136. löggjafarþing — 118. fundur
 31. mars 2009.
greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, 1. umræða.
frv. allshn., 461. mál (heildarlög). — Þskj. 859.

[14:24]
Frsm. allshn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Við meðferð allsherjarnefndar á frumvarpi því sem varð að lögum í gær, um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., öðru nafni greiðsluaðlögunarfrumvarpinu, ræddi nefndin ítarlega hvort og að hvaða marki væri rétt að láta greiðsluaðlögun ná til veðlána. Ástæða umræðunnar var að í því frumvarpi var bráðabirgðaákvæði sem gerði ráð fyrir því að greiðsluaðlögun næði einnig til veðlána sem Íbúðalánasjóður og ríkisbankarnir hefðu veitt um tiltekinn tíma. Við meðferð málsins í nefndinni kom hins vegar fram að sérstök sjónarmið giltu að sumu leyti um veðkröfur og greiðsluaðlögun þeirra og þyrfti að svara því með öðrum hætti en um samningskröfur og því væri rétt að lagatextinn tæki með ótvíræðum hætti á þeim álitamálum sem sköpuðust ef veðkröfur féllu undir úrræði af þessum toga.

(Forseti (KHG): Forseti vill beina því til þingmanna að gefa ræðumanni betra tóm en honum heyrist vera í þingsalnum.)

Í umræðu nefndarinnar var m.a. litið til fordæmis í norskum lögum um greiðsluaðlögun þar sem greiðsluaðlögun tekur einnig til veðkrafna. Eftir umræður í nefndinni beindi ég því til dóms- og kirkjumálaráðuneytis og réttarfarsnefndar að leitað yrði leiða til að útfæra með fullnægjandi hætti almenna greiðsluaðlögun veðkrafna á þann veg að skuldsettu fólki í hóflegu húsnæði sem ekki réði við greiðslubyrði sína yrði gefið tækifæri til greiðsluaðlögunar án hefðbundinna nauðungarsölu- og gjaldþrotaúrræða. Með þessu móti næðist sá árangur að kröfuhafar héldu greiðsluflæði fyrir hluta áhvílandi skulda í stað þess að þurfa að afskrifa þær að fullu og öllu og mundu losna við kostnað af yfirtöku fullnustueigna. Skuldarar næðu með þessu úrræði að standa í skilum og forðast gjaldþrot. Ljóst væri að umtalsverður hluti skuldara væri í þeirri stöðu að skulda meira en sem næmi verðmæti eignar í yfirstandandi kreppu en úrræðið ætti einungis að taka til þeirra sem ekki hefðu greiðslugetu til að standa skil á skuldum. Það var því ekki ætlunin að þetta úrræði tæki til þeirra sem væru einungis með neikvæða eiginfjárstöðu, heldur væri skert greiðslugeta skilyrði fyrir því að þetta úrræði nýttist.

Í kjölfar þessa hófu dóms- og kirkjumálaráðuneytið og réttarfarsnefnd undirbúning þess frumvarps sem hér er lagt fram. Allsherjarnefnd samþykkti að leggja frumvarpið fram í meðferð fyrri greiðsluaðlögunar málsins, enda tilurð þess byggð á þeirri vinnu sem fram hafði farið á vettvangi nefndarinnar. Af þessu tilefni vek ég athygli á því að hér er um að ræða mjög óvenjulega aðferð við lagasetningu. Ég þakka sérstaklega dóms- og kirkjumálaráðuneyti og réttarfarsnefnd fyrir góða samvinnu við gerð þessa frumvarps. Það er mjög óvenjulegt að þingnefnd taki frumkvæði að lagasetningu með þessum hætti og slíkt reynir auðvitað á miðað við það kerfi sem við búum við í dag. Það kom auðvitað í ljós í þessari vinnu hversu vanbúið þingið er til að styðja við löggjafarfrumkvæði af hálfu nefnda að þessu leyti. Nefndin þurfti þar af leiðandi að reiða sig á ráðuneytið og réttarfarsnefnd við útfærslu málsins. Þetta er lexía sem við eigum að læra af fyrir þróun þingræðisins á næstu árum til að styrkja frekar getu þingnefnda til að flytja frumvarp að eigin frumkvæði.

Það er rétt að minna á það að á síðasta áratug, alveg frá 1995, hafa verið flutt frumvörp, fyrst af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem gerðu ráð fyrir að leidd yrðu í lög greiðsluaðlögunarúrræði. Var í flestum tilvikum gert ráð fyrir að það úrræði tæki einnig til veðlána að þessari norsku fyrirmynd. Í stuttu máli felst eðli úrræðisins í því að heimilt er að mæla fyrir um tímabundna greiðsluaðlögun greiðslna fasteigna á veðkröfum þegar skuldari getur sannanlega ekki nýtt sér önnur greiðsluerfiðleikaúrræði sem honum bjóðast. Er úrræðinu ætlað að vera tímabundið og getur staðið í allt að fimm ár. Það felst í því að skuldarinn getur leitað eftir tímabundinni greiðsluaðlögun vegna skulda sem hvíla á íbúðarhúsnæði því sem skuldari býr í. Skuldbindingarnar breytast þá með þeim hætti að gjalddögum þeirra skuldbindinga sem skuldari getur ekki greitt er frestað svo lengi sem greiðsluaðlögunin stendur. Í frumvarpinu er lögð til sú leið að greiðslubyrðin af verðtryggðum fasteignaveðkröfum verði tímabundið löguð að getu skuldara til greiðslu skuldanna en þó þannig að greiðslubyrði nemi að lágmarki fjárhæð hæfilegrar húsaleigu á almennum markaði fyrir þá fasteign sem um ræðir. Meðan á greiðsluaðlögunartímabili stendur falla því ekki dráttarvextir, vanskilagjöld eða innheimtukostnaður á veðkröfur, en vanskilaþáttur kröfunnar sem ekki fæst greiddur leggst við ógjaldfallinn höfuðstól kröfunnar. Á lánstíminn að lengjast sem því nemur til jafnlengdar þeim tíma sem greiðsluaðlögunin stendur.

Eins og ég rakti áðan tengist tilurð þessa úrræðis frumvarpinu um almenna greiðsluaðlögun. Það frumvarp sem hér er flutt mun vinna með því úrræði og verða því til fyllingar. Unnt er að sjá fyrir sér að hægt sé að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt báðum úrræðunum í senn eða leita eftir greiðsluaðlögun eftir hvoru um sig eftir aðstæðum skuldara. Þannig hljóðar hin almenna greiðsluaðlögun upp á aðlögun samningsskulda en þetta úrræði gæti átt við ef um er að ræða fólk sem einungis er í vandræðum vegna greiðslubyrði fasteignaveðlána en hefur samningsskuldir að öðru leyti í skilum. Þá er einnig líklegt að fólk verði í vandræðum með báða þætti á sama tíma og þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að hægt sé að leita eftir úrlausn með samningsveðkröfur og fasteignaveðkröfurnar á sama tíma.

