136. löggjafarþing — 124. fundur
 2. apríl 2009.
stjórnarskipunarlög, 2. umræða.
frv. JóhS o.fl., 385. mál (stjórnlagaþing, náttúruauðlindir í þjóðareign og þjóðaratkvæðagreiðslur). — Þskj. 648, nál. 881 og 892, brtt. 805 og 882.

[11:41]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Dagskrá dagsins liggur fyrir um mál 6–9. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þeim. Við þekkjum öll 5. dagskrármálið, stjórnarskipunarlögin, en mál 6–9, t.d. 6. dagskrármálið um tekjuskatt vegna vaxtabóta — en síðast en ekki síst er 9. málið afar brýnt að okkar mati, þ.e. heimild til samninga um álver í Helguvík, að við fáum það í umræðuna.

Ég kem hingað upp til að undirstrika það að við sjálfstæðismenn viljum forgangsraða dagskrá þingsins í þágu atvinnumála, í þágu verðmætasköpunar og í þágu efnahagsmála. Við undirstrikum það með því að fara fram á það við hæstv. forseta að breyta dagskrá þingsins á þann veg að við komum mikilvægu málunum, málunum sem hægt er að ná sátt um — sem leiða til uppbyggingar fyrir atvinnufyrirtækin í landinu, sem slá skjaldborg um heimilin sem allir eru að tala um en lítið verður úr — áfram í þinginu og látum þá neðar á dagskrána þau mál sem munu eðlilega sæta mikilli umræðu á næstu klukkustundum.



[11:43]
Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Það liggur fyrir að þegar frumvörp til stjórnarskipunarlaga eru til umræðu á Alþingi þá kallar það á mikla umræðu.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir er lagt fram í miklu ósætti innan þingsins og hjá þeim aðilum sem leitað hefur verið álits hjá úti í samfélaginu er mikið ósætti um marga þætti þess. Það er því óhjákvæmilegt fyrst málið er að koma til 2. umr. að það verði rætt ítarlega og rökræður fari fram um það fram og til baka. Það er óhjákvæmilegt. Stjórnarskipunarlög eru grundvallarlöggjöf og krefjast mikillar umræðu.

Mér finnst það sæta furðu að hæstv. forseti skuli hafa sett mál sem ætla mætti að góð samstaða gæti náðst um, mál sem gætu fengið hraða afgreiðslu í þinginu, á dagskrá á eftir stjórnarskipunarlögunum. Eðlilegra væri að breyta röðinni á þann veg að við tökum þessi brýnu atvinnumál og hagsmunamál heimilanna fyrir og geymum stjórnarskipunarlögin þar til við erum búin að ljúka þeim brýnu verkefnum.



[11:44]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég á ekki von á því að mál sem góð samstaða hefur ríkt um fái hér skjóta afgreiðslu frekar en hingað til. Við höfum ekki verið að ræða eitt einasta ágreiningsmál í þinginu undanfarna daga. Það er samstaða um mál úr nefndum — allir fulltrúar allra flokka — samstaða um nefndarálit og allt á hreinu. (Gripið fram í.) Engu að síður hafa við 3. umr. hafist langar einræður um þessi mál eins og um eitthvert ósætti væri að ræða.

Mitt erindi að öðru leyti í þennan ræðustól, herra forseti, er að vekja athygli á því að ég á eftir að fá tóm til að skrifa og gera minnihlutaálit vegna 9. dagskrármálsins og óska eftir að tekið verði tillit til þess að það megi ná útbýtingu áður en það mál kemur til umræðu.



[11:45]
Siv Friðleifsdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Við erum að verða vitni að því hér að Sjálfstæðisflokkurinn reynir að setja stjórnarskrármálið í einhvern búning sem á að forsvara málþóf af þeirra hálfu. Það er alveg greinilegt og þau reyna að segja að það sé eðlilegt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki hegðað sér með nokkru móti eðlilega í þessu máli. Sem dæmi um það horfðum við upp á það í fyrradag að inn kom mál um að ná gjaldeyri inn í landið sem á að skila sér, mál sem þurfti að afgreiða mjög hratt og allir vissu það og að lokum var það afgreitt hratt. En þá tóku sjálfstæðismenn upp á því að taka það mál í gíslingu (Gripið fram í.) og það sýnir hvað þetta eru óeðlileg vinnubrögð. Það átti að blanda stjórnarskrármálinu inn í það.

Virðulegur forseti. Það er ekkert annað að gera en að vinda sér í dagskrána eins og hún liggur fyrir og ég skora á hæstv. forseta að standa við hana og svo verðum við bara að sjá hvað eðlilega langur tími þýðir í munni sjálfstæðismanna. (Gripið fram í.)



[11:47]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst óþarfi af hv. þingmanni Framsóknarflokksins að leggja okkur sjálfstæðismönnum línurnar. Það er eðlilegt og öll þjóðin veit að þegar á að gera breytingar á stjórnarskránni, grundvallarlögum lýðveldisins, er eðlilegt að um það sé rætt. Hv. þingmaður hefur skrifað undir eið að stjórnarskránni og á að virða hana og það ætlum við sjálfstæðismenn að gera og ræða um þau mál.

Gallinn við stjórnarskipunarmálið er að það leysir ekki vanda heimilanna. Það hefur ekkert með skuldir heimilanna að gera og ekkert með málefni atvinnulífsins að gera. Á forsíðu Morgunblaðsins í gær var farið yfir það að 13 þúsund námsmenn verða án vinnu í sumar. Ég ræddi þau mál við (Gripið fram í.) stúdenta á fundi Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, í háskólanum í gær þar sem fram komu miklar áhyggjur. Væri ekki vænlegra fyrir ríkisstjórnina (Forseti hringir.) og hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að ræða frekar atvinnumál ungs (Forseti hringir.) fólks í landinu sem fyrirséð er (Forseti hringir.) að muni mæla göturnar ef ekkert verður (Forseti hringir.) að gert, frekar en ræða um stjórnarskrána.



[11:48]
Sturla Böðvarsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt hlutverk forseta Alþingis að leita sátta í þinginu þegar deilt er. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. forseta eindregið til að taka tillit til þeirra ábendinga sem hér hafa komið fram í þeim tilgangi að við náum að ræða önnur mál en stjórnarskipunarmálin sem hér eru á dagskrá, mikilvæg atvinnumál áður en við tökum til við að ræða þá mikilvægu breytingu sem lagt er til að gera á stjórnarskipunarlögunum. Stjórnarskipunarlög fyrir íslenska lýðveldið hlýtur að verða að ræða og við hljótum að taka tillit til þess og þess vegna á forseti að efna til fundar með forustumönnum stjórnmálaflokkanna og reyna að ná sátt um breytingar á dagskránni og ég hvet hann til þess.



