136. löggjafarþing — 112. fundur
 24. mars 2009.
embætti sérstaks saksóknara, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 393. mál (rýmri rannsóknarheimildir). — Þskj. 663, nál. 760, brtt. 762.

[16:47]
Björn Bjarnason (S) (frh.):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að gera hlé á máli mínu og taka upp þráðinn að nýju þegar hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra er komin í salinn því ég vil beina orðum mínum sérstaklega til hæstv. ráðherra þegar við ræðum þetta mál. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni um málið í gærkvöldi — en þá var hæstv. ráðherra því miður ekki hér — þá er ég ekki með neinn ágreining varðandi þetta mál og ég tel mjög mikilvægt og það hefur komið fram í umræðunum að þess vegna séu þessar umræður mikilvægar, til þess að fá fram þann víðtæka stuðning sem er hér í þingsalnum við það að hinn sérstaki saksóknari fái umræddar heimildir. Það hefur einnig verið upplýst hér — og ég vil þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sérstaklega fyrir að hafa unnið í því að upplýsa, skýra og útskýra hvers vegna þetta ákvæði er komið fram sem sérstakt mál í þingið og var ekki hluti af frumvarpinu um sérstakan saksóknara sem ég kynnti og flutti fyrir áramót. Þetta hefur orðið til þess að skýra málið betur, við höfum gefið okkur tíma til að ræða það og ég er viss um að allir þeir sem bera hag þessa embættis fyrir brjósti átta sig á því eftir þessar ítarlegu og gagnlegu umræður að það er fullur stuðningur stjórnmálamanna og þingmanna við það að embættið vaxi og dafni.

Þess vegna var það, miðað við það sem rætt var í gærkvöldi, sérstakt gleðiefni að í dag kynnti hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra á blaðamannafundi þá ákvörðun að fjölga mætti starfsmönnum embættisins úr 4 í 16. Einnig hefur komið fram í fréttum að nú í vikunni sé hinn franski saksóknari Eva Joly væntanleg hingað aftur til skrafs og ráðagerða um framvindu embættisins.

Það sem ég vildi fá tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra um, og þess vegna bað ég sérstaklega um að hæstv. ráðherra yrði viðstödd þegar ég flyt ræðu mína, er hvort hún geti ekki útskýrt betur fyrir okkur hér í þingsalnum hvernig hæstv. ráðherra sér framvindu mála varðandi fjölgun starfsmanna hjá embættinu úr 4 í 16, hvaða samsetning af fólki er fyrirhuguð þar og hvers vegna talan 16 er valin en ekki einhver önnur tala, hvað býr þarna að baki? Ég gat ekki verið viðstaddur fyrri hluta umræðunnar og kannski hefur þetta þegar komið fram, ég veit það ekki, en ég vildi mjög gjarnan að hæstv. ráðherra útskýrði þetta fyrir okkur.

Ef ég reikna rétt er væntanlega líka verið að tala um með þessu að hækka fjárveitingar til embættisins úr 50 milljónum í 200 milljónir á ári, ef ég átta mig á þeim stærðum sem um er að ræða. Þetta er kannski ekki alveg svona há upphæð, líklega var hluti upphæðarinnar, þ.e. 50 milljónanna, stofnkostnaður, ég veit það ekki. Það væri fróðlegt að vita hvort samráð hefur verið haft við þingmenn úr fjárlaganefnd um þetta, eins og eðlilegt er, eða hvernig sú ákvörðun var tekin að auka fjárveitingar með þessum hætti.

Mig langar einnig að vita hvaða áform eru um samstarf við hinn sérstaka franska ráðgjafa um framvindu málsins. Ég tel að það sé til þess fallið að styrkja embættið enn frekar í sessi að hæstv. dómsmálaráðherra upplýsi um þessa þætti og það eigi ekki að leggja það á hinn sérstaka saksóknara að þurfa að sitja og svara spurningum fjölmiðlamanna um starfsumhverfi sitt og mál af þessu tagi. Að mínu mati er mjög brýnt að búa þannig um hnútana að hinn sérstaki saksóknari geti sinnt störfum sínum af öryggi án þess að fjölmiðlamenn séu í sjálfu sér að skipta sér af því og krefja hann svara um það hvort hann ætli að gera þetta eða hitt eða hvort starfsmennirnir séu 4 eða 16. Hið pólitíska umhverfi ætti að skapa honum það öryggi sem þarf til þess að hann geti sinnt störfum sínum. Frumvarpið sem hér er til umræðu gerir það, með því er verið að veita honum meiri heimildir en áður.

