136. löggjafarþing — 111. fundur
 23. mars 2009.
atvinnuleysistryggingar, 2. umræða.
stjfrv., 376. mál (hlutaatvinnuleysisbætur, auknar upplýsingar, eftirlit o.fl.). — Þskj. 635, nál. 770.

[18:41]
Frsm. fél.- og trn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá félags- og tryggingamálanefnd, á þskj. 770, 376. mál, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti. Þá bárust nefndinni einnig umsagnir frá nokkrum aðilum sem nefndin fór yfir.

Í frumvarpinu er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæðis til að greiða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli verði framlengdur til 31. desember 2009. Að auki er lagt til að Vinnumálastofnun fái auknar heimildir til að stunda eftirlit með framkvæmd laganna og að kveðið sé nánar á um skyldur atvinnuleitenda til að upplýsa stofnunina um breytingar sem verða á högum þeirra. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar sem varða sjálfstætt starfandi einstaklinga, m.a. þannig að þeir geti talist hlutfallslega tryggðir en ekki ávallt að fullu tryggðir óháð þeim fjárhæðum sem þeir greiða til skattyfirvalda. Skilgreining sjálfstætt starfandi er jafnframt þrengd þannig að hún eigi einungis við þá sem starfa við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Þeir sem starfa hjá eigin einkahlutafélagi, hlutafélagi eða sameignarfélagi verða því skilgreindir sem launamenn. Auk þessara breytinga er lagt til að sá sem tekur fæðingarorlof geti geymt áunna atvinnuleysistryggingu í 24 mánuði.

Ákvæði um hlutabætur á móti skertu starfshlutfalli var lögfest í nóvember sl. og ætlað að gilda út apríl 2009. Taldi nefndin við meðhöndlun þess máls rétt að hafa gildistímann afmarkaðan þar sem það byði upp á endurskoðun ákvæðisins miðað við þá reynslu sem fengist á gildistímanum. Nefndin lagði þó jafnframt áherslu á að þrátt fyrir afmarkaðan gildistíma væri vilji nefndarinnar að áframhaldandi úrræðum yrði beitt ef ástandið á vinnumarkaði kallaði á það. Ljóst er að nauðsynlegt er að framlengja gildistíma ákvæðisins enda hefur atvinnuleysi aukist mikið síðustu mánuði. Ákvæðinu er ætlað að hvetja vinnuveitendur til að lækka starfshlutfall starfsmanna frekar en að segja þeim upp og því telur nefndin um þarft vinnumarkaðsúrræði að ræða.

Nefndin telur þó nauðsynlegt að veita Vinnumálastofnun skýrari heimildir til að staðreyna upplýsingar um starfshlutfall þannig að komið sé í veg fyrir að tilgreint sé hærra starfshlutfall í vottorði vinnuveitanda en hinn tryggði gegndi þar sem tryggingahlutfall hans getur aldrei orðið hærra en sem nemur starfshlutfalli á ávinnslutímabili, sbr. 4. mgr. 15. gr. laganna. Á þetta einnig við um þá sem starfa hjá eigin einkahlutafélögum, en þá er miðað við að þeir séu í fullu starfi og hafi fengið greidd laun í samræmi við viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein, eins og skattyfirvöld gera ráð fyrir. Er með þessu leitast við að gæta betra jafnvægis milli inn- og útstreymis Atvinnuleysistryggingasjóðs og þá ekki síst á því tímabili þegar tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru greiddar.

Þá leggur nefndin til breytingu á 25. gr. frumvarpsins þannig að sömu reglur gildi um sjálfstætt starfandi einstaklinga og gilda um launamenn hvað varðar ávinnslutímabil og rétt til geymslu áunninnar atvinnuleysistryggingar vegna minnkaðs starfshlutfalls.

Auk framangreindra breytinga er lögð til breyting til leiðréttingar á vísun milli lagagreina. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Á eftir 10. gr. komi tvær nýjar greinar sem orðist svo:

a. Við 2. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar staðreyna skal starfshlutfall hins tryggða sem tilgreint er í vottorði vinnuveitanda skv. 1. mgr. skal Vinnumálastofnun meðal annars líta til þess hvort laun hins tryggða hafi verið í samræmi við tilgreint starfshlutfall á ávinnslutímabilinu og skal þá miða við ákvæði gildandi kjarasamnings í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem hinn tryggði starfaði eða eftir atvikum viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein.

b. Í stað orðanna „3. mgr. 19. gr.“ í g-lið 1. mgr. 18. gr. laganna kemur: 5. mgr. 19. gr.

