136. löggjafarþing — 124. fundur
 2. apríl 2009.
stjórnarskipunarlög, frh. 2. umræðu.
frv. JóhS o.fl., 385. mál (stjórnlagaþing, náttúruauðlindir í þjóðareign og þjóðaratkvæðagreiðslur). — Þskj. 648, nál. 881 og 892, brtt. 805 og 882.

[20:40]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það var athyglisverð umræða sem hér fór fram og kom mér á óvart að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem ég held að ég geti leyft mér að segja að stjórni því hvað umræðan verður löng, kvörtuðu yfir því að umræðan væri löng. (ArnbS: Nei, nei.) Þau voru ómöguleg í ræðustól yfir því að þurfa að vera eitthvað fram eftir. (Gripið fram í: Ha?) (ArnbS: Af hverju segirðu það? Það er fullkomlega eðlilegt að ræða stjórnarskrána. Það tekur langan tíma.) Virðulegi forseti. Af því að hér er gjammað fram í — það var ekki að heyra á máli þeirra hv. þingmanna sem vældu eins og stungnir grísir (Gripið fram í.) að þeir væru (ArnbS: … bara lygar.) ánægðir eða spenntir yfir því að halda áfram að ræða jafnmikilvægt mál og frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Það kom mér á óvart að þeir skyldu kvarta undan því að við þyrftum að vera eitthvað fram eftir.

Hv. þingmenn eru harðduglegir og munu einskis láta ófreistað að koma sjónarmiðum sínum að þegar fram líða stundir. Ég vil bara (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Við erum mjög dugleg.) lýsa ánægju minni með það.

Virðulegi forseti. Erindi mitt í ræðustól var ekki að gleðjast yfir eða lýsa ánægju minni með framgöngu sjálfstæðismanna í málþófi sínu, (Gripið fram í.) heldur hitt að taka til umræðu frumvarp til stjórnarskipunarlaga og fara aðeins yfir nokkur atriði sem komið hafa fram. Umræðan sem hefur nú staðið í nokkrar klukkustundir hefur dregið það fram, sem er afar athyglisvert, að þrátt fyrir allan hávaðann, alla reiðina og þau stóru orð sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa látið falla í umræðunni er það í reynd þannig að þeir eru innst inni meira og minna sammála þeim breytingum sem verið er að gera. Í umræðunni hefur komið fram að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að auðlindir séu í sameign þjóðarinnar. Það kom fram hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni, sem nýverið var kosinn forustumaður í Sjálfstæðisflokknum, að hann telur, og lýsti mikilli ánægju sinni með það í ræðu áðan, að auðlindir sjávar væru í sameign þjóðar og að fleiri auðlindir ættu að vera þar. 1. gr. í þessu frumvarpi gengur út á að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti skuli vera í þjóðareign. Það er grundvallaratriði sem er í 1. gr. og augljóslega alveg í takt við það sem komið hefur fram hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni sem nýverið var kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins.

Ég lýsi ánægju minni með það og held að styttra sé á milli sjónarmiða meiri hluta og minni hluta á þingi. Vel má vera að það sé ekki stórmál að ná saman með Sjálfstæðisflokknum en það kann að vera að ræður þeirra, reiði, hávaði og stóryrði eigi rætur sínar að rekja til þess að þeir áttu ekki frumkvæði að því að gera þessar breytingar á stjórnarskránni. Ég held að við getum fundið taktinn við að ná saman.

Það eru nokkur atriði, virðulegur forseti, sem mig langar að fara aðeins yfir: Í fyrsta lagi langar mig að ræða þá fullyrðingu sem ítrekað hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að hér sé verið að niðurlægja Alþingi. Þar hefur gengið manna lengst hv. þm. Björn Bjarnason sem hefur fullyrt að þær hugmyndir sem uppi eru feli í sér niðurlægingu Alþingis. Hv. þingmaður á þá við stjórnlagaþingið. Ég ætla að byrja á því. Hvað er verið að gera? Hér er verið að færa þjóðinni það vald að kjósa sér fulltrúa á stjórnlagaþing og síðan greiða um það atkvæði hvort hugmyndir stjórnlagaþings um nýja stjórnarskrá verða að veruleika. Með öðrum orðum er verið að færa valdið til þjóðarinnar. Hvaðan kemur valdið? Hvar er uppspretta valdsins? Það er hjá þjóðinni. Hvar annars staðar getur uppspretta valdsins verið?

Ef það er niðurlæging fyrir Alþingi að fara með valdið til þjóðarinnar, veit ég ekki í hvaða farveg umræðan er komin. (Gripið fram í.) Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins leyfa sér að tala á þennan hátt án þess að blikna. Þeir leyfa sér að segja að færa eigi valdið frá Alþingi. En hvaðan fær Alþingi valdið? (Gripið fram í.) Er nema von að þeir flýi eins og fætur toga úr salnum þegar á að ræða þessi mál við þá í fúlustu alvöru og verið er að tala um annað en málþóf og kjánaskapinn sem þeir hafa sýnt af sér í umræðunni að undanförnu?

Í þeim hugmyndum sem hér liggja fyrir er einnig talað um aðkomu þingsins. Vel má vera að gera megi einhverjar breytingar á þessu til að gera þá aðkomu jafnvel meiri. En það er algerlega fráleitt að tala um niðurlægingu Alþingis þegar valdið er fært út til fólksins. Það er ekki boðleg röksemdafærsla í umræðu af þessum toga.

Mig langar að segja, af því að hér kemur hv. þm. Birgir Ármannsson í salinn sem einn þeirra sem hefur tjáð sig á þennan hátt, að Alþingi hefur aldrei endurskoðað stjórnarskrána frá grunni, aldrei nokkurn tímann. Alþingi kaus hins vegar 1942 sérstaka milliþinganefnd sem fékk það hlutverk að gera breytingar á stjórnarskránni áður en lýðveldið var stofnað 1944 og nefndin fékk einnig það hlutverk að endurskoða stjórnarskrána. Með öðrum orðum kaus Alþingi milliþinganefnd til að gera það. Í þessu tilviki er lagt til að þjóðin kjósi fulltrúa í persónukjöri á stjórnlagaþing og taki síðan afstöðu til stjórnarskrárinnar.

Hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þykir það sennilega minni niðurlæging ef Alþingi heldur völdunum hjá sér, kýs sína milliþinganefnd og tekur svo sína ákvörðun. Ráða hefur mátt af málflutningi þeirra hv. þingmanna að valdið sé sprottið frá þinginu. Það er ekki þannig, valdið kemur frá þjóðinni. (Gripið fram í: En búið að búa allt of lengi hjá Sjálfstæðisflokknum.) Og valdið kemur heldur ekki frá Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í: Nei.) Það kemur frá þjóðinni. (Gripið fram í.) Það er afar mikilvægt í þessari umræðu að við ræðum þessa hluti eins og þeir eru en ekki á þann hátt sem verið hefur. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa flúið í formið, þeir hafa algjörlega forðast að ræða efnið. Þeir hafa flúið í formið undir fororði um að hér væri á ferðinni niðurlæging fyrir Alþingi sem er algjörlega fráleitt, (Gripið fram í.) það er algjörlega fráleitt að tala um það á þeim nótum.

Ég byrjaði áðan ræðu mína á að fara yfir 1. gr. frumvarpsins og dró þá fram að hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, teldi afar eðlilegt að auðlindir væru í sameign þjóðarinnar. Hann hafði hins vegar athugasemdir í ræðu sinni við orðið þjóðareign af því að hann taldi það lítt útskýrt hugtak eins og fleiri telja. Í mínum huga er það afar skýrt. Við getum sagt að hér sé um að ræða ríkiseign sem heitir þjóðareign alveg eins og eignarréttindi hafa ýmis nöfn, til að mynda ítak, afnotaréttur o.s.frv. Eignarréttur hefur mismunandi heiti. Í þessu tilfelli tölum við um þjóðareign. Og hvað felst í þjóðareign? Í þjóðareign felst að ríkisvaldið, þ.e. varsla þessara réttinda, er hjá Alþingi, og ríkisstjórn eftir atvikum, og það er lykilatriði að þessar auðlindir verða ekki seldar varanlega. Þær verða ekki látnar af hendi varanlega, það er einkenni á þeim eignarrétti sem í þessu felst. Þá eiga hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, í stað þess að flýja í formið, í stað þess að segja að þeir skilji ekki hugtakið, að koma upp og segja: Nei, við viljum ekki að í stjórnarskrá sé ákvæði um að auðlindir verði ekki látnar varanlega af hendi. Þá væru þeir farnir að tala efnislega um það sem skiptir máli.

Við höfum kallað eftir því í umræðunni að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins komi og ræði málið á þeim nótum.

2. gr. í þessu frumvarpi — þetta er ekki stórt frumvarp þó að það innihaldi stórt efni, hér er verið að ræða um stjórnarskrána. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa komið upp í öllum hávaðanum, í öllum látunum og öllum stóryrðunum og sagst vera fylgjandi þeirri grein og tilbúnir að standa að henni. Þá erum við búin að fara yfir tvær greinar af fjórum og hugmyndafræðilega eru þeir fylgjandi 1. gr., líka 2. gr. og þá er spurningin um 3. gr.

Hvert skyldi vera hið hættulega efni í 3. gr.? Hvað skyldi vera svo ógnvænlegt, hvað er að varast? Jú, það er að þjóðin fái aukinn rétt til þess að koma að ákvörðunum, þ.e. fái aukinn rétt til þess að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um stór mál sem lúta að almannahag, að 15% þjóðarinnar, eftir tilteknum reglum, geti óskað eftir því að stór mál sem lúta að almannahag gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu. (BJJ: Guð forði okkur.) Það er ógnin. Þarna er hættan. Það skyldi þó ekki vera að eitthvert smávald væri tekið af þinginu. Kannski felst niðurlæging þingsins í því að þjóðin hafi eitthvað um málið að segja, eins og hv. þm. Björn Bjarnason sagði og hótaði því og lofaði að hann skyldi tala um niðurlægingu þingsins meðan þetta mál væri á dagskrá, sem sagt að valdið væri fært til þjóðarinnar þar sem uppspretta þess er.

Þetta er 3. gr. frumvarpsins að meginstofni til, að almenningur geti í auknum mæli knúið fram atkvæðagreiðslu um mál er lúta að almannahag.

Þessar þrjár greinar kalla náttúrlega fram stóryrði, fúkyrði, og sagt að verið sé að valta yfir þingið.

Þess ber einnig að geta — ég nefndi það ekki áðan — að 1. gr. hefur verið í umræðu í u.þ.b. 11 ár, umræðan hófst í auðlindanefnd sem starfaði frá 1998–2000. Það hafa verið skrifaðar heilu bækurnar og ritin um þetta, stjórnarskrárnefnd sem starfaði á árunum 2005–2007 fór mjög vel yfir þetta.

Sú stund rennur upp að það þarf að taka afstöðu. Umræðunni um þetta er lokið, nú verða menn bara að taka afstöðu og þá er spurningin, hv. þm. Birgir Ármannsson: Vilja sjálfstæðismenn setja ákvæði í stjórnarskrá sem gengur út á það að auðlindir verði ekki látnar varanlega af hendi? Þá eiga menn bara að segja heiðarlega: Nei, við viljum það ekki. Þá erum við farin að tala um þetta efnislega, tala um efnisleg ákvæði í stjórnarskrá, gildi og innihald. Það er það sem við viljum ræða, það er það sem skiptir máli og það sem við viljum við kalla fram.

Þetta eru þær þrjár stórhættulegu greinar sem við erum að tala um, í fyrsta lagi grein sem rædd hefur verið í 10–11 ár í mörgum nefndum og mikið skrifað um, í öðru lagi ákvæði sem við erum sammála um og svo hættulega ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Svo erum við komnir að 4. gr. sem lýtur að stjórnlagaþingi sem ég fór aðeins yfir áðan. Stjórnlagaþing er í eðli sínu aðeins aðferðafræði, ef ég má nota það orð, við að endurskoða stjórnarskrána. Það eru ýmsir möguleikar í þessum efnum, við getum fengið nokkra fræðimenn til að kíkja á málið og gera tillögur eins og við gerðum 1942. Er það niðurlæging þingsins, hv. þm. Birgir Ármannsson? Felst einhver niðurlæging í því að kalla til nefnd?

Ég held ekki, ekki frekar en þetta. Hér er verið að tala um að einstaklingar geti boðið sig fram á stjórnlagaþing til að vinna að endurskoðun á stjórnarskránni. Það er aðferðafræði. Ég er ekki að segja að þetta sé endilega besta aðferðafræði í heimi en það eru margar leiðir til. Þetta er ein þeirra, að fólkið í landinu, þaðan sem uppspretta valdsins er, kjósi einstaklinga á stjórnlagaþing til að endurskoða stjórnarskrána.

Hv. þingmenn hafa sagt að gallinn við þetta sé að Alþingi afsali sér þar með stjórnarskrárvaldinu. Það er rétt svo langt sem það nær en Alþingi sækir líka vald sitt til fólksins og í þessu tilviki er verið að færa fólkinu þetta vald. Að því leytinu til … (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Það var ágætt að fá þetta frammíkall. Það á að leggja niður þingið. (Gripið fram í.) Er einhver ástæða til að kjósa? (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn hefur valdið, (Gripið fram í.) er einhver ástæða til að fara til fólksins og spyrja hverjir eigi að sitja á þingi? (Gripið fram í: Nei, við skulum bara hætta þessu.) (ArnbS: Hver er tillagan frá þér?) (Gripið fram í: Um hvað snýst þetta?) Það er alveg með ólíkindum, ef þjóðin fær aukna aðkomu að ákvarðanatöku til að breyta stjórnarskránni felur það sjálfkrafa í sér að við skulum bara leggja þingið niður. Þetta er afstaðan, þetta er viðhorfið. (Gripið fram í: Þú ert að tala um nýtt þing …) Ég er ekki að tala um — (ArnbS: Á stjórnlagaþing að hafa löggjafarvald eða ekki, já eða nei?) Enn og aftur er hér frammíkall, það er smám saman að renna upp fyrir mér að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki lesið þetta frumvarp sem við erum að tala um. (Gripið fram í: Ó, jú.) Frammíkallið ber þess glögg merki, nú ætla ég að fara yfir það. Stjórnlagaþingið sem kosið verður til af fólkinu í landinu, í persónukjöri, 41 í persónukjöri, fær það hlutverk að endurskoða stjórnarskrána. Það er hlutverk þess. Í því felst ekkert löggjafarvald, nei. Hins vegar felst í því réttur til að leggja fyrir þjóðina tillögu að nýrri stjórnarskrá. Í því felst ekki löggjafarvald, í því felst réttur til að leggja tillögu um nýja stjórnarskrá fyrir þjóðina. Hvað er svona stórhættulegt við það?

Hvar liggja allar hinar stórkostlegu hættur í þessu máli? (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn …) Ég verð bara að játa, virðulegi forseti, að eftir að hafa hlýtt — og ég einsetti mér strax í dag að fylgjast mjög vandlega með málflutningi sjálfstæðismanna vegna þess að þeir hafa verið það stóryrtir og gott ef þeir hafa ekki haldið sérstakan blaðamannafund um að þetta sé svo ómögulegt mál — að reyna að átta mig á því hvar ég fór út af sporinu. Ég styð nefnilega málið, ég sat og sit í þeirri sérnefnd sem fjallaði um málið. Hvar yfirsást mér svona stórkostlega? Ég einsetti mér strax í morgun að hlýða mjög vandlega á málflutning sjálfstæðismanna til að reyna að átta mig á því hvar mig hefði borið af leið.

Ég er smám saman að átta mig á því að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa í raun og veru kannski ekki alveg, að minnsta kosti ekki allir, sett sig vandlega inn í málið. Alla vega sé ég ekki þær hættur sem þeir sjá.

Ég sé að hv. þm. Birgir Ármannsson situr hér og hann á einnig sæti í sérnefndinni. Ég beindi til hans einni spurningu áðan og mig langar að bæta við fyrirspurn. Það er ekki þannig að ég sýni hv. þingmanni nokkurn dónaskap með því að beina til hans fyrirspurn, ég sá að hann hafði óskað eftir því að veita andsvar og þess vegna langar mig að beina til hans fyrirspurn. Hann ræður hvort hann svarar henni. Ég spurði hann áðan hvort hann væri þeirrar skoðunar að auðlindir ætti ekki að láta varanlega af hendi, sem er hið hættulega inntak hugtaksins þjóðareign, og mig langar einnig að spyrja hann í hverju ótti hans liggur gagnvart því að þjóðin komi frekar að málum. Mig langaði að beina til hans þessum tveimur spurningum af því að hér er um efnisatriði að ræða. Mér sýnist að það sé stutt á milli okkar í 2. og 4. gr. og ef ágreiningur um 1. og 3. gr. byggir á misskilningi, held ég, virðulegi forseti, að ekki sé langt í að við getum náð hér saman og gengið út í vorið hönd í hönd í samkomulagi um breytingar á stjórnarskránni. Að því væri mikill sómi fyrir þingið, ég tala nú ekki um fyrir okkur hv. þingmenn sem erum hér á síðustu metrum þingferils okkar, að geta endað þingið í sátt og samlyndi og greitt úr þeim misskilningi sem virðist svífa hér yfir vötnum.

Ég er sannfærður um að smám saman mun orðræðan fara úr forminu og yfir í efnið og þegar hún kemst þangað held ég að ekki sé langt á milli okkar í þessu máli. Ég hvet sjálfstæðismenn eindregið til að koma til móts við okkur því að það er svo stutt á milli okkar í þessu öllu saman.



[21:02]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að mótmæla því sem hv. þingmaður sagði um formið og efnið því að ég hef spurt nokkrum sinnum um efnið, t.d. það sem hann mótmælti, að í 2. gr. sem breytir 79. gr. sem verður 81. gr. er talað um að Alþingi geti samþykkt breytingar á stjórnarskránni og í 4. gr. er talað um að skipa eigi nýtt stjórnlagaþing sem eigi að breyta stjórnarskránni. Eru þá ekki tvö stjórnlagaþing á sama tíma að breyta stjórnarskránni? Ég spyr: Er þetta ekki efni?



[21:03]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom aðeins inn á það í máli mínu áðan að stjórnlagaþingið hefur rétt til þess að gera tillögu til þjóðarinnar um endurskoðun eða nýja stjórnarskrá þannig að stjórnlagaþingið sjálft breytir ekki stjórnarskránni. Stjórnlagaþingið sendir Alþingi, eins og málið lítur út núna, tillögu sína og óskar eftir umsögn. Að þeirri umsögn lokinni þarf 2/3 hluta fulltrúa á stjórnlagaþingi til að samþykkja tillöguna og að því loknu er hún lögð fyrir þjóðina sem tekur endanlega ákvörðun um það hvort stjórnarskránni skuli breytt. Í þeim skilningi hefur stjórnlagaþingið ekki rétt til að breyta stjórnarskránni en það hefur rétt til þess að leggja fram tillögu til breytinga á stjórnarskránni fyrir þjóðina.



[21:04]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemst ekkert undan því að það eru tvö kerfi, tvær stofnanir í þjóðfélaginu, Alþingi hið gamla frá 930 og hið nýja stjórnlagaþing, sem hafa heimild til að leggja fyrir þjóðina tillögur um breytingar á stjórnarskránni. Það skyldi nú ekki að vera að þjóðin geti orðið ansi rugluð þegar koma tvær tillögur sem kannski ganga þvert á hvor aðra þar sem hvor um sig bannar hitt? (Gripið fram í.)

Það gæti nefnilega gerst í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu og þá vil ég spyrja hv. þingmann um efnið. Hér fylgir með fylgiskjal sem hv. þingmaður sagði áðan að hefði í rauninni ekkert að segja fyrir nýtt komandi þing. Það gæti gerst að inn á þetta stjórnlagaþing kæmu menn sem ráðandi flokkar á Alþingi væru ekkert voðalega sáttir við. (Gripið fram í.) Það gæti gerst. Það gæti t.d. gerst að Sjálfstæðisflokkurinn fengi meiri hluta á þessu stjórnlagaþingi (Gripið fram í.) og þá er spurning hvernig … (Gripið fram í: Er þetta hótun?) Nei, nei, ég er bara að segja að allt getur gerst, sjávarútvegsmenn (Gripið fram í.) eða einhverjir slíkir. Hvað gera menn þá?



[21:05]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér liggur fyrir afsalar ekki Alþingi réttinum til að breyta stjórnarskránni. Á hinn bóginn er hér tillaga um að sett verði á fót stjórnlagaþing til að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni. Þannig er það.

Þá ætla ég að nefna hitt. Hv. þingmaður er dálítið upptekinn af fylgiskjali í greinargerð þar sem dregið er fram (Gripið fram í.) hvernig lög gætu litið út sem næsta þing setur, og hv. þm. Pétur Blöndal verður, að ég tel, að öllum líkindum fulltrúi á löggjafarsamkundunni á næsta þingi. Hv. þingmaður getur þá komið að því og mun koma að því að setja þau lög sem koma til með að gilda um stjórnlagaþingið. Hann getur haft mikið um það að segja hvernig þau lög koma til með að líta út og hv. þingmaður er á engan hátt bundinn af fylgiskjali í greinargerð (Forseti hringir.) um það hvernig þetta gæti litið út. (Gripið fram í.)



[21:06]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson varði mestum hluta ræðu sinnar í að ræða Sjálfstæðisflokkinn en minna um að ræða efnisatriði frumvarpsins. (Gripið fram í.) Og það er greinilegt að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er líka uppteknari af Sjálfstæðisflokknum en frumvarpinu. Ég skil vel áhuga viðkomandi þingmanna á Sjálfstæðisflokknum en ég velti því hins vegar fyrir mér hvort þessi umræða um Sjálfstæðisflokkinn í tengslum við þetta mál skýri það hvers vegna farið er fram með málið af því offorsi sem raun ber vitni.

Það er auðvitað ljóst og þarf enginn um það að deila að hér er verið að brjóta í blað í sambandi við vinnubrögð við stjórnarskrárbreytingar á Íslandi. Það er enginn vafi um það. Ég spyr hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hvort hann sé sáttur við það að standa að þeirri grundvallarbreytingu á aðferðum við að breyta stjórnarskrá á Íslandi (Forseti hringir.) sem hér er á ferðinni.



[21:07]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf ekkert að koma á óvart þó að hv. þingmenn í meiri hlutanum séu uppteknir af Sjálfstæðisflokknum vegna þess að meiri hlutinn hefur mikinn áhuga á því að þingmenn gangi saman út í vorið hönd í hönd samstiga í þessu máli. Við erum að reyna að skilja afstöðu Sjálfstæðisflokksins og kanna hvort eða hvernig hægt sé að koma til móts við hann vegna þess að við höfum átt mjög erfitt með að skilja efnislega afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Við skiljum formlegu umræðuna sem hefur verið algjörlega ráðandi í málflutningi þeirra en ég hef verið að reyna að leita eftir efnislegri afstöðu til þess að reyna að leita leiða til að ná saman við minni hlutann.

Ég held að sjálfstæðismenn geri meira úr því en efni standa til ef þeir telja að þær klassísku hugmyndir sem hér eru, t.d. hugmyndir jafnaðarmanna og fleiri um þjóðareign á auðlindum og þjóðaratkvæðagreiðslur, séu settar fram Sjálfstæðisflokknum til höfuðs. (Forseti hringir.) Það tel ég alveg fráleitt.



[21:08]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að hv. þingmaður hefur lengi haft áhuga á ákvæðinu um þjóðareignina og það hafa margir haft. Það sem við höfum hins vegar gagnrýnt í þessu er að ríkisstjórnin ákveður að gera tilteknar breytingar á stjórnarskránni. Hún setur í gang vinnu þar um sem skilar sér í frumvarpi sem hér er lagt fyrir þingið. En það er fyrst þegar málið er komið á það stig að frumvarp liggur fyrir í drögum að sjálfstæðismenn eru kallaðir til viðræðu um málið og þá ekki um hvaða breytingar á að gera heldur eru þeir beðnir um að taka afstöðu til tillagna sem þegar eru fullmótaðar eða svo til fullmótaðar. Það er mjög mikið frávik frá öllum vinnubrögðum í sambandi við stjórnarskrárbreytingar á Íslandi og í flestum löndum sem við berum okkur saman við.

Ég heyrði ekki svar hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar við spurningu minni um hvort hann væri sáttur við þessi vinnubrögð og sáttur við að vera í forsvari fyrir (Forseti hringir.) það að rjúfa þá sátt og þær hefðir sem gilt hafa um stjórnarskrárbreytingar á Íslandi.



[21:10]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ítrekað lýst því yfir að ég hefði mikla ánægju af því og mikla gleði ef hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins kæmu með okkur í þessa för, það hef ég ítrekað sagt.

Það er dálítil einföldun að segja að ríkisstjórnin flytji hér mál, svo er ekki, (Gripið fram í.) því að hér er um það að ræða að fjórir þingflokkar af fimm leggja til breytingar. Spurningin … (Gripið fram í.) Þetta er unnið af sérfræðingum, einhverjum mestu sérfræðingum … (Gripið fram í.) Einhver þarf að hafa frumkvæði að vinnunni.

Meginatriðið er að hér er um að ræða vandað frumvarp. (Gripið fram í.) Það sem mig langaði að segja ef ég kemst að er þetta: Sú siðferðilega spurning sem við stöndum frammi fyrir er þessi: Er sanngjarnt að einn þingflokkur af fimm hafi neitunarvald um (Forseti hringir.) það þegar Alþingi Íslendinga vill gera breytingar? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það er í raun og veru hin siðferðilega spurning sem við erum að takast á við og höfum svarað eins og hér hefur komið fram.



[21:11]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Talandi um siðferði þá er hin siðferðislega spurning sem uppi er sú: Af hverju eru stjórnarflokkarnir og meiri hlutinn í þinginu að gera stjórnarskrána að pólitísku átakaskjali? Það er siðferðislega spurningin. Af hverju er verið að brjóta hálfrar aldar sátt um það hvernig við breytum stjórnarskránni?

Það var ekkert við okkur talað. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fara á einn fund hjá stjórnarskrárnefndinni undir forustu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur. Þetta voru ekki samræður, þetta var eintal og það var valtað ekki bara yfir gesti, heldur líka yfir okkur sem (Gripið fram í.) vorum í … (Gripið fram í.) Ég mætti bara á einn fund.

Það sem ég vil hins vegar (Gripið fram í.) segja, hæstv. forseti, fulltrúar þjóðarinnar — mér finnst miður að heyra hv. þingmann, sem er að ljúka annars ágætum ferli sínum sem þingmaður, tala um sig ekki sem fulltrúa þjóðarinnar. Við erum öll fulltrúar þjóðarinnar hér inni og við erum að tala um breytingu á lögum nr. 30/1944 (Forseti hringir.) og þess vegna tel ég vont þegar við heyrum, aðferðafræðin við stjórnlagaþingið, (Forseti hringir.) þetta er bara aðferðafræði. (Forseti hringir.) Mér finnst ekki við hæfi eða sómi af því að taka af Alþingi þetta vald sem það hefur í dag.



[21:13]
Forseti (Einar Már Sigurðarson):

Forseti vill vekja athygli hv. þingmanna á því að ræðutími í andsvörum er styttur og vill biðja hv. þingmenn um að virða tímamörk.



[21:13]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er nokkur vandi á höndum að svara þessu andsvari því að röklegt samhengi var ekki mikið í því. Þó var tvennt sem ég man. Hið fyrra var það að líklega sé ekki til pólitískara skjal en stjórnarskráin, þar eru grundvallarreglur samfélagsins og þar er tekist á um grundvallaratriði. Þess vegna er eðlilegt að tekist sé á um breytingar í stjórnarskrá, það er ofur eðlilegt að tekist sé á um grundvallaratriði.

Hitt vil ég líka nefna að mér finnst ekki sanngjarnt að hv. þingmaður komi hér og gaspri um það að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sem stóð sig afburðavel … (Gripið fram í: Það eru skiptar skoðanir á því.) Já, menn geta haft skiptar skoðanir en menn verða að hafa einhver rök fyrir skoðunum sínum. (Gripið fram í: Hvar er …?) Kjarni málsins er þessi: Hv. þingmaður stóð sig afburðavel og enginn kvartaði (Forseti hringir.) undan fundarstjórn hv. þingmanns að undanskildum einum eða tveimur fulltrúum (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokksins og það var aldrei vaðið yfir neina gesti.



[21:14]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvær spurningar. Hv. þingmaður gat um það í ræðu sinni að við séum búin að ræða um auðlindir, sameign þjóðarinnar o.s.frv. í 11 ár og hann lýsti því yfir að nú sé umræðum lokið. Einhliða lýsti hann yfir: Umræðum er lokið, við skulum afgreiða málið.

Hvað er hins vegar búið að ræða stjórnlagaþingið lengi? Það var ekki minnst á það einu orði í vinnu stjórnarskrárnefndarinnar sem var opin landsmönnum öllum. Það talaði ekki einn landsmaður um stjórnlagaþing, ekki einn, og það var ekki einu sinni minnst á þetta í ríkisstjórninni sem við vorum saman í. Finnst hv. þingmanni þriggja mánaða umræða um stjórnlagaþing vera til þess bær að breyta stjórnarskránni með þeim hætti að taka löggjafarvaldið af Alþingi? Það er ekki verið að gera neitt annað.

Það var í fyrsta lagi þetta varðandi stjórnlagaþingið: Er þetta næg umræða, er hún nægilega víðtæk? Hv. þingmaður nefndi að 11 ár um auðlindir dugi en duga þrír mánuðir (Forseti hringir.) til að breyta stjórnarskránni varðandi stjórnlagaþingið?



[21:15]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræðan um sameign þjóðarinnar á auðlindum er reyndar eldri en 11 ára, þótt umræðan um þjóðareign sé kannski ekki eldri, því ákvæðin komu m.a. inn í fiskveiðistjórnarlögin 1990 og umræðan er sem sagt orðin nokkuð löng og mikil.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að umræðan um stjórnlagaþingið í þessu formi er ekki gömul. En hin klassíska umræða um hvaðan valdið er sprottið, hverjir geta farið með vald og þess háttar er aldagömul.

Hér er aðeins um að ræða útfærslu á því að færa valdið til fólksins. Gefa því færi á að velja sér fulltrúa á stjórnlagaþing. (Gripið fram í.) Það er rétt — hugmyndin um stjórnlagaþing. Hins vegar er þessi klassíska umræða um valdið hjá fólkinu margra alda gömul. Hér er í raun og veru verið að færa ... (Gripið fram í: … já eða nei …) Virðulegi forseti. Úr því að hv. þingmaður treystir sér ekki til að hlýða á umræðuna — en hún hefur látið af máli sínu. Ég ætlaði (Forseti hringir.) að segja að þessi umræða um að færa valdið til fólksins (Forseti hringir.) er gömul. (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Já eða nei?) Það er það sem (Forseti hringir.) Alþingi er að gera.