Virðulegi forseti. Við núverandi aðstæður sjáum við að vaxandi fjöldi fólks á í vanda með greiðslubyrði fasteignaveðlána og það hlýtur að vera forgangsverkefni löggjafans að greiða fyrir því að fólk sem lendir í tímabundnum erfiðleikum við að láta enda ná saman lendi ekki í erfiðari stöðu en nauðsyn ber til við þær aðstæður sem nú eru uppi. Því er þetta úrræði hugsað sem nokkurs konar brú yfir erfiðasta tímabilið og hér er fyrst og fremst horft til greiðslugetu fólks og hvort það geti staðið undir greiðslubyrðinni. Margir verða nú annaðhvort fyrir tekjusamdrætti vegna atvinnuleysis eða minnkandi atvinnutekna sem geta í mörgum tilvikum grafið undan greiðslugetu fólks, jafnvel þótt það hafi ekki með nokkrum hætti stofnað til skulda með ámælisverðum hætti eða reist sér hurðarás um öxl. Það er mikið áfall fyrir fólk þegar, svo dæmi sé tekið, bæði hjón eru útivinnandi og í ágætlega launuðum störfum og annað missir vinnuna. Sú staða getur grafið undan greiðslugetu fjölskyldunnar. Þessu frumvarpi er ætlað að finna einfalda lausn á slíkri stöðu, veita ákveðið fyrirheit um stöðugleika út þann tíma sem greiðsluaðlögunin varir og fyrirheit um lausn að tímabilinu loknu.

Virðulegi forseti. Í 12. gr. frumvarpsins er fjallað um hvernig fara skuli með skuldastöðuna, stöðu veðskulda að loknu greiðsluaðlögunartímabilinu. Þar er gert ráð fyrir að skuldari geti óskað eftir því við lok tímabilsins, ef ljóst er að hann muni ekki um fyrirséða framtíð geta staðið í fullum skilum með greiðslu þeirra skulda sem tryggðar eru með veði í eigninni, að veðréttindum verði létt af eigninni umfram 110% af markaðsvirði eignarinnar. Hér er farið að norskri fyrirmynd, horft til verðmætis eignarinnar og bætt við 10 prósentustigum. Ástæðan er sú að úrræðið á ekki að leiða til óréttmætrar eignaaukningar á kostnað kröfuhafa en á móti er úrræðinu ætlað að greiða fyrir því að kröfuhafar horfist í augu við raunverulegt tap á kröfum sem engar horfur eru á að fáist greiddar. Sú leið sem lögð er til í frumvarpinu felur í sér að við þessar aðstæður verði veðréttindum aflétt en krafan standi eftir sem áður sem samningskrafa á hendur skuldara. Við þær aðstæður er skuldara veittur sá kostur að leita eftir greiðsluaðlögun samningsskulda, þ.e. þeirra skulda sem umfram eru. Þá hefur veðum verið aflétt af eigninni sem eru umfram það sem eignin mun líklega standa undir til lengri tíma litið og skuldari getur þá fengið greiðsluaðlögun samningsskulda til að gera sér kleift að standa undir því sem hann raunverulega getur staðið undir til greiðslu samningsskulda að þessu tímabili loknu.

Grundvallarhugsunin í frumvarpinu er að halda aðskildum annars vegar greiðslum vegna samningsskulda og hins vegar greiðslum vegna veðskulda, enda er gengið út frá því í hinni almennu greiðsluaðlögun að þar sé reiknaður húsnæðiskostnaður skuldara sem tæki mið af eðlilegri húsaleigu miðað við fjölskyldustærð. Þess vegna er mikilvægt að það sé samfella í báðum þessum úrræðum. Markmið frumvarpsins er þá að að loknu þessu tímabili tímabundinnar greiðsluaðlögunar verði greiðslubyrði af fasteignahlutanum þannig að skuldari fái undir honum risið, það sem umfram standi teljist til samningsskulda og skuldari geti fengið þær skuldir aðlagaðar samkvæmt hinum almennu viðmiðum um greiðsluaðlögun samningsskulda sem felast í frumvarpinu sem við gerðum að lögum á Alþingi í gær.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara um þetta fleiri orðum en þakka þó í lokin fyrst og fremst allsherjarnefnd fyrir góða samvinnu í útfærslu þessa máls. Eins og ég rakti hefur oft verið rætt á vettvangi þingsins um þörf á greiðsluaðlögun veðskulda en aldrei hefur það mál komist á verulegan rekspöl. Það er sérstakt hróssefni að á þessum erfiðleikatímum skuli fulltrúar allra flokka í allsherjarnefnd hafa náð að lyfta sér yfir flokkspólitískar þrætur, koma þessu þjóðþrifamáli inn í þingið og ná fullri samstöðu um að leggja fram þetta frumvarp. Það boðar gott og er mikilvægt að þakka þessa samstöðu. Vonandi á frumvarpið greiða leið í gegnum þingið á næstu dögum og verður að lögum fyrir vikulok. Ég er þess sannfærður að fjöldi fólks bíður eftir að þetta úrræði verði að lögum og telur miklu varða að sjá úrræði sem þetta taka gildi. Því er rétt að ítreka óskir og vonir um að þingheimur sjái sér fært að afgreiða þetta mál hratt og örugglega í vikunni.



[14:38]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega fagnaðarefni þegar kemur að einhverju máli sem tengist hagsmunum heimilanna, og þótt fyrr hefði verið. Því ætla ég ekki að eyða mörgum orðum í það en held að flestir sem hlustuðu á framsöguræðuna séu kannski ekki miklu nær um út á hvað þetta mál gengur. Ég vildi bara spyrja tveggja einfaldra spurninga.

1. Hvað kostar þetta ríkissjóð?

2. Hvað þýðir þetta mál fyrir þennan venjulega einstakling eða fjölskyldu í vandræðum?



[14:39]
Frsm. allshn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að svara þessum spurningum eins skilmerkilega og mögulegt er. Fyrir það fyrsta verður kostnaður ríkissjóðs ekki verulegur af þessu frumvarpi þar sem ekki er ætlast til mikilla útgjalda af hálfu ríkisins vegna þessa. Gert er ráð fyrir að úr ríkissjóði verði greiddur kostnaður umsjónarmanns sem verður 200.000 kr. að hámarki í hverju og einu tilviki. Þó á eftir að koma í ljós hversu mörg tilvikin verða.

