136. löggjafarþing — 112. fundur
 24. mars 2009.
lífsýnasöfn, 2. umræða.
stjfrv., 123. mál (skil milli þjónustusýna og vísindasýna o.fl.). — Þskj. 133, nál. 777.

[19:32]
Frsm. heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. heilbrigðisnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 110/2000, um lífsýnasöfn, með síðari breytingum.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fjölmarga gesti auk þess sem málið var sent víða til umsagnar og bárust fjölmargar umsagnir sem allar voru jákvæðar og nokkrar með athugasemdum sem tekið hefur verið tillit til.

Í frumvarpinu er lagt til að varsla, nýting, meðferð og eftirlit lífsýnasafna byggist á skýrri aðgreiningu lífsýna, þ.e. eftir því hvort þeirra er aflað í vísindalegum tilgangi eða vegna þjónustu við sjúklinga. Skilin þarna á milli hafa ekki verið skýr í gildandi lögum sem valdið hefur erfiðleikum við framkvæmd. Helstu breytinga er getið í almennum athugasemdum frumvarpsins, m.a. að heimilt verði að varðveita þjónustulífsýni með persónuauðkennum.

Nefndin bendir á að umsagnir sem henni hafa borist séu almennt jákvæðar í garð frumvarpsins og það talið horfa til bóta. Þó hafa komið fram athugasemdir við einstaka efnisþætti, eins og ég sagði hér áðan, hæstv. forseti.

Nefndin ræddi ábendingu sem fram kom um að í sumum tilvikum væri eðlilegra við framkvæmd þjónusturannsóknar að lífsýnagjafi væri spurður beint hvort hann óskaði eftir að takmarka viðbótarnotkun lífsýnis í stað þess að hann þyrfti að tilkynna þessa ósk sína til landlæknis. Þetta gæti til að mynda átt við þegar sýni væru send til rannsókna erlendis en þá getur verið tafsamt að kanna hvort takmarkanir lífsýnagjafa komi fram í skrá landlæknisembættisins. Nefndin telur með hliðsjón af 9. gr. laganna um notkun lífsýna að umrædd athugasemd gefi ekki tilefni til breytinga en leggur til að fyrirkomulag við sendingu sýna til útlanda verði nánar útlistað í reglugerð.

Með hliðsjón af framansögðu áréttar nefndin einnig mikilvægi þess að lífsýnagjafar séu upplýstir um ætlað samþykki sitt og jafnframt að við gerð eyðublaða sem landlæknir annast skv. 4. mgr. 7. gr. laganna verði þeim gert kleift að binda bann við viðbótarnotkun við tilgreindar rannsóknir í stað þess að það taki undantekningarlaust til allra lífsýna.

Nefndin vekur athygli á að við umfjöllun málsins lýsti vísindasiðanefnd þeirri skoðun sinni að sérstök ástæða væri til að þjónustusýni væru varðveitt án persónuauðkenna en eins og áður segir er ein helsta breyting frumvarpsins sú að heimila varðveislu þjónustulífsýna með persónuauðkennum. Togast hér á tvenns konar sjónarmið, annars vegar krafan um leynd persónuupplýsinga og hins vegar um áreiðanleika upplýsinga.

Nefndin vekur athygli á því sem fram kom við umfjöllun hennar að í ákveðnum tilvikum getur verið ómögulegt að dulkóða persónuauðkenni á rannsóknarsýnum. Var í því sambandi rædd umsögn Krabbameinsfélags Íslands þar sem fram kemur að dulkóðun leghálsstrokusýna á glerplötum geti valdið ruglingshættu og dregið úr öryggi þeirra kvenna sem þangað leita. Nefndin vill taka fram að skv. 5. gr. frumvarpsins er í undantekningartilvikum, með leyfi Persónuverndar, heimilt að afhenda lífsýni með persónuauðkennum til vísindarannsókna.

Nefndin ræddi þá tilhögun frumvarpsins að fela vísindasiðanefnd eftirlit með starfsemi lífsýnasafna. Lög um lífsýnasöfn gera ráð fyrir að landlæknir annist eftirlit með lífsýnasöfnum að því leyti sem það er ekki í höndum Persónuverndar og vísindasiðanefndar. Tekur nefndin undir sjónarmið í umsögn vísindasiðanefndar um að ástæða sé til að setja skýrar verklagsreglur um eftirlitið.

Nefndin leggur loks til í samræmi við ábendingar Persónuverndar að orðin „að jafnaði“ í 5. gr. frumvarpsins falli brott þar sem ekki verður séð að þau þjóni neinum tilgangi.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu: Orðin „að jafnaði“ í 1. efnismálslið 5. gr. falli brott.

Ásta Möller og Álfheiður Ingadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita sú sem hér stendur, formaður, framsögumaður, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ellert B. Schram, Guðlaugur Þór Þórðarson, Pétur H. Blöndal, Eygló Harðardóttir og Kristinn H. Gunnarsson.



[19:36]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er komið til 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um lífsýnasöfn, með síðari breytingum, eftir umfjöllun í nefnd. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni í framsögu fyrir nefndarálitinu er megintilgangur frumvarpsins að gera greinarmun milli lífsýna sem eru annars vegar tekin í vísindaskyni og hins vegar sem hluti af þjónustu við sjúkling og hluti af rannsóknum við greiningu sjúkdóma.

Frumvarpið byggir á lögum frá árinu 2000 og því er komin ákveðin reynsla á framkvæmd þessara þátta við meðhöndlun lífsýna. Í núgildandi lögum er ekki gerður greinarmunur á lífsýnum vegna vísindarannsókna og lífsýnum vegna þjónusturannsókna en með frumvarpinu er verið að gera greinarmun á þessu og skilgreina þessar tvær tegundir sýna, þ.e. annars vegar lífsýni sem eru tekin eingöngu í vísindalegum tilgangi til að undirbyggja ákveðnar rannsóknir og hins vegar þjónustusýni sem við þekkjum velflest og eru lífsýni sem tekin eru vegna heilbrigðisþjónustu við einstakling. Þar af leiðandi er gerður greinarmunur á lífsýnasafni vegna vísindasýna og lífsýnasafni vegna þjónustusýna og gerðar mismunandi kröfur til hvors tveggja.

