136. löggjafarþing — 124. fundur
 2. apríl 2009.
um fundarstjórn.

framhald þingfundar.

[20:16]
Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Nú er langt liðið á daginn og fyrir liggur að undanfarið hafa verið hér kvöld- og næturfundir og það gengur náttúrulega ekki endalaust að haga málum þannig. Ég vildi gjarnan vita hvað forseti ætlar að láta þessa umræðu standa lengi. Það liggur fyrir að það eru það margir sem eru á mælendaskrá og munu verða á mælendaskrá að okkur endist ekki nóttin ef meiningin er að fara að með þeim hætti.

Ég mælist til þess að miðað verði við að fundur standi ekki lengur en í mesta lagi fram yfir ellefu, að reynt verði að stilla þannig til að fundi ljúki fyrir miðnætti. Ég fer fram á það að forseti upplýsi um það nú þegar hvað hann hyggst láta fundinn standa lengi.



[20:17]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ítreka spurningu hv. þm. Jóns Magnússonar um það hvernig vinnubrögðin verða fram eftir kvöldi. Það er ljóst að við munum ræða þetta mikilvæga mál mjög ítarlega, ekki bara út af dæmalausum vinnubrögðum Vinstri grænna, Framsóknarflokks, Frjálslyndra og Samfylkingar í þessu máli, þar sem beinlínis er verið að traðka á stjórnarskránni, heldur ekki síður út af því hvað málið í rauninni inniheldur.

Ég vil í fyrsta lagi ítreka spurningu hv. þingmanns áðan. Í öðru lagi vil ég spyrja forseta að því hvort ekki verði annað mál tekið inn á milli á dagskrá þingsins og þá er ég að tala um atvinnumál sem er á dagskrá eins Helguvík. Ég veit að Vinstri grænir eru á móti Helguvík en ég held að við verðum að reyna að sneiða fram hjá slíkum andmælum því að málið er brýnt og mikilvægt.

Ég spyr forseta: Hvernig verður vinnubrögðum háttað hér fram eftir kvöldi? Er ekki möguleiki að koma á dagskrá mikilvægum efnahags- og atvinnumálum og þá nefni ég sem dæmi (Forseti hringir.) mál frá fjármálaráðherra vegna (Forseti hringir.) vaxtabóta og ekki síður málefni Helguvíkur?



[20:18]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það er kominn fimmtudagur og löng vika að baki. Fundir hafa verið haldnir fram eftir kvöldi og fram á nótt og næturfundir síðustu daga. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins erum ekkert að kveinka okkur undan því að taka umræðuna enda höfum við tekið þá umræðu mjög rækilega undanfarna daga og munum gera það í kvöld. En það eru margir á mælendaskrá og það er fyrirhugaður fundur hér á morgun. Eftir því sem ég kemst næst verður fundur strax í fyrramálið. Ég tek undir óskir hv. þm. Jóns Magnússonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og óska eftir upplýsingum um það hve lengi verði haldið áfram í kvöld. Ég legg jafnframt áherslu á það að fundur verði ekki lengur en til ellefu eða tólf í kvöld.

Við þurfum vissulega að taka umræðuna. Mjög alvarlegar athugasemdir eru gerðar (Forseti hringir.) hér en ég legg áherslu á að við höfum fundinn ekki lengri en í mesta lagi til (Forseti hringir.) miðnættis í kvöld.



[20:20]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær spurningar sem komið hafa fram. Á þingfundi í gær var hæstv. forseti ítrekað spurður að því hve lengi störf þingsins mundu vera.

Það er ljóst á mætingu hér í þingsal, sérstaklega á það við um vinstri flokkana, þá sem eru í þessari minnihlutastjórn, að veruleg þreytumerki eru þar eða áhugaleysi fyrir þeirri umræðu sem fer fram. (Gripið fram í.) Í gærkvöldi var þetta þannig að hér var (Gripið fram í.) löngum einn fulltrúi þeirra flokka á meðan við sjálfstæðismenn tókum virkan þátt í umræðunni. Í það virðist stefna að við sjálfstæðismenn verðum hér margir en heldur fækki í hinu liðinu. Í ljósi þess að þreytumerki eru farin að segja til sín á þeim bænum sýnist mér að full ástæða sé til að forseti (Forseti hringir.) taki tillit til þeirra aðstæðna sem eru að skapast.



