136. löggjafarþing — 104. fundur
 16. mars 2009.
Fjármálaeftirlitið og bankarannsókn.

[15:31]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Eitt af því sem er mikilvægt í kjölfar þeirra áfalla sem íslenskt samfélag varð fyrir í haust og bankahrunsins er rannsókn á þeim atburðum öllum og Alþingi ákvað að setja á laggirnar embætti sérstaks saksóknara til að fjalla um banka- og efnahagshrunið. Nú hefur verið greint frá því og sérstakur saksóknari hefur greint frá því að hann hafi ekki fengið upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu, ekki fengið það sem hann telur nauðsynleg gögn til að rækja starf sitt og væntanlega er viðbáran bankaleynd. Þarna er um að ræða endurskoðunarskýrslur bankanna þriggja. Sérstakur ráðgjafi sem ríkisstjórnin hefur ráðið, Eva Joly, var í viðtali í norska sjónvarpinu nú fyrir helgi og gagnrýndi hún þar þetta fyrirkomulag talsvert.

Nú hefur verið upplýst að sérstakur saksóknari óskaði eftir því 13. febrúar sl. að fá þessi gögn í hendurnar til að geta sinnt sínu mikilvæga starfi. Hann ítrekaði þá beiðni 15. febrúar, 17. febrúar og enn fremur 25. febrúar. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið hefur Fjármálaeftirlitið ekki svarað formlega beiðni sérstaks saksóknara enn þá. Ég tel að þetta sé alveg með ólíkindum og ég tel að þessi afstaða misbjóði réttlætiskennd almennings í landinu. Það birtist þjóðinni þannig að Fjármálaeftirlitið standi í raun í vegi fyrir rannsókn á bankahruninu. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort menn í Fjármálaeftirlitinu séu að verja eigin rann í þessu samhengi.

Ég spyr þess vegna hæstv. viðskiptaráðherra hver hans afstaða sé til þessa, hvort hann hafi eða muni beita sér í málinu gagnvart Fjármálaeftirlitinu þannig að sérstakur saksóknari fái öll þau gögn í hendurnar sem hann þarf á að halda og það er þá hans (Forseti hringir.) að nota hvað í þeim gögnum þarf sérstakrar rannsóknar við í þessu samhengi.



[15:33]
viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og sérstaklega tækifærið til að útskýra stöðu þessara mála. Ég vil fyrst taka fram að ég hef þegar beitt mér í þessu máli, m.a. átti ég fund með forsvarsmönnum Fjármálaeftirlitsins, sérstökum saksóknara og dómsmálaráðherra í síðustu viku þar sem við fórum yfir þessi mál. Ég hef reyndar einnig fundað sérstaklega með stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins vegna þessa. Út úr þeim samræðum öllum kom m.a. að það er vilji núverandi stjórnenda Fjármálaeftirlitsins og væntanlega sérstaks saksóknara líka að þetta mál verði leyst: Meðal annars á þann hátt að þær athuganir sem koma upp úr þessum endurskoðunarskýrslum og gefa tilefni til þess að mál fari til sérstaks saksóknara fari þangað sem fyrst og að því ferli verði flýtt eins mikið og hægt er. Einnig að sérstakur saksóknari eða starfsmenn hans verði fengnir til að aðstoða Fjármálaeftirlitið við að greina hvaða mál eru þess eðlis að best sé að þau fari sem fyrst til sérstaks saksóknara og svo reyndar einnig að Fjármálaeftirlitið verði eftir föngum sérstökum saksóknara til aðstoðar við að rannsaka þau mál sem fara inn á borð hjá honum, enda er ákveðin sérþekking á bankarekstri og löggjöf um verðbréfaviðskipti og fjármál hjá Fjármálaeftirlitinu.

Ég veit ekki betur en að þessi mál séu þegar komin í allgóðan farveg. Ef svo fer að frumvarp dómsmálaráðherra sem nú er fyrir þinginu verður samþykkt getur sérstakur saksóknari fengið þessar skýrslur án þess að Fjármálaeftirlitið þurfi sérstaklega að blessa það og það kann að vera ágætislausn, en jafnvel þótt það verði ekki samþykkt tel ég einsýnt að þessi mál séu komin í góðan farveg.



[15:35]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir þessi svör. Ég vil samt ítreka að hver dagur er dýrmætur í þessu samhengi. Mér finnst það í raun ekki boðlegt hvað það hefur dregist að Fjármálaeftirlitið meira að segja svari sérstökum saksóknara með rökstuðningi fyrir afstöðu sinni.

Ég tel að Fjármálaeftirlitið eigi ekki að grisja það sem fer úr þessum skýrslum til sérstaks saksóknara. Það á ekki að gera það. Sérstakur saksóknari á að gera það sjálfur, hann á að fá öll þessi gögn í hendurnar til rannsóknar og það er hans að meta hvað hefur gildi og vægi fyrir þá rannsókn sem hann innir af hendi og hvað ekki.

Ég ítreka því við hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann sé ekki sammála því að það sé mikilvægt að sérstakur saksóknari fái allt til sín, öll gögn, óritskoðuð og ógrisjuð af hálfu Fjármálaeftirlitsins og hann geti síðan tekið ákvörðun um hitt.

Hitt er svo annað mál að það er fínt að þetta frumvarp dómsmálaráðherra (Forseti hringir.) er í meðförum en við eigum ekki að bíða eftir því, að mínu mati.



[15:37]
viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan tel ég að þessi mál séu þegar komin í nokkuð góðan farveg og reyndar næsta víst að mál eru þegar farin að fara á milli þessara tveggja stofnana eins og þau eiga að gera. Ég hef ekki verulegar áhyggjur af því að Fjármálaeftirlitið haldi einhverju leyndu fyrir saksóknaranum sem saksóknaranum væri einhver akkur í að sjá. Ég hef þá trú á Fjármálaeftirlitinu að það verði ekki með neina tilburði í þá átt.

Ég ætla hins vegar ekki að taka fram fyrir hendurnar á Fjármálaeftirlitinu og reyndar hef ég varla lagastoð til þess og skipa því að skila þessum skýrslum. Auðvitað verður lagastoðin til staðar ef frumvarp dómsmálaráðherra verður samþykkt.