136. löggjafarþing — 116. fundur
 26. mars 2009.
árlegur vestnorrænn dagur, fyrri umræða.
þáltill. KVM o.fl., 221. mál. — Þskj. 299.

og 

samráðsfundur sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda, fyrri umræða.
þáltill. KVM o.fl., 222. mál. — Þskj. 300.

og 

samráð Vestur-Norðurlanda um sjálfbæra nýtingu lifandi náttúruauðlinda, fyrri umræða.
þáltill. KVM o.fl., 223. mál. — Þskj. 301.

og 

samkomulag milli Íslands og Grænlands um skipti á útsendum fulltrúum, fyrri umræða.
þáltill. KVM o.fl., 224. mál. — Þskj. 302.

[02:01]
Flm. (Karl V. Matthíasson) (Fl):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna því að þessar tillögur til þingsályktunar eru komnar til umfjöllunar í þinginu. Þær eru í raun og veru afurð ársfundar Vestnorræna ráðsins sem haldinn var í Grundarfirði í sumar. Ársfundur vestnorræna ráðsins er þannig uppbyggður að sex þingmenn frá Færeyjum, sex frá Grænlandi og sex frá Íslandi koma saman til að fjalla um sameiginleg mál þessara landa, Vestur-Norðurlandanna, Íslands, Grænlands og Færeyja. Á hverjum ársfundi er venjan að koma með tillögur, þingsályktanir, sem síðan eru bornar upp í hverju þinganna í Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Nú þegar er búið að samþykkja þessar tillögur í þjóðþingum Grænlands og Færeyja og nú eru þær bornar hér upp. Flutningsmenn eru sá sem hér stendur, Árni Johnsen, Guðbjartur Hannesson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Gunnarsson og Birkir J. Jónsson, en þessir alþingismenn eru í Vestnorræna ráðinu, Íslandsdeild vestnorræna ráðsins. Einnig er flutningsmaður hv. þm. Jón Bjarnason frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og flutningsmenn eru því úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi Íslendinga.

Fyrsta tillagan fjallar um það að landsstjórnir Færeyja, Grænlands og Íslands haldi vestnorrænan dag. Áskorun Vestnorræna ráðsins til landsstjórnanna þriggja var að þær stofnuðu til vestnorræns dags einu sinni á ári sem gæti verið útfært þannig að eitt árið yrði hann haldinn hátíðlegur á Íslandi og þá mundi sá dagur vera notaður til að minna á mikilvægi okkar góða samstarfs við Grænland og Færeyjar. Fá mætti alls konar listamenn til að vera með menningarviðburði frá þessum löndum, flytja mætti erindi um margvísleg efni og margt fleira mæti kynna á samkomum sem miða að því að tengja löndin betur saman og vekja athygli á þeim, menningu, sögu o.s.frv. en ekki síst til að auka vinarþel og vináttu á milli þessara landa. Lagt er til að þessi dagur sé haldinn í ágúst á hverju ári, til skiptis á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum.

Annað mál sem samþykkt var á fundi Vestnorræna ráðsins í Grundarfirði 27. ágúst sl. var um aukið samráð á sviði sjálfbærrar nýtingar lifandi náttúruauðlinda, þar með talið fugla- og fiskstofna, auk spendýra. Það lýtur að því að þessi þrjú lönd tali betur saman um það hvernig þau eigi að standa saman að því að nýta náttúruauðlindir sínar á sjálfbæran hátt, veiðar og eldi og hvers konar samstarf. Það er ánægjulegt hve mörg verkefni hafa verið unnin á sviði loftslagsrannsókna á Vestur-Norðurlöndum hin síðari ár. Vestnorræna ráðið hvetur stjórnvöld til að tryggja að fyrir hendi séu áætlanir á milli landanna sem ætlaðar eru til að upplýsingar berist vel á milli og áhugi fyrir samstarfi skapist.

Hagkerfi Vestur-Norðurlanda byggist að miklu leyti á nýtingu náttúruauðlinda. Vestur-Norðurlönd eiga því sameiginlegra hagsmuna að gæta þegar kemur að því að tryggja sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda þjóðanna. Þess vegna er þessi tillaga m.a. komin fram og líka til að koma í veg fyrir misskilning og rangtúlkanir annarra ríkja á því hvernig við göngum um náttúruna.