[20:21]
Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Sú umræða sem hér hefur verið í dag er afar mikilvæg. Hér er um að ræða stjórnarskipunarfrumvarp og það er eðlilegt að slíkt mál taka töluverðan tíma í umræðunni enda kemur í ljós að frá því að umræðan hófst hafa aðeins sjö ræður verið haldnar. Vegna lengingar á ræðutíma og vegna þess hve umfangsmikið málið er þá tekur töluverðan tíma að ræða það. Það er vont að bjóða upp á það að þetta mál sé rætt um miðjar nætur — ég tala nú ekki um það þegar við höfum verið að vinna hér fram eftir nóttu undanfarið. Til viðbótar þá er opinn fundur í fyrramálið í samgöngunefnd og það er mikilvægt að fulltrúar í samgöngunefnd, og þeir sem bera hag og virðingu þingsins fyrir brjósti, séu skýrir í hugsun og klárir á því hvað fram fer þar. Mér finnst að forseti ætti að leitast við að haga þessu þannig að við séum ekki að vinna lengur en til tólf í kvöld.



[20:22]
Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég geri mjög alvarlega athugasemd við það, hæstv. forseti, að ekki skuli vera svarað af forsetastóli — að hver þingmaðurinn af öðrum skuli þurfa að koma hingað upp til þess að fá einfalt svar við þeirri spurningu sem var borin upp í upphafi. Það hefði e.t.v. stytt tímann sem í málið fer að fá fram svör við slíkum spurningum.

Ég vil taka undir með hv. þm. Ólöfu Nordal og vekja athygli hæstv. forseta á því að í fyrramálið verða opnir fundir og það er þingið sem ákveður, og nefndirnar komust að þeirri niðurstöðu í samráði við þingforseta að sjálfsögðu, að haldnir séu opnir fundir (Forseti hringir.) og slíkur fundur verður í fyrramálið. Það er algerlega óásættanlegt að (Forseti hringir.) þingmenn þurfi að vera hér langt (Forseti hringir.) fram eftir kvöldi. En (Forseti hringir.) hins vegar er það alveg jafnljóst að (Forseti hringir.) það mál sem hér er á dagskrá (Forseti hringir.) verður ekki afgreitt (Forseti hringir.) án umræðu.



[20:23]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum með viðbrögð hæstv. forseta við þeim spurningum sem hér hafa komið fram. Hér hafa komið fram spurningar frá ýmsum þingmönnum varðandi það hvernig fundi verði fram haldið fram eftir kvöldi og bent á það að auðvitað eru nefndarfundir í fyrramálið og þingmenn hafa skyldum að gegna þar.

Við sjálfstæðismenn veigrum okkur ekkert við því að taka þátt í umræðum fram eftir kvöldi en það skiptir hins vegar máli fyrir okkur að fá einhverja vitneskju um það hver áform forseta eru í þessu sambandi. Það undrar mig ef hv. forseti getur ekki gefið okkur, eins og hv. þm. Sturla Böðvarsson orðaði það, einföld svör við einföldum spurningum.



[20:25]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Um leið og ég óska eftir að vera settur á mælendaskrá tek ég eftir því að 6 þingmenn af 63 hafa talað í þessu máli. Ég reikna með því að þegar menn fara í hlutverk stjórnlagaþings, eftir alla umræðuna um stjórnlagaþing í þjóðfélaginu undanfarið, finni þeir nú til sín að vera á stjórnlagaþingi og taki allir til máls þannig að 57 eiga eftir að taka til máls. Mér þykir það niðurlæging við stjórnlagaþingið og stjórnarskrána að vera ræða þetta fram á nótt, menn þurfa að vera vakandi yfir þessu.