[11:49]
Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að hlutverk forseta er að stuðla að því að sátt verði náð um það með hvaða hætti og hvernig dagskrá sé hagað og ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað að það eigi að setja atvinnumálin í forgang. Uggvænlegt er að horfa á það, miðað við þær tölur sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson greindi frá, að um 13 þúsund námsmenn eru án vinnu. Þegar eru 18 þúsund manns atvinnulausir í þjóðfélaginu þannig að þessir 13 þúsund námsmenn bætast þar við. Það er alveg ljóst að þetta er mesta og alvarlegasta vandamálið sem við glímum við í dag. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talar um að tafist hafi að afgreiða mál varðandi aukin og hert gjaldeyrishöft. Eðlilega þurfti að taka tíma til að skoða hvort flötur væri á því fyrir okkur sjálfstæðismenn að standa að þeim hlutum. Við vildum ekki standa gegn því þegar upp var staðið, (Forseti hringir.) en þetta braut að hluta til í bága við þá meginskoðun, (Forseti hringir.) sem ég og við höfum talað fyrir um að gjaldeyrishöftunum ætti að létta (Forseti hringir.) af sem fyrst og helst að afnema þau með öllu. (Gripið fram í.)



[11:51]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér hefur spurningu verið beint til hæstv. forseta um það hvort hann væri ekki til í að raða dagskrá þingsins upp þannig að mikilvæg atvinnumál megi koma á dagskrá. Hér eru einnig mikilvæg skattamál sem eru síðar á dagskránni. Það hlýtur að vera eðlileg spurning til hæstv. forseta hvort hann vilji ekki taka tillit til þeirra sjónarmiða sem hér hafa komið fram og ég minni á að hæstv. forseti, eins og kom fram í máli hv. þm. Sturlu Böðvarssonar, hefur það hlutverk á Alþingi að leita sátta um hvernig megi ná fram málum.

Nú óska ég eindregið eftir því að hæstv. forseti svari því hvort hann ætlar að raða dagskránni upp á nýtt og taka fyrir þau mikilvægu atvinnumál sem eru hér, eins og heimild til samninga um álver í Helguvík, (Forseti hringir.) skattamál (Forseti hringir.) og þau mál sem skipta heimilin (Forseti hringir.) og fyrirtækin máli. (Gripið fram í.)



[11:52]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti getur upplýst að hann er búinn að gera dagskrá fyrir daginn og hún stendur en hann er ávallt reiðubúinn til að ræða frekar við þingflokksformenn um dagskrárgerð. Það var gert síðast nýlega þar sem rætt var um þau mál sem þyrfti að ljúka og forseti mun ávallt vera tilbúinn til að skoða það ef óskað er eftir og sátt er um að tryggja að framgangur mála verði hraður. Um það náðist ekki samkomulag fyrr en seint að taka þrjú mál af tuttugu í gegn í gærkvöldi og það var því ákvörðun forseta að hafa þessa röð mála í dag til að hleypa mjög mikilvægu máli inn í umræðu í þinginu. (Gripið fram í.)



[11:53]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það liggur ljóst fyrir að við sjálfstæðismenn viljum ræða önnur brýnni mál en stjórnarskrána, sem verður greinilega afgreidd í miklu ósamkomulagi. En það liggur líka fyrir að forseti þingsins á að hugsa annars vegar um þingið og virðingu þess og hins vegar um þjóðina. Hann hefur nú ákveðið að við eigum ekki að ræða mál sem snerta þjóðina og hagsmuni hennar beint. Forsetinn hefur ákveðið að forgangsraða dagskránni þannig að atvinnumálin eru síðar á dagskránni. (Gripið fram í.) Forseti þingsins hefur annars vegar ákveðið það (Gripið fram í.) og hins vegar að forgangsraða stjórnlagaþinginu og breytingu á stjórnarskránni. Hvað þýðir stjórnlagaþingið? (Gripið fram í.) Stjórnlagaþingið þýðir að verið er að rýra völd þingsins, það er verið að rýra virðingu þingsins, það er verið að taka frá þinginu helsta tæki þess, sem er að setja og samþykkja stjórnarskrá. Núverandi forseti þingsins verður að gera sér grein fyrir því að hann er ekki bara upp á punt heldur á hann að standa vörð um stjórnarskrána, hann á að standa vörð um þingið og hann á að standa vörð um atvinnusköpun fyrir þjóðina. (Gripið fram í: Hann er forseti allra þingmanna.)



[11:54]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti vill taka fram að þingið ræður en ekki forseti þannig að það sé á hreinu. (Gripið fram í: Ha?) (ÞKG: Veistu ekki hvernig þú átt að gera þetta?) Forseti er að stjórna fundi og hefur raðað upp dagskrá í samráði við þá sem þar koma að. (ÞKG: Hverjir eru það?) Það eru þingflokksformenn sem hafa setið að því að ræða … (ÞKG: Forsætisráðherra? Eða hverjir eru það?)



[11:54]
Höskuldur Þórhallsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla sérstaklega þeim orðum sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir létu falla í salnum áðan þar sem þær sögðu að við framsóknarmenn vildum ekki ræða um Helguvík og að við vildum ekki ræða um atvinnumál. Það er af og frá. (Gripið fram í.) Umræðan um stjórnlagaþingið er afar brýn vegna þess að í ljós kom (Gripið fram í: Kom í ljós …) við bankahrunið að (Gripið fram í.) eftirlitskerfið stóra virkar ekki og það verður einfaldlega að fara í gegnum það. (Gripið fram í.) Ég hvet sjálfstæðismenn til, í staðinn fyrir að boða málþóf þar sem þeir fara væntanlega í andsvör hver við annan og ræða þetta í 2–3 daga, (Gripið fram í.) að klára það mál og fara svo í brýnni mál. Þetta er afar brýnt mál. (Gripið fram í.) Mig langar til að spyrja hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur þegar við ræðum atvinnumál. Hvar var Sjálfstæðisflokkurinn þegar sparkað var í verkefnið á Bakka? Var það ekki atvinnusköpun? (Forseti hringir.) Af hverju stóð Sjálfstæðisflokkurinn ekki í lappirnar (Forseti hringir.) þegar [Frammíköll í þingsal.] fyrrverandi umhverfisráðherra (Forseti hringir.) kvað upp úrskurð (Forseti hringir.) sem braut öll lög (Forseti hringir.) og reglur?



[11:56]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti vill biðja hv. þingmenn að gefa ræðumönnum tækifæri til að flytja mál sitt og jafnframt að virða tímamörk.



