti en vildi samt sem áður beina þeirri fyrirspurn til formanns nefndarinnar sem fjallaði um þetta mál og inna hann eftir því hvort nefndin hafi eitthvað fjallað um sérstöðu þess þáttar í byggingarstarfseminni sem er einingahúsaframleiðsla og einingahúsaverksmiðjur en aðilar þar hafa lýst óánægju sinni með endurgreiðslu á þessum sköttum og það væri fróðlegt að heyra hvort hafi verið fjallað um það sérstaklega.



[14:36]
Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við að rökræða við hv. þm. Sturlu Böðvarsson um skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Það hefur komið fram í máli fjármálaráðherra að það standi ekki til að gera neinar breytingar á almennum sköttum eins og sakir standa. Við erum að tala hér um hækkaða endurgreiðslu á virðisaukaskatti sem er einmitt frekar skattalækkun, þannig að ég ætla ekki að eyða meiri tíma í það.

Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að endurgreiðsla virðisaukaskatts nái til húseininga. Hún nær nú þegar í lögunum til verksmiðjuframleiddra húsa og gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að hún nái einnig til húseininga og endurgreiðslan á þessum þáttum hækkar þá úr 60% í 100%. Mér er kunnugt um þau áhyggjuefni sem hv. þingmaður nefnir og ég hef verið í sambandi við aðila sem hafa einmitt lýst slíkum áhyggjum og ég veit ekki betur en þeir séu ánægðir með að fá húseiningarnar inn í lögin eins og hér er gerð tillaga um. Frumvarpið er að sjálfsögðu ekki afturvirkt þannig að það getur ekki tekið á þegar liðnum tíma hvað þetta snertir. Ég veit hvaða áhyggjur hér um að ræða og hef rætt það að á því verði hugsanlega tekið sérstaklega og mun ræða það frekar við starfsmenn fjármálaráðuneytisins hvort hægt er að finna einhverjar leiðir í því efni sem hv. þingmaður er að vísa til.



[14:38]
Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir þetta svar hvað varðar endurgreiðslureglur vegna einingahúsaframleiðslufyrirtækja. Það er mjög mikilvægt að gæta vel að því að ekki verði hert að þeirri starfsemi vegna þess að ég tel að við þurfum að leita allra leiða til að lækka byggingarkostnað. Við þurfum að leita allra leiða til að fjöldaframleiðslufyrirtækin í byggingariðnaði geti eflt starfsemi sína í þeim tilgangi að lækka byggingarkostnað. Þess vegna held ég að það eigi að nota tækifærið núna til að fara rækilega yfir það í framhaldi af afgreiðslu þeirra laga sem hér eru til umfjöllunar.

Hvað varðar þessa skattalækkun annars vegar og hins vegar áform ríkisstjórnarinnar að því er virðist um skattahækkanir, þá vísa ég til þess sem lesa má í blöðum í dag en það orðalag að skattar verði ekki hækkaðir að svo komnu máli bendir auðvitað til þess að það sé allt til frekari skoðunar. Ég vara við því, við þurfum að hagræða í ríkisrekstrinum og leita allra leiða til að spara. Við eigum að fjárfesta í sparnaði, við eigum ekki að fjárfesta í skattahækkunum.



[14:40]
Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara rétt um áhyggjur hv. þingmanns af einhverjum skattahækkunum í framtíðinni, þá er rétt að vísa til þess að við störfum núna í efnahagsmálum eftir áætlun sem ríkisstjórnin samþykkti og gerði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og af hálfu þeirra aðila sem að því stóðu hefur ekki verið tekið fyrir að það kunni að þurfa að hækka skatta einhvern tíma í framtíðinni. Ég minni á að þáverandi hæstv. forsætisráðherra var Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, og það var ríkisstjórn undir forustu Sjálfstæðisflokksins sem gerði þessa efnahagsáætlun við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og af hálfu forustu Sjálfstæðisflokksins hefur ekki komið fram neitt annað en að það kunni vel að koma til þess á síðari stigum að hækka þurfi skatta. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur alls ekki þvertekið fyrir það þó að sjálfstæðismenn ýmsir aðrir reyni að berja sér á brjóst núna í aðdraganda kosninga og tali um að það muni ekki koma til greina. Við vinnum í anda og í samræmi við þessa áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og um þessi mál er fjallað þar en ég ítreka það sem ég hef áður sagt að það eru engin áform uppi um það núna að ráðast í einhverjar skattahækkanir. Við erum að reyna að koma fótunum undir atvinnulífið í landinu sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir í rúst og ég vona að það verði góð samstaða um afgreiðslu þess máls sem hér er til umræðu, því að það mun vissulega örva atvinnulífið, sérstaklega í byggingargeiranum og skyldri starfsemi, og ég vænti þess að við störfum öll saman að samþykkt þess frumvarps sem við ræðum hér.