136. löggjafarþing — 102. fundur
 13. mars 2009.
Tilkynning forsætisráðherra um þingrof og kosningar.

[10:33]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Forseti Íslands hefur ritað svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Forsætisráðherra hefur tjáð mér að vegna þess mikla efnahagsáfalls sem þjóðin hefur orðið fyrir hafi þeir flokkar sem nú standa að ríkisstjórninni orðið ásáttir um við myndun hennar að efna sem fyrst til almennra alþingiskosninga.

Samkvæmt tillögu forsætisráðherra og með vísan til 24. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, eins og henni var breytt með 5. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 56/1991, samanber 21. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, er með skírskotun til framanritaðs ákveðið að þing verði rofið 25. apríl 2009 og að almennar kosningar til Alþingis fari fram sama dag.

 

Gjört á Bessastöðum, 13. mars 2009.

Ólafur Ragnar Grímsson.

___________________

Jóhanna Sigurðardóttir.

Forsetabréf um þingrof og almennar kosningar til Alþingis.“

 

Virðulegi forseti. Núverandi ríkisstjórn var mynduð við sérstakar aðstæður og var henni ætlað að starfa stutt og sjá til þess að kosningum yrði flýtt, enda hafði orðið trúnaðarbrestur milli þings og þjóðar. Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að stefnt væri að því að almennar þingkosningar færu fram 25. apríl nk. Formlega er þó ekki boðað til kosninganna fyrr en nú með því að forsetabréf þetta hefur verið kunngjört. Er það í samræmi við skilmála stjórnarskrárinnar um að kjósa verði áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið. Nú verður hægt að hefja formlegan undirbúning kosninga, t.d. með utankjörfundaratkvæðagreiðslu og framlagningu kjörskrár.

Þetta er í fyrsta skipti sem tilkynnt er um þingrof á grundvelli 24. gr. stjórnarskrárinnar eftir að henni var breytt 1991. Með þeirri breytingu var komið í veg fyrir að forseti, með atbeina forsætisráðherra, gæti sent þingið heim samdægurs. Í raun fellur kjördagur því ætíð saman við þingrofsdag en áður fyrr gat þingrofið átt sér stað fyrr. Alþingi starfar áfram eftir sem áður enda er sérstaklega tekið fram í 24. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt árið 1991, að þingmenn haldi umboði sínu til kjördags. Engar hömlur eru á umboði þingmanna á þessu tímabili. Unnt er að leggja fram ný mál þótt tilkynnt hafi verið um þingrof og hægt er að afgreiða bæði almenn lög og stjórnarskipunarlög. Vonandi fær stjórnarskrármálið niðurstöðu og afgreiðslu í stjórnarskrárnefnd sem fjallar nú um það mál og þegar frumvarp til stjórnarskipunarlaga hefur hlotið samþykki samkvæmt 79. gr. stjórnarskrárinnar skal rjúfa Alþingi. Með þeirri tilkynningu sem hér er gerð grein fyrir eru skilyrði 79. gr. stjórnarskrárinnar uppfyllt þessu leyti.

Það er svo sjálfstæð ákvörðun hvenær fundum Alþingis verður frestað fyrir kosningar. Ekkert hefur verið ákveðið í því efni og flokkarnir hafa enn ekki náð samkomulagi þar um. Þegar það mun liggja fyrir mun ég flytja hefðbundna þingsályktunartillögu um frestun funda Alþingis og lesa upp forsetabréf þess efnis. Þess má geta að hingað til hefur skemmst liðið um mánuður frá frestun funda Alþingis til kjördags.

Nær öll þau mál sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að fá afgreidd hafa nú verið lögð fram. Fyrir liggur að stjórnmálaflokkar hafa mismunandi sýn á hversu lengi þingið á að starfa á þessu vori og hvaða mál séu brýnust. Ég legg áherslu á að öll brýn mál þarf að afgreiða áður en þingi verður frestað. Þar er m.a. um að ræða mál sem varða stuðning við heimilin í landinu og atvinnulífið og endurreisn fjármálakerfisins, auk frumvarps til laga um breytingar á kosningalögum og stjórnarskipunarlögum sem flutt eru af fulltrúum fjögurra flokka. Listi yfir þau mál sem ólokið er hefur verið kynntur formönnum stjórnmálaflokka og jafnframt var þeim greint frá því að ef til vill gætu örfá mál bæst á þann lista. Ég vil undirstrika að þessi mál eru öll afar mikilvæg og þeim þarf að ljúka. Því er mikilvægt að þing starfi þangað til þau eru orðinn að lögum.