Hvað þýðir þetta fyrir hvern og einn skuldara? Jú, ef við horfum á tilvik þar sem fólk býr við þær aðstæður að t.d. önnur fyrirvinnan hefur misst vinnuna eða eina fyrirvinnan hefur misst vinnuna og viðkomandi fjölskylda býr í hóflegu íbúðarhúsnæði kveður frumvarpið á um að unnt sé að fá greiðslubyrði lagaða að greiðslugetu í allt að fimm ár. Það þýðir í sjálfu sér að skapaðar eru forsendur fyrir því að fólk geti haldið húsnæði sínu í gegnum dýpsta öldudalinn og við þurfum ekki að horfa upp á fleiri nauðungarsölur, uppbrot fjölskyldna eða aðra slíka erfiðleika sem oft geta fylgt húsnæðismissi. Að loknu þessu fimm ára tímabili verði greitt fyrir því með aflýsingu veðsins sem er umfram verðmæti hússins að áhvílandi byrðar á húsinu séu í samræmi við greiðslugetu viðkomandi til lengri tíma litið. Þetta er eins einfalt og ég get haft það.



[14:41]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hann segir að þetta sé ekki verulegur kostnaðarauki fyrir ríkissjóð og nefnir að hámarkskostnaður fyrir tilsjónarmann sé 200.000 kr. Það fer þá væntanlega eftir því hversu margir þeir eru hvort þetta verður verulegur kostnaður.

Ef ég skil málið rétt gengur það út á að lengja í lánum, ekki að taka skuldina af heldur lengja í lánum með einhverjum hætti. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef það er rangt. Þetta snýst um það að ef ég er í þeirri stöðu að geta ekki borgað af lánum mínum einhverra hluta vegna er greiðslubyrðin lækkuð en það er ekkert tekið af heldur er þetta fyrst og fremst lenging. Það væri ágætt að fá að vita hjá hv. þingmanni hvort þetta sé rétt nálgun eða hvort um einhverjar niðurfellingar sé að ræða. Það er stóra málið, er þetta einhvers konar niðurfelling eða er þetta bara lenging?

Í öðru lagi spyr ég hvort þetta hafi verið kostnaðargreint. Miðað við þær upplýsingar sem maður hefur frá Seðlabankanum sem eru samt sem áður ekki nýjar er ekki ólíklegt að margir þyrftu á einhvers konar fyrirgreiðslu að halda þannig að þær gætu orðið nokkuð margar, 200.000 krónurnar, og ef um það er að ræða í ofanálag, til viðbótar við kostnað í tengslum við lánin sjálf, gæti það oltið á einhverju. Það væri gott að fá að vita kostnaðarmatið og er þetta bara lenging eða er einhver niðurfelling í þessu?



[14:43]
Frsm. allshn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er í sjálfu sér lenging með ákveðinni tegund af niðurfellingu. Fyrst og fremst er um það að ræða að greiðslubyrðin er löguð að greiðslugetu skuldara. Það sem ekki er greitt af helst í skilum þannig að á það falli ekki dráttarvextir og þannig er ekki um að ræða að lánið safnist upp með sama hætti og ef um hreina lengingu væri að ræða. Afborganir sem ekki er greiðslugeta fyrir gjaldfalla ekki.

Að loknu tímabilinu er opnaður möguleiki til að létta veðum af eigninni umfram verðmæti hennar og þar með greitt fyrir því að það sem umfram er verði fellt niður. Sá stabbi fer þá inn í almenna greiðsluaðlögun og lúkning mála í þeirri almennu greiðsluaðlögun fer eftir greiðslugetu skuldarans samkvæmt frumvarpinu sem við samþykktum í gær. Það frumvarp felur í sér aðferðafræði og forsendur fyrir niðurfellingu þannig að hér er fyrst og fremst um að ræða að lánum á þessu tímabili sem getur verið allt að fimm árum er haldið í skilum. Þau safna ekki dráttarvöxtum, fólk greiðir í samræmi við greiðslugetu. Þegar komið er að lokum þessa fimm ára tímabils eru skapaðar forsendur fyrir því að það sem stendur út af verðmæti eignarinnar verði fellt inn í niðurfellingarferli, lækkunarferli sem er ferlið sem mælt er fyrir um í almennum greiðsluaðlögunarlögum. (GÞÞ: Kostnaðurinn?)

Það hefur ekki verið kostnaðargreint enda rennum við auðvitað við núverandi aðstæður nokkuð blint í sjóinn með það hversu margir munu lenda í þessu. Það fer eftir því hversu löng dýfan verður. Það fer eftir því hversu lengi þetta mikla atvinnuleysi varir. Það fer eftir því hversu fljótt fólk kemst aftur til vinnu. Það er mjög erfitt að spá fyrir um það (Forseti hringir.) en ég tel að kostnaði sé mjög stillt í hóf með þeirri grunnreglu að (Forseti hringir.) greiðslan verði miðuð við 200.000 kr. til umsjónarmanns.



[14:46]Útbýting:

[14:46]
Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Þau orðaskipti sem urðu hér áðan milli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og hv. þm. Árna Páls Árnasonar lýsa því úrræði sem um er að ræða. Þetta er nokkuð flókið úrræði þegar maður lýsir því fyrir fólki, þarna er um að ræða tæknilega hluti sem þarf að taka tillit til þegar við skoðum fullnusturéttarfarið.

Ef ég reyni að útskýra í stuttu máli hvað verið er að gera með greiðsluaðlögunarúrræðinu, hvort sem um er að ræða þetta úrræði eða frumvarpið sem nýlega varð að lögum, snýst það fyrst og fremst um að sjá hvað viðkomandi aðili getur borgað. Við byrjum eiginlega á öfugum enda þegar við skoðum þessi úrræði: Hvað getur viðkomandi aðili borgað? Hverjir eru tekjumöguleikar hans? Hverjar eru heimilistekjurnar? Hverjar eru skuldirnar? Við stillum okkur af miðað við ákveðna tölu sem talið er að viðkomandi geti innt af hendi á því tímabili sem úrræðið gildir. Þegar sú tala liggur fyrir er farið að stilla af gagnvart einstökum skuldum og þeim þáttum sem úrræðið þarf að taka til. Ég held að það sé grundvallaratriði sem við þurfum að hafa í huga þegar við skoðum þetta úrræði, það snýst fyrst og fremst um hvað viðkomandi getur innt af hendi.

