136. löggjafarþing — 112. fundur
 24. mars 2009.
störf þingsins.

[13:31]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs í dag til að ræða örlítið um atriði sem tengjast stjórnmálaástandinu. Um síðustu helgi var haldinn landsfundur hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og þar var ályktað um ýmis efni, m.a. um það hvernig sá flokkur sér fyrir sér stjórnarsamstarf á næsta kjörtímabili og verður að segjast að skýrara bónorð pólitískt hefur ekki komið fram mér vitanlega, alla vega ekki á síðari árum hér á landi. Nú verður gaman að sjá hvort Samfylkingin svarar þessu bónorði á landsfundi sínum um næstu helgi og í ljósi þess að greinilega er mikill vilji innan beggja flokka til að starfa saman eftir kosningar hlýtur maður að velta fyrir sér hvernig þeir ætla að nálgast Evrópumálin.

Vinstri grænir ályktuðu nokkuð um þetta og það hefur verið nokkuð skrautlegt að sjá hvaða túlkanir hafa komið úr röðum Samfylkingarinnar á þeim ályktunum. Það verður ekki kallað annað en skapandi túlkanir af hálfu samfylkingarmanna þar sem mikið er lesið í fá orð. Ég vildi spyrja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sem skrifaði athyglisverða grein á vefritið Pressuna í gær, út í þetta en hann tekur í þessari grein þá afstöðu að það sé brýnasta málið fyrir okkur í sambandi við efnahagsmálin að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Í viðtali á vefsjónvarpi Morgunblaðsins í gær tjáði formaður Vinstri grænna sig um sama mál og hann tók þannig á því máli þar að það séu mörg ár fram undan í það að við getum farið inn í Evrópusambandið og tekið upp evruna og hann segir:

„Það sem ég hef sagt um Evrópusambandsmálin væri mjög hættulegt ef menn segðu bara: Já, heyrðu, við ætlum bara að leysa þetta með því að ganga í Evrópusambandið, og hölluðu sér aftur á bak og tækjust ekki á við verkefnin sem hér eru í okkar samfélagi.“

Þetta sagði formaður Vinstri grænna og (Forseti hringir.) og ég vildi spyrja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hvort hann telji að í þessum orðum felist mikil opnun af hálfu Vinstri grænna á Evrópusambandsaðild.



[13:34]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að í landsfundaráætlun vinstri grænna hafi falist heilmikil opnun á Evrópumálin. Þeir opna á þau þar eins og ég les það að haldin verði tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og í því tel ég vera mikla opnun.

Þessi afstaða vinstri grænna markar að því leyti tímamót og leggur að mínu mati grunninn að veigamesta skrefinu og því mikilvægasta í íslenskum stjórnmálum um áratugaskeið sem er að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Af hverju? Jú, til að koma hér upp samkeppnishæfri mynt, samkeppnishæfum gjaldmiðli og verði aftur á krónuna.

Hv. þm. sjálfstæðismanna, Bjarni Benediktsson, tók í sama streng um liðna helgi, á laugardaginn, og Samfylking og Framsókn og sagði í viðtali við Fréttablaðið að umsókn um aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru sé besti kosturinn í stað krónu og kollsteypu, eins og Bjarni Ben. orðaði það í viðtalinu við Fréttablaðið. Þess vegna undrar mig mjög að Evrópusambandið sé ekki nefnt einu orði, eins og kemur fram í frétt í dag, í drögum Sjálfstæðisflokks að landsfundarályktunum sínum um leið og endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins vill að Íslendingar gangi í Evrópusambandið. Þar er sagt berum orðum að endurreisnarnefndin leggi til að sótt verði nú þegar um aðild að Evrópusambandinu og evrópska myntbandalaginu með það að markmiði að ganga í Evrópusambandið o.s.frv. Þetta segir endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins. Um leið er Evrópusambandið ekki nefnt í drögum að landsfundarályktunum. Í þriðja lagi lýsir formannsframbjóðandinn Bjarni Benediktsson því yfir að hann vilji taka upp evru í stað krónu og kollsteypu eins og hann orðar það í viðtali við Fréttablaðið. Ég tek undir með Bjarna Benediktssyni, ég tek undir með Framsóknarflokknum og ég er að sjálfsögðu sammála því sem Samfylkingin hefur barist fyrir um árabil, að sækja um aðild, semja og koma með samninginn fyrir þjóðina. Á það opna Vinstri grænir á landsfundi sínum og það þóttu mér mikil tímamót og þess vegna er beðið eftir því að sjá hvort Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir það sem Bjarni Benediktsson sagði í Fréttablaðinu á laugardaginn eða þegir þunnu hljóði og tekur einu sinni enn flokkshagsmuni fram yfir þjóðarhagsmuni í þessu mikilvæga máli.