[11:56]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Sjaldan hefur verið meira áríðandi að ræða fundarstjórn forseta. Hér er forseti ekki að vinna með forsætisnefnd og hér eru menn hreint og klárt að setja mál sem alls ekki var lagt upp með að þessi ríkisstjórn mundi gera. (Gripið fram í.) Enginn hefur gagnrýnt það meira en formaður Framsóknarflokksins, en hann benti réttilega á að ekki hefur verið farið í þessar nauðsynlegu efnahagsaðgerðir. Enn og aftur stöndum við hér, virðulegi forseti, með dagskrá þar sem menn eru ekki með þau mál sem skipta mestu máli. Það þýðir ekki fyrir menn að koma hér og segja að stjórnlagaþingið (Gripið fram í.) hafi eitthvað með Fjármálaeftirlitið eða Seðlabankann að gera, (Gripið fram í.) enda er það ekki það brýnasta núna. Það liggur hreint og klárt fyrir að brýnt er að fara í nauðsynlegar efnahagsaðgerðir. Það er það sem formaður Framsóknarflokksins hefur m.a. sagt hvað eftir annað og bent réttilega (Gripið fram í.) á að þessi ríkisstjórn er ekki að gera neitt í því. En enn og aftur erum við með mjög sérkennilega dagskrá og enn og aftur er forseti þingsins að gera eitthvað allt annað en að reyna að hjálpa fólkinu í landinu sem þarf (Forseti hringir.) á aðstoð að halda nákvæmlega núna.



[11:57]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa því yfir að forsetinn stendur sig með eindæmum vel í því sem hér á sér stað.

Virðulegi forseti. Ég er sammála sjálfstæðismönnum hvað það varðar að öll þau mál sem eru á dagskrá frá 5–9 eru afar brýn. Hv. sjálfstæðismenn hafa komið hér upp og sagst ætla að ræða stjórnarskrána og stjórnarskrárbreytingar mjög mikið. Ég er sammála því. Hv. þingmenn hafa líka sagt að þau efnahagsmál sem síðar eru á dagskránni séu mikilvæg og ég er sammála því. Á hinn bóginn verð ég að segja eins og er að það kemur mér á óvart að hv. þingmenn, þ.e. minni hluti þingsins, skuli tala á þann hátt að þeir eigi skilyrðislaust að hafa dagskrárvald yfir þinginu. Hæstv. forseti hefur sett fram dagskrá með mjög mikilvægum málum. Vel má vera að einhverjir þingmenn telji að númeraröð hefði átt að vera á annan hátt en allt eru þetta afar mikilvæg mál og mikilvægt að þau komist í umræðuna. (Gripið fram í.) Það er mikilvægt að sjónarmiðin fái að heyrast (Forseti hringir.) og það er mikilvægt, virðulegi forseti, að hægt sé að hefja (Forseti hringir.) þessa umræðu. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það er meginatriðið, herra frammíkallari.



[11:59]
Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil eindregið taka undir orð hv. þm. Sturlu Böðvarssonar og áskorun hans til forseta um að leita sátta um dagskrána. Það er alveg augljóst að þingstörfum er þannig háttað núna að nauðsynlegt er að forseti Alþingis taki þannig á málum að leitað sé sátta um meðferð mála.

Hér hefur komið fram mjög eindregin og hörð gagnrýni á það hvernig málum er raðað á dagskrána og ég undrast að hæstv. forseti skuli ekki verða við eindreginni áskorun um að setjast niður með forustumönnum þingsins í von um að sátt takist um það hvernig dagskrá dagsins verður háttað. Það er alveg augljóst að dagskránni er raðað þannig að hin brýnu mál — enda kom það fram í máli hv. þm. Framsóknarflokksins, Höskulds Þórhallssonar, að hann taldi að brýnni mál væru til afgreiðslu heldur en þetta stjórnarskrármál — (Gripið fram í.) þannig að ég tel, hæstv. forseti, að það sé skylda forseta við þessar aðstæður að gera hlé á fundinum og leita sátta til að þessi dagskrá nái fram að ganga í dag.



[12:00]
Siv Friðleifsdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að þegar hæstv. forseti raðaði upp dagskránni gerði hann það í þeim anda sem um var rætt á fundi með þingflokksformönnum. Þar vildu allir þingflokksformenn byrja á stjórnarskrármálinu, setja það fyrst á dagskrá, (Gripið fram í: Allir?) nema þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.) Á þá þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins að ráða dagskránni? Það gengur ekki upp, virðulegur forseti, þannig að þetta er bara útrætt varðandi þann fund. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: … keyra í …) (Gripið fram í: … valta …)

Sjálfstæðisflokkurinn stýrir ekki dagskrá þingsins hér lengur, virðulegur forseti, en hann sóttist eftir tvöföldum ræðutíma um stjórnarskrármálið sem var ósköp eðlilegt. Þingflokkar eiga rétt á því og við förum í tvöfaldan ræðutíma. En það sem verður fróðlegt að sjá (Forseti hringir.) er hvað eðlilega löng umræða þýðir hjá Sjálfstæðisflokknum. (Forseti hringir.) Hvað þýðir það? Að sjálfsögðu ræðum við þetta mál en (Forseti hringir.) við vonumst til þess að sjá ekki málþóf því að þá komast hin málin ekki á dagskrá sem eru þar á eftir. (Gripið fram í: Hvað þýðir málþóf?)



[12:02]
Gunnar Svavarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hef verið hér í tvö ár. Umburðarlyndi mitt er löngu landsþekkt, ég hef aldrei nokkurn tíma gert athugasemdir við dagskrá þingsins og mun ekki gera það heldur að þessu sinni, enda er þetta spurning um huglægt eða hlutlægt mat í þeim efnum.

Nákvæmlega á sama hátt ræddum við hér á mánudaginn. Þá kom hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og óskaði eftir því að hér yrði tekin til umræðu skýrsla Ríkisendurskoðunar. Ég kom í pontu í þeirri umræðu og óskaði eftir því að umrædd skýrsla yrði send fjárlaganefnd. Ég komst síðan að því að hún hafði þegar verið rædd á þinginu og/eða þá að ný skýrsla Ríkisendurskoðunar er ekki komin út þannig að stundum er það þannig — (Gripið fram í.) (Gripið fram í: … huglægt.)

Ég ætla að biðjast afsökunar á þessu frumhlaupi mínu, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) því að ég stóð í þeirri meiningu að skýrslan ætti að vera hér til umræðu (Forseti hringir.) en ítreka að við vorum búin að ræða hana og/eða þá að hin nýja skýrsla er ekki komin út.



[12:03]
Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að forseti — sem eins og komið hefur fram í þessari umræðu er ekki forseti ríkisstjórnarinnar eða forseti meiri hlutans á þingi heldur forseti alls þingsins — ætti að leggja sig fram við að ná einhverri niðurstöðu í þessu máli í sátt. Ég held að það mundi greiða fyrir störfum þingsins ef menn gætu sest hérna niður og rætt um það, t.d. formenn þingflokka, hvernig haga ætti þessum málum. Ég held að þær athugasemdir sem komið hafa hér fram af hálfu okkar sjálfstæðismanna við þá dagskrá sem sett er upp í dag séu ósköp eðlilegar í ljósi áherslu okkar á forgangsröðun. Menn geta verið ósammála um hvort mál sem varða atvinnuuppbyggingu og hagsmuni heimilanna séu brýn, menn geta haft þá skoðun að þau séu það ekki, en ég tel og við sjálfstæðismenn að þau mál sem eru á dagskránni nr. 6–9 séu þess eðlis að við ættum að geta farið hratt í þau og afgreitt þau. Það er hins vegar alveg ljóst að auðvitað verður mikil umræða um stjórnarskipunarlög hérna eins og alltaf þegar verið er að ræða grundvallarbreytingar á stjórnarskrá Íslands.