[10:38]
Geir H. Haarde (S):

Herra forseti. Eins og málum er nú komið gerir Sjálfstæðisflokkurinn ekki ágreining við þá tilkynningu sem hér var lesin upp. Það hefur legið fyrir að það stefndi í kosningar 25. apríl og það vantaði að tilkynna um það með formlegum hætti þannig að undirbúningur eins og utankjörfundaratkvæðagreiðsla gæti hafist með eðlilegum hætti. Við þetta gerum við ekki athugasemdir.

Við gerum athugasemdir við þau áform ríkisstjórnarinnar sem fram komu í máli forsætisráðherra áðan og hafa komið fram áður að ætlunin sé að þingið starfi jafnvel vikum saman eftir að þessi tilkynning hefur verið lesin upp á Alþingi um þingrof og kosningar. Það er óeðlilegt.

Hæstv. forsætisráðherra fór yfir nokkur atriði í tengslum við stjórnarskrárbreytingar sem gerðar voru 1991. Þá náðist um það samkomulag að koma í veg fyrir að forsætisráðherra með atbeina forseta — því að það er jú þannig sem það gerist en ekki forseti með atbeina forsætisráðherra — gæti leyst upp þingið með þingrofi, gert þingmenn umboðslausa og sent þingið heim. Nú er það ekki hægt lengur með sama hætti þó að þingrofsrétturinn formlegi sé áfram í höndum forsætisráðherra. Þingmenn halda enn þá sínu umboði. Þetta atriði var hugsað á sínum tíma, eins og við munum sem sátum á Alþingi þá, aðallega til þess að hafa þann möguleika að geta kallað þingið saman frá því að það lyki hefðbundnum störfum og fram að kosningum ef eitthvað óvænt kæmi upp í þjóðfélaginu sem kallaði á atbeina þess. Það er ekkert slíkt yfirvofandi núna sem vitað er um.

Hins vegar er það ekki þannig að þingið geti ekki setið eins og nú er ráðgert að það geri. Þingið hefur heimildir til þess. Lögfræðilega er það leyfilegt en pólitískt er það ekki eðlilegt vegna þess að gera verður ráð fyrir því að frambjóðendur til Alþingis, stjórnmálaflokkarnir og allir aðrir sem láta sig þau mál varða hafi eðlilegan undirbúningstíma í aðdraganda kosninga. Kjósendur eiga líka rétt á því. Núna er tími prófkjara og forvala í flokkunum, landsfundir eru fram undan í þremur eða fjórum stjórnmálaflokkum og ekki er hægt að bjóða upp á það að þingið sé hér að störfum meðan slíkar samkomur eru að störfum. Það er líka ástæðulaust, virðulegi forseti, vegna þess að hægt er að ljúka þingstörfum á mjög stuttum tíma ef vilji er fyrir hendi.

Í nefndaráliti allsherjarnefndar sem fjallaði um stjórnarskrárbreytingarnar 1991 var vikið að því nýmæli að þingið gæti starfað áfram en það er jafnframt vikið að því að það sé reynsla annarra þjóða sem búa við svipað fyrirkomulag og við að þingið tekur sér aðeins tíma til að afgreiða brýnustu mál, sem alger samstaða er um, en lýkur síðan störfum til að kosningaundirbúningur geti hafist. Þetta er dregið fram í nefndarálitinu 12. febrúar 1991 til að leggja áherslu á að það er ætlast til þess að þingið hætti störfum, ljúki brýnustu málum um leið og búið er að tilkynna formlega um kosningar og þingrof.

Ég tel að ef vel er haldið á spöðum á næstu dögum sé hægt að afgreiða öll brýn mál á Alþingi. Við sjálfstæðismenn munu greiða fyrir því að öll mál sem varða endurreisn efnahagslífsins, atvinnuuppbyggingu, hagsmunamál heimila og atvinnulífs nái hér fram að ganga. Það kom m.a. í ljós á þingfundinum í gær að þingstörfin gengu afar og óvenjulega greiðlega vegna þess að við beittum okkur fyrir því að þessi mál öll mættu ná hratt og vel fram að ganga. Ég hygg að það verði þannig með önnur þau mál af þessu tagi sem ekki eru enn komin á dagskrá þingsins. Þess vegna er mjög brýnt að forsætisráðherra beiti sér nú fyrir því að um frestun þingsins geti tekist gott samkomulag milli allra flokka því að á endanum, eins og við þekkjum og eins og forsætisráðherra gat um, er það þingið sjálft sem ræður því hvenær það lýkur störfum og samþykkir frestunartillögu.



