136. löggjafarþing — 111. fundur
 23. mars 2009.
umræður utan dagskrár.

arðgreiðslur í atvinnurekstri.

[15:36]
Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Það ráðslag forustu verkalýðshreyfingarinnar að semja við fyrirtæki landsins um að fresta kauphækkun til launafólks um ótiltekinn tíma, 13.500 kr. á mánuði, hefur verið umdeild en varð fyrst í skotlínunni þegar í ljós kom að fyrirtækið HB Grandi ákvað að nýta sér góða afkomu fyrirtækisins, hagnað upp á 2,3 milljarða, til að greiða hluthöfunum út 8% arð, þ.e. þá 184 millj. kr.

Nú má taka undir að það er eðlilegt að hlutafélög greiði eigendum sínum arð við eðlilegar kringumstæður en það má setja spurningarmerki við það fyrirkomulag þegar við búum við sérstakar aðstæður í íslensku efnahagslífi eins og nú er og bæði ríkissjóður og launamenn hafa ákveðið að leggja sitt af mörkum til að gera rekstur atvinnufyrirtækjanna bærilegri þannig að þau geti haldið sjó og staðið áfram í sínum rekstri án þess að veruleg áföll verði. Þessir aðilar leggja því sitt af mörkum til að atvinnureksturinn geti gengið.

Þá verður umdeilanlegt að hluthafarnir líti svo á að þeir geti tekið til sín arðgreiðslur án tillits til framlaga annarra og í raun tekið til sín framlög annarra, bæði launamanna og ríkissjóðs. Það er óeðlilegt, það gagnrýni ég harðlega, virðulegi forseti, og þess vegna hef ég ákveðið að taka þetta mál upp hér á Alþingi og þakka bæði forseta og hæstv. forsætisráðherra fyrir að gera mér það kleift.

Fyrirtækin í sjávarútvegi búa í dag við ríkisstuðning, beinan og óbeinan. Fyrir rúmu ári samþykkti Alþingi lög sem afnámu veiðigjald af þorskveiðum og helminguðu áform af veiðigjaldi í öðrum tegundum þannig að sjávarútvegsfyrirtæki landsins sem áttu að greiða 1.000 millj. kr. á ári í ríkissjóð sem gjald fyrir afnot af veiðiheimildum og aðgang að auðlind landsmanna greiða nú aðeins um 440 millj. kr. Stuðningur ríkissjóðs til þessarar atvinnugreinar er nærri 60% afsláttur. Menn skulu muna að sáttin í umræðunni um sjávarútvegsmálin og stjórn fiskveiða var að hafa óbreytt kerfi gegn því að þeir sem nýttu heimildina og auðlindina borguðu fyrir það. Nú er búið að taka sáttina af.

Fyrirtækið HB Grandi nýtur góðs af þessum stuðningi ríkissjóðs. Það má segja að á þessum tveimur fiskveiðiárum sem eftirgjöf ríkissjóðs stendur yfir njóti fyrirtækið um 120 millj. kr. greiðslu úr ríkissjóði. Það er ríkisstyrkur til þessa fyrirtækis sem er rökstuddur með samdrætti í þorskveiðum úr 190.000 í 130.000 tonn. Nú er aftur búið að auka þorskveiðar um helming af því sem skorið var niður án þess að nokkuð sé hreyft við því sem fyrirtækin eiga að greiða fyrir afnot af auðlindinni sem á að vera í eigu þjóðarinnar allrar.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Eiga þær leikreglur að gilda áfram hjá nýrri ríkisstjórn að þessir aðilar fái sérmeðferð og þeir leggi ekki sitt af mörkum til að þjóðarbúið geti komist út úr þeim efnahagslegu þrengingum sem við erum í?

Í öðru lagi voru engar breytingar gerðar á reglum um framsal. Sjávarútvegsfyrirtæki landsins geta nú ákveðið að veiða ekki sínar heimildir og látið aðra veiða fyrir sig gegn gjaldi. Þau taka stórfé fyrir það að leyfa öðrum að veiða án þess að skila krónu af því í ríkissjóð. Þess voru dæmi hér á einveldisöld konunga að skattheimtumenn voru fengnir til að innheimta skatta fyrir þá en venjan var þá sú að þeir skiluðu peningunum, fengu umbun fyrir. Í þessu tilviki skila þeir engu, taka allt í sinn vasa. Þetta er einkavædd skattheimta sem er engin ástæða til að þola, virðulegi forseti.