Mig langar að nefna eitt dæmi. Grænlendingar veiða sel sér til matar, þeir borða bæði kjöt og spik og svo hafa þeir notað skinnið, feldinn, ef svo má að orði komast, til að búa til ýmsar vörur og hafa selt þær. Nú heyrast raddir um að ekki eigi að leyfa sölu á varningi úr selskinni. Þær koma frá löndum sunnarlega í Evrópu þar sem fólk hefur kannski ekki næga þekkingu á þessu og heldur að um ofveiði á sel sé að ræða og það koma jafnvel einhver tilfinningaleg rök inn í málið. Þetta á líka við um hvalveiðar.

Ég ætla ekki að fjalla frekar um þetta en tillagan hljóðar svo:

„Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um aukið samráð á sviði sjálfbærrar nýtingar lifandi náttúruauðlinda, þ.m.t. fugla- og fiskstofna, auk spendýra.“

Þá langar mig til að koma að þriðju tillögunni sem er um árlegan samráðsfund sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda, og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um árlegan samráðsfund sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda. Á samráðsfundunum yrði fjallað um sjávarútveg og veiðar í löndunum þremur og stefnu landanna í sjávarútvegsmálum gagnvart Evrópusambandinu.“

Nýlegar fréttir frá því í gærkvöldi benda einmitt til þess að ekki veiti af því að við höfum gott samráð og samstarf við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um nýtingu auðlinda í hafinu og það væri mjög gott ef við gætum mótað sameiginlega stefnu í þessum málum, herra forseti, og sýnt þannig samstöðu til að vekja skilning á okkar málum. Einnig getur það orðið til þess að samráð okkar og samskipti við önnur ríki eins og t.d. í Evrópusambandinu yrðu á betri nótum og við mundum hafa meira vægi í umræðunni um fiskstofnana, um flökkustofna, t.d. hvernig við eigum að afgreiða málið með makrílinn og hvað eigi að gera ef íslenskir fiskstofnar fara allt í einu að synda yfir í lögsögu annarra ríkja. Hafa þau ríki fullan rétt til þess að veiða upp þá stofna eða getum við gert einhverja kröfu?

Auðvitað þarf þetta að vinnast í samkomulagi og samráði á milli þjóðanna og því er mjög gott að Ísland, Grænland og Færeyjar komi sér saman um sín svæði og hafi ákveðna stefnu til að þau geti líka rætt við aðrar nágrannaþjóðir og við getum unnið málin í meira samkomulagi og förum ekki of geyst í það þó að einhver fiskstofn komi inn í okkar lögsögu og teljum ekki að við eigum hann bara ein o.s.frv. Við þurfum náttúrlega að haga okkur á siðaðan hátt í þessu sambandi. Þess vegna er þessi tillaga m.a. komin fram og er í raun og veru mjög lík annarri tillögu sem kom fram í fyrra og var samþykkt á hinu háa Alþingi. Það var tillaga um að Ísland, Grænland og Færeyjar mundu auka rannsóknasamstarf sitt. Var ánægjulegt hve Hafrannsóknastofnun Íslands tók vel undir þetta og það var einmitt í tengslum við það sem sumir kalla sjóræningjaveiðar á flökkustofnum. Aukið samráð, aukið samstarf og svona fundir geta einmitt orðið til þess að við förum að mæta hver annarri, þjóðirnar, með meiri skilningi en verið hefur.

Ég ætla ekki að fjalla meira um þessa tillögu, herra forseti, en að lokum er hér fjórða tillagan og hún tengist náttúrlega þessu samstarfi og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórn Grænlands um að löndin skiptist á útsendum sendifulltrúum. Færeyjar og Grænland eru jafnframt hvött til að skiptast á opinberum sendifulltrúum.“

Við vitum það, herra forseti, að komið hefur verið á fót hér á landi sendistofu, sendiráði, Færeyingar eru með sendiráð á Íslandi sem kallast sendistofa. Margt gott hefur gerst í framhaldi af stofnun þessarar sendistofu á milli landanna og það hefur aukið samskiptin. Það hefur verið mun þægilegra fyrir Færeyinga sem búa hér að hafa þessa sendistofu og einnig fyrir okkur Íslendinga vegna ýmissa viðskipta, vegna ferðalaga og margra annarra samskipta á milli þessara þjóða. Hér er verið að leggja það til að ríkisstjórnir landanna beiti sér fyrir því að við komum upp sams konar sendistofu af hálfu Grænlendinga, þ.e. að Grænlendingar hafi sams konar sendistofu og Færeyingar eru með hér. Við sjáum hve þetta yrði jákvætt, ekki síst í tengslum við aukna ferðamennsku, bæði til Íslands og til Grænlands og tengslanna á milli Íslands og Grænlands. Vekur það líka upp hugsanir um þá umræðu sem verið hefur um björgunarmál, sameiginleg björgunarmál þessara þjóða og viðbúnað vegna þess að aukin skipaumferð er á hafinu milli landanna vegna hlýnunar og betra sjólags. Því er mjög brýnt að samskiptin aukist og að menningartengslin verði sterkari. Við höfum líka fundið það, herra forseti, eftir að við fengum á okkur þennan mikla skell, eftir að kreppan skall á, hve þessar þjóðir hafa reynst okkur sannir vinir. Sannaðist það best með drenglyndi Færeyinga þegar þeir voru fyrstir þjóða til að lýsa yfir að þeir mundu rétta okkur hjálparhönd og er það vinarbragð sem seint verður þakkað en ávallt minnst hér á landi.