Eins og ég sagði í ræðu minni í gær tel ég mjög ómaklega að hinum sérstaka saksóknara vegið þegar gefið er til kynna að vegna þess að hann hafi verið sýslumaður á Akranesi sé hann verr til þess fallinn en einhverjir aðrir að sinna verkefnum af þessu tagi. Ég tel því fulla ástæðu til þess að skapa þann múr af trausti í kringum embættið að öruggt sé að það geti siglt áfram á þann veg sem við allir þingmenn væntum og sem við væntum enn frekar eftir að búið verður að breyta lögum á þann veg sem hér er verið að gera og einnig þegar ákveðið hefur verið að fjölga starfsmönnum við embættið jafnmikið og raun ber vitni.

Það var þetta sem ég vildi spyrja um. Ég vil í raun og veru líka gefa, ef ég má orða það svo, virðulegi forseti, hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra færi á því hér í salnum að greina frá því hvaða ákvarðanir hafa verið teknar því það er þingið sem hefur skapað þetta embætti með samþykkt þessara sérstöku laga. Það hefur líka komið skýrt fram, og hæstv. ráðherra og við höfum fylgst með umræðum sem hafa verið miklar og efnislegar um þetta mál, að það er eindreginn stuðningur í þinginu við embættið og eindreginn vilji til þess að það geti sinnt störfum sínum.

Ég vil, virðulegi forseti, enn í lok máls míns þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að ljúka því sem mátti skilja sem óupplýst mál í upphafi umræðnanna vegna orðaskipta sem urðu við 1. umr. málsins og draga það fram með þeim hætti sem hún gerði, hvað menn ræddu í aðdraganda frumvarpsins, upphaflega, og hvaða sjónarmið voru uppi milli dóms- og kirkjumálaráðuneytisins annars vegar og viðskiptaráðuneytisins hins vegar.



[16:54]
dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Bjarnasyni fyrir spurningarnar. Hvað varðar hinn sérstaka saksóknara og væntingar til hans verður að hafa í huga að hinn sérstaki saksóknari hóf störf 1. febrúar sl. þegar nokkur tími var liðinn frá bankahruninu. Hann hóf störf sín í rauninni í því andrúmslofti að menn voru mjög óþolinmóðir að sjá strax árangur af störfum hans. Auðvitað þarf hinn sérstaki saksóknari að fá færi til að kynna sér málin og fara ofan í þau og hefja rannsókn. Það hefur ekki verið um það deilt að einhvers staðar verði menn að byrja og þetta embætti byrjaði eins og áætlað var með þremur til fjórum starfsmönnum.

Síðan varð ljóst þegar embættið hóf störf að það þurfti ríkari heimildir til þess að geta sinnt starfinu og það frumvarp sem nú er til umræðu gerir einmitt ráð fyrir þeim heimildum. Þá samþykkti ríkisstjórnin 10. mars sl. að óska eftir aðstoð Evu Joly sem ráðgjafa vegna rannsóknar á brotum í tengslum við bankahrunið og í kjölfar þess er gert ráð fyrir að rannsóknin verði mun alþjóðlegri og að aðkeypt sérfræðiþjónusta verði stóraukin.

Hinn sérstaki saksóknari hefur komið á minn fund og kynnt endurskoðaða rekstraráætlun og kynnt mannaflaþörf embættisins. Ég taldi því ekki annað í stöðunni en að kynna ríkisstjórninni það í morgun. Sú áætlun sem unnin er í samvinnu við hinn sérstaka saksóknara með aðkomu Evu Joly var kynnt fyrir ríkisstjórn og þar er gert ráð fyrir 16 föstum starfsmönnum auk þess sem þrír til fjórir erlendir sérfræðingar ynnu með embættinu. Þetta yrðu allt að 20 manns.

Eins og ég greindi frá á blaðamannafundinum í dag var mér falið af ríkisstjórn að vinna að málinu nánar ásamt forsætisráðherra og fjármálaráðherra með það fyrir augum að koma með niðurstöðu á föstudag. Ég vonast að sjálfsögðu eftir jákvæðum undirtektum en ég taldi nauðsynlegt að gera grein fyrir þessum fyrirætlunum.