[21:17]
Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson velti því margsinnis fyrir sér í ræðu sinni hvað farið hefði fram hjá honum sem skýri afstöðu sjálfstæðismanna til frumvarpsins. Mjög einfalt er að skýra út fyrir hv. þingmanni hvað hefur farið fram hjá honum.

Það virðist algerlega hafa farið fram hjá hv. þingmanni að sjálfstæðismenn hafa ekki sama skilning og hann þegar hann talar af miklu yfirlæti um að verið sé að færa valdið til fólksins með því að láta kjósa stjórnlagaþing með fulltrúakosningu. Hver er munurinn á Alþingi Íslendinga og því að færa valdið til fólksins og kjósa til fyrirhugaðs stjórnlagaþings? Hv. þingmaður byggir þarna upp grundvallarmisskilning og reynir svo að telja sér (Forseti hringir.) trú um að hann botni ekkert í einhverri undarlegri afstöðu sjálfstæðismanna. Að færa valdið (Forseti hringir.) til fólksins, (Forseti hringir.) sagði þingmaðurinn.



[21:18]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla því að hér hafi þessi mál verið rædd af einhverju yfirlæti. Það er af og frá. Hins vegar er það þannig og hv. þingmaður spurði hver munurinn væri á því að almenningur eða þjóðin kysi til stjórnlagaþings eða almenningur eða þjóðin kysi til Alþingis? Það er enginn sérstakur munur á því. Ég er sammála hv. þingmanni.

En í hverju liggur þá grundvallarmunurinn á afstöðu okkar? Ef enginn munur er á því að þjóðin kjósi til stjórnlagaþings og að þjóðin kjósi til Alþingis, hvar liggja þá bágindin? Í báðum tilvikum er það þjóðin sjálf sem velur sér fulltrúa til að sinna ákveðnum verkefnum.

Ég verð að segja: Hvar liggja bágindin? Hver er vandinn? Ég hef kallað eftir svörum við því til að skilja afstöðu sjálfstæðismanna svo við getum komið til móts við þá. Ég trúi ekki að þeir séu bara í fýlu af því að ekki hefur verið nægilega mikið við þá talað. Ég trúi því ekki að afstaða þeirra byggi á því. (Forseti hringir.) En þess vegna (Forseti hringir.) kalla ég eftir þessari efnislegu (Forseti hringir.) umræðu og ég er sammála hv. þingmanni. (Forseti hringir.) Það er enginn munur á þessu.



[21:19]
Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var akkúrat þetta sem ég vildi fá fram. Hv. þingmaður viðurkenndi að enginn munur væri á því að færa valdið til fólksins með Alþingi eða stjórnlagaþingi. Þess vegna spyr ég hvaða tilgangi þjónar þá að setja sérstakt stjórnlagaþing og taka stjórnlagavaldið af Alþingi?

Þarna endurspeglast sá grundvallarmunur og sú algera blekking sem hv. þingmenn sem fylgja þessu máli fram eru að reyna að byggja upp hjá þjóðinni. Blekkja þjóðina með því að halda því fram að verið sé að færa vald til hennar. Ýta Alþingi til hliðar og þykjast færa valdið til þjóðarinnar. Þingmenn eiga ekki að ganga með þessum hætti fram hér á hinu háa Alþingi.



[21:20]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þessi rökræða, þessi innihaldslausu stóryrði þar sem menn eru sakaðir um blekkingu, sem er að draga þessa umræðu niður á slæmt plan. (Gripið fram í: Það eru þín orð.)

Staðreyndin er sú að flokkunum á Alþingi hefur ekki auðnast að gera breytingar á stjórnarskrá eða heildarendurskoðun allt frá árinu 1944. (Gripið fram í.) Við erum að tala um stjórnlagaþingið. Það er það sem við erum að tala um. Allt frá árinu 1944, eins og lagt var upp með þá.

Þess vegna leggjum við hér til að þjóðin kjósi einstaklinga í persónukjöri til að sitja þetta stjórnlagaþing, (Gripið fram í.) ekki á grundvelli flokka, eins og hv. þm. Pétur Blöndal hótaði hér áðan að hann ætlaði að beita íhaldinu fyrir sig til að ná áhrifum á stjórnlagaþingi. Nú eigum við að kjósa með persónukjöri en ekki af listum inn á stjórnlagaþing sem á að takast á við þetta verkefni. (Gripið fram í.) Í báðum tilvikum (Forseti hringir.) er það þjóðin, þaðan sem valdið er sprottið, sem velur fulltrúa sína (Forseti hringir.) inn á þing. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Staðreyndin (Forseti hringir.) er sú (Forseti hringir.) að það er (Forseti hringir.) rétt hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að (Forseti hringir.) enginn grundvallarmunur er á þessu. (Forseti hringir.) Þannig að við erum kannski í reynd sammála.



[21:22]Útbýting:

[21:22]
Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í tilefni af ummælum sem hafa fallið í dag [Hlátur í þingsal.] um hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur verð ég að lýsa yfir miklum vonbrigðum með það að reyndir þingmenn Sjálfstæðisflokksins skuli standa hér bláir í framan af belgingi og reyna að gera lítið úr hv. formanni nefndarinnar sem er með mikla þingreynslu og hefur komið mörgum, góðum og brýnum málum til leiðar með eða án sjálfstæðismanna. (Gripið fram í.)

Það veldur mér sérstökum vonbrigðum að standa hér, ég hef ekki setið á þingi nema í fimm mánuði, og verða vitni að því að af mönnum sem hér hafa setið hér svo áratugum skiptir, reyndar með nýjan foringja í bandi, leki fýlan af því að þeir eru ekki aðal lengur. (Gripið fram í: O, vei!) Það er pínlegt að horfa á þingmenn Sjálfstæðisflokksins standa hér í löngum biðröðum eftir að komast í ræðustól þingsins til að rövla í stað þess að nýta tímann með markvissari og faglegri hætti.

Hvernig stendur á því, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) að þingmenn Sjálfstæðisflokksins reyna að koma í veg fyrir að málefni stjórnarskrárinnar komist hér á dagskrá? (Gripið fram í.) Hvernig stendur á því? Hvers vegna skyldu þeir ekki hafa fagnað í gær tækifærinu sem felst í því að taka málið á dagskrá til að tjá sig með málefnalegum hætti um þetta mikilvæga mál? (Gripið fram í.) Er það vegna þess að þeir eru rökþrota? Vegna þess að þeir treysta sér ekki til að segja þjóðinni hvað þeim býr í brjósti? Þora þeir ekki að segja þjóðinni að þeir telji sjálfa sig best til þess fallna að segja henni hvað henni er fyrir bestu? (Gripið fram í.) Er Sjálfstæðisflokkurinn hinn útvaldi sem hefur alltaf ráðið málefnum stjórnarskrárinnar og þess vegna má ekki breyta út af þeim vana?

Horfa ber til þess að þau mál sem hér eru borin á borð hafa verið til umræðu um áratuga skeið, að stjórnlagaþingsmálinu undanskildu. Það mál er hins vegar afleiðing af því að fjórir stjórnmálaflokkar af fimm hér í þinginu hafa ákveðið að 65 ára gamalli tilraun til breytinga á stjórnarskránni sé lokið. Ekki er rétt að leyfa Alþingi að gera frekari tilraunir að svo stöddu og þjóðin sem hinn raunverulegi stjórnarskrárgjafi er rétti aðilinn til að taka þessi mál í fangið og setja nýjar reglur. Líka fyrir stjórnmálamenn og kannski ekki síst þá sjálfstæðismenn sem sitja hér svoleiðis að það lekur af þeim fýlan af því að völdin eru ekki þeirra lengur.

Tími er kominn til að brjóta niður gamlar valdablokkir eins og þær sem fyrirfinnast í Valhöll og sjálfstæðismenn geta verið í allri þeirri fýlu sem þeim dettur í hug. Ég get lofað því að hugsandi fólk í þessu samfélagi sér í gegnum þau leikrit sem sett eru á svið hér daglega og það fólk mun væntanlega ekki verðlauna sjálfstæðismenn fyrir fíflaganginn með atkvæði sínu þann 25. apríl.

En þá skulum við horfa til þess hvers vegna eðlilegt er að þjóðin taki þetta mál í fangið og hvers vegna stjórnmálamenn eins og þeir sem skipa Sjálfstæðisflokkinn eiga að una því að sett verði á stjórnlagaþing þjóðinni til heilla.

Það er nefnilega þannig, virðulegi forseti, að Ísland er lýðveldi og valdið liggur í samfélaginu hjá fólkinu og verður ekki rakið neitt annað. Við höfum valið að þrískipta ríkisvaldinu og þingbinda stjórnina. Ein stoðin er fólgin í því að kjósa umboðsmenn sem í daglegu tali eru nefndir alþingismenn til að fara með það vald að setja leikreglurnar. Önnur stoðin framkvæmir svo þær leikreglur í gegnum framkvæmdarvaldið, sem í daglegu tali er kallað ráðherrar. Þriðja stoðin er svo hið óháða og sjálfstæða dómsvald. En allt þetta vald hvílir á stjórnarskránni.

Styr hefur staðið um stjórnarskrána undanfarið og raunar mun lengur því tilraunir til breytinga á henni hafa staðið allt frá því að hún var sett. Þó nokkrar stjórnarskrárnefndir hafa starfað um lengri eða skemmri tíma og skilað í heildina heilmiklu starfi, þó líklega sýnu mestu sú sem Jón Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins, stýrði. (Gripið fram í.) Þessar nefndir hafa allar verið skipaðar á forsendum stjórnmálaflokkanna og einmitt þess vegna er árangurinn (Gripið fram í.) enn þá rýr. Vegna mismunandi stefnu þeirra og sjónarmiða ná þeir ekki þeim árangri sem þjóðin kallar eftir nema að litlu leyti.

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er enn byggð að miklu leyti á sáttmálanum sem gefinn var af danska konunginum árið 1874 og tekur mið af dönsku fyrirkomulagi eins og það var á þeim tíma. (Gripið fram í.) Slíkt er óásættanlegt og veldur reglulega deilum. Það getur t.d. ekki talist eðlilegt að menn deili með reglulegu millibili um hlutverk og völd forseta lýðveldisins.

Eignarhald þjóðarinnar á auðlindum hennar verður að vera tryggt. Þjóðin þarf að ákveða í hvaða tilvikum hún sjálf vill taka þátt í ákvarðanatökum um stór mál í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu og réttaröryggi borgaranna verður að vera tryggt með gagnsæjum, sanngjörnum og lýðræðislegum reglum um skipan dómara í landinu, en ein grunnstoða lýðræðisríkisins byggir einmitt á dómsvaldinu. Þá þarf að gera skýran greinarmun á löggjafar- og framkvæmdarvaldi svo sama persónan geti ekki samtímis farið með hvort tveggja.

Ríkisvaldið er þannig sótt til þjóðarinnar og þjóðin verður að ákveða hvernig farið verður með það vald. Stjórnlagaþing þar sem þjóðin kýs fulltrúa sína til að fara í þá miklu endurskoðun og breytingar á stjórnarskipun landsins er einstakt tækifæri til að skrifa nýjan samfélagssáttmála og ekki veitir af. Sáttmála sem þjóðin sjálf ákveður hvað inniheldur þar sem hún sjálf skipuleggur og leggur með þjóðaratkvæðagreiðslu grunninn að nýjum leikreglum.

Sumir stjórnmálamenn og þá sérstaklega úr einum flokki hafa farið mikinn og býsnast yfir því að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem varin er vantrausti af framsóknarmönnum, geti ekki og megi ekki samþykkja nokkurn skapaðan hlut í þessa veru nema með þeirra samþykki, (Gripið fram í.) oft á þeim forsendum að það hafi aldrei verið gert áður. En viti menn. Undanfarna mánuði hefur svo margt gerst sem aldrei hefur gerst áður. (Gripið fram í.) Má þar nefna hrun efnahagskerfisins sem að nokkru leyti var á ábyrgð þeirra sem nú fara með himinskautum vegna þess að hugsanlega geti myndast meiri hluti í þinginu fyrir því að breyta einhverju sem þeir sjálfir vilja ekki breyta af því þar með gætu þeir tapað spón úr aski sínum.

Háttalag af þessu tagi er í mínum huga til marks um það hversu langt ýmsir stjórnmálamenn hafa færst frá þjóð sinni. Þeir telja sig enn þá þá útvöldu og vita betur en þjóðina. Þeir hafna því að kasta boltanum til þjóðarinnar og telja sig betur til þess fallna að gæta hagsmuna hennar en hún sjálf og þá kann einhver að spyrja hvort slíkir fulltrúar séu vel til þess fallnir að fara með slíkt umboð. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður og nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson spurði í einni af 44 athugasemdum um fundarstjórn forseta, [Hlátur í þingsal.] sem fór fram í hádeginu og tók nærri einn og hálfan tíma, hvort nú væri heppilegur tími til að leiða fram breytingar á stjórnarskrá í ágreiningi. Ágreiningurinn er nú ekki meiri en svo að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í tvígang komið þessum breytingum á stefnuskrá sína í gegnum ríkisstjórnarsáttmála og hv. þm. Birgir Ármannsson hefur viðurkennt að vera að mestu leyti sammála því máli sem hér er til umræðu. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Aldrei nokkurn tímann hefur verið brýnna að leiða fram breytingar á stjórnarskrá en núna, með eða án sjálfstæðismanna. Ekki síst vegna þess að nú er árið 2009. (Gripið fram í.) Árangurslausum tilraunum Alþingis til að ná sátt um málið verður að linna. Vegna orða hv. þm. Björns Bjarnasonar um niðurlægingu þingsins lýsa þau orð einmitt hugsunarhætti sjálfstæðismanna sem enn þann dag í dag telja sig upphaf og endi alls. Ef þeir ná ekki sínu fram í trássi við rúm 70% þjóðarinnar heitir það niðurlæging þingsins. Sá tími að sjálfstæðismenn geti talið sig upphaf og endi alls er liðinn. En afneitunin er enn til staðar. Þingið er ekki Sjálfstæðisflokkurinn þótt margir haldi það. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Bjarna Benediktssyni hefur verið tíðrætt um forgangsröðun mála hér í þinginu og viljað ráða því í hvaða röð mál eru rædd. Við þurfum að ræða öll þessi mál og hv. þingmaður getur ekki bara valið það úr sem hentar Sjálfstæðisflokknum.

Stjórnlagaþingið er forsenda þess að hér verði hægt að fara í uppbyggingu og endurreisn því ef menn ætla að byggja áfram á gömlu hugmyndunum og gömlu stjórnarskipuninni er að mínu mati betur heima setið en af stað farið. Þá breytist ekkert og hér verður allt eins og það hefur alltaf verið.

Einhverjir hafa haft á orði að tíminn til undirbúnings sé of skammur og of stuttan tíma hafi tekið að undirbúa þetta mál. Ég minni á að aðdragandinn er 65 ár og í dómsmálum og deilum liggur fyrir hvaða mál þarf að taka til skoðunar og efnislega er það því ekki vandamál. Það eina sem sjáanlega er fyrirstaða í málinu er Sjálfstæðisflokkurinn. Það má velta vöngum yfir því hvort sú andstaða sem Sjálfstæðismenn hafa sýnt málinu sé tilkomin vegna þess að þeir hafa farið með mikil völd í samfélaginu undanfarna áratugi og hafa lagst gegn því að ákvæði um eignarhald þjóðarinnar verði sett inn í stjórnarskrá. Þeir hafa líka verið andsnúnir því að Íslendingar skoðuðu það hvað möguleg aðild okkar að Evrópusambandinu gæti falið í sér og þá er athyglisvert að velta því fyrir sér hvort það tengist áðurnefndum völdum þeirra í samfélaginu, enda væri sárt að tapa þeim. (Gripið fram í.)

Ég ætla ekki að kveða upp dóm um það hvort íslensku þjóðinni er betur borgið undir miðstýrðu valdi Evrópusambandsins eða miðstýrðu valdi úr Valhöll. En það vekur sérstaka athygli ef sjálfstæðismenn leggjast þverir gegn tillögum þáverandi utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, sem hafði forgöngu um að kynna hugmyndir um stjórnlagaþing árið 1953 og birti þær í Morgunblaðsgrein í janúar það ár. Þar lagði hann áherslu á að hin endurskoðaða stjórnarskrá yrði að vera hornsteinn íslensks stjórnskipulags um langa framtíð. Ég ítreka, virðulegi forseti, að það vekur athygli að sjálfstæðismenn skuli leggjast þverir gegn þessu, ekki síst hv. þm. Björn Bjarnason.

Óumdeilt er að alþingismenn sækja umboð sitt til fólksins í landinu, en 65 ára saga gefur til kynna að þeir valdi ekki því verkefni að endurskoða stjórnarskipunina og meiri hluti þjóðarinnar vill taka það verkefni í sínar hendur og skrifa nýjan sáttmála og leikreglur, m.a. fyrir stjórnmálamenn og m.a. fyrir stjórnmálamenn sem tilheyra Sjálfstæðisflokknum. Hvers vegna í veröldinni skyldu umboðsmennirnir ekki una því að fá samning sinn endurnýjaðan á nýjum forsendum? Það er ekki eins og ekkert hafi breyst eða hvað? (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Mér ofbýður framganga sjálfstæðismanna í þinginu þessa dagana þar sem þeir setja ítrekað á löng leikrit, standa hér og syngja í ræðustól um miðjar nætur, eins og þeir séu fullir. Ég held nú reyndar að þessi ágæti þingmaður, (Gripið fram í: Hvaða, hvaða, hvaða?) sem stóð hér syngjandi í nótt, drekki ekki. En ég vek athygli á því að ég á 28 mínútur eftir af ræðutíma mínum en þar sem ég hef lokið máli mínu ætla ég ekki að lengja umræðuna.



[21:35]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður Helga Sigrún Harðardóttir vildi að málið væri rætt málefnalega, eins og hún sagði, markvisst og faglega. Í þeim anda fjallaði hún á þeim tólf mínútum sem hún notaði til ræðuhalda hér um Sjálfstæðisflokkinn í svona tíu mínútur. Á fyrstu fjórum mínútum ræðu sinnar nefndi hún Sjálfstæðisflokkinn tíu sinnum, 20 sinnum alls í ræðunni og vísaði til hans oft með einhverjum fornöfnum og í einhverju samhengi. (Gripið fram í: Ertu ekki ánægður með það?) Ég er mjög ánægður með þetta. Ég hins vegar minni á að hér er ekki Sjálfstæðisflokkurinn til umræðu heldur stjórnarskrárbreytingar og það hefði verið gagnlegt ef hv. þm. Helga Sigrún Harðardóttir hefði rökstutt það hvers vegna hún styður þetta frumvarp og lýst skoðunum sínum á því frekar en að tala illa um Sjálfstæðisflokkinn. Málflutningur hennar var eiginlega með fullkomnum ólíkindum.

Það eru nokkur atriði einstök sem mér finnst ástæða til að leiðrétta hjá henni. Hún talar eins og engar stjórnarskrárbreytingar hafi verið gerðar hér á undanförnum árum, Alþingi hafi verið ófært um að gera stjórnarskrárbreytingar. Ég minni á bara síðustu stjórnarskrárbreytingar 1991, 1995, 1999. Í öll skiptin var stjórnarskránni breytt, í sumum tilvikum verulega og í öll skiptin var það gert í fullkominni sátt og það var ekki um það að ræða að verið væri að valta yfir minni hluta eða keyra einhver mál í gegn og það, þó að það væri leitað samstöðu, kom ekki í veg fyrir að stjórnarskrárbreytingar væru gerðar.

Síðan vildi ég bara, til þess að halda því til haga, af því að hv. þingmaður vitnaði í sjónarmið Bjarna Benediktssonar frá 1953, að þá slær hann úr og í í þeirri grein. (Gripið fram í: Nú?) (Gripið fram í: Jaá!) Já, og talar um að kosningafyrirkomulagið skipti höfuðmáli og telur að undir ákveðnum kringumstæðum geti (Forseti hringir.) þjóðfundur eða stjórnlagaþing verið tilgangslítið. Hins vegar verð ég að játa (Forseti hringir.) að þó að ég beri mikla virðingu fyrir Bjarna Benediktssyni (Forseti hringir.) þá er ég ekki bundinn af skoðunum hans.



[21:37]
Helga Sigrún Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka Birgi Ármannssyni fyrir að ræða þetta mál efnislega. Ég er hissa á því að hann skuli ekki bundinn af skoðunum Bjarna Benediktssonar hins eldri.

Ég tel að full ástæða sé til að ræða framgöngu sjálfstæðismanna hér í þinginu og þess vegna varði ég hluta ræðu minnar í það. Hv. þm. Birgir Ármannsson — ég var næstum því búin að segja Bjarni Ármannsson — hv. þm. Birgir Ármannsson segir hér að ég hafi haldið því fram að engar breytingar hafi verið gerðar á stjórnarskránni. Það er ekki rétt. Ég hélt því ekki fram. Ég hef hins vegar rennt í gegnum sögu þingsins og lesið þingskjöl mér til ánægju og yndisauka og til upplýsingar og fróðleiks og þar kemur einmitt fram að það er á níunda tug breytingartillagna sem liggja fyrir hér í þinginu sem lagðar hafa verið fram á þessum 65 árum, á níunda tug. (PHB: Slatti frá mér.) „Slatti frá mér“, segir hv. þm. Pétur Blöndal. Því (Gripið fram í.) trúi ég vel. Sjö þeirra hafa verið samþykktar. Það liggur fyrir að töluvert mikið starf hefur verið unnið í stjórnarskrárnefndum. Þær hafa skilað mismiklu starfi að vísu í gegnum tíðina. En það segir sig alveg sjálft að ef sjö tillögur af hátt í 90 ná samþykki í þinginu þá tel ég að það sé ekki neinn sérstakur árangur.



[21:39]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað hægt að mæla árangur í sambandi við stjórnskipunarmál með ýmsum hætti. Ein leiðin er að segja hvað margar tillögur hafi verið samþykktar og álíta að því fleiri breytingar sem eru gerðar á stjórnarskrá því betra sé það. Ég er ekki viss um að svo sé. Ég held að það skipti meira máli að vanda til verka og taka yfirvegaðar og rökstuddar ákvarðanir frekar en að vaða í sem flestar breytingar á stjórnarskrá.

Af því að hv. þm. vitnaði til Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, áðan vil ég nefna það að Bjarni í deildum Alþingis varaði sérstaklega við að ráðlauslega væri staðið að verki við stjórnarskrárbreytingar og varaði við hvatvíslegum breytingum. Hann segir líka, sem hefur þýðingu í dag, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Í samræmi við þá skoðun mína að hér sé um alþjóðarmál að ræða, fremur en flokksmál, þá tel ég og hef ætíð talið, að það skipti ekki öllu máli, hvort stjórnarskrárbreyting yrði afgreidd árinu fyrr eða síðar. Miklu meira máli skipti, að þjóðin áttaði sig ... á, um hvað væri að ræða, og eftir ítarlegar (Forseti hringir.) umræður og athuganir yrðu sett þau ákvæði, sem (Forseti hringir.) skaplegt samkomulag gæti (Forseti hringir.) fengist um ...“



[21:40]
Helga Sigrún Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú ánægjulegt að rifja hér upp orð Bjarna Benediktssonar hins eldri. Hv. þm. Birgir Ármannsson segir hér að hann hafi einhvern tíma tekið sér þau orð í munn að koma beri í veg fyrir hvatvíslegar breytingar á stjórnarskránni. (Gripið fram í.) Ég held að það sé einmitt það sem við ætlum að gera með stjórnlagaþingi. (Gripið fram í: En hina breytinguna?) Við ætlum að vísa þessu máli til þjóðarinnar.

Þegar hann talar um skaplegt samkomulag þá held ég að við gætum staðið hér í allt kvöld og fram á nótt og hártogast um hvað sé skaplegt og hvað ekki sé skaplegt.



[21:41]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst pínu dapurlegt hvernig komið er fyrir Framsókn. (Gripið fram í: Nú?) Það er búið að valta yfir þau á skítugum skónum varðandi öll þau skilyrði meira og minna sem þau settu varðandi stuðning við minnihlutastjórnina og núna hanga þau á breytingunum varðandi stjórnarskrána eins og hundur á roði. Mér finnst svolítið sárt að sjá þennan annars ágæta flokk með mörgu góðu fólki innan borðs, að það skuli vera leikið svona grátt af hálfu vinstri flokkanna. (Gripið fram í.) Það er bara kaup kaups og þetta er bara pólitísk tækifærismennska sem greinilega snertir vel við (Gripið fram í.) þessum tveim strengjum sem liggja um taugakerfi þeirra framsóknarmanna.

Ég segi líka, af því að það var verið að vitna í fyrrum forustumann og merkan stjórnlagafræðing okkar sjálfstæðismanna, Bjarna Benediktsson eldri, að þá finnst mér líka sárt að sjá hvernig Framsóknarflokkur, flokkur Ólafs Jóhannessonar prófessors og eins helsta stjórnspekings landsins til margra ára, umgengst stjórnarskrána. (Gripið fram í: Góður punktur.)

Gott og vel, nokkrar spurningar eða tvær að minnsta kosti til hv. þingmanns. Ég held að við hljótum að vera sammála því að við viljum efla löggjafarþingið. Það hefur verið gert með ákveðnum hætti undir forustu Sturlu Böðvarssonar sem þingforseta á liðnum árum. En við hljótum að vera sammála því að við viljum efla löggjafarvaldið sem er Alþingi. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Helga Sigrún Harðardóttir svari þessari spurningu játandi.

Við erum líka öll sammála því að á endanum eiga allar breytingar á stjórnarskránni að fara til þjóðarinnar. Við viljum breyta 79. gr. þannig að það verði fyrst þingið sem samþykki það og síðan fari ákvörðunin til þjóðarinnar. Það er enginn ósammála þessu. Við segjum: Við treystum þinginu. Við sjálfstæðismenn segjum: Við treystum þinginu því að þingið er líka fulltrúar þjóðarinnar og setjum síðan þær breytingar (Forseti hringir.) til þjóðarinnar. Þess vegna spyr ég hv. þm. (Gripið fram í.) Helgu Sigrúnu Harðardóttur: Treystir hún ekki (Forseti hringir.) þinginu til þess að útbúa (Forseti hringir.) stjórnarskrána með þeim hætti að hún verði burðugt (Forseti hringir.) plagg fyrir þjóðina til að (Forseti hringir.) samþykkja?



[21:43]
Helga Sigrún Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég vísi bara aftur í 65 ára gamla — nei, ekki 65 ára gamla heldur tilraun sem staðið hefur í 65 ár til að svara þessari síðustu spurningu.

Af því að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi hér að efla löggjafarsamkunduna þá vil ég minna á hvernig komið er fyrir þessu þingi. Á síðustu þremur þingum voru lögð fram 425 mál talsins. 268 voru ríkisstjórnarfrumvörp en 157 voru þingmannafrumvörp eða um 37%. Af samþykktum frumvörpum voru ríkisstjórnarfrumvörpin 96,5% eða 217 af 268. Á móti voru átta af 157 þingmannafrumvörpum samþykkt á þessum þremur þingum. Þau hafa því heldur lítinn stuðning í þinginu þó að þau séu lögð fram af stjórnarþingmönnum.

Þingið sjálft hefur samkvæmt þessu tapað miklu af völdum sínum til ráðherranna. Stjórnarþingmenn tilheyra yfirleitt liðsheild sem passar upp á að mál séu afgreidd eins og til er ætlast og það sjáum við svo sannarlega í þessari umræðu hér. Það sýnir hinn mikli meiri hluti ríkisstjórnarmála sem er samþykktur.

Stjórnarandstaða er af tvennum toga. Þeir sem samþykkja góð mál og leggja þeim lið og svo þeir sem eru eiginlega alltaf á móti. En ég held að það sé alltaf að fjölga í fyrrnefnda hópnum.

Talandi um öfluga löggjafarsamkundu þá er ég sannfærð um að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er mér sammála um að þingið verði best eflt með því að aðgreina löggjafarvald og framkvæmdarvald því að öðrum kosti sitjum við uppi með það sem hefur til margra ára verið kallað ráðherraræði og þykir ekki góð stjórnsýsla.



[21:45]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Á engu af því sem hv. þm. Helga Sigrún Harðardóttir kom inn á hér er snert í breytingunum sem við ræðum varðandi stjórnarskipunina. Í rauninni svaraði Helga Sigrún Harðardóttir spurningu minni á þann veg að hún svaraði henni ekki játandi. Ég get ekki lesið það öðruvísi en svo að hv. þingmaður treysti þinginu ekki til þess að samþykkja stjórnarskrárbreytingar og fara síðan með þær út til þjóðarinnar.

Af hverju getum við ekki sammælst um að stíga það risaskref að breyta stjórnarskránni — og síðan eftir 6–8 vikur kemur þing aftur saman og getur rætt í sátt um það — og færa síðan það plagg til þjóðarinnar? Af hverju ekki? Treystir hv. framsóknarþingmaður Helga Sigrún Harðardóttir ekki Alþingi Íslendinga til að samþykkja stjórnarskrárbreytingar?



[21:46]
Helga Sigrún Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að leyfa mér í þessu andsvari að vitna í orð Sigurðar Líndals, sem er mikill lagaspekingur — ég held að við getum verið sammála um það, ég og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Hann segir hér, með leyfi forseta:

„Ef setja á landinu nýja stjórnarskrá tel ég rétt að það sé gert á sérstöku stjórnlagaþingi. Með stjórnarskrá er verið að setja Alþingi reglur, m.a. verið að marka valdsvið þess, og því eðlilegt að Alþingi sjálft eigi þar ekki hlut að.“ (Gripið fram í: Lestu lengra.)

Því hefur verið haldið fram að Alþingi noti ekki sem skyldi heimildir sínar, t.d. til að veita framkvæmdarvaldi aðhald, og að það hafi vaxið þinginu yfir höfuð. (Gripið fram í.) Svarar þetta ekki spurningunni? (Gripið fram í: Lestu allt.) Þetta er tekið úr greinargerð eða umsögnum um frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem Sigurður Líndal (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) sendi sérnefnd um stjórnarskrármál og þetta er …

(Forseti (EMS): Forseti biður þingmenn að gefa ræðumanni hljóð til þess að flytja mál sitt.)

... dagsett 20. mars og hann leggur eindregið til að stjórnlagaþingi verði komið á til þess að hér megi skrifa nýja stjórnarskrá. (Gripið fram í: Það þarf að lesa lengra.)