Vandinn sem hv. heilbrigðisnefnd stóð frammi fyrir var sá að í ýmsum tilvikum gerist það að lífsýni sem tekin eru vegna heilbrigðisþjónustu við einstakling eru síðan notuð sem vísindasýni í framhaldinu. Þetta kom m.a. fram í umsögnum, t.d. frá læknadeild Háskóla Íslands þar sem þessum vanda var lýst fyrir okkur og jafnframt í umsögn frá Krabbameinsfélagi Íslands. Að öðru leyti voru umsagnir um málið frá hinum ýmsu aðilum almennt jákvæðar. En það vinnulag var haft við vinnslu frumvarpsins að nefndin sem samdi frumvarpið var samsett af mjög mörgum af okkar bestu sérfræðingum á þessu sviði ásamt fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins. Drög að frumvarpinu voru síðan send 17 aðilum til umsagnar sem gáfu gagnlegar ábendingar sem tekið var tillit til.

Samt voru ákveðin atriði sem þurftu sérstakrar skoðunar við. Í umsögn læknadeildar Háskóla Íslands um frumvarpið kemur m.a. fram að þær breytingar á lögum um lífsýnasöfn sem koma fram í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar séu allar til bóta. Mikilsvert sé að greint er betur milli vísinda- og þjónustulífsýnasafna og að viðeigandi ákvæði eru sett um mismunandi lífsýni í þeim. Lögð er áhersla á nauðsyn þess að hægt sé að geyma þjónustusýni með persónuauðkennum svipað og önnur gögn sem tengjast sjúkraskrá og hætta á misnotkun sé hverfandi miðað við áreiðanlegri sýnamerkingar og varðveislu sýna. Þessar breytingar bæti því lögin og sníði af þeim vankanta sem hafa komið fram við uppsetningu og rekstur lífsýnasafna.

Í umsögn frá Krabbameinsfélaginu kemur það sjónarmið fram sem fékk hljómgrunn innan nefndarinnar og mikinn skilning meðal annarra umsagnaraðila að Persónuvernd hafi krafist þess samkvæmt túlkun á lögum um lífsýnasöfn að lífsýni á lífsýnasafni Frumurannsóknastofu leitarsviðs Krabbameinsfélags Íslands skuli varðveita án persónuauðkenna. En eins og kemur fram í umsögn Krabbameinsfélagsins geymir þetta lífsýnasafn leghálssýni. Það var sjónarmið Krabbameinsfélagsins að það væri óheppilegt að geyma slík sýni ópersónugreinanleg, það væru ótvíræðir öryggishagsmunir þeirra kvenna sem tekin hafa verið leghálssýni hjá að sýnið sé varðveitt með kennitölu. Þeir telja, og það kemur einmitt fram í nefndaráliti hv. heilbrigðisnefndar, að dulkóðun slíkra persónueinkenna séu fallin til þess að auka flækjustig og hættu á mistökum sem geti verið afdrifarík þegar verið er að bera saman fyrri og seinni sýni úr sömu konu. Það segir sig sjálft að hafa þarf samanburð á milli sýna, ef kona hefur farið í rannsókn þar sem tekið var leghálssýni á fyrri stigum og aftur síðar þá þarf að vera hægt að bera saman viðkomandi sýni og ef þau eru án persónuauðkenna getur það leitt til ruglings.

Krabbameinsfélagið lagði áherslu á að það væri til mikilla bóta að gerður skuli skýr greinarmunur á milli lífsýna sem tekin eru í þjónustuskyni og þeirra sem tekin eru til vísindarannsókna. Það varð niðurstaða nefndarinnar að taka bæri tillit til þessara sjónarmiða.

Það kom fram í umsögn frá Jóni Jóhannesi Jónssyni, f.h. læknadeildar Háskóla Íslands, en Jón er, ef ég man rétt, forstöðumaður á rannsóknadeild við Landspítalann og starfar við læknadeild Háskóla Íslands sem fræðimaður og kennari, að í lögum um lífsýnasöfn eru gerðar kröfur um að landlæknir skuli geyma dulkóðaða úrsagnaskrá yfir sjúklinga sem hafa tilkynnt til landlæknis ákvörðun sína um að þeir vilji ekki að tiltekin lífsýni verði notuð til rannsókna. Í umsögninni kemur fram að mjög óhagkvæmt sé að framkvæma þetta með þessum hætti, að fólk tilkynni í eitt skipti fyrir öll til landlæknis að það vilji ekki að lífsýni þeirra séu notuð í vísindaskyni og það eigi þá við um allar vísindarannsóknir og öll sýni. Það sé mjög óheppilegt og ópraktískt að leita þurfi til slíkrar skrár í öllum tilvikum, sérstaklega þegar verið er að taka sýni til sendingar og rannsókna erlendis því að oft sé það svo með sýni sem send eru utan að óskað er eftir að þau verði síðan notuð til vísindarannsókna í tilteknu skyni og því sé óheppilegt að þurfa að leita til lífsýnaskrár landlæknis hverju sinni.

Töluverð umræða varð um þetta innan nefndarinnar og niðurstaða hennar var í raun og veru sú að lög um lífsýnasöfn væru nægilega skýr en skoða þyrfti sérstaklega framkvæmdina gagnvart sjúklingi þannig að hægt væri að koma því við að sjúklingur væri spurður hverju sinni hvort slíkt væri heimilt því að um væri að ræða frekar afmörkuð tilvik.

