136. löggjafarþing — 113. fundur
 25. mars 2009.
vinnuhópur um eftirlitshlutverk þingsins o.fl..

[13:54]
Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og þingheimi er kunnugt skipaði forsætisnefnd á síðasta ári sérstakan vinnuhóp til að fara yfir ákvæði er varða eftirlitshlutverk þingsins, þar á meðal og sérstaklega ráðherraábyrgð. Skipuð var nefnd undir forustu Bryndísar Hlöðversdóttur, aðstoðarrektors á Bifröst, en með henni í nefndinni eru Andri Árnason hæstaréttarlögmaður og Ragnhildur Helgadóttir prófessor. Þetta ágæta fólk hefur unnið hörðum höndum að því að stilla upp tillögum og skýrslu sem forsætisnefnd og þinginu hefði verið fært og í framhaldinu var gert ráð fyrir að vinna að breytingum á lögum.

Nú bárust fréttir um það í gær að forsætisráðherra hafi skrifað forseta Alþingis og gert kröfu um að þessi nefnd tæki til meðferðar mál sem henni var falið í fyrra með bréfi forsætisnefndar. Framkvæmdarvaldið er með öðrum orðum að hlutast til um verkefni sem unnið er af miklum heilindum og fullri alvöru á vettvangi forsætisnefndar.

Þess vegna spyr ég: Hvað er hér á ferðinni? Er þess að vænta að á vegum ríkisstjórnarinnar komi fram annað frumvarp um breytingar á stjórnarskránni? Er þess að vænta að við fáum tillögur sem ríkisstjórnin hefur unnið og undirbúið við hlið þeirrar nefndar sem vinnur núna á vettvangi Alþingis?



[13:56]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Mér finnst þetta, virðulegi forseti, óþarfaviðkvæmni hjá hv. þingmanni og fyrrverandi forseta Alþingis. Málið liggur einfaldlega þannig að í verkáætlun ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að endurskoða skuli lög um ráðherraábyrgð. Eins og hv. þingmaður nefndi, er starfandi nefnd sem er að fara yfir eftirlitshlutverk þingsins, það er alveg rétt. Við vissum af henni og töldum rétt, í stað þess að skipa sérstakan vinnuhóp í það að endurskoða lög um ráðherraábyrgð og landsdóm, að óska eftir því að þessari nefnd yrði sérstaklega falið að skoða lög um ráðherraábyrgð og landsdóm í þeirri vinnu sem hún er í og hafa hliðsjón af hliðstæðum lögum í nágrannalöndunum. Hér voru ekki settar fram neinar kröfur af hálfu forsætisráðuneytisins, heldur einungis ósk um að nefndin mundi sérstaklega skoða lögin um ráðherraábyrgð sem ég veit ekki hvort var sérstaklega getið um, held þó ekki, í því bréfi sem þessir sérfræðingar fengu frá forsætisnefnd, að því er varðar vinnu nefndarinnar.

Ég taldi bara eðlileg vinnubrögð að nefndin sem væri að skoða þetta væri með þetta verkefni, lögin um ráðherraábyrgð, sem er á verkáætlun ríkisstjórnarinnar í stað þess að setja nýja nefnd í málin. Ég tel það bara eðlileg vinnubrögð og skil ekki í þessari viðkvæmni hv. þingmanns í þessu efni.



[13:57]
Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Það kann að vera að það sé á verkáætlun ríkisstjórnarinnar að breyta stjórnarskránni en til þess þarf ýmislegt að gerast. Til að upplýsa hæstv. forsætisráðherra get ég vitnað hér í ágæta blaðagrein sem formaður vinnuhópsins skrifaði 4. mars í Fréttablaðið þar sem segir, með leyfi forseta:

„Vinnuhópnum er meðal annars ætlað að skoða ákvæði stjórnarskrárinnar sem lúta að eftirlitshlutverki þingsins, ákvæði þingskapa, lög um ráðherraábyrgð og landsdóm …“

Það fer ekkert á milli mála að forsætisnefndin fól nefndinni að skoða þá hluti sem ríkisstjórnin kemur nú fram með og ætlast til að hún taki fram fyrir hendurnar á forseta Alþingis og forsætisnefnd. Hvað er eiginlega að gerast hér?



[13:58]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki enn þá af hverju hv. þingmaður ber málið svona fram. Það er ekkert sem meinar ríkisstjórn að láta endurskoða lög, hvort sem það eru lög um ráðherraábyrgð (Gripið fram í.) eða eitthvað annað. Framkvæmdarvaldið undirbýr líka frumvörp sem eru lögð fyrir Alþingi, eins og hv. þingmaður veit. Ég skil ekki af hverju hv. þingmanni finnst sérkennilegt verklag að við vísum þessu máli til þessarar nefndar (Gripið fram í.) frekar en að setja nýja nefnd sérstaklega í þetta mál. Ég get upplýst hv. þingmann um það að áður en við sendum þetta bréf töluðum við við formann nefndarinnar um þetta mál vegna þess að við ætluðum að setja sérstaka nefnd í málið. Niðurstaðan varð sú að þau vinnubrögð væru miklu eðlilegri að ríkisstjórnin afgreiddi þetta mál, sem er í verkáætlun, frá sér með þessum hætti og þá kæmi líka fram (Forseti hringir.) hvaða áherslur hún hefði í málinu og (Forseti hringir.) m.a. væri höfð hliðsjón af sambærilegum lagaákvæðum annars staðar á Norðurlöndunum.