[13:36]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vil bara árétta þau orð formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, um að það eru brýnni mál að fást við á næstunni en að fara að takast á um inngöngu í Evrópusambandið. Hins vegar er stefna Vinstri grænna alveg skýr í þessu efni, við teljum að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins og ályktanir og vinna sem hefur farið í gang t.d. af hálfu Bændasamtakanna og fleiri slíkra samtaka styðja það mjög afdráttarlaust.

Hins vegar gerum við okkur líka grein fyrir því að það fer eftir meirihlutavilja þjóðarinnar í þeim efnum, komi málið til hennar, og þá er það svo að þingstyrkur og styrkur Vinstri grænna fyrir þennan málstað ræður m.a. áhrifum flokksins hér á þingi í þeim efnum. Við þekkjum vilja Samfylkingarinnar eða a.m.k. þess hluta hennar sem talar fyrir inngöngu í Evrópusambandið og við þekkjum líka vilja Framsóknarflokksins um að gera það. Við bíðum eftir því hvað Sjálfstæðisflokkurinn gerir, hann virðist ekki enn þá hafa gert það upp við sig en ég árétta það (PHB: ... Eruð þið að biðja um Sjálfstæðisflokkinn?) Nei, ég er bara að vekja athygli á því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki mótað stefnu í þessu máli, hann hyggst gera það á næsta landsfundi, vonandi, en … (Gripið fram í: Hver er stefna Vinstri grænna?) Hún er skýr, við teljum okkur best borgið utan Evrópusambandsins og til þess liggja mörg og sterk rök. En við gerum okkur líka grein fyrir því að fari málið það langt þá er það að sjálfsögðu þjóðarviljinn og þjóðaratkvæðagreiðslan sem ræður. Við óttumst ekki heldur þjóðaratkvæðagreiðslu hvað ESB varðar, við erum svo sannfærð um að meiri hluti þjóðarinnar tekur þar rétta ákvörðun.



[13:38]
Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að það hafi verið mikil þörf á því að ganga á Samfylkinguna og kalla eftir stefnu hennar í málefnum Evrópusambandsins. Það er frekar að maður setji spurningarmerki við áherslur þeirra sem eru að bjóða sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum, hvaða stefnu þeir ætla að bera fram fyrir flokksmenn sína. Mér finnst að þeir tali meira fyrir aðild og séu jákvæðari gagnvart henni en ætla má að vilji standi til innan flokksins og ég mundi halda að á flokksþinginu um næstu helgi komist menn að því að það er enginn vilji til þess af hálfu flokksmanna Sjálfstæðisflokksins að ganga í Evrópusambandið, hvað þá að hefja aðildarviðræður.

Ég held að menn verði að átta sig á því, virðulegi forseti, að aðild að Evrópusambandinu getur auðvitað verið ávinningur við vissar aðstæður en er líka fórn og hún er sú að menn ákveða að fela öðrum að taka ákvarðanir sem sjálfstæð þjóð gerir að öllu jöfnu sjálf. Við fáum engin töframeðul með inngöngu í Evrópusambandið sem við höfum ekki yfir að ráða í dag. Við fáum aðeins það eitt, mat okkar sjálfra að aðrir séu færari um að leysa úr erfiðum efnahagsvandamálum en okkar eigið fólk. Mér finnst það vera slæm niðurstaða og er ekki tilbúinn til að skipa mér í hóp þeirra sem vilja halda því fram að við þurfum að sækja mannvit til erlendra ríkja til að stjórna okkar í efnahagsmálum. Ég vil halda því fram að þrátt fyrir að ýmislegt hafi gengið á í sögu lýðveldisins hafi okkur í heildina tekið miðað það vel áfram að það sé vandfundin sú þjóð sem hafi gert betur.



[13:41]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að tala um Evrópusambandið eða aðild að Evrópusambandinu. Ég ætlaði heldur ekki að tala um þorskkvóta. (Gripið fram í.) Ég ætlaði að tala um Helguvík og ég ætla að spyrja hv. þingmann, formann efnahags- og skattanefndar, hvort það sé ekki ljóst að haldið verði áfram með álverið í Helguvík og við getum treyst því, Suðurnesjamenn, að það verði að lögum á þessu þingi.