Fyrirtækið HB Grandi gæti ef það vildi leigt sínar veiðiheimildir fyrir u.þ.b. 2.500 millj. kr. á einu fiskveiðiári. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu fyrirtækisins hefur það leigt frá sér um 3.700 þorskígildistonn á síðasta fiskveiðiári og um 1.700 á þessu.

Í þriðja lagi, virðulegi forseti, hafa hlutabréfaeigendur notið sérstakra vildarkjara á umliðnum árum. Þeir borga miklu lægri skatta en aðrir landsmenn, þeir hafa fengið heimild til að flytja arðgreiðslur sínar úr landi án þess að borga skatt af þeim og þeir hafa fengið eftirgjöf af söluhagnaði þannig að arðgreiðslur og tekjuskattur af söluhagnaði voru felld niður með sérstökum lögum. (Forseti hringir.) Ég spyr hæstv. ráðherra: Stendur til af nýrri ríkisstjórn að gera fjármagnseigendur að þátttakendum í endurreisn íslensks þjóðfélags?



[15:42]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að óska eftir umræðu um þetta mál sem í síðustu viku vakti hörð viðbrögð í samfélaginu öllu. Í kjölfar hrunsins á fjármálakerfinu í október sl. hefur mikil umræða átt sér stað í samfélaginu um gildi og siðferði í viðskiptalífinu. Sú umræða hefur ekki einungis átt sér stað hér á landi heldur um heim allan. Það er ástæða til að nefna það, þetta hefur víða verið til umræðu og nefni ég að Obama, Brown, Merkel og fleiri þjóðarleiðtogar hafa tekið þessi mál til umfjöllunar á innlendum og alþjóðlegum vettvangi og fjallað um breytt gildi og breyttar reglur varðandi skattaskjól og ofurlaun.

Það er vissulega rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni, sjávarútvegurinn nýtur mikils ríkisstuðnings og ekki bara það sem hv. þingmaður nefndi vegna aflasamdráttar, heldur hefur þetta tiltekna fyrirtæki, eins og hann nefndi, og reyndar fleiri sjávarútvegsfyrirtæki, notið ríkisstyrkja, t.d. í formi greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna aflabrests. Þetta tiltekna fyrirtæki fékk þar 17 millj. kr. á síðasta ári. Það er vissulega hægt að taka undir að fjármagnseigendur eigi eins og aðrir að taka þátt í endurreisn efnahagslífsins. Þar eiga allir að leggja sitt af mörkum. Þess vegna var þetta dæmi sem kom upp í síðustu viku mjög sérstakt. Það er ástæða til að t.d. aðilar vinnumarkaðarins hér á landi taki til umfjöllunar á sínum vettvangi þróun samsetningar á launagreiðslum og aukagreiðslum, kaupaukasamningum, bónusum og starfslokasamningum. Ofurlaunakerfið sem átti sinn þátt í að leiða til þeirra efnahagsþrenginga sem við erum að reyna að ná okkur út úr hlýtur að þurfa endurskoðunar með og þeir sem stunda atvinnurekstur verða að bera gæfu til að finna jafnvægi á milli vinnuframlags hins almenna launafólks annars vegar og hagnaðar eigenda hins vegar og ofurlaunakjara sem eru og hafa verið á umliðnum árum úr öllum tengslum og samhengi við það sem stærsti hluti þjóðarinnar býr við og aðbúnað hans.