Mig langar að spyrja hæstv. forseta hvort ekki standi til að fara að ljúka umræðunni í bili og taka svo upp umræður og verkefni stjórnlagaþingsins á morgun.



[20:25]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Þetta er nú dálítið skondið og skemmtilegt, staðan sem við erum í núna. (Gripið fram í: Já.) Síðasta sólarhring var farið að ræða um endurgreiðslur á virðisaukaskatti til kvikmyndaiðnaðarins (Gripið fram í: Það er merkilegt mál.) og þar þurftu menn að tala frá því klukkan fjögur til hálfþrjú í nótt. (Gripið fram í.) Núna er alvörumál á dagskrá og mér sýnist blasa við að menn ætli að halda áfram í þessu málþófi, þ.e. sjálfstæðismenn. En við hetjur hafsins og hermenn þjóðarinnar teljum það ekki eftir okkur að vaka eina vorvertíð til að ræða þessi mál. Við munum ekkert láta á okkur standa í þessari umræðu (Gripið fram í.) og fara í andsvör og ræða við málþófsmenn eftir þörfum. (Gripið fram í: Heyr!)



[20:26]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram viðamikil umræða og hér á eftir að fara fram mjög viðamikil umræða (Gripið fram í: Um fundarstjórn forseta?) — um stjórnarskrána. Það vekur athygli að hæstv. forseti hefur ekki séð ástæðu til að svara þeim spurningum sem hér hafa verið bornar upp, um þau plön sem hæstv. forseti hefur um það hvernig hann hyggst haga fundum í kvöld, mjög eðlilegar spurningar um það hvernig vinnulag eigi að vera. Boðað er til nefndarfundar í fyrramálið, hæstv. forseti, og þess vegna er náttúrulega ekki hægt að halda svona áfram með næturfundum og fundum snemma á morgnana. Menn fá þá kannski ekki svefn nema upp á 3 tíma dögum saman, eins og á við um mig. (Forseti hringir.) Þetta gengur ekki, hæstv. forseti. (Gripið fram í.)



[20:28]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Að tala um málþóf þegar rætt er um stjórnarskrána sýnir lítilsvirðingu hv. þingmanns gagnvart stjórnarskránni. Það er aldrei hægt að tala um málþóf þegar rætt er um stjórnarskrána. Það er skylda okkar þingmanna að ræða málefni stjórnarskrárinnar mikið og ítarlega enda er verið að traðka á stjórnarskránni í boði Framsóknar. Það er ekki einungis að aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar sé í boði Framsóknar, og ég fagna því að allt í einu eru tveir þingmenn Framsóknar í þingsal, (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Þetta er ómálefnalegt.) heldur er líka verið að traðka á stjórnarskránni í boði (Gripið fram í.) Framsóknar.

Ég vil ítreka þá spurningu mína hvort ekki sé hægt að gera hlé á umræðunni um stjórnarskrána og ræða málefni Helguvíkur (Forseti hringir.) eða eru framsóknarmenn líka á móti því?



[20:29]
Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Að loknum kosningum 2007, um vorið, var skipað nýtt þing og hv. þm. Sturla Böðvarsson varð forseti þingsins. Þá voru gerð mikil og góð plön um hvernig haga skyldi þingstörfum. Talað var um fjölskylduvænt þing, að taka ætti tillit til fjölskyldunnar. Það kom mjög sterkt fram hjá hæstv. menntamálaráðherra að taka ætti tillit til unga fólksins og fjölskyldunnar hvað þingstörf varðar. Nú erum við að fara inn í þriðju nóttina, herra forseti, og ég vil fá að vita hvernig taka eigi tillit til þess unga fólks sem er með ungbörn og þarf að sækja störf þingsins allt til þrjú að nóttu til og frá því átta á morgnana. Hvað ætlar forseti að gera til þess að koma til móts við fjölskyldurnar í landinu?