[13:42]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Enn og aftur kemur þessi umræða inn í þingið með þessum hvað eigum við að kalla það, skotgrafarhætti og það er það sem er að fara með Evrópuumræðuna hér á landi, þ.e. skotgrafirnar sem við erum í. Það er kominn tími til þess, virðulegi forseti, að þjóðin fái að vita um hvað Evrópusambandsaðild snýst. (Gripið fram í.) Ég veit það alveg að já-hreyfingin á það til að fara fullgeyst í málflutningi sínum. Nei-hreyfingin gerir það líka. Það hefur aldrei komið skýrt fram hvað það er sem við munum fá út úr aðildarviðræðum vegna þess að það hefur ekki verið gengið til samninga. (GÞÞ: Helguvík.) Og það er ekki fyrr en, virðulegi forseti, að það er ljóst að þessi samningur — hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er mjög órólegur og það er ekkert undarlegt miðað við fortíð þeirra við stjórn landsins þar sem þeir lokuðu augunum fyrir þeim gríðarlega mikla vanda sem blasir núna við þjóðinni hvað varðar gjaldmiðilinn.

Virðulegi forseti. Þegar stjórnmálamenn loka augunum (Gripið fram í.) fyrir því að við eigum í gjaldmiðilsvanda eru þeir að vanrækja hagsmuni þjóðarbúsins í heild. Og það er ekki ástæðulausu sem bæði Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og fleiri samtök og samtök launþega, hafa kallað á það að Evrópuumræðan verði tekin hér af krafti.

Virðulegi forseti. Heimilin og fyrirtækin eru í gríðarlegum vanda og við megum ekki endalaust karpa á þennan sama hátt um þessi Evrópumál. Við erum í gríðarlegum gjaldmiðilsvanda. Við verðum að fara að leysa þau mál, við verðum að fara að leiða þau til lykta. Þess vegna fagna ég því sem fram kemur í ályktun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frá síðasta landsfundi þeirra að landsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggi áherslu á að aðild Íslands að Evrópusambandinu eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Forseti hringir.) Það er akkúrat það, virðulegi forseti, sem við þurfum að gera. Nú eigum við þingmenn að taka okkur saman og setja málið í þann feril og ég treysti Samfylkingunni til að ná slíkri niðurstöðu með Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.



[13:44]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það hefði óneitanlega verið gaman ef hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, sem er formaður iðnaðarnefndar, hefði komið aðeins inn á Helguvíkurmálið en henni gefst væntanlega kostur á því seinna.

Ég vildi aðeins koma því á framfæri að það er ekki að ástæðulausu sem vakið er máls á þessu hér við umræðuna í dag. Það er vegna þess að annar flokkurinn í ríkisstjórninni talar til Brussel og hinn talar sig burt frá Brussel. Það er skýrt. Það kom skýrt fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar, formanns þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, áðan. Það kom raunar líka mjög skýrt fram í viðtalinu sem ég vitnaði til áðan við Steingrím J. Sigfússon í vefsjónvarpi Morgunblaðsins í gær þar sem hann leggur þunga áherslu á það að við eigum að vinna okkur út úr þeim vanda sem við Íslendingar erum í og menn finni engar töfralausnir í Evrópusambandsaðild eða evruupptöku einhvern tíma í framtíðinni. Steingrímur lagði þunga áherslu á þetta og það er eiginlega alveg óskiljanlegt að þingmenn Samfylkingarinnar skuli reyna að láta í veðri vaka að staðan sé ekki með þeim hætti að flokkarnir séu að tala algerlega hvor í sína áttina. Þetta er athyglisvert vegna þess að annar flokkurinn segir að á næsta kjörtímabili og helst í byrjun næsta kjörtímabils sé umsókn um Evrópusambandsaðild stærsta málið. Hinn flokkurinn segir að þetta eigi að bíða fram í framtíðina og við sjáum að ástarsambandið á milli þessara tveggja flokka er alla vega í orði kveðnu þannig að þeir ætla nánast að ganga sameinaðir til kosninga. Þetta er eitthvað skrýtið og það er auðvitað ekki að ástæðulausu að við reynum að fá skýringar á þessu í dag.