HB Grandi byggir í dag annars vegar á traustum stoðum vel liðins fjölskyldufyrirtækis og hins vegar á stoðum Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Þeir sem nú stjórna HB Granda hljóta að byggja á þeim gildum sem þessi fyrirtæki hafa lengst af starfað eftir og hefur það oft og iðulega verið til fyrirmyndar. Hér var líka vísað til kjarasamninga fyrir um mánuði. Þá sömdu ASÍ og SA um frestun á endurskoðun kjarasamninga. Ákveðið hafði verið að lágmarkstaxti kjarasamninga hækkaði en þá kom fram í yfirlýsingu samningsaðila að þeir teldu frestunina mikilvægt framlag til stöðugleika í efnahagslífinu. Það er hægt að taka undir það, en auðvitað heyrðust óánægjuraddir með frestun á endurskoðun kjarasamninga þar sem launþegum þótti sárt að missa af launahækkun sem þeir höfðu vænst. Launþegar sýndu líka siðferðislegan þroska og skilning á aðstæðum og féllust á þessar málalyktir. Frestunin tók m.a. til um 140 starfsmanna í landvinnslu hjá HB Granda í Reykjavík og á Akranesi.

Þegar fréttir berast síðan af því að forsvarsmenn HB Granda hyggist greiða hluthöfum arð kallar það eðlilega á mjög hörð viðbrögð í samfélaginu. Mönnum þótti lítið fara fyrir þeim siðferðislegu gildum sem svo mikið eru í umræðunni hér á landi og um allan heim í kjölfar efnahagshrunsins. Að greiða arð til eigenda upp á 184 millj. kr. eins og var gert í þessu tilviki á sama tíma og launabreytingar til láglaunafólks í fyrirtækinu voru frystar er auðvitað algjörlega siðlaust, ekki síst í ljósi þess, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi, að þessi fyrirtæki sem önnur njóta ríkisstyrkja af ýmsum toga. Þess vegna er fagnaðarefni að stjórn HB hefur brugðist við þeirri hörðu gagnrýni sem kom fram í samfélaginu og ég vænti þess að þeir hafi þá dregið lærdóm af því. Þessi fyrirtæki og mörg önnur ráða yfir miklum verðmætum sem aflað er úr takmörkuðum auðlindum okkar og mestur auðurinn felst auðvitað í mannfólkinu sem vinnur hjá þessum fyrirtækjum. Þess vegna var siðlaust með öllu að standa þannig að málum en sem betur fer hefur það breyst.

Ríkið hlýtur nú að skoða hvernig fyrirtæki sem þiggja ríkisaðstoð við þessar sérstöku aðstæður starfi og verji fjármunum sínum. Ég tel að þau og reyndar öll fyrirtæki sem skila hagnaði um þessar mundir hljóti að horfa til þess að verja hagnaði sínum til atvinnuuppbyggingar og fjölgunar starfa frekar en að fara í arðgreiðslur (Forseti hringir.) og stuðla þar með að uppbyggingu til framtíðar í þessum fyrirtækjum.



[15:47]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér arðgreiðslur í atvinnurekstri og tilefni umræðunnar, eins og hér hefur komið fram, var ákvörðun stjórnar HB Granda fyrir nokkru um að greiða hluthöfum út arð af fjárfestingunni á sama tíma og kjarasamningsbundnum launahækkunum hafði verið frestað í tengslum við samkomulag aðila vinnumarkaðarins. Stjórnin var harðlega gagnrýnd og ákvað fyrirtækið eftir viðræður milli samningsaðila að greiða starfsfólki fyrirtækisins þær launahækkanir sem áður hafði verið frestað. Þetta mál vakti talsverða athygli og kannski eðlilega.

Ég get ekki tekið undir að arðgreiðsla sem er gerð samkvæmt lögum og reglum feli í sér siðleysi, en mér finnst þetta hins vegar koma hálfklaufalega út af hálfu fyrirtækisins. Ég var ánægð með að sjá deiluaðila ná niðurstöðu í málinu sem báðir aðilar gátu sætt sig við.

Mér þótti hins vegar mjög miður að sjá hæstv. forsætisráðherra fara strax í gamalkunnugar stellingar og reka fleyg á milli atvinnurekenda og launþega með ásökunum um siðleysi. Mér finnst það mjög slæmt og ekki sæmandi forsætisráðherra sem ætti frekar að leggja sig fram um að skapa sátt á milli aðila. Mér finnst þetta sérstaklega ámælisvert í ljósi þess að íslenskt atvinnulíf á í miklum erfiðleikum um þessar mundir eins og allir vita, trúverðugleiki þess hefur beðið hnekki og traust á milli aðila er í algjöru lágmarki. Forsætisráðherra á því að hvetja til yfirvegunar og samstöðu en ekki ala á tortryggni í garð fyrirtækja og forsvarsmanna þeirra. Á sama hátt verða atvinnurekendur að draga lærdóm af þeim mistökum sem gerð hafa verið og endurvinna trúverðugleika. Það er fyrirtækjum og launþegum báðum til hagsbóta að þetta traust verði endurvakið.