[20:30]
Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Það undrar mig töluvert að hæstv. forseti vilji ekki svara þeim spurningum sem til hans er beint, að hann vilji ekki segja frá þeim áformum sem hann hefur um framgang þinghalds í kvöld. Vill hann ekki með neinu móti taka tillit til þess að hér er mjög þung umræða á ferðinni? Það er ekki einungis það, heldur var þetta með nákvæmlega sama hætti við 1. umr. um frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Boðið var upp á næturfundi, að þetta mál yrði rætt í skjóli nætur, og nú erum við fjórðu nóttina í röð að tala á þinginu.

Yfirleitt er það svo að flutningsmenn frumvarpsins — reyndar situr hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir í salnum og fylgist með umræðunni, en það er fátt um fína drætti hvað aðra varðar. (Gripið fram í: Nú?) Og þeir sem upphaflega lögðu málið fram hafa vart látið sjá sig hér í dag og það var nákvæmlega eins við 1. umr. (BJJ: Heyrðu. Ég er búinn að vera hérna í dag …) Það gleður mig að sjá þig hérna, hv. þingmaður. (Gripið fram í: … frekar lítið.) Háreysti í þingsal. (ÞKG: Þú ert duglegur strákur.)



[20:32]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki tölu á því hve margir hv. þingmenn hafa komið hingað upp til að inna forseta eftir svörum um það hve lengi eigi að halda áfram í kvöld. Mér finnst kominn tími til að forseti svari þingmönnum þeim spurningum sem settar hafa verið fram.

Meira og minna alla síðustu viku voru kvöldfundir og fram á nótt. Um síðustu helgi voru tveir stjórnmálaflokkar með landsfundi sína og þeim fylgdi mikil vinna hjá þingmönnum alla helgina. Þetta er síðan fjórða kvöldið í þessari viku sem þingmenn eru á kvöldfundum og jafnvel á næturfundum.

Ég óska eftir því að hæstv. forseti fari að svara þingmönnum. Í öðru lagi óska ég eftir því að hann fari að taka tillit til þess að hv. þingmenn eru orðnir lúnir eftir mikla vinnu síðustu tvær vikur og eru tilbúnir til að halda áfram á morgun þeirri málefnalegu umræðu (Forseti hringir.) sem var hafin hér í dag.



[20:33]
Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Þegar þingsköpum var breytt var lögð rík áhersla á það að með því að takmarka ræðutíma sköpuðust betri skilyrði til umræðu og mér sýnist að það hafi út af fyrir sig gerst. Jafnframt var uppi sú krafa að vinnutími á hverjum degi yrði skikkanlegur og okkur hefur satt best að segja tekist að halda því í góðu horfi það sem af er þessu kjörtímabili.

Ég hvet því hæstv. forseta til að taka tillit til ábendinga frá hv. þingmönnum og taka tillit til aðstæðna hér. Það er alveg ljóst að miðað við það að við ræðum hér um stjórnarskrána og að við eigum eftir að ræða um mjög mikilvæg atvinnu- og efnahagsmál (Forseti hringir.) er langur tími fram undan í umræðum á Alþingi og taka þarf tillit til þess. (Gripið fram í.)



[20:34]
Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Nú eru liðnar rúmar 20 mínútur frá því að ég bar fram einfalda spurningu. Ég fór fram á það við hæstv. forseta að miðað yrði við það að umræður stæðu ekki lengur en til milli kl. 11 og 12 í kvöld. Ég tel það reyndar spurningu um virðingu Alþingis fyrir sjálfu sér, og því mikilvæga máli sem hér er til umræðu, að við séum ekki um hánótt að fjalla um það hvernig stjórnarskrá lýðveldisins skuli vera háttað.

Ég ber það mikla virðingu fyrir stjórnarskrá lýðveldisins að ég tel mjög mikilvægt að þjóðin geti fylgst með þeim umræðum sem fram fara um stjórnarskrána. Ég geri því þá kröfu, fer fram á það við virðulegan forseta, að hann hlutist til um það, svari þingmönnum og taki tillit til þeirra óska sem hér hafa komið fram um að fundur standi ekki lengur en (Forseti hringir.) fram yfir kl. 11 en þá verði þingfundi (Forseti hringir.) frestað til morgundagsins. Ég tek undir (Forseti hringir.) með þeim hv. þingmönnum sem hafa tjáð sig (Forseti hringir.) um þetta atriði, það (Forseti hringir.) skiptir gríðarlegu máli að menn viti hvað stendur til (Forseti hringir.) og geti skipulagt tíma sinn.