Það sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og fleiri hafa sagt um að mikil stefnumörkun sé fólgin í því af hálfu Vinstri grænna að málið eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu er náttúrlega eins og hvert annað grín vegna þess að í 15 ár frá því að EES-samningurinn (Forseti hringir.) var tekinn upp hefur enginn stjórnmálamaður á Íslandi talað öðruvísi en svo að málið yrði leitt til lykta með þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að tilvísun (Forseti hringir.) til þessa er algerlega út í hött og sýnir enga stefnubreytingu í þessum málum.



[13:46]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég beini spurningu til hv. formanns heilbrigðisnefndar, og af ástæðu. Þetta er afskaplega stórt mál og þau gerast ekki stærri. Eins og menn vita samþykktum við fjárlög hér upp á að setja 7.000 millj. kr. minna í heilbrigðismálin en áætlað var.

Við þekkjum að síðasta ríkisstjórn ákvað að fara út í sameiningar og skipulagsbreytingar sem eru, eins og allir vita, erfið mál en það var gert til þess, virðulegi forseti, að vernda heilbrigðisstarfsfólkið og þjónustuna. Svo kemur ný ríkisstjórn og nýr heilbrigðisráðherra sem hefur allan rétt á að breyta því sem ákveðið var.

Það sem við höfum farið fram á, en ekki hefur verið svarað þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um, er að fá að vita hvað á að gera. 20. janúar kom hæstv. heilbrigðisráðherra á fund nefndarinnar og hafði engin svör, virðulegi forseti, engin svör. Síðan erum við á hverjum einasta nefndarfundi búin að biðja um upplýsingar um það hvernig framkvæmdir fjárlaga gangi og hvað eigi að gera. Ég hef séð í fjölmiðlum að hópar voru settir af stað sem áttu m.a. að skila af sér mjög stórum niðurstöðum 12. mars. Nú er 24. mars. Það að menn fá ekki svör við þessu er afskaplega slæmar fréttir fyrir heilbrigðisstarfsfólk og afskaplega slæmar fréttir fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda.

Virðulegi forseti. Það er ekki boðlegt að fund eftir fund vilji meiri hlutinn ekki ræða þetta. Hann vill ekki ræða þetta grundvallarmál. (Gripið fram í: Þú ert svo mikill …) Þess vegna fer ég fram á hér, í þingsal, að við fáum upplýsingarnar sem eru nauðsynlegar en mér sýnist sem menn ætli að ýta vandanum á undan sér sem eru skelfilegar fréttir fyrir heilbrigðisstarfsfólk og skelfilegar fréttir fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda.



[13:49]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég skil vel áhyggjur hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Hann samþykkti hér og gekk frá fjárlögum þessa árs með tæplega 7.000 millj. kr. niðurskurði til heilbrigðisþjónustunnar svo ég skil vel áhyggjur hans. Hv. þingmaður hafði sem ráðherra einnig undirbúið skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustunni með tilliti til þessa.

Þegar ný ríkisstjórn tók til starfa 1. febrúar komu áhyggjur hv. þingmanns og fyrrverandi ráðherra glögglega í ljós og hann óskaði strax eftir því að hæstv. ráðherra kæmi fyrir nefndina. Við því var orðið eins fljótt og hægt var þannig að 20. febrúar kom hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir nefndina og gerði henni grein fyrir skipulagsbreytingum og þeirri stöðu sem vinnan við þær var í á þeim tíma. Þær höfðu tekið töluverðum breytingum. Það að gera grein fyrir framkvæmd fjárlaga út árið hlaut að taka mið af þeim breytingum sem voru þá í undirbúningi.

Hv. þingmaður hefur nokkrum sinnum óskað eftir því að fá upplýsingar um framkvæmd fjárlaga, m.a. á síðasta fundi nefndarinnar. Þá strax talaði ég við heilbrigðisráðherra og óskaði eftir því að hann kæmi á næsta fund nefndarinnar og gerði grein fyrir stöðunni með tilliti til framkvæmdar fjárlaga eins og staðan er í dag. Ráðherra eða ráðuneytisfólk mun koma á fund nefndarinnar á fimmtudagsmorgun sem er næsti reglulegi fundur nefndarinnar og vonandi fáum við þá, nefndin öll, (Forseti hringir.) góðar upplýsingar um það hvernig hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin ætla að standa að framkvæmd fjárlaga.