Stóra spurningin sem menn verða að svara varðandi arðgreiðslur í atvinnulífinu er hver ávöxtun fjárfesta, sem leggja fjármagnið til atvinnulífsins, eigi að vera. Á hún kannski að vera engin á meðan hægt er að leggja peninga inn á ríkistryggða bankareikninga með fínni ávöxtun? Hvernig þjóðfélag yrði það? Sennilega þjóðfélag stöðnunar þar sem eina atvinnusköpunin fælist í því að fjölga listamönnum á listamannalaunum frá ríkinu.



[15:49]
Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og hyggst fara í einn alvarlegan vinkil þessa máls. Þá þumalputtareglu lærði ég í bókhaldsnámi og vinnu í þá tíð að viðskiptavild væri metin 10% af ársveltu. Mér er tjáð að einkabankarnir hafi frá árinu 2001 eða 2002 til ársins 2007, og sparisjóðirnir, hækkað þessa viðskiptavild jafnvel upp í 30–50% af ársveltu, myndað þannig tekjur í bókhaldi og hækkað eigið fé sem varð síðan grundvöllur lánstrausts. Þannig hafa þeir skapað loftbóluhagnað og í kjölfarið loftbóluarðgreiðslur og loftbólueigiðfé sem þeir fengu síðan lánað út á. Þetta er auðvitað svindilbrask eins og það var kallað í denn, hreint svindilbrask. Þetta hafi sparisjóðirnir líka gert og ég bið ríkisstjórnina að hafa það vel í huga áður en hún reiðir fram 20% aðstoð við þá að skoða nákvæmlega eigið fé sparisjóðanna 2007 og hvernig það hefur þróast. Ég las frétt um daginn þar sem fram kom að Byr – sparisjóður hefði tekið ákvörðun um það nýlega, fyrir viku eða 10 dögum, að færa viðskiptavild niður um 4 milljarða. Hver hefur þróun viðskiptavildar verið hjá þessum sparisjóði og bönkum sem hafa skapað þennan loftbólugræðgishagnað?

Ég hef að gefnu tilefni, vegna ásakana sem ég varð fyrir frá Byr vegna ummæla í sjónvarpi, sent bæði rannsóknarnefnd Alþingis og hinum sérstaka saksóknara erindi þess efnis að þetta verði sérstaklega skoðað. Ég hygg að mikill hluti af arðgreiðslum úr bönkunum þessi 5–6 ár hafi komið til af þessu. Það er grafalvarlegt og er rannsóknarefni.



[15:51]
Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu. Fyrirtækið HB Grandi er öflugt fyrirtæki sem er með starfsstöðvar sínar á Akranesi og Vopnafirði og hefur þar í bæ byggt upp mjög myndarlega starfsemi. Slík fyrirtæki eru okkur mikilvæg á tímum sem þessum. Það er sjálfsagt að fólk fái arð af sparifé sínu almennt, við megum ekki fordæma arðgreiðslurnar sem slíkar, fjárfesting í atvinnustarfsemi er jákvæður hlutur. Við þurfum hins vegar að horfa á þetta mál í því samhengi að miklir erfiðleikar eiga sér stað í íslensku samfélagi, verið er að skerða laun á almennum vinnumarkaði og að sjálfsögðu þarf samspil launakostnaðar og arðgreiðslna að vera í einhverju samhengi sem var ekki í þessu máli. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með það, herra forseti, að búið sé að ná sáttum á milli aðila í þessu máli. Við framsóknarmenn höfum lagt mjög ríka áherslu á það að allir eigi að ganga í takt í samfélaginu, það á við um stjórnmálamenn, atvinnurekendur og launafólk. Við þurfum að fara saman í gegnum þá erfiðleika sem blasa við okkur og þess vegna er ég mjög ánægður með að menn skuli hafa náð sátt í þessu máli. Ég get tekið undir það með hv. þingmönnum sem það hafa sagt að málið hafi verið klaufalegt af hálfu atvinnurekenda.

