136. löggjafarþing — 108. fundur
 18. mars 2009.
ferðaþjónusta á Melrakkasléttu.
fsp. ArnbS, 378. mál. — Þskj. 640.

[14:13]
Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég legg eftirfarandi fyrirspurn fyrir hæstv. iðnaðarráðherra:

„Hver eru áform ráðherra um stuðning við ferðaþjónustu á Melrakkasléttu?“

Á 133. löggjafarþingi flutti Halldór Blöndal ásamt mér þingsályktunartillögu um úttekt á stöðu og möguleikum á uppbyggingu ferðaþjónustu á Melrakkasléttu og var tillögunni vísað til ríkisstjórnarinnar. Mér leikur forvitni á að vita hvað hafi orðið um þetta mál okkar Halldórs og hvað ráðherra hyggst fyrir þegar kemur að því að styðja ferðaþjónustu á Melrakkasléttu. Hefur t.d. farið fram úttekt á möguleikum á ferðaþjónustu á sléttunni? Mest áríðandi er auðvitað að ljúka veginum til Raufarhafnar, hæstv. ráðherra, en það eru áform um að bjóða það verk út í vor.

Hæstv. forseti. Mikil tækifæri eru fólgin í ferðaþjónustu á Melrakkasléttu, svæðið hefur fjöldamörg sérkenni sem hægt er að byggja á og laða ferðamenn jafnt erlenda sem innlenda að því. Má þar nefna sérstaka náttúru Melrakkasléttunnar sem býður upp á endalausa möguleika fyrir ferðamenn, sólina sem skín með sérstökum hætti þar norður frá og hversu afskekkt svæðið er, sem dregur auðvitað fjöldamarga að því. Fuglalífið er einnig með þeim hætti að það býður upp á mikil tækifæri til fuglaskoðunar. Þar hafa komið fram fullmótaðar hugmyndir en fé skortir til að koma þeim í framkvæmd. Heimamenn hafa nú þegar lagt mikið á sig til að byggja upp ferðamannaþjónustu á svæðinu og fjöldamargar frambærilegar hugmyndir hafa komið fram umfram þær sem nú þegar hafa komist til framkvæmda. Hins vegar hafa þó nokkrir aðilar hætt við nýsköpunarverkefni í ferðaþjónustu vegna þeirrar miklu vinnu sem fer í styrkumsóknir ýmiss konar og eftirfylgni við það og auðvitað er það bagalegt. Margt hefur þó verið gert.

Er þar rétt að nefna sérstaklega heimskautagerði sem Eiríkur Thoroddsen á Raufarhöfn og fleiri aðilar hafa unnið ötullega að og byggir á samspili þjóðararfsins, m.a. í Völuspá, og sólarganginum. Þarna er merkilegt verkefni á ferðinni og mun gerðið fullgert standa sem minnisvarði um hvernig nýta má hugvitið, söguna og þjóðmenninguna í ferðaþjónustu hér á landi. Í þessum þáttum eru mikil auðæfi fólgin og rétt að nýta. Hafa konur á Raufarhöfn t.d. lagt í það að opna gallerí sem framleiðir minjagripi. Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hefur einnig unnið gott starf, m.a. með verkefni tengt strandmenningu og svokallað GEBRIS-verkefni sem hafa vakið upp hugmyndaauðgi heimamanna og hvatt þá áfram til góðra verka. Slík verkefni þarf að halda áfram með.

Að síðustu vil ég nefna fiskveiði í heiðarvötnum sléttunnar, enn önnur hugmynd sem hægt er að byggja á til framtíðar, og í breska blaðinu Evening Standard birtist m.a. grein þar sem hinn virti blaðamaður Neil Collins fór lofsamlegum orðum (Forseti hringir.) um reynslu sína af veiði á svæðinu. Ég veit að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hefur mikinn áhuga á þessu máli.



[14:17]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Svo sannarlega hef ég mikinn áhuga á þessum málum og ég vil þakka hv. þingmanni fyrir áhuga sinn á málinu líka og með hversu skáldlegum hætti hún lýsir þeim möguleikum sem er að finna fyrir ferðaþjónustu á þessu svæði.

Ég vil segja frá því að á næstunni mun Nýsköpunarmiðstöð opna starfsstöð á Húsavík og þar verður gengið frá ráðningu starfsfólks í næstu viku og það er m.a. meðal helstu verkefna starfsstöðvarinnar að móta klasa ferðaþjónustufyrirtækja í Þingeyjarsýslum og móta stefnu í svæðisbundinni nýsköpun og heilsutengdri ferðaþjónustu.