[21:48]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla hvorki að ræða Sjálfstæðisflokkinn né annað, ég ætla að ræða það sem er á dagskrá, það er sem sagt málið hérna. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði að fylgiskjalið hefði ekkert gildi fyrir nýtt Alþingi sem hefði nýtt umboð eftir kosningar. Þá fer maður að spyrja sig um ýmislegt.

Ég er mjög hlynntur því að sett verði á laggirnar stjórnlagaþing. Ég vil reyndar hafa það ráðgefandi og þar skilur á milli okkar. Ég er mjög hlynntur því en ég óttast — af því að menn eru að pota þarna inn í 1. gr. breytingum á náttúruauðlindum, ákvæði um það, og í 3. gr. um þjóðaratkvæðagreiðslur — að menn séu með það í huga að halda ekkert stjórnlagaþing. Ef þeir ætluðu sér að halda stjórnlagaþing væru þeir ekki með þessa breytingu á stjórnarskránni áður en það tæki til starfa.

Ég óttast hreinlega að verið sé að plata Framsóknarflokkinn og mig með þessu frumvarpi, þ.e. að í stað þess að breyta bara 79. gr. — og þá getum við gert allt sem okkur dettur í hug hið nýskipaða Alþingi með nýtt umboð kjósenda, þá getum við gert hvað sem er strax í júní, júlí, breytt stjórnarskránni, komið með stjórnlagaþing og gert allt.

En menn eru að pota þarna inn náttúruauðlindum og þjóðaratkvæðagreiðslu og því óttast ég að menn ætli sér ekkert að fara í neitt stjórnlagaþing. Það kom hér fram hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að nýtt þing er ekkert bundið af þessu, hvorki fylgiskjalinu né neinu öðru. Ég spyr hv. þingmann: Getur verið að það sé verið að plata okkur bæði tvö?



[21:49]
Helga Sigrún Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst gott að þetta skuli koma hér fram. Ég held reyndar að hvorki sé verið að plata mig né hv. þm. Pétur Blöndal. Það er gott að þetta skuli koma hér fram. Ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst til valda að loknum kosningum, ef hætta er á að menn ætli að fara að hringla með þetta, er ágætt að vita það fyrir fram.



[21:50]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef þjóðin veitir Sjálfstæðisflokknum það brautargengi að hann ráði einhverju á Alþingi — hv. þingmaður óttast það, hann óttast sem sagt dóm þjóðarinnar.

Ég spurði hvort það gæti verið að menn væru að breyta þessu í 1. gr., með náttúruauðlindirnar, og í 3. gr., um þjóðaratkvæðagreiðslur, vegna þess að þeir ætli ekki að ganga lengra, þeir ætli sér ekki að breyta meiru. Ég vil gera gjörbreytingar á stjórnarskránni. Ég vil að hún fjalli aðallega um mannréttindi því að stjórnarskrá er ekkert annað en mannréttindi. Hún á að vernda borgarann fyrir öðrum borgurum og vernda hann fyrir ríkinu. Það er aðalmarkmið stjórnarskrárinnar. Hún á fyrst og fremst að fjalla um mannréttindi en ekki um forsetann og slíkt eins og er í dag.

Ég er mjög hlynntur því að stjórnarskránni verði breytt gjörsamlega en ég óttast að hér búi eitthvað meira á bak við, að áhuginn á því að breyta stjórnarskránni og setja stjórnlagaþing sé alls ekki til staðar.



[21:51]
Helga Sigrún Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stutta svarið við ræðu hv. þm. Péturs Blöndals er nei. Framsóknarmenn ætla sér ekki hringla með þetta, þeir vilja ganga alla leið með breytingar á stjórnarskránni. Ef hv. þm. Pétur Blöndal óttast að hann nái ekki að koma skoðunum sínum á framfæri innan Sjálfstæðisflokksins býð ég hann velkominn í Framsóknarflokkinn. (Gripið fram í.)



[21:52]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Áður en ég hef ræðu mína vildi ég spyrja hæstv. forseta hvort flutningsmenn frumvarpsins viti ekki af því að umræða stendur yfir um málið. Flutningsmenn eru m.a. hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. fjármálaráðherra — (Gripið fram í: Málið er á forræði þingsins.) þau eru þingmenn.

Þetta mál er á forræði þingsins. Það eru fjórir þingmenn sem fluttu frumvarpið sem þingmenn: hæstv. forsætisráðherra, sem um leið er hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. fjármálaráðherra, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson og hv. þm. Birkir Jón Jónsson. (Gripið fram í.)

Ég var ekki að spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að þessu en fyrst hann kallar þetta fram í þætti mér forvitnilegt að heyra hvaða afstöðu flutningsmenn frumvarpsins hafa til þeirra róttæku breytingartillagna sem verið er að gera með frumvarpinu, sérstaklega varðandi stjórnlagaþingið. Ég vildi gjarnan eiga nokkur orð við hv. þingmenn, flutningsmenn frumvarpsins, um það atriði. Ég spyr því hæstv. forseta: Vita flutningsmenn frumvarpsins af því að málið er nú til umræðu?

(Forseti (EMS): Forseti vill taka fram að hann veit ekki betur en allir hv. þingmenn hafi upplýsingar um það hvaða mál er á dagskrá þingsins. Forseti telur að það sé venja dag hvern að hv. þingmenn kanni hvernig dagskrá þingsins er háttað.)

Ég skil orð hæstv. forseta með þeim hætti að hann geri ráð fyrir því að flutningsmennirnir viti af því að málið sé til umræðu en þeir telji hins vegar ekki ástæðu til þess að vera viðstaddir þá umræðu. Það er athyglisvert. Ég ætla ekki að gera ágreining út af þessu eða krefjast þess að þingfundi verði frestað eða neitt svoleiðis. (Gripið fram í.) Ég bara vek athygli á því að flutningsmenn frumvarpsins, sem hafa lagt mikið kapp á að koma þessu máli í gegnum þingið, eru ekki viðstaddir umræðuna. Þeir hafa lítið verið viðstaddir umræðuna hér í dag og hafa greinilega ekki áhuga á því, að undanskildum hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, (Gripið fram í.) að taka þátt í þessari umræðu. (Gripið fram í: … og hættu þessu.)

Herra forseti. Er hægt að setja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson á mælendaskrá þannig að hann geti haldið ræðu sína hér á eftir?

Það er leiðinlegt að hv. þm. Helga Sigrún Harðardóttir skuli vera farin úr salnum vegna þess að ég ætlaði að lesa upp kaflana sem hún sleppti úr umsögn Sigurðar Líndals um frumvarpið því að það voru mjög valdir kaflar sem hv. þingmaður las upp. Hún las upp það sem henni hentaði.

Hún sleppti t.d. gullmolum eins og þeim sem kemur frá prófessor emerítus Sigurði Líndal, með leyfi forseta:

„Annars get ég ekki dulið þá skoðun mína að ólíklegt sé að þing skipað 41 manni valdi þessu verkefni. Líklegast er að þingið þróist yfir í eins konar umræðufund og þrætusamkomu sem sökkvi sér niður í deilur sem engu skili.“

Þetta segir prófessor Sigurður Líndal um stjórnlagaþingið. Hann segir líka að ef fara eigi í það að semja nýja stjórnarskrá telji hann rétt að það sé gert á sérstöku stjórnlagaþingi.

Ég verð að játa að mér finnst erfitt að átta mig á því nákvæmlega hvað prófessorinn vill í þessum efnum. Annars vegar talar hann um að það sé rétt að ný stjórnarskrá sé samin á stjórnlagaþingi — ef fara eigi út í að skrifa nýja stjórnarskrá eigi að gera það á stjórnlagaþingi — en hann hefur hins vegar þungar áhyggjur af því að slíkt þing verði umræðufundur og þrætusamkoma sem sökkvi sér niður í deilur sem engu skili. Mér finnst prófessorinn ekki sjálfum sér samkvæmur í þessum efnum.

Prófessor Sigurður Líndal segir reyndar fleira um þetta. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Gildi þess að endurskoða stjórnarskrá í heild er það helst að með því væri hvatt til úttektar á stjórnskipaninni og þeirri stjórnspeki sem að baki býr. Hitt tel ég þó vænlegra að endurskoða stjórnarskrá í áföngum eftir því sem tilefni gefst.“

Hann telur sem sagt að sú leið sem verið er að mæla með í sambandi við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sé ekkert endilega besta leiðin og eru það athyglisverð sjónarmið hvort sem við erum sammála þeim eða ekki.

Hæstv. forseti. Við erum þannig stödd í þessu máli að það hefur verið rekið áfram af miklu offorsi. Farið hefur verið fram með þessar breytingar í mikilli ósátt og án þess að viðhlítandi undirbúningur og viðhlítandi samráð hafi verið haft. Það hefur verið farið vandlega og ítarlega yfir það hér í ræðum fyrr í kvöld og ég ætla ekki að fara lengra út í það. Ég segi hins vegar: Í þessu máli hefur meiri hlutinn hér á Alþingi, ríkisstjórnarflokkarnir og fylgiflokkar þeirra, brotið þrjár meginreglur í sambandi við stjórnarskrárbreytingar.

Í fyrsta lagi hafa þeir brotið regluna um vandaðan undirbúning. Í öðru lagi hafa þeir brotið regluna um víðtækt samráð, bæði pólitískt samráð og samráð út í þjóðfélagið við hagsmunaaðila og fræðasamfélagið. Í þriðja lagi er verið að brjóta þriðju regluna sem er það að nægur tími sé gefinn til málsmeðferðar í þinginu og að vönduð málsmeðferð eigi sér þar stað.

Það þarf því engan að undra að við sjálfstæðismenn séum ósáttir við það hvernig haldið hefur verið á þessum málum. Það þarf engum að koma á óvart að við vörum við þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð. Ég nefndi það í andsvari hér áðan að við höfum nýleg dæmi um stjórnarskrárbreytingar frá 1991, 1995 og 1999. Í öllum þessum tilvikum voru gerðar verulegar breytingar á stjórnarskránni í víðtækri sátt. Í öllum tilvikum var góður undirbúningur, langur aðdragandi.

Ég get nefnt sem dæmi undirbúninginn frá 1995 þar sem verið var að endurskoða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Þar var forsaga málsins sú að vorið 1994 samþykkti stjórnarskrárnefnd drög að þingsályktunartillögu sem þá var kynnt fyrir þinginu og að lokum samþykkt á Alþingi 17. júní 1994 sem fól í sér ráðagerð um það að mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar yrðu endurtekin. Það var talsverð vinna sem lá að baki þeirri þingsályktunartillögu og forskrift gefin um það hvernig standa skyldi að lögfestingu þessara ákvæða.

Síðla það sumar, 1994, fóru formenn allra þingflokka og settust yfir málið og fengu til liðs við sig stjórnskipunarfræðinga og sérfræðinga á sviði mannréttindamála. Þeir unnu með þessum sérfræðingum fram í desember og frumvarpið var lagt fram í desember rétt fyrir jólalok þingsins. Málið var síðan í umræðu og afgreiðslu í þinginu í tvo mánuði og var samþykkt sem stjórnarskrárbreyting í lok febrúar 1995. Þetta var meðferð þessa máls.

Það kom fram hjá Björgu Thorarensen prófessor, sem veitti ráðgjafarhópi ríkisstjórnarinnar eða forsætisráðherra forstöðu á fundi sérnefndar, að þau vinnubrögð sem þarna voru viðhöfð, þessi undirbúningur hefði verið gagnrýndur fyrir það að málið hefði verið unnið helst til of hratt. Það var það sem Björg Thorarensen sagði um þessi vinnubrögð. En hver eru vinnubrögðin núna í samanburði við þetta? Þarna var hafist handa vorið 1994. Málið fer í þingsályktunartillögu. Það er farið að vinna hana frekar síðsumars. Þremur til fjórum mánuðum seinna er mál lagt fram á þingi og síðan eftir tvo mánuði er málið afgreitt í þingi og allt gerist þetta í góðri sátt sem er til fyrirmyndar. Breytingarnar 1991 og 1999 voru líka unnar í mikilli sátt og með vönduðum undirbúningi.

Við höfum dæmi frá Svíþjóð og Finnlandi, nýleg dæmi. Svíar, til að gera langa sögu stutta, settu á fót stjórnarskrárnefnd árið 2004, nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka. Sú nefnd skilaði vandaðri og ítarlegri skýrslu nú í desember, fjórum árum síðar, eftir mikið samráð við sérfræðinga og vandað og málefnalegt samráð milli flokka. Nú er verið að taka það mál til umræðu í þinginu og menn eiga von á því að þessar breytingar á sænsku stjórnarskránni taki gildi árið 2011. Það er verið að vinna málið vandlega. Það er ekki verið að rasa að neinu. Það er legið yfir verkefninu og vandað til verka.

Í Finnlandi voru svipuð vinnubrögð viðhöfð á síðasta áratug. Þar var sett á fót stjórnarskrárnefnd allra flokka árið 1995. Hún starfaði í fimm ár, ný finnsk stjórnarskrá tók gildi sumarið 2000, eftir fimm ára vinnu.

Það er engin tilviljun að þessar þjóðir velja svona aðferðir við að breyta stjórnarskránni. Það er engin tilviljun að um allan hinn vestræna heim vanda menn til verka í sambandi við stjórnarskrárbreytingar. Það er engin tilviljun að menn leggja mikið á sig til þess að ná samkomulagi og sátt um stjórnarskrárbreytingar.

Það hefur reyndar ekki verið sérstakur ágreiningur um það fram til þessa hér á landi að standa bæri þannig að verki í sambandi við stjórnarskrárbreytingar. Þau sjónarmið hafa ekki verið uppi hér að ekki þyrfti að vanda til verka, ekki þyrfti að vanda undirbúning eða leita sátta um stjórnarskrárbreytingar. Fram til þessa hefur það verið álitinn sjálfsagður hlutur.

Mér finnst ástæða til þess, hæstv. forseti, að vitna til nokkurra íslenskra stjórnlagafræðinga sem sumir hafa um leið verið stjórnmálamenn, stjórnmálaforingjar sem hafa fjallað um þessi mál. Ég ætla að stytta tilvitnanirnar en mér finnst þó rétt að þær kom fram við þessa umræðu.

Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra, sem reyndar hafði verið hæstaréttardómari og prófessor í stjórnskipunarrétti, sagði í grein í Andvara 1974, með leyfi forseta:

„Mikils þykir um vert að grundvallaratriðum í stjórnskipun landsins sé ekki haggað að ófyrirsynju, heldur hugað vel að breytingum áður en þær taka gildi.“

Þetta eru eðlileg varnaðarorð. Það þarf heldur ekki að fletta lengi í ritinu Deildum Alþingis eftir dr. Bjarna Benediktsson sem líka var forsætisráðherra og líka hafði verið prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands til þess að sjá tilvitnanir þar sem hann varar við, eins og ég sagði í andsvari við hv. þm. Helgu Sigrúnu Harðardóttur áðan, hvatvíslegum breytingum og svo „ráðlauslega“, eins og hann orðaði það, sé staðið að verki.

Á þeim tíma sem hann sagði þetta vísaði Bjarni til þess að deildarskipting Alþingis tryggði að frumvörp um stjórnskipunarlög fengju sex umræður í þinginu þrjár í hvorri deild og hann taldi að þarna væri verulegur hemill á ráðlauslegar breytingar og hvatvíslega málsmeðferð. Því fyrirkomulagi var breytt fyrir átján árum en rauði þráðurinn hjá Bjarna var sá að hann varaði við hvatvíslegum breytingum.

Sömu sjónarmið má sjá í umfjöllun Ólafs Jóhannessonar sem var forsætisráðherra og lengi prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, formaður Framsóknarflokksins. Hann segir í riti sínu, Stjórnskipun Íslands, frá 1960, að vanda beri til verka við stjórnarskrá og gert sé ráð fyrir því að stjórnarskrárbreytingar séu gerðar með vandaðri hætti en ella eigi við um lagasetningu.

Gunnar Schram sem var alþingismaður og lengi prófessor í stjórnskipunarrétti segir í bók sinni, Stjórnskipunarrétti, frá 1997, með leyfi forseta:

„Hyggja þarf vel að fyrirhuguðum breytingum á stjórnarskrá og ráðrúm þarf að gefast, bæði innan þings og utan, til þess að gaumgæfa þær breytingar sem á henni eru gerðar.“

Þetta eru tilvitnanir í þessa stjórnskipunarfræðinga. Ég vísa aftur í það sem ég vitnaði til í ummælum Bjarna Benediktssonar í ræðu frá 1953 sem birtist í ritgerðasafninu Landi og lýðveldi. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ég legg áherslu á að stjórnarskrármálið er mál sem ekki má eingöngu eða fyrst og fremst skoða frá flokkslegu sjónarmiði. Það er alþjóðarmál sem meta verður með langa framtíð fyrir augum en ekki hvað kemur tilteknum flokki að gagni um stundarsakir.“

Hann segir síðan, með leyfi forseta:

„Í samræmi við þá skoðun mína að hér sé um alþjóðarmál að ræða fremur en flokksmál þá tel ég og hef ætíð talið, að það skipti ekki öllu máli hvort stjórnarskrárbreyting yrði afgreidd árinu fyrr eða síðar. Miklu meira máli skipti að þjóðin áttaði sig til hlítar á um hvað væri að ræða og eftir ítarlegar umræður og athuganir yrðu sett þau ákvæði sem skaplegt samkomulag gæti fengist um svo að hin nýja stjórnarskrá geti orðið hornsteinn hins íslenska þjóðfélags um langa framtíð.“

Það má reyndar geta þess að undir þessi sjónarmið tók Hannibal Valdimarsson, sem var lengi alþingismaður og ráðherra, í grein sem hann skrifaði í Andvara 1974 í sambandi við tímahrakið sem menn eru stundum að skapa sér í sambandi við stjórnarskrárbreytingar. Hannibal segir, með leyfi forseta:

„Annars er það ekki aðalatriði hvenær endurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið heldur hitt, hversu vel tekst til um sjálfa framkvæmd verksins.“

Öll framangreind ummæli þessara látnu stjórnmálamanna, stjórnmálaforingja og stjórnmálaskörunga og þar á meðal nokkurra helstu stjórnlagafræðinga Íslendinga eru í hrópandi andstöðu við þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð. Hrópandi andstöðu. Það er eins og ríkisstjórnin og þeir sem fylgja henni að málum, eins og Framsóknarflokkurinn, hafi einsett sér að gera þessar stjórnarskrárbreytingar í fullkominni andstöðu við öll þau sjónarmið sem eru viðurkennd í sambandi við þær aðferðir sem tíðkast yfirleitt í vestrænum lýðræðisríkjum og í íslenskri sögu um hvernig breyta eigi stjórnarskrá. Það er eins og menn hafi vísvitandi verið að reyna að brjóta sem flestar grundvallarreglur og meginsjónarmið.

Hér hefur verið vitnað til fyrr í dag hvernig hinir og þessir umsagnaraðilar sem sendu erindi til sérnefndar um stjórnarskrármál bregðast við. Þeir gera athugasemdir við tímafresti. Flestir gera athugasemdir við tímafresti. Flestir gera athugasemdir við þann skamma tíma sem var til umræðu og eins og vísað hefur verið til treystu sumir sér ekki til að senda inn erindi vegna þess hve tíminn væri skammur. Aðrir fara nánar út í málið.

Ragnhildur Helgadóttir prófessor sagði að óheppilegt væri að víkja frá hefð um samstöðu. Það væri hætta á óæskilegri þróun og hún biður menn um að fara sér hægt við breytingar. (ÞBack: Ragnhildur byrjaði á að segja að hún fagnaði …) Samband íslenskra sveitarfélaga taldi að eðlilegt væri að bíða með breytingar fram yfir kosningar nema hugsanlega varðandi 2. gr. frumvarpsins. Lögmannafélagið leggst eindregið gegn frumvarpinu og segir að stjórnarskrárbreytingar þurfi að gera að vel athuguðu máli og í mikilli sátt. Breytingar þurfi frekari athugunar við.

Þetta eru m.a. aðilarnir, svo ekki sé talað um ótal hagsmunaaðila, sem hafa mörg orð um það hvað skorti á um tímann. Þeir benda á að mikið skorti á við málsmeðferð. Það sé skortur á samráði við fræðimenn, atvinnulíf og aðra hagsmunaaðila og þeir benda á að ætli menn á annað borð að setja á fót stjórnlagaþing sé eðlilegast að bíða með aðrar breytingar þangað til stjórnlagaþing tekur til starfa.

Allar þessar umsagnir liggja hér fyrir og ættu að vera stuðningsmönnum þessa frumvarps verðugt umhugsunarefni. Það er greinilegt að þeir sem mynda meiri hlutann í sérnefnd um stjórnarskrármál hafa ekki miklar áhyggjur af því hvað þessir umsagnaraðilar segja. En ég bind þó enn vonir við að einhverjir þingmenn í meirihlutaflokkunum hér á þingi taki mark á því fólki sem hér talar. Það er ekki eins og um sé að ræða einhverja pótintáta Sjálfstæðisflokksins, hagsmunaaðila sem séu að gæta óeðlilegra hagsmuna. Þetta er upp til hópa fólk sem ber umhyggju fyrir stjórnarskránni og varar við óheppilegum vinnubrögðum. Fjöldinn allur varar við óheppilegum vinnubrögðum.

Varðandi einstakar greinar má segja, af því hér hefur verið svolítið rætt um auðlindaákvæðið í 1. gr., að það eru ótal athugasemdir við þá grein og þær lúta alls ekki allar að því ákvæði sem var fellt út í breytingartillögum meiri hluta sérnefndarinnar. Ef umsagnirnar eru lesnar sést að fjölmargir aðilar gera athugasemdir við óljósa merkingu orða og hugtaka, t.d. varðandi þjóðareign. Samband sveitarfélaga bendir á að tilgangurinn sé óljós og ýmis túlkunaratriði sem ekki finnast svör við. Eðlilegra sé að bíða þar til farið verði út í heildarendurskoðun stjórnarskrár. Orkustofnun hvetur til þess, Orkustofnun sem ekki hefur neinna hagsmuna að gæta svo ég viti til, óskar eftir að hugtök verði skilgreind með skýrari hætti, t.d. varðandi náttúruauðlindir. Orkustofnun leggur til að þjóðareignarhugtakinu verði sleppt. Samorka sendir t.d. ítarlegar athugasemdir, vel rökstuddar um ófullnægjandi skilgreiningar hugtaka, hættu á réttaróvissu og bent er á að ekki hafi farið fram sú almenna umræða í samfélaginu sem eðlileg sé í sambandi við stjórnarskrárbreytingar. Landsvirkjun gagnrýnir óskýr hugtök og hugtakanotkun, skort á samráði. LÍÚ leggst gegn frumvarpinu og þarf ekki að koma neinum á óvart í ljósi fyrri afstöðu þeirra. Samtök atvinnulífsins benda á óljósa hugtakanotkun. Landssamband smábátaeigenda segir að merking 1. gr. sé óljós og ýmis hugtök séu bara orðagjálfur. Og svona má lengi telja.

Ég vísa bara til þeirra umsagna sem hér liggja frammi og eru margar hverjar mjög fróðlegar. Ég er ekki sammála þeim öllum, alls ekki. En ég hins vegar vek athygli á því að meiri hlutinn í sérnefnd um stjórnarskrármál telur í fæstum tilvikum ástæðu til þess að taka mark á þessum athugasemdum og virðir þær ekki viðlits og reynir ekki að svara þeim í mörgum tilvikum.

Í ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar áðan kom fram að í hans huga væri þjóðareignarhugtakið skýrt. Eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson minni ég á að í sérnefnd um stjórnarskrármál sem starfaði vorið 2007 kom líka fram verulegur pólitískur ágreiningur milli fræðimanna um skilning á hugtakinu þjóðareign og hvað fælist í því ákvæði sem þá lá fyrir. Af gögnum málsins og umsögnum er alveg ljóst að sá ágreiningur er ekki leystur. Þó að skilningur hugtaksins þjóðareignar sé skýr hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni þá er fjöldinn allur af aðilum í bæ, hagsmunaaðilum og sérfræðingum sem hafa annan skilning á hugtakinu en hann eða kvarta undan því að skýringarnar séu ekki nægar. Hugtakið sé of óljóst.

Í nefndaráliti meiri hlutans er bara fullyrt að þjóðareignarhugtakið sé skýrt og það er ekki rökstutt nánar. Sama er að segja um ábendingar um að eðlilegt sé að bíða með lögfestingu ákvæðisins þar til heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar fer fram. Það er atriði sem margir benda á, að það eigi ekki að endurskoða einstök ákvæði ef til standi að fara í heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á stjórnlagaþingi. Það er ekkert verið að ræða það í þessu nefndaráliti sem neinu nemi. Því sjónarmiði er bara svarað þannig að það sé búið að ræða svo lengi um svona ákvæði og nefndin telji einsýnt að ekki verði beðið lengur með setningu þess. Það er ekkert útskýrt eða rökstutt af hverju megi ekki bíða með setningu þessa ákvæðis.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði áðan að umræðunni væri lokið. Þá spyr ég: Hver hefur ákveðið að umræðunni sé lokið? Hver hefur ákveðið það? Það er veigamikil spurning. Það er enn spurning um þetta ákvæði og fleiri ákvæði þarna.

Af hverju er svona brýnt að þessi ákvæði verði sett í stjórnarskrána núna? Því er ekki svarað, ekki gerð minnsta tilraun til þess að rökstyðja það hvers vegna það þurfi að gerast núna. Það eru ráðagerðir um að fara með heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar inn á stjórnlagaþing. Eftir nýjustu tillögum meiri hlutans á að taka til starfa á næsta ári og ljúka störfum eftir tvö ár. Hvaða brýnu nauðsyn ber til að breyta hinum ákvæðunum í þann skamma tíma sem líður þangað til stjórnlagaþing skilar niðurstöðu sinni, hvaða brýnu nauðsyn ber til þess? Hvaða hagsmuni er verið að vernda á þessum tíma? Hvaða réttarstöðu á að breyta? Hvaða áhrifum ætla menn að ná fram á þeim stutta tíma sem líður þangað til stjórnlagaþing tekur til starfa?

Er það kannski bara það að þeir sem að þessu standa vilji gefa einhvers konar pólitískar yfirlýsingar, vilji senda út þau skilaboð að þeir vilji gera hitt og þetta, að þeir styðji hitt og þetta, að þeir séu að setja þessi stjórnarskrárákvæði fram fyrst og fremst sem pólitískar yfirlýsingar? Þá verð ég að minna á að stjórnarskrá er ekki landsfundarályktun stjórnmálaflokks, stjórnarskrá er ekki stefnuyfirlýsing eða einhver slík viljayfirlýsing, stjórnarskrá hefur lagagildi. Stjórnarskrá er grundvallarlög. Dómstólar þurfa að fara eftir stjórnarskrá. Þegar menn setja ákvæði í stjórnarskrá þurfa menn að vanda sig og menn þurfa t.d. að hugsa út í hvernig dómstólar muni meðhöndla viðkomandi ákvæði, hvernig þeir muni túlka þau. Ef menn eru bara að setja pólitískar yfirlýsingar inn í stjórnarskrá eru menn á miklum villigötum, þá lenda menn í miklum ógöngum. Þá taka menn þá áhættu að fylla stjórnarskrána með marklausum eða merkingarlitlum yfirlýsingum sem verða túlkaðar á alla enda og kanta og geta orðið uppspretta réttaróvissu, málaferla og dómsniðurstaðna sem enginn sér fyrir. Eins og hv. þm. Björn Bjarnason sagði fyrr í dag eru menn að skapa ríka hættu á því með þeirri aðferðafræði að dómstólum verði í rauninni falið það vald sem löggjafanum er almennt ætlað að hafa með hendi. (Gripið fram í.) Það er að mínu mati óheppileg þróun, það kann að vera að aðrir hafi aðra skoðun.

Varðandi aðra þætti frumvarpsins ætla ég ekki að hafa langt mál. Við höfum vikið að því, sjálfstæðismenn, fyrr í þessari umræðu og ég get ekki látið hjá líða að benda enn og aftur á þá hrópandi mótsögn sem felst í því að ætla annars vegar að lögfesta nýtt ákvæði um hvernig standa beri að stjórnarskrárbreytingum, þ.e. 79. gr. sem verður 81. gr., og hins vegar að koma á fót stjórnlagaþingi til að endurskoða stjórnarskrána í heild í náinni framtíð. Eins og bent hefur verið á, verði frumvarpið óbreytt að lögum, verður á sama tíma að setja tvær mismunandi leiðir til að afgreiða stjórnarskrárbreytingar sem eiga að vera í gildi á sama tíma. Þetta er að mínu mati hreinasta vitleysa, með leyfi forseta, hreinasta vitleysa. Menn ætla að hafa í gangi á sama tíma tvær mismunandi leiðir til þess að breyta stjórnarskrá, annars vegar stjórnlagaþing og hins vegar Alþingi með stjórnlagavald. Mér finnst í þessu felast alveg óskapleg mótsögn.

Mér finnst líka felast óskapleg mótsögn í því þegar menn segja að helsta ástæðan fyrir því að það þurfi að setja á fót stjórnlagaþing sé sú að alþingismenn megi ekki koma að stjórnarskrárbreytingum, það sé óheppilegt að alþingismenn komi að stjórnarskrárbreytingum. Með því er ætlast til þess að einmitt hinir sömu alþingismenn, þ.e. við sem nú sitjum á Alþingi, breytum stjórnarskránni. Í öðru orðinu treysta menn alþingismönnum ekki til þess að breyta stjórnarskránni, í hinu orðinu ætlast þeir til þess að alþingismenn samþykki stjórnarskrárbreytingar. Þetta er hrein rökleysa.

Eina leiðin til þess að átta sig á þessu er sú sem hv. þm. Pétur Blöndal vék að áðan, að hugsanlega hafa einhverjir af tillöguflytjendum í raun ekki neina trú á því að stjórnlagaþingið komist á koppinn eða að stjórnlagaþingið muni skila einhverju, hugsanlega er þetta þannig. Hugsanlega vilja einhverjir af höfundum þessara tillagna beinlínis flýta sér að gera breytingar sem eru þeim að skapi á stjórnarskránni vegna þess að þeir reikna ekki með að það komi neitt út úr stjórnlagaþinginu, vegna þess að þeir deila kannski skoðun prófessors Sigurðar Líndals, þ.e. að það verði bara þrætusamkoma, umræðufundur og þrætusamkoma sem ekki — (VS: Til stjórnlaga.) Já, en hann hefur ekki mikla trú á að það muni skila árangri, því miður.