Hæstv. forseti. Við þurfum að tala fyrir sáttum í íslensku samfélagi og það er nöturleg staðreynd að allir þurfa að gera ráð fyrir því að kjör okkar muni að einhverju leyti skerðast á næstu vikum og mánuðum. Það á við um þá sem hafa fjárfest í atvinnustarfsemi, launafólk og samfélagið allt. Við þurfum að standa saman á þessum erfiðu tímum því að í sameiningu eru okkur allir vegir færir, herra forseti, og fyrir því tölum við framsóknarmenn.



[15:53]
Karl V. Matthíasson (Fl):

Herra forseti. Það er alltaf ánægjulegt þegar fyrirtæki skila hagnaði, það skapar öryggi hjá starfsfólkinu og ákveðna vissu hjá því um áframhaldandi atvinnu. Það er líka ánægjulegt þegar fyrirtæki eru rekin þannig að eigendur þeirra láta sig hag starfsfólksins varða og það skiptir náttúrlega mjög miklu máli hvernig starfsmannastefna fyrirtækja er, líka hvers konar stefnu almennt fyrirtækin reka. Það er eitthvað að ef fyrirtæki hugsa eingöngu um að fá eins mikinn pening og mögulegt er og fá út sem mestan arð, jafnvel með klækjum eins og hv. þm. Atli Gíslason benti á — þegar menn eru farnir að segja að svo og svo mikil viðskiptavild gefi fyrirtækinu svo og svo mikinn hagnað og sýni svo miklar eignir að hægt sé að greiða mikinn arð. Ég vona að þetta verði tekið til umfjöllunar.

Hér var rætt um HB Granda og hvernig það fyrirtæki fór að ráði sínu. Ég vona að önnur sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi geti farið eftir því sem HB Grandi gerði og hækkað laun starfsfólksins. Af því að fiskveiðistjórnarkerfið er nú jafnfrábært og sumir vilja vera láta hlýtur að vera hagnaður á þeim fyrirtækjum og þá hljóta þau að geta greitt verkafólki hærri laun, sem veitir ekki af á þessum tímum.

Ég treysti mér ekki til að tala um viðskiptavild allra fyrirtækja, herra forseti. En ég veit um eitt fyrirtæki sem ég held að hafi mjög góða viðskiptavild, og að sönnu, þó að það sé ekki dýrt í umfangi, en það er pylsuvagninn Bæjarins bestu sem er hér við Reykjavíkurhöfn.



[15:56]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Á þessum dögum á hv. Alþingi er róinn lífróður til að bjarga störfum og til að reyna að bjarga heimilum og fyrirtækjum. Allir leggjast á eitt um að tryggja afkomu fólks og fyrirtækja og endurreisa samfélagið eftir mikið hrun sem hefur átt sér stað. Við búum við mikla kjararýrnun í augnablikinu og við þessar aðstæður hefur ríkisvaldið á síðustu missirum reynt að koma með ívilnandi aðgerðir fyrir fyrirtæki, ekki hvað síst í sjávarútvegi, m.a. með afnámi veiðileyfagjalds eins og hv. frummælandi vakti athygli á. Því kemur mjög á óvart þegar í kjölfarið, þegar afkoman batnar, m.a. vegna þeirra gjaldeyrishafta sem eru í augnablikinu, þess umhverfis sem búið hefur verið til til að reyna að tryggja afkomu fyrirtækja, skuli fyrirtæki leyfa sér að draga þennan arð út úr fyrirtækinu og án þess a.m.k. að gera grein fyrir því að þann arð eigi að nýta til uppbyggingar á öðrum vettvangi.

Þetta gekk gjörsamlega fram af mér og ég er feginn að verkalýðshreyfingin, þ.e. Verkalýðsfélag Akraness, undir stjórn Vilhjálms Birgissonar, vakti athygli á þessu og vakti þar með þjóðarathygli á því með hvaða hætti viðkomandi sjávarútvegsfyrirtæki fór fram og veitti þannig aðhald og varði hagsmuni starfsfólksins með þeim árangri að fyrirtækið hefur ákveðið að greiða út áður umsamdar hækkanir, 13.500 kr., sem áttu að koma til framkvæmda 1. mars, og bæta þar með afkomu viðkomandi starfsmanna.