Þetta mál er nokkuð merkilegt hér á þingi. Um er að ræða frumvarp sem varð til hjá allsherjarnefnd og er rétt sem fram kom hjá hv. þm. og framsögumanni, Árna Páli Árnasyni, að allsherjarnefnd var nokkur vandi á höndum þegar málið vaknaði innan nefndarinnar. Menn vildu bregðast við því frumvarpi sem þá lá fyrir nefndinni um almenna greiðsluaðlögun vegna þess að möguleikar þingsins til þess að setja af stað vinnu um lagafrumvörp eru ekki mjög styrkir. Þegar málið tók að þróast á vettvangi allsherjarnefndar var vilji til þess að tryggja að fasteignaveðlán yrðu hluti af þessu úrræði. Lá fyrir að ekki yrði hægt að hjálpa heimilunum öðruvísi en að taka mið af þeim gríðarlegu skuldum sem hvíla á fasteignum Íslendinga og reyndi allsherjarnefnd fyrst að móta sjálf tillögur í þá veru að bregðast við því.

Ég held að við þingmenn sameinumst um að efla þingið þegar kemur að svona málum svo að það þurfi ekki strax að snúa sér til framkvæmdarvaldsins um hvernig standa eigi að gerð þeirra. Við gerðum það í þessu tilviki, við leituðum til dómsmálaráðuneytisins með þann vanda sem við töldum liggja fyrir með ósk um að málið yrði skoðað á vettvangi dómsmálaráðuneytis og réttarfarsnefndar. Í samvinnu allsherjarnefndar, dómsmálaráðuneytis og réttarfarsnefndar varð málið til í þeim búningi sem það er í nú. Var eindreginn vilji allrar allsherjarnefndar, bæði fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna og þeirra sem eru í minni hluta, að standa að þessu máli þannig að ég held að hér sé mál sem við höfum verið að bíða eftir og við viljum öll styðja til þess að hjálpa fólkinu í landinu.

Úrræðið snýr fyrst og fremst að því að stilla af greiðslubyrði. Þetta er tímabundið úrræði til fimm ára og við erum búin að koma veðkröfunum í það form að þær eru orðnar samningskröfur eins og þessi hugmynd gengur út á. Við áttum okkur á því að þegar þeim tíma lýkur munu væntanlega margir af þeim sem úrræðið velja fara í almenna greiðsluaðlögunarúrræðið. Við sjáum því fyrir okkur að þær fjölskyldur eða þeir fasteignaeigendur sem munu velja þetta úrræði geta núna um nokkurt árabil leyst úr sínum málum.

Meðan sá valkostur er í gildi á þessu fimm ára tímabili hefur fasteignareigandinn ekki mjög mikið vald yfir því veði sem um er að tefla. Búið er að taka úr sambandi möguleika viðkomandi til að veðsetja eignina frekar en jafnframt er gengið frá því að ekki muni falla dráttarvextir eða aðrir vextir og kostnaður á kröfuna. Fasteignin verður heldur ekki tekin til uppboðsmeðferðar á meðan úrræðið býðst. Allar eðlilegar og venjulegar aðgerðir, þegar um er að ræða greiðsluerfiðleika, eru því teknar úr sambandi og í staðinn fyrir þær eru fjölskyldur settar í tímabundna meðferð, ef svo má segja, til þess að reyna að skapa möguleika fyrir það til að búa áfram í húsunum sínum og reyna að þessum tíma liðnum að ná vopnum sínum á ný. Það er mjög líklegt að þeir sem verða hvað harðast úti og eru með gríðarlega háar skuldir á fasteignum sínum — þeir hafa kannski verið fullbjartsýnir þegar þeir tóku lán og keyptu stórar eignir — séu sama fólkið og orðið hefur fyrir miklum tekjumissi og vandræðum á vinnumarkaði.

Í því sambandi er mjög áhugavert að fara yfir og velta fyrir sér þeirri vinnu sem nú fer fram hjá Seðlabankanum þar sem verið er að skoða hvernig skuldir heimilanna eru. Nú er starfshópur starfandi á vegum Seðlabankans sem reynir gera sér grein fyrir því hversu stór vandinn er. Við í allsherjarnefnd fengum fulltrúa Seðlabankans til okkar til nefndarinnar til að reyna að varpa ljósi á vandann vegna þess að það er svo erfitt að átta sig á því hversu umfangsmikill þessi vandi er. Við vitum í raun og veru ekki hversu margir þeir eru sem eiga í miklum vanda og þurfa að fara þessa leið. Við vitum ekki hversu margar fjölskyldur hafa slíkar skuldir á bakinu að ekki sé önnur leið til að bjarga þeim en að velja þetta úrræði.

Seðlabankinn hefur safnað gögnum til þess að gera sér grein fyrir stöðu mála. Hann hefur nú skilað tveimur bráðabirgðaniðurstöðum, fyrst upplýsingum um skuldir, bílaskuldir og alls kyns neysluskuldir og nú síðast, 27. mars, komu fleiri niðurstöður starfshóps Seðlabankans um skuldir heimilanna. Þá var verið að velta því fyrir sér hvernig dreifing húsnæðisskulda eftir eigna- og skuldahópum er háttað. Í framhaldinu ætlar Seðlabankinn að afla dulkóðaðra gagna um tekjur heimila að fengnu samþykki ríkisskattstjóra og þegar þau gögn liggja fyrir er hægt að gera sér enn frekar grein fyrir í hvaða stöðu þessir hópar eru.

Þær skuldbindingar sem Seðlabankinn hafði til hliðsjónar þegar verið var að skoða hversu stórir þessir hópar eru heildarfasteignaveðlánaskuldir í gagnagrunni sem samanstendur af gögnum frá Nýja Kaupþingi, Nýja Landsbankanum, Íslandsbanka, Íbúðalánasjóði, sparisjóðunum og öðrum minni fjármögnunarfyrirtækjum, en þær eru um 1.260 milljarðar kr. Fasteignaveðlán frá lífeyrissjóðunum eru ekki innifalin en þau gætu numið allt að 170 milljörðum kr. til viðbótar þannig að heildarhúsnæðisskuldir gætu verið um 1.530 milljarðar kr. Öll lán sem eru að baki þessu eru með veð í húsnæði sem skilgreind eru sem fasteignaveðlán. Þegar talað er um fasteignaveðlán í frumvarpi um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána er átt við öll lán sem tryggð eru með veði í fasteignum. Þetta eru ekki endilega lán sem eru tekin til kaupa á fasteignum, þau eru tryggð með veði í fasteignum.