Ég velti fyrir mér hvort framsóknarmenn sérstaklega, af því að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er ein úr hópi stuðningsmanna frumvarpsins sem er hér í salnum, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er sú eina af þeim sem standa að þessu frumvarpi sem sýnir umræðunni áhuga á þessari stundu, þá finnst mér rétt að spyrja hana sem framsóknarmann hvort Framsóknarflokkurinn hlusti ekki á sinn eigin ráðgjafa í stjórnarskrármálum. Það hefur komið fram að Gísli Tryggvason er höfundur stjórnlagafrumvarpsins sem framsóknarmenn lögðu til fyrr í vetur, en núna virðist það ekki henta Framsóknarflokknum og Gísla, ekki þegar hann segir að hann hafi ríkar efasemdir um að það eigi að setja á stjórnlagaþing og gera hinar breytingarnar á stjórnarskránni á sama tíma. Þetta kom tvívegis fram hjá honum í sérnefnd um stjórnarskrármál. Gísli Tryggvason á sæti í ráðgjafarnefnd ríkisstjórnarinnar og kom tvívegis fyrir sérnefndina um stjórnarskrármál og það kom skýrt fram í máli hans, tvívegis, að hann hefði mjög miklar efasemdir um þá leið sem hér er farin. Ég velti fyrir mér: Af hverju hlusta framsóknarmennirnir ekki á sinn eigin ráðgjafa? Hentar það ekki pólitískum hagsmunum Framsóknarflokksins um þessar mundir að hlusta á þessi sjónarmið?

Ég vék aðeins að nefndaráliti meiri hlutans áðan. Þar eru ýmsar fullyrðingar sem ég verð að vekja athygli á vegna þess að þær eiginlega gera það að verkum að maður skilur enn síður þær hugmyndir og tillögur sem hér eru á borðinu. Ég vil nefna ákvæðið varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur.

Í nefndarálitinu segir um þjóðaratkvæðagreiðslur, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn áréttar jafnframt að undanskilin þjóðaratkvæðagreiðslu eru málefni sem varða einkamálefni og einkahagsmuni fólks eða minnihlutahópa.“

Reglan sem hér er orðuð í nefndaráliti er vissulega ágæt, en ég spyr: Á hún sér einhverja stoð í lagatextanum sjálfum, stjórnarskrártextanum sjálfum, í ákvæðinu? Ég kem ekki auga á það. Ég held að hafi verið ætlunin að setja reglu af þessu tagi í stjórnarskrárákvæðið hefði þurft að gera það með skýrum hætti, ekki bara með almennu orðalagi í nefndaráliti. Ummæli í nefndaráliti sem ekki eiga sér stoð í lagatexta hafa enga merkingu, skipta ekki máli. Það verður að vera stoð í lagatextanum til þess að nefndarálitið hafi eitthvert gildi.

Sama á við þegar síðar er talað um þjóðaratkvæðagreiðslu, að Alþingi eigi að staðfesta spurningar sem séu tækar til þjóðaratkvæðagreiðslu. Um það er sagt í nefndarálitinu að þar með sé tryggt að spurningar sem varða einstaklinga og einkamálefni þeirra fari ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Slík regla væri líka ágæt en hún kemur ekki fram í frumvarpstextanum sjálfum. Það er engin vörn varðandi einkamálefni og einkahagsmuni í stjórnarskrártextanum sjálfum. (Gripið fram í.) Ég velti fyrir mér hvaða gildi svona ummæli hafi þegar þau eiga ekki stoð í frumvarpstextanum. Vilji menn setja svona reglur eiga menn bara að gera það með því að setja þær fram í frumvarpinu. Menn eiga þá bara að búa til svoleiðis reglu, það er ekkert því til fyrirstöðu og enginn í sjálfu sér á móti því. Þessi tvö dæmi sýna einungis að hugmyndin er ekki fullunnin, hugmyndin er ekki fullfrágengin. Jafnvel um atriði sem enginn ágreiningur þarf að vera um hafa vinnubrögðin verið með slíkum hætti að það er ekki búið að klára verkið. Þetta eru enn þá bara drög að stjórnarskrárfrumvarpi og málið alls ekkert tækt til afgreiðslu, því miður.

Það er síðan rétt að geta þess af því að ég vék þjóðaratkvæðagreiðsluákvæðinu að pólitískt eru allir sammála um það markmið að stefna beri að því að auka vægi þjóðaratkvæðagreiðslna í landinu. Það er raunar hægt að gera það með lagabreytingum, með því að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ef þjóðaratkvæðagreiðslur eiga að vera bindandi verður að vísu að fara með það inn í stjórnarskrá en það þarf hins vegar að gera með þeim hætti að vandað sé til verka. Það eru enn þá allt of margar spurningar, allt of mörg óljós atriði, allt of mörg atriði þar sem skortir útfærslu til þess að það sé hægt að líta á að þetta ákvæði sé fullunnið þó að það sé ekki ágreiningur um markmiðið. Sama á við um svo margt þarna. Það er ekkert endilega ágreiningur um markmiðin, vinnan er bara í miðju kafi, hún er ekki búin, það er ekki búið að klára vinnuna heldur er í einhverjum æsingi og taugaveiklun af hálfu ríkisstjórnarflokkanna reynt að keyra þetta mál í gegn á síðustu dögum þingsins alveg án þess að hugað sé að því hvernig vanda beri til verka og standa beri að stjórnarskrárbreytingum af þessu tagi.

Það er fleira sem ég ætla að nefna hér en tími minni er senn á enda þannig að ég verð líklega að koma aftur síðar í umræðunni til þess að fara yfir fleiri þætti sem varða þetta. Ég vil bara geta þess í sambandi við stjórnlagaþingið eins og það er nú útfært í breytingartillögum meiri hlutans — ég vil nú ekki níðast neitt á þeim ágæta flokki Framsóknarflokknum — en ég hlýt að vekja athygli á því að nú stendur Framsóknarflokkurinn að þriðju tegundinni af stjórnlagaþingi, þriðju útgáfunni af stjórnlagaþingi á tveimur og hálfum mánuði. Á tveimur og hálfum mánuði hefur Framsóknarflokkurinn ruðst fram á völlinn, fullur af sannfæringarkrafti og heitur, með nýja útfærslu af stjórnlagaþingi og allar eru þær gerólíkar innbyrðis. (Gripið fram í.) Ég velti fyrir mér ef málið verður lengi í umræðu í þinginu hvort við eigum von á fjórðu eða fimmtu útgáfunni frá Framsóknarflokknum. (Gripið fram í.) Ég biðst velvirðingar, hæstv. forseti.

Við verðum að skoða þessar hugmyndir með stjórnlagaþingið þannig — og það var þess vegna sem ég í upphafi máls míns vakti athygli á því að hér vantaði flutningsmenn þessa frumvarps — að það stjórnlagaþing sem nú birtist í breytingartillögum meiri hlutans er allt annars eðlis en það stjórnlagaþing sem lagt var upp með í upphaflegu frumvarpi. Að sumu leyti er það til bóta, t.d. er gert ráð fyrir að það sé miklu ódýrara en áður. (ÞKG: Hálfur milljarður.) Það er samt hálfur milljarður eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir bendir á. En það vantar alveg skýringar á því, t.d. í nefndarálitið, hvers vegna og á hvaða forsendum þeir flokkar sem fyrir þremur vikum töldu að nauðsynlegt væri að stilla upp stjórnlagaþingi með þeim hætti sem birtist í frumvarpinu sem forsætisráðherra og fleiri fluttu, telja allt í einu að nú sé nóg að koma með einhverja allt aðra útgáfu. Þessi stefnubreyting er ekkert útskýrð.

Ég skil rökin með að spara. En ef flutningsmenn töldu nauðsynlegt að stjórnlagaþingið yrði með þeim hætti sem það birtist okkur í frumvarpinu fyrir þremur vikum telja þeir þá að það sé fullnægjandi í þeirri smækkuðu mynd sem lögð er til í breytingartillögum meiri hlutans? Þess vegna, hæstv. forseti, taldi ég að það væri mikið gagn að því ef flutningsmenn frumvarpsins væru viðstaddir þessa umræðu og ættu þátt í skoðanaskiptum við þingmenn um málið. Hugsanlega gefst tækifæri síðar í umræðunni til að eiga orðastað við þá um þessi atriði og fleiri.

Hæstv. forseti. Það er komið að lokum ræðu minnar. Að endingu get ég þó ekki annað en vakið athygli á nokkrum þokukenndum ummælum og hugleiðingum varðandi stjórnlagaþingið sem birtast í lok nefndarálitsins um mikilvægar spurningar sem nauðsynlegt er að átta sig á áður en við samþykkjum nokkra tillögu um stjórnlagaþing. Það er eins og víðar að nefndarálitið er þannig úr garði gert að það verður frekar til þess að flækja málin, flækja skilning manns á málinu en að auka hann.

Í nefndarálitinu meiri hlutans segir eftirfarandi um persónukjör til stjórnlagaþingsins, en í upphaflegu frumvarpi var það útgangspunktur að það yrði persónukjör, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggst ekki gegn slíkri kosningu“ — þ.e. persónukjöri — „en áréttar þó mikilvægi þess að á stjórnlagaþingi sitji fulltrúar þjóðarinnar.“

Hvað á meiri hluti nefndarinnar við? Hvað þýðir þessi setning? Vill meiri hluti nefndarinnar persónukjör eða vill hann það ekki? Þeirri spurningu er ekki svarað í þessum texta. Er verið að gefa í skyn að fulltrúar kosnir persónukjöri séu ekki fulltrúar þjóðarinnar? Hvað er átt við? Ég skil það ekki.

Ég lýsi eftir því hvort einhver í salnum skilur hvað þessir hv. þingmenn eru að fara þegar þeir setja svona vitleysu fram, skilur einhver hvað þeir eru að fara? Þetta er mikilvægt þingskjal. Ef þetta verður að stjórnarskipunarlögum er þetta mikilvægt lögskýringargagn og það er til vansa ef þar eru óskiljanlegar fullyrðingar og setningar.

Í sambandi við útfærsluna á kjörinu til stjórnlagaþingsins velti ég líka fyrir mér því sem þar er sagt, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur því mikilvægt að reglur um persónukjör verði með þeim hætti að tryggt verði að fulltrúar landsbyggðar og landshluta fái sæti, hvort sem það verður gert með ríkari reglum um kjör eða reglum um einhvers konar jöfnunarsæti.“

Ég skil ekkert í þessu. Ég veit ekkert hvernig menn sjá fyrir sér að ná þessum markmiðum. Þetta eru ósköp ágæt markmið en það er engin leið að átta sig á því hvernig á að útfæra þetta.

Svo segir:

„Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að reglur um kjörið verði með þeim hætti að tryggt verði eins og hægt er jafnt kynjahlutfall á þinginu.“

Þetta eru ágæt markmið en það er engin ráðagerð um hvernig eigi að útfæra þetta. Það eru skildar eftir alveg óskaplega margar spurningar. Það má segja að í breytingartillögunum sjálfum og raunar upphaflega frumvarpinu séu fjölmörg óljós og óútskýrð atriði en ákveðnir kaflar í nefndarálitinu verða enn þá frekar til þess að flækja málið, alla vega fyrir mér. Ég hef reynt að lesa þetta fram og til baka til að átta mig á því hvað meiri hluti nefndarinnar er að fara, hvað fólkið er að meina, en ég er engu nær. Ég væri þakklátur fyrir ef einhverjir hv. þingmenn, einhverjir af stuðningsmönnum málsins, flutningsmönnum eða nefndarmönnum gætu útskýrt fyrir mér þau tilteknu vafaatriði sem ég hef vikið hér að.

Hæstv. forseti. Ég lýk nú máli mínu en þar sem mjög mörg atriði varðandi þetta frumvarp eru óljós óska ég eftir því að eiga þess kost að komast aftur á mælendaskrá.



[22:32]
Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Hér er til 2. umr. frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem hefur á sér þann sérstaka og raunar algerlega einstaka blæ að vera flutt í fullkominni andstöðu við stóran hluta þingheims. Það er hins vegar akkúrat núna sem skiptir mjög miklu máli á Alþingi Íslendinga að allar breytingar á mikilvægri löggjöf, ég tala nú ekki um breytingar á stjórnarskipunarlögum, séu unnar og gerðar að vel athuguðu máli, vel undirbúnar og vel rökstuddar.

Ástandið hjá okkur á Íslandi er þannig um þessar mundir og stjórnmálaleg óvissa að það er algerlega óforsvaranlegt að ganga til breytinga á stjórnarskipunarlögum með þeim hætti sem hér er að unnið.

Hins vegar er ástæða til að rifja upp og undirstrika að frumvarpið er að því er virðist notað af hálfu ríkisstjórnarinnar sem einhvers konar trygging eða baktrygging fyrir því að Framsóknarflokkurinn tryggi líf ríkisstjórnarinnar eftir að til hennar var stofnað með mjög undarlegum hætti við alveg einstakar aðstæður á Alþingi Íslendinga þar sem ofbeldi var beitt gagnvart Alþingi.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með því síðustu daga og ekki síst í dag hvernig kaupin hafa gerst á eyrinni milli flutningsmanna þessa frumvarps. Það vakti athygli mína þegar hv. þm. Birkir Jón Jónsson sem er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps — og hefur einn flutningsmanna sýnt okkur þá virðingu að vera hér viðstaddur enda er hann þekktur fyrir vasklega framgöngu í þinginu — (Gripið fram í.) þegar fjármálaráðherra veittist að varaformanni Framsóknarflokksins í umræðum í dag. Þessi umhyggja fyrir Framsóknarflokknum birtist með mjög undarlegum hætti af hálfu hæstv. fjármálaráðherra þegar hv. þm. Birkir Jón Jónsson leyfði sér í umræðum utan dagskrár að bera upp nokkrar fyrirspurnir. Þá notaði hæstv. fjármálaráðherra tækifærið til að berja á varaformanni Framsóknarflokksins. Hvað er eiginlega á ferðinni? Hvers konar heilindi eru á milli þeirra aðila sem standa að breytingum á stjórnarskránni? (Gripið fram í.)

Öðruvísi mér áður brá þegar hv. þáverandi þingmaður Steingrímur J. Sigfússon beitti sér af miklu afli gagnvart ráðherrum Framsóknarflokksins og krafði þá svara við spurningum. Þá voru ekki gerðar athugasemdir við það að þær væru óundirbúnar eða lítt undirbúnar og ráðherrarnir af hálfu Framsóknarflokksins í þáverandi ríkisstjórn ættu erfitt um vik með að svara. Nei, núverandi fjármálaráðherra gerir allt aðrar kröfur til samstarfsmanna sinna, framsóknarmanna, um þessar mundir en hann vildi gera til ráðherra á sínum tíma þegar hann var óbreyttur þingmaður.

Það er annað sem vekur athygli í undirbúningi þessa máls. Breytingar á stjórnarskipunarlögunum eru fluttar sem þingmannafrumvarp. Allt gott um það, en annar stjórnarflokkurinn á ekki aðild að þessu. Frumvarpið virðist vera unnið á vegum forsætisráðuneytisins á kostnað forsætisráðuneytisins. Það er ekki unnið á vegum stjórnmálaflokkanna sem að því standa fyrir fjármuni sem stjórnmálaflokkunum er ætlað til að vinna að slíkum málum eða sérfræðikostnað og fjármuni sem eru ætlaðir til slíkrar vinnu til að vinna að þessu frumvarpi. Nei, það er unnið eins og um stjórnarfrumvarp væri að ræða og síðan koma Frjálslyndi flokkurinn og Framsóknarflokkurinn að einhverju leyti að þessu máli. Allt í kringum þetta frumvarp og þetta mál er með miklum ólíkindum.

Nú ætla stjórnarflokkarnir og Framsókn að fylgja þeirri einstöku framgöngu eftir að breyta stjórnarskránni, grundvelli lýðræðisskipunar okkar, með fáheyrðum vinnubrögðum á Alþingi eins og ég hef farið yfir.

Sjálfstæðisflokkurinn er andvígur því að ráðist verði í umfangsmiklar breytingar á stjórnarskránni án þess að tími gefist til vandaðrar málsmeðferðar. Það hlýtur að vera eðlilegt. Við sjálfstæðismenn gagnrýnum einnig harðlega að ekki hefur verið tekið tillit til sjónarmiða okkar við endurskoðun stjórnarskrárinnar og alls ekki kallað eftir samstarfi við okkur. Nú blasir við að gert er ráð fyrir breytingum á stjórnarskránni í algerri andstöðu við einn af stjórnmálaflokkunum og eins og hér hefur margkomið fram í dag hefur það ekki gerst í 50 ár að rofinn sé friðurinn á Alþingi með þessum hætti.

Sjálfstæðisflokkurinn telur engu að síður þörf á breytingum á stjórnarskránni. Ég vil að það komi skýrt fram. Auðvitað þurfum við að endurskoða stjórnarskrána og við þurfum að gera það á heildstæðan og vandaðan hátt með ígrunduðum hætti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram tillögur í þeim efnum. Allt annað tal er úr lausu lofti gripið og það er rangt að við sjálfstæðismenn höfum ekki verið tilbúnir til að standa að breytingum.

Við teljum eðlilegt að ganga til þessa verks með breytingum á 79. gr. stjórnarskrárinnar eins og margsinnis hefur komið fram í umræðunni. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, hefur gert rækilega grein fyrir því.

Það er gagnlegt fyrir okkur, ekki síst þá sem hafa unnið í sérnefndinni sem hefur fjallað um frumvarpið, að fara aðeins yfir það hvernig aðrar þjóðir hafa staðið að breytingum á stjórnarskránni. Hv. þm. Birgir Ármannsson vakti athygli á því hvernig Svíar eru núna að vinna að breytingum á sinni stjórnarskrá. Sú vinna hefur staðið allar götur frá árinu 2004. Þá skipaði ríkisstjórnin sænska fulltrúa allra þingflokka til að undirbúa stjórnarskrárbreytingar. Um er að ræða mjög víðtæka endurskoðun hjá Svíunum. Samkvæmt upplýsingum sem við höfum hafa fjölmargir ráðgjafar og sérfræðingar verið kallaðir til þeirrar vinnu og gert er ráð fyrir því að ný stjórnarskipunarlög taki gildi hjá Svíum 2011 eins og áður hefur komið fram í þessari umræðu.

Þarna er unnið með mjög vönduðum hætti og hv. þm. Kristrún Heimisdóttir hefur m.a. bent á að við þurfum að vinna með sama hætti og Svíar með því að rannsaka, undirbúa, átta okkur rækilega á hverju þarf að breyta og kalla til sem flesta í samfélaginu af fræðasviði, af vettvangi stjórnmála og af vettvangi vísindamanna í stjórnarskipun. Ég nefni þetta vegna þess að það skiptir miklu máli að það sé vel undirbúið sem lengi á að standa.

Því hefur verið ranglega haldið fram að engar breytingar hafi verið gerðar á stjórnarskránni frá upphafi. Þingmenn hafa leyft sér að halda því fram í ræðustól á Alþingi að engar breytingar hafi verið gerðar. Ég vil leiðrétta þær rangfærslur sem fram hafa komið, reyndar ekki í umræðunni núna en hefur gerst áður og ég hlustaði á þær ræður.

Það er rétt að rifja aðeins upp við þessa umræðu — ég tel að það sé mjög gagnlegt — hvernig staðið var að breytingum og hverju var verið að breyta í stjórnarskránni 1995. Í apríl 1994 sendi stjórnarskrárnefnd formönnum þingflokka á hinu háa Alþingi tillögu um breytingar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar sem þá var mjög mikið fjallað um. Tillaga til þingsályktunar var lögð fram 16. júní 1994 — það er rétt að rifja það upp — af Matthíasi Bjarnasyni, þáverandi þingmanni, Valgerði Sverrisdóttur sem hér er talsmaður meiri hluta sem vill ryðjast fram með þessar breytingar, Gunnlaugi Stefánssyni, Ólafi Ragnari Grímssyni og Kristínu Einarsdóttur.

Fimm þingmenn tóku til máls við umræðuna um málið í jafnmörgum ræðum og stóð umræðan í nokkurn tíma. Síðan var með ályktun Alþingis — þetta var aðdragandi — 17. júní 1994 í tilefni 50 ára lýðveldis á Íslandi samþykkt að stefnt skyldi að því að ljúka endurskoðun alls VII. kafla stjórnarskrárinnar fyrir næstu reglulegar alþingiskosningar. Við endurskoðunina skyldi höfð hliðsjón — og er ég þá að vitna hér, með leyfi forseta, í texta sem ég hef hér við höndina — af áðurgreindum „tillögum stjórnarskrárnefndar frá 5. apríl 1994“ en einnig skyldi fjallað um önnur ákvæði kaflans, svo sem um skipan skattamála, ríkisborgararétt og stöðu sveitarfélaga. Á síðari stigum var enn fremur ákveðið að taka til endurskoðunar ákvæði um trúfrelsi í VI. kafla.

Frumvarpið sem ég var að vísa til og var undirbúið var síðan lagt fram 15. desember 1994 af Geir H. Haarde, Finni Ingólfssyni, Ragnari Arnalds, Kristínu Ástgeirsdóttur og Sigbirni Gunnarssyni. Blessuð sé minning hans. Fyrsta umræðan fór fram 19. desember 1994, 2. umr. 23. febrúar 1995 og 3. umr. 24. febrúar 1995. Við umræðuna tóku 15 þingmenn til máls í samtals 39 skipti svo það er ekki í fyrsta skipti sem verið er að ræða hér stjórnarskipunarlög í umfangsmikilli umræðu. Stóðu umræðurnar í alllangan tíma.

Þetta vil ég rifja hér upp, virðulegi forseti, vegna þess að umræður og meðferð mála hvað varðar breytingar á stjórnarskránni hafa verið umfangsmiklar á Alþingi þegar breytingar hafa verið gerðar og ég vísa m.a. til þess að í þeirri vinnu sem unnin var þegar mannréttindaákvæðinu var breytt var kallað eftir áliti og tillögum frá almenningi. Það var auglýst sérstaklega og það væri ágætisinnlegg að lesa upp auglýsingu frá stjórnarskrárnefnd Alþingis sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrárnefnd Alþingis gefur þeim, sem þess óska, kost á að koma með skriflegar athugasemdir við frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands númer 33/1944, með síðari breytingum, 297. mál. Meginefni frumvarpsins er tillögur til breytinga á VII. kafla stjórnarskrárinnar sem m.a. hefur að geyma mannréttindaákvæði hennar. Frumvarpið liggur frammi á skjalaskrifstofu Alþingis.“

Þarna kallaði sú nefnd sem vann að breytingunum eftir aðkomu og áliti almennings og vafalaust hefur verið rík ástæða til að gera það enda var mjög vandlega að þessu öllu unnið.

Þetta vildi ég, virðulegi forseti, nefna vegna þess að mér finnst umræðan um það frumvarp sem er til meðferðar á þessu þingi, til breytinga á stjórnarskipunarlögunum, vera með þeim hætti að ýmsir hv. þingmenn líti svo á að það sé fullkomlega eðlilegt að hrapa að breytingum á stjórnarskránni.

Þegar við lítum á forsendurnar sem flutningsmenn gefa sér fyrir breytingum á stjórnarskipunarlögunum er margt athyglisvert þar. Það hefur margsinnis komið fram hjá hæstv. forsætisráðherra að það sé kallað eftir lýðræðislegum umbótum. Því er haldið alveg miskunnarlaust fram að hrun hafi orðið í samfélagi okkar af völdum stjórnarskipunarinnar. Kerfishrun er það kallað og ástæðan fyrir því að gengið er til þessara breytinga á stjórnarskránni er m.a. viðbrögð mótmælenda á Austurvelli, aðgerðir mótmælenda kalla eftir breytingum á stjórnarskránni (Gripið fram í.) og það þarf að bregðast við kröfum um endurreisn atvinnulífsins með því að breyta stjórnarskránni. Allt eru þetta fullyrðingar sem fá ekki staðist. Til að uppfylla þessi áform um lýðræðisumbætur er lagt fram frumvarp á hinu háa Alþingi til breytinga á stjórnarskránni og jafnframt er lagt fram frumvarp til breytinga á kosningalögum til að koma á persónukjöri til að uppfylla kröfuna um lýðræðisumbætur.

Þörfin fyrir lýðræðisumbæturnar var hins vegar ekki meiri að mati stjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins en svo að þegar er búið að ýta því frumvarpi til hliðar. Það er ekki lengur á dagskrá, að því er virðist, hjá ríkisstjórninni að koma á þessu persónukjöri. Hvers vegna skyldi það hafa verið? Það bendir allt til þess að ekki hafi þurft meira til en óróleika í prófkjöri hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum til að ýta þessu mikla og mikilvæga lýðræðisumbótamáli til hliðar. Það er ekki lengur á dagskrá.

Óttinn við að kjósendur tækju fram fyrir hendurnar á flokksmönnum þegar búið var að velja í prófkjöri var svo mikill að hætt var við þetta. Það var ekki lengur ástæða til að ganga til þessara lýðræðisumbóta hvað varðaði kosningalögin. Allt er þetta með miklum ólíkindum.

Þá vík ég aðeins að vinnunni í sérnefnd sem hefur fjallað um stjórnarskipunarlögin. Ég þakka hv. þingmönnum sem þar störfuðu fyrir samstarfið og formanninum fyrir að þola okkur þó að við værum ekki sammála. Það er mjög mikilvægt að vinna vel í slíkri nefnd og ég tel að við sjálfstæðismenn í nefndinni höfum svo sannarlega lagt okkur fram við að tefla fram sjónarmiðum okkar í þeim tilgangi að sjálfsögðu að bæta þá löggjöf sem að er stefnt. Það er mikið gert úr því að 11 fundir hafi verið haldnir í nefndinni. Ég verð bara að viðurkenna að mér þykir ekki mikið að halda 11 fundi í nefndinni, misjafnlega langa.

Þegar maður lítur yfir hvað gerðist á þessum 11 fundum og þegar ég hlusta á það í ræðustólnum, ekki síst frá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni sem lætur sig vanta í þessa umræðu, að það hafi skort á efnisumræðu á þessum nefndarfundum er kannski ástæða til að vekja athygli á því að á langflestum þessara funda var tekið á móti umsagnaraðilum, hlýtt á mikilvægt innlegg þeirra og hlýtt á þá gera grein fyrir afstöðu sinni.

Á fyrsta fundinum sem var mjög stuttur var einungis kjörinn formaður og varaformaður, en strax á öðrum fundi kom til nefndarinnar ráðgjafarnefndin sem vann þetta frumvarp væntanlega á grundvelli hugmynda flutningsmanna. Ráðgjafarnefndin fór yfir frumvarpið og sömuleiðis var kallaður til sérstakur fulltrúi úr forsætisráðuneytinu á þessum fundi, ágætur starfsmaður forsætisráðuneytisins Páll Þórhallsson en auk þess voru Björg Thorarensen, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, Bryndís Hlöðversdóttir, forseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, sem reyndar kom einungis á þann eina fund, og síðan Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, sem var sérlegur fulltrúi Framsóknarflokksins í ráðgjafarnefndinni.

Síðan voru þriðji, fjórði, fimmti, sjötti og sjöundi fundirnir hlaðnir yfirferð um umsagnir. Einungis var farið yfir umsagnir og hlustað á umsagnaraðila en þegar búið var að því var strax á fyrsta fundi þar á eftir reynt að rífa málið út án þess að veruleg efnisumræða gæti farið fram. Svo er talað um það hér og kvartað undan því að við sjálfstæðismenn höfum gert athugasemdir við þessi vinnubrögð. Það átti að rífa málið út strax þegar búið var að fara yfir það með umsagnaraðilum og lítill sem enginn tími gefinn til að fara í efnisumræðu, ég tala nú ekki um að gera tilraun til að ná einhverri sátt um þetta mál.

Á þeim fundi þegar málið var tekið út í andstöðu við okkur sjálfstæðismenn óskuðum við eftir því að gerð yrði tilraun til að ná samkomulagi. Við teljum svo mikilvægt að það sé samkomulag um þær breytingar á stjórnarskránni sem á að gera.

Ég vona svo sannarlega að ekki sé öll nótt úti enn þótt það sé orðið kvöldsett núna á þessum drottins degi. Það kemur dagur eftir þennan dag og ég vona sannarlega að forustumenn sérnefndarinnar beiti sér fyrir því að reynt verði að ná sátt um þær breytingar sem kunna að verða gerðar. Nefndarmenn vöktu sérstaka athygli á því fyrr í umræðunni að ef til vill væri hægt að ganga til breytinga.

Það vakti athygli mína að nefndarálitið sem liggur hér fyrir sem þingskjal frá meiri hluta nefndarinnar var lagt fram fyrir nokkru og það er algerlega óbreytt frá því að það var fyrst lagt inn í nefndina. Það var ekkert litið til athugasemda sem var verið að gera og ekkert litið til þeirra hvatninga sem við höfðum í frammi, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, eða tekið tillit til sjónarmiða okkar.

Það sem vakti hins vegar enn meiri athygli mína var að á síðasta fundinum gerði einn af flutningsmönnum frumvarpsins, Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, athugasemdir við nefndarálitið. Þeim athugasemdum var ýtt til hliðar meðan við sátum fundinn. Það var efnt til meirihlutafundar strax að loknum fundi og þá bjóst ég við að gerð yrði einhver breyting á nefndarálitinu á grundvelli þeirra athugasemda sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hafði haft í frammi. Engar breytingar voru gerðar, ekkert tillit var einu sinni tekið til athugasemda frá flutningsmönnum frumvarpsins. (VS: … fleiri athugasemdir?) Hann setti fram athugasemdir og gerði grein fyrir því að hann væri með athugasemdir á fundi þannig að við urðum vitni að því. Hv. þm. Jón Magnússon sem er í salnum getur borið vitni um það á eftir.

Ef það hefði verið brotið á bak aftur er það væntanlega skýringin núna en það lá alveg fyrir að hann var með athugasemdir. Þær birtust hins vegar ekki í nefndarálitinu því að það var algerlega stafrétt óbreytt eins og það var sett fram fyrst. Eitthvað hefur gengið á á bak við tjöldin í þessu öllu saman. Ég hlýt að gera athugasemdir við þetta vegna þess að ég vonaðist til þess að okkur auðnaðist að ná sátt þrátt fyrir þessi vinnubrögð.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson undrast það að við gerum athugasemdir við frumvarpið og óskum eftir breytingum. Nánast hefur verið látið að því liggja að litlar eða engar athugasemdir hafi komið fram. Það er öðru nær. Eins og rækilega hefur komið fram í þessari umræðu hafa umsagnir um frumvarpið verið mjög neikvæðar. Það er gegnumgangandi, má segja, að umsagnaraðilar hafi kvartað undan því hve skammur tími væri til verksins nema reyndar ASÍ og BSRB en þær umsagnir virðast algerlega hafa verið pantaðar og er þeim stóru samtökum til skammar. Þegar nokkurra síðna bréf er sent til þeirra þar sem óskað er eftir umsögn um breytingar á stjórnarskránni leyfa ASÍ og BSRB sér að senda örstutt bréf um að þeir fagni þessu öllu saman.