[13:51]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli ekki vera hér í salnum þegar við ræðum m.a. um heilbrigðismál þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Þekki ég það mætavel, hv. þm. Árni Páll Árnason. Hér erum við að ræða undir liðnum um störf þingsins um heilbrigðiskerfið þar sem skera þarf niður 7.000 millj. kr. á þessu ári.

Þrír mánuðir eru liðnir af þessu fjárhagsári og ekkert bólar á því hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra ætlar að klára sig af þeim 7.000 millj. kr. sem niðurskurður í heilbrigðiskerfinu verður fyrir. Þrír mánuðir eru liðnir.

Er þetta ekki lýsandi dæmi, hæstv. forseti, um kjarkleysi hæstv. heilbrigðisráðherra? Hann og hans flokkur ætla sér í kosningarnar 25. apríl án þess að hafa tekið á þeim mikla vanda sem er í heilbrigðiskerfinu til að geta sagst síðar meir hafa verið skilinn eftir með 7.000 millj. kr. niðurskurð.

Þetta er kjarkleysi, hæstv. forseti. Það þarf að grípa til ráðstafana. Þetta er vandi heilbrigðiskerfisins. Þetta er vandi innan fjárhagsáætlunar 2009. Það þarf að gera þetta, hæstv. forseti, og ég harma kjarkleysi hæstv. heilbrigðisráðherra og flokks hans, Vinstri grænna, í þeim heilbrigðismálum sem við stöndum nú frammi fyrir. Ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að gera þinginu grein fyrir því með hvaða hætti hann hyggist taka á þeim mikla vanda sem við blasir og ekki láta það bíða til 25. apríl eða bíða nýrrar ríkisstjórnar að loknum kosningum. Það, hæstv. forseti, er meira en kjarkleysi, það er dugleysi.



[13:53]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það er varla hægt að bæta nokkru við þau orð sem komu frá hv. þingmanni hér á undan. Fyrir rúmum mánuði tókum við umræðu á hinu háa Alþingi um skýrslu heilbrigðisráðherra um heilbrigðismál. Það var fátt um svör og eiginlega afar fátt um svör, það var með því fátæklegra sem maður hefur heyrt um ævina. Ekki hafa svörin skýrst í dag frá hv. þm. Þuríði Backman.

Það sem stóð eftir af umræðunni fyrir mánuði var að allur þungi sparnaðar ætti að leggjast á Landspítala – háskólasjúkrahús. Hann átti að taka niður 2,7 milljarða kr. Það var fallið frá því að sameina heilbrigðisumdæmin, það var fallið frá því að sameina stofnanir og samstarf sjúkrahúsanna í kraganum var sett í biðstöðu.

Afleiðingin er sú að starfsfólk Landspítalans situr uppi með þá tilfinningu að það eitt eigi að taka á sig sparnað og aðrar heilbrigðisstofnanir í kringum Reykjavík eru í lausu lofti. Þær hafa ekki fengið leiðbeiningar frá heilbrigðisráðuneytinu um hvernig þær eigi að ná niður kostnaði. Fjórðungur af árinu er liðinn og engar tillögur liggja fyrir.

Ég vil líka nefna annað mál, sameiningu heilbrigðisstofnana á Austurlandi sem hv. þm. Þuríður Backman þekkir mætavel til. Á fundi heilbrigðisnefndar í síðustu viku var m.a. rætt um Heilbrigðisstofnun Austurlands og m.a. voru stjórnendur stofnunarinnar inntir eftir því hvort það hefðu verið mistök að sameina stofnanirnar á sínum tíma. Það var eindregin skoðun þeirra — þau voru afdráttarlaus í þeim svörum — að þetta hefði verið rétt skref, það hefði verið gott fyrir þjónustuna, fyrir skipulagið, fagfólkið og sjúklingana.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Telur hann að það að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur horfið frá sameiningu heilbrigðisumdæma í Héraði hafi verið mistök, hann sé með því móti að taka af þessum svæðum (Forseti hringir.) tækifæri til að bæta heilbrigðisþjónustuna? Er það (Forseti hringir.) niðurstaðan? Er það það sem hæstv. heilbrigðisráðherra vill gera?