Við vitum að á undanförnum árum var töluvert meira um að tekin væru annars konar lán út á fasteignaveð en við þekktum áður. Það er hins vegar ekki gert ráð fyrir því í þessu úrræði að annars konar veð séu tekin til grundvallar þarna. Ekki er um að ræða veðlán vegna frístundahúsa eða neins slíks, sumarbústaða eða annars sem er í skipulögðum frístundabyggðum, í þessu samhengi. Það er því alveg hægt að hugsa sér að sum þeirra heimila sem orðið hafa hvað verst úti hafi líka tekið lán vegna slíkra fjárfestinga en þá þarf fólk að leysa úr því sjálft.

Þegar maður horfir á dreifingu húsnæðisskulda eftir eigna- og skuldahópum hjá Seðlabankanum sýna niðurstöðurnar að heimili sem eiga mikinn húsnæðisauð, þ.e. stórar eignir, eru með hlutfallslega stóran hluta af heildarhúsnæðisskuldunum. Það sem mig grunar, án þess að vita það hreint út, og það sem við bíðum eftir að heyra um frá Seðlabankanum er að þeir sem eru með hæstu veðskuldirnar á stórum eignum séu fólk sem hefur tekið mikla áhættu. Ég óttast mjög að tekjurnar sem þar eru að baki séu ótryggar.

Stóru húsnæðisskuldirnar eru ekki bara í íslenskum krónum heldur er oft um að ræða erlend lán þannig að við komum alltaf aftur og aftur að því að það er mikill munur á þeim sem tóku lán í íslenskum krónum og þeim sem tóku lán í erlendri mynt. Þar er sá vandi sem við höfum talað um í vetur.

Tæplega þriðjungur húseigenda er með húsnæðiseign umfram 30 millj. kr. en sá hópur er með næstum helming allra húsnæðisskulda. Hins vegar eru 68% húseigenda með húsnæðiseign fyrir minna en 30 milljónir og er með rúman helming af því í húsnæðisskuldum. Þegar litið er til heimila með neikvæða eiginfjárstöðu í húsnæði kemur í ljós að rúmlega 6% heimila í gagnagrunninum eru með um 5 milljónir í neikvæðri eiginfjárstöðu en eru með tæplega 20% af heildarhúsnæðisskuldum. Þetta eru tæplega fimm þúsund heimili og þau eru í afar erfiðri og viðkvæmri stöðu og í mikilli hættu á því að fara í þrot ef þau verða fyrir tekjumissi og ráða ekki við greiðslubyrðina. Hins vegar eru u.þ.b. 60% heimila með meira en 5 millj. kr í jákvæðri eiginfjárstöðu en eru þá með 44% af húsnæðisskuldum.

Ég held að þarna sé sá hópur sem við höfum hvað mestar áhyggjur af og við höfum rætt það í þinginu og reynt að slá á hversu fjölmennur sá hópur er. En þegar við horfum á þessar tölur blasir við að á meðan við gerum okkur ekki almennilega grein fyrir því hvernig tekjuhliðin er, er erfitt að gera sér grein fyrir hversu mikill vandinn er. Ég býst við því að þegar menn leita í þetta úrræði — ég á von á því að margir muni kanna hvort þessi úrræði henti þeim — munum við sjá sæmilega vel hversu víðtækur vandinn er.

Við höfum nú þegar samþykkt almenna greiðsluaðlögunarúrræðið þannig að væntanlega fáum við betri upplýsingar um það hvernig það hefur gengið þegar það fer að virka betur, en ég held að afar erfitt sé að gera sér grein fyrir því núna hversu mikill vandinn er.

Það var viðtal í Morgunblaðinu við hæstaréttarlögmann hér í bæ sem taldi að þingið vanmæti þörfina stórlega. Þar var um ákveðinn misskilning að ræða vegna þess að allsherjarnefnd hefur ekki gert sér fullkomlega grein fyrir því hversu mikill vandinn er, eins og ég hef sagt, en það er útilokað fyrir nokkurn að slá á hversu margir það verða. Við höfum þær upplýsingar ekki á takteinum, hvert okkar gæti haft einhverjar óljósar skoðanir en það er útilokað að við getum að óreyndu áttað okkur á því hversu mikill vandinn er.

Þetta úrræði felur í sér, eins og fram kom hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni, blandaða aðferð þar sem um er að ræða lengingu og síðan getur verið um einhverja niðurfellingu að ræða á einstaklingsbundnum grunni. Starfshópur Seðlabankans skoðaði nokkuð þær tvær tillögur sem verið hafa í umræðunni í þjóðfélaginu um hvernig hægt væri að bregðast við vanda heimilanna. Þá er annars vegar um að ræða 20% flatan niðurskurð á skuldum og hins vegar lækkun um 4 millj. kr. Það er áhugavert að lesa skoðun bankans á þessu. Ég skil auðvitað að bankinn er ekki í aðstöðu til þess að lýsa skoðun sinni, hann tekur enga pólitíska afstöðu til málsins heldur bendir á að það sé erfitt að átta sig á því hversu vel slík úrræði nýtast þegar við höfum ekki heildarmyndina.

Ég verð samt að segja að í þeim vanda sem við erum í er fásinna að slá slíkar hugmyndir út af borðinu og ræða þær ekki. Ég held að það sé skylda okkar fyrir heimilin í landinu, fólkið okkar, fjölskyldurnar, ungt barnafólk — maður sér fyrir sér fullt af ungu barnafólki sem í bjartsýni sinni tók lán fyrir of stórum íbúðum, fyrir endurbótum á íbúðum, en hefur nú jafnvel misst vinnuna og stendur frammi fyrir gríðarlegum vanda. Þetta fólk getur flúið úr landi, sem við getum ekki hugsað okkur að gerist. Við slíkar aðstæður verðum við öll að tala saman um þær hugmyndir sem geta hjálpað. Ég vil ekki vera svo örugg með mig að segja að þessi aðferðin sé ómöguleg og hin sé betri, sérstaklega ekki þegar við erum í raun ekki komin með neina almennilega mynd af því hvaða úrræði henta best.

Þetta vil ég segja vegna þess að hér í salnum áðan var rætt um 20% niðurfellingu á skuldum og ég held að almennt séð eigum við þingmenn að ræða þessa hluti: Hvað getum við gert til að hjálpa því fólki sem er nú svefnlaust af áhyggjum vegna skulda? Atvinnutækifærin eru ekki fyrir hendi og ef það er eitthvert verkefni sem við eigum að sinna hér á Alþingi er það þetta. Hér er komið mál sem er mjög gott innlegg í þá umræðu, þetta er mál sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur heils hugar á bak við.