Síðan kemur röð sérfræðinga, lögfræðinga, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjölmargra merkra aðila sem gerir stórkostlegar athugasemdir við frumvarpið. Ég get ímyndað mér að það væri hægt að skrifa í öllum lagadeildum háskólanna á Íslandi margar doktorsritgerðir sem fjölluðu um athugasemdir um stjórnarskipunarlagabreytingarnar sem hér er fjallað um.

Þær eru mjög athyglisverðar, margar hverjar, og ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því að lesa það allt saman upp en það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni fyrir okkur þingmenn að fá til okkar athugasemdir eins og frá Ragnhildi Helgadóttur, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík, Davíð Þorlákssyni lögfræðingi, Davíð Þór Björgvinssyni, dómara við Mannréttindadómstólinn í Evrópu — mjög athyglisverð umfangsmikil umsögn kom frá Davíð Þór Björgvinssyni sem mörgum þingmönnum er að góðu kunnur þar sem hann fer á þessum örstutta tíma af mikilli vandvirkni ofan í frumvarpið og gerir margar athugasemdir.

Þegar hefur verið gerð grein fyrir athugasemdum Sigurðar Líndals. Hann þarf ekki að kynna sérstaklega hér, svo þekktur sem hann er.

Landsvirkjun gerir mjög alvarlegar athugasemdir og ég vitna til athugasemda Landsvirkjunar, með leyfi forseta:

„Ekki verður því komist hjá því að benda á að sá tími sem veittur er af hálfu Alþingis til umfjöllunar og umsagnar um svo viðamikið mál er afar stuttur.“ Síðar segir, með leyfi forseta:

„Landsvirkjun telur að nauðsynlegt sé að slík umræða og skoðanaskipti fari fram með faglegum og vönduðum hætti áður en ákvæði af þessum toga er tekið upp í íslensku stjórnarskrána.“ — Það er verið að fjalla um 1. gr. — „Það gerist ekki á nokkrum dögum. Þar til slík opin og hreinskiptin umræða hefur farið fram leggur Landsvirkjun til að frestað verði að taka inn í íslensku stjórnarskrána efnisákvæði 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins.“

Það er ekki á hverjum degi sem Alþingi fær umsögn frá Landsvirkjun, þessari lykilstofnun íslenska samfélagsins, þar sem fjallað er með þessum hætti um lagabreytingar. Það er verið að fjalla um stjórnarskrána.

Norðurál gerir athugasemdir. Rafmagnsveitur ríkisins, Rarik, taka undir þær athugasemdir. Samorka og fleiri aðilar í orkugeiranum gera athugasemdir og vara við afgreiðslu þessa máls eins og það er. Samtök atvinnulífsins, Landssamband smábátaeigenda og Viðskiptaráð sömuleiðis. Orkustofnun gerir mjög alvarlegar athugasemdir. Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga komu á fund nefndarinnar og gerðu auk þess mjög veigamiklar skriflegar athugasemdir þar sem varað er við breytingum á stjórnarskránni. Ég ætla að leyfa mér að vitna til athugasemda frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrá lýðveldisins er grundvallarlöggjöf þessa lands sem öllum ber að virða. Þannig er stjórnarskránni ætlað að vera hafin yfir dægurþras og sveiflur í stjórnmálum. Vegna mikilvægis stjórnarskrárinnar er nauðsynlegt að stjórnskipunarlög séu sett að vel ígrunduðu máli og í sem mestri sátt.“

Síðar segir:

„Tilgangur ákvæðisins“ — þ.e. 1. gr. — „er fremur óljós og sömuleiðis hvaða áhrif ákvæðinu er ætlað að hafa.“

Þannig mætti lengi telja, hæstv. forseti. Ég ætla ekki að vitna frekar í þessar umsagnir en það er alveg ljóst að hvað varðar 1., 2. og 3. gr. eru margvíslegar athugasemdir gerðar af þeim aðilum sem veittu umsagnir. Hvað varðar 4. gr. þar sem stjórnlagaþingið er til umfjöllunar er það auðvitað alveg sérstakur kapítuli út af fyrir sig.

Umfjöllun um stjórnlagaþingið tók nokkra kippi, má segja, vegna þess að eftir að kostnaðarmat lá fyrir var gert ráð fyrir því að á grundvelli frumvarpsins eins og það var upphaflega þyrfti að kosta til stjórnlagaþings mjög háum fjárhæðum. Þar var um að ræða 1,2–2,2 milljarða eftir því hvernig útfærslan yrði þannig að þarna var um verulegar fjárhæðir að ræða. Eftir að stjórnarliðarnir og fulltrúar Framsóknarflokksins höfðu farið höndum um kostnaðarmatið frá fjármálaráðuneytinu virtust þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu að þetta gæti ekki gengið, það gengi ekki ofan í þjóðina að efna til stjórnlagaþings sem kostaði á þriðja milljarð króna auk þeirrar óvissu sem frumvarpið skapaði. Þess vegna var kallað eftir breyttu mati frá fjármálaráðuneytinu.

Áður en kostnaðarmatið frá fjármálaráðuneytinu var lagt fyrir nefndina kom fram að það gætu verið um það bil 400 millj. sem stjórnlagaþing í breyttri mynd kostaði. Sú varð niðurstaðan. Það kom kostnaðarmat frá fjármálaráðuneytinu sem sagði að miðað við átta mánaða starfstíma mundi þetta kosta 424 millj. og ef starfstíminn væri 12 mánuðir, og þar með var náttúrlega búið að minnka þetta allt saman mjög mikið, væri kostnaðurinn 524 millj. þegar tekinn var inn kostnaður vegna kosninga fulltrúa á stjórnlagaþing og einnig kostnaðurinn við þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið. Það tókst að koma þessum kostnaði samkvæmt þá breyttu fyrirkomulagi niður í þessar fjárhæðir.

Hvað um það, kostnaðurinn er vissulega mikill en aðalatriðið er hins vegar það sem ég vil gera alveg sérstakar athugasemdir við, að hér er gert ráð fyrir því að ýta Alþingi Íslendinga til hliðar samkvæmt 4. gr. frumvarpsins, efna til stjórnlagaþings sem tekur stjórnarskrárvaldið frá Alþingi Íslendinga. Það er algerlega óásættanlegt að mínu mati.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt til að miklu fremur verði farin sú leið að stjórnlagaþingið væri ráðgefandi. Ég tel að það sé mjög góður kostur fyrir okkur Íslendinga að efna til umfangsmikillar umræðu almennings og kalla til með kosningu fulltrúa á stjórnlagaþing sem fjallaði um málið með sérfræðingum áður en það kæmi endanlega til afgreiðslu á Alþingi. Það að kjósa stjórnlagaþing við hliðina á Alþingi Íslendinga og ætlast til þess að Alþingi veitti umsögn um tillögur frá stjórnlagaþinginu er að mínu mati algerlega óásættanlegt form þegar verið er að gera breytingar á stjórnarskipunarlögunum.

Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnarskipunar íslenska lýðveldisins. Hún mælir annars vegar fyrir um reglur sem fjalla um vald handhafa ríkisvaldsins, þ.e. löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds, og hins vegar um mannréttindi borgaranna og þær takmarkanir og skyldur sem hvíla á handhöfum ríkisvalds gagnvart almenningi í landinu.

Ef okkur tekst sem sagt ekki að hægja á þeirri vegferð stendur til að keyra í gegn á Alþingi breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins á fáeinum dögum. Ég hef vísað til þess að bæði í Svíþjóð og þegar við höfum sjálf breytt stjórnarskránni hafa menn lagt mikla áherslu á að gefa sér góðan tíma. Þess vegna hljótum við að harma að þessi háttur sé hafður á og lýsa mikilli ábyrgð á hendur bæði flutningsmönnum og þeim sem vilja standa með þessum hætti að málum á hinu háa Alþingi.

Eins og ég sagði áður er ekki öll nótt úti enn. Ég vona svo sannarlega að okkur sjálfstæðismönnum hafi tekist með þessari umræðu að vekja athygli flutningsmanna og annarra þingmanna sem hafa fylgt þessu frumvarpi gjörsamlega í blindni. Ég heyri á ýmsum þingmönnum að þeim er ekki rótt. Ég vona þess vegna að þeir hinir bestu menn í stjórnarliðinu og í Framsóknarflokknum — ég veit að þar er margt gott fólk sem vill leggja hönd að — láti sér segjast og falli frá þeim ótrúlegu áformum að breyta stjórnarskránni með þeim hætti sem hér er lagt til.

Hæstv. forseti. Ég ætla að láta þetta duga og vona svo sannarlega að forseti Alþingis þurfi ekki að standa frammi fyrir því að láta greiða atkvæði um löggjöf sem víkur forseta Alþingis og Alþingi til hliðar. Það er óásættanleg niðurstaða, virðulegi forseti.



[23:11]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér höfum við þingmenn hlýtt á mjög yfirgripsmiklar og ítarlegar ræður, ekki síst okkar sjálfstæðismanna og ekki síst þeirra sem hafa verið fulltrúar okkar í sérnefnd um stjórnarskrármál. Nú er hv. þm. Björn Bjarnason búinn að flytja sína fyrstu ræðu, hv. þm. Sturla Böðvarsson, Birgir Ármannsson og núna er fjórði fulltrúinn okkar í sérnefnd um stjórnarskrármál að fara að flytja sína ræðu.

Ég tel það einkenna lítilsvirðingu, gott og vel, gagnvart Sjálfstæðisflokknum af hálfu ríkisstjórnarinnar að ríkisstjórnin og fulltrúar hennar og framsögumenn málsins, hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra, séu fjarri og finnst eðlilegt að a.m.k. tvö þau síðastnefndu verði við umræðuna sem eftir lifir þessarar dagskrár. Það er mikilvægt að mínu mati að ekki bara fulltrúar okkar í stjórnarskrárnefnd heldur við þingmenn höfum tækifæri til að spyrja flutningsmenn, ekki síst hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra, ákveðinna spurninga í þessu yfirgripsmikla máli þar sem kemur æ betur í ljós að vinnubrögðin eru alveg fáheyrð. (Forseti hringir.) Þau eru með endemum, þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í þessu mikilvæga máli (Forseti hringir.) og þess vegna tel ég einsýnt að krefjast þess af hæstv. forseta að biðja flutningsmenn að vera við umræðuna.



[23:12]
Forseti (Kristinn H. Gunnarsson):

Forseti mun gera ráðstafanir til að koma þeim boðum til flutningsmanna að nærveru þeirra sé óskað á þingfundinum.



[23:13]
Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér í hliðarsal er formaður stjórnarskrárnefndar, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. Hv. þm. Birkir J. Jónsson sem er einn af flutningsmönnunum hefur verið hér af og til í kvöld. Þar með er upptalið af hálfu þeirra sem styðja þetta mál.

Ekki hefur farið mikið fyrir öðrum flutningsmönnum þessa frumvarps og það væri fróðlegt að vita hvort einhverjir þeirra, aðrir en hv. þm. Birkir Jón Jónsson, séu í húsinu. Það er einkennilegt að forsvarsmenn Samfylkingarinnar í þessu máli, flutningsmenn, fulltrúar í stjórnarskrárnefnd, skuli ekki vera við þessa umræðu og ekki einu sinni til að hlusta á ræður þeirra manna sem sitja í stjórnarskrárnefnd.

Látum vera að menn vilji ekki sitja hér og hlusta á allar ræður vegna þess að það hefur berlega komið fram að sjálfstæðismenn eiga helst ekki að hafa skoðun á málinu. Einkennilegt er samt að vilja ekki einu sinni heyra sjónarmið þeirra manna sem sátu með þeim í nefndinni. Ég hlýt að biðja forseta í fyrsta lagi að gefa upp hvort þessir aðilar séu í húsinu og svo hitt hvort von sé á þeim hingað.



[23:14]
Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað, hv. þm. Ólöfu Nordal og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, um að það sé eðlilegt að flutningsmenn þessa frumvarps séu viðstaddir. Það er eiginlega lágmarkskurteisi við þingið, þjóðina og stjórnarskrána að flutningsmenn breytinga á stjórnarskipunarlögum séu viðstaddir umræðu, a.m.k. meðan nefndarmenn í sérnefnd um stjórnarskrármál tjá sig um málið og gera grein fyrir því hvaða sjónarmið og atriði komu upp við vinnslu þess. Annað finnst mér algjör óhæfa. Ég fer fram á það við virðulegan forseta að hann geri ráðstafanir til að þessir einstaklingar verði kallaðir hingað til, flutningsmenn frumvarpsins.

Því hefur verið haldið fram af hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að meirihlutaálitið hefði verið tekið út þó að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hefði við það athugasemdir. Ég get staðfest að þannig var það. Það kom fram í nefndinni. Það væri eðlilegt að hann væri hér viðstaddur til að gera grein fyrir þeim (Forseti hringir.) sjónarmiðum og athugasemdum sem hann kom fram með og (Forseti hringir.) hvaða athugasemdir hann hefur við þau ákvæði sem koma fram í (Forseti hringir.) breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar.



[23:15]
Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. Jón Magnússon sagði, það vakti nokkra athygli sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sagði undir lok málsmeðferðar í nefndinni. Það var mjög forvitnilegt og það væri mjög heppilegt ef fram kæmi hvaða athugasemdir það voru sem hann hafði.

Ég tek að sjálfsögðu undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram. Gert er ráð fyrir að umræður í þinginu séu í þeim tilgangi að þar fari fram skoðanaskipti um þau frumvörp og þær breytingartillögur sem eru til umræðu. Það er bæði mikilvægt og í rauninni nauðsynlegt að þeir hv. þingmenn sem fluttu þetta frumvarp og eru upphafsmenn málsins láti í ljós skoðanir sínar á því hvaða stefnu málið hefur tekið í meðförum meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál og upplýsi okkur um afstöðu sína til þeirra atriða, því að það er auðvitað um talsverðar breytingar að ræða, einkum hvað varðar stjórnlagaþingið.



[23:16]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Óskað hefur verið eftir því ítrekað í kvöld að flutningsmenn málsins séu við umræðuna. Það er nú lágmarkskurteisi við þingið að flutningsmenn séu viðstaddir. Hér hafa nefndarmenn í sérnefnd um stjórnarskrármál verið að tjá sig um þau viðhorf sem fram hafa komið í nefndinni og flutningsmenn málsins, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra — ég verð að taka fram að hv. þm. Birkir J. Jónsson hefur verið hér en hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur ekki sést hér í kvöld. Hér sést hv. þm. Jón Bjarnason, þingflokksformaður Vinstri grænna, í hliðarsal núna, hann hefur ekki sést hér fyrr í kvöld. Ég held að það væri ráð að hann gæfi formanni sínum merki um það (Forseti hringir.) að þetta sé orðið alveg yfirgengilegt og Vinstri grænir (Forseti hringir.) hafa sett mjög niður við það að þeir skuli ekki sýna málinu þá virðingu að vera viðstaddir hér.

Hæstv. forseti. Við hljótum að óska eftir því (Forseti hringir.) að fá svör við því hvort þessir hv. flutningsmenn verði hér við umræðuna áfram.



[23:18]
Forseti (Kristinn H. Gunnarsson):

Forseti ítrekar það sem áður hefur komið fram að þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til að koma boðum til flutningsmanna um að nærveru þeirra sé óskað.



[23:18]
Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er skiljanlegt að nokkrir af flutningsmönnum þessa frumvarps séu annaðhvort uppteknir eða fjarri til að undirbúa verk morgunsins, margir þeirra gegna mikilvægum störfum. Þetta er auðvitað vandamál þegar tekin er ákvörðun um að ræða jafnmikilvægt mál og stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hér að kvöldlagi og yfir okkur vofir að ræða það fram á nóttina. En þar sem hér er um jafnmikilvægt mál að ræða og þetta fyrir þjóðina og þingið er það auðvitað lágmarkskrafa að þeir sem fluttu frumvarpið, lögðu það fram, séu í þingsalnum til að eiga orðastað við þingmenn um þetta mikilvæga mál.

Ég geri það að tillögu minni, virðulegur forseti, að við gerum hlé á umræðu hér úr því að forseti hefur tilkynnt okkur að gerðar hafi verið ráðstafanir til að hafa samband við hv. þingmenn og bíðum komu þeirra þannig að við getum haldið áfram að ræða þetta mikilvæga mál við eðlilegar kringumstæður (Forseti hringir.) sem eru samboðnar þinginu og samboðnar þjóðinni.



[23:19]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það að þau skuli ekki vera viðstödd þessa umræðu lýsir í rauninni hvert viðhorf þeirra gagnvart þessu máli er. Það er lítilsvirðing gagnvart stjórnarskránni, það er verið að setja þingið til hliðar eins og hv. þm. Sturla Böðvarsson kom inn á í sínu máli. Verið er að setja þingið til hliðar, þingið skiptir engu máli, og menn eru ekki einu sinni viðstaddir umræðuna þegar fulltrúar í stjórnarskrárnefndinni halda ræður sínar og bera fram spurningar.

Ég tek undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni og mæli eindregið með því að hæstv. forseti geri núna hlé á fundum þingsins þar til hæstv. ráðherrar eru komnir í hús. Ef hæstv. forseti vill ekki gera hlé mæli ég eindregið með því að hann taki mikilvæg mál á dagskrá eins og Helguvíkurmálið. Við skulum ræða Helguvík á meðan hæstv. ráðherrar koma sér í hús en ég mæli eindregið með því að gert verði hlé á þessari umræðu þar til ráðherrar hafa sýn sig og sýnt um leið þinginu virðingu sem er svo lítið af í því máli sem við erum að ræða.



[23:21]
Forseti (Kristinn H. Gunnarsson):

Allmargir þingmenn hafa óskað eftir því að ræða fundarstjórn forseta og forseti hyggst gefa mönnum ráðrúm til þess.



[23:21]
Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Einn aðaltilgangur þess að hafa þingið í opinni málstofu er að menn geti skipst á skoðunum, að menn geti rökrætt mál og rætt ýmsar hliðar þeirra. Nú er verið að ræða stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og þá bregður svo við að allir fara heim, enginn vill taka þátt í umræðunni. Það er bara sagt að málið sé útrætt og það eigi að ganga frá því. Þetta er einkennilegt viðhorf til löggjafarsamkundunnar landinu, herra forseti.

Ég hefði haldið að þetta væri einmitt upplagt fyrir þá sem vilja annars vegar leiða sjálfstæðismönnum það fyrir sjónir að þeir séu á villigötum og hins vegar fyrir hina að fá upplýsingar um það mál sem hér um ræðir vegna þess að fjölmargar spurningar, herra forseti, hafa verið lagðar fram um það hvað einstök efnisatriði í málinu þýða. Til dæmis: Af hverju er þriðja tillagan á örfáum vikum að koma fram núna um stjórnlagaþingið? Hvernig stendur á því að flutningsmenn vilja ekki ræða það? (Gripið fram í: Mál …) Hér er einmitt staðurinn til að eiga þessi orðaskipti, herra forseti, ég tek undir það með þeim sem hér hafa áður talað.



[23:22]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég sem og fleiri hef bundið miklar vonir við það að hér verði komið á fót stjórnlagaþingi. Reyndar vil ég hafa það ráðgefandi en mjög margir vilja það. Það vaknaði hjá mér grunur um að ekki stæði til að hafa stjórnlagaþing þegar ég las 1. og 3. gr. um að það ætti að gera breytingar á stjórnarskrá áður en stjórnlagaþingið tekur til starfa. Ég spurði að því áðan hvort nýkjörið þing með nýtt umboð þyrfti ekki að fara að þeim reglum sem hér væru settar og því var svarað af Lúðvíki Bergvinssyni, sem er einn af flutningsmönnum nefndarálitsins, að svo væri ekki. (Gripið fram í: Hann er ekki viðstaddur.) Og hann er ekki viðstaddur, þannig að ég velti því fyrir mér hvort verið sé að plata mig og hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem ég veit að vilja líka að hér verði stjórnlagaþing.

Ég vildi gjarnan að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, Ellert B. Schram, Atli Gíslason og Guðjón Arnar Kristjánsson væru viðstaddir umræðuna (Forseti hringir.) svo þeir geti svarað því hvort það standi til að halda stjórnlagaþing yfirleitt.



[23:23]
Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tel eðlilegt að fundi verði frestað núna og honum fram haldið á morgun þar sem svo háttar til að flutningsmenn þessa frumvarps eru ekki viðstaddir. Það er komið fram undir miðnætti, það er eðlilegt að sýna stjórnarskránni, þinginu og þjóðinni þá virðingu að ræða breytingar á stjórnarskipunarlögum í björtu.

Ég er næstur á mælendaskrá. Ég hef verið að fylgjast með umræðum í dag og ég ætla að víkja máli mínu m.a. að atriðum sem komu fram í ræðum hv. þingmanna Atla Gíslasonar, Ellerts B. Schrams og Lúðvíks Bergvinssonar, sem sitja allir í sérnefnd í stjórnarskrármálinu, og mér finnst lágmark að þeir séu viðstaddir umræðuna. Ég ítreka þá ósk mína, virðulegi forseti, að fundi verði slitið og boðað til nýs fundar þannig að þeir sem ég vil eiga orðastað við verði viðstaddir þá umræðu.



[23:24]
Kjartan Ólafsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við ræðum hér um stjórnarskrá sjálfs lýðveldisins. Umræðan hefur farið hér fram nokkuð lengi en það sést nánast enginn úr stjórnarliðinu, frá minnihlutastjórninni er nánast enginn í þingsal og fylgist ekkert með. Einungis hv. frummælandi, Valgerður Sverrisdóttir, tekur þátt í þingstörfunum og er það virðingarvert en aðrir eru ekki á staðnum. Þvílík virðing fyrir málinu, fyrir stjórnarskránni. (Gripið fram í.) Það þarf að komast inn í umræðuna, herra forseti, hvernig stjórnlagaþingið muni starfa. Munu menn sitja heima hjá sér? Hvernig verður því þingi stjórnað? Það væri áhugavert að fá skýringar á því frá flutningsmönnum. Munu þá þessir æðstu prestar stinga af og láta ekki sjá sig?



[23:26]
Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmönnum að hér er um stórmál að ræða. Hér er m.a. um það að ræða hvort þingið vill veita þjóðinni aðkomu, treystir þjóðinni fyrir að taka afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslum. Sumir flokkar gera það ekki. (Gripið fram í: Hvað er umræðuefnið?) Ég vil benda á að hér er talsmaður nefndarinnar, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. Ég veit að hv. þm. Atli Gíslason er í húsinu og (Gripið fram í.) þessir þingmenn geta vel svarað fyrirspurnum hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Margir eru á mælendaskrá og ég tel mjög mikilvægt að þingmenn (Forseti hringir.) hætti nú að tuða hér uppi í stól um fundarstjórn forseta, sem er ágæt, og (Forseti hringir.) haldi áfram (Gripið fram í.) með ræður sínar og (Forseti hringir.) málflutning í þessu stóra máli. Ég legg áherslu á það, herra forseti, að fundarstjórn (Forseti hringir.) forseta er mjög góð og að mér finnst að (Gripið fram í.) þingmenn eigi að leyfa umræðunni að halda áfram.



[23:27]
Forseti (Kristinn H. Gunnarsson):

Ræðumanni tókst að komast lengra fram yfir tímann en nokkrum öðrum þingmanni hefur áður tekist. (Gripið fram í.)

Ekki hefur náðst í alla flutningsmenn málsins sem beðið var um að yrðu hér en þeir sem náðst hefur í eiga þess ekki kost að mæta.



[23:28]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er einsýnt að þessum fundi verður að fresta fyrst flutningsmenn frumvarpsins geta ekki fylgt eftir sínu eigin frumvarpi og sjá ekki sóma sinn í því að mæta hér og vera við umræðuna þegar verið að ræða stjórnarskrá lýðveldisins og við þingmenn sem viljum taka þátt í umræðunni og eiga við þá orðastað þurfum að horfa undir iljarnar á þeim út úr húsinu á fyrsta degi sem málið er rætt hér í 2. umr. Það gengur ekki. Ég geri fortakslausa kröfu um að málinu verði frestað þar til hæstv. ráðherrar verði komnir hér í hús til að svara fyrir sitt frumvarp. Það er móðgun við þingið, þjóðina og stjórnarskrána að flutningsmenn til breytinga á stjórnarskránni séu ekki viðstaddir þessa umræðu.

Mér nægir ekki, hæstv. forseti, að hér séu í salnum hv. þm. Jón Bjarnason eða hv. þm. Kristrún Heimisdóttir sem ég geri ráð fyrir (Forseti hringir.) að sé stuðningsmaður þeirra sjónarmiða (Forseti hringir.) sem við höfum fært fram miðað við þær tilvitnanir (Forseti hringir.) sem hér hafa verið lesnar upp.



[23:29]
Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta er auðvitað alveg með ólíkindum. Okkur er sagt hér í þinginu, síðast í dag af hæstv. forsætisráðherra, 1. flutningsmanni málsins, að þetta sé eitt af brýnustu málunum sem núverandi ríkisstjórn leggi áherslu á. Hér er um að ræða breytingar á stjórnarskrá Íslands en 1. flutningsmaður, hæstv. forsætisráðherra, hefur öðrum hnöppum að hneppa en að taka þátt í umræðu um málið. Er það allur áhuginn á málinu? Er þetta svona brýnt mál? (Gripið fram í: Áhuginn er …) Hv. þingmenn verða að hafa það í huga að 1. flutningsmaður er ráðherra en líka þingmaður og flutti málið sem þingmaður og 2. flutningsmaður er ráðherra en hann er líka þingmaður og flutti málið sem þingmaður. Það verður að teljast með ólíkindum að þessir ágætu hv. þingmenn (Forseti hringir.) hafi ekki meiri áhuga en það á því máli sem þeir í öðru orðinu segja að sé (Forseti hringir.) brýnasta mál þingsins að þeir eru ekki viðstaddir umræðuna. (Forseti hringir.) Þetta er með ólíkindum.



[23:31]
Ásta Möller (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Á þeim árum sem ég hef setið á þingi hef ég aldrei heyrt þessi svör fyrr, að ráðherrar og flutningsmenn eigi ekki kost á að mæta. Klukkan er hálftólf og ég spyr — (Gripið fram í.) — nei. Ég spyr: Eru þeir að gegna opinberum skyldum eða eru þeir komnir í rúmið og er það einhver afsökun fyrir því að koma ekki hingað og hlusta á þær umræður sem fara hér fram um stjórnarskrána? Ég tek þessi svör ekki gild að þeir eigi ekki kost á að mæta, það eru engin svör, það er fyrirsláttur. Ég hlýt því að meta það svo að ekki sé forsenda fyrir frekari fundi hér í kvöld og fer fram á að þessum umræðum verði frestað til morguns þegar viðkomandi aðilar, ráðherrar og aðrir þingmenn, eiga þess kost að mæta.



[23:32]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem farið hafa fram á að við hættum þessum umræðum fyrst flutningsmenn málsins, og reyndar þingmenn sem eiga sæti í sérnefnd um málið, sjá sér ekki fært að vera hér, fulltrúar meirihlutaflokkanna. Ég treysti því að hæstv. forseti fresti nú þegar fundi og við getum þá haldið áfram umræðunni á morgun. Ég tek undir að það eru ekki boðleg svör gagnvart þinginu, gagnvart þjóðinni og gagnvart stjórnarskránni að flutningsmenn málsins eigi þess ekki kost að vera hér til þess að ræða málið, taka þátt í umræðunni um stjórnarskrána. Hvers lags svör eru þetta?

Ég tek undir þá spurningu, hvort sem forseti ákveður að fresta fundi eða ekki: (Forseti hringir.) Hvað eru þessir aðilar að gera, (Forseti hringir.) þessir hv. þingmenn, (Forseti hringir.) ef þeir eru ekki að sinna (Forseti hringir.) opinberum skyldum og (Forseti hringir.) geta ekki tekið þátt í umræðum í þinginu?



[23:33]
Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Forseti hefur nú upplýst að hv. flutningsmenn þessara stjórnlagafrumvarpsbreytinga ásamt nefndarmönnum í sérnefndinni, þ.e. stjórnarsinnar, eigi ekki kost á því að vera hér í þinginu til að hlusta á umræðuna. Tilgangur umræðunnar er sá, eins og hér hefur komið fram, að við sjálfstæðismenn sem höfum aðra skoðun á málinu en stjórnarsinnar, höfum tækifæri til þess að reyna að fá þá til að skipta um skoðun. En það er greinilegt að þeir vilja ekki, þora ekki eða nenna ekki að gefa sér tíma í þetta. Það er ekki ásættanlegt að sagt sé að þeir eigi ekki heimangengt klukkan 25 mínútur í tólf. Það er þá að minnsta kosti lágmark, eins og hér hefur verið kallað eftir, að upplýst verði hvaða opinberu skyldum þeir eru að sinna, og ég tek undir það sem aðrir hafa sagt, (Forseti hringir.) að úr því að staðan er þessi, verði fundi frestað (Forseti hringir.) og umræðunni fram haldið á morgun.



[23:35]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan, það er til háborinnar skammar að flutningsmenn þessa frumvarps skuli ekki vera viðstaddir umræðuna. Það er móðgun og niðurlæging gagnvart þinginu, gagnvart þjóðinni og gagnvart stjórnarskránni að þeir sömu menn og vilja breyta stjórnarskránni skuli ekki sjá sóma sinn í því að vera við umræðu um sínar eigin tillögur. Það er sagt hér að þeir eigi þess ekki kost. Ég á þess ekki góðan kost að sinna skyldum mínum og trúnaðarstörfum hér í þinginu. Ég ætti núna að vera að sinna fjölskyldu minni og börnum. (Gripið fram í.) En ég er hér og sinni vinnu minni, öfugt við flutningsmenn frumvarpsins.

Sem sáttatilboð vil ég bjóða hæstv. forseta upp á það að málið verði nú tekið af dagskrá og í staðinn verði rædd önnur og brýnni mál sem liggja (Forseti hringir.) fyrir þessum fundi eins og t.d. varðandi (Forseti hringir.) fjárfestingarsamning um álverið í Helguvík. Ég óska eftir svörum við því (Forseti hringir.) hvort hæstv. forseti tekur því góða boði mínu.