[12:05]
Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta mál um stjórnarskipunarlög snýr að nokkrum megingrundvallaratriðum, í fyrsta lagi að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar eignarrétti verði skilgreindar (Gripið fram í: … fundarstjórn forseta?) í þjóðareigu.

Í öðru lagi snýst þetta um þjóðaratkvæðagreiðslu, rétt fólks til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um mál. (Gripið fram í: Tengist þetta fundarstjórn forseta?)

Í þriðja lagi snýr það að því að sérstakt stjórnlagaþing verði kosið til að vinna að endurskoðun á stjórnarskránni. (Gripið fram í: Tengist þetta fundarstjórn einhvern veginn?) Þetta tengist fundarstjórninni af því að forseti fylgir hér eftir ákvörðun sem var tekin á fundi með formönnum þingflokka.

Ég skil ekki af hverju sjálfstæðismenn óttast umræðuna um þjóðaratkvæðagreiðslu, óttast að málum (Forseti hringir.) verði breytt í þá veru að þjóðaratkvæðagreiðslur fái aukinn rétt. (Forseti hringir.) Mér finnst rétt að við göngum þá beint til efnislegrar umræðu (Gripið fram í.) um málið en dveljum ekki við eitthvert (Forseti hringir.) málþóf um fundarstjórn forseta sem er prýðileg. (Gripið fram í.)



[12:06]
Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björn Bjarnason kom með þá tillögu að gert yrði hlé og athugað með að endurraða dagskránni. Ég gat ekki skilið orð hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, þegar hann ræddi um það að hér væru á dagskrá mál með töluliðum 6–9 sem skiptu miklu máli öðruvísi en svo að hann tæki í raun undir að það skipti miklu máli að þessi mál fengjust rædd í dag.

Ég tek því undir með hv. þm. Birni Bjarnasyni, hvet forseta til að gera nú þegar hlé á þingfundum og boða til fundar þingflokksformanna til að leita samkomulags um það með hvaða hætti dagskrá þingsins verður í dag þar sem forgangsraðað verði til hagsbóta fyrir heimili og atvinnulíf í landinu þannig að sem fyrst megi draga úr því víðtæka atvinnuleysi sem hér er orðið og er alvarlegasta mengunin, alvarlegasti hluturinn sem blasir við íslenskri þjóð.



[12:07]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég þakka forseta fyrir að gefa mér orðið, sem var reyndar óumbeðið, en það er rétt að vekja athygli á því að þau mál sem hér hafa verið rædd eru þess eðlis að það er nauðsynlegt að þau komist á dagskrá. Ég undrast mjög að hæstv. forseti skuli ekki við þessar aðstæður leita leiða til að við getum rætt þau mikilvægu atvinnumál sem hér eru fyrir á dagskránni. Það er búið að koma fram á mörgum fundum með hæstv. forseta að við sjálfstæðismenn höfum beðið um tvöfaldan ræðutíma. Við munum ræða mjög vandlega um stjórnarskrána vegna þess að við berum stjórnarskrána mjög fyrir brjósti. (SVÓ: Það munu allir …) Þess vegna skiptir miklu máli að hún sé rædd hér mjög vandlega. Þetta var forseta ljóst þegar hann raðaði upp dagskránni og ákvað að taka stjórnarskipunarmálin á undan atvinnumálunum, á undan efnahagsmálunum, á undan skattamálunum, þeim málum sem skipta (Forseti hringir.) hag heimilanna máli.



[12:09]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við sjálfstæðismenn viljum ræða hér um málefni heimilanna, skuldir heimilanna og uppbyggingu atvinnulífsins. (Gripið fram í: … tillögur?) Já, við erum með tillögur. Við viljum ræða um álverið í Helguvík (Gripið fram í: En á Bakka?) frekar en — já, já, við getum líka rætt um álverið á Bakka. Við viljum ræða um atvinnuuppbyggingu í landinu. Breyting á stjórnarskrá hefur ekkert með það að gera að byggja upp atvinnu á Íslandi. (Gripið fram í.) Við munum ekki umgangast stjórnarskrána eins og hér er lagt til, að hún verði afgreidd á einhverjum handahlaupum eins og mér heyrist hv. þm. Lúðvík Bergvinsson leggja hér til. Það munum við ekki líða, við berum meiri virðingu fyrir stjórnarskránni en svo.

Við viljum líka ræða um atvinnuleysi ungs fólks. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kallaði hér fram í: Það er fyndið að sjá hvernig þeir láta, og átti við okkur sjálfstæðismenn. Er það fyndið að 13.000 námsmenn gangi um atvinnulausir og að við viljum ræða þann vanda? Hvað er svona fyndið við það? Ég hugsa að námsmönnum sem sjá fram á atvinnuleysi (Forseti hringir.) finnist það ekkert sérstaklega fyndið eins og hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur. Það er sorglegt, herra forseti, (Forseti hringir.) sem er nú skólastjóri sjálfur, að hann (Forseti hringir.) vilji ekki leggja til að þessi mál verði (Forseti hringir.) tekin til umræðu frekar en stjórnarskráin og stjórnlagaþing.



[12:11]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti vill benda á að klukkan hálftvö í dag fer fram utandagskrárumræða um uppbyggingu atvinnulífs og stöðu ríkissjóðs þannig að þá gefst færi á að ræða atvinnumál. Hann vill jafnframt verða við þeirri ósk hv. formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins að funda með þingflokksformönnum í matarhléi klukkan eitt. Þá getum við farið yfir stöðu mála. Að öðru leyti verður dagskránni fylgt.



[12:11]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að heyra hvernig menn tala og mér finnst menn hafa afhjúpað sig illilega. Þjóðin vill eðli málsins samkvæmt ræða um atvinnuuppbyggingu. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kallar þetta númeraröð og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gaf hugtakinu hroka nýja vídd þegar hún sagði að þegar 26 þingmenn af 63 vildu forgangsraða fyrir heimilin í landinu væri það mál bara útrætt.