Frumvarpið er í raun og veru frekar tæknilegs eðlis og sérhæft, eins og ég sagði áðan, og tekur fyrst og fremst mið af reynslu síðustu ára. Lögin sem samþykkt voru á árinu 2000 voru nýmæli á þeim tíma en afskaplega nauðsynleg og hafa núna verið notuð sem grunnur varðandi lífsýni sem nú með þessu frumvarpi eru aðgreind, annars vegar sem vísindasýni og hins vegar þjónustusýni.

Ég tel að ég hafi að mestu gert grein fyrir því sem kom til umræðu í nefndinni út frá okkar sjónarmiði og læt hér með ræðu minni lokið.



[19:47]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um lífsýnasöfn með síðari breytingum. Ég vil byrja á því að gera ákveðna athugasemd við það að verið sé að ræða þetta mál svona seint að kvöldi og alveg sérstaklega hvernig dagskráin er uppsett. Það eru 26 mál á dagskrá og af þeim eru ekki nema fjögur sem mér sýnist að varði heimilin í landinu og hag þeirra. Mér finnst skorta á réttar áherslur, að menn taki þau mál fyrir sem virkilega skipta máli. Það er náttúrlega vegna þess að mál eru annaðhvort stopp í nefndum eða hjá ríkisstjórn eða hafa hreinlega ekki komið fram. Ég geri því ákveðna athugasemd við þetta, að af 26 málum eru fjögur sem varða fjölskyldurnar í landinu og þeim er dreift svona hingað og þangað. Ég hef þá náttúrlega mestan áhuga á málinu um ábyrgðarmenn sem leysir mikinn vanda, en ábyrgðarmannakerfið hefur valdið miklu tjóni.

Ég ætla að ræða frumvarpið sem hér er á dagskrá. Frumvarpið er í sjálfu sér nokkuð tæknilegt. Gerður er munur á því hvort lífsýna er aflað í vísindatilgangi eða vegna heilbrigðisþjónustu við einstakling. Ég spurðist fyrir um það í nefndinni hvort skýr skil væru þar á milli og menn, gestir og aðrir, fullvissuðu mig um að þetta væri skýrt afmarkað. Menn gátu hins vegar ekki svarað þeirri spurningu hvað gerist ef lífsýni, sem tekið er vegna heilbrigðisþjónustu við einstakling, er svo notað í tölfræðilegri úrvinnslu um einhver allt önnur mál löngu seinna. Þá breytist það úr því að vera þjónustusýni yfir í það að vera vísindasýni og segja má að sú aðgreining sem menn vilja stefna að í frumvarpinu náist ekki.

Ég nefni blóðgjafir sem dæmi, þar er væntanlega um þjónustusýni að ræða. Ég reikna með því að blóðgjafi gefi almennt blóð til þess að aðstoða fólk sem lendir í slysum og þarf blóð. Síðan eru gerðar á því athuganir, kannanir, t.d. hvað varðar blóðflokka og annað slíkt, og jafnvel mætti nota það til efnarannsókna en þá er það spurning hvers eðlis lífsýnið er. Í frumvarpinu stendur að þá eigi að halda því aðgreindu en mér sýnist að þjónustulífsýni geti mjög auðveldlega breyst í vísindalífsýni og öfugt. Maður getur ímyndað sér að verið sé að rannsaka lífsýni í vísindatilgangi og þá komist menn að því að eitthvað alvarlegt er að viðkomandi einstaklingi, þ.e. að rannsóknin leiði það í ljós að eitthvað mikið er að honum. Menn geta þá lent í vandræðum því að þau sýni skal geyma ópersónugreinanleg.

Mikill siðferðislegur vandi gæti komið upp ef í ljós kemur að einstaklingurinn er haldinn einhverjum ólæknandi sjúkdómi eða læknanlegum sjúkdómi sem getur orðið hættulegur ef hann uppgötvast ekki. Vísindamaður gæti líka komist að því að einstaklinginn mætti lækna en getur ekki brotið kóðann sem oft og tíðum er þó hægt, öll mannanna verk má jú afkóða. Þessi kóði er væntanlega geymdur hjá Persónuvernd eða annars staðar. Ef vísindamaður kemst að því að einhver maður er haldinn læknanlegum sjúkdómi sem uppgötvast í gegnum lífsýnið þá þarf hann að fara til baka.

Þetta var svo sem rætt mikið í sambandi við gagnagrunninn fræga hjá Íslenskri erfðagreiningu sem illu heilli varð aldrei að því verðmæti sem menn ætluðu. En mér sýnist menn oft ganga ansi langt í því að gæta einhverrar ímyndaðrar persónuverndar og ég veit í rauninni ekki til hvers. Það er eins og sjúkdómar séu eitthvað sem menn þurfi að skammast sín fyrir. En þannig er það yfirleitt ekki og ég held að flestir sjúkdómar hafi misst þann karakter að vera eitthvað sem menn tala ekki um, jafnvel krabbamein. Það eina sem kannski situr eftir eru geðsjúkdómar.

Í umræðum í nefndinni var farið í gegnum umsagnir sem flestar voru jákvæðar. Reyndar var það bara ein umsögn sem benti á það atriði sem ég er að benda á, þ.e. að þessi mörk séu alls ekki skýr á milli vísindatilgangs og þjónustutilgangs. Það kom reyndar fram að prufur hjá Krabbameinsfélaginu sem hafa verið teknar sem sýni og eru ætlaðar til þess að þjónusta viðkomandi sjúkling eru jafnframt notaðar í vísindalegum tilgangi og þess vegna er ákveðin undantekning sett inn í frumvarpið. Það finnst mér einmitt sanna það sem ég er að tala um að það getur verið mjög erfitt að aðgreina vísindasýni og þjónustusýni.

