136. löggjafarþing — 98. fundur
 10. mars 2009.
um fundarstjórn.

umræða um hagsmuni Íslands í loftslagsmálum.

[20:16]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í mótmælum vetrarins var vanmáttur Alþingis gagnvart ráðherraræði gagnrýndur en líka gagnvart flokksræði. Hér virðist hafa verið gerður einhver samningur að mér forspurðum sem tekur af mér málfrelsi og gefur hæstv. ráðherra færi á því að flytja einræður og hella yfir okkur skoðunum sem ég má ekki mótmæla. Ég mótmæli þessari fundarstjórn forseta.



[20:16]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég sat fund formanna þingflokka þar sem fyrir var tekin ósk tveggja þingflokksformanna um að sú umræða um loftslagsheimildir sem hér var að ljúka yrði tekin á dagskrá. Það voru þingflokksformenn annars vegar Framsóknarflokks og hins vegar Sjálfstæðisflokks sem lögðu á það áherslu.

Sem fulltrúi þingflokks Vinstri grænna óskaði ég eftir því að umræðan yrði látin bíða fram yfir helgi þannig að hæstv. umhverfisráðherra gæti verið viðstödd. Við því var ekki orðið. Hins vegar varð niðurstaðan sú að umræðunni var frestað, henni lauk ekki fyrir helgi, til þess að hæstv. ráðherra gæti komið inn í hana eins og nú hefur gerst. Það er ekki að ráði okkar Vinstri grænna og það er ekki að ráði hæstv. ráðherra sem þetta mál ber svona að og ég vil ítreka það með þessum orðum mínum.



[20:18]
Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Það er ljóst að samkomulag var gert milli formanna þingflokka í samræmi við þá ósk sem hér hefur verið upplýst um, þ.e. að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hafi borið fram ósk um að hæstv. umhverfisráðherra fengi tækifæri til að fara yfir það mál sem á dagskrá var. Ég tel að eftir þá ræðu sem flutt var af hálfu hæstv. umhverfisráðherra sé ljóst að þeirri umræðu verði með einhverjum hætti að halda fram. Það sem fram kom hjá hæstv. ráðherra var með þeim hætti að það er alveg augljóst að fara þarf yfir það í þinginu. Sú umræða sem hér var hafin í samkomulagi milli þingflokksformanna verður ekki endurtekin en það er ljóst (Forseti hringir.) af ræðu hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að athugasemdir hv. þm. Péturs Blöndals eiga ekki að koma nokkrum manni á óvart.



[20:19]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Rökin sem færð voru fyrir því að nauðsynlegt væri að flýta þessari umræðu svo mjög sem raun varð á voru þau að tillagan væri flutt af meiri hluta þingmanna á Alþingi. Hins vegar hefur ekki komið fram nein slík ósk um aðra tillögu sem hér liggur fyrir þinginu og eins ber að og það er varðandi hvalveiðar. Ég hlýt að furða mig á því hvaða greinarmun menn gera á þessum tveimur málum með tilliti til þessa.

Ég hlýt að skilja orð hæstv. forseta svo, og það að nú er þessari umræðu lokið, að þessi þingsályktunartillaga, þessi tillaga sem hér liggur fyrir, verði einmitt rædd frekar. Henni hefur þegar verið vísað til nefndar og það er ávísun á að hún fái þinglega meðferð og frekari umræðu.



[20:20]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þann ágreining sem orðið hefur milli þingmanna hér á undan. Ég vildi hins vegar spyrja hæstv. forseta hvort hann telji líkur á því að hæstv. utanríkisráðherra komi síðar í kvöld til að taka þátt í umræðum um stjórnarskrármál. Ég les það á heimasíðu hæstv. utanríkisráðherra að hann hefur miklar áhyggjur af þeim umræðum sem fara fram um stjórnarskrármál í þinginu. Mér þætti vel við hæfi að kostur gæfist á að eiga orðastað við ráðherrann, einkum þar sem hann er að fella dóma um það sem fram hefur farið í þinginu í dag án þess að hann hafi sést hérna.



[20:21]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti mun koma þessum skilaboðum eða óskum á framfæri þannig að hæstv. utanríkisráðherra geti komið til umræðunnar. Varðandi það mál sem hér var afgreitt, 10. mál á dagskrá, vill forseti benda á að um það mál var samið skv. 72. gr. þingskapalaga, lokamálsgreininni, þar sem rætt var um fastan ræðutíma. Málið var sett fram fyrir öll önnur mál að ósk áðurnefndra þingflokksformanna og á það féllst forseti, enda var ræðutími takmarkaður. Það var kynnt í upphafi máls og þar sem enginn gerði athugasemd við ræðutímann var eftir því farið og þeirri umræðu lokið áðan þannig að það sé upplýst.