Ég vil fá að vita, virðulegi forseti, af hverju forseti þingsins — ég er búinn að sitja hér í nokkur ár og ég sá forseta þingsins, hv. þm. Sturlu Böðvarsson og hv. þm. Halldór Blöndal, hvað eftir annað boða fundarhlé til að fara yfir dagskrána með þingflokksformönnum þegar svo bar undir — getur ekki orðið við því núna að funda með þingflokksformönnum. Af hverju er virðulegur forseti svo harður á því? Hann segist ætla að halda fund í matarhléinu en ætli samt sem áður að halda áfram með dagskrána. Hvers vegna finnst núverandi forseta, virðulegi forseti, bara ekki koma til greina að setjast yfir með fulltrúum 26 af 63 þingmönnum og fara yfir dagskrá þingsins? Ég hef aldrei séð þessi vinnubrögð áður, virðulegi forseti, og ég vil gjarnan fá svör frá virðulegum forseta um af hverju þetta er svona algjörlega út úr myndinni.



[12:13]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að það eru mjög mikilvæg mál á dagskránni í dag. Þau eru það öll.

Mér reynist hins vegar dálítið erfitt að skilja hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu vegna þess að þeir voru tilbúnir til þess fyrir tæpum tveimur sólarhringum að gera neyðarlög um gjaldeyrismál að einhvers konar skiptimynt fyrir stjórnarskrármálið. Þeir gerðu ákveðna kröfu um ákveðna tilhliðrun í því máli svo að þeir mundu veita afbrigði. Svo mikilvægt var stjórnarskrármálið. (Gripið fram í.) Í annan stað hafa þeir líka óskað eftir tvöföldum ræðutíma, svo mikilvægt er stjórnarskrármálið. Þegar það kemur á dagskrá, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) forðast þeir umræðuna.

Það er ekki nema von, virðulegi forseti, að maður eigi dálítið erfitt með að skilja þennan málflutning. Ég held að það sé afar mikilvægt að við getum hafið umræðuna um stjórnarskrárbreytingarnar og síðan farið í efnahagsmálin í kjölfarið. Allt eru þetta afar mikilvæg mál. Við hreyfumst hins vegar ekkert úr stað ef við stöndum hér og þrefum (Forseti hringir.) um fundarstjórn forseta sem að mínu mati er með afbrigðum góð.



[12:14]
Höskuldur Þórhallsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er krafa að þegar stjórnarflokkur sem var í stjórn, Sjálfstæðisflokkurinn, er kominn í stjórnarandstöðu og stendur fyrir málþófi sé hann a.m.k. málefnalegur og fari rétt með. Ég sagði áðan að öll þau mál sem væru á dagskrá væru brýn. Ég sagði ekki, eins og hv. þm. Björn Bjarnason kom inn á í ræðu sinni, að þau mál væru mikilvægari en stjórnarskrármálið.

Mér finnst líka undarlegt að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sé orðinn búktalari formanns Framsóknarflokksins. Það er rétt að hann hefur lagt mikla áherslu á efnahagsmál og við köllum eftir alvöruefnahagstillögum frá ríkisstjórninni (Gripið fram í: Heyr.) en það var skilyrði af hálfu Framsóknarflokksins að það yrði farið í breytingu á stjórnarskránni, það yrði sett á fót stjórnlagaþing. (Gripið fram í: Er það mikilvægara?)



[12:15]
Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. Ég lýsi undrun minni yfir því að hæstv. forseti hefur ekki orðið við óskum um að gera hlé á fundinum til þess að reyna að greiða úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Það er alveg ljóst að þetta mál leysist ekki nema virðulegur forseti taki á málinu, ræði það og leiti lausna á því.

Við sjálfstæðismenn höfum beðið um lengri ræðutíma og við höfum hvað eftir annað lýst því yfir í þessum umræðum að við ætlum okkur að taka langan tíma í að ræða stjórnarskipunarmálin enda er það eðlilegt miðað við eðli þeirra og miðað við það hvernig að málum hefur verið staðið.

Við bendum hæstv. forseta á að það þarf að greiða fyrir því að mál sem eru annars eðlis og miklu brýnni fyrir fjölskyldur og fyrirtæki í landinu fái forgang á dagskránni í dag til þess að þau megi afgreiða, af því að við höfum í huga að ræða mjög lengi um stjórnarskrármálið og höfum beðið um lengri ræðutíma til þess. Hæstv. forseti hefur þau tilmæli okkar að engu að breyta dagskránni og lætur undir höfuð leggjast að verða við óskum um að halda (Forseti hringir.) fund til þess að leysa málið.



[12:17]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti vill ítreka að hann hefur óskað eftir að hitta þingflokksformenn í hádegisverðarhléi. Þegar sagt er að þessari dagskrá verði ekki breytt þá er átt við fram að þeim tíma. Við sjáum svo til hvað gerist seinni partinn.



[12:17]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hæstv. forseti hefur gefið ádrátt um að funda með formönnum þingflokka í matarhléinu eins og hér hefur komið fram og ætlar að ganga til dagskrár á meðan. Nú er klukkan orðin 20 mínútur yfir 12 og áætlað matarhlé er klukkan 1. Það er því deginum ljósara að umræðan sem fram fer í millitíðinni verður mjög ómarkviss og sundurleit svo að ekki sé meira sagt.

Ég legg því til, eins og fleiri félagar mínir hafa gert hér, að fundurinn verði haldinn nú þegar — að hæstv. forseti geri hlé á þessum þingfundi og haldi formannafund nú þegar til þess að koma skikki á þetta. Í anda þess að við sjálfstæðismenn erum alltaf tilbúnir að hugsa í lausnum og greiða fyrir þingstörfum þá er líka annar möguleiki í stöðunni og það er að flýta matarhléinu og taka það núna þannig (Forseti hringir.) að hægt sé (Gripið fram í: Góð hugmynd.) að hafa dagskrána svolítið betri.



[12:18]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þessa brýnu umræðu um dagskrá dagsins í dag heldur horfa nokkra daga fram í tímann. Þannig vill til að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu ætlar að hafa kosningaeftirlit á Íslandi og það er spurning hvernig það lítur út ef íslenskir frambjóðendur geta ekki kynnt kjósendum sínum stefnumál sín í lengri tíma en tvær vikur fyrir kosningar. Það er spurning hvort það sé ekki alvarlegt brot á lýðræði í landinu og gæti orðið tilefni til athugasemda í þessu kosningaeftirliti.

Ég ætla að spyrja hæstv. forseta að því beint: Hvenær lýkur þinginu og hvenær geta þingmenn farið og kynnt kjósendum stefnumál sín?



[12:19]
Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir lagði hér fram tillögur til forseta um að breyta dagskrárröðun í dag til þess að koma mætti að umræðu um mjög brýn mál, mál sem snerta fólkið í landinu og mál sem fólkið í landinu bíður eftir afgreiðslu á. Þess í stað er stjórnarskrármálið sett fyrst sennilega, miðað við þá umræðu sem hér er, fyrst og fremst til að stríða sjálfstæðismönnum, það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi.