Frumvarpið kemur mjög nálægt því sem öll heilbrigðisþjónustan er í rauninni þjökuð af sem er þessi persónuvernd. Nú horfum við upp á það að með rafrænni sjúkraskrá er í rauninni búið að sameina allt heila kerfið undir einum hatti, á einum stað. Við erum allt í einu komin með, herra forseti, gagnagrunn eins og að var stefnt í kringum Íslenska erfðagreiningu. En það gerist með því að sameina allt undir opinbera aðila. Nú segja sumir að mikill munur sé á því hvort einkafyrirtæki eigi slíkan grunn eða opinberir aðilar. En sagan segir manni að opinberir aðilar séu síst hættuminni en einkaaðilar og jafnvel hættulegri, það eru þá ekki opinberir aðilar til að tékka þá af og hindra þá í því sem þeir eru að gera með þennan grunn ef eitthvað illt er á bak við það.

Það var líka nokkuð mikið rætt að menn geti sett stopp á notkun á lífsýnum sínum, að vissir aðilar megi ekki komast í þau o.s.frv. Þetta getur maður á vissan hátt skilið. Ef sjúklingurinn á t.d. einhvern nákominn sem er í vísindum eða sem veitir heilbrigðisþjónustu vill hann kannski ekki að sá nákomni ættingi fái að vita um sögu hans eða lífsýni og geti rakið úr því í síauknum mæli alls konar sjúkdóma og annað sem viðkomandi er haldinn. Þetta geta verið fyrrverandi makar og aðrir slíkir sem menn vilja kannski ekki að komist í þessi lífsýni. Nýleg dæmi um hnýsni af þessu tagi ættu að vara menn við og minna þá á að vera varkárir á þessu sviði.

Ég er í sjálfu sér hlynntur frumvarpinu. Ég held að það skýri vel þann mun sem er á þjónustulífsýnum og vísindalífsýnum og það er til bóta. Menn skulu hins vegar ekki láta sig dreyma um að hér sé einhver endanleg lausn á þessum vanda vegna þess að lífsýni getur breyst úr því að vera þjónustulífsýni yfir í að vera vísindalífsýni og öfugt, eins og ég hef getið um.

Ég legg til að menn skoði lögin um persónuvernd að ýmsu leyti. Í fyrsta lagi að það verði auðveldara að gera ýmsar kannanir sem í dag eru nánast útilokaðar vegna þess að Persónuvernd heldur stíft á málum. Að mínu mati heldur hún allt of stíft á málum og er allt of smásmuguleg eða bannar of margt sem manni finnst ekki ástæða til að banna. Mér finnst hins vegar að það þurfi að vera — út af þessu siðferðislega vandamáli sem ég gat um áðan — leið til baka. Þegar búið er að gera sýnið persónulega ógreinanlegt, þ.e. þegar búið er að dulkóða það, þarf að vera leið til baka og það er alveg hægt. Þessi dulkóðun er náttúrlega alltaf til staðar. Ef kennitalan er dulkóðuð á einhvern hátt þá getum við yfirleitt afkóðað hana. Persónuvernd þyrfti að koma sér upp kerfi sem gerði það að verkum að hægt væri að fara til baka. Í vísindarannsóknum sem gerðar yrðu löngu seinna gæti það t.d. komið upp að ákveðið lyf sé hreinlega hættulegt og þá þarf að finna það út hvaða einstaklingar tóku það lyf. Eins gæti það komið í ljós, eftir að við hefðum aflað okkur einhverrar þekkingar sem við höfum ekki í dag, að ákveðin erfðasamsetning geti verið hættuleg og þá getur sömuleiðis þurft að fara til baka og finna þá einstaklinga sem eru í hættu.

Mér finnst það siðferðisleg skylda Persónuverndar að hafa þessa lykla sína þannig að þeir séu rekjanlegir til baka svo að vísindamaðurinn sitji ekki uppi með þá vitneskju að einhvers staðar sé einstaklingur sem er í hættu en hann geti í rauninni ekkert gert. Það finnst mér mest um vert. Þegar maður horfir á þetta þannig þá eru öll þessi sýni persónugreinanleg eða ættu að vera það. Sum með miklum vandkvæðum eða mikilli bremsu eins og vísindasýnin og svo þjónustusýnin sem eru undir kennitölu viðkomandi.

Þegar viðkomandi sjúklingur fellur frá þá er það spurning hvað gerist með lífsýnin. Ég hef ekki fengið svar við þeirri spurningu enda gekk ég ekki fast eftir svari. Það er hugmynd sem ég hef fengið síðar hvað varðar lífsýnin, hvað gerist með þau. Formaður nefndarinnar getur kannski svarað því hvað gerist með þjónustusýni sem tilheyra sjúklingi sem er látinn, hvort það á þá að eyða þeim sjálfvirkt eða hvernig er staðið að því, hvort menn fylgist með því hvort sjúklingur sé látinn og séu þá vakandi yfir því að eyða sýnunum. Ég veit að til eru reglur um það að vissum sýnum eigi að eyða eftir ákveðinn tíma, ég þekki það reyndar ekki í sambandi við blóðgjafir og annað slíkt, en það væri ágætt að fá upplýsingar um það.

Þó að það komi þessu máli kannski ekki endilega við þá hef ég margoft gagnrýnt að haldin sé skrá yfir fóstureyðingar. Ég hef aldrei skilið af hverju sú skrá er geymd og meira að segja undir kennitölu. Hún getur ekki haft læknisfræðilegt gildi í sjálfu sér en í henni felast afskaplega viðkvæmar persónuupplýsingar sem mér finnst að ríkisvaldið eigi ekki að geyma. Þetta er að mínu mati atriði sem kemur viðkomandi einstaklingi einum við og hefur ekkert að gera með læknisfræði eða slíkt enda vitum við að fóstureyðing er ekki læknisverk.



