136. löggjafarþing — 99. fundur
 11. mars 2009.
uppbygging samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu.
fsp. GÞÞ, 353. mál. — Þskj. 602.

[12:45]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef áhuga á að spyrja hæstv. samgönguráðherra um uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu. Til margs er að líta þegar kemur að þeim, ekki aðeins hvaða verkefni eru í gangi og hvar þau standa heldur er alveg ljóst að þetta tengist mörgum öðrum þáttum og þá er ég sérstaklega með í huga umferðaröryggismálin.

Ég hef áhuga á því, ef hæstv. samgönguráðherra hefði tækifæri til að minnast líka á atriði eins og það hvort gert hefur verið umferðarmódel eða flæðilíkan af höfuðborgarsvæðinu í heild sinni. Sömuleiðis hvort uppi séu áætlanir um úrbætur á helstu æðum, sérstaklega Miklubraut og Kringlumýrarbraut, til að auka afkastagetu með því að koma á fríu flæði umferðar með mislægum gatnamótum.

Jafnframt hef ég áhuga á svifryksmengunarmálum. Þar er mjög margt hægt að gera þegar kemur að umferðarmálum. Það væri fróðlegt, virðulegi forseti, ef hæstv. ráðherra hefði möguleika á að upplýsa hvaða gæðakröfur eru gerðar til styrkleika þess malbiks sem notað er á helstu umferðaræðar, hvort notaðir séu viðurkenndir Evrópustaðlar fyrir malbik á höfuðborgarsvæðinu og hvort helstu götur séu þrifnar reglubundið á svipaðan hátt og í nágrannalöndunum eða hvort einungis sé reynt að binda rykið eins og fram hefur komið í fréttum. Og síðan, hvaða kröfur eru gerðar um bindingu jarðefna á vinnusvæðum og þrif á tækjum áður en þau fara á umferðargötur og um yfirbreiðslur á farmi sem getur myndað ryk?

Þessu tengist auðvitað líka spurningin hvort gert hafi verið mat á kostnaði heilbrigðiskerfisins annars vegar og samfélagsins í heild hins vegar af völdum umferðarslysa og hvað líði stefnu stjórnvalda til fækkunar umferðarslysa og hvernig miði í því efni samkvæmt umferðaröryggisáætlun sem við þekkjum.

Og loks varðandi samgöngumannvirkin á höfuðborgarsvæðinu, er hugað sérstaklega að því með tilliti til umferðaröryggis og þá er ég að vísa til ljósastaura, umferðarljósa, girðinga, brúarstöpla, skorts á vegriðum o.s.frv. og er í gangi sérstök áætlun til lagfæringar á slíkum stöðum?

Ástæðan fyrir því að ég tek þetta mál upp hér, virðulegi forseti, er margþætt. Ég tel aldrei brýnna en einmitt við núverandi aðstæður að við gerum góðar áætlanir hvað þetta varðar, ekki aðeins í uppbyggingu á þessum arðbæru framkvæmdum heldur að við horfum líka til umferðaröryggisins, því að við gleymum oft að eitt stærsta heilbrigðisvandamálið er umferðarslysin og því er mjög mikilvægt að við vinnum skipulega að því að fækka þeim. Það hefur verið gert í öðrum löndum með góðum árangri.



[12:48]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hv. þingmanni fyrir þá fyrirspurn sem hann hefur lagt hér fram og aðrar spurningar sem hann bætti við í ræðu sinni. Ég skal reyna eftir fremsta megni að komast yfir þær allar og sjá hvað hægt er að gera á þessum fimm mínútum.

Fyrst að spurningunni: Hvað líður áformum um uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu? Þar er fyrst til að nefna framkvæmdir á Reykjanesbraut í Garðabæ. Á síðasta ári voru tekin í notkun tvenn ný mislæg gatnamót á Reykjanesbraut í Garðabæ, við Arnarnesveg og Vífilsstaðaveg, og lokið verður við frágang á báðum þessum verkum á þessu ári.

Ef ég fer svo yfir í framkvæmdir sem boðnar hafa verið út eða þar sem útboð eru á næsta leiti, þá er fyrst að nefna Arnarnesveg frá nýjum gatnamótum við Reykjanesbraut að Fífuhvammsvegi. Áætlað er að útboð verði auglýst í lok mars og framkvæmdir hefjist í beinu framhaldi og verði lokið sumarið 2010.

Álftanesvegur frá Hafnarfjarðarvegi í Engidal að Bessastaðavegi. Framkvæmdin sem felst í lagningu nýs vegar ásamt hringtorgi við Bessastaðaveg er í útboði. Áætlaðar framkvæmdir hefjast í maí eða júní og verður lokið haustið 2010.

Hvað varðar hringveginn í Mosfellsbæ þá er unnið að undirbúningi breikkunar í fjórar akreinar frá Skarhólabrautarhringtorgi að Þingvallavegarhringtorgi. Útboðsgögn verða tilbúin síðar á árinu.