[20:36]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mér finnst það eiginlega ekki alveg ganga að hæstv. forseti skuli ekki svara þeim spurningum sem lagðar eru fram um skipulag fundarins, í fyrsta lagi hversu lengi hæstv. forseti hyggist halda áfram fundi í kvöld og í öðru lagi hvort hæstv. forseti hyggist fresta því máli sem nú er á dagskrá þannig að hægt sé að ræða stjórnarskrá lýðveldisins í dagsljósinu.

Til viðbótar, hæstv. forseti, hljótum við að reikna með því að flutningsmenn þess máls sem liggur hér fyrir, frumvarps til breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Birkir J. Jónsson og Guðjón A. Kristjánsson, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, verði við umræðuna. (BJJ: Ég er hér.) Það er með ólíkindum (VS: Málið er hjá þinginu.) (Forseti hringir.) að þessir flutningsmenn skuli ekki vilja fylgjast með framgangi málsins (Forseti hringir.) í Alþingi.



[20:37]
Forseti (Einar Már Sigurðarson):

Forseti tekur fram vegna þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað að að sjálfsögðu hefur forseti hlýtt gaumgæfilega á þær athugasemdir og þær óskir sem komið hafa fram en tekur jafnframt fram að engin önnur ákvörðun hefur verið tekin en að áfram verði haldið með þann lið sem hér er á dagskrá. Tekin verður ákvörðun síðar í kvöld eftir framvindu málsins um það hvað gert verður og hve lengi fundur muni standa.



[20:38]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi vinnubrögð verulega ámælisverð. Hér er mjög eðlilega spurt spurninga um vinnutíma þeirra sem hér eru. Vinnudagurinn hefur verið langur undanfarnar vikur. Við sem ætlum að vera við þessa umræðu og taka þátt í henni upplifum það hér að ekki er tekið tillit til spurninga okkar og þeirra óska sem komið hafa fram. Það er ekki hlustað á þetta.

Við upplifum þetta líka í nefndastarfi þar sem umræðutími er ekki gefinn til að ljúka almennum umræðum um mál áður en þau eru afgreidd út úr nefndum. Við upplifðum það í nefndastörfum í vikunni að mönnum var hreinlega vísað á dyr áður en þeir voru búnir að svara spurningum.

Þetta vekur upp spurningar um það, virðulegi forseti, hvers konar vinnubrögð eru farin að tíðkast undir stjórn þeirra vinstri manna sem komnir eru í stjórn í þinginu. Þetta er alveg með ólíkindum. Ég hvet forseta til að skoða hug sinn vel og gefa þingmönnum ítarlegri svör en hann hefur (Forseti hringir.) fært hér fram.



[20:39]
Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég nefndi það áðan að að afloknum kosningum 2007 hefðu verið tekin upp ýmis nýmæli sem áttu að vera til bóta varðandi þinghaldið. Meðal annars var komið á fót sérstakri eftirlitsnefnd sem hefur það hlutverk að kanna og skoða hvernig Alþingi er rekið, hvernig nefndir þingsins vinna og hvernig störf þingsins ganga.

Ég held að þetta sé skólabókardæmi um það sem ekki á að vera, það sem hefur gerst í þinginu eftir að þessi minnihlutavinstristjórn tók við. Það er stjórnleysi. Fyrst áttum við að upplifa bankahrun og síðan hreinlega hrun stjórnmálaflokkanna, þeirra stjórnarflokka sem nú eru, vegna þess að á Alþingi viðgengst algjört stjórnleysi. (Gripið fram í.) Það verður gott efni fyrir þá nefnd sem er að vinna að eftirlitsmálum Alþingis að fara yfir og ofan í það hvað gerðist eftir að þessi nýja minnihlutastjórn tók við.