[20:01]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni láðist mér að fara yfir eitt atriði sem ég tel nauðsynlegt að komi fram, það varðar álit vísindasiðanefndar á frumvarpinu. Í nefndaráliti hv. heilbrigðisnefndar er sérstaklega vakin athygli á því að við umfjöllun málsins lýsti vísindasiðanefnd þeirri skoðun sinni að sérstök ástæða væri til að þjónustusýni væru varðveitt án persónuauðkenna en ein helsta breyting frumvarpsins er sú að heimila varðveislu þjónustulífsýna með persónuauðkennum. Eins og kemur fram í nefndarálitinu togast þarna á tvenns konar sjónarmið. Annars vegar krafan um leynd persónuupplýsinga og hins vegar um áreiðanleika upplýsinga.

Í umsögn vísindasiðanefndar er sérstaklega vakin athygli á 1. mgr. 8. gr. þeirra laga sem við nú störfum eftir um lífsýnasöfn og varðar varðveislu lífsýna. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Lífsýni skulu tryggilega geymd og merkt, en varðveitt án persónuauðkenna. Tengsl lífsýna við persónuauðkenni skulu vera í samræmi við staðla sem Persónuvernd ákveður.“

Vísindasiðanefnd heldur áfram í röksemdafærslu sinni og telur að það séu augljós rök sem liggi til grundvallar þeirri meginreglu að lífsýni í lífsýnasöfnum skuli varðveitt án persónuauðkenna. Hún leggur sem sagt áherslu á að lífsýni jafnvel þau sem eru þjónustusýni verði varðveitt án persónuauðkenna þar sem þau feli í sér viðkvæmar upplýsingar um heilsu viðkomandi sem er mikilvægt að vernda vegna hagsmuna lífsýnagjafans og fjölskyldu hans. Hún segir áfram í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Sérstök ástæða er til að varðveita þjónustusýni án persónuauðkenna, enda eru og verða þau varðveitt í lífsýnasafni þjónustusýna á ætluðu samþykki, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga 110/2000. Til grundvallar varðveislu vísindasýna liggur hins vegar upplýst samþykki. Vísindasiðanefnd telur mikilvægt að halda þeirri meginreglu óbreyttri að lífsýni í lífsýnasöfnum séu varðveitt án persónuauðkenna. Ef geyma á þjónustusýni lengur en fimm ár og flytja þau í lífsýnasafn þjónustusýna þarf að mati vísindasiðanefndar að afmá persónuauðkenni sýnanna séu þau fyrir hendi. Ef nauðsyn krefur í vissum tilvikum og við sérstakar aðstæður að vista þurfi sýni með persónuauðkennum þá er rétt að mati nefndarinnar að setja þau skilyrði í lög, að leyfi vísindasiðanefndar þurfi til að koma.“

Þarna koma fram þau sjónarmið sem bent er á í nefndarálitinu, að þessi tvö sjónarmið rekast á. Annars vegar krafan um leynd persónuupplýsinga og hins vegar um áreiðanleika upplýsinga. En eins og kemur fram í frumvarpinu er það meginreglan að þjónustulífsýni verði hér eftir varðveitt með persónuauðkenni.

Hitt atriðið sem rétt er að benda á varðar eftirlit með starfsemi lífsýnasafna vísindasýna en gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að það verði hjá vísindasiðanefnd, en eftirlitið með starfsemi lífsýnasafna þjónustusýna verði hjá embætti landlæknis, þ.e. að eftirlit með vísindasýnum verði hjá vísindasiðanefnd en þjónustusýnum hjá landlækni.

Það kemur fram það sjónarmið að vísindasiðanefnd telji heppilegra að eftirlit með lífsýnasöfnum sé á einni hendi og að það fyrirkomulag sé kostnaðarminna og öruggara og nefndin leggur til að eftirlitið verði hjá landlækni. Þarna er verið að færa ákveðin verkefni yfir til vísindasiðanefndar sem hún hefur ekki haft á hendi áður og leggur hún áherslu á að setja þurfi nánari reglur um framkvæmdina.

Í nefndaráliti hv. heilbrigðisnefndar er tekið undir þessi sjónarmið að það þurfi að setja skýrari verklagsreglur um eftirlitið. Það má að sumu leyti taka undir þessi sjónarmið að það er örugglega heppilegra og öruggara að þetta hvort tveggja sé á einni hendi en þau sjónarmið urðu samt sem áður ofan á að fara þá leið sem frumvarpið leggur til, þ.e. að setja þetta í hendur tveggja aðila.

Þetta voru þau atriði sem ég vildi bæta við fyrri ræðu mína. Almennt má segja um þetta frumvarp að vissulega er það tæknilegs eðlis en að öðru leyti snertir það mjög mikilvæga þætti sem varða persónuvernd einstaklinga. Við stöndum frammi fyrir því að það er hægt með ýmsum hætti að afla sér upplýsinga um einstaklinga með aðgangi að t.d. niðurstöðum úr rannsóknum sem gerðar eru til að rannsaka heilbrigði fólks eða veikindi og aldrei er of varlega farið í að standa vörð um slíkar upplýsingar. Hins vegar er það svo að upplýsingakerfi á heilbrigðisstofnunum eru með þeim hætti í dag, sem betur fer, að hægt er í ríkari mæli en áður að halda utan um aðgengi að slíkum upplýsingum. Við höfum m.a. rætt það af öðru tilefni, þ.e. varðandi rafræna sjúkraskrá sem er frumvarp sem liggur fyrir Alþingi og hefur verið afgreitt úr hv. heilbrigðisnefnd. Þar kemur m.a. fram að sett verði þau skilyrði að aðgangur að sjúkraskrá sé skráður með þeim hætti að alltaf megi rekja það hverjir hafi skoðað upplýsingar sem eru í sjúkraskrá tiltekins sjúklings. Með þessu móti er hægt að veita ákveðið aðhald á sjúkrastofnunum varðandi persónuvernd, miklu betra aðhald en áður hefur tíðkast þar sem það var yfirleitt þannig að sjúkraskrár lágu inni á deildum sjúkrahúsanna og aðgangur að þeim var í sjálfu sér ekki takmarkaður nema af reglum. Eftirlitið hefur verið með þeim hætti að vakthafandi einstaklingur hefur haft það verkefni með höndum að passa það að enginn óviðkomandi fari í þau gögn. Með nýrri tækni og aukinni þróun á þessu sviði hefur verið hægt að taka þau skref að vernda upplýsingar um einstaklinga innan heilbrigðiskerfisins í ríkari mæli en hingað til hefur verið hægt.