Ég vil líka nefna það að á grundvelli vaxtarsamnings sem við gerðum við Þingeyinga er nú unnið að stefnumótun í ferðaþjónustu á Norðausturlandi og það má eiginlega segja að það sé í beinu framhaldi af tillögunni sem hv. þingmaður flutti hér á sínum tíma með okkar ágæta fyrrverandi kollega, Halldóri Blöndal. Ég tók þá tillögu svo sannarlega alvarlega, ég tók þátt í umræðu um hana á sínum tíma og lýsti stuðningi við hana, þá í stjórnarandstöðu. Tillagan kom til ríkisstjórnarinnar og ég lagði sérstaka áherslu á einmitt það sem kom fram í þeirri tillögu, þar sem m.a. hluti tillögunnar var að ráðinn yrði sérstakur starfsmaður til að byggja upp ferðaþjónustu á grundvelli fuglaskoðunar á Melrakkasléttu, sem einmitt í tillögu hv. þingmanns og Halldórs Blöndals á sínum tíma voru gerð ákaflega góð skil.

Það sem verkefnið snýst um og er núna í vinnu, og alveg gríðarlega góður og efnismikill árangur sem þegar kemur fram í því, er að kortleggja auðlindir ferðaþjónustunnar á svæðinu sem eru auðvitað náttúra og menning og sú grunngerð sem þar er til staðar. Tilgangurinn er sem sagt að skilgreina nýja sýn á ferðaþjónustu en það teljum við að sé forsenda þess að ná bæði hröðum og góðum árangri í þessari grein til að geta boðið upp á vel skilgreindar afurðir og þá skiptir auðvitað höfuðmáli að búa yfir sterkri ímynd.

Ég get glatt hv. þingmann með því að núna vinnur að þessu teymi sérfræðinga sem er með víðtæka alþjóðlega reynslu á sviði ferðamála. Það er líka gaman að segja frá því að að þessu vinnuferli kemur líka námsfólk á svæðinu og þannig má kannski segja að verið sé að byggja upp reynslu hjá nýrri kynslóð. Þær afurðir sem þarna er um að véla eru að hluta til það sem minnst var á í þeirri þingsályktunartillögu sem hv. þingmaður flutti á sínum tíma með Halldóri Blöndal, þar er t.d. sérstakur fuglastígur og þar er líka vitastígur. Þessi fuglastígur er í reynd verkefni sem felst í því að byggja upp huglægan stíg sem nær frá Langanesi um Melrakkasléttu, fyrir Tjörnes, fram Aðaldal og Reykjadal og að Mývatni. Á þessari leið geta ferðamenn skoðað fugla af öllum gerðum, þarna er bjargfugl, vaðfugl, mófugl og náttúrlega andirnar sem Halldór Blöndal gerði að umræðuefni í ræðum sínum um þetta.

Það er alveg ljóst að Melrakkaslétta gegnir alveg mjög miklu hlutverki í þessu verkefni því að á sléttunni er að finna mjög margar fuglategundir. Þar er t.d. af því að ég gamall sjómaður frá Raufarhöfn, að vísu ekki á Rauðanúp, en þar er einmitt að finna ákaflega gott útsýni yfir súluvarp við Rauðanúp. (Fjmrh.: Nei, Langanesið.) Við Langanesið, segir hæstv. fjármálaráðherra.

Þessu til viðbótar vil ég líka segja frá því að í þessari viku veitti Ferðamálastofa styrki til þriggja verkefna á Melrakkasléttu. Þau eru Gönguleiðir og merkingar vegna vitastígs á Norðausturlandi, Skjálftafélagið á Kópaskeri og Melrakkaslétta – upplýsingar og upplifun. Svo vil ég líka rifja það upp að á sínum tíma þegar fyrrverandi ríkisstjórn veitti styrki til svæða sem urðu illa úti vegna skerðingar á veiðiheimildum hlutu fimm ferðaþjónustuverkefni brautargengi á þessu svæði. Það var Skjálftasetrið á Kópaskeri, Fjölskyldugarðurinn á Þórshöfn, sem hv. þingmaður minntist hér á, lagning göngustíga á Langanesi, þróunarstarf vegna veitingastaðar á Þórshöfn og síðan má ekki gleyma útsýnissiglingum um Bakkaflóa.

Ég tek undir með hv. þingmanni að framtíð ferðaþjónustu á þessu svæði á að geta verið björt. Þar þarf hins vegar að vinna ákveðið þróunarstarf. Hv. þingmaður hefur haft ákveðið frumkvæði að því og ríkisstjórnin, iðnaðarráðuneytið, ferðamálaráðherrann reyna að starfa í þeim anda.



[14:22]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir góð svör. Mér er málið skylt þegar rifjuð eru upp örnefni og aðstæður á mínum heimaslóðum. Ég þakka þann áhuga sem þessu er sýndur að virkja þær vel varðveittu auðlindir sem segja má að norðausturhornið búi yfir í sambandi við ferðaþjónustu, Melrakkasléttu og Langanes, þar sem eru miklir möguleikar sem kannski lítt hafa nýst mönnum enn þá vegna lélegra samgangna og fjarlægða en eru nú að opnast. Þar eru stórfelldir möguleikar þar sem menn geta lagst á bakið og látið fuglinn verpa upp í sig og sett lófann ofan í læk og veitt upp silung eins og lesa mátti um hér í góðum ritgerðum.

Svo því sé líka til haga haldið er þar hið stórkostlega náttúrufyrirbæri Stóri-Karl undir utanverðu Skoruvíkurbjargi og þar má liggja á maganum á bjargbrúninni og horfa á eina súluvarp sem hægt er að horfa á af landi á Íslandi, sem er sömuleiðis vel varðveittur gimsteinn og á örugglega eftir að nýtast mönnum vel í að draga að ferðamenn.



[14:23]
Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þær undirtektir sem ég fékk hjá hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra líka við þessari fyrirspurn. Ég held að þarna séu mjög mikil tækifæri. Eins og hér hefur komið fram er mikill hugur núna í heimamönnum á Raufarhöfn og reyndar í allri Norður-Þingeyjarsýslu og Öxarfirði og Þistilfirði. Þarna eru gífurlega mikil tækifæri til nýsköpunar í ferðaþjónustu. Þess vegna er mjög brýnt að ríkisstjórnin standi við bakið á því fólki sem er að vinna að þessum málum. Það er mikill akkur í þessu fólki til þess að treysta byggðina á þessum jaðarsvæðum landsins. Nú er unnið að ýmsum merkilegum verkefnum, m.a. er verið að þjálfa upp veiðileiðsögumenn á Melrakkasléttu sem munu starfa með erlendum veiðimönnum. Þeir munu jafnframt safna upplýsingum um vötnin og veiðistaði og samsetningu afla þannig að þarna fer líka fram upplýsingasöfnun um svæðið sem verður síðan hægt að nýta til framtíðar.

Hugmyndir eru uppi um að auka aðgengi að sléttunni með því að setja upp nokkur lappatjöld svokölluð og það verði hægt að fara út á vötnin á árabátum. Eins og ráðherra nefndi er verið að skipuleggja gönguleiðir og síðan er auðvitað verið að nýta sjóinn líka með siglingum norður fyrir heimskautsbaug, sjóstangaveiði og fleira slíkt, hestaleigur og ýmislegt sem menn eru að vinna að sem mun efla ferðaþjónustuna. Einna mestur vaxtarbroddur í atvinnulífinu núna er einmitt ferðaþjónustan og þess vegna er gott að heyra að hæstv. ráðherra hefur þennan áhuga.



[14:25]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég deili sannarlega þeim áhuga sem hv. þingmaður hefur sýnt á þessu máli. Það gladdi mig að heyra hæstv. fjármálaráðherra koma hér og taka þátt í þessari umræðu með þeim lýríska hætti sem hann einn getur gert.

Einungis eitt af því sem hv. þingmaður nefndi í sinni fyrri tölu er ekki verið að vinna að af hálfu þeirra yfirvalda sem að þessu koma og það er hin sérkennilega sól eins og hún blasir við þeim sem eru staddir á þessum stað á landinu. Einar Ben. skáld vildi selja norðurljósin að sagt var en honum tókst það ekki. Í dag eru menn á þessum slóðum eða í grenndinni að selja norðurljósin. Og eitt af því sem menn eiga auðvitað líka að nota sem sívirkan segul er auðvitað sólin á þessum stað sem er einstök, heimskautasólin, það er óvíða sem menn geta farið og notið hennar.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður segir að ferðaþjónustan er auðvitað ein af framtíðargreinunum. Menn hafa ekki alltaf gert sér grein fyrir því hvað hún er mikilvæg tekjulind, ekki síst við það að afla gjaldeyris í þjóðarbúið. Nýlega voru lagðir fram þjóðhagsútreikningar á vegum Hagstofunnar sem ferðaþjónustan hafði lengi beðið eftir. Þar kom í ljós svart á hvítu að áður en Fjarðaál t.d. kom inn í stóriðjuna var ferðaþjónustan jafnoki stóriðjunnar við að draga gjaldeyri inn í landið og hún var hálfdrættingur á við okkar forna og trausta atvinnuveg sjávarútveginn. Við vitum líka að það þarf sennilega minnst fjármagn til að skapa hvert starf í ferðaþjónustu ef við tökum flóru atvinnugreinanna. Það sem er gleðilegt er það að hvert starf sem verður til í ferðaþjónustu er líklegt til að skapa fjögur til fimm önnur í afleiddum störfum. Engin önnur grein hefur þá möguleika. Miðað við þá stöðu sem við erum í núna þar sem við þurfum að búa til gjaldeyri og skapa störf verðum við að ýta undir ferðaþjónustu og það er enginn efi í mínum huga að svæðið sem hv. þingmaður er að tala um er eitt af framtíðarsvæðunum.