Hringvegurinn frá Rauðavatni að Vesturlandsvegi. Hönnunarvinna er í gangi. Útboðsgögn fyrir tvöföldun hringtorgs við Norðlingavað og útboðsgögn fyrir breikkun kaflans frá Bæjarhálsi að Vesturlandsvegi verða tilbúin i haust.

Þá er rétt að nefna hér líka Suðurlandsveg. Mikil vinna er í gangi hvað varðar undirbúning þar og ég reikna með að í næstu viku muni koma tilkynning frá okkur um hvað verði gert þar, hvenær verk hefjist og hvernig verði farið í það.

Framkvæmdir sem boðnar verða út síðar eru hringvegur á Kjalarnesi. Frumhönnun vegna tvöföldunar vegarins liggur fyrir í drögum og er í óformlegri kynningu hjá Reykjavíkurborg. Frumhönnunargögn verða forsenda deiliskipulags. Ekki er áætlað að hægt verði að bjóða út framkvæmdir á þessu ári.

Kringlumýrarbraut og Miklubraut. Mislæg gatnamót og stokkur vestur að Rauðarárstíg. Reykjavíkurborg hefur lagt fram tillögu að tveggja hæða gatnamótum sem er til skoðunar hjá Vegagerðinni. Gert er ráð fyrir áframhaldandi vinnu við umhverfismat síðar á árinu.

Ef við förum svo yfir á Hafnarfjarðarveg, gatnamót við Vífilsstaðaveg. Lausleg athugun á kostnaði við minnsta áfanga mislægra gatnamóta er af stærðargráðunni 2–3 milljarðar. Breikkun gatnamótanna í plani eins og gert var við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar gæti leyst úr þörf fyrir aukna umferðarrýmd og verður sú lausn könnuð frekar í samráði við bæjaryfirvöld í Garðabæ. Talið er að sú framkvæmd kosti um 500 millj. kr. Þess er auðvitað rétt að geta að hin vellukkaða framkvæmd á Miklubraut/Kringlumýrarbraut, sem gerð var í tíð R-listans, hefur margsannað gildi sitt og sjáum við það m.a. í umferðarslysatölum að óhöppum hefur fækkað.

Ef við tökum næst Reykjanesbraut í Hafnarfirði frá Kaldárselsvegi að Krísuvíkurvegi. Hönnunarvinna vegna tvöföldunar brautanna ásamt nýjum mislægum gatnamótum við Krísuvíkurveg er í gangi og áætlað að útboðsgögn verði tilbúin í lok árs.

Arnarnesvegur frá Fífuhvammsvegi að Breiðholtsbraut. Undirbúningsvinna er í gangi og gert er ráð fyrir að útboðsgögn verði tilbúin árið 2010.

Síðan getum við farið yfir Sundabraut þar sem unnið er að umhverfismati fyrir báða áfanga, þ.e. frá Sæbraut að Geldinganesi annars vegar og frá Geldinganesi norður á Kjalarnes hins vegar.

Ég vil líka, virðulegur forseti, nefna nokkur minni verk sem eru til skoðunar í samvinnu við sveitarfélög. Lagfæring á gatnamótum Bústaðavegar og Flugvallarvegar er í útboði með Reykjavíkurborg. Lenging strætóreina á Miklubraut er til skoðunar og einnig strætórein við Hafnarfjarðarveg frá Arnarneshæð að Kópavogshálsi. Lagfæringar gatnamóta Bústaðavegar og Kringlumýrarbrautar og einnig lagfæring gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar. Fleiri slík verk eru í undirbúningi.

Almennt um umferðarflæði, af því að hv. þingmaður spyr út í það hér, má segja að ástand umferðar á höfuðborgarsvæðinu er í allgóðu horfi. Ferðahraði og tafir eru besti mælikvarðinn á ástandið. Meðalferðahraði á völdum aðalleiðum í Reykjavík var um 32 km á klukkustund á háannatíma, bæði kvölds og morgna, árið 2008 samkvæmt mælingum samgönguskrifstofu Reykjavíkurborgar. Ferðahraðinn er mun hærri utan annatíma. Ferðahraði er skilgreindur sem meðalhraði frá upphafsstað til endastaðar og eru öll stopp á leiðinni innifalin. Borið saman við erlendar borgir þykir þetta mjög hár ferðahraði.

Virðulegi forseti. Þar sem klukkan er farin að tifa á mig vil ég segja að vegna þeirra mörgu og góðu aukaspurninga sem hv. þingmaður lagði fyrir mig þá mun ég að fara betur yfir þær í seinni svartíma mínum.



[12:53]
Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að koma hér að uppbyggingu samgöngumannvirkja á Stór-Reykjavíkursvæðinu sem ég tel að snerti uppbygginguna á Kjalarnesi. Á síðasta ári voru áætlaðar 800 milljónir til breikkunar eða til tvöföldunar á Kjalarnesi og eftir því sem ég best veit hafa samgönguyfirvöld á Stór-Reykjavíkursvæðinu með R-listann í broddi fylkingar ekki komið sér saman um hvar vegtengingin átti að koma upp á Kjalarnesið. Ég tel það mjög miður og bagalegt að þessu verki skuli slegið á frest því að um Kjalarnesið fer alveg ógrynni bíla, ég keyri þar sjálf á hverjum einasta morgni og sé því umferðina. Ég vona (Forseti hringir.) að hæstv. samgönguráðherra sjái til þess að þær framkvæmdir verði ekki stöðvaðar.