Eitt atriði vildi ég draga fram en það segir í umsögn um frumvarpið um breytingu á lögum um lífsýnasöfn að ekki sé gert ráð fyrir að frumvarpið leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum. Það kom m.a. fram hjá umsagnaraðilum að erfitt væri að sjá að það leiði ekki til ákveðins kostnaðarauka. En við þær aðstæður sem við búum í dag verður auðvitað að gera ráð fyrir því að sjúkrastofnanir leiti leiða til að draga úr kostnaði m.a. vegna lífsýnasafna og setji framkvæmdina í þann farveg sem er praktískastur á hverjum tíma og nái þeim tilgangi sem lögin gera ráð fyrir en greiði jafnframt aðgang að upplýsingum sem heilbrigðisstarfsmenn þurfa nauðsynlega aðgang að á hverjum tíma til að veita sjúklingum sem eru í þeirra umsjá viðeigandi heilbrigðisþjónustu.



[20:11]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 110/2000, um lífsýnasöfn, með síðari breytingum.

Það er skemmst frá því að segja að þetta er mál sem ætti að geta verið góð sátt um. Þetta er mál sem varðar mikilvæga þætti í heilbrigðisþjónustunni. Ég held að óhætt sé að segja að þetta sé tæknilegt mál en samt sem áður er það þess eðlis að upp koma margar áleitnar spurningar og oft tengist þetta siðferðislegum spurningum. Ég tel hins vegar að þetta sé gott dæmi um mál sem hefur fengið afskaplega góðan undirbúning og góða umfjöllun. Ég talaði sem heilbrigðisráðherra fyrir þessu máli á síðasta ári, á haustþinginu, en málið hafði þá lengi verið í undirbúningi undir forustu Guðríðar Þorsteinsdóttur frá heilbrigðisráðuneytinu, ef ég man það rétt.

Þetta er ekki mál sem kostar beina fjármuni því það er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum. Það gengur í rauninni út á það að lagt er til að varsla, nýting og meðferð lífsýnasafna byggist á skýrri aðgreiningu lífsýna. Það fer eftir því hvort þeirra er aflað í vísindalegum tilgangi eða vegna þjónustu við sjúklinga. Skilin þarna á milli hafa ekki verið skýr í gildandi lögum sem valdið hefur erfiðleikum við framkvæmd. Helstu breytinganna er getið í almennum athugasemdum frumvarpsins, m.a. að heimilt verði að varðveita þjónustulífsýni með persónuauðkennum. Þarna er í rauninni komið að kjarna máls sem er að þegar er komið að því að vinna með sýni, sem er mjög nauðsynlegt ef menn ætla að ná framgangi í heilbrigðisþjónustu, þá verða að vera skýrar og einfaldar verklagsreglur fyrir heilbrigðisstarfsfólk og þá sem nýta þau í vísindalegum tilgangi. Það verða að vera alveg skýrar verklagsreglur því hvort tveggja er nauðsynlegt.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að það er afskaplega nauðsynlegt að það séu skýrar og einfaldar reglur þegar kemur að því að taka lífsýni. Það er eitthvað sem við verðum öll vör við þegar við förum til læknis eða förum í skoðun hjá heilbrigðisstofnunum að oftar en ekki er tekið lífsýni. Við Íslendingar og aðrir erum komin á það stig í þróuninni að það er hægt að misnota slík lífsýni og það er hægt að gera ýmislegt við lífsýni sem við kærum okkur kannski ekkert um. Það er að minnsta kosti afskaplega mikilvægt að persónulegar upplýsingar um okkur, og þær verða ekki mikið persónulegri en lífsýnin, liggi ekki á glámbekk eða séu notaðar í einhverjum annarlegum tilgangi. Þess vegna er mjög mikilvægt eins og ég nefndi að verklagsreglurnar séu skýrar og það sé alveg ljóst að ef nota á upplýsingarnar í vísindalegum tilgangi hvernig megi nota þær og eftir hvaða reglum beri að fara. Einnig að vel sé aðgreint hvenær er um þjónustu við sjúklinga að ræða og hvenær er um vísindastarf að ræða. Þar erum við með sérnefnd eða stofnun, má í rauninni segja, þar sem nefndir eins og vísindasiðanefnd — sem er miklu meira en að einungis sé um það að ræða að nokkrir einstaklingar séu í nefnd með ritara, þetta er orðnar stofnanir — þær fjalla sérstaklega um þennan þátt mála, þ.e. ef viðkomandi einstaklingur eða stofnun hefur áhuga á því að gera vísindarannsóknir þá þarf alla jafnan að sækja, í það minnsta á heilbrigðissviðinu, til vísindasiðanefndar sem tekur þá bæði afstöðu til erindisins og setur sömuleiðis reglur um það hvernig að rannsókninni skuli standa. Það telja menn mjög mikilvægt af augljósum ástæðum og þarf ekki að tilgreina helstu rök fyrir því. Það er eðli málsins samkvæmt til að ekki verði um neina misnotkun að ræða því við erum komin svo langt í þróuninni að ýmsar upplýsingar eru þess eðlis að það er hægt að nota þær í fjárhagslegum tilgangi og jafnvel hægt að nota þær þannig að það geti komið viðkomandi einstaklingi sem veitir lífsýnið illa.