2. Við 25. gr., er verði 27. gr., bætist nýr efnismálsliður, svohljóðandi: Ákvæði 24. gr. skal þó gilda um alla þá sem nýta sér heimild 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VI í lögunum eftir gildistöku laga þessara.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, Ármann Kr. Ólafsson og Árni Johnsen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið skrifar sú sem hér stendur ásamt hv. þingmönnum Helgu Sigrúnu Harðardóttur, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Atla Gíslasyni og Kristni H. Gunnarssyni.



[18:47]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Hér er á ferðinni mál sem telja verður jákvætt enda hefur ekki verið ágreiningur um það í félagsmálanefnd. Verið er að framlengja til ársloka þetta nýja úrræði, sem tekin var ákvörðun um í haust að koma á. Miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið held ég að það hafi náð að talsvert miklu leyti þeim tilgangi sínum að hvetja vinnuveitendur til að lækka starfshlutfall starfsmanna frekar en segja þeim upp og þess vegna er um jákvætt mál að ræða.

Það segir sig sjálft að það hlýtur að vera eðlilegra og heppilegra að vinnuveitendur fari þessa leið, að lækka starfshlutfall þeirra sem hjá þeim starfa frekar en segja þeim upp, í von um að þeir erfiðleikar sem fyrir hendi eru í efnahagslífinu gangi fljótlega yfir eða alla vega innan einhvers skikkanlegs tíma þannig að unnt verði að hækka starfshlutfallið aftur. Í rauninni ættu báðir að hagnast á þessu, bæði atvinnurekandinn og launamaðurinn. Launamaðurinn er auðvitað í betri stöðu að halda starfi sínu og vinnuveitandinn losnar við að segja fólki upp og þurfa svo hugsanlega að ráða nýtt og óvant fólk í staðinn þegar betur árar. Þetta er auðvitað mikilvægt og gott úrræði og mikilvægt að taka þá ákvörðun sem verið er að gera með frumvarpinu, þ.e. að framlengja þennan tíma.

Nú á ég ekki sæti í félagsmálanefnd þannig að ég hef ekki haft tækifæri til að fylgjast með framgangi málsins en það eru nokkrar spurningar sem vakna þegar þetta nefndarálit og breytingartillögur eru skoðaðar. Í fyrsta lagi velti ég því fyrir mér hvort í starfi nefndarinnar hafi komið fram upplýsingar um það af hálfu tillöguflytjenda hvort skoðað hafi verið hvort ástæða hefði verið til að framlengja gildistímann lengur en til ársloka. Það er kannski eðlilegt að þetta ákvæði sæti endurskoðun með nokkuð reglulegu millibili en ég velti fyrir mér hvort það hafi ekki komið til skoðunar að hafa gildistímann lengri en þarna er gert ráð fyrir, sérstaklega með tilliti til þess að hætt er við að sá samdráttur sem nú á sér stað í atvinnulífinu vari lengur en til ársloka — í fljótu bragði gæti maður ímyndað sér að þörf yrði á þessu úrræði, ekki bara til áramóta heldur því miður á næsta ári líka. Ég velti fyrir mér hvort þetta atriði hefur verið rætt í störfum nefndarinnar og bið hv. framsögumann nefndarinnar að svara því, eða aðra úr nefndinni sem voru viðstaddir umræðuna.

Annað atriði sem þarna er lagt til er að Vinnumálastofnun fái auknar heimildir til að stunda eftirlit með framkvæmd laganna og að nánar sé kveðið á um skyldur atvinnuveitenda til að upplýsa stofnunina um breytingar sem verða á högum þeirra. Þetta er auðvitað mjög jákvætt. Það er mjög nauðsynlegt í tilvikum sem þessum að Vinnumálastofnun, sem er sá aðili sem með þennan málaflokk fer, hafi nægilegar heimildir til að stunda eftirlit þannig að ekki sé um misnotkun að ræða eins og alltaf er viss hætta á í sambandi við ívilnandi aðgerðir af þessu tagi. Það er auðvitað þannig að því fleiri sem misnota svona úrræði því síður er hægt að koma til móts við þá sem raunverulega þurfa á því að halda þannig að allir eiga að geta verið sammála um að það sé mikilvægt að hafa úrræði sem sporna við misnotkun á ákvæðum af þessu tagi. Við minnumst þess að þegar umræður fóru fram um þetta mál á haustþingi vöktu ýmsir hv. þingmenn máls á því að þarna kynni að verða um ákveðna misnotkun að ræða. Sjálfsagt eru einhver dæmi um það, ekki þekki ég það, en ég held engu að síður að full ástæða sé til að taka jákvætt í viðleitni af hálfu nefndarinnar og tillöguflytjanda til að þrengja þetta með þeim hætti að unnt sé að koma í veg fyrir eins og hægt er að misnotkun eigi sér stað.