Megi það verða þannig að þau fyrirtæki sem eru aflögufær hjálpi okkur við að endurreisa samfélagið, búa betur að fólkinu í landinu og þetta megi þá verða upphafið að því að við aukum siðgæði og látum þann arð sem myndast í samfélaginu verða í almannaþágu í uppbyggingunni.



[15:58]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hlutafé er lífæð atvinnusköpunar, það eru einstaklingar og fyrirtæki sem leggja atvinnulífinu til fjármagn með þessum hætti og ekki er líklegt að sú verði raunin ef það áhættufé sem lagt er í rekstur skilar ekki arði til einhvers tíma. Það er mikilvægt að regluverkið sé traust og fyrirtæki geti haslað sér völl. Við sérstakar aðstæður í samfélaginu gerðu Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar samkomulag um að fella niður ákvæði í kjarasamningum til að auka á stöðugleika í efnahagslífinu. Það hefur komið í ljós að þarfir fyrirtækja eru mismunandi við þær aðstæður sem eru í samfélaginu og einhver sjávarútvegsfyrirtæki og vonandi mörg önnur eru þess búin að skila arði í þetta samfélag áfram og geta haldið uppi launagreiðslum þannig að þessir samningar þurftu ekki að taka til allra fyrirtækja.

Siðlaust með öllu, sagði hæstv. forsætisráðherra. Mér finnst það sem hún hefur sagt í umræðunni að sumu leyti vera siðlaust, af hennar hálfu. Það varð sátt um það þegar samningur Granda í þessu tilfelli og verkalýðsfélaganna var endurnýjaður og þeir ákváðu að standa við þær launagreiðslur sem um var samið og það er gott. Það sýnir okkur að sjávarútvegurinn stendur traustum fótum og getur vonandi greitt góð laun í framtíðinni.

Þá komum við að öðrum rekstri, ríkisrekstrinum. Það er eitt fyrirtæki sem er 100% í eigu ríkisins, Íslandspóstur. Íslandspóstur skilaði 78 millj. kr. í hagnað fyrir árið 2008. Ríkissjóður, undir forustu hæstv. forsætisráðherra, lét þetta ríkisfyrirtæki greiða ríkinu 80 millj. kr. í hagnað, í arðsemi af hlutafé. Þetta er u.þ.b. sama prósenta og Grandi lét greiða af nafnvirði hlutafjár hjá sér. Þá spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Mun hún ekki setja í gang launasamninga starfsfólks Íslandspósts? Mun hún ekki standa við það að láta Íslandspóst greiða starfsmönnum sínum umsamda samninga (Forseti hringir.) eða gengur þetta siðleysi, sem hæstv. ráðherra kallar svo, bara yfir hin almennu fyrirtæki en ekki fyrirtæki í ríkisrekstri?



[16:00]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Umræðan um arðgreiðslur minnir okkur á hversu mikil ósanngirni hefur verið í samfélaginu á undanförnum árum. Arðgreiðslur og fjármagnstekjur hafa verið miklu lægra skattlagðar — borgað hefur verið hlutfallslega miklu minna af þeim til samfélagsins en t.d. af launum. Við leggjum áherslu á að allir komi að og leggi sitt af mörkum, hver sem getur, í uppbyggingu atvinnulífsins, uppbyggingu samfélags. Þeir gera það með sköttum, þeir gera það með vinnu, þeir gera það með hugviti en þá eiga fjármagnseigendur líka að leggja sitt af mörkum.

Við þingmenn Vinstri grænna höfum ítrekað flutt á Alþingi tillögur um að þeir sem hafa tekjur sínar í formi arðs eigi að greiða hlutfallslega í skatta eins og það væru launatekjur, alls ekki minna. Því hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins aftur á móti á undanförnum árum lagst þvert gegn. Hún hefur staðið sérstakan vörð um fjármagnseigendur og arðgreiðslur. Í Fréttablaðinu 17. mars sl. segir forstjóri HB Granda um málið: Fjármagnið umbunar en starfsfólk hefur ekki lagt fram kröfu um að staðið sé við umsamdar launahækkanir. Nei. (Gripið fram í.) Starfsfólkið tók sinn þátt, það ætlaði að axla sína ábyrgð en nauðsynlegt þótti að greiða eigendunum arð. Gott og vel að fyrirtækið skili arði en þá skulu þeir sem greiðslurnar fá líka greiða skatta eins og launafólk og það er það sem mér finnst einna brýnast að hugað sé að.