[23:36]
Kjartan Ólafsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það kom fram hjá forseta fyrr undir þessum dagskrárlið að hringt hefði verið í tiltekna menn, í flutningsmenn og ráðherra á því frumvarpi sem við ræðum hér. Ég vil fá upplýst í hverja nákvæmlega var hringt og hverjir svöruðu og töldu sig ekki eiga heimangengt. Ég vil að upplýst sé hverjir svöruðu og fá að vita hverjir sögðu að þeir mættu ekki vera að því að koma og gætu ekki komið. (Gripið fram í.) Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að það sé upplýst. (Gripið fram í.) Já, þeir þurfa að vera hér, hv. þingmaður, til svara og þeir eiga að vera hér til að taka þátt í umræðunni. (Gripið fram í: Um eigið mál.) Já, til þess lætur þetta fólk kjósa sig til Alþingis. (Gripið fram í.) Það er til að það vinni vinnuna sína og hafi skoðanaskipti hér inni. Annars geta þeir bara farið til Spánar og verið á Klörubar ef það er aðalatriðið, ef það er aðalmottóið, og horft á allt saman á netinu. (Forseti hringir.) Það er ekki tilgangurinn með þingi.

Herra forseti. Þegar það hefur verið upplýst (Forseti hringir.) í hverja náðist og hverjir sögðust (Forseti hringir.) ekki geta komið, (Forseti hringir.) þá þurfum við að skoða framhaldið (Forseti hringir.) þegar það er komið í ljós.



[23:38]
Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér fyrr í kvöld hafa verið lagðar fram mjög eðlilegar spurningar. Fjallað er um viðveru þeirra flutningsmanna þessa máls sem sýna því ekki meiri áhuga en raun ber vitni. Einnig hafa komið fram athugasemdir um viðveru þingmanna þessarar minnihlutastjórnar sem eru með afar slaka mætingu, sýna þessum málum enn meiri lítilsvirðingu.

Ég vísaði til þess í kvöld að það væri greinilega komin ákveðin þreyta í þinglið enda álagið búið að vera mikið. Það eru búnir að vera langir vinnudagar í þinginu og þar á undan hafa verið annasamir tímar. (Gripið fram í.) Það er alveg ljóst að við sjálfstæðismenn stöndum það betur en það vinstra fólk sem á ekki heimangengt í kvöld. Það er einboðið við þessar aðstæður, virðulegi forseti, að fresta þessum fundi, það er ekkert annað sem er í boði (Forseti hringir.) og í það minnsta þarf að gefa okkur upplýsingar (Forseti hringir.) um það hvenær forseti hyggst ljúka hér störfum. (Forseti hringir.) Það hefur ekki komið fram enn þá og hér er (Forseti hringir.) fólk sem þarf að gera ráðstafanir. (Forseti hringir.) Það eru umræður í nefndum í fyrramálið (Forseti hringir.) sem þurfa líka sinn vinnutíma.



[23:39]
Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er alveg furðulegt metnaðarleysi af hálfu þeirra sem bera fram þetta mikilvæga frumvarp, breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins, að taka ekki þátt í umræðum hér. Margir af þeim sem hæst hafa talað á undanförnum mánuðum, missirum og árum í þessum þingsal (Gripið fram í: Og utan hans.) og utan þingsalar um virðingu Alþingis hljóta að velta vöngum yfir eigin orðum og eigin gjörðum.

Að við skulum sitja hér í þingsalnum þar sem ýmist eru tveir eða þrír þingmenn og talsmenn þeirra sjónarmiða sem hér er rætt um og síðan fjöldinn allur af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem vilja ræða þetta mikilvæga mál, er áfellisdómur yfir þeim stjórnarliðum sem sinna ekki betur (Forseti hringir.) störfum sínum en raun ber vitni.



[23:40]
Ásta Möller (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram góð og málefnaleg umræða í dag. Sjö þingmenn stjórnarliða hafa talað í dag og fjórir stjórnarandstæðingar, fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum setið yfir ræðum sjö þingmanna í stjórnarliðinu og þar með talið Framsóknar enda er þessi ríkisstjórn í boði Framsóknar og þessi umræða einnig.

Ég tel að það sé full ástæða til þess að þingmenn stjórnarliða sýni okkur sömu virðingu og við höfum sýnt þeim, að sitja hér og hlusta á þeirra röksemdir. Það er kominn tími til þess að þeir sitji hér og hlusti á okkar röksemdir. Ef þess er ekki kostur, eins og komið hefur fram — og þá er ég aðeins að tala um þá sem eru á þessu máli — við gerum þá kröfu að a.m.k. þeir (Forseti hringir.) sitji yfir ræðum okkar hér. Ef þess er ekki kostur, eins og hefur verið svarað, (Forseti hringir.) hljótum við að krefjast þess (Forseti hringir.) að fundi verði frestað til morguns.



[23:42]
Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Maður gæti haldið að þingmenn Sjálfstæðisflokksins væru algjörir byrjendur á þingi. (Gripið fram í: Nú? …) Ég hef setið á þingi undanfarin ár og ég hef ekki kvartað undan því að taka hér umræðu þó að þær stæðu fram á nótt. Ég vil vekja athygli á því sem hv. þingmenn gera sér grein fyrir, að málið er í höndum þingsins. (Gripið fram í.) Við erum hér með … (Gripið fram í.) Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sem er formaður nefndarinnar sem flytur málið … (Gripið fram í.) Ég hef ekki heyrt neinn kvarta undan því sem hún hefur sagt eða getur ekki leyst úr. (Gripið fram í.)

Hér er einnig hv. þm. Atli Gíslason sem ég veit að fylgist með í hliðarsal (Gripið fram í.) þannig að hv. þingmönnum er engin vorkunn að halda áfram þessari ágætu umræðu. Þeir vilja koma miklu að, sem er eðlilegt, og þá eiga þeir að gera en ekki að vera að tefja hér þingið með (Forseti hringir.) svona málþófi eins og þeir hafa hér uppi. Við erum með (Forseti hringir.) nefndarmenn sem svara til málsins þannig að ég skora á hv. þingmenn (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins, herra forseti, að nýta málfrelsið (Forseti hringir.) og halda sínar ræður um málið. (Gripið fram í.) Já, forseti stýrir fundi af mikilli röggsemi og … (Forseti hringir.)



[23:43]
Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ekki hjá því komist að benda á að fyrr í umræðunni í dag þegar við vorum að ræða dagskrána og hvort ekki væri eðlilegra og skynsamlegra að breyta röðun dagskrárliða þannig að t.d. mikilvæg mál er snerta fjölskyldurnar og atvinnulífið í landinu kæmu á undan stjórnarskrárumræðunni, sagði hæstv. forsætisráðherra að eins og allir vissu sem fylgst hefðu með stjórnarmyndun hennar eigin ríkisstjórnar, væri stjórnarskrármálið hennar hjartans mál, þess vegna ætti ekki að koma á óvart að hún vildi láta ræða það mál. Það hlýtur því að vekja alveg sérstaka furðu að hún hafi ekki meiri áhuga á málinu en raun ber vitni, að hún komi ekki og segist ekki eiga heimangengt þegar hún er beðin um að koma.

Ég minni líka á að búið er að varpa hér fjölmörgum spurningum til forseta og hann virðir okkur þingmenn ekki meira en svo að hann svarar þeim ekki einu sinni. (Gripið fram í.) Eigum við ekki rétt á því að fá svör við þeim spurningum sem bornar hafa verið fram og eigum við ekki rétt á því að við fáum að vita af hverju þeir ráðherrar hæstv. og aðrir þingmenn sem hér hefur verið kallað eftir að séu viðstaddir, (Forseti hringir.) eru ekki hérna? (Gripið fram í.)



[23:45]
Sturla Böðvarsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram um að forseti svari ekki spurningum. Mér finnst það algerlega óviðunandi og verið er að reyna að stýra fundi hér í þeim tilgangi að umræðum ljúki. En krafan um það að flutningsmenn frumvarpsins komi hingað er eðlileg. Hún er fullkomlega eðlileg og öðruvísi mér áður brá.

Ég hef setið bæði á forsetastól og sem ráðherra undir þeirri kröfu Steingríms J. Sigfússonar um að hingað komi flutningsmenn og ráðherrar jafnt að degi sem nóttu. Þannig að ömurlegt er til þess að vita að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra skuli ekki mæta hingað og það er algjör lítilsvirðing sem verið er að sýna þinginu og kann að vera að það sé í eðlilegu samhengi við þær breytingar sem verið er að leggja til að gera á stjórnarskránni. Ég (Forseti hringir.) fordæmi þessi vinnubrögð.



[23:46]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Þakka þér fyrir, herra forseti. En mér þykir mjög miður að þeir aðilar sem að þessu frumvarpi standa sýni því ekki meiri virðingu en þetta. Síðan hrunið varð í október hefur öll þjóðin beðið eftir því að við ræðum um stjórnlagaþing (Gripið fram í: Já.) og ég veit að Framsóknarflokkurinn hefur lagt mikla áherslu á það. Verið er að sýna Framsóknarflokknum óvirðingu aftur. Nú segja þeir bara: Hann er búinn að borga og við borgum fyrir okkur ef þetta frumvarp verður lagt fram en höfum engan áhuga á því að öðru leyti.

Því miður óttast ég það að það sé einmitt það sem verði og eftir kosningar verði ekki neitt stjórnlagaþing. Þeir hafa náð fram breytingum sínum um kosningar og að auðlindirnar séu inni í stjórnarskránni og það er það sem þeir ætluðu. Meiru hafa þeir ekki áhuga á og ég er ansi hræddur um að framsóknarmenn og öll þjóðin muni upplifa það þegar fram í sækir að það verði ekkert stjórnlagaþing.



[23:47]
Forseti (Einar Már Sigurðarson):

Forseti vill taka fram, til viðbótar við það sem kom hér fram úr forsetastóli áðan, vegna þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað að ætlunin er að reyna að halda áfram örlítið inn í nóttina. Það eru 25 hv. þingmenn á mælendaskrá og virðist því ekki veita af að nýta þann tíma sem hér er til ráðstöfunar. (Gripið fram í.) Vegna frammíkalls hv. þingmanns þá hefur ekki verið ákveðið hversu lengi verður haldið áfram inn í nóttina en það verður metið fljótlega upp úr miðnætti hversu lengi það verður.



[23:48]
Sturla Böðvarsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér er ljós sá vandi sem forseti stendur frammi fyrir. En vegna þess að ég veit að sá forseti þingsins sem hér stýrir fundi hefur mikla þingreynslu og er sanngjarn maður þá er ég sannfærður um að hann tekur tillit til þeirra ábendinga sem hér hafa verið settar fram vegna þess að þær eru fullkomlega eðlilegar og sanngjarnar.

Við fjöllum hér um stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og flutningsmenn frumvarpsins eru ekki viðstaddir. Hér fer fram mikilvæg umræða og það getur ekki verið að forseti Alþingis Íslendinga ætlist til að við förum hér inn í nóttina til að ræða breytingar á stjórnarskránni við þessar aðstæður. Ég trúi ekki öðru en að sá sanngjarni maður sem hér situr á forsetastóli taki tillit til þess. (Gripið fram í: Heyr.)



[23:49]
Forseti (Einar Már Sigurðarson):

Vegna orða hv. þingmanns vill forseti taka fram, eins og fram hefur komið áður, að reynt hefur verið að ná til flutningsmanna. Það hefur náðst til sumra þeirra en ekki allra. (Gripið fram í.) Sumir hv. flutningsmenn eru staddir utanbæjar og eiga ekki kost á því að koma til þingfundar eins og er en skilaboðum hefur verið komið til þeirra sem ekki hefur náðst til og við bíðum svara ef einhver verða.

En það er ljóst að flutningsmenn munu eiga kost á því að hlýða hér á umræður um þetta ágæta frumvarp vegna þess að það liggur alveg ljóst fyrir að þrátt fyrir það að ákvörðun hafi verið tekin um að halda áfram eitthvað lengur og fram yfir miðnætti þá lýkur umræðum um frumvarpið ekki í nótt. (Gripið fram í.)



[23:50]
Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnast svör og skýringar virðulegs forseta heldur rýr. Þetta sýnir í raun þá vanvirðu sem forustumenn þessarar ríkisstjórnar sýna Alþingi. Við verðum svo sem vör við þetta víðar en bara í þingsal hér á þinginu. Við verðum líka vör við þetta í nefndarstörfum þar sem eru sestir formenn nefnda sem virða ekki þær eðlilegu vinnureglur sem ég hef þó kynnst þennan stutta tíma sem ég hef verið hér.

Ég hef upplifað það að málum hefur ekki lokið. Það hefur ekki verið hægt að kalla inn fólk til að ræða málin og fá eðlilegar skýringar. Gestum hefur verið vísað af fundi til að reyna að flýta hér vinnu, eins og gerðist í efnahags- og skattanefnd. Það er alveg með ólíkindum, virðulegi forseti, hvernig mál eru að þróast hér á þinginu undir stjórn þessara vinstri flokka. Vanvirðan gagnvart þingi og þingmönnum er algjör.



[23:51]Útbýting:

[23:51]
Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég skal tilkynna það að ég mun ekki flytja jafnlanga ræðu og þetta bókasafn gefur tilefni til. En mér finnst miður að hæstv. forseti skyldi ekki verða við þeirri sanngjörnu ósk okkar fjölmargra þingmanna um að fundi yrði frestað, sér í lagi þar sem fyrir liggur að enginn flutningsmaður frumvarpsins er tilbúinn til að vera viðstaddur umræðuna og líka liggur fyrir að meginhluti meiri hluta sérstakrar sérnefndar um stjórnarskrána er ekki viðstaddur heldur. Það er mjög miður. Það hefði verið eðlilegt að fundi hefði verið frestað og tekið til við umræðuna um stjórnarskrána strax í fyrramálið.

Mér finnst það satt að segja ekki eðlileg virðing við stjórnarskrána eða að þingið sýni sjálfu sér nægilega virðingu eða þjóðinni að halda áfram umræðu um breytingar á stjórnarskipunarlögum með þeim hætti sem er fyrirhugaður.

Þetta gerir það að verkum, þar sem að þeir sem hefur verið talað um að kæmu hingað, þ.e. flutningsmenn frumvarpsins og þeir þingmenn sem ég nefndi í ræðu minni hér áðan að ég þyrfti að eiga orðastað við vegna þeirra ummæla — að ég mun þurfa að endurtaka það síðar í þessari umræðu sem lengir þar af leiðandi umræðuna sem því nemur.

Það er nú einu sinni þannig, eins og hv. þm. Dögg Pálsdóttir benti á, að umræður á Alþingi eru til þess að hafa skoðanaskipti. Þær eru til þess að þingmenn færi fram skoðanir sínar og fái fram mótrök þeirra sem hafa önnur sjónarmið. En harla lítið gagn er í umræðum þegar sá hluti sem ætlar sér, eftir því sem best verður séð, að knýja fram mál í skjóli meirihlutavalds, lætur öll rök hjá líða og er ekki tilbúinn til að fylgjast með eða hlusta á það sem þeir sem hafa aðra skoðun hafa fram að færa í málinu. Það er satt að segja með miklum ólíkindum.

Hér féllu orð í dag hjá nefndarmönnum í sérnefndinni um stjórnarskrármál sem voru með miklum ólíkindum og ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að víkja fyrst að því sem hv. þm. Atli Gíslason hafði um málið að segja. Ég vil benda á það að ég hef í sjálfu sér ekki neinar sérstakar athugasemdir við það sem formaður nefndarinnar, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sagði um málið vegna þess að það var meira og minna upplestur úr nefndarálitinu. En hv. þm. Atli Gíslason hefur öðrum fremur komið í ræðustól hér á Alþingi og talað um mikilvægi stjórnarskrárinnar og virðingu fyrir stjórnarskránni (SKK: Og vönduð vinnubrögð.) og vönduð vinnubrögð (SKK: Og faglega verkfærni.) og faglega verkfærni. Þakka þér fyrir, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, fyrir að minna mig á þetta. Þannig að ég hafi þetta nú hugfast allt saman.

En hv. þm. Atli Gíslason, sem mér er sagt að kúri einhvers staðar í hliðarherbergi og flokksbróðir hans, hv. þm. Jón Bjarnason, hefur ítrekað tekið fram hér úr ræðustól að hann sé einhvers staðar í húsinu, sagði í umræðunni hér fyrr í dag að nú þyrftum við að endurskoða öll gildi í þjóðfélaginu og gera breytingar í samræmi við allsherjarendurskoðun á öllum gildum í þjóðfélaginu.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér brá óþægilega við það að hlusta á þessi orð hv. þm. Atla Gíslasonar í því samhengi sem þau voru sett fram. Það minnti mig á það sem Mussolini, sem síðar varð æðsti stjórnandi á Ítalíu, hafði fram að færa varðandi það með hvaða hætti þyrfti að endurskoða öll gildi í þjóðfélaginu. Pennavinur hans, sem hafði viðurnefnið Lenín og varð síðar helsti stjórnandi Sovétríkjanna, tók upp þessi sjónarmið fyrrverandi flokksbróður síns Mussolinis um það að nú þyrfti að endurskoða öll gildi í þjóðfélaginu vegna þess að aðstæður væru með þeim hætti sem raun bæri vitni. Sömu sjónarmið hafa komið hjá ýmsum öðrum. Sömu sjónarmið komu fram hjá eftirmönnum Leníns og lærisveinum hans, þess vegna í Kína eða Norður-Kóreu. Þessi sjónarmið hafa iðulega komið fram og þau komu fram í Þýskalandi Weimar-lýðveldisins vegna þess að þar var um fjöldaatvinnuleysi að ræða og þá þurfti að bregðast við með því að endurskoða öll gildi í þjóðfélaginu.

Virðulegi forseti, vissulega hefur íslenska þjóðin orðið fyrir verri áföllum en hún hefur þekkt um áratugaskeið. Svo miklum áföllum að ósköp eðlilegt er að hrikti í ýmsum stoðum þjóðfélagsins. En þegar þannig háttar til skiptir máli að grunnstoðir þjóðfélagsins standist og menn átti sig á því að halda verður í gildi þeim nauðsynlegu sjónarmiðum og viðhorfum sem hafa jú gert okkur að sterku samhentu lýðræðisþjóðfélagi. Það er grundvöllurinn. Það er forsendan að við virðum mannréttindi, að við virðum þau sjónarmið sem stjórnarskráin kveður á um.

Eitt af því sem er einn af hornsteinum lýðræðisins er að virða réttindi minni hluta. Hér var vísað til þess áðan af hv. þm. Sturlu Böðvarssyni og einnig reyndar líka af hv. þm. Birgi Ármannssyni að Svíar hefðu lagt upp í vegferð með breytingu á stjórnarskrá og ég er með þau sjónarmið sem hér hafa komið í þessum tveimur bókum þar sem liggur fyrir með hvaða hætti og hvað kom út úr þeirri vinnu. Þar var ekki verið að hrapa að neinu heldur miðað við það að sem víðtækust sátt næðist í þjóðfélaginu. Þar er þó um að ræða þjóðfélag þar sem ekkert kerfishrun hefur orðið og fólk getur leyft sér að taka málið með þeim hætti að skoða öll grunngildin og miða við það og leggja sérstaka áherslu á hvað það skiptir miklu máli í lýðræðissamfélagi að virða réttindi minni hlutans.

Meiri hluti þarf alltaf að hafa það í huga að meiri hluti í dag getur orðið minni hluti á morgun. Þess vegna skiptir máli með hvaða hætti fólk fer fram.

Það sem ég vildi nefna hér vegna þeirra tilvitnuðu orða Atla Gíslasonar í umræðunni í dag að nú þyrftum við að endurskoða öll gildi í þjóðfélaginu, er að ef til vill er einmitt ekki sá tími núna. Það skiptir máli að standa vörð um mannréttindi, að þeim stjórnskipulegu hornsteinum sem við höfum sé haldið í eðlilegu gildi.

Hér fór fram einn af nefndarmönnum í sérnefnd um stjórnarskrána og hann fjallaði um það hvað knýr á um það að breyta stjórnarskrá eins og verið er að leggja til með því frumvarpi sem er hér til umræðu. Jú, vegna þess að það varð bankahrun á Íslandi er nauðsynlegt að endurskoða öll gildi í þjóðfélaginu. Hv. þm. Ellert B. Schram sagði hér í umræðunni að sú nauðsyn sem knýi á um breytingar á stjórnarskrá sé kerfishrun og frumvarpið sé lagt fram til að bregðast við hruninu — mér þykir miður að hv. þm. Ellert B. Schram skuli ekki vera viðstaddur umræðuna — en frumvarpið er lagt fram til að bregðast við hruninu, svara kalli fólksins.

Með hvaða hætti breyta ákvæði þessa frumvarps til stjórnarskipunarlaga hruninu, með hvaða hætti er verið að bregðast við hruninu? Það er einhvern veginn eins og mönnum sjáist yfir hvað raunverulega gerðist í íslenska samfélaginu. Menn vilja horfa á eitthvað allt annað en raunveruleikann og mér fannst hv. þm. Ellert B. Schram vilja gera það. Hann sagði m.a. að kerfishrunið væri Sjálfstæðisflokknum að kenna.

Ég fór að velta því fyrir mér hvort hv. þm. Ellert B. Schram hefði ekki fylgst með þeim skýrslum, athugunum, sjónarmiðum og gögnum sem sett hafa verið fram fyrir þjóðina á undanförnum vikum og mánuðum. (Gripið fram í: Hverjir voru í stjórn?) Þá er líka spurningin: Hvaða ábyrgð ber hv. þm. Ellert B. Schram sem verið hefur stjórnarþingmaður allan tímann frá því hrunið varð og áður? En það er annað mál, ég ætla ekkert að taka þetta á persónulegum nótum.

Ég spyr: Ber einhver einn stjórnmálaflokkur ábyrgð á því hruni sem varð? Þá segir hv. þm. Ellert B. Schram: Já, það er stjórnmálaflokkurinn sem var í stjórn og er búinn að vera í stjórn meira og minna samfleytt. En ég velti því þá fyrir mér hvort ekki sé eðlilegt að skoða hvaða einstaklingar og fyrirtæki það voru sem skulduðu hundruð milljarða í hverju einasta þeirra fjármálafyrirtækja sem hafa verið tekin í yfir af hálfu ríkisins á grundvelli neyðarlaganna og hvort þeir einstaklingar og þau fyrirtæki sem þar komu að beri ekki einmitt meginábyrgð á því hruni sem varð. Bera fjölmiðlar einhverja ábyrgð á hruninu? Höfðu þeir upplýsingar sem þeir létu ekki í ljósi?

Ég verð að segja, eftir að hafa skoðað þau gögn sem hafa komið fram og þegar rykið hefur sest eftir efnahagshrunið, að mér sýnist ljóst að það sem helst hefur á bjátað var að eðlilegar lánareglur í fjármálastofnunum voru ekki virtar. Bankarnir virtu ekki eðlilegar lánareglur. Þar var um að ræða stórfellda misbeitingu varðandi upplýsingagjöf, varðandi eigið fé og varðandi tilbúning á hlutum sem ekki voru fyrir hendi. Það heitir einfaldlega og á mæltu máli svindl, svik og afbrot.

Enginn stjórnmálaflokkur ber ábyrgð á óheiðarlegu fólki í þjóðfélaginu nema viðkomandi stjórnmálaflokkur standi á bak við það fólk. Þannig hefur því verið haldið fram í þessum ræðustól oftar en einu sinni að vinstri grænir hafi með einum eða öðrum hætti komið að ólátum og aðför við Alþingishúsið eftir áramótin. Ljóst er að einhverjir stuðningsmenn þeirra voru þar í för en það ásakar enginn í sjálfu sér þann stjórnmálaflokk um það endilega sem þar gerðist þó að þeir beri vafalaust meiri ábyrgð á því en aðrir stjórnmálaflokkar. En ég get ekki verið gerður ábyrgur og menn gera ekki einhvern ábyrgan fyrir því að rangt sé haft við gagnvart honum og honum talin trú um og hann sé í góðri trú um að hlutir séu með ákveðnum hætti sem síðan reynast vera með öðrum hætti.

Ég spyr síðan í framhaldi: Er það virkilega svo að menn hafi t.d. ekki kynnt sér, eins og þeir hv. þingmenn Atli Gíslason og Ellert B. Schram, þessir tveir fulltrúar í sérnefnd um stjórnarskrármálið hafi ekki kynnt sér niðurstöðuna? Því að það hefur alltaf verið kallað eftir erlendum sérfræðingum og haldið fram að við værum svo ófær um að hafa með málin að gera sjálf. Er það virkilega svo að þeir hafi ekki eytt tíma í það að lesa alla vega umfjöllun um skýrslu sem kom út 30. mars 2009 eftir finnskan sérfræðing, Kaarlo Jännäri — ég vona að ég misbjóði honum ekki mikið með framburði á nafninu hans — þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að í sjálfu sér hafi það ekki verið íslenska stjórnkerfið sem brást? Að íslenska stjórnkerfið hafi að mörgu leyti virkað mjög vel og ekkert verr en stjórnkerfi og eftirlitsstofnanir annarra ríkja í okkar heimshluta.

Og ég spyr: Hvar liggur þá hin brýna ástæða til að endurskoða öll gildi í þjóðfélaginu eins og hv. þm. Atli Gíslason kom fram með eða það að kerfishrunið sé Sjálfstæðisflokknum að kenna? Maður spyr sig að því hvort það hrun sem orðið hefur á fjármálamarkaði í Frakklandi, Bretlandi, Írlandi, Ungverjalandi, Lettlandi sé þá líka allt saman Sjálfstæðisflokknum að kenna. Með sama hætti og sömu rökum má halda því fram. En það sjá allir þegar þetta er sett í það samhengi að ekki er nein vitræn glóra í svona málflutningi, því miður. Og mér finnst það miður fyrir þessa ágætu þingmenn og þá sérstaklega hv. þm. Ellert B. Schram að haga máli sínu með þessum hætti vegna þess að hann veit betur.

Fyrir liggur og það hefur verið krafa í þjóðfélaginu um langan tíma, og því hefur verið haldið fram, m.a. af mörgum þeirra sem hafa tjáð sig um málin á opinberum vettvangi, að styrkja þurfi Alþingi. Að það skipti miklu máli að skjóta sem styrkustum stoðum undir Alþingi. Atburðir síðustu mánaða hafa eflt þá hugsun.

Maður skyldi því ætla ef hæstv. forsætisráðherra hefði viljað svara þeim sjónarmiðum og því kalli að þá hefði hún brugðist við með því að flytja stjórnarskrárfrumvarp til þess að efla Alþingi og styrkja stöðu Alþingis. En hvað gerist? Forsætisráðherra bregst við með því að flytja stjórnarskrárfrumvarp sem beinlínis veikir Alþingi. Með hvaða hætti? Með því að flytja áhrif og völd í mikilvægum efnum frá Alþingi til annarra aðila. Það liggur fyrir að við búum við þingbundna stjórn þannig að Alþingi veitir ríkisstjórninni umboð. Vald Alþingis er að öðru leyti þríþætt, þ.e. það felst í lagasetningu, það felst í fjárveitingaákvörðunum og það sem má þess vegna fella undir lagasetningu en hefur þó alltaf verið tekið sem sérstakt atriði, þ.e. stjórnarskrárgjöf.

Hver er svo meiningin hjá hæstv. forsætisráðherra og þeim hv. þingmönnum sem styðja þetta meirihlutaálit, sem segjast vera að svara kalli fólksins um að styrkja Alþingi? Hver er meiningin? Með þessu frumvarpi á að svipta Alþingi stjórnarskrárvaldinu og það liggur fyrir að þegar slíkri stoð er kippt undan þjóðþinginu veikist staða þjóðþingsins að sama skapi.

Ýmislegt í frumvarpinu getur horft til framfara. Í 2. gr. frumvarpsins er í sjálfu sér sambærileg tillaga og komið hefur fram áður og náðist víðtæk samstaða um og við sjálfstæðismenn höfum sagt að við séum tilbúnir til að standa að skoðun á því en ég kem að því síðar.

En það ákvæði sem hér er verið að fjalla um, þetta ákvæði 2. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. að Alþingi geti samþykkt og lagt málið undir dóm þjóðarinnar, verður óvirkt á næsta kjörtímabili. Það verður óvirkt á næsta kjörtímabili og þess vegna spyr ég: Hvað liggur svona á? — Ég býð hv. þm. Atla Gíslason velkominn í þingsal. — Hvað er verið að gera hér með því að auðvelda stjórnarskrárbreytingar ef á sama tíma að á að gera þetta ákvæði óvirkt á næsta kjörtímabili eins og ég var að tala um?

Með 4. gr. erum við í raun að koma á tveimur þjóðþingum sem eiga að vinna að stjórnarskrárbreytingum samtímis. Hvað mundi það þýða, hvað þýðir slíkt? Það þýðir bara eitt. Það þýðir stjórnskipulega ringulreið. Og það er nú ansi merkilegt, virðulegi forseti, að Samfylkingin sem er nýkomin af flokksþingi sínu með skýra stefnu um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og einum af þingmönnum flokksins, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, ferst eins og hv. þm. Grétari Mar Jónssyni, að breyttu breytanda að Grétar Mar getur ekki og komið í þennan ræðustól án þess að tengja hvaða mál sem um er að ræða óréttlátu kvótakerfi, að hv. þm. Árni Páll Árnason getur ekki komið í ræðustól alveg óháð því hvað hann er að tala um öðruvísi en að tala um gildi aðildar að Evrópusambandinu. En auðmýking forsætisráðherra Samfylkingarinnar og Samfylkingarinnar í þessu máli verður vart máluð sterkari litum en með því að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir er 1. flutningsmaður þessa frumvarps til stjórnskipunarlaga hún leggur það fram, og það er ekki opnað á möguleika á aðild að Evrópusambandinu. Og meðan staðið er fyrir niðurskurðartillögum er hæstv. forsætisráðherra þjóðarinnar að mæla fyrir því að fjölga þingmönnum úr 63 í 104 og efna til þess vegna allt að fimm kosninga á næstu tveimur árum með þeim ærna tilkostnaði sem þar ræðir um. Þetta er ekki til þess að efla einhver grunngildi í þjóðfélaginu, þetta er ekki til neins annars en að skapa stjórnskipulega ringulreið.