[13:55]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það er hálfhjákátlegt, eiginlega pínlegt, að fylgjast með fulltrúum Samfylkingarinnar ræða málin í þingsal. Það er alveg sama hvaða þjóðþrifamál eru rædd hér, hagsmunir heimilanna eða atvinnulífsins, alltaf koma stöðluð svör frá Samfylkingunni um að lausnin felist í því að ganga í Evrópusambandið.

Hér kom hv. þm. Grétar Mar Jónsson og spurði þeirrar einföldu spurningar hvort til stæði að halda áfram framkvæmdum í Helguvík. Hv. (Gripið fram í.) þingmaður, formaður iðnaðarnefndar, sá ekki ástæðu til að svara þeirri einföldu spurningu, heldur fór að ræða um Evrópumálin eða spurði hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson. (Gripið fram í.)

Það virðist sem Samfylkingin eigi bara stöðluð svör við öllum spurningum sem til hennar er beint: Að ganga í Evrópusambandið. Og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson er orðinn svo illa haldinn af Evrópuveikinni að hann er farinn að lúslesa drög að landsfundarályktunum Sjálfstæðisflokksins og endurreisnarskýrslu Sjálfstæðisflokksins í þeirri von að hann hafi náð einhverjum árangri í að smita okkur sjálfstæðismenn af Evrópuveiki sinni. Og nú hafa þeir snúið sér að Vinstri grænum sem eru töluvert að gefa eftir í málinu. Þessir tveir flokkar ætla síðan að ganga hönd í hönd til kosninga og það verður dálítið gaman að sjá hvernig það kosningabandalag mun virka. Vinstri grænir munu tala gegn aðild að Evrópusambandinu á meðan Samfylkingin vill ganga inn. Samt sem áður halda þeir því fram að ekki slitni slefan á milli þeirra í pólitík.

Það er rangt sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki mótað sér stefnu í Evrópumálum. Stefna Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) er sú að það þjóni hagsmunum Íslands best (Forseti hringir.) að standa utan Evrópusambandsins og það viðhorf (Forseti hringir.) viðraði hv. þm. Bjarni Benediktsson (Forseti hringir.) í viðtali við Fréttablaðið sem hér var vitnað til.



[13:58]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera svolítið önugt hlutskipti fyrir Vinstri græna að um leið og þeir samþykkja ályktanir sínar á flokksþingi taki við einhvers konar pólitískir fréttaskýrendur, þingmenn Samfylkingarinnar, (Gripið fram í.) sem útskýra fyrir þjóðinni hvað Vinstri grænir hafi í raun og veru meint. Þegar þeir samþykktu t.d. að þeir væru á móti Evrópusambandinu komu þingmenn Samfylkingarinnar og sögðu: Þetta þýðir að þeir eru að opna leiðina inn í Evrópusambandið. Þetta er einhvers konar kollhnísufréttaskýring sem er engu lagi lík og hlýtur að slá öll met.

Þá liggur fyrir að formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur talað mjög afdráttarlaust um að þeir séu á móti því að fara inn í Evrópusambandið gagnstætt því sem fréttaskýrendur í Samfylkingunni halda fram. Svo var önnur samþykkt gerð á flokksþingi Vinstri grænna og hún var sú að núna ætti að fara í vinstri stjórn eftir kosningar og það væri stjórn með Samfylkingunni. Það liggur fyrir afdráttarlaus vilji forustumanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þeim efnum en þá vaknar einföld spurning: Mun VG gera Evrópumálin að úrslitaatriði? Er þetta eitthvert umsemjanlegt mál, eitthvað sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð ætlar sér síðan eftir kosningar að semja um og komast að einhverri annarri niðurstöðu svo þeir geti þjónað fréttaskýrendunum í Samfylkingunni?

Vinstri hreyfingin – grænt framboð verður eftir þessa umræðu að fara að tala miklu skýrar. Þeir verða að segja okkur hvort þetta verði gert að úrslitaatriði, hvort þetta sé eitthvert svona mál sem menn geti samið um í einhverju bixi eftir kosningar. Eða ætlar Vinstri hreyfingin – grænt framboð að standa í lappirnar? Þora þeir, geta þeir, vilja þeir? Er viljinn til að sitja á ráðherrastólunum með Samfylkingunni, mesta Evrópustefnuflokki á Íslandi, e.t.v. svo sterkur að þeir ætli að semja um þetta mál? Er þetta eitthvert skítabixmál sem þeir geta bara (Forseti hringir.) samið um til þess að sitja sem ráðherrar áfram? (Gripið fram í.)