Til þess er farið í þessa vinnu, þess vegna var vísindasiðanefnd sett á laggirnar með öllu því sem henni tilheyrir. Við erum sömuleiðis vonandi að samþykkja frumvarp sem lög sem munu einfalda þessa vinnu fyrir alla aðila þannig að þeir viti að hvaða verklagsreglum þeir ganga og að aðgreiningin verði skýr.

Það er skemmst frá því að segja að almennt voru umsagnir um þetta frumvarp jákvæðar. Það má kannski segja að þó að þetta sé tæknilegt mál og margar athugasemdir hafi komið fram þá held ég að mest áberandi hafi verið að menn höfðu ákveðnar áhyggjur af því að þetta væri samt sem áður ekki nógu skilvirkt. Það var álitið að þarna mætti jafnvel ganga enn lengra þegar kemur að þeim þáttum en þó held ég að það sé óhætt að segja að það voru ekki miklar deilur á milli umsagnaraðila. Það er svolítið sérstakt að vera í þeirri stöðu að flytja málið fyrst sem ráðherra og fylgja því síðan eftir í heilbrigðisnefnd. Það er reyndar ágætishlutverk og ágætt að fá að vinna með þetta alla leið en ég held að óhætt sé að segja að við höfum fyrst og fremst fengið mjög jákvæð viðbrögð við frumvarpinu og flestar umsagnirnar sem nefndin fékk voru mjög jákvæðar sem er afar ánægjulegt. Síðan er sá vinkill sem var þó nokkuð áberandi líka í umsögnum og í umræðu nefndarinnar, þ.e. hvernig best sé að standa að því að fólk geti hafnað því að lífsýni þess séu notuð til rannsókna. Um það segir eftirfarandi í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Nefndin ræddi ábendingu sem fram kom um að í sumum tilvikum væri eðlilegra við framkvæmd þjónusturannsóknar að lífsýnagjafi væri spurður beint hvort hann óskaði eftir að takmarka viðbótarnotkun lífsýnis í stað þess að hann þyrfti að tilkynna þessa ósk sína til landlæknis. Þetta gæti til að mynda átt við þegar sýni væru send til rannsókna erlendis en þá getur verið tafsamt að kanna hvort takmarkanir lífsýnagjafa komi fram í skrá landlæknisembættisins. Nefndin telur með hliðsjón af 9. gr. laganna um notkun lífsýna að umrædd athugasemd gefi ekki tilefni til breytinga en leggur til að fyrirkomulag við sendingu sýna til útlanda verði nánar útlistað í reglugerð.

Með hliðsjón af framansögðu áréttar nefndin einnig mikilvægi þess að lífsýnagjafar séu upplýstir um ætlað samþykki sitt og jafnframt að við gerð eyðublaða sem landlæknir annast skv. 4. mgr. 7. gr. laganna verði þeim gert kleift að binda bann við viðbótarnotkun við tilgreindar rannsóknir í stað þess að það taki undantekningarlaust til allra lífsýna.“

Og áfram segir, með leyfi forseta:

„Nefndin vekur athygli á að við umfjöllun málsins lýsti vísindasiðanefnd þeirri skoðun sinni að sérstök ástæða væri til að þjónustusýni væru varðveitt án persónuauðkenna en eins og áður segir er ein helsta breyting frumvarpsins sú að heimila varðveislu þjónustulífsýna með persónuauðkennum. Togast hér á tvenns konar sjónarmið, annars vegar krafan um leynd persónuupplýsinga og hins vegar um áreiðanleika upplýsinga.“

Þetta er það sem við þurfum að fjalla um og skoða vel þegar kemur að máli eins og þessu. Það er afskaplega mikilvægt að hér sé umhverfi sem gerir okkur kleift að stunda rannsóknir, virðulegi forseti, en rannsóknir eru oft og tíðum vanmetnar af ýmsum ástæðum. Ef við ætlum að ná framþróun hvort sem það er á heilbrigðissviði eða annars staðar þá verðum við að geta rannsakað og nú getur einhver sagt: Er það ekki alveg sjálfsagt? En það er ekki sjálfsagt því það er hægt að búa til bæði reglugerðarumhverfi og annað umhverfi sem er þess eðlis að það getur verið mjög snúið. Við Íslendingar eigum mikla möguleika þegar kemur að rannsóknum og það eru nokkrar ástæður fyrir því.

Í fyrsta lagi eigum við vel menntað fólk sem er mjög vel að sér í þessum efnum og hefur náð árangri á heimsmælikvarða og það á sérstaklega við á heilbrigðissviðinu, um rannsakendur á heilbrigðissviðinu. Menn vita kannski almennt ekki að ein helsta vísindastofnun landsins er Landspítalinn – háskólasjúkrahús. Ef við skoðum hlutfall tímaritsgreina, vísindagreina sem birtast í vísindatímaritum sem er einn mælikvarðinn, þá held ég að ég fari rétt með það, virðulegi forseti, að 40% af öllum vísindagreinum sem birtast í erlendum fræðiritum koma með einum eða öðrum hætti frá Landspítalanum, 40% og það er ekki lítið. Við erum líka í einstakri aðstöðu til að stunda rannsóknir, ekki bara út af því að við eigum þetta góða fólk, við eigum sömuleiðis heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða og svo hjálpar smæðin og fámennið okkur líka alveg gríðarlega hvað þetta varðar. Við eigum möguleika á að ná til miklu fleiri aðila með miklu einfaldari hætti en í öðrum samfélögum ef við sköpum umhverfi sem skerðir það ekki. Með öðrum orðum: Ísland er að mörgu leyti kjörland fyrir vísindarannsóknir og í því felast gríðarleg tækifæri.