[10:43]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Öfugt við síðasta ræðumann, formann Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Geir H. Haarde, þá hef ég ekki mestar áhyggjur af forminu um þessar mundir enda ekkert við það að athuga. Áhyggjur mínar snúa að íslensku samfélagi, að íslenskum almenningi og hvernig honum reiðir af á næstu vikum, mánuðum og árum. Í samræmi við þá yfirlýsingu sem forsætisráðherra hefur flutt er búið að festa kjördag. Það er mikilvægt, þá getur utankjörfundaratkvæðagreiðsla hafist og allir geta miðað sinn undirbúning eftirleiðis við þessa dagsetningu sem er þar með endanleg og föst.

Það er engu að síður ljóst að Alþingi þarf eftir sem áður að ljúka mjög mikilvægum verkefnum, brýnum, ívilnandi og stuðningsverkefnum sem snúa að heimilum, atvinnulífi og að lýðræðinu sjálfu, þeim lýðræðisumbótum sem þjóðin gerir kröfu um að ráðist verði í. Lýðræðið er líka mikilvægt. Það ber ekki að gleyma því að þjóðin upplifir það þannig að hún þurfi að fá það betur í sínar hendur og hafa sterkari stöðu hvað stjórnskipun og lög varðar til þess að ráða málum sínum og örlögum sínum sjálf eins og þjóð á að gera í lýðræðisríki. (Gripið fram í.) Það er enda mín skoðun, og ég tel að það sé eitt af því sem formenn stjórnmálaflokkanna eiga að ræða á næstu dögum, að stutt, vel skipulögð og hófstillt kosningabarátta sé best við hæfi við þessar aðstæður, hófstillt t.d. í þeim skilningi að öllum fjárútlátum verði haldið í algeru lágmarki. Stjórnmálaflokkarnir eiga ekki nú að bjóða þjóðinni upp á dýrar auglýsingar og íburð og glansmyndir, það væri síst af öllu við hæfi eins og málum er komið á Íslandi.

Ég er algerlega sannfærður um það líka að þjóðin gerir þær kröfur til Alþingis og alþingismanna að þeir vinni sína vinnu, að þeir skili þeim verkum sem bæta aðstæður hennar og gera okkur mögulegt að kjósa við þær skástu aðstæður sem í boði verða á Íslandi í dag. Það er mikilvægt verkefni og ég leyfi mér líka að draga í efa að það sé rétt nálgun að það hindri eðlilega lýðræðislega umræðu og pólitíska umræðu að Alþingi sé að störfum. Er ekki Alþingi þrátt fyrir allt einn mikilvægasti pólitíski vettvangur í landinu? Hér er fundað í heyranda hljóði, með vinnu hér og ræðuhöldum getur almenningur fylgst með því að mæta á þingpalla eða með því að horfa á sjónvarp, þannig að hér er líka vettvangur pólitískra skoðanaskipta og stefnumótunar. Ég held að stutt og vel skipulögð kosningabarátta sem fyrst og fremst fer fram frá og með páskum sé það sem er best við hæfi og þá þróast málin hér í takt við það sem þau hafa yfirleitt gerst í nálægum löndum, að flokkarnir sameinast um stutta og vel skipulagða kosningabaráttu.

Það eru óvenjulegir tímar, afbrigðilegir tímar á Íslandi og það skiptir miklu máli að menn nái að haga sínum störfum og sinni framgöngu í samræmi við það. Íslenskt þjóðarbú, íslenskt samfélag er grátt leikið vegna óstjórnar og mistaka, þar á meðal og ekki síst í stjórnmálum á undangengnum árum, og það eru ærin verkefni að greiða þar úr. Kosningarnar 25. apríl verða afdrifaríkar, kannski einhverjar þær mikilvægustu sem gengið hefur verið til í langan tíma og þær kosningar munu fyrst og fremst snúast um tvennt. Annars vegar að gera upp reikningana, þ.e. að gera upp reikningana við þá sem hafa brugðist þjóðinni að því marki sem það er hægt í kosningum. Það þarf að sjálfsögðu að gera það víðar og það er verið að því og mun verða gert í gegnum réttarkerfið og með ýmsum öðrum hætti. En kosningarnar þurfa líka að snúast um framtíðina, um endurreisnina og það hvernig menn sjá þá hluti fyrir sér, þar á meðal vonandi að það verði skýrir kostir í boði hvað það varðar að kjósa landinu áfram trausta og starfhæfa ríkisstjórn til að leiða málin á næstu mánuðum, missirum og árum. Ekki mun af veita að þar takist vel til því að ærin eru verkefnin til að greiða úr.



