136. löggjafarþing — 104. fundur
 16. mars 2009.
samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, frh. síðari umræðu.
þáltill. ÁÓÁ o.fl., 13. mál. — Þskj. 13, nál. 672.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:24]

[16:19]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér eru á ferðinni heilmikil tímamót en nú er þingið að samþykkja það að lögfesta beri barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Með þessu skrefi munum við auka réttindi íslenskra barna til muna og gera íslenskum dómstólum skylt að taka mið af barnasáttmálanum sem settum lögum. Þá erum við einnig að ákveða að öll löggjöf sem snertir börn komi til endurskoðunar í ljósi barnasáttmálans.

Frú forseti. Með þessu skrefi erum við að verða ein af fáum þjóðum heims sem lögfesta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þetta er því afar stór dagur í málefnum barna og fjölskyldna og hér sýnum við í verki að við setjum hagsmuni barna í forgrunn.

Þetta eru líka viss tímamót því að hér er á ferðinni þingmannamál sem ég flutti fyrst fyrir þremur árum og ég vil þakka kærlega fyrir þann pólitíska stuðning sem þessi tillaga fær hér í dag.



[16:20]
Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við framsóknarmenn erum mjög ánægðir með að geta greitt atkvæði með þessu stóra framfaramáli. Hér er verið að lögfesta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það er mjög eðlilegt að gera það.

Ég vil líka taka það fram vegna atkvæðagreiðslunnar sem hér fer fram og af því að þetta er þingmannamál að þetta mál er eitt af mörgum sem við erum að sjá fara í gegn núna. Ekki bara þetta mál heldur mörg önnur sem sýnir hvað þingið við þær aðstæður sem eru núna hefur talsvert meiri völd en við höfum áður séð.

Ég er líka ánægð með að framsóknarmenn hafi tekið það skref á sínum tíma að ákveða að verja minnihlutastjórn vantrausti í þinginu af því að það hefur skapað tækifæri fyrir okkur þingmenn að koma góðum málum í gegn án þess að ríkisstjórnarflokkarnir hafi lagt fótinn þvert yfir. Þetta er eitt dæmi um það. Ég er mjög stolt af því að við séum að afgreiða (Forseti hringir.) þetta framfaramál við þessar aðstæður.



[16:21]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við þingmenn Vinstri grænna greiðum glöð atkvæði með þessari þingsályktunartillögu. Með samþykkt hennar er tryggt að lögfesting barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og aðlögun íslenskra laga að honum liggi fyrir 20. nóvember næstkomandi á 20 ára afmæli samningsins.

Þessi samningur var á sínum tíma, 1989, gríðarlega stórt skref, skuldbindandi samkomulag þjóða heims um sérstök réttindi börnum til handa óháð réttindum fullorðinna. Það er mjög mikilvægt að við skulum taka hann inn í íslensk lög ekki síst eins og hér hefur verið bent á til þess að dómstólar megi í störfum sínum taka mið af þessum merkilega sáttmála. Ég fagna þeim áfanga sem hér er náð.



[16:22]
félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög samþykkt þessa máls. Þetta er mikilvægt framfaraspor í réttindum barna á Íslandi. Eins og fram hefur komið eru í haust 20 ár síðan þessi samningur var lagður fram og því löngu tímabært að lögfesta ákvæði hans.

Ég hef á þingferli mínum flutt þó nokkur þingmál í þá veru að lögfesta ákveðin ákvæði í samningnum, sem eru reyndar í þessu þingmáli, og ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir dugnað hans við að leggja þetta mál fram ítrekað. Ég verð að nefna hér einnig Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrrverandi félagsmálaráðherra og þingmann, sem einnig var mikill baráttumaður fyrir því að þessi sáttmáli yrði lögfestur. Í lokin vil ég nefna að í félagsmálaráðuneytinu er verið að endurskoða barnaverndarlögin með (Forseti hringir.) þennan sáttmála að leiðarljósi.



Brtt. í nál. 672 samþ. með 44 shlj. atkv.

Tillgr., svo breytt, samþ. með 45 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Till., svo breytt, samþ. með 45 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ArnbS,  AtlG,  ÁÓÁ,  ÁI,  ÁJ,  ÁÞS,  ÁRJ,  ÁMöl,  BJJ,  BjarnB,  BjörkG,  EMS,  EBS,  EyH,  GMJ,  GuðbH,  GSB,  GAK,  GSv,  HSH,  HHj,  HerdÞ,  JóhS,  JBjarn,  JM,  KVM,  KaJúl,  KolH,  KHG,  KÞJ,  KLM,  MS,  MÁ,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RR,  SKK,  SF,  SJS,  SVÓ,  StB,  ÞKG,  ÞSveinb,  ÞBack.
18 þm. (ÁKÓ,  ÁPÁ,  ÁMM,  BÁ,  BjörgvS,  BBj,  EKG,  GHH,  GÞÞ,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  KJak,  KÓ,  LB,  VS,  ÖJ,  ÖS) fjarstaddir.