Ég vék að því áðan, virðulegi forseti, með hvaða hætti hv. þingmenn Valgerður Sverrisdóttir, Atli Gíslason og Ellert Schram hefðu komið fram og vék að orðum þeirra í þeirri umræðu sem fram fór fyrr í dag. Þegar hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem er líka einn aðili í meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál, fjallaði um frumvarp til stjórnarskipunarlaga hafði hann í sjálfu sér ekki neitt um málið að segja annað en að víkja sérstaklega að því með hvaða hætti sjálfstæðismenn stæðu að málinu. Engin sérstök sjónarmið eða rök komu fram fyrir því að það bæri að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hvort eðlilegt sé að fara þá sérleið sem meiri hluti stjórnarskrárnefndarinnar leggur hér til að verði farin, að þrýst verði á um breytingar á stjórnarskránni þannig að um stuttan fyrirvara verði að ræða, málið verði rætt á mjög skömmum tíma og fullkomin ósamstaða verði um það með hvaða hætti það er rætt og síðan eigi að reyna að keyra þetta í gegnum Alþingi rétt fyrir kosningar. Það er stundum sagt: Ólíkt höfumst við að. Svíar hafa velt fyrir sér breytingum á stjórnarskrá sinni. Þar í landi miða menn við það að þær breytingar sem beri að gera séu gerðar í samkomulagi og rætt sé til hlítar um þau ákvæði sem gera á breytingar á.

Þann 1. júlí 2004 var sett niður, miðað við þeirra tíma og þeirra sjónarmið, sérstök sérnefnd um stjórnarskrármálefni til þess að endurskoða stjórnarskrána að öllu leyti. Ekki hvarflaði að nokkrum manni þar í landi að ætla að fara að setja sérstakt stjórnlagaþing. Ég hygg að þau sjónarmið og þær röksemdir hafi legið fyrir að ekkert bitastætt kæmi út úr slíku annað en útgjöld fyrir ríkið. Nei, hvað gerðu Svíar og hvaða leið fóru þeir? Við mættum hafa það til skoðunar og til viðmiðunar? Jú, Svíar kölluðu til helstu stjórnmálaleiðtoga landsins, þess vegna menn sem höfðu látið af störfum. Þeir kölluðu m.a. til fyrrverandi formenn stærstu flokka Svíþjóðar. Þeir skipuðu nefndina þingmönnum, stjórnmálaleiðtogum þess vegna, þó að þeir væru hættir á þingi, og sérfræðingum í stjórnarskrármálefnum. Nefndin, eins og ég sagði, hóf störf 1. júlí 2004.

Nefndin lauk störfum 17. desember 2008, þ.e. um fjóru og hálfu ári eftir að hún hóf störf lauk hún störfum. Við það tækifæri, þegar þeir ljúka störfum, afhenda nefndarmenn viðkomandi stjórnvöldum, þ.e. sænska þinginu eða Riksdag, þessar tillögur og gera sérstaka grein fyrir því að allir séu sammála um þær tillögur sem um sé að ræða. Hvernig var farið að því? Í sjálfu sér þarf ekki að vera svo mikill ágreiningur um grundvallarreglur þjóðfélags í þróuðu lýðræðisríki og það skiptir því svo miklu máli að menn taki sér tíma til þess að fjalla um það til þess að afgreiða hluti í sátt.

Aðeins hefur verið vikið að því hér að komið hafi til þess að stjórnarskrármálefni hafi verið afgreidd þannig að ágreiningur hafi verið um það en það hefur þá verið vegna þess að ákveðinn flokkur vildi ekki láta af sérréttindum sem hann hafði og þá Framsóknarflokkurinn vegna þess að hann naut þingmannafjölda langt umfram atkvæðafjölda í almennum kosningum vegna misvægis atkvæðaréttarins. Að sjálfsögðu verður að bregðast við óréttlæti ef um það er að ræða til þess að skapa eðlilegt jafnræði borgaranna. En við erum ekki að fjalla um það hér. Ég ítreka: Við ættum sem þróað lýðræðisríki að hafa það sem grundvallarviðmiðun að ræða til hlítar þau sjónarmið og gildi sem við viljum hafa í stjórnarskrá til að treysta grunnstoðir lýðræðis og mannréttinda. Það er það sem skiptir máli. Það er ekki það, eins og hv. þm. Atli Gíslason talaði um, að nú þyrfti að endurskoða öll gildi heldur þveröfugt.

Nú þurfum við að treysta þau grunngildi samfélagsins sem hafa gert okkur að þróaðri og þroskaðri lýðræðisþjóð og byggja á þeim grunni og sjónarmiðum sem skipta máli við uppbyggingu þessa þjóðfélags. Það á ekki að kasta í burtu því sem best hefur reynst. Stjórnarskráin brást ekki nema síður sé. Menn geta deilt um það hvort breyta eigi ákveðnum hlutum, t.d. varðandi stjórnskipun landsins eins og t.d. það sem hefur verið hávær krafa um — mótmælendur hér á Austurvelli kvörtuðu yfir því að Alþingi skyldi ekki hafa frumkvæði í ýmsum málum. Þeir áttuðu sig ekki á því að Alþingi hefur í sjálfu sér ekki neitt með framkvæmdarvaldið að gera annað en það að það getur samþykkt vantraust á ríkisstjórn. Sumir vilja breyta þessu og taka upp önnur gildi en ekki er verið að leggja það til hér.

Virðulegi forseti. Þegar maður les þær tillögur sem koma fram frá Svíþjóð, í þeirri vinnu sem átti sér stað við gerð stjórnarskrárinnar eða þeirra tillagna sem þar er um að ræða, sést að þar er um fyrirmyndarvinnu að ræða sem við ættum að hafa sem fyrirmynd. Við ættum að fara af þessu þingi með því að skipa frekar sérnefnd um stjórnarskrármál til þess að vinna að því að afgreiða stjórnarskrána í sem mestri sátt. Ég geri mér grein fyrir því að ekki er alltaf hægt að afgreiða alla hluti í sátt en ég hygg, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson benti nú á — hann sagði að e.t.v. væri ekki svo langt á milli að ekki væri möguleiki að sætta sjónarmið. Ef það er sjónarmið hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, formanns þingflokks Samfylkingarinnar, af hverju tökum við okkur þá ekki þann tíma sem þarf til að reyna að finna þann flöt sem við getum orðið sátt við og afgreiðum málið með þeim hætti? Málið þarf ekkert að fara frá. Það liggur fyrir að nýjar kosningar eru boðaðar eftir rúmar þrjár vikur. Ef við samþykktum 2. gr. þessara stjórnarskipunarlaga, sem þokkaleg sátt getur orðið um, og hefur verið rætt í nefndinni, er ekkert því að vanbúnaði að nýtt þing geti komið að málum og tekið til við að gera tillögur og koma þeim áfram. Mér fyndist meiri bragur á því að þannig yrði farið að í stað þess að ætla að keyra hér fram, í skjóli meirihlutavalds, í fullkominni andstöðu við stærsta þingflokkinn, ýmsar breytingar á frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

Opnað var á samkomulag í umræðum í nefndinni. Við sjálfstæðismenn í nefndinni töldum að möguleiki væri á því að ná samkomulagi. Viðbrögð formanns sérnefndarinnar voru þau að ekki væri lengur tími til þess að fjalla um það eða gera frekari tilraunir til þess að ná samkomulagi.

Ég lagði áherslu á það í umfjöllun í nefndinni að það skipti mjög miklu máli að nefndin reyndi til þrautar að ná samkomulagi. Ég taldi að það mundi stytta mjög þann tíma sem varið yrði af hálfu Alþingis í að fjalla um stjórnarskipunarlögin, sem ekki hefði verið vanþörf á vegna þess, eins og ítrekað hefur verið bent á, að mörg mikilvæg mál bíða úrlausnar sem varða hamingju og heill fjölda Íslendinga sem nú standa í miklum erfiðleikum. Formaður sérnefndar um stjórnarskipunarlögin vildi ekki hlusta á það, henni lá svo á að taka málið út. Jafnvel þó að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson gerði athugasemdir við nefndarálit sem hafði verið sent út fyrir fram frá meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál — ekki var einu sinni eining í nefndinni um nefndarálit, þannig að það var tekið út með mjög sérkennilegum hætti. Hv. formanni sérnefndar lá svo mikið á að við í minni hluta nefndarinnar vorum vinsamlegast beðnir um að víkja af fundi þannig að meiri hlutinn gæti farið sérstaklega yfir málið með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni. Ég nefni þetta sérstaklega hér til að ítreka það sem hv. þm. Sturla Böðvarsson sagði í umræðunni hér áðan þar sem hann minntist einmitt á þetta tilvik sem átti sér stað við afgreiðslu nefndarinnar.

Ég hefði, virðulegi forseti, viljað ræða náið um efnisatriði þeirra greina sem hér er um að ræða en ég kemst sennilega ekki nema að hluta til í atriði sem varða 1. gr. Það verður þá að bíða til síðari ræðu minnar, það sem ég hef frekar um málið að segja, í þeim umræðum sem hér eiga eftir að fara fram. Því hefur verið haldið fram af hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, formanni sérnefndar um stjórnarskrármál, að með því að gera breytingar á 1. gr. — svo sem meiri hluti nefndarinnar leggur til, þ.e. að fella niður 2. og 3. gr. í upphaflegu frumvarpi, þó með því að taka síðasta málslið 2. mgr. inn í 1. mgr. — hafi verið komið til móts við minni hlutann og leitað hafi verið sátta. En þetta er ekki þannig. Þetta hafði ekkert með hugmyndir eða tillögur til sáttagerðar að gera. Þessar greinar frumvarpsins voru með þeim hætti að að sjálfsögðu hlutu augu meiri hluta nefndarinnar að opnast fyrir því að það gengi ekki að ætla að koma svona hlutum inn í stjórnarskrá.

Skoðum orðalag eins og þetta: Að allar náttúruauðlindir beri að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Hvað á þá að gera með olíulindir sem kunna að finnast á Drekasvæðinu? Það má ekki nýta þær vegna þess að ekki er hægt að gera það á grundvelli sjálfbærrar þróunar, það gengur á þær. Ef það fyndust gull- eða silfurnámur eða önnur námaréttindi má ekki nýta þau vegna þess að það getur ekki orðið á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Þannig má halda áfram.

Það var einfaldlega þannig að þessi svokölluðu 4. kynslóðar mannréttindi, sem átti að reyna að setja í stjórnarskrá — það var ekki nokkur vitræn glóra í því að ætla að setja þetta inn með jafnmiklum óskýrleika eins og þarna var um að ræða. Það var því ekki hjá því komist — meiri hluti nefndarinnar áttaði sig meira að segja á því að þetta gekk ekki upp, það væri algjört virðingarleysi við þjóðina að ætla að reyna að troða þessu áfram. Þetta var engin sáttargjörð sem þarna var um að ræða, það var einfaldlega um það að ræða að meiri hlutinn sá að sér. Hver einasti umsagnaraðili sem að þessu kom, e.t.v. fyrir utan Alþýðusamband Íslands, talaði um þetta sem gjörsamlega fráleitar tillögur. Það var ekki verið að koma til móts við okkur sjálfstæðismenn í þessu, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, það var einfaldlega verið að reyna að bæta ómögulegt frumvarp.

Virðulegur forseti. Ég get ekki gert frekari grein fyrir því en mun gera það í síðari ræðum um þetta mál.



[00:32]
Sturla Böðvarsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í 53. gr. þingskapa 1. mgr. segir:

„Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni.“

Það fer ekkert á milli mála að það er skylda þingmanna að vera á þingfundi nema nauðsyn banni. Þess vegna inni ég forseta eftir því hvort þeir þingmenn sem eru flutningsmenn þess frumvarps sem hér er til umræðu og ekki eru viðstaddir þingfundi, hafi fjarvistarleyfi?

Það er algerlega óviðunandi að við þurfum að sæta því klukkutíma eftir klukkutíma að flutningsmenn frumvarpsins mæti ekki til umræðunnar. Umræðurnar eru til þess að skýra mál og kalla fram svör og spurningar. Þess vegna spyr ég þessarar spurningar og krefst þess að fá upplýsingar um það hvers vegna viðkomandi þingmenn eru í burtu og hvort búast megi við að þeir komi, (Forseti hringir.) að öðrum kosti verði fundi frestað eða slitið.



[00:33]
Forseti (Einar Már Sigurðarson):

Vegna orða hv. þingmanns getur forseti endurtekið það sem fram hefur komið áður að reynt hefur verið að ná í alla flutningsmenn og hafa svör eðlilega verið mismunandi eftir hv. þingmönnum. Sumir eru ekki í borginni, í aðra hefur ekki náðst en verið send skilaboð til og er að vænta svara frá nokkrum. Það eru tveir hv. þingmenn með fjarvistarleyfi, eins og hægt er að sjá á heimasíðu þingsins.



[00:34]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér skilst að þeir sem hafa beðið um fjarvistarleyfi séu ekki flutningsmenn frumvarpsins. Ég held að þetta sé mjög réttmæt ábending núna af hálfu hv. þm. Sturlu Böðvarssonar, herra forseti. Það er alveg ljóst að með fjarvist sinni frá þinginu við þessar umræður — og ekki bara við umræður okkar sem erum ekki í stjórnarskrárnefnd heldur hafa allir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins flutt sínar góðu ræður, farið mjög ítarlega yfir efnið og komið með rök og spurningar um af hverju málum er hagað með þessum hætti. Þeim er ekki svarað, ekki af einum einasta flutningsmanni frumvarpsins.

Það er auðvitað ósköp þægilegt fyrir hæstv. ráðherra, ekki síst forsætisráðherra sem þarf þá ekki, meðan þessi umræða stendur yfir, að svara fyrir hvernig hún ætlar að hækka skatta. Hún þarf ekki að svara fyrir hvernig hún ætlar að leysa ríkisfjármálin. Hún þarf ekki að svara fyrir það (Forseti hringir.) hvernig gengi krónunnar á að vera. Hún þarf ekki að svara fyrir (Forseti hringir.) af hverju ekki er búið að leysa vandamál bankanna. Það er ósköp þægilegt en það er til vansa fyrir þingið, herra (Forseti hringir.) forseti að ekki skuli vera betur að málum staðið (Forseti hringir.) af hálfu ríkisstjórnarinnar sem er í minni hluta. (Forseti hringir.)



[00:35]
Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Núna þegar klukkuna vantar 22 mínútur í eitt eftir miðnætti hafa nefndarmenn í sérnefnd um stjórnarskrármál lokið máli sínu. Undir þeim umræðum og ræðum þeirra hafa nánast engir flutningsmanna þessa frumvarps séð ástæðu til að mæta.

Nú kemur í ljós að þeir hyggjast ekki verða við eðlilegri ósk þingmanna að vera viðstaddir þessa umræðu og ég verð að segja að mér finnst það afar dapurlegt.

Miðað við þær heimtur sem nú hafa orðið þegar nefndin sjálf hefur talað geri ég mér ekki mjög miklar vonir um að þessir menn sjái ástæðu til að mæta þegar aðrir þingmenn ræða málin. Og enn og aftur velti ég fyrir mér: Hver er áhugi flutningsmanna frumvarpsins á því að fram fari hreinskiptar umræður um stjórnarskrá Íslands? Er enginn áhugi á því, herra forseti, hjá þeim sem lögðu frumvarpið fram?



[00:36]
Ásta Möller (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmenn höfum hlustað á hv. þm. Jón Magnússon flytja ræðu sína sem var mjög fróðleg og mjög spyrjandi. Í þingsalnum eiga að fara fram skoðanaskipti milli ólíkra hugmynda og ólíkra skoðana. Þau skoðanaskipti fara ekki hér fram. Hér er mörgum spurningum ósvarað, m.a. spurningum hv. þm. Jóns Magnússonar. En flutningsmenn frumvarpsins láta ekki svo lítið að láta sjá sig til þess að svara þessum spurningum sem ekki bara hann bíður eftir að fá svar við heldur einnig aðrir hv. þingmenn.

Mér þykir einsýnt að hér komi ekki þeir aðilar sem óskað er eftir að sitji þennan þingfund þannig að ljóst er að ekki er fundarfært lengur. Skoðanaskipti fara ekki hér fram og ég hvet hæstv. forseta að fresta (Forseti hringir.) fundi nú þegar.



[00:38]
Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir þá ábendingu sem hv. þm. Ásta Möller kom með að ekki sé fundarhæft um þetta mál fyrst svo háttar að flutningsmenn málsins eru ekki viðstaddir til að taka þátt í umræðum og eru, eftir því sem mér heyrist, ekki væntanlegir.

En ég vil spyrja hæstv. forseta hvort kannað hafi verið hvort flutningsmenn frumvarpsins eru enn þá uppteknir? Það var kannað fyrir klukkustundu eða svo og gæti verið að þær skyldur sem þessir þingmenn þurftu að gegna á þeim tíma séu búnar, að þeir hafi lokið þeim störfum sem þeir sinntu á þessum tíma. Ég bið hæstv. forseta að kanna það.

En ég hlýt að minna á að það mál sem hér er til umræðu þykir af hálfu meirihlutaflokkanna í þinginu svo ægilega brýnt að það var tekið fram fyrir mál eins og vaxtabætur til almennings í landinu, fjármálafyrirtækja þar sem spurning er um uppgjör (Forseti hringir.) og skilanefndir, og samninga um álverið í Helguvík. Það var svo rosalega brýnt mál að það (Forseti hringir.) varð að taka það fyrir á undan þessum málum. En ekki (Forseti hringir.) er það brýnna en svo að (Forseti hringir.) flutningsmenn frumvarpsins sjálfir sjá ekki ástæðu til þess að koma hér í umræðuna. (Forseti hringir.)



[00:39]
Forseti (Einar Már Sigurðarson):

Forseti vill taka fram vegna orða hv. þingmanns að það er eðlilegt að gera aðra tilraun til að ná í flutningsmenn og mun forseti gera ráðstafanir til þess.



[00:39]
Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki ástæða til að reyna að ná í þessa hv. þingmenn og hæstv. ráðherra. Ég held að það sé brýn ástæða til þess að slíta fundi nú og við förum inn í nýjan dag og umræðuna á morgun.

Ég ætla að vekja athygli á því að margir hér hafa sinnt þingstörfum í sextán tíma í dag og ég a.m.k. þarf að mæta aftur í á fund í minni nefnd eftir sjö tíma. Það er náttúrlega alltaf spurningin um hvernig menn vilja haga þingstörfum og verður að miða við að þó sé um eðlilegan hvíldartíma fólks að ræða þó að fólk geti verið hér og rætt um viðkvæm og erfið mál sem eru ekki síður erfið en að keyra vörubíl þar sem krafist er hvíldartíma með fjögurra tíma millibili.

Ég tel, hæstv. forseti, að það sé kominn tími til að þess að slíta þessum fundi vegna þess að störf þingsins hafa nú staðið mjög lengi, í allan dag, og þau (Forseti hringir.) munu gera það allan daginn á morgun. (Forseti hringir.) Mér skilst að fyrirhugað sé að funda á laugardaginn líka. (Forseti hringir.) Það er náttúrlega engin framkoma eða (Forseti hringir.) virðing við þingið að haga störfum með þessum hætti.



[00:41]
Sturla Böðvarsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vakti athygli á því að samkvæmt 53. gr. þingskapalaganna er það skylda þingmanna að mæta til fundar. Það liggur fyrir að enginn lögleg forföll hafa verið tilkynnt gagnvart þeim þingmönnum sem eru flutningsmenn þess frumvarps sem hér er. Það er því algerlega augljóst að forseti getur ekki haldið þessum fundi áfram.

Ég trúi ekki öðru en að sá reyndi og sanngjarni maður sem situr í forsetastólnum núna átti sig á þessu og taki tillit til þeirra ábendinga sem hér hafa komið fram. Og ég hvet hann til þess að meta stöðuna á þann veg sem ég bendi á að það er ófært að gefa þingmönnum, hæstv. fjármálaráðherra, hæstv forsætisráðherra, færi á því að brjóta lög, að brjóta þingskapalögin með (Forseti hringir.) því að vera fjarverandi. Það er algerlega óforsvarandi framkoma. (Gripið fram í.)



[00:42]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er mjög auðvelt að koma hingað upp og segja nákvæmlega það sem manni býr í brjósti og það er náttúrlega verið að vanvirða stjórnarskrána. Nú er klukkan að verða eitt og við erum ekki búin að sjá framan í einn einasta flutningsmann frumvarpsins sem situr í ríkisstjórn.

Það er verið að ræða grundvallarbreytingar á stjórnarskránni. Og svo flissa menn bara úti í sal og svara ekki einni einustu af spurningum okkar nefndarmanna í stjórnarskrárnefndinni, vel ígrunduðum spurningum.

En ég verð að spyrja hæstv. forseta hvort hann ætli ekki örugglega að fresta fundi þar til hæstv. ráðherrar eru komnir í hús. Ég minni á að við höfum nú oft verið kölluð út eða að minnsta kosti meðan ég var ráðherra. Við ræddum merk mál eins og t.d. Ríkisútvarpið ohf. en ég efa ekki að þetta mál er mun mikilvægara en þá voru menn ræstir út. (Forseti hringir.) Ég trúi ekki öðru en (Forseti hringir.) að hæstv. forseti sýni núna snöfurmannleg handtök og (Forseti hringir.) hringi í hæstv. ráðherra og boði þá hingað hið (Forseti hringir.) snarasta ellegar geri hlé á fundi hið fyrsta.



[00:44]
Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér hefur verið bent á ákvæði þingskapalaga sem eru alveg skýr um að þingmönnum ber að vera við þessa umræðu. Þeir hafa ekki fjarvistarleyfi. Það eru engar eðlilegar skýringar fyrir fjarvist þeirra. Það hefur verið kallað eftir því hvaða þingmenn það eru sem ekki náðist til. Því hefur ekki heldur verið svarað. Við gerðum þessa athugasemd fyrir réttum klukkutíma. Við gerum hana aftur núna klukkutíma síðar og þá er eins og forseti vakni allt í einu upp við að hann þurfi að kanna málið aftur.

Lítur forseti svo á að athugasemdir af hálfu okkar séu bara einhver brandari eða hvernig eigum við eiginlega að skilja þetta? Sinnir forseti ekki skyldum sínum? Á hann ekki stöðugt að hafa verið að reyna að ná í þetta fólk þennan klukkutíma? Ef ekki legg ég til og tek undir tillögu hv. þm. Jóns Magnússonar að forseti slíti hér fundi og hleypi okkur heim og við getum mætt hérna þess vegna klukkan níu í fyrramálið ef (Forseti hringir.) forseti vill.



[00:45]
Ásta Möller (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið bent á að hugsanlega, og meira en hugsanlega, mjög líklega sé verið að brjóta þingskapalög með því að þingmenn sæki ekki þingfund. Ég spyr jafnframt: Er verið að brjóta lög um hvíldartíma? Hér er búið að skipuleggja fund í allsherjarnefnd klukkan 8.30 í fyrramálið, eftir tæpa átta tíma, og síðan verður opinn fundur í samgöngunefnd klukkan 9.30. Er hugmyndin sú, ef það á að halda hér áfram, að fresta þessum fundum í fyrramálið til þess að virða m.a. lög um hvíldartíma?

Margir þingmenn voru hér til klukkan hálfþrjú í nótt og mættu klukkan hálfníu í morgun á nefndarfund og eru hér enn. Þetta er náttúrlega ekki orðinn boðlegur vinnutími. Ég hvet aftur hæstv. forseta til að slíta fundi til að fólk geti mætt á réttum tíma í fyrramálið í þessar mikilvægu nefndir, allsherjarnefnd klukkan 8.30 og á opinn fund í samgöngunefnd (Forseti hringir.) klukkan 9.30.



[00:46]
Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vanvirðing forustumanna ríkisstjórnarinnar, forustumanna Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, gagnvart þingi og þjóð í þessu mikilvæga máli er með ólíkindum. Það sama má eiginlega segja um hv. þingmenn þessarar ríkisstjórnar. Hér sitja tveir hv. þingmenn Vinstri grænna í salnum. Heldur eru þeir orðnir þreytulegir og væri gaman að geta sett á þá myndavélarnar fyrir þjóðina til að líta á þá. Syfjulegir eru þeir, annað verður ekki sagt.

Ég held að (Gripið fram í.) í ljósi þess — við erum vel vakandi og virk í umræðunni — í ljósi þess hvernig ástandið er orðið hér og hversu mikið áhugaleysið er hjá fulltrúum hæstv. ríkisstjórnar sé einsýnt að fresta þessu máli. Telji forseti að viðveru þessara fulltrúa sé ekki þörf hér og (Forseti hringir.) umræðum verði haldið áfram held ég að hann ætti að gefa okkur svar um það hvenær hann (Forseti hringir.) hyggst ljúka þessari umræðu. (Forseti hringir.) Hann sagði áðan að hann ætlaði að fara eitthvað (Forseti hringir.) örlítið inn í nóttina. (Forseti hringir.) Það er komin nótt, a.m.k. hjá flestum, (Forseti hringir.) og ég held að við ættum að fá skýringar hjá hæstv. forseta um (Forseti hringir.) hvenær hann hyggst þá slíta þessari umræðu.



[00:48]
Forseti (Einar Már Sigurðarson):

Forseti vill minna hv. þingmenn á að það eru tímamörk undir þessum umræðum og biður hv. þingmenn að virða þau.



[00:48]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þá vil ég minna hæstv. forseta á að þingmenn eiga að mæta hér til að fylgja málum sínum úr hlaði og svara þeim spurningum sem til þeirra er beint. Það er móðgun við þingið, þjóðina og stjórnarskrána að enginn af flutningsmönnum þessa frumvarps sé hér. Það væri hollt fyrir okkur þingmenn sem höfum setið undir lærðum fyrirlestrum hv. þm. Atla Gíslasonar um faglega verkferla, lýðræðisleg vinnubrögð og opin og gegnsæ skoðanaskipti að vita hvað hann telur og hvert álit hans er á því að hvorki hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra né aðrir flutningsmenn eru við umræðuna.

Hv. þingmaður veifaði þessari handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa trekk í trekk meðan hann var þingmaður í stjórnarandstöðu. (Forseti hringir.) Nú heyrist hvorki hósti né stuna frá hv. þingmanni þegar hann er kominn í stjórnarmeirihlutann (Forseti hringir.) og hans menn hafa ekki brjóst í sér til þess að fylgja sínum eigin málum eftir. (Forseti hringir.) Ég krefst þess að þessum fundi verði frestað.



[00:49]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Á mótmælafundunum í haust og eiginlega í vetur var aftur og aftur rætt um það að þingið væri veikt, framkvæmdarvaldið of sterkt, flokksræðið of mikið. Hér erum við akkúrat að upplifa það að þeir sem flytja frumvörp sýna þinginu ekki meiri virðingu en svo að mæta ekki. Þeir bara láta okkur um þetta. Ef þetta á að vera teikn um það sem fram undan er þegar þjóðin bíður í ofvæni eftir því að fá að tala á stjórnlagaþingi, þjóðin sjálf, ef svo á að sýna henni þessa virðingu þegar hún er farin að tala á stjórnlagaþinginu er ekki von á góðu. Við erum hérna á stjórnlagaþingi, við erum að tala um að breyta stjórnarskránni og virðingin er ekki meiri en þessi. Ég er hræddur um að margir verði fyrir vonbrigðum.



[00:50]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er búið að benda á að hér er verið að brjóta þingsköpin. Það eru greinilega engin lögleg forföll sem hindra menn í að mæta til umræðunnar og ég verð að segja eins og er, forseti, að mér finnst þetta ekki ganga lengur. Ég legg það til við hæstv. forseta að nú verði fundi frestað, forseti kalli saman þingflokksformenn og þetta ástand verði rætt þar, á fundi þingflokksformanna. Það er eiginlega ekki við hæfi að hér komi fram að flutningsmenn mála geti ekki mætt í umræðuna og staðið fyrir máli sínu.

Hér er mættur seint og um síðir hv. þm. Atli Gíslason sem er meðal þeirra sem standa að þessu nefndaráliti en hann ber það ekki einu sinni við — hann hefur hlýtt á eina ræðu — að svara þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Allt er þetta ferli með þessum hætti. Umræðan er sem sagt engin (Forseti hringir.) um þetta merka mál þar sem við viljum leggja áherslu á að (Forseti hringir.) hér erum við að ræða stjórnarskrána og þetta er vanvirðing við þjóðina, þingið og stjórnarskrána.



[00:52]
Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef alveg skilning á því að hæstv. forseti þurfi að velta því aðeins fyrir sér hvernig hann bregst við þeim óskum sem hafa komið fram. Það er auðvitað skiljanlegt að hann þurfi að hugsa um það hvort hann eigi að slíta fundi og fresta umræðunni, hvort hann eigi að boða til fundar með þingflokksformönnum, jafnvel hvort hann eigi að gera aðra tilraun til að ná í þá hv. þingmenn sem óskað hefur verið eftir að mæti til umræðunnar.

Hæstv. forseti hlýtur einhvern tíma að komast að niðurstöðu og hlýtur einhvern tíma að geta svarað okkur. Við höfum um nokkurt skeið endurtekið spurningar um áform forseta í þessum efnum og komið með ýmsar góðar tillögur til hans og það væri afar gott ef hæstv. forseti gæti látið svo lítið að svara þeim þingmönnum sem hér tala.



[00:53]
Forseti (Einar Már Sigurðarson):

Vegna orða hv. þingmanns vill forseti taka fram að hann telur eðlilegt að það verði kannað aftur hvort flutningsmenn hafi tök á því að koma nú til fundar. Að öðru leyti hyggst forseta freista þess að tryggja áframhald umræðunnar enda eru enn 26 hv. þingmenn á mælendaskrá. Forseti endurtekur það sem áður hefur komið fram, hann telur eðlilegt að nýta þann tíma sem kostur er. Það liggur líka alveg ljóst fyrir að ekki er hægt að funda alla nóttina þannig að það styttist að sjálfsögðu í enda fundar.



[00:54]
Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég efa það mjög að tækifæri sé til að hlusta á 26 ræður fram til þess að kallaður verði saman fundur í allsherjarnefnd klukkan hálfníu í fyrramálið.

Það sem er náttúrlega mjög athyglisvert við þessa umræðu í kvöld þar sem fulltrúar í stjórnarskrárnefnd hafa tjáð sig og margar spurningar hafa komið fram um efni frumvarpsins er að í afar fáum tilvikum hefur borið svo við að nefndarmenn í stjórnarskrárnefnd, sem bera ábyrgð á nefndarálitinu, svari þeim spurningum sem til þeirra er beint. Það hefur t.d. komið berlega í ljós, og öll gögn bera það með sér, að við erum núna að tala um þriðju útgáfuna af stjórnlagaþinginu á örskömmum tíma. Þetta mál er í þvílíkri deiglu að það breytist dag frá degi. Hv. þingmönnum sem eru nefndarmenn í stjórnarskrárnefndinni finnst bara alveg fullkomlega óþarft að ræða við þingmenn hér (Forseti hringir.) hverju þetta sætir, herra forseti.



