136. löggjafarþing — 111. fundur
 23. mars 2009.
skipan sendiherra.

[15:14]
Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Á dögunum voru afgreidd frá Alþingi ný seðlabankalög sem gerðu ráð fyrir því að skylt væri að auglýsa stöðu seðlabankastjóra. Markmiðið var að veita öllum jöfn tækifæri á að sækja um starf á grundvelli menntunar, reynslu og annarra verðleika. Með þessari lagabreytingu var horfið frá þeim tímum þegar stjórnmálamenn og þá sérstaklega ráðherrar gátu veitt samherjum sínum bitlinga oftar en ekki á forsendum flokksskírteinisins.

Nú er það svo, hæstv. forseti, að enn er í gildi gamli tíminn innan íslensku stjórnsýslunnar og þá á ég við í utanríkisráðuneytinu þegar kemur að stöðuveitingum sendiherra. Þar er enn ekki skylt að auglýsa þegar sendiherrastöður losna og í raun og veru er það undir viðkomandi ráðherra komið og hans hugarflugi hvern hann vill ráða í það starf hverju sinni án auglýsingar. (Gripið fram í.)

Í ljósi þess að nýr og vörpulegur utanríkisráðherra hefur tekið til starfa langar mig að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann sé ekki tilbúinn að innleiða ný vinnubrögð í utanríkisráðuneytið með því að sendiherrar verði hér eftir skipaðir á grundvelli auglýsingar og allir hafi möguleika á að sækja um á grundvelli verðleika sinna, þekkingar og menntunar. Þannig gætum við í raun og veru komið til móts við þá kröfu sem er í íslensku samfélagi um að gera íslenska stjórnsýslu opnari en hún hefur verið. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hyggst hann beita sér fyrir því að breyta þeim vinnuaðferðum sem hafa ríkt innan ráðuneytisins á undangengnum áratugum?



[15:16]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Þarna kemur hv. þingmaður að mér gersamlega úr sólarátt. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugleitt þetta. Hv. þingmaður spyr mig hvort ég hyggist beita mér fyrir þessu. Í framhaldi af því sem ég sagði honum, að ég hafi ekki hugsað um þetta til þessa, þá get ég ekki sagt að ég hafi áform um það. Hins vegar get ég sagt það að mér finnst þetta athyglisverð tillaga hjá hv. þingmanni. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera gagnsæi og jafnræði í samfélaginu. Ég er líka þeirrar skoðunar að í utanríkisþjónustunni skipti máli, sérstaklega í erfiðum samningum eins og við eigum í núna, að geta sótt í sjóð reynslu þeirra sem hafa mikla þekkingu og hafa lengi verið á vettvangi. Það erum við að gera t.d. varðandi samninga okkar í Icesave-málinu eins og hv. þingmaður veit þar sem við höfum tekið mann sem hefur margháttaða reynslu af diplómatíu en líka úr stjórnmálum og víðtæk tengsl.

En það sem hv. þingmaður varpar hér fram er hugmynd sem ég skal að minnsta kosti lýsa yfir að er einnar messu virði að skoða mjög rækilega og ég skal lofa honum því að það verður skoðað.



[15:18]
Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Í raun og veru væri þessi breyting á vinnulagi innan utanríkisráðuneytisins í takt við það sem við höfum verið að samþykkja á Alþingis á undangengnum vikum og sérstaklega þegar við rufum þá áratuga löngu hefð að seðlabankastjórar væru skipaðir á grundvelli flokksskírteinis sem er vissulega eitthvað sem við þurfum að láta af.

Ég tel að það sé kallað eftir því að stjórnmálamenn fari að viðhafa ný vinnubrögð og ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að íhuga þetta mjög vandlega því að sjálfsögðu eigum við að gefa öllum tækifæri til að sækja um til að mynda sendiherraembætti á grundvelli menntunar sinnar og þekkingar. Og ég get ekki séð, herra forseti, að það væri verra fyrir hæstv. ráðherra að hafa úr að spila margar umsóknir frá mjög hæfileikaríku fólki sem gæti tekið það vandasama verk að sér að vera (Forseti hringir.) sendiherra Íslands á erlendri grundu.



[15:19]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemur fram með mjög sterkt sjónarmið sem hann rökstyður vel. Eins og ég sagði áðan verður þetta lagt í hugmyndabanka utanríkisþjónustunnar og við munum skoða þessa hugmynd eins og allt sem kemur frá Framsóknarflokknum nú um stundir.

Hins vegar vil ég segja alveg skýrt að það stendur ekki til í utanríkisráðuneytinu að fjölga sendiherrum. (Gripið fram í.) Þar er alveg nóg af sendiherrum og eins og hv. þingmaður veit og hér hefur verið rætt stendur málið þannig af sér að nokkrir þeirra eru fyrir aldurs sakir að láta af störfum á næstu missirum. Það er alveg ljóst að í utanríkisráðuneytinu þurfa menn eins og í öðrum ráðuneytum að leita eftir því að spara og fara með ráðdeild og þar eru engin áform um að fjölga sendiherrum.