(Gripið fram í.) Starfsemi Íslandspósts? Ég tel að Íslandspóstur eigi aftur að verða venjuleg þjónustustofnun í eigu ríkisins og þó að komi tekjur af Íslandspósti renna þær beint inn til ríkissjóðs. (Gripið fram í.)



[16:03]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég held að við séum öll sammála um það sem erum í þessum sal að við viljum að fyrirtækin séu rekin með hagnaði, að arður sé af rekstri fyrirtækja. Menn stefna alltaf að því í fyrirtækjarekstri til að geta borgað hærri laun og lagt inn til samfélagsins. Það er akkur í því þannig að auðvitað er það stefnan. Hins vegar er staðan sú í samfélagi okkar nú að við höfum orðið fyrir miklu efnahagsáfalli og fjöldi manns er atvinnulaus. Allir hræðast atvinnuleysi, fólk vill ekki verða atvinnulaust. Í því umhverfi og ástandi náðist samkomulag um að halda aftur af umsömdum launahækkunum þannig að þær eru látnar bíða. Mér finnst verkalýðshreyfingin sýna mikla ábyrgð með því að stíga það skref í staðinn fyrir að krefjast launahækkana sem búið var að semja um. Ákvörðunin verður að skoðast í því ljósi. Hún er tekin í þessu umhverfi og þess vegna er of léttvægt að segja að hún sé klaufaleg. Hún er verri en svo að hún sé bara klaufaleg. Að mínu mati er þetta röng ákvörðun í ljósi þess ástands sem hér ríkir og það er gott að HB Grandi hefur séð að sér og ætlar nú að standa við launahækkanirnar.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði áðan að hæstv. forsætisráðherra hefði att mönnum saman og reynt að grafa undan trausti á milli aðila. Er það ekki þannig, virðulegi forseti, að það ríkti traust á milli aðila, það mikið að verkalýðsforustan treysti sér til að biðja fólk sitt að halda aftur af sér í umsömdum launahækkunum? Halda menn að traustið hafi aukist við ákvörðunina um arðgreiðslur, 185 millj. til HB Granda-eigendanna? Nei. Ef einhver grefur hér undan traustinu eru það þeir sem reka fyrirtækið en ekki hæstv. forsætisráðherra. (Gripið fram í.) Alls ekki.

Sem betur fer hafa menn tekið nýja ákvörðun þannig að við skulum vona að þetta mál fái farsælan endi. En ég vona að önnur fyrirtæki falli ekki í sömu gryfju og HB Grandi gerði að þessu leyti.



[16:05]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Til þess að geta borgað arð í fyrirtæki þurfa að vera tekjur umfram skuldir. Er það hægt í öllum fyrirtækjum í dag? Það má kannski segja að hægt sé að teikna eignir inn í fyrirtækið með því að reikna veiðiheimildir á 4.200 kr. kílóið af þorskinum þó svo að gangverð sé jafnvel innan við þúsund kr. Það er hægt að búa til — ég ætla ekki að fullyrða um ársreikninga hjá einstaka fyrirtækjum en ég veit að mörg sjávarútvegsfyrirtæki í dag eiga ekki fyrir skuldum, eru tæknilega gjaldþrota og þau beita „barbabrellum“ í bókhaldinu. Þau hafa reiknað veiðiheimildir á toppverði eins og það var fyrir einu og hálfu ári síðan en síðan eru skuldirnar gerðar upp í evrum. Þau nota ýmiss konar „trix“ til að sýna stöðu fyrirtækjanna í betra ljósi svo að hægt sé að greiða arð út úr þeim. Það vita flestir sem þekkja til þessara mála. Þau hafa notið þess að þurfa ekki að borga auðlindagjald nema í litlum mæli og þau hafa fengið að færa milli ára 33% af veiðiheimildum til að halda uppi leiguverði. Þau leigja þorsk í dag á 160–170 kr. kílóið, fyrir áramót var það allt upp í 250 kr., og það er það arðbærasta sem þau gera. En að borga eins og HB Grandi gerir — 3,5% launahækkun er eiginlega ekki mikið og um það snýst málið ekki. Það snýst um hvort eðlilegt sé að fyrirtæki borgi sér arð við þær aðstæður sem eru í dag.