Endurskoðuð rekstraráætlun — svo ég fari nákvæmar ofan í það sem er þar uppi á borðinu og enn liggur fyrir í drögum, en útgangspunkturinn hjá mér er að 16 fastir starfsmenn verði við embættið. Auk saksóknarans verða fimm lögfræðingar, tveir löggiltir endurskoðendur, sex lögreglumenn auk tveggja skrifstofumanna. Um hina erlendu sérfræðinga þarf að ræða nánar og aðkomu þeirra og á hvaða tímapunkti og verður haft samráð við Evu Joly um það. Hún er ráðgjafi ríkisstjórnarinnar um rannsókn þessara brota og hún hefur víðtæk tengsl í alþjóðlegt samfélag þeirra sem rannsaka efnahagsbrot og hefur þar mikið til málanna að leggja. Það er hennar aðkoma á þessum tímapunkti. Hún mun koma hingað til landsins á morgun og þá verður þetta rætt frekar með aðkomu erlendra sérfræðinga og ég vonast til þess að hægt verði að ganga frá þessu fyrir vikulokin. Ég tel það mjög brýnt að saksóknarinn þurfi einmitt ekki að svara spurningum um þessi atriði, þ.e. að það sé bara á hreinu, hann geti sinnt störfum sínum og gert það af myndugleika og krafti og hann er þegar byrjaður á því. Samkvæmt mínum upplýsingum er nóg að gera hjá hinum sérstaka saksóknara, allir starfsmenn þar sinna störfum sínum af fullum krafti og ekki vanþörf á að auka starfsmannafjöldann mjög bráðlega og helst ekki síðar en í næstu eða þarnæstu viku.



[16:59]
Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og það var gagnlegt að fá þessar upplýsingar gefnar í þingsalnum.

Ég vakti máls á því í gær og ég vil gjarnan fá tækifæri til þess að spyrja hæstv. ráðherra að því nú: Kemur ekki til álita fyrir utan að nýta þau tengsl sem hinn franski saksóknari getur skapað, að líta einnig á tengsl Íslands inn í alþjóðlegt rannsóknarsamfélag í gegnum Europol og nýta þetta tækifæri, ef ég má orða það svo, eða þessar aðstæður til þess að tryggja örugglega að Íslendingur starfi hjá Europol og komi þá meira að efnahagsrannsóknum nú meðan þetta gengur yfir á þennan veg?

Eins og ég sagði í ræðu minni í gær er út af fyrir sig gott að fá ráðgjöf frá sérfræðingum eins og hér hefur verið lýst en ég tel ákaflega miklu skipta að það sé tryggt að hinn sérstaki saksóknari hafi aðgang inn í viðurkennt rannsóknarumhverfi. Eitt er Interpol en Europol skiptir mjög miklu máli því að Europol er örugglega að þróa mjög með sér rannsóknir á sviði efnahagsbrota og peningaþvættis og annarra slíkra þátta. Ég hvet þess vegna eindregið til að ekki verði einblínt, ef ég má orða það svo, á hin sérstöku tengsl við hinn franska saksóknara heldur verði einnig lögð rækt við að nýta þau tengsl sem eru við Europol og við þær alþjóðlegu lögreglustofnanir sem við höfum því þær eru viðurkenndar og þarf enga sérstaka vottun, ef svo má segja, fyrir lögmæti þeirra eða aðgangi þeirra að upplýsingum.

Ég hvet ráðherrann til að huga að þessu þegar verið er að endurskipuleggja og fara yfir nýtt tengslanet fyrir hinn sérstaka saksóknara.



[17:02]
dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ljóst er að þessi umræða um embætti sérstaks saksóknara og umræða um aukningu á starfsmannaliði hans kallar á umræður um ýmsa þætti rannsóknarinnar. Vel getur verið að við þurfum ekki einungis að huga að aðkeyptum sérfræðingum og því að veita fé til þeirra, heldur þurfi líka að huga að því að veita fjármagn í aukin tengsl eða viðvarandi tengsl við Europol, en fjárheimildir hafa ekki gert ráð fyrir að hafa þar fastan starfsmann út árið. Ég held að þessi umræða um sérstakan saksóknara sé einmitt tækifæri til að skoða öll svona sambönd til hlítar og tel að einmitt megi huga að því að búa til tengsl og njóta sérfræðiaðstoðar, bæði með því að fá hingað erlenda sérfræðinga en líka að leita út fyrir landsteinana til góðra manna og kvenna sem þar eru.