Þriðja atriðið sem ég vildi spyrja um í þessu sambandi — og beini því bæði til hv. þm. Þuríðar Backman og eftir atvikum til hv. þm. Atla Gíslasonar, sem einnig á sæti í nefndinni — er hugsunin á bak við þá breytingu sem hér er gert ráð fyrir varðandi skilgreiningu á sjálfstætt starfandi einstaklingum. Þarna er verið að breyta þessu á þann veg að þeir sem starfa hjá eigin einkahlutafélagi, hlutafélagi eða sameignarfélagi verði miðað við þessi lög skilgreindir sem launamenn og ég velti fyrir mér hver rökin á bak við það eru. Þarna verður sem sagt annars vegar um það að ræða að þeir sem starfa við atvinnurekstur í eigin nafni eru skilgreindir sem sjálfstætt starfandi en hins vegar eru þeir sem starfa hjá eigin einkahlutafélagi, sem í dag eru, eins og við þekkjum, afskaplega margir af þeim sem við venjulega lítum á sem sjálfstætt starfandi — þeir starfa hjá einkahlutafélagi sem hugsanlega er alfarið í þeirra eigu eða fjölskyldu þeirra. Ég velti fyrir mér hvaða hugsun sé á bak við þessa breytingu. Það kann vel að vera að fyrir henni séu góð og gild rök en ég sé ekki í fljótu bragði að það komi fram í nefndarálitinu.

Í fjórða og síðasta lagi velti ég því fyrir mér — það er í lok annarrar málsgreinar nefndarálitsins og snertir þá breytingu sem varðar fæðingarorlofið — hvers vegna þessi tala, 24 mánuðir, er valin í þessu sambandi. Talað er um að sá sem tekur fæðingarorlof geti geymt áunna atvinnuleysistryggingu í 24 mánuði. Ég spyr: Við hvaða tímafresti er miðað í þessu sambandi? Af hverju er miðað við 24 mánuði? Ég segi þetta ekki af því að ég hafi í sjálfu sér einhverjar athugasemdir við það en mér finnst ekki liggja ljóst fyrir hvers vegna þessi viðmiðun er valin.



[18:55]
Frsm. fél.- og trn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson beindi til mín nokkrum spurningum sem ég ætla að reyna að svara. Þetta er vissulega nýtt úrræði sem var sett á í haust þegar efnahagskerfið okkar, bankakerfið okkar, hrundi og séð var fram á það að atvinnuleysi mundi aukast fram eftir vetri. Nú hefur komið í ljós að þessi aukning mun halda áfram, við erum alla vega ekki komin yfir einhvern tímabundinn kúf. En ég tel að við viljum öll halda í þá von að við munum komast út úr þessu og þá er það bara spurning hvenær. Mér finnst líka mikilvægt að við förum með þær breytingar sem við erum að gera núna sem tímabundnar breytingar. Þetta er nýtt hjá okkur og við skulum þá frekar meta það aftur fyrir næstu áramót hvernig þetta hefur reynst og hvort ástæða sé til að halda þessum úrræðum áfram.

Ég tel að burt séð frá þessu hruni sem við stöndum nú í sé þetta æskilegt. Ákveðnar atvinnugreinar eru sveiflukenndar og í staðinn fyrir að segja upp fólki og ráða inn nýtt fólk, með þeirri umbyltingu sem verður og þeim áhrifum sem það hefur á starfsemi fyrirtækja að vera að fá inn nýtt fólk, getur það verið góður kostur að lækka starfshlutfallið í staðinn fyrir að segja fólki upp og halda í reynslu þeirra sem hafa verið í vinnu.

Vinnumálastofnun þarf sannarlega við þessar aðstæður að hafa meiri möguleika og það lögbundið til að skoða skattskýrslur og annað til að sannreyna að farið sé rétt með.