[16:08]
Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin og ég er algerlega sammála mati hæstv. ráðherra á þessu athæfi sem rætt er um.

Hagnaður upp á 2.300 millj. kr. er mjög góð afkoma á alla mælikvarða við allar aðstæður. Fyrirtæki sem hefur slíka afkomu þarf enga sérmeðferð. Það þarf ekki að vera einhver sérleið í þjóðfélaginu þar sem því er ívilnað með ýmsum hætti umfram það sem gengur og gerist hjá almennum launamönnum. Það er það óeðlilega í þessu máli, virðulegi forseti. Það er ekki óeðlilegt við að borga 8% arð. Ég tek ekki undir gagnrýni á það. En mér finnst óeðlilegt að fyrirtæki sem gengur vel skuli njóta margfaldrar og margháttaðrar ívilnunar af hálfu ríkissjóðs sem sparar fyrirtækinu útgjöld upp á hundruð millj. kr. á ári og gefur því á sama tíma tækifæri til sem það nýtir sér til að afla sér tekna upp á hundruð millj. kr. á hverju ári með leigu veiðiheimilda sem það á ekki og fær afhent frá ríkinu án þess að borga krónu fyrir. Hvers konar viðskiptahættir eru það, virðulegi forseti, að menn fái afhent árlega fullt af verðmætum frá ríkissjóði endurgjaldslaust? Þeir hafa frjálsar hendur með að arðræna hvern þann sem hefur þörf á þessum heimildum um það fé sem mönnum tekst að plokka úr vösunum á þeim atvinnurekendum — því að það eru atvinnurekendur líka, það eru menn í atvinnurekstri, það eru einkaframtaksmenn sem eru þjóðfélaginu nauðsynlegir sem svona er farið með, virðulegi forseti. Það gengur ekki að hafa leikreglurnar í þjóðfélaginu svona og ég lít svo á að það sé eitt af stórum verkefnum næstu ríkisstjórnar á næsta kjörtímabili að leiðrétta þessa skekkju í leikreglunum í þjóðfélaginu.



[16:10]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg óhætt að taka undir það með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að það þarf að leiðrétta leikreglurnar í þjóðfélaginu á margan hátt. Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan eru kaupaukar eitt af því sem við þurfum að taka upp og skoða miklu nánar en hefur verið gert núna, og bónusgreiðslur og ofurlaunasamningar og annað í þeim dúr sem viðgengist hefur í gegnum árin. Það er á margan hátt liður í því hruni sem við höfum orðið fyrir. Ég get tekið undir með hv. þingmanni sem talaði áðan, 7. þm. Suðurk., Atla Gíslasyni, að vissulega er hægt að rekja mörg dæmi um það sem hann kallaði loftbóluarðgreiðslur, ég held að það hafi verið orðið sem hv. þingmaður notaði. Það hefur á margan hátt verið gert með þeim aðferðum sem hv. þingmaður skoðaði og er því eðlilegt að þessi umræða sé tekin upp eins og gert hefur verið. Mér finnst þingmenn Sjálfstæðisflokksins taka því mjög sérkennilega að ég skyldi nota orðið „siðleysi“ við að greiða arðgreiðslur út með þessum hætti á sama tíma og verið er að frysta samningsbundna launagreiðslu til fólks. Það er auðvitað ekki hægt annað en að kalla það siðleysi og ég veit ekki betur en að ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi farið nálægt því að kalla þetta siðleysi. Ég man ekki betur en hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, (Gripið fram í.) hafi kallað þessar greiðslur ólíðandi. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta er ólíðandi og það er meira að segja hægt að nota orðið „siðlaust“ (Gripið fram í.) um svona greiðslur. (Gripið fram í.) En hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir fer oft miklu nær sannleikanum (Gripið fram í.) en margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) og á hún hrós skilið fyrir það.