Það liggur fyrir að málið var knúið og neytt út úr nefnd í gær í fullri andstöðu við sjálfstæðismenn. Við erum hér með umsagnir frá tugum einstaklinga og aðila sem vara við því að breyta stjórnarskránni með þessum hætti. Hér ætlar naumur meiri hluti þingsins að koma fram við stjórnarskrána eins og hvert annað ómerkilegt plagg. Stjórnarskráin er grundvallarlög og það hefur verið venja að henni sé breytt í samvinnu við alla (Forseti hringir.) stjórnmálaflokka. Það er til verulegs vansa fyrir þann (Forseti hringir.) meiri hluta sem hér er að ætla að standa svona að málum.



[12:20]
Árni M. Mathiesen (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er bara ekki alveg í lagi hvernig menn hugsa þessar umræður hér um stjórnarskrána. Það er eins og menn telji að þeir geti rumpað þeim af og helst skotið þeim á milli umræðu um önnur mál og önnur dagskráratriði. Við 1. umr. var umræðan klofin upp þannig að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins komst ekki til þess að flytja mál sitt á fyrsta degi umræðunnar.

Nú er verið að leggja upp með það að hefja umræðuna hér í dag og þá á fyrst að kljúfa umræðuna upp með því að gera hádegishlé og síðan á að kljúfa umræðuna upp með því að vera með utandagskrárumræðu. Ég held það væri affarasælast ef hæstv. forseti færi að ráðum hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur og flýtti hádegishléinu og héldi þá fundinn og hefði þá betri samfellu í umræðunni um málið.



[12:22]
Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vonast til þess að þessum aðdraganda umræðunnar fari að ljúka þannig að við getum einhent okkur í umræðuna sjálfa því að hún er vissulega mikilvæg. En ég veit ekki hvað menn þurfa að vera lengi hér á hv. Alþingi til þess að átta sig á því að það er alltaf gefið hádegisverðarhlé og það er ekkert nýtt. Ég vonast til þess að ég nái að flytja nefndarálit meiri hlutans fyrir hádegisverðarhlé og að minni hlutinn geti jafnvel gert það líka.

En það virðist vera að sjálfstæðismenn treysti sér ekki í þessa umræðu í dagsbirtu. (Gripið fram í: Jú, jú.) Vissulega eru mikilvæg mál neðar á dagskránni en ég legg áherslu á að þetta er líka mikilvægt mál og fólkið í landinu bíður líka eftir þessu máli. Samkvæmt könnunum er gríðarlegur áhugi á stjórnlagaþingi og við þurfum að færa meiri völd til fólksins (Forseti hringir.) eftir það hræðilega ástand sem hefur skapast hér eftir hrun bankanna í október.



[12:23]
Sturla Böðvarsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek mjög eindregið undir þau sjónarmið að umræðan um stjórnarskrármálið verði ekki slitin í sundur hér í dag og hvet þess vegna til þess að hæstv. forseti taki til greina þær ábendingar sem komið hafa fram.

Ég vil auk þess aftur hvetja til þess að leitað verði sátta um dagskrána hér í dag. Það er alveg augljóst að svo miklar athugasemdir koma fram við breytingar á stjórnarskránni að við eigum að gefa öðrum málum forgang hér í dagskrá þingsins þannig að hægt sé að ræða til hlítar atvinnumál og önnur mál sem varða hag heimilanna í landinu umfram stjórnarskipunarlögin. (Forseti hringir.) Ég hvet því hæstv. forseta til þess að taka tillit til þessara óska.



[12:24]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðuleg forseti. Eins og bent hefur verið á er afar óheppilegt að taka umræðu um jafnmikilvægt mál og stjórnarskrána í mörgum hlutum og hv. þm. Árni M. Mathiesen fór vel yfir það.

Ég vil leyfa mér að horfa á þetta mjög praktískt. Núna er klukkan orðin 27 mínútur yfir 12 og við (Gripið fram í.) bíðum hér eftir — framsögumaður nefndarinnar, sem talar fyrir nefndarálitinu, hefur 60 mínútur til þess að mæla fyrir nefndarálitinu sem er upp á einar 6 bls. Ég veit ekki hvort hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kæri sig yfirleitt um að slíta nefndarálit sitt og framsöguræðu í marga parta. Ég leyfi mér að halda að þetta hljóti að vera mjög merkileg ræða frá formanninum. Það er því ómögulegt að hún sé flutt hér í mörgum hollum. (Forseti hringir.) Ég ítreka því mitt ágæta sáttatilboð til forseta og vil biðja (Forseti hringir.) hann um að gefa mér álit sitt á þeirri hugmynd að flýta matarhléinu.



[12:26]
Kristján Þór Júlíusson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er einkennilegt að sitja undir þeirri umræðu sem hér á sér stað. Það er með ólíkindum að verða vitni að því að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, framsögumaður fyrir meirihlutaáliti, sitji hér úti í sal og klappi fyrir orðum einstakra þingmanna, það ber kannski vott um það hvers lags skrípaleikur uppsetning á þessu máli er. (Gripið fram í.) Jafnframt er því lýst yfir af hennar hálfu að sjálfstæðismenn þoli ekki að ræða þetta mál í dagsbirtu. Ég veit ekki betur — hv. þingmaður getur þá fylgst með klukkunni hér — en að það sé bjart úti. Hér er bjartur dagur og sjálfstæðismenn kinoka sér ekkert við að ræða þetta mál. Langur vegur frá.

Málið er þeim mun mikilvægara að við höfum unnið eið að stjórnarskránni og viljum umgangast það grundvallarplagg af virðingu. Ég undrast það í ljósi þeirra orða sem ég hef áður heyrt frá þingflokksformanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, að hann skuli ekki hafa málið betur í heiðri en raun ber vitni hér í þessum umræðum.



[12:27]
Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég skil ekki þessa tregðu að fresta ekki fundi núna og kalla saman fund með þingflokksformönnum klukkan hálfeitt. Eins og dagskrá liggur fyrir er gert ráð fyrir að matarhlé sé klukkan 13. Það er alveg ljóst að það er ófært fyrir framsögumann nefndarálits að gera grein fyrir nefndaráliti á hálftíma.

Er það sá bragur sem minnihlutaríkisstjórnin með atbeina framsóknarmanna vill hafa á umræðu um stjórnarskrána? Eða hversu langt vill þessi meiri hluti ganga í því að láta stjórnarskrána gjalda fyrir hefndarhug í garð sjálfstæðismanna?

Það er undarlegt að sú mikla reiði sem virðist búa hér í mönnum gagnvart sjálfstæðismönnum þurfi endilega að bitna á stjórnarskrá lýðveldisins. Hvers konar vinnubrögð eru þetta, herra forseti? Hvernig stendur á því að forseti getur ekki orðið við einfaldri bón um að kalla saman formenn þingflokka, halda stuttan fund og átta sig á því hvernig best sé að koma dagskrá hér fyrir í dag?