Herra forseti. Ég geri það svo að tillögu minni að þessum fjórum þingsályktunartillögum verði vísað til hv. utanríkismálanefndar.



[02:16]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég verð að segja að það sem þessi nefnd okkar undir forustu Karls V. Matthíassonar hefur gert er mjög jákvætt og lofar góðu til framtíðar litið. Aukið samstarf við þessar frændþjóðir okkar á án efa eftir að skila okkur á margan hátt mörgu góðu. Að halda vestnorrænan dag er auðvitað hið besta mál og að halda samráðsfund með sjávarútvegsráðherrum þessara landsstjórna er auðvitað gott mál og mun hugsanlega geta búið til samstarfsverkefni á ýmsum sviðum í framtíðinni.

Oft og tíðum er það þannig að ekki er hægt að sigla til eða frá Grænlandi í lengri tíma en hægt væri að stunda víða fiskveiðar í lögsögu þeirra þrátt fyrir það. Það mætti hugsa sér að vinna aflann í samráði við Grænlendinga og skapa okkur þannig ávinning og þeim líka af því samstarfi. Auðvitað er hugsanlegt að vera í ýmsu samstarfi við Grænlendinga. Við sinnum og hjálpum Grænlendingum nú þegar töluvert þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Ferðamannaiðnaðurinn á án efa eftir að njóta góðs af samstarfi þessara landa og það mun þýða gjaldeyristekjur fyrir allar þjóðirnar ef þær standa saman og vinna saman að því að markaðssetja vestustu löndin í Evrópu, þ.e. Færeyjar, Ísland og Grænland — sem er reyndar kannski ekki í Evrópu. Við eigum möguleika á að nýta ýmislegt sameiginlega.

Fyrir ári síðan kom iðnaðarnefnd grænlenska þingsins í heimsókn til okkar og ég tók þátt í því að taka á móti henni. Fyrirhugað er að byggja álver á Grænlandi og ýmislegt er þar í gangi sem gæti þýtt að þjónusta frá Ísafirði með flugi — og ýmislegt annað varðandi atvinnuuppbyggingu þeirra gæti þýtt ákveðna góða hluti til framtíðar. Eftir því sem við getum unnið meira og betur saman á öllum sviðum getur það skapað bæði atvinnu og gjaldeyristekjur fyrir allar þjóðirnar, sérstaklega í því sem varðar ferðamannaiðnaðinn og eins í sambandi við fiskveiðar og fiskvinnslu og hugsanlega þjónustu á öðrum sviðum og þá er ég að tala um Grænlendinga.

Við eigum líka og höfum átt gott samstarf við Færeyinga og getum sjálfsagt aukið það á mörgum sviðum, sérstaklega í ferðamannaiðnaðinum. Eftir því sem þessar þjóðir standa betur saman að því að vinna að sínum málum, kynningarmálum og öðru, því betra fyrir þær allar. Auðvitað er mjög gott að við getum tekið þátt í rannsóknarverkefni um sjálfbæra nýtingu lifandi náttúruauðlinda og furðulegt raunar að það skuli ekki hafa verið í gangi meira en raun ber vitni. Við erum hér á norðurslóðum og höfum mikla sameiginlega hagsmuni á öllum sviðum. Hugsanlegt er að Grænlendingar fari að vinna olíu eins og hugsanlega við Íslendingar. Færeyingar eru byrjaðir að vinna olíu og segja má að við höfum kannski lært aðeins af þeim varðandi undirbúning á þessum rannsóknarverkefnum og aðeins horft til þeirra hvað þau mál varðar.

Möguleikarnir varðandi samstarf þessara þjóða eru miklir og ég verð að segja að ég held að þetta geti lofað mjög góðu fyrir framtíðina og styð auðvitað þingsályktunartillögurnar og vil enn og aftur þakka Karli V. Matthíassyni, sem hefur verið í forsvari fyrir þessa nefnd, fyrir vel unnin störf.



Till. ganga til síðari umr. 

Till. ganga til utanrmn.