136. löggjafarþing — 124. fundur
 2. apríl 2009.
bætur til Breiðavíkurdrengjanna.

[11:22]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Öll þekkjum við málefni Breiðavíkurdrengjanna sem hafa verið í deiglunni síðustu tvö árin, um að borga þeim skaðabætur, en það hefur látið á sér standa að klára þau mál. Ég spyr þess vegna hæstv. forsætisráðherra hvað því líði, hvar málið sé statt, hvers sé að vænta, hvort við megum búast við því að fyrir kosningar verði búið að ganga frá samningum og bótum við þessa ógæfusömu drengi sem lentu í þeim hörmungum að vera sendir þangað, rifnir frá fjölskyldum sínum og sendir í betrunarvist, eða hvað á að kalla það, á Breiðavík.

Breiðavíkurmálið er stór, svartur blettur á íslensku þjóðinni og við eigum að sjá sóma okkar í því að laga það og borga þessum drengjum bætur. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvað því máli líði.



[11:23]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda að það er mjög brýnt að fara að fá lyktir í þetta mál og ganga frá þeim bótum sem eru ásættanlegar í þessu máli. Ég tek undir það að þetta er svartur blettur á þjóðinni og við þurfum að fá lyktir í það mál. Við höfum átt fund með forsvarsmönnum Breiðavíkursamtakanna í forsætisráðuneytinu til þess að ræða ásættanlega lausn en eins og hv. þingmenn þekkja voru þeir óánægðir með þá niðurstöðu sem kom úr nefnd sem fjallaði um þetta mál.

Við áttum ágætan fund með þeim og ræddum ýmsa möguleika á lyktum í þessu máli. Það er kannski hálfur mánuður eða þrjár vikur síðan við ræddum við þá og þá settum við fram ákveðnar hugmyndir til þeirra sem við höfum ekki enn fengið svar við en ég er að vonast til þess að við getum lokið þessu með ásættanlegri niðurstöðu sem allra fyrst. Það stendur ekki á okkur í þessu máli að ræða við forsvarsmennina og reyna að fá ásættanlega niðurstöðu. Boltinn er núna hjá þeim og ég vonast til þess að við heyrum í þeim sem fyrst og getum þá lokið þessu máli. Ég held að það sé hægt að ljúka þessu með öðrum hætti en frá var gengið í nefndinni og það er verið að skoða önnur heimili líka. Við þurfum að skoða það að niðurstaðan sem þeir fá núna sé þá a.m.k. ekki lakari en gæti komið að því er varðar niðurstöðu hvað varðar önnur heimili.



[11:25]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessi svör og ég vænti þess að þetta muni leiða það af sér að viðunandi niðurstaða fáist í málið fyrir kosningar. Það er mikið atriði fyrir þá einstaklinga sem þarna eiga í hlut, hvað sem þeir eru margir, 150 eða 160, að þeir fái einhverja niðurstöðu í sín mál.

Mannréttindi voru brotin á þessum drengjum á sínum tíma og það mjög alvarlega. Það eru auðvitað fleiri mannréttindabrot sem ríkisstjórnin þyrfti að huga að og nota tækifærið á meðan þeir hafa til þess völd að kippa í liðinn eins og mannréttindabrot gegn íslenskum sjómönnum.