[18:58]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Þuríður Backman muni svara öðrum spurningum í síðara andsvari. Þetta voru margar spurningar og andsvarsformið er of knappt til að ræða jafnmargar spurningar í viðamiklu máli og hér um ræðir. Við erum sammála um að þetta er jákvætt úrræði og mikilvægt. Það hafa komið fram skýringar á því af hverju talið er eðlilegt að miða við árslok í þessu sambandi. Ég get alveg fallist á að ástæða sé til þess fyrir jólin að hugsa þetta. En ég ítreka hins vegar þær áhyggjur sem ég hef af því að ekki verði síður þörf á þessu úrræði á næsta ári eins og á þessu ári. Þó að við vonum að farið sé að hylla undir það að landið geti farið að rísa í sambandi við efnahagsmálin — vonandi sjáum við jákvæða þróun í haust — óttast ég að atvinnuleysið verði enn mikið þegar kemur fram á næsta ár þannig að þetta úrræði verður áfram mikilvægt.

Ég get alveg fallist á að það getur verið mikilvægt og jákvætt að endurskoða þessi lagaákvæði í ljósi reynslunnar og sérstaklega í ljósi þess að þær breytingar sem verið er að fara með í gegnum þingið hafa verið gerðar á stuttum tíma, bæði af hálfu ráðuneytisins og nefndarinnar. Það kann vel að vera að ástæða sé til að fara í meiri endurskoðunarvinnu og ítarlegri yfirferð á málinu þegar kemur fram á haustið og meiri reynsla er fengin af þessu úrræði.



[19:00]
Frsm. fél.- og trn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir góðar undirtektir við þetta mál. Sannarlega held ég að gott sé að hafa ákvæðið einungis bundið til næstu áramóta, þetta er nýtt úrræði hjá okkur. Ég óttast, eins og hv. þingmaður, að tímabilið verði lengra, en þá gefur það okkur líka tilefni til að fara yfir hvernig það hefur reynst, hvernig Vinnumálastofnun hefur höndlað þetta og hvernig þetta skilar sér. Hvort bæði starfsmenn og atvinnurekendur notfæra sér þetta úrræði o.s.frv. Ég held að mikilvægt sé að gera það.

Varðandi það að meta megi 24 mánuði aftur í tímann, þá er það oft svo hjá einyrkjum og sjálfstætt starfandi að þeir verða ekki skyndilega atvinnulausir heldur hefur hugsanlega smám saman dregið úr atvinnu hjá þeim og því ekki talið réttmætt að miða bara við síðustu tólf mánuði heldur skoða hvernig kjör og laun sjálfstætt starfandi einstaklinga hafa verið á lengra tímabili og ástandið fyrir tveimur árum gefur kannski raunhæfari mynd en síðasta ár. Það er hugmyndin sem liggur að baki.

Hvað varðar einyrkjana, þá vinna þeir sem eru sjálfstætt starfandi undir eigin kennitölu en þeir sem vinna undir kennitölu fyrirtækisins eru nefndir launamenn og réttindi þeirra miðast við það. Ársmenn eru svo áfram bændur og listamenn sem hafa takmarkaðar tekjur og geta greitt tryggingagjald einu sinni á ári, en þetta (Forseti hringir.) er viðmiðunin sem kom fram í nefndinni.



[19:02]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Ég get alveg fallist á þau atriði sem komu fram í máli hv. þm. Þuríðar Backman. Ég átta mig samt ekki á síðasta atriðinu sem varðar breytta skilgreiningu þeirra sem teljast sjálfstætt starfandi vegna þess að auðvitað er um það að ræða, eins og við vitum, að fjölmargir sem starfa á eigin vegum og eru sjálfstætt starfandi í öllum almennum skilningi þeirra orða eru með rekstur sinn í formi einkahlutafélags — einkahlutafélög eru algengust þó að dæmi séu um hlutafélög eða sameignarfélög í því sambandi. Einkahlutafélögum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum, eins og við vitum, og mörg þeirra eru einmitt félög sem eru í rauninni bara utan um atvinnurekstur eins manns. Það á m.a. við um iðnaðarmenn, trillukarla, ráðgjafa og sérfræðinga af öðru tagi.

Ég velti fyrir mér hvers vegna verið er að breyta þessari skilgreiningu og þrengja hana að þessu leyti. Þá hlýtur maður auðvitað að velta fyrir sér um leið hvaða áhrif sú breyting mun hafa, hvort hún geti leitt til þess að fleiri eigi þess kost að falla undir hlutabæturnar eða hvort þeim fækki og ég velti þá fyrir mér að hvaða leyti það mál hefur verið rætt í nefndinni.