Það er líka afskaplega mikilvægt fyrir okkur að vita hvort við erum að ná árangri með þeim rannsóknum og mælingum sem eru stundaðar. Það er auðvitað slæmt að vera í þeirri stöðu að setja fjármuni í einhverja hluti, virðulegi forseti, eða fara út í einhverjar aðgerðir og geta ekki verið viss um að þær skili þeim árangri sem ætlað er. Þetta hangir allt saman og þess vegna er mjög mikilvægt að klára þetta mál og gera það að lögum. Ef við ætlum að vera í fremstu röð, og við eigum alla möguleika til þess, ef við ætlum að nýta þau tækifæri sem Ísland hefur upp á að bjóða hvað varðar rannsóknir og þróun þá verður allt umhverfið að vera í lagi. Við verðum að hafa gott fyrirkomulag hvað þessa hluti varðar. Við verðum að vera með öflugar menntastofnanir og veita þeim aðilum sem þar starfa og nema tækifæri til rannsókna og við þurfum að hafa umgjörð laga og reglugerðir þannig úr garði gerðar að það sé eins einfalt og mögulegt er fyrir þá sem stunda rannsóknir. Samt sem áður höfum við ekki áhuga á því að skerða persónufrelsi manna eða í þessu tilfelli að hægt sé að misnota lífsýnaupplýsingar fólks en það eru mjög persónulegar upplýsingar. Þetta er það verkefni sem við vorum með þegar nefndin fjallaði um frumvarpið. Þetta er það verkefni sem nefndin sem skrifaði frumvarpið var með. Ég tel að sú umfjöllun sem málið hefur fengið sé þess eðlis að hæpið sé að einhver sjónarmið hafi ekki komið fram í meðförum nefndarinnar, hvorki í meðförum nefndarinnar sem undirbjó frumvarpið og skrifaði það né í meðförum hv. heilbrigðisnefndar.

Ég held að við höfum unnið þetta vel og það sést kannski á niðurstöðu nefndarinnar að það er aðeins lögð til ein breyting á öllu málinu. Það segir okkur að hér hafi menn náð góðri sátt án þess að kasta til höndunum við vinnuna. Ég veit að það var afar hæft fólk sem samdi þetta frumvarp — þó svo að hæft fólk geti alveg skrifað frumvarp sem nefndir breyta mikið og þá er ég að vísa í nefndir þingsins — og ég vonast til þess að í þessu tilfelli sé það alveg rétt ákvörðun hjá hv. heilbrigðisnefnd að gera þessa einu breytingu, þ.e. að taka orðin „að jafnaði“ í 1. efnismálslið 5. gr. brott en það eru ekki fleiri breytingartillögur með nefndarálitinu. (Gripið fram í: Ertu ekki jafnaðarmaður?) Virðulegi forseti. Ég heyrði ekki hvað hv. þingmaður var að segja en ég er nokkuð viss um að hefði ég heyrt það væri ég ósammála því.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er sérstakur áhugamaður um lífsýnasöfn og ég veit að hann mun örugglega halda góða ræðu á eftir þar sem hann fer yfir afstöðu sína til málsins enda hefur hann oftar en ekki farið yfir þessi mál í þingsölum.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mjög mikilvægt mál. Það snýst um að við séum með skýra aðgreiningu á lífsýnum, hvort þeirra er aflað í vísindalegum tilgangi eða vegna þjónustu við sjúklinga. Oft og tíðum fer þetta saman, þ.e. að lífsýni eru tekin í þeim tilgangi að veita sjúklingum þjónustu en eru síðan notað áfram í vísindalegum tilgangi. Það skiptir miklu máli að það sé skýrt aðgreint annars vegar hvenær það snýr að þjónustu við sjúklinga og hins vegar hvenær það er í vísindalegum tilgangi. Í langflestum tilfellum er þetta tiltölulega einfalt. Það getur verið flóknara í sumum tilfellum og það er farið sérstaklega yfir það í nefndaráliti. Ég ætla ekki að fara yfir nefndarálitið ég veit að það var farið vel yfir það í heilbrigðisnefndinni. Ég held að menn hafi fundið jafngóða fleti á því og mögulegt er en það er einmitt markmiðið með frumvarpinu að hafa þennan skýra mun. Og hví skyldu menn vilja hafa þennan skýra mun? Jú, vegna þess að það er verið að hugsa um persónulegan rétt fólks, að það sé ekki gengið á hann, að það sé ekki hægt að misnota lífsýni fólks. Síðan er það hitt, virðulegi forseti, að sjá til þess að hér sé auðvelt að rannsaka og að hér sé umhverfi sem gerir því góða fólki sem starfar við heilbrigðisþjónustu og rannsóknir og þróun hér á landi kleift að stunda vinnu sína og rannsóknir.

Eins og ég nefndi áðan tel ég að við höfum ekki lagt nógu mikla áherslu á að við getum gert jafnvel enn betur í dag en við höfum gert og þarna eru gríðarleg sóknarfæri. Íslendingar eru í samstarfi við ýmsa aðila, bæði heilbrigðisstofnanir eða menntastofnanir á þessu sviði og við eigum að stefna að því að styrkja slíkt samstarf. Í því felast gríðarleg tækifæri sem okkur ber skylda til að nýta og ég er sannfærður um að það er góð sátt um það meðal okkar þingmanna og þjóðarinnar allrar að gera það. Við þurfum að ganga þannig fram að við séum með umhverfi sem allra best sátt er um og ég tel að þetta mál sem ég mælti fyrir sem ráðherra á sínum tíma sé þess eðlis. Ég þakka hv. heilbrigðisnefnd fyrir gott starf hvað þetta varðar.