[10:47]
Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Náðst hefur samkomulag um það að kjördagur verði 25. apríl og er það í samræmi við þann málflutning sem við framsóknarmenn höfum viðhaft, þ.e. að það yrði að kjósa hið fyrsta til þess að stjórnmálamenn geti endurnýjað umboð sitt og til þess að stjórnmálaflokkar geti endurnýjað umboð sitt gagnvart kjósendum.

Þegar við framsóknarmenn lýstum því yfir að við vildum verja ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna vantrausti, kæmi slík tillaga upp á vettvangi þingsins, lögðum við aðallega áherslu á þrjú atriði: að komið yrði til móts við skuldug heimili, komið yrði til móts við erfiðleika í atvinnulífinu og að sérstöku stjórnlagaþingi yrði komið á laggirnar.

Ég ætla ekkert að leyna því að við framsóknarmenn viljum ganga mun róttækar fram í málum atvinnulífsins og heimilanna en sitjandi ríkisstjórn gerir. Við munum á þeim dögum sem eftir eru af þessu þingi vinna áfram að því að afla hugmyndum okkar fylgis en við lögðum fram mjög ítarlegar efnahagstillögur til þess að koma til móts við vanda heimila og fyrirtækja. Þær tillögur eru vissulega róttækar en við teljum að í ljósi þess gríðarlega alvarlega ástands sem steðjar að íslensku samfélagi þurfi stjórnmálamenn að koma fram með róttækar hugmyndir og róttækar tillögur. Ég hef í því samhengi talað fyrir því að geri menn ekki neitt — ef menn ætla að vera í einhverjum smáskammtalækningum gagnvart heimilum og atvinnulífinu geti mögulegt kerfishrun verið yfirvofandi og því viljum við framsóknarmenn að sjálfsögðu afstýra.

Þriðja atriðið sem ég nefndi varðar stjórnlagaþingið. Við framsóknarmenn leggjum höfuðáherslu á það að á þeim dögum sem eftir eru af þinginu verði það mál afgreitt. Það er gríðarlegur vilji fyrir því í samfélaginu. Í nýlegri könnun sýnir það sig að 77% þjóðarinnar vilja að stjórnlagaþingi verði komið á. Fjórir af fimm stjórnmálaflokkum á vettvangi Alþingis vilja að sérstöku stjórnlagaþingi verði komið á þar sem almenningur muni án afskipta stjórnmálaflokkanna kjósa sér fulltrúa á það þing.

Stjórnlagaþing er ekki eitthvert einstakt fyrirbrigði sem við erum að ræða hér á Íslandi. Stjórnlagaþingi hefur verið komið á á mörgum tímaskeiðum sögunnar, yfirleitt á miklum tímamótum. Við stöndum á tímamótum, við þurfum að móta okkur nýjar leikreglur í íslensku samfélagi og við þurfum að upphefja ný gildi. Þetta er verkefni framtíðarinnar. Þetta er líka það sem kosningarnar og kosningabaráttan sem fram undan er mun snúast um. Við munum að sjálfsögðu gera upp fortíðina en stjórnmálaflokkarnir í komandi kosningabaráttu þurfa líka að hafa skýra framtíðarsýn, skýra stefnu til framtíðar um hvernig við ætlum að endurreisa íslenskt samfélag. Ég hef ekki trú á því að kjósendur muni aðhyllast þá stjórnmálaflokka sem eingöngu vilja líta aftur fyrir sig.

Við framsóknarmenn gerum okkur grein fyrir því að fram undan er mikið átak í því að byggja upp öflugt íslenskt atvinnulíf til þess að styrkja stöðu heimilanna. Það er verkefni dagsins í dag. Við fórum fram árið 1995 með þá stefnu að skapa tólf þúsund ný störf í íslensku samfélagi. Það var hlegið að því þá. Við munum leggja áherslu á atvinnumál í komandi kosningabaráttu sem verður snögg en fram að því þurfum við að nýta tímann vel hér á vettvangi Alþingis til þess að koma til móts við vanda heimila og fyrirtækja og síðast en ekki síst að koma á fót stjórnlagaþingi.

Ég tel að þeir tímar séu runnir upp að stjórnmálamenn þurfi að hugsa meira um fólkið í landinu en flokkinn sinn en mér hefur fundist, í umræðum hér á Alþingi, að sumir tali fyrst fyrir flokkinn sinn en síðan fyrir almenning. Við viljum að almenningur fái að kjósa til stjórnlagaþings án þess að stjórnmálaflokkarnir séu innviklaðir í það. Þetta er skýr stefna okkar framsóknarmanna og ég er tilbúinn að starfa hér fram á nætur og fram undir morgna til þess að koma þessu stefnumáli í gegn, enda er það skýr krafa og skýr vilji almennings að við gerum það hér á vettvangi þingsins og það er verkefni okkar fram undan.