[17:03]
Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherranum fyrir þessar jákvæðu undirtektir. Ég tel að skoða eigi þetta allt saman og huga að Interpol, sem hlýtur að fjalla um svona mál, og ekki síður að velta fyrir sér t.d. Eurojust, sem er samstarf saksóknara á evrópskum grundvelli og Ísland er aðili að í gegnum Schengen-samstarfið, og nýta þannig öll tækifæri. Mjög mikilvægt er, held ég, að nýta þau tækifæri sem felast í aðild okkar að alþjóðlega viðurkenndum rannsóknarstofnunum, því í málum eins og þessum er trúverðugleikinn og traustið og spurningar sem koma frá evrópskum stofnunum, t.d. gagnvart Lúxemborg eða öðrum Evrópulöndum — ef það kemur í gegnum þessar stofnanir, þótt íslenskir aðilar geti haft mikla vigt, hefur það ekki síður mikla vigt að geta beitt sér í gegnum sameiginlegar evrópskar stofnanir sem allir vita eftir hvaða reglum starfa og hvaða reglur gilda um.

Ég hvet því eindregið til þess þegar farið verður í þetta starf, sem hæstv. ráðherra lýsir og fjallað er um þessa dagana, að menn hugi að þeim þáttum. Við vitum um nána samvinnu okkar við Norðurlöndin, en ég hvet til þess að menn hugi að þessum Evrópuþáttum og tengi rannsóknirnar inn í þær stofnanir eftir því sem efni og ástæður leyfa og nýti þá krafta sem þar eru til að auðvelda okkur að koma að þessum málum.



[17:05]
Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég á ekki sæti í nefndinni sem fjallar um það mál sem hér er verið að ræða en hef hlýtt á umræðuna sem hefur átt sér stað og verið mjög gagnleg.

Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs um þetta mál er sú að ég hef átt sæti fyrir hönd Alþingis Íslendinga í Norðurlandaráði og tekið þátt í því starfi eins og vera ber og verið í nefnd sem heitir meðborgaranefnd, en sú nefnd hefur einmitt fjallað um málaflokka af þeim toga sem hér um ræðir, rannsóknir á hvers konar glæpastarfsemi, mansali, eiturlyfjum, peningaþvætti o.s.frv. Ég hef átt þess kost að heimsækja bæði Eurojust og Europol í Haag í Hollandi og reyndar líka Alþjóðadómstólinn sem þar er. Þar eru fulltrúar frá Norðurlöndunum og Norðurlöndin hafa ákveðið samstarf og samstarfsvettvang innan þessara stofnana og við lögregluna í viðkomandi löndum, þannig að ég held að það hljóti að vera alveg einboðið að við nýtum okkur þá þekkingu og mig grunar að það hafi verið gert í einhverjum mæli í öðrum og annars konar málum en við fjöllum um hér.

Þá get ég nefnt að þessi meðborgaranefnd hefur heimsótt Varsjá í Pólland, þar sem höfuðstöðvar Schengen-mála eru og það er gríðarlega stór og stækkandi stofnun með gríðarlega öflugt lið og þetta fléttast allt saman við lögreglu í heimalöndunum. Þar eiga Norðurlöndin einmitt fulltrúa sem tengir starfið sem þar er unnið og, eins og ég sagði áðan, stækkar ört hópurinn sem vinnur að þeim málum í Varsjá. Gríðarlegir fólksflutningar eru frá Asíu, Írak, Íran, Úkraínu og löndunum sem snúa að Póllandi þannig að mikil ásókn er í að komast inn í þennan vestræna heim okkar. Líka er verið að smygla fólki og það er stóriðnaður ekki síður en eiturlyfja- og klámiðnaðurinn, það er iðnaður að flytja fólk og smygla því inn í þau lönd sem standa að EES og Evrópubandalaginu.

Þetta vildi ég, herra forseti, að kæmi fram og hvet til þess að þær leiðir sem við höfum í gegnum Norðurlandaráðssamstarfið verði nýttar í þessu tilfelli.