[12:55]
Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég tek undir með hv. þm. Herdísi Þórðardóttur þegar kemur að umferðarmálum á Kjalarnesi. Sá vandi sem þar er er algjörlega vanmetinn, hann hefur ekki verið jafnmikið í umræðunni og vandinn á ýmsum öðrum stöðum en þar eru hættur sem við þurfum að taka á.

Ég lít svo á að þetta sé eitt alstærsta verkefnið hjá okkur núna og afskaplega mikilvægt að við vöndum til verksins. Þess vegna kom ég líka með þær spurningar sem ég spurði hér vegna þess að á þessu máli eru margar hliðar. Þetta snýst ekki bara um að byggja umferðarmannvirki, þetta snýst um að geta náð ákveðnum árangri með því að hafa ákveðin prinsipp í gangi, þ.e. hreyfanleg umferð, hagkvæm umferð, hrein umferð, hindrunarlaus umferð, hljóðlát og hættulaus umferð. Þetta hljómar kannski eins og þetta sé óyfirstíganlegt en því fer víðs fjarri.

Ég legg áherslu á að notuð séu umferðarmódel, flæðilíkan á höfuðborgarsvæðinu þegar menn hanna þessa hluti. Ég veit, bæði sem borgarfulltrúi og þingmaður, að það hefur vantað upp á slíkt og það er mjög mikilvægt að við vinnum þetta með þeim hætti. Umferðarmálin á höfuðborgarsvæðinu hafa því miður oft og tíðum mætt afgangi. Menn hafa verið að skipuleggja hér ýmis svæði þar sem umferðarmálin hafa mætt afgangi og ég tel okkur hafa gert mikil mistök á mörgum sviðum. Núna eru ákveðnir tappar sem við verðum að losa um. Það snýr að mörgu, það snýr að því að umferðin gangi örugglega fyrir sig, það snýr líka að mengunar- og umhverfismálum. Ég tel að við eigum að ræða þetta sérstaklega í þinginu, þ.e. samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu, og við ættum að taka góðan tíma í það, því að þetta er víðfeðmur málaflokkur sem varðar ekki bara hagsmuni okkar sem búum á svæðinu heldur hagsmuni allra Íslendinga.



[12:57]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég sný mér þá að öðrum spurningum sem hv. þingmaður bar upp með fyrirspurn sinni.

Hvað varðar umferðarmódel eða flæðilíkön á höfuðborgarsvæðinu þá er því til að svara að það er notað en það er auðvitað sífellt í endurskoðun og endurbótum og þannig hefur það verið.

Hv. þingmaður spyr um Miklubraut/Kringlumýrarbraut. Ég svaraði því áðan. Að auka afkastagetuna um þau fjölförnustu gatnamót landsins. Ég svaraði því áðan, við erum að vinna með tillögur sem komu frá Reykjavíkurborg um tveggja hæða gatnamót, það er í gangi.

Svifryksmengunin. Því er til að svara að um þá vegi sem snúa að Vegagerðinni er þjónustusamningur á milli Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborg sem slík sinnir því verki.

Gæðakröfur til styrkleika malbiks. Jú, það er gert. Samvinna Reykjavíkurborgar og Vegagerðar er þar líka. Þetta er auðvitað gert með þeim bestu steinefnum sem völ er á og við fáum hér á Íslandi. Hér var talað um Evrópustaðla, við getum sagt að Evrópustaðlar með íslenskum stöðlum eru notaðir vegna þess að við þurfum að taka tillit til fleiri þátta en gert er annars staðar eins og frost, þíðu, nagladekkja o.s.frv.

Hvað varðar þrif á götum hefur ég svarað því með þjónustusamningnum.

Hvað varðar aftur svo þann mikilvæga þátt sem er tjón af umferðarslysum er mér ánægja að segja frá því að í morgun klukkan 11 var undirritaður samningur um umferðaröryggisáætlun. 367 milljónum er varið til umferðaröryggisáætlunar í ár þar sem við setjum tæpar 80 milljónir í sýnilegt eftirlit lögreglu, áróður og fræðsla upp á tæpar 40 milljónir, endurbætur á vegum hvað varðar svartbletti og annað slíkt, sértækar aðgerðir eru einar 240 millj. kr. Þannig að (Forseti hringir.) þetta hefur verið gert.

Í lokin varðandi framkvæmdir í samgöngumálum á krepputímum. (Forseti hringir.) Árið 2009 verður annað mesta framkvæmdaár í vegamálum á Íslandi. (Forseti hringir.) Árið 2008 var það mesta, þannig að við erum að gera og höfum aldrei gert annað eins í samgöngumálum og einmitt núna.