[12:28]
Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem beðið hafa forseta um að gera hlé á fundi nú þegar. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði að almenningur og þjóðin í landinu biði í ofvæni eftir stjórnlagaþingi. Það getur vel verið. (Gripið fram í.) En ég held að þjóðin bíði í enn meira ofvæni eftir því að fá að vita hvernig á að bjarga henni út úr þeim aðstæðum sem eru í landinu. Ég held að hún bíði í enn meira ofvæni eftir því.

Það vill svo til að í þeim gögnum sem við höfum fengið, í umsögnunum — í umsögn frá ekki ómerkari aðila en Sjómannasambandi Íslands, sem er nú ein af grunnatvinnugreinunum, er lýst verulegum efasemdum um stjórnlagaþing. Ég held að það væri ráð að þessi minnihlutastjórn, sem studd er af Framsóknarflokknum, færi að hlusta á það að breyta uppröðun dagskrárliða og ræða fyrst brýnu málin. Við getum þá bara rætt (Forseti hringir.) stjórnarskrána fram að kosningum ef það er það sem menn vilja.



[12:29]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna orða hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar sem sakar menn um það hér í þingsal að virða ekki stjórnarskrána eða umgangast hana ekki á þann hátt sem rétt sé að gera. Það er alveg lágmark, virðulegi forseti, að viðkomandi færi rök fyrir máli sínu eða biðjist afsökunar. Málflutningur af þessu tagi á ekki að líðast hér í þinginu og er full ástæða til að setja ofan í við þingmenn sem tala á þennan hátt. (Gripið fram í.)

Hitt vil ég segja við hv. þm. Ólöfu Nordal að þær stjórnarskrárbreytingar sem hér er verið að leggja upp með hafa í þeim skilningi ekkert með einhvern hug til sjálfstæðismanna að gera og hafa aldrei haft. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti, eru menn ekki eitthvað að ofmeta sjálfa sig, eru menn ekki fullsjálfhverfir í umræðunni? Sjálfstæðismenn hafa nákvæmlega ekkert með það að gera að auðlindir verði í almannaeign. Sjálfstæðismenn hafa ekkert með það klassíska viðhorf jafnaðarmanna að gera (Forseti hringir.) að almenningur í þessu landi geti knúið á um þjóðaratkvæðagreiðslur. (Forseti hringir.) Það hefur verið klassískt baráttumál í áratugi. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Þetta hefur nákvæmlega ekkert (Forseti hringir.) með Sjálfstæðisflokkinn að gera nema hvað hann hefur oft þvælst fyrir góðum málum.



[12:31]
Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er nú ekki nefndarmaður í þeirri nefnd sem fjallað hefur um breytingar á stjórnarskipunarlögum en mér skilst að umsagnaraðilar séu mjög mótfallnir því, flestir hverjir, að gengið sé í þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Ég verð að segja að mér finnst vinnubrögðin vera ólýðræðisleg. Það passar ekki að þegar svokallaðar lýðræðisumbætur eiga að fara fram í svo stórum stíl sem við erum að tala um núna séu vinnubrögðin ólýðræðisleg.

Ég verð líka að minna okkur á að við erum eins og molbúar við Íslendingar þegar við ræðum nú rétt fyrir kosningar um að breyta grundvallarplagginu, því sem við stöndum öll á. Ég er reyndar fylgjandi því að breyta stjórnarskránni, en ekki með þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru. Ég er fylgjandi miklum lýðræðisumbótum og ég er ekki (Forseti hringir.) andvíg ráðgefandi (Forseti hringir.) stjórnlagaþingi, en ég er (Forseti hringir.) svo ósátt við það sem er að gerast hér á þinginu núna að (Forseti hringir.) mig svíður undan því.



[12:32]
Árni M. Mathiesen (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er alveg örugglega ekki hlutverk hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að setja ofan í við aðra þingmenn hér í salnum. Hann getur hugsanlega gert það við þingmenn í þingflokki sínum þar sem hann er formaður en hann hefur ekkert með það að gera að setja ofan í við aðra. Ég veit hins vegar ekki hver á að setja ofan í við hæstv. forseta sem því miður varð það á að leyfa hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að tala þrisvar í þessari umræðu en hann átti víst einungis að fá að tala tvisvar.

Ég veit ekki hvernig hæstv. forseti ætlar að bregðast við þessu en hann gæti alveg örugglega gert það í góðri sátt við þá þingmenn sem hér taka þátt í umræðunni ef hann frestaði fundi og héldi fund með þingflokksformönnum, sem hann hefur sjálfur boðað að verði haldinn, hvort sem hann kallar það matarhlé eða eitthvað annað. Það gæti farið vel á því að hafa þá matarhlé í leiðinni.



[12:34]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti vill benda á að það er rétt, sem fram kom, að þau mistök voru gerð að einn ræðumaður fékk að tala þrisvar og getur þá fallist á að formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins fái að ræða málið í þriðja skiptið ef hann óskar eftir því. (Gripið fram í: Nei, nei, nei.)

Að öðru leyti er fylgst með þessu hér í bókhaldinu og ekki verða leyfðar fleiri en tvær ræður á þingmenn hér í salnum.



[12:34]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil ítreka spurningu mína til hæstv. forseta um það hvenær þingið fari heim til þess að kynna kjósendum sjónarmið sín fyrir kosningar. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins töluðu þó nokkrir við mig, sérstaklega utan af landi þar sem erfitt er yfirferðar og langt í kjósendur, og veltu því fyrir sér hvenær í ósköpunum þingmenn landsbyggðarinnar færu út á land. Þetta átti nú reyndar ekki við í mínu kjördæmi því að þar er stutt á milli.

Menn höfðu áhyggjur af því að þeir fengju ekki að hitta þingmanninn sinn og fengju ekki að stunda neina kosningabaráttu. Ég veit ekki hvað Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu segir við því ef grunnatriði lýðræðis er ekki sinnt, þ.e. að kosningabarátta geti átt sér stað.



[12:35]
Kristján Þór Júlíusson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að fundarstjórn hæstv. forseta verði með þeim hætti að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson fái ekki að koma upp í fjórða sinn undir þessum umræðum þó svo ég hafi nokkur orð um þetta mikilsverða mál.

Mér finnst með ólíkindum að hæstv. forseta skuli ekki lánast það verk að leiða þingflokka Alþingis saman og ná samkomulagi um það með hvaða hætti ræða eigi þetta mál. Látum vera grundvallarágreining um innihaldið, en það er illur bragur á starfsháttum Alþingis að ekki skuli nást um það sátt og er enginn flokkur þar undanskilinn. Ég álít það leikaraskap að hafa með höndum þetta starfslag.



[12:36]
Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er 17.700 manneskjur atvinnulausar á Íslandi. Það eru 13.000 námsmenn atvinnulausir. Það eru 600 börn sem búa við það að hvorugt foreldra þeirra hefur vinnu.