[14:00]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að tala um allt annað. Þann 5. mars hélt ég ræðu og var þar fullbjartsýnn og sagði að verðhjöðnun mundi verða um næstu mánaðamót sem varð tilefni til þess að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir átaldi mig og sagði, með leyfi herra forseta:

„Ég veit að það er ljótt að fara að draga niður þann jákvæða tón sem kom fram hjá hv. formanni efnahags- og skattanefndar“ — sem ég var reyndar ekki — „en raunveruleikinn er bara sá að þetta er allt saman mjög þungt hjá okkur, Íslendingum, og verður eflaust áfram.“

Nú hefur orðið verðhjöðnun. Reyndar bárust mjög slæm tíðindi síðustu helgi varðandi sparisjóðina en við verðum að halda uppi hinum jákvæðu tíðindum sem koma fram. Verðhjöðnun þýðir að verðtryggðar skuldir heimilanna lækka. Verðtryggðar greiðslur af lánum lækka og raunvextir stýrivaxta Seðlabankans verða óheyrilega háir, þeir eru farnir að nálgast 30% sem þýðir það í mínum huga að Seðlabankinn mun lækka stýrivexti umtalsvert á næsta ákvörðunardegi. Hann mun væntanlega lækka þá niður í 8–10%. Ég mundi ráðleggja mönnum það til þess að raunvextirnir verði ekki óbærilegir.

Þetta eru jákvæð tíðindi, herra forseti. Ég held að þingið verði líka að koma með jákvæðar fréttir út í þjóðfélagið svona til viðbótar við sólskinið sem skín úti — þetta er ekki allt saman einn táradalur. Ég vildi gjarnan minna á það aftur að verðhjöðnun frá Hagstofunni, lækkun á verðtryggingu, er einmitt það sem skuldug heimili í landinu þurftu, smáglætu um það að skuldirnar hækki ekki endalaust, séu loksins farnar að lækka eilítið.



[14:02]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að fá að svara jákvæðum fyrirspurnum eins og þeirri sem kom fram hjá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni áðan um álverið í Helguvík. Þannig vill til að efnahags- og skattanefnd afgreiddi í morgun umsögn um fjárfestingarsamninginn um álverið í Helguvík. Þar segir að nefndin hafi rætt mikilvægi framkvæmdarinnar fyrir atvinnustig á Suðurnesjum og suðvesturhorninu og þær jákvæðu breytingar sem það mundi hafa í för með sér, eins og komið hefði fram hjá fulltrúum sveitarfélaga á svæðinu — um þau jákvæðu áhrif sem það hefði á tekjustofna sveitarfélaga, húsnæðismarkað og atvinnumarkað með margvíslegum hliðaráhrifum.

Efnahagsáföllin hafa haft neikvæð áhrif á mannvirkja- og þjónustugeira og mikill slaki hefur myndast í hagkerfinu og samdráttur er fyrirsjáanlegur. Því má almennt reikna með að álversframkvæmdir muni hafa jákvæð áhrif á efnahagslífið, sérstaklega atvinnu- og framleiðslustig, og leggur efnahags- og skattanefnd til að iðnaðarnefnd samþykki frumvarpið um fjárfestingarsamninginn í Helguvík. (Gripið fram í.)

Þetta eru að sjálfsögðu mjög jákvæðar fréttir og þær á að draga fram líka, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi hér áðan. Því er mér ánægjuefni að svara hv. þm. Grétari Mar Jónssyni, fulltrúa frjálslyndra í nefndinni — hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, áheyrnarfulltrúi, var samþykkur frumvarpi þessu. Ég tel, af því að þingmaðurinn spurði beint, líkur á því að Norðurál takist að halda áfram að byggja upp álverið sem skóflustunga var tekin að í byrjun júní í fyrra og það muni ganga vel. Þeim hefur tekist að endurfjármagna framkvæmdirnar eftir að íslensku bankarnir féllu í haust, það voru gífurlega jákvæð tíðindi. Ég hef átt reglubundin samtöl við þá eins og margir aðrir hér um framvindu þessara mála og ég er bjartsýnn á að framkvæmdirnar við álversskálann í Helguvík verði komnar á hástig í haust. Við getum þannig horft björtum augum fram á það að mjög jákvæðar fréttir komi inn í atvinnulífið hér á suðvesturhorninu og á Suðurnesjunum sem er framhald framkvæmda við álverið í Helguvík.