[15:01]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Það er rétt sem fram hefur komið að forsaga málsins er frekar sérstök af því að upphaflega var í frumvarpinu um almenna greiðsluaðlögun, sem varð hér að lögum í gær, bráðabirgðaákvæði sem laut að veðlánum á íbúðarhúsnæði en ákveðið var að taka það bráðabirgðaákvæði út og skoða í nefndinni betur þessar veðkröfur almennt og flytja mál sem sneri sérstaklega að þeim. Þannig er forsagan að þessu máli. Ég vil líka undirstrika að mjög ánægjulegt var að finna þann samhug sem var í nefndinni um málið þar sem allir liðkuðu fyrir svo hægt væri að koma því áfram í þinglega meðferð. Þetta frumvarp hangir á málinu sem við afgreiddum í gær.

Frumvarpið er 13 greinar, margar þeirra eru frekar flóknar og svolítið langar og það er mjög sérstakt að þingnefnd flytji mál af þessu tagi. Hér í salnum situr hv. þm. Pétur Blöndal sem hefur margoft gagnrýnt það að þingið flytji ekki slík mál nema eftir beiðni frá ráðherrum. En það verður að segjast eins og er að ráðuneytið kom verulega að samningu þessa frumvarps og hæstv. ráðherra beitti sér líka og jafnframt réttarfarsnefnd. Það var ekki þannig að þingmenn sjálfir sætu og skrifuðu frumvarpið upp frá orði til orðs, alls ekki. Það var mikla aðstoð að fá við samningu frumvarpsins og má eiginlega segja að það hafi meira og minna verið samið í ráðuneytinu. Við flytjum það eigi að síður til að liðka hér fyrir og koma þessu á réttan kjöl eins hratt og hægt er.

Ég ætla ekki að grípa niður í einstakar greinar, virðulegur forseti, en heildartilgangur frumvarpsins er að reyna að tryggja virkara úrræði fyrir þann hóp sem er í greiðsluvanda. Þetta er stækkandi hópur og verið er að reyna að gefa einstaklingum möguleika á að endurskipuleggja fjármál sín með það að markmiði að þeir geti búið áfram í fasteign sinni ef þess er nokkur kostur. Það eru auðvitað ákveðin sjónarmið sem gilda varðandi lánveitingar og það er stjórnarskrárvarinn eignarréttur kröfuhafa sem njóta veðtryggingar í fasteignum skuldara. Það þarf því aðeins að huga að því eins og augljóst er, en takist vel til með svona lagasetningu er hægt að gæta hagsmuna bæði skuldara og kröfuhafa, enda geta þessir hagsmunir farið saman. Það er engum í hag, sem á veðkröfu, að skuldarinn fari í þrot og verði gerður gjaldþrota og allar kröfur falli þá bara niður og sá sem á kröfuna sitji uppi með húsnæðið. Það er ekki alltaf honum í hag að koma því þannig fyrir. Það geta því verið mjög sterk rök fyrir því að reyna að aðstoða skuldarann svo hann geti verið áfram í húsnæði sínu og greitt það sem hann getur tímabundið en síðan þurfi að skoða málin þegar þeim tíma lýkur. Hér er verið að stefna að greiðsluaðlögunarferli sem tekur til fimm ára.

Í 3. gr. eru tilgreind þau gögn sem sá sem ætlar í greiðsluaðlögun þarf að reiða fram. Í 4. gr. er svolítið farið yfir það með hvaða hætti héraðsdómari getur hafnað beiðni. Þar kemur fram að ef fjárhagur skuldara er slíkur að hann geti staðið í fullum skilum án greiðsluaðlögunar þá á að sjálfsögðu ekki að veita honum greiðsluaðlögun. Maður þarf að fara í gegnum ákveðið nálarauga til að geta fengið slíkt úrræði. Einnig á þetta við ef ljóst er að skuldaranum yrði ófært að standa undir lágmarksfjárhæð fastrar mánaðargreiðslu, eins og felst í 5. gr. í frumvarpinu. Viðkomandi má því ekki vera of vel staddur og heldur ekki of illa staddur, ef þannig má að orði komast. Það má heldur ekki veita skuldara greiðsluaðlögun gagnvart veðlánum ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Þeir sem hafa farið mjög óvarlega og illa að ráði sínu og hægt er að sanna að þeir gátu hvort eð er ekki staðið undir þeim lánum sem þeir voru að taka á sínum tíma geta ekki fengið þetta úrræði. Þetta úrræði á að vera má segja réttlætisúrræði, þ.e. ef eitthvað óvænt hefur komið upp á geta menn komist í gegnum þessi skilyrði og farið í greiðsluaðlögun. Það á ekki að hygla neinum sem hafa tekið rangar ákvarðanir heldur er það meira þannig að ef eitthvað óvænt hefur komið upp á — eins og er nú alveg ljóst með bankahrunið og efnahagsástandið eins og það er í dag, margt mjög óvænt er þar á ferð sem enginn gat séð fyrir — eiga einstaklingar rétt á því að fara í gegnum greiðsluaðlögunina.

Það er rétt sem kom fram hjá báðum þeim hv. þingmönnum sem hafa talað fyrr í umræðunni, Árna Páli Árnasyni og Ólöfu Nordal, að Seðlabankinn kom með upplýsingar til nefndarinnar sem við þurfum að skoða nánar. Það er frekar erfitt að gera sér grein fyrir hvað margir munu fara í gegnum þetta úrræði og þar af leiðandi er erfitt líka að gera sér grein fyrir kostnaðinum. Í frumvarpinu sem var samþykkt í gær, af því að það var aðeins gert að umtalsefni áðan, var talið að 100–200 manns mundu nýta sér það úrræði. Það kom strax fram í nefndinni að sú tala var algjörlega vanáætluð. Fram kom hjá þeim sérfræðingum sem við fengum til okkar að reikna mætti með að það yrðu a.m.k. tíu sinnum fleiri, 1.000–2.000 manns hvað varðar almenna greiðsluaðlögunarfrumvarpið. Það er því erfitt að henda reiður á því hvað margir munu nýta sér þetta úrræði.

Framsóknarmenn hafa talið mikilvægt að grípa til frekar róttækra aðgerða í efnahagsástandinu eins og það er núna og grípa til óvenjulegra aðgerða. Við höfum talað fyrir hinni svokölluðu 20% leiðréttingarleið, þ.e. að hægt væri að leiðrétta upp á 20% fyrir öllum þeim óvæntu uppákomum sem hafa átt sér stað síðan í október á síðasta ári. Vinstri grænir, a.m.k. Lilja Mósesdóttir hagfræðingur, frambjóðandi Vinstri grænna, hefur talað fyrir leið sem er í ætt við 20% leiðréttingarleiðina, þ.e. að hægt sé að fella niður 4 milljónir, upp undir 4 milljónir af húsnæðisskuldum. Seðlabankinn mat báðar þessar leiðir og taldi reyndar að 4 millj. kr. leiðin væri dýrari fyrir ríkissjóð en 20% leiðin, en við framsóknarmenn höfum viljað undirstrika að við gerum ráð fyrir að kröfuhafar afskrifi þannig að ríkissjóður og samfélagið allt á að bera hag af þeirri leið að lokum. Í stað þess að allir sogist niður í þessum efnahagsþrengingum verði leiðrétt um 20% fyrir þá sem bera lán svo við getum komið hjólum atvinnulífsins í gang aftur. Allir græða á því þegar upp er staðið og við getum haldið við störfum o.s.frv.

Ég verð að segja að ég fagna því sem hv. þm. Ólöf Nordal sagði áðan um báðar þessar leiðir. Hv. þingmaður sagði að ekki ætti að sópa svona tillögum út af borðinu. Það hefur hv. þingmaður, nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, líka sagt og Vinstri grænir eru að hugsa á svipuðum nótum. Það er eiginlega bara, virðulegur forseti, Samfylkingin sem hefur meira eða minna skotið þessar hugmyndir niður og mér þykir það nokkuð miður að þeir í Samfylkingunni hafi gert það. Þeir hafa ekki viljað skoða þetta neitt frekar og telja að greiðsluaðlögun sé — eins og ég skil það — nægjanleg. Við höfum ekki talið að svo sé og verði 20% leiðin farin að lokum, sem margir segja að verði farin — hérna er bara verið að ströggla í einhvern tíma, þetta mun fara fram að lokum, þessi 20% leiðrétting — er ljóst að samt munu einhverjir þurfa á greiðsluaðlögun að halda. Þó að þetta mál fari hér í gegn útilokar það ekki að aðrar góðar hugmyndir, sem eru að margra mati mjög nauðsynlegar, verði afgreiddar með einhverjum hætti síðar.

Framsóknarflokkurinn stendur fyllilega á bak við þetta frumvarp eins og frumvarpið sem við afgreiddum í gær, þetta er svona fylgifrumvarp með því. Við vonum að það verði sem fyrst að lögum svo fólk geti farið að leita sér upplýsinga um hvort það passi inn í þessi skilyrði til að athuga hvort það geti þá frekar haldið húsnæði sínu ef það hefur greiðslugetu til þess að standa undir, a.m.k. hluta af skuldum sínum.



[15:11]Útbýting:

[15:12]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Mér rennur blóðið til skyldunnar að fjalla hér um þetta frumvarp til laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði sem hv. allsherjarnefnd Alþingis flytur, einfaldlega af þeirri ástæðu að ég á sæti í nefndinni og er þar af leiðandi einn af flutningsmönnum málsins.

Frumvarpið felur í sér aðgerð til þess að reyna að vernda heimilin í landinu, veita þeim tímabundna greiðsluaðlögun vegna fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Um helgina hélt Sjálfstæðisflokkurinn landsfund sinn, fjömennan og glæsilegan landsfund þar sem flokkurinn lagði fram þær meginlínur sem hann hyggst berjast fyrir og leggja áherslu á í aðdraganda komandi alþingiskosninga. Eitt af þeim lykilatriðum sem fram koma í stjórnmálaályktun fundarins er að flokkurinn vill tryggja vernd heimilanna í landinu og einkum þeirra sem skuldsett eru. Það er einmitt af þeirri ástæðu sem við treystum okkur til að standa að þessu máli. Þau efnisatriði sem koma fram í því eru fyllilega í samræmi við þau sjónarmið sem landsfundur okkar og forusta Sjálfstæðisflokksins hefur lagt áherslu á við þær aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu.

Það kom fram í upphafi umræðunnar þegar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór í andsvar við framsögumann málsins, hv. þm. Árna Pál Árnason, að það liggja ekki fyrir nægjanlegar upplýsingar um þann kostnað sem til fellur vegna málsins eða þá fjármuni sem ríkið þarf að reiða af hendi vegna samþykktar þessa máls. Ég hef litið þannig á að þó svo að þetta mál sé brýnt sé mikilvægt að fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins verði fengið það hlutverk að fara yfir málið og kostnaðargreina það eins og öll önnur mál.

Það er rétt sem kom fram í umræðu um frumvarpið um almennu greiðsluaðlögunina, sem varð að lögum í gær, að menn eru býsna ósammála um hversu margir muni leita greiðsluaðlögunar. Í kostnaðarmati sem fylgdi því frumvarpi komu fram tölur sem m.a. Samtök atvinnulífsins gagnrýndu mjög í umræðu um það mál. Samtök atvinnulífsins töldu að sá fjöldi sem fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefði metið varðandi þörfina og fjölda þeirra sem mundu leita eftir þessu úrræði væri stórlega vanmetinn og sömu sjónarmið koma fram á forsíðu Morgunblaðsins í dag hjá Eiríki Elísi Þorlákssyni hæstaréttarlögmanni.

Ég tel að þegar þessari umræðu er lokið sé okkur skylt að taka málið inn í nefnd á milli umræðna til að fá þessar upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu. Ég tel það óumflýjanlegt, ekki síst vegna þess, eins og fram hefur komið í þessu máli, að það er ekki einungis verið að lengja í lánum heldur má segja að við tilteknar aðstæður megi gera ráð fyrir að einhverjar skuldir verði felldar niður. Slík niðurfelling felur auðvitað í sér að ríkisvaldið þarf að taka á sig ákveðnar fjárhagsbyrðar eða með öðrum orðum fær ekki til baka það sem áður hafði verið lánað. Ég tel því eðlilegt að gerð verði úttekt á þessum hluta málsins.

Um frumvarpið sem slíkt og uppbyggingu þess þá er það í samræmi við hið almenna greiðsluaðlögunarfrumvarp, sem samþykkt var sem lög frá Alþingi í gær, og það er í samræmi við þau sjónarmið sem forusta Sjálfstæðisflokksins hefur á fyrri stigum lagt áherslu á í frumvarpi um skuldaaðlögun sem hv. þm. Björn Bjarnason lét semja og lagði fram á Alþingi. Við í Sjálfstæðisflokknum getum fyllilega fallist á þá uppbyggingu sem er á frumvarpinu og teljum að hún gangi lagalega upp, enda er þetta frumvarp samið, ef svo má segja, af sömu mönnum og komu að samningu frumvarpsins um hina almennu greiðsluaðlögun, þrátt fyrir að fram hafi komið efasemdir við meðferð málsins í nefndinni við einstakar greinar og kannski fyrst og síðast við 12. gr. frumvarpsins sem málsmetandi aðilar í lögfræðiheiminum töldu að væri ábótavant og gengi í rauninni ekki upp eins og henni var fyrir komið í upphafi.

Af þeirri ástæðu hefði ég talið að vinna þyrfti örlítið betur í þessu máli þrátt fyrir að ég sé samþykkur efnisatriðum þess, en ég tel að þetta mál sé þess eðlis og það sama á við um frumvarpið um almenna greiðsluaðlögun, sem samþykkt var sem lög frá Alþingi í gær eins og áður sagði, að þessi mál þurfi að vera til stöðugrar endurskoðunar og eftirlits varðandi framkvæmd og framgang hjá Alþingi. Ég tel mikilvægt að þingið sjálft fylgist mjög vel með því hversu margir leita eftir því að komast í þetta úrræði vegna vandamála sinna og það sama eigi við um fasteignaveðkröfurnar.

Auðvitað er það fagnaðarefni að fulltrúar allra stjórnmálaflokka leggi þessu máli lið. Þetta mál er ekki stjórnarfrumvarp heldur er þverpólitísk sátt um það innan þingsins að reyna að fara þessa leið til að vernda heimilin í landinu, þó þannig að það eru auðvitað sett ákveðin skilyrði fyrir því að héraðsdómari geti veitt og tekið afstöðu til beiðni um að greiðsluaðlögun verði veitt. Héraðsdómari getur, eins og segir í 4. gr. frumvarpsins, hafnað beiðni um greiðsluaðlögun ef tilteknar aðstæður eru uppi. Því er í sjálfu sér ekki verið að veita dómstólum landsins óútfylltan tékka sem býðst öllum. Þar er t.d. tekið fram að héraðsdómari geti hafnað beiðni um greiðsluaðlögun þegar þannig stendur á að skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Í annan stað segir að hafi til skulda verið stofnað á þeim tíma sem skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar geti héraðsdómari hafnað slíkri beiðni. Það sama á við hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Með öðrum orðum fela þessi skilyrði og þetta ákvæði það í sér að flutningsmenn frumvarpsins eru reiðubúnir til þess að leggja sig fram um það að tryggja að heimilin í landinu og þeir sem hafa reynt að haga fjárhagsmálum sínum með skynsamlegum hætti eigi kost á þeim úrræðum sem hér eru til umfjöllunar. En hafi menn hagað sér óskynsamlega eða haft uppi háttsemi sem kann að varða þá refsingu eða jafnvel skaðabótaskyldu eiga þeir ekki kost á þessum úrræðum. Ég tel að þetta sé ábyrg afstaða löggjafans varðandi þessi úrræði og undirstrikar þann vilja okkar að koma til móts við þá sem þurfa á þessu úrræði að halda og eiga rétt til þess.

Við höfum aflað okkur gagna um húsnæðisskuldir heimilanna. Það eru áhugaverðar upplýsingar sem fram koma í þeim gögnum sem nefndin hefur kallað eftir. Settur hefur verið á stofn sérstakur starfshópur í Seðlabanka Íslands sem fjallar um skuldir heimilanna. Hann lagði fram á fundi nefndarinnar samantekt frá 27. mars árið 2009 sem er mjög upplýsandi um dreifingu húsnæðisskulda eftir eigna- og skuldahópum. Þar kemur fram að heildarfasteignaveðlánaskuldir í gagnagrunni sem starfshópurinn hefur undir höndum og samanstendur af gögnum frá Nýja Kaupþingi, Landsbankanum eða NBI, Íslandsbanka, Íbúðalánasjóði og sparisjóðunum og öðrum minni fjármálafyrirtækjum eru 1.260 milljarðar kr. Fasteignaveðlán frá lífeyrissjóðunum eru þar ekki innifalin en þau gætu numið 170 milljörðum kr. til viðbótar þannig að heildarhúsnæðisskuldir yrðu um 1.430 milljarðar kr. Öll lán, segir í plagginu, þar sem á bak við er veð í húsnæði eru skilgreind sem fasteignaveðlán. Af fasteignaveðlánum í grunninum eru 198 milljarðar í erlendri mynt, þar af 78 milljarðar kr. í svissneskum frönkum og 87 milljarðar kr. í japönskum jenum.

Í þessu plaggi er farið yfir það hvað afskriftir fasteignaveðlána mundu kosta ríkissjóð og þar eru tilteknar þær tvær aðgerðir sem helst hafa verið í umræðunni. Annars vegar 20% afskrift allra húsnæðisskulda og hins vegar 4 millj. kr. lækkun húsnæðisskulda hvers heimilis. Það er athyglisvert að fara yfir niðurstöðuna en hún er sú að sú leið að afskrifa skuldir hvers heimilis um 4 millj. kr. virðist vera dýrari en 20%-leiðin. Þetta er allt saman útskýrt í þessu plaggi og að sama skapi hvaða hópum þessar leiðir mundu nýtast. Ég ætla svo sem ekki að fara nánar út í þetta skjal, það er ágætt til síns brúks og þetta er mjög mikilvæg vinna sem þessi starfshópur Seðlabanka Íslands sem kom á fundi nefndarinnar hefur verið að vinna um skuldir heimilanna. Ég tel að hún komi ekki í staðinn heldur sé til viðbótar við þá kostnaðargreiningu sem þarf að fara fram, það kostnaðarmat sem þarf að fara fram af hálfu fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins vegna þessa máls. Þetta er, eins og ég sagði áðan, mikilvægt mál, það felur í sér mikilvæga aðgerð til þess að vernda heimilin í landinu. Það kann hins vegar að vera að á því séu ágallar sem þarf að lagfæra og ég tel því nauðsynlegt að áður en að samþykkt þess kemur verði farið formlega í það að kostnaðargreina málið fyrir þingmenn. Ég held að það verði erfitt fyrir okkur að standa að því að taka afstöðu til málsins áður en þeirri vinnu hefur verið lokið.



[15:27]Útbýting: