136. löggjafarþing — 122. fundur
 1. apríl 2009.
erlent eignarhald á íslenskum fyrirtækjum.
fsp. KHG, 447. mál. — Þskj. 796.

[14:08]
Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (U):

Virðulegi forseti. Í nýjasta fréttablaði ríkisskattstjóra, Tíund, er á forsíðu fyrirsögnin „Skattasmugur frítekjumanna“ og mynd af þekktum eyjum úr umræðunni hér, Cayman-eyjum, Tortóla og Guernsey svo nokkur dæmi séu nefnd. Þar er grein eftir Aðalstein Hákonarson, sem starfar hjá embættinu, og í útdrætti á henni segir, með leyfi forseta:

„Þá hafa íslenskir bankar þjónustað aðila sem skattskyldir eru á Íslandi við að flytja tekjur sem þeim bar að greiða skatta af hér á landi inn fyrir virkisgarð dótturfélaga sinna erlendis.“

Með öðrum orðum, þarna er vakin athygli á því að íslenskar fjármálastofnanir hafa beinlínis aðstoðað fyrirtæki og skattskylda aðila við að flytja innlent fé til útlanda til að komast hjá skattlagningu. Það minnir mig á grein eftir fyrrverandi ríkisskattstjóra, Indriða H. Þorláksson, sem birtist á heimasíðu hans í marsmánuði 2008 og heitir „Eignarhald á íslenskum fyrirtækjum – Hvert rennur hagnaður þeirra og skattar?“ Hann vekur athygli á því að samkvæmt athugunum sem hann hefur framkvæmt þá hafði bein fjármunaeign erlendra aðila á Íslandi margfaldast á aðeins fjórum árum. Árið 2002 var erlend fjármunaeign 64 milljarðar kr. en í árslok 2006 var fjárhæðin 538 milljarðar kr. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að þessi erlenda fjármunaeign hér á landi sé að stórum hluta fjármunir í eigu íslenskra aðila sem hafi flutt fé sitt til útlanda og notað það þaðan til að fjárfesta á Íslandi. Enn fremur að líklegt sé að menn komi sér undan því að greiða skatta af fénu sem sé upprunnið hér á landi með því að flytja það út, t.d. til Hollands, og skrá það formlega þar.

Hann segir, með leyfi forseta, í grein sinni:

„Af þessum sökum rennur verulegur hluti af hagnaði af starfsemi félaga hér á landi til erlendra aðila og hagnaður af starfsemi íslenskra fyrirtækja erlendis sem eru í eigu þessara félaga ílendist ekki hér. Þá hefur þetta fyrirkomulag veruleg áhrif til lækkunar á skatttekjum hér á landi …“

Hann segir jafnframt líka, með leyfi forseta:

„Erlent eignarhald á íslenskum félögum, hvort sem það er raunverulega erlent eða dulið íslenskt eignarhald, hefur mikil áhrif á tekjur ríkissjóðs“

Af því að nú ber svo vel í veiði að greinarhöfundur er orðinn tímabundið ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og þá eru hæg heimatökin hjá hæstv. fjármálaráðherra að kynna sér þessi mál, hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fyrirspurn:

„Hver eru talin hafa verið áhrif erlends eignarhalds á íslenskum félögum á tekjur ríkissjóðs og hver er helsta skýringin á þeim?“



[14:11]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er kærkomið að fá tækifæri til að fara aðeins yfir það hvernig skattlagningu fyrirtækja í eigu erlendra aðila er háttað hér á landi. Ábatinn af starfsemi þeirra felst fyrst og fremst í launum starfsmanna, hagnaði fyrirtækisins og vöxtum af fjármagni en mestur hluti ábatans rennur til hins erlenda eiganda, þ.e. annar en laun starfsmanna og skattur af hagnaði af starfsemi hér. Innlendur ábati af starfsemi í eigu erlendra aðila ræðst því að verulegu leyti af því hvernig staðið er að skattlagningu.

Öll atvinnustarfsemi erlendra aðila hér á landi fellur undir íslensk skattalög og eru fyrirtæki erlendra aðila skattskyld af þeim tekjum sem hér verða til, það er almenna reglan. Að auki getur erlendum eigendum félaga verið gert að greiða afdráttarskatt af þeim arði sem þeir taka til sín af félaginu. Skatttekjur af erlendri fjárfestingu í formi lána hafa hins vegar engar verið hér og vextir sem greiddir eru úr landi hafa ekki verið skattlagðir hér ólíkt því sem er í flestum öðrum ríkjum.

Skattaleg meðferð virðisauka af erlendri fjárfestingu hér á landi er mjög mismunandi. Sá hluti virðisaukans sem fer í laun sætir að jafnaði mestri skattlagningu. Hagnaður félaga er skattlagður mun vægar og vextir til erlenda aðila hafa eins og áður sagði verið skattfrjálsir. Þótt íslenskar reglur um skattlagningu tekna erlendra aðila séu að formi til sambærilegar því sem er í öðrum löndum er sköttum hér beitt í minna mæli til að tryggja innlenda hlutdeild í þeim virðisauka sem hér skapast. Með lækkun á tekjuskatti félaga á undanförnum árum, lækkun fjármagnstekjuskatts, skattfrelsi á arðgreiðslum milli félaga og fleiri breytingum hefur hlutdeild landsins í þessum virðisauka verið minnkuð umtalsvert og engar sérstakar ráðstafanir hafa verið til staðar til að hindra að slíkur arður renni óskattlagður úr landi. Framangreint á ekki aðeins við framleiðslufélög í eigu erlendra aðila svo sem álver heldur einnig um fjármálafélög og eignarhaldsfélög sem erlendir aðilar eiga hér á landi. Þær reglur sem á þessum vettvangi gilda gera það að verkum að bæði sá hagnaður sem þessi félög fá erlendis frá og af innlendri starfsemi þeirra á greiða leið úr landi án þess að veruleg skattlagning komi til.

Eins og kunnugt er eru öll stóriðjuver á Íslandi í eigu erlendra aðila. Reikna má með að tekjuskattur eins álvers af þeirri stærð sem algeng er hér á landi geti verið um einn og hálfur milljarður dala í meðalári. Þess ber þó að geta að vegna hagstæðra afskrifta greiða álverin að jafnaði engan tekjuskatt fyrstu sjö til tíu árin. Þannig greiða væntanlega einungis tvö álver tekjuskatt á næstu árum og er hann reyndar um helmingi lægri nú en hann hefði verið án þeirra breytinga á sköttum félaga sem gerðar hafa verið síðustu ár. Þau og orkuverin sem sjá þeim fyrir raforku eru fjármögnuð með erlendu fé og skatttekjur af því hér á landi eru engar.

Þá er einnig kunnugt að fjölmörg íslensk fyrirtæki, einkum á fjármálasviði, hafa verið beint eða í gegnum millilið í eigu erlendra félaga. Á það við hið sama og að framan segir að skattur hér á landi er ekki verulegur hluti þess hagnaðar sem þau hafa aflað hér og enginn skattur greiðist af þeim hagnaði erlendra dótturfélaga þeirra sem þau kunna að hafa tekið til sín í formi arðs. Ekki liggja fyrir tölur um þann hagnað sem hér um ræðir en ljóst er að hann er umtalsverður. Erlendir skráðir eigendur áttu meiri hluta þeirra fjármálafyrirtækja sem umsvifamest voru hér á landi og ljóst að samsvarandi hluti af hagnaði þeirra félaga féll til erlendra eigenda. Sé einnig svo, eins og ýmsir hafa haldið fram að undanförnu, að hinir raunverulegu eigendur hinna erlendu eignarhaldsfélaga séu íslenskir menn eða félög er ljóst að lág skattlagning hefur þó ekki dugað til að halda þeim hér á landi og þeir hafa talið sig þurfa að bæta hlut sinn enn ofan á lága skatta hér með hreinni skattasniðgöngu.

Ég vil svo að lokum bæta við að hendur hafa verið látnar standa fram úr ermum í þessu efni í fjármálaráðuneytinu frá 1. febrúar sl. og þess sér m.a. stað í frumvarpi sem ég vænti að bíði nú 3. umr. og lokaafgreiðslu hér á þingi, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og staðgreiðslu, með síðari breytingum. Þar er m.a. lagt til að tekin verði upp skattlagning vaxta sem erlendir aðilar fá greiddan héðan frá landinu, svonefndir afdráttarskattar, sem fyrst og fremst hafa það í för með sér að hluti slíkra skatttekna rennur til ríkissjóðs Íslands í staðinn fyrir að renna óskertur úr landi og koma öðrum ríkjum til góða. Sömuleiðis er í þessu frumvarpi að finna upptöku svonefndra CFC-reglna til þess að samskatta móðurfélög og dótturfélög á aflandssvæðum þannig að hluti slíkra skatttekna (Forseti hringir.) komi sömuleiðis okkur Íslendingum og ríkissjóði okkar til góða.



[14:16]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er hárrétt að þau fyrirtæki sem eru með eignarhald víða um heim og sérstaklega í þessum Jómfrúreyjum og öðrum eyjum, koma sér undan því að borga skatta til ríkisins en það er ekki aðalvandinn. Aðalvandinn er sá að eignarhaldið er líka dulið og mjög margt er svipað hulu með þessum fyrirtækjum og það skaðar atvinnulífið miklu meira. Krosseignarhald getur verið dulið á þennan hátt, keðjueignarhald o.s.frv.

Síðast á dagskrá fundarins í dag er þingsályktunartillaga frá mér um að búa til hlutafélög með gagnsæju eignarhaldi. Ég held að það sé lausn okkar á þessum vanda og lausn okkar á þeim vanda sem fjármálamarkaðurinn og atvinnulífið hefur liðið fyrir og hugsanlega hefur valdið því hruni sem varð í haust. Ég held að svarið sé heiðarleiki og gagnsæi.



[14:18]
Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (U):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin og hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir framlag hans til umræðunnar. Ég er sammála því sem fram kom í máli hans. Ég held að það verði ekki nógsamlega dregið fram og hamrað á því á næstunni að við verðum að læra af þeim vítum sem við sjáum liggja í fortíðinni í þessum efnum. Það er alveg greinilegt að niðurstaða hæstv. fjármálaráðherra er í meginatriðum sú sama og Indriði H. Þorláksson komst að í greinargerð sinni í mars 2008. Þær ályktanir hans eru því nú orðnar skoðun ráðherra sem hefur auðvitað miklu meira vægi og ber að taka af fullum þunga alvarlega og ráðherrann hefur líka möguleika á að koma fram breytingum til að fyrirbyggja að áframhald verði á því athæfi sem gagnrýnivert er. Ráðherrann hefur lýst því að hér í þinginu eru til meðferðar breytingar sem að nokkru leyti eiga að stemma stigu við þeirri óheillaþróun sem varð.

Ég mundi vilja beina því til hæstv. ráðherra að hann setti í gang athugun á því hvað íslenska ríkið er talið hafa tapað miklum fjármunum á síðustu 3–4 árum vegna þess að íslenskir aðilar nutu leiðbeininga íslenskra fjármálafyrirtækja, eins og banka og endurskoðunarfyrirtækja, til að komast fram hjá eðlilegum leikreglum í þjóðfélaginu að borga sína skatta. Það dugði ekki til að skattarnir væru lágir eins og fjármagnstekjuskattur því að græðgin var svo mikil að menn tímdu ekki einu sinni að borga það og notuðu þessa leið til að komast hjá því að taka þátt í að leggja sinn skerf í þjóðfélaginu og leggja sitt fram til að halda uppi velferðarþjóðfélagi. Í mínu ungdæmi voru þeir sem svona höguðu sér kallaðir aumingjar og það mega þeir heita, þessir ágætu menn.



[14:20]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Pétri Blöndal. Það er alveg laukrétt að vandamálið er tvíþætt þegar þetta eignarhald á aflandssvæðum í gegnum keðju félaga, dótturfélaga, eignarhaldsfélaga, skúffufélaga á í hlut. Það er ekkert síður það sem stingur í augu að þarna er verið að dylja eignarhald og fela hina raunverulegu eigendur um leið og yfirleitt er einhver viðleitni í gangi til að komast undan sköttum og hvort tveggja á auðvitað að stoppa. Það má þá kannski kalla það lán í óláni að fátt sé svo með öllu illt að nú er í gangi mikil þróun á alþjóðavettvangi að taka á þessu af því að nú hafa menn lært af ósköpunum og sjá hversu óheilbrigt og skaðvænlegt þetta umhverfi var sem búið var til og staðinn var dyggur vörður um af ýmsum, t.d. Bretum, Bandaríkjamönnum og fleirum í anda þeirrar nýfrjálshyggju sem sveif yfir vötnunum þar sem allt átti að vera svo himnafrjálst og líka frjálst að borga ekki skatta og dylja eignarhald og annað í þeim dúr.

Ég held að það sé ástæða til að rifja það upp að skattstjórar, bæði núverandi og fyrrverandi, skattrannsóknarstjórar og ýmsir fleiri aðilar hafa á undanförnum árum verið að hvetja til aðgerða í þessum efnum. Það liggja fyrir margar góðar skýrslur um þau mál en það var ekkert gert af hálfu framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins, ekki neitt. Það er stórmerkilegt að uppgötva að það skyldi ekki einu sinni vera innleidd hér á landi sambærileg löggjöf og eiginlega alls staðar er búið að gera í kringum okkur, t.d. í sambandi við afdráttarskatta, vaxtagreiðslur úr landi og í sambandi við sérreglur í skattlagningu gagnvart lágskattasvæðum.

Ég legg áherslu á að það er mikilvægt að fá það frumvarp afgreitt sem nú liggur fyrir Alþingi. Þar er verið að taka á tveimur þessara þátta, mjög fortakslaust. Ég vil einnig láta koma fram að það er vinna í gangi í ráðuneytinu til þess að stórefla eftirlit í þessum efnum og til að styðja við bakið á skattyfirvöldum í staðinn fyrir að halda aftur af þeim í því að sinna starfi sínu með skilvirkum hætti og það verður gert á meðan ég hef eitthvert húsbóndavald í fjármálaráðuneytinu.