136. löggjafarþing — 111. fundur
 23. mars 2009.
hugmyndir Salt Investments í heilbrigðisþjónustu.

[15:27]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi segja það að ég hlakka til að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra um Tysabri á miðvikudaginn. En það sem mig langar að ræða um í dag er að í Fréttablaðinu síðastliðinn laugardag er haft eftir hæstv. heilbrigðisráðherra, Ögmundi Jónassyni, að hann sé, með leyfi forseta: „opinn fyrir hugmyndum Róberts Wessman um að fyrirtæki hans, „Salt Investments“, flytji sjúklinga hingað til lands í samstarfi við bandarísku heilbrigðisstofnunina Mayo Clinic.“ Hann setji þó fyrirvara um hlutverk ríkisins í þessu verkefni sem er auðvitað rétt nálgun.

Ég verð að segja að það er ánægjulegt að heyra nýjan og breyttan tón í hæstv. heilbrigðisráðherra og ég spyr hvort hér sé um sama mann að ræða og hefur haft allt á hornum sér gagnvart því að aðrir en opinberir aðilar veiti heilbrigðisþjónustu.

Ég fagna hins vegar orðum hans sem fela m.a. í sér opnunarmöguleika á aukinni notkun á nýjum skurðstofum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eins og ég skil málið. Mayo Clinic í Bandaríkjunum er ein virtasta heilbrigðisstofnun í heiminum og formlegt samstarf við hana á sviði heilbrigðismála felur í sér mikla viðurkenningu á íslenskri heilbrigðisþjónustu og skapar einstakt tækifæri fyrir íslenskt heilbrigðisstarfsfólk. Við eigum eitt best menntaða heilbrigðisstarfsfólk í heimi og góðan aðbúnað á heilbrigðisstofnunum.

En íslenskt heilbrigðiskerfi getur sinnt fleirum en það gerir í dag. Við höfum umframgetu sem hægt er að nýta í þágu erlendra sjúklinga. Um leið sköpum við fleiri störf hér á landi, öflum okkar mikilvægrar reynslu og þekkingar og fáum gjaldeyristekjur til landsins. Mörg hundruð íslenska lækna eru starfandi erlendis en vildu gjarnan fá tækifæri til að flytja heim. Við stöndum frammi fyrir því að það er yfirvofandi atvinnuleysi meðal íslenskra hjúkrunarfræðinga sem er algjörlega ný staða í íslenskri heilbrigðisþjónustu þar sem hefur verið viðvarandi skortur á hjúkrunarfræðingum til starfa. Og við búum yfir þekkingu og aðstöðu sem hægt er að nýta til gagns fyrir sjúklinga sem eru á biðlista eftir heilbrigðisþjónustu í öðrum löndum.

Ég vil því spyrja hæstv heilbrigðisráðherra um áform hans á útflutningi á íslenskri heilbrigðisþjónustu og hvernig hann sér hlutverk Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í því sambandi.



[15:29]
heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Eitt vil ég leiðrétta í upphafi. Það er vissulega rétt að ég hef áhuga á að ræða um lyfið Tysabri við hv. þingmann en það sem ég vildi ekki síður ræða voru þær alvarlegu ásakanir og aðdróttanir á hendur læknum og stjórnendum Landspítalans um að mismuna sjúklingum m.a. á grundvelli menntunar. Þetta eru alvarlegar ásakanir sem hv. þingmaður þarf að færa rök fyrir. Ef þær eru sannar þarf að sjálfsögðu að leiða þær fram í dagsljósið og ég vænti þess að hv. þingmaður geri það.

Varðandi Salt Investments hef ég margoft sagt það að öllum landsmönnum, öllum fyrirtækjum er heimilt að setja á fót einkarekna þjónustu einnig á heilbrigðissviði. Enginn bannar Róberti Wessman og fyrirtækjasamsteypu hans að setja á fót einkaspítala á Suðurnesjum eða annars staðar í landinu.

Þegar kemur að því hins vegar að skuldbinda skattborgara til ábyrgðar eða heilbrigðisþjónustuna að öðru leyti þá eru það hlutir sem við þurfum að fá nánari umræðu um vegna þess að sjúklingar verða ekki fluttir landa á milli eins og hver önnur verslunarvara. Þetta er fólk og sjúkt fólk vill öryggi og það vill öryggi í bakhjarli. Ef eitthvað fer úrskeiðis hjá einstaklingi sem gengst hér undir erfiða aðgerð gæti hann hafnað inni á gjörgæsludeild. Sú gjörgæsludeild þarf þá að vera reiðubúin að taka honum opnum örmum.

Það eru slíkir hlutir sem ég vil fá nánari upplýsingar um, en áður en ég gef út einhverjar yfirlýsingar eða tek einhverjar ákvarðanir vil ég einfaldlega að allar upplýsingar verði fram reiddar.



[15:31]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra kýs að taka forskot á umræðuna varðandi Tysabri og ég get alveg sagt það hér að spurningin um jafnræði við úthlutun á Tysabri er ekki komin upp úr mínum huga. Hún kemur upp í samræðum mínum við sjúklinga sem hafa leitað til mín, bæði í því tilviki sem hv. þm. Jón Gunnarsson vísaði til áðan þar sem varpað var fram spurningu um landfræðilega mismunun og jafnframt í því dæmi sem ég hef sérstaklega í huga og varðar MS-sjúkling, unga konu sem spurði þessarar spurningar um menntun. Hún kom upp í umræðu milli hennar og annarra MS-sjúklinga. Ég hlýt sem fulltrúi fólksins að varpa fram þeirri spurningu hvaða viðmiðun sé höfð til hliðsjónar þegar ákvörðun er tekin um hvaða sjúklingar fá þau gæði sem felast í þessu einstaka lyfi sem virðist gagnast um 80% af þeim sem hafa þörf fyrir það.



[15:33]
heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ef uppi eru efasemdir eða grunsemdir um að læknar og Landspítalinn mismuni fólki á þessum grundvelli er það nokkuð sem þarf að rannsaka. Þegar fyrrverandi formaður heilbrigðisnefndar kveður sér hljóðs á opinberum vettvangi, í Ríkisútvarpinu, til að halda því fram að læknar og stjórnendur Landspítalans mismuni á þessum forsendum er það alvarlegur hlutur og nokkuð sem við eigum að taka alvarlega. (Gripið fram í.) Ef rök eru fyrir þessu er það mjög alvarlegur hlutur en það er líka alvarlegur hlutur að fara með rangt mál eða setja fram ásakanir og dylgjur að órannsökuðu máli. Það er líka ábyrgðarhluti.

Ég er ekki að frábiðja mér umræðu um þessi efni, þetta á allt að vera opið og uppi á borðinu. Ef einhverjar slíkar efasemdir eru uppi þarf að sjálfsögðu að fá sannleikann fram og (Forseti hringir.) þá þarf fólk að standa fyrir máli sínu. (Forseti hringir.) Það er einn og sami maðurinn sem talar um heilbrigðismál hér sem heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) og sem þingmaður hér fyrr á tíð. (Forseti hringir.) Mér er gert og ég ætla mér að standa vörð um hagsmuni skattborgarans og um hagsmuni heilbrigðiskerfisins (Forseti hringir.) í landinu.