[00:55]
Forseti (Einar Már Sigurðarson):

Forseti tekur fram vegna orða hv. þingmanns að áður hefur komið fram í máli forseta að forseti gerir ekki ráð fyrir því að þessari umræðu ljúki í nótt.



[00:55]
Árni Johnsen (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það fer ekki á milli mála að stór hópur þingmanna gerir alvarlegar athugasemdir við framgang þessa máls og stjórn forseta á því. Slík staða á ekki að vera uppi, herra forseti, þegar verið er að ræða um stjórnarskrá Íslands. Það er siðlaust.

Við höfum talað um að við höfum gengið í gegnum hremmingar með fjármálamönnum sem fóru lauslega með efni sín og ástæður. Forseti Alþingis á ekki að rugga bátnum þegar verið er að fjalla um stjórnarskrá Íslands. Forseti á að hafa burði til þess að hafa vit fyrir því að það sé gengið til verka á eðlilegan hátt í þinginu. (Forseti hringir.) Þess vegna verður forseti að taka af skarið og stjórna eins og honum sæmir með metnað Alþingis (Gripið fram í: Að leiðarljósi.) fyrir brjósti.



[00:57]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á stjórnarskránni. Sérnefnd hefur fjallað um það og fyrir liggur nefndarálit sem fimm hv. þingmenn undirrita. Nú ætla ég að fara að halda ræðu og ég ætla að beina spurningum til þessara nefndarmanna, hvað þeir meini eiginlega og hvernig þetta lítur allt saman út. Ég er ekki viss um að þeir fái nokkurn tíma að vita þessar spurningar mínar nema þeir sem eru viðstaddir, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sem hefur setið hér allan tímann en ekki svarað miklu, (Gripið fram í: Og er sofandi.) nei, ég segi það nú ekki, og hv. þm. Atli Gíslason sem er nýmættur og hefur eflaust hlustað á margt en engu svarað.

Þetta er ekki umræða, þetta er eintal. Maður situr hérna klukkan eitt að nóttu og talar í eintali. Háreysti í þingsal. Ég kæri mig ekki um það. (Gripið fram í: … komast bara ekki að.) (Gripið fram í.)



[00:58]
Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir þeirri skoðun í máli forseta að þar sem töluverður fjöldi þingmanna væri eftir á mælendaskrá væri eðlilegt að halda fundi áfram þrátt fyrir að hér væru ekki í salnum þeir þingmenn sem borið hafa fram þetta mikilvæga mál.

Ég verð að mótmæla þessari skoðun. Það skiptir engu máli hversu margir þingmenn eiga eftir að tala, þær ræður sem hafa verið haldnar hafa bæði verið innihaldsríkar og skipt miklu máli í þessari umræðu. Það að enginn af þessum flutningsmönnum hafi verið til andsvara og fylgst með því sem fram hefur farið er auðvitað fullkomið hneyksli fyrir Alþingi.

Nú þykir mér forseti eiga að snúa sér að sóma þingsins og sóma síns eigin embættis, fresta fundi og gera úrslitatilraun til að kalla þessa þingmenn til þingfundar. Ef það tekst ekki á að slíta fundi (Forseti hringir.) og við komum hér til starfa í fyrramálið og gerum þetta (Forseti hringir.) þannig að það sé sómi að fyrir þingið. (Forseti hringir.) Öðruvísi er ekki hægt að halda áfram.



[00:59]
Björk Guðjónsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tók þátt í umræðum hér til klukkan að verða þrjú í nótt og nú er komið töluvert fram yfir miðnætti. Ég á um langan veg að fara heim og þess vegna finnst mér sanngjarnt að fá svar við því hvenær þessum fundi verður slitið hjá hæstv. forseta. Ég þarf þar að auki að koma snemma til vinnu í fyrramálið og eins og ég sagði er um langan veg að fara. Þess vegna finnst mér eðlilegt miðað við það að þeir sem báru þetta mál fram láta fáir sjá sig hér í þingsalnum að þessum fundi verði slitið sem allra fyrst svo þingmenn geti farið heim og ég sem á um langan veg að fara.



[01:01]
Forseti (Einar Már Sigurðarson):

Forseti vill taka fram, endurtaka að það er ætlunin að halda áfram örlítið lengur fram á nótt (Gripið fram í.) og freista þess að fækka örlítið á mælendaskránni og tryggja að þeir sem beðið hafa lengi eftir því að koma í ræðustól fái tækifæri til þess.



[01:01]
Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því aftur að hér eru tveir hv. þingmenn Vinstri grænna í salnum, það er enginn þingmaður Samfylkingar í salnum. Þetta eru fulltrúar ríkisstjórnarinnar, minnihlutastjórnarinnar, við umræðu á þessu mikilvæga máli á þinginu. Áhugaleysið er algert. Þeir hafa engan áhuga á að kynna sér gagnrýninn, málefnalegan málflutning okkar sjálfstæðismanna í þessu máli, ekki nokkurn áhuga, og mér er það til efs að þeir hafi lesið þær fjölmörgu athugasemdir sem bárust nefndinni frá lærðum og leikum í þessu máli, ef áhugaleysið er svona algjört. Þeir ætla sér að keyra þetta mál í gegn hvað sem það kostar án þess að fá og skoða gagnrýnar hugmyndir og umræður sem snúa á annan veg. Þetta er alveg með eindæmum, virðulegi forseti, svona vinnubrögð eru alveg með eindæmum. Eins og þetta er að þróast hérna er þetta ekki boðlegt, þetta er ekki boðlegt okkur þingmönnum sem ætlum (Forseti hringir.) að ræða málefnalega um þetta mál. Það er ekki boðlegt að ætla mönnum að eiga að taka þátt í (Forseti hringir.) nefndarstörfum í fyrramálið og segja okkur á klukkutíma fresti að það eigi að halda örlítið áfram, fram eftir nóttu. (Forseti hringir.) Ég krefst þess að forseti skýri þetta nánar.



[01:03]
Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Forseti verður að virða þingmanninum það til vorkunnar að hann er tiltölulega óreyndur og þekkir ekki alveg vinnubrögðin hér. Ég á því ekki að venjast, hvergi, þegar ég spyr spurninga að þeim sé ekki svarað, að það sé eins og ég sé að tala við vegginn. Er þetta það sem maður má venjast hérna á þinginu, að maður spyrji spurninga og forseti svari ekki? Ég bara spyr og vonast til að fá a.m.k. svar við þeirri spurningu.

Síðan skil ég heldur ekki hvaða vandamál er við það að segja bara að það eigi að funda til klukkan tvö eða til klukkan þrjú eða til klukkan fjögur eða til klukkan fimm. Það getur vel verið að við eigum engin brýn erindi heim til okkar, nema að fara að sofa, en það mundi hjálpa okkur að vita nákvæmlega klukkan hvað við eigum að komast heim. Af því að ég er óreynd á þessu sviði þá langar mig til að vita hvað það er nákvæmlega sem gerir það svona erfitt fyrir forseta að segja okkur hvenær við komumst heim. Ég hélt að þetta væri virðulegur vinnustaður, raunar hélt ég að þetta væri virðulegasti vinnustaður landsins, ég stóð í þeirri merkilegu meiningu (Forseti hringir.) og þess vegna hlýt ég að spyrja: (Forseti hringir.) Getur hæstv. forseti svarað þessum spurningum?



[01:04]
Forseti (Einar Már Sigurðarson):

Vegna orða hv. þingmanns vill forseti endurtaka að ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um það nákvæmlega hvenær fundi verður hætt en það er ætlunin að halda áfram. Það er erfitt að gefa nákvæmar tímasetningar um það, m.a. vegna þess að hv. þingmenn tala mislengi og það er ekki hægt að vita það fyrir fram hvort andsvör verða og annað þess háttar. Hv. þingmenn átta sig væntanlega á því að (Gripið fram í.) undanfarnar nætur hefur tímasetning verið þannig með lok funda að menn geta áætlað svona nokkurn veginn hvenær þessu lýkur ef að líkum lætur.

Það hefur sem sagt ekki verið tekin endanleg ákvörðun en mun verða freistast til þess að halda áfram örlítið lengur.



[01:05]
Herdís Þórðardóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög skrýtin uppákoma hér í kvöld, ég segi bara ekki annað en það. Hér máttum við þingmenn vera til klukkan hálfþrjú sl. nótt, mættum snemma í morgun og mér finnst sjálfstæðismönnum hér á Alþingi vera sýnd lítilsvirðing, ég fer ekkert ofan af því. Svo er það spurning: Er þetta brot á hvíldartíma?

Ég hef sjálf haft mannaforræði, haft fólk í vinnu og ég hef þurft að taka til hendi og við höfum þurft að vinna tímunum saman en aldrei þannig að maður hafi ekki getað gefið fólki frí til að fara heim til þess að fá þann svefn sem það á rétt á að fá. Hvað er fólk að gera þegar það er orðið svefnvana? Það talar ekki rétt, það má eiginlega segja það. Og þegar ekki er nokkur stjórnarþingmaður hér til þess að hlusta á mál okkar þegar fjallað er um það stóra mál sem stjórnarskrárbreyting á íslenskri stjórnarskrá er (Forseti hringir.) þá finnst mér þessi framkoma við okkur sjálfstæðismenn vera fyrir neðan allar hellur. (Forseti hringir.) Það er eins og við megum ekki hafa skoðun á einum einasta hlut hér á Alþingi Íslendinga.



[01:06]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég veit vel að það er heiðarleg taug í hæstv. forseta sem nú situr á forsetastóli. Ég veit að það er heiðarleg taug í honum, samstarfsmanni mínum hér á hinu háa Alþingi til margra ára. Þess vegna geri ég kröfu til þess að hann umfram aðra svari spurningum um það hvort hann telji ekki eðlilegt að fundi verði frestað þegar enginn af flutningsmönnum þessa máls er viðstaddur umræðuna.

Ég vil líka benda hæstv. forseta á það, svo það komi skýrt fram, að hann er forseti allra þingmanna, ekki bara stjórnarþingmanna, ekki bara ríkisstjórnarinnar, ekki bara hv. þm. Atla Gíslasonar, heldur er hann líka forsetinn minn. Ég á rétt á því að fá svör frá honum, hafandi það í huga að ég á að fara á fund í allsherjarnefnd klukkan hálfníu í fyrramálið, þar sem m.a. á að ræða greiðsluaðlögun fasteignaveðlána. (Forseti hringir.) Ég vil fá svör um það hvenær þessum fundi lýkur. Ég vil (Forseti hringir.) í lokin benda hæstv. forseta á það, af því að hann nefndi það að (Forseti hringir.) ýmsir þingmenn hefðu beðið lengi eftir að fá orðið (Forseti hringir.) að næst á mælendaskrá eru hv. þm. Pétur H. Blöndal og Dögg Pálsdóttir og (Forseti hringir.) ég treysti mér vel til þess að ná hagstæðum samningum við það fólk um að ljúka þessum fundi.



[01:08]
Árni Johnsen (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er sök sér að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sé sýnd lítilsvirðing, við höfum breitt bak. Það sem er alvara málsins er að stjórnarskrá Íslands er sýnd lítilsvirðing með þessum vinnubrögðum, herra forseti. Það er skelfilegt að fylgjast með því hvernig hæstv. forseti er hlaupinn á flótta í stíl sínum sem forseti, maðurinn sem venjulega hefur verið glaðlyndur er nú þrunginn alvöru á sama tíma og hv. þm. Atli Gíslason, sem kom inn á Alþingi með heilagan svip sannleikans að vopni, nú situr hann og brosir austur fyrir bæði eyru, (Gripið fram í.) eins og Hamborgardís. Þetta er það mál sem skiptir máli að sé fjallað um og af alvöru. Þetta er enginn leikur. (Forseti hringir.) Menn skulu gera sér grein fyrir því að það verður að hafa festu í þessu, hafa það ankeri til staðar (Forseti hringir.) sem Alþingi Íslands á skilið.



[01:10]
Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að meira að segja hetja hafsins, hv. þm. Grétar Mar Jónsson, sem sagði í dag að hann vílaði ekki fyrir sér að vaka fram eftir og taka törnina, er farinn heim að sofa, og er þá langt til jafnað, eins og hæstv. forsætisráðherra og aðrir flutningsmenn þessa frumvarps. Ég verð að taka undir með hv. þm. Dögg Pálsdóttur að þetta er náttúrlega til vansa fyrir þingið að ekki liggi fyrir hvenær vinnudegi á að ljúka og forseti geti ekki ungað því út úr sér hvenær hann ætli að ljúka umræðunni.

Fyrir einum og hálfum tíma sagði hæstv. forseti að við mundum halda eitthvað áfram. Síðan er sá tími liðinn og „örlítið“ er lokið, eða hvernig skilgreinir hæstv. forseti hugtakið örlítið? Við erum ekki að fjalla um venjulegt lagafrumvarp, við erum að fjalla um breytingar á stjórnskipun Íslands, stjórnarskránni. (Forseti hringir.) Þjóðin á rétt á því að geta fylgst með umræðum um breytingar á (Forseti hringir.) stjórnarskrá lýðveldisins og líka þeir þreyttu flutningsmenn sem hafa fyrir (Forseti hringir.) löngu lagst á koddann sinn til að hvíla sig og er ekki hægt að ná í (Forseti hringir.) til þess að vera viðstaddir umræðuna.



[01:11]
Herdís Þórðardóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það væri gaman að fá svör frá forseta. Áðan hlustaði ég á fyrrverandi forseta, Sturlu Böðvarsson, og ég hef ekki heyrt að hann hafi fengið svör við þeim spurningum sem hann bar fram áðan. Eins reyndur forseti og Sturla var þegar hann var hér í forsetastól tel ég að hann hefði ekki boðið þingheimi upp á það sem okkur hefur verið boðið upp á sl. nótt og í nótt. (Gripið fram í.) Virðing við Alþingi, að horfa á þingmenn hér dottandi í stólum sínum, finnst mér fyrir neðan allar hellur.

Ég vil láta forseta vita af því að ég á líka langt heim. Ég á eftir að keyra upp á Kjalarnes og upp á Akranes. Ég á að koma á fund í fyrramálið. Það er ekki tiltökumál, nei, nei. Sem betur fer (Forseti hringir.) er ég vön að keyra og mér finnst gaman að keyra og það er allt í lagi. (Forseti hringir.) En ef ég er orðin svefnvana er ég kannski ekki tilbúin til þess eða í ökufæru ástandi. Þess vegna vil ég fá svör frá hæstv. forseta, um (Forseti hringir.) hvort fundi verði haldið áfram fram eftir nóttu.



[01:13]
Forseti (Einar Már Sigurðarson):

Vegna orða hv. þingmanns getur forseti auðvitað endurtekið að það er ætlunin að reyna að halda hér eitthvað áfram (Gripið fram í.) án þess að ákveðið sé endanlega hvenær fundi verður lokið.



[01:13]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í allri vinsemd, og ég hef átt langt samstarf við þann sem situr nú á forsetastóli og alla jafna mjög gott, þá er mér algjörlega óljóst af hverju hæstv. forseti svarar því ekki hvenær búast megi við því að hann ljúki fundi. Við höfum fengið þau svör að flutningsmenn þessa máls, þessa merkilega máls um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins, ætli sér ekki að sinna umræðu um það, sinna umfjöllun um það hvernig eigi að breyta stjórnarskránni að þeirra frumkvæði. Þá liggur það fyrir, þeir ætla ekki að sinna skyldum sínum á Alþingi. En ég hlýt að krefjast þess af hæstv. forseta að hann svari mér því hvenær hann ætli að ljúka fundi ella verði við þeirri ósk minni að við þingflokksformenn komum saman til fundar (Forseti hringir.) og ræða um það (Forseti hringir.) hvernig á að ljúka störfum. Ég óska þess að hæstv. forseti svari mér þessu.



[01:14]
Forseti (Einar Már Sigurðarson):

Forseti telur að hann hafi svarað þeim spurningum sem hér hafa komið fram. Nú er umræðu um fundarstjórn forseta lokið.



[01:15]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það vill svo til að fyrr í kvöld fór ég í andsvar við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og spurði hann að því hvort fylgiskjal með frumvarpinu hefði gildi hjá nýkjörnu Alþingi sem hefði þá nýtt umboð. Hann kvað svo ekki vera. Ég vildi gjarnan, herra forseti, spyrja hann aftur að þessu. Ég vildi gjarnan fá það á hreint þannig að ekki sé verið að hlunnfara framsóknarmenn, sem eru guðfeður ríkisstjórnarinnar og (Gripið fram í.) hafa staðið undir þessu — allt í einu þegar þing kemur saman verði sagt að nú sé bara komið nýtt þing og það geti ekki borið ábyrgð á því sem var gert á fyrra þingi. Þetta eru mjög mikilvægar upplýsing sem ég þarf að fá hjá hv. þingmanni sem skrifar undir nefndarálitið án fyrirvara. (Gripið fram í: Var hann ekki búinn að svara?) Nei, hann var ekki búinn að svara því beint hvað þetta þýddi.

Í nefndarálitinu stendur, með leyfi forseta:

„Í drögum að frumvarpi til laga um stjórnlagaþing sem er fylgiskjal með frumvarpi til stjórnskipunarlaga er lagt til að kosið verði persónukjöri á þingið. Meiri hlutinn leggst ekki gegn slíkri kosningu en áréttar þó mikilvægi þess að á stjórnlagaþingi sitji fulltrúar þjóðarinnar.“

Ég veit ekki hvað það þýðir. Ég vildi gjarnan spyrja hv. þingmann hvað þýðir að á stjórnlagaþingi sitji fulltrúar þjóðarinnar.

„Ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands mun verða stjórnarskrá þjóðarinnar allrar.“ — Nema hvað? — „Enda þótt aðkoma almennings alls verði tryggð, t.d. með opnum fundum, upplýsingagjöf og málþingum og að auðvelt verði að senda inn umsagnir, þarf jafnframt að tryggja að á þinginu sjálfu sitji þjóðin öll“ — það er ekkert annað — „eða fulltrúar hennar.“

Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann að því hvað þetta þýði. Hvað þýðir þetta? Ég les í umsögnum að menn hafa alls konar skoðanir á þessu, ég mun fara í gegnum það þegar líður á ræðu mína. Hér er talað um opna fundi o.s.frv., það er náttúrlega spurning. Nú hlakka ég til, herra forseti, því að nú fer ég að fá einhver svör.

„Meiri hlutinn telur því mikilvægt að reglur um persónukjör verði með þeim hætti“, ég les með leyfi herra forseta, „að tryggt verði að fulltrúar landsbyggðar og landshluta fái sæti, hvort sem það verður gert með ríkari reglum um kjör eða reglum um einhvers konar jöfnunarsæti. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að reglur um kjörið verði með þeim hætti að tryggt verði eins og hægt er jafnt kynjahlutfall á þinginu.“

Þarna á sem sagt að gæta alls konar sjónarmiða. Það er dálítið öðruvísi en kom fram í mörgum umsögnum.

„Reglum sem finna má í áðurnefndum drögum er m.a. ætlað að tryggja sjálfstæði stjórnlagaþings gagnvart Alþingi og öðrum handhöfum ríkisvalds. Telur meiri hlutinn rétt að þetta sjálfstæði þingsins sé tryggt með stjórnarskrárákvæði um stjórnlagaþing og leggur því til breytingu þess efnis að ekki verði gert ráð fyrir því að frumvarp stjórnlagaþings til nýrrar stjórnarskrár fari tvisvar til Alþingis, en það gefi þó umsögn sína um það. Þetta sparar töluverðan tíma og kostnað. Þess í stað er lagt til að ávallt þurfi 2/3 hluta fulltrúa stjórnlagaþings til að samþykkja frumvarpið, án tillits til afstöðu Alþingis, áður en það fari í venjulegan farveg þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þetta er einmitt það sem ég ræddi hér fyrr á þessum fundi og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gagnrýndi. Ég fullyrti og færði fyrir því rök að við værum með tvö stjórnlagaþing hlið við hlið og bæði gætu breytt stjórnarskránni og bæði gætu sent stjórnlagabreytingar til þjóðaratkvæðagreiðslu, annars vegar með því að í 2. gr. frumvarpsins til stjórnarskipunarlaga, sem við ræðum hér, stendur:

„Frumvarp til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari má bera upp á Alþingi.“

Það er að segja að Alþingi getur gert breytingu á stjórnarskrá hvenær sem er og það færi í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem sagt að Alþingi Íslendinga er stjórnlagaþing.

Jafnframt stendur í 4. gr. frumvarpsins, sem er breytt verulega í meðförum nefndarinnar — gerð er á því veigamikil breyting, og þar stendur, með leyfi forseta:

„Forseti Íslands boðar til stjórnlagaþings til að semja frumvarp að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands þar sem byggt verði áfram á lýðræðisskipan, réttarríki og vernd mannréttinda.“

Það er athyglisvert, herra forseti, að vernd mannréttinda kemur síðast. Ég hefði talið að það ætti að vera fremst en það er nú svona mín persónulega skoðun, eins og ég kem inn á hér á eftir.

„Þingið skal koma saman 17. júní 2010 og ljúka störfum eigi síðar en 17. júní 2011 en getur ákveðið að ljúka störfum fyrr.“ Svo er talað um hversu margir eigi að vera þarna og um kjörgengi og kosningu o.s.frv. „(Um) skipulag þess skal mælt fyrir í sérstökum lögum þar sem m.a. verði settar reglur til að jafna sem mest hlutföll á milli kynjanna í hópi þingfulltrúa.“

Sem sagt, nýtt komandi þing á að setja lög um hvernig kosið er til þessa nýja stjórnlagaþings.

„Áður en stjórnlagaþing samþykkir frumvarp að nýrri stjórnarskrá skal það sent Alþingi til umsagnar. Alþingi veitir stjórnlagaþingi umsögn sína innan þriggja mánaða. Skal stjórnlagaþing þá taka frumvarpið aftur til meðferðar.“

Hvað á að gera við þessa umsögn? Það er ekki talað neitt um það. Menn virðast bara geta horft fram hjá henni.

„Hljóti frumvarp til stjórnarskipunarlaga samþykki að minnsta kosti 2/3 hluta fulltrúa stjórnlagaþings skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í leynilegri atkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar.“

Þetta þing hefur sem sagt heimild til að breyta stjórnarskrá, sem Alþingi hefur líka. Þarna koma náttúrlega upp mjög merkilegir hlutir, sem ég ræddi hér um áður. Við erum með tvö kerfi hlið við hlið og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson mótmælti því, herra forseti, það væri ekki þannig. Nú vildi ég gjarnan spyrja hann að því, herra forseti, og hann er ekki til staðar til að svara þessu, maðurinn sem skrifar undir þetta mótmælti þessu. Hvað á ég að gera, hvað get ég gert, herra forseti? Kannski getur hv. þm. Atli Gíslason svarað fyrir hv. þm. Lúðvík Bergvinsson þegar hann fullyrðir að ekki sé um það að ræða að bæði þingin geti samþykkt breytingar og borið þær undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég sé ekki betur en ég lesi það beint út úr þessum greinum, 2. gr. og 4. gr., að bæði þingin — Alþingi Íslendinga, sem hefur starfað frá 930, með hléum reyndar, og er grundvöllur stjórnskipunar Íslands og við höfum svarið eið að, á að geta breytt stjórnarskránni en jafnframt er eitthvert annað þing, sem hv. þingmenn ætla að afsala sér völdum til, sem á að geta breytt stjórnarskránni líka við hliðina á hinu. Mig langar til að spyrja þessa tvo hv. þingmenn, sem hafa skrifað undir þetta nefndarálit, Atla Gíslason og Valgerði Sverrisdóttur: Hvað þýðir þetta? (Gripið fram í: Ég er búinn að svara þessu.)

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er ekki búin að svara þessu. Geta bæði þingin breytt stjórnarskránni og borið það undir þjóðina? Hvað segir þjóðin þegar hún fær allt í einu dettandi yfir sig — jafnvel sama daginn eða sama mánuðinn — frá tveimur þingum tillögur að breytingu á stjórnarskrá sem hún á að greiða atkvæði um?

Ég fæ ekki botn í þetta, herra forseti. (Gripið fram í.) Ég hefði talið eðlilegt að annað þingið væri ráðgefandi fyrir hitt þannig að það sé alveg á tæru hver hafi heimildina til þess að breyta stjórnarskránni. Enda veit ég ekki betur en að við höfum svarið eið að stjórnarskránni og skrifað undir það, líka hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir og líka hv. þm. Atli Gíslason. Hann hefur skrifað undir það að hann virði stjórnarskrána og þar á meðal að Alþingi geti breytt stjórnarskránni, en hann ætlar að afsala sér því valdi með þessari breytingu. Mér þykir það mjög alvarlegt og léttúðugt.

Nú getur það gerst, herra forseti, að einhver verði valinn á stjórnlagaþingið sem meiri hluta á Alþingi líkar kannski ekki við, honum bara líkar ekki niðurstaðan úr þessu kjöri. Það getur vel verið að einhverjir hópar nái völdum á þessu stjórnlagaþingi, nái kannski 25 fulltrúum af 40 og ráði þinginu eða jafnvel 2/3, eins og þarf, og ráði þar með stjórnarskránni. Þá færi lítið fyrir ákvæðum um eign þjóðarinnar á auðlindum, ef „réttir“ aðilar komast að sem hafa ekki áhuga á því ákvæði. Það geta komið þarna inn aðilar sem vilja dauðarefsingu og sett hana í stjórnarskrána eða vilja banna fóstureyðingar o.s.frv. Það getur ýmislegt gerst þegar stjórnlagaþingið fær eitt að ráða stjórnarskránni. Þetta getur að sjálfsögðu líka gerst í núverandi þingi og allt er þetta borið undir þjóðina þannig að það þarf að vera vilji hjá henni til að samþykkja þær breytingar sem ég er að tala um.

Þetta var um þetta álit sem við erum með hér fyrir framan okkur. Þeir aðilar sem skrifa undir þetta álit sýna stjórnarskránni ekki meiri virðingu en það að þeir eru ekki mættir, þeir sem skrifa undir þetta nefndarálit. Þar vil ég nefna hv. þingmenn Lúðvík Bergvinsson, Ellert B. Schram og Guðjón Arnar Kristjánsson, þeir eru bara ekki mættir. Þeir bera bara ekki meiri virðingu fyrir eigin nefndaráliti, svo að ég tali ekki um þá aðila sem fluttu frumvarpið, sem eru hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, sú sama og skrifaði seðlabankastjórum bréf og sagði þeim upp áður en Alþingi var búið að samþykkja lög þar um, sýndi löggjafarvaldinu þvílíka vanvirðu, og hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon. Síðan hv. þingmenn Birkir J. Jónsson, sem hefur reyndar verið dálítið þaulsætinn í dag svona fram að háttatíma en þá fór hann í rúmið, og Guðjón Arnar Kristjánsson, títtnefndur, sem hefur reyndar verið duglegur að sitja fundinn en gafst upp þegar vökulögin fóru að virka.

Ég hef mjög mikinn áhuga á því að hér verði stjórnlagaþing, ég hef mjög mikinn áhuga á því að stjórnarskránni verði umbylt gjörsamlega. En það ákvæði sem er í frumvarpinu, um verkefni stjórnlagaþingsins, er bara út úr kú. Þetta fylgiskjal 1, sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði sem betur fer að hefði ekkert gildi, því að þar er ekki talað um mannréttindi. Ég hef alltaf litið þannig á að stjórnarskrá lands sé eingöngu til þess að vernda mannréttindi, hún sé ekki til neins annars. Hún er ekki til þess að búa til eitthvert ríki. Til hvers er búið til ríki? Til þess að vernda mannréttindi.

Ég hef rætt þetta áður. Hér hafa verið tillögur frá Framsóknarflokknum, sem hann flutti um breytingu á stjórnarskránni. Þær gerðu nú hvorki meira né minna en brjóta stjórnarskrána á þrennan hátt af því að menn gættu ekki að því að þeir voru að breyta stjórnarskrá og það verður ekki gert nema með 79. gr. Þeir ætluðu að skauta létt yfir það allt saman og breyttu út og suður á þrennan hátt. Ég fór í gegnum það á þeim tíma en engu að síður ræddi ég þann pakka, það frumvarp, mjög mikið og mjög ítarlega á þeim tíma. Ég neyðist til þess að endurtaka mig á vissan hátt núna. Mér leikur forvitni á því, herra forseti, að vita hvað gerist þegar hv. þingmenn Framsóknarflokksins þurfa að greiða atkvæði milli þeirra tveggja eða þriggja tillagna sem þeir hafa komið fram með. Þeir lenda alveg í kross. Þeir eru búnir að flytja tillögu hérna um eitt stykki stjórnlagaþing, svo koma þeir með aðra tillögu um annað stykki stjórnlagaþing og nú er búið að gera breytingar á því þannig að það er komið þriðja stykkið. (Gripið fram í.) Mér sýnist menn ekki sýna stjórnlagaþinginu eða stjórnarskrárvaldinu nægilega mikla virðingu.

Ég hef nokkrum sinnum lagt til breytingu á stjórnarskránni. Ég hef t.d. lagt til að forsetaembættið verði aflagt, það er með ólíkindum hvernig það er. Ég get kannski byrjað á því að fara í gegnum stjórnarskrána, herra forseti, það hefur enginn gert það. Það eru allir að tala um að breyta henni en það hefur enginn farið í gegnum það hvernig hún er. Í henni er í 3.–30. gr. fjallað um forsetann og eru þær greinar flestar með ólíkindum þegar maður les þær.

Í 1. gr. segir að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. Allt í lagi, en ég sé engin markmið með stjórnarskránni í eðli sínu. Ég kem inn á það á eftir að stjórnarskráin er til að vernda mannréttindi.

Síðan stendur að Alþingi og forseti Íslands fari saman með löggjafarvaldið. Það eru tveir aðilar sem fara saman með löggjafarvaldið. „Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið.“ Forsetinn er sem sagt bæði framkvæmdarvald og löggjafarvald samkvæmt þessu. (Gripið fram í: Bæði ef …) Nei, hann er bæði, það stendur hérna. Þegar maður les stjórnarskrána þá stendur það þarna. Maður getur ekki sagt að það sé hvorugt, það stendur þarna að hann sé bæði, hann fer með löggjafarvald og hann og önnur stjórnvöld samkvæmt þessu fara með framkvæmdarvaldið. Hann er bæði, hann brýtur regluna um þrískiptingu valdsins sem og það að ráðherrar séu jafnframt þingmenn.

Ég hef nokkrum sinnum verið með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur á frumvarpi um einmitt það að ráðherrar séu ekki jafnframt þingmenn. