136. löggjafarþing — 124. fundur
 2. apríl 2009.
staðgöngumæðrun.

[11:26]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að hæstv. heilbrigðisráðherra er ekki í salnum. Ég mundi gjarnan vilja fá hann í salinn áður en ég hef mál mitt.

(Forseti (GuðbH): Hæstv. ráðherra er hér í hliðarsal og kemur eftir augnablik.)

Ég vil fá að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvað líði störfum vinnuhóps sem skoða á siðfræðileg, lögfræðileg og læknisfræðileg álitaefni varðandi staðgöngumæðrun og hvort leyfa eigi staðgöngumæðrun hér á landi.

Forsaga málsins er sú að í september beindi ég fyrirspurn til þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra um þetta mál og ákvað ráðherra þá í framhaldinu að hópurinn skyldi settur á laggirnar. Skipan hópsins dróst þó eitthvað vegna þeirra aðstæðna sem upp komu fljótlega þar á eftir en ég veit til þess að hann var svo skipaður í janúar.

Staðgöngumæðrun er eitt þeirra úrræða sem konur, sem af einhverjum ástæðum geta ekki eignast börn, hafa til þess að grípa til. En þetta er ekki einfalt mál og þarf að skoða það út frá ýmsum hliðum áður en gerð er lagabreyting hér á landi eða ákvörðun tekin um það hvort þetta skuli leyft eða ekki og þess vegna var þessi hópur skipaður. Það er mjög mikilvægt, ef ákvörðun yrði tekin um það að fara í breytingar af þessu tagi, að almenn sátt ríki um það og þess vegna er mikilvægt að sem flestir aðilar komi að því að skoða þetta áður en þetta fer í almenna umræðu. Við þurfum að geta farið yfir þessi mál fordómalaust og með allar upplýsingar fyrir framan okkur áður en ákvörðun um breytingar — ef við viljum gera breytingar — verður tekin, um að þetta verði leyfilegt. Eins og staðan er nú geta konur og tilvonandi foreldrar farið til útlanda og gert þetta. Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort niðurstöðu umrædds starfshóps sé að vænta.



[11:28]
heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hefði verið betur undir það búinn að svara þessu ef ég hefði fengið að vita um fyrirspurnina áður. Þetta er hins vegar óundirbúinn fyrirspurnatími þannig að ég þarf að skoða málið nánar til að vita hvar það er statt eins og hv. þingmaður innir mig eftir. Hv. þingmaður vísar í starfshóp sem er að skoða ýmsar hliðar á þessum málum.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að þetta málefni fái rækilega skoðun og rækilega umræðu. Ég þakka fyrir að vakið skuli máls á málefninu hér í sölum Alþingis. Ég mun ganga eftir því að fá í hendur upplýsingar um hvar málið er á vegi statt eins og hv. þingmaður óskar eftir.



[11:29]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér í ræðustól og segja mér að hann hafi ekki verið undirbúinn undir óundirbúna fyrirspurn. Ég get svo sem alveg haft samúð með því, þetta er ekki mál sem maður fylgist með frá degi til dags og ég þakka fyrir þann tón sem var í ræðu hæstv. ráðherra, þ.e. að hann ætli að afla sér upplýsinga og koma þeim til mín.

Við erum sammála um að þetta þurfi að fara í rækilega skoðun en ég vil þó ítreka það sjónarmið við hæstv. ráðherra að sú rækilega skoðun má ekki taka of langan tíma vegna þess að fólk sem er að bíða eftir þessu úrræði hefur eðli málsins samkvæmt, vegna þess hvernig náttúran virkar, ekki langan tíma.

Ég veit af mörgum einstaklingum og pörum sem bíða í startholunum eftir því að þetta úrræði verði leyft. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að (Forseti hringir.) koma þeim upplýsingum til mín sem hann lofaði og vona að það taki ekki langan tíma.



[11:30]
heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að margir bíða niðurstöðu í þessari athugun og skoðun og ég mun koma umbeðnum upplýsingum á framfæri við þingmanninn.