[10:52]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Nú liggur fyrir hvernig staðið verður að málum að því er varðar þingrof og kosningar. Hins vegar liggur ekki fyrir, hæstv. forseti, hvernig okkur tekst að afgreiða mál hér í hv. Alþingi. Þar er mikið verk að vinna og margt verður að nást fram áður en við göngum til kosningabaráttunnar, til alþingiskosninganna og síðan til ríkisstjórnarmyndunar. Það tekur allt sinn tíma og þess vegna þarf nauðsynlega að leggja upp með það að við höfum lokið þeim málum sem gagnast þjóðinni best yfir þann tíma sem Alþingi er ekki starfandi.

Hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan úr þessum ræðustól að trúnaðarrof hefði orðið milli þings og þjóðar. Ég vil frekar orða það þannig, hæstv. forseti, að trúnaðarrof hefði orðið milli þjóðarinnar og þeirra stjórnmálaflokka sem stjórnað hafa landinu undanfarin ár, undir forustu Sjálfstæðisflokksins í tæplega 18 ár. Við sitjum núna uppi með það hörmungarástand sem dunið hefur á þjóðinni, því miður, og þúsundir Íslendinga standa frammi fyrir atvinnuleysi. Fólkið í landinu er að tapa eigum sínum og jafnvel einnig húsnæði sínu.

Við þurfum að leggja áherslu á fjölmörg mál og reyna þannig að lágmarka skaðann meðan gengið er til kosninga og nýrrar ríkisstjórnarmyndunar. Þjóðin þarf vissulega að horfa til framtíðar þrátt fyrir áföllin. Við í Frjálslynda flokknum höfum stutt góð mál hér í þinginu hvaðan sem þau hafa komið og munum gera svo áfram. Við leggjum líka verkferla okkar og málflutning í hreinskilni fyrir þjóðina og kvíðum ekki þeirri niðurstöðu. Það þarf að gera lýðræðisumbætur í þessu landi og við styðjum þær breytingar sem lagt hefur verið upp með í sambandi við stjórnarskrármálið og eins að því er varðar röðun lista og óraðaða lista fyrir alþingiskosningar.

Þetta eru mikilvæg mál fyrir framþróun lýðræðis í landinu og mikilvægt fyrir þjóðina að finna að Alþingi tekur líka slík mál til afgreiðslu og þau eiga ekki að þurfa að tefja þau mikilvægu mál sem við þurfum að framkvæma og koma hér í gegn að öðru leyti en því er varðar hag fyrirtækja og fólksins almennt í landinu. Það er hins vegar bara verklag okkar hér á þinginu hvernig við ætlum að klára þau mál. Ef við stöndum saman um það mun þjóðin auðvitað sjá að við getum klárað það á tiltölulega stuttum tíma. Ef menn ætla hins vegar að vera í endalausum deilum um það hvernig verkin eigi að ganga fram miðar okkur auðvitað lítið.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég trúi því ekki að svo verði heldur muni þingflokkarnir ná saman um það hvernig þingið á að ganga fram til þess að þjóðin sjái að við höfum sameiginlega fullan vilja til að lágmarka þann skaða sem á þjóðinni hefur dunið.



[10:56]
Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Þær þingkosningar sem nú eru fram undan boða endalok ákveðins skeiðs í stjórnmálasögu landsins sem afmarkaðist fyrst og fremst af takmarkalausu frelsi og takmarkalausu olnbogarými til auðsöfnunar fárra einstaklinga í þjóðfélaginu. Niðurstaðan úr þessum kosningum þarf að mínu viti að fela í sér skýr skilaboð um að enginn geti orðið svo ríkur og auðugur hér á landi að hann þurfi ekki að taka ábyrgð á samfélaginu með öðrum þegnum þjóðarinnar, með því að leggja sitt af mörkun í greiðslu skatta og skyldna — að enginn geti verið svo áhrifamikill í þjóðfélaginu að hann þurfi ekki að bera ábyrgð á gjörðum sínum og axla ábyrgð á því sem miður fer.

Margt hefur farið úrskeiðis á undanförnum árum eins og sjá má á þeim tíðindum sem orðið hafa og við þurfum að gera það upp og marka þá stefnu sem menn hafa löngum áður fylgt, hverfa aftur til gamalla og gróinna gilda í þjóðfélaginu sem einkennast af frumkvæði, samhjálp og hófsemi. Með það að leiðarljósi held ég að íslenskri þjóð séu allir vegir færir í framtíðinni.