Við þessar aðstæður finnst mönnum hér hið brýnasta mál að setja á fót stjórnlagaþing til þess að fara að gera breytingar á stjórnarskránni og það vilja menn gera á síðustu stundu. Ýta öllum málum aftur fyrir, taka öll þau atvinnumál sem á dagskránni eru og setja þau aftar, vitandi það að málið er í ágreiningi og vitandi það að þeir þingmenn sem hér eru í stjórnarandstöðu munu nýta sér lýðræðislegan rétt til að ræða stjórnarskrána. Þetta finnst þessari minnihlutastjórn, með dyggum stuðningi framsóknarmanna, vera til sóma. Verði þeim að góðu með það.



[12:37]
Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni áðan kom fram að ég tel ófært að nota svo ólýðræðisleg vinnubrögð við að koma á svokölluðum lýðræðisumbótum. Ég er á þeirri skoðun að fara þurfi í að breyta stjórnarskránni, ég held að við getum öll verið sammála um það. Hér þarf að fjalla um aðferðafræði. Hvernig viljum við standa að því og hvers konar virðingu berum við fyrir stjórnarskránni?

Væri ekki nær að við hugsuðum aðeins víðar heldur en bara þetta heimóttarlega sem við horfum á einmitt núna að breyta stjórnarskránni í flýtimeðferð? Hvernig mundi þetta t.d. líta út gagnvart Evrópuráðsþinginu og öðrum þeim stofnunum sem standa vörð um mannréttindi og lýðræði í hinum vestræna heimi og í Evrópu? Hvernig lítur þetta út gagnvart þessari stofnun sem við erum aðilar að, þ.e. þau vinnubrögð sem við viðhöfum hér? (Forseti hringir.) Ég bara velti því fyrir mér og ég tel að við séum heimóttarleg og (Forseti hringir.) — ég ætla að leyfa mér að segja, þó að virðulegur forseti sé búinn að slá í bjölluna — (Forseti hringir.) hallærisleg.



[12:39]
Björk Guðjónsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst ákaflega sérkennilegt hvernig minnihlutastjórnin raðar málum á dagskrána. Mér finnst það skipta gríðarlega miklu máli að þetta stóra hagsmunamál okkar Suðurnesjamanna, frumvarpið um álverið í Helguvík, komist hér á dagskrá.

Veit hæstv. forseti ekki að mesta atvinnuleysið á landinu er á Suðurnesjum? Íbúar á Suðurnesjum eru einhuga um það að fá álver á svæðið og bíða nú spenntir eftir því að umræðan fari af stað hér í þinginu um þetta mál og það nái fram að ganga á þessu þingi. Íbúar á Suðurnesjum óttast að ef þetta mál nær ekki fram að ganga á þessu þingi og Vinstri grænir komast í stjórn á næsta þingi verði þetta mál slegið af. Ég tel það afar brýnt, hæstv. forseti, (Forseti hringir.) að þetta mál verði nú þegar tekið til umræðu hér.



[12:40]
Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að biðja forseta afsökunar á því að ég óttast að ég sé bæði heimóttarleg og hallærisleg — (Gripið fram í: Nei.) ég á kannski ekki rétt á að tala hér úr þessum ræðustóli.

Það sem vekur athygli mína í þessari umræðu er það þegar sjálfstæðismenn koma hér upp og nota stór orð um ástandið í þjóðfélaginu. Hvað eru margar vikur síðan þessi flokkur fór frá völdum og skildi þjóðina (Gripið fram í.) eftir í því ástandi sem raun ber vitni?

(Forseti (GuðbH): Ég vil biðja hv. þingmenn að gefa ræðumanni tækifæri til að ljúka máli sínu.) (Gripið fram í.)

Þó að sú ríkisstjórn sem nú situr, hæstv. forseti, sé ekki gallalaus þá er hún snöggtum betri en sú sem skildi við. Það ætla ég að segja hér úr þessum ræðustól. (Gripið fram í.)

En hæstv. forseti. Það er talað um að stjórnlagaþing sé ekki brýnt mál. Ég mótmæli því og ég fullyrði (Forseti hringir.) að stjórnlagaþing nýtur mikils fylgis — (Forseti hringir.) ég missti svo mikinn tíma áðan — hjá íslensku þjóðinni (Forseti hringir.) og það mun jafnvel vekja athygli um víða veröld ef Ísland fer þessa (Forseti hringir.) leið.



[12:42]
Herdís Þórðardóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu dagskrá þingsins. Forseti er búinn að koma hér fram og tala til þingsins og segja að forseti ráði engu, það sé þingið sem ráði. Ég fer því fram á að forseti geri hlé á þingstörfum svo að hægt sé að koma skikkan á þau mál sem hér eru til umræðu.

Við í iðnaðarnefnd vorum að ljúka því að koma Helguvíkurmálinu út, sem er brýnt mál fyrir hagsmunaaðila í þessu landi. Við stöndum uppi með fullt af fólki sem er atvinnulaust. Hvað gerist ef við komum þessu máli um Helguvík ekki í gegn? Er þetta ekki atvinnuskapandi fyrir íslenska þjóð?

Ég fer því fram á það við hæstv. forseta að hann sjái sóma sinn í því að gera hlé á þingstörfum og taki tillit til sjónarmiða Sjálfstæðisflokksins. Við erum hér 26 þingmenn sem höfum komið hingað upp og kvartað yfir fundarstjórn forseta. Ég óska þess að forseti taki tillit til okkar (Forseti hringir.) málflutnings.



[12:43]
Björk Guðjónsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég lýsti því yfir hér áðan að ég er furðu lostin yfir þessari dagskrá og vænti þess að sjá frumvarpið um álverið koma á dagskrána á undan stjórnarskipunarlögunum. Ég lýsti því yfir að mikið atvinnuleysi er á Suðurnesjum og Suðurnesjamenn vilja að þetta mál verði tekið á dagskrá hér í þinginu í dag og verði klárað sem allra fyrst. Ég vil fá skýrt svar við því frá hæstv. forseta hvað hann hyggst gera í þessu máli.



[12:44]
Herdís Þórðardóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil beina orðum mínum til hv. þingmanna Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Hér eru stjórnarskipunarlög á dagskrá. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins verja þessa minnihlutastjórn falli og eru stoltir af því. (Gripið fram í.) Hvað sagði formaður Framsóknarflokksins? Það væri brýnast fyrir landið að koma atvinnumálunum í gang, og hann lagði ríka áherslu á það að þingi mundi ljúka 12. mars. Hvaða dagur er í dag? 2. apríl.

Þarna sést hvaða áhrif formaður Framsóknarflokksins hefur í þingflokki Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að Framsóknarflokkurinn mundi tala fyrir atvinnumálum hér í landinu. (Gripið fram í: Hann gerir það.) Þess vegna finnst mér brýnt að Helguvíkurmálið (Forseti hringir.) komist hér á dagskrá á undan stjórnarskipunarlögunum.