136. löggjafarþing — 111. fundur
 23. mars 2009.
kaup Exista á bréfum í Kaupþingi.

[15:03]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þann 10. febrúar 2006, fyrir réttum þremur árum, átti ég fund með forstjóra og lögfræðingi Fjármálaeftirlitsins. Tilefnið var frétt í Markaðnum sem dreift var með Fréttablaðinu þann 4. janúar sama ár. Þar stóð, með leyfi forseta:

„Hagnaður Exista á árinu 2005 verður vart undir þrjátíu milljörðum króna.“

Enn fremur stendur: „Exista festi kaup á fjögurra prósenta hlut í KB banka í nóvember sem margir telja að hafi losað um töluverða sölupressu á bréfum í bankanum og jafnframt styrkt stöðu félagsins sem stærsta hluthafans.

Voru öll sölutilboð á verðbilinu 600–650 „hreinsuð upp“ …“

„Félagið gaf út nýtt hlutafé að upphæð tuttugu milljarðar í desember og munu hluthafar hafa fengið mjög skamman tíma til að ganga frá innborgun, sem var notuð meðal annars til að fjármagna hlutafjárkaupin í KB banka.“

Hér er um að ræða mjög greinilegt dæmi um „market manipulation“, markaðsmisnotkun, og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann kannist við þessa frétt og hvort hann kannist við til hvaða viðbragða Fjármálaeftirlitið greip í kjölfarið þegar þessi frétt birtist í Markaðnum sem er fylgirit Fréttablaðsins sem öll þjóðin les. Ég sem formaður efnahags- og skattanefndar bað um sérstakan fund til að benda Fjármálaeftirlitinu á þetta mál.



[15:05]
viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Ég man eftir þessari umræðu úr fjölmiðlum en þetta gerðist vitaskuld allnokkru áður en ég varð ráðherra og hafði nokkuð með yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins að gera þannig að mér er ekki kunnugt um hver viðbrögð Fjármálaeftirlitsins urðu, ef nokkur, við þessum fréttaflutningi en tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal, það er óneitanlega margt sem þarf að rannsaka í hlutafjárviðskiptum með bréf í bönkunum, hvernig þau voru fjármögnuð og í mörgum tilfellum blasir eiginlega við að þar var pottur brotinn.

Ég get ekki tjáð mig um þetta sérstaka mál vegna þess að ég hef engar frekari upplýsingar um það en þær sem fram komu í fjölmiðlum og hv. þingmaður rakti áðan.



[15:06]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þá vil ég inna hæstv. viðskiptaráðherra eftir því hvort hann hyggist ekki ganga eftir því hvað gert hafi verið í kjölfarið, hvort stjórn Fjármálaeftirlitsins sem hefur mjög víðtækar heimildir, m.a. til að stöðva rekstur fyrirtækja, hafi ekki kannað málið og gengið eftir því hvað væri að gerast, hvort þessi frétt væri algerlega laus úr lofti gripin eða hvort Exista hafi virkilega verið að strauja upp gengið á Kaupþingi eins og segir í fréttinni.



[15:07]
viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Það er alveg sjálfsagt að ég leggi fram fyrirspurn til Fjármálaeftirlitsins um afdrif þessa máls. En ég vil einnig vekja athygli á því að þetta mál og önnur af svipuðum toga hljóta að vera meðal þess sem sérstök rannsóknarnefnd sem starfar á vegum þingsins tekur til skoðunar og ef eitthvað saknæmt gerðist mun það væntanlega koma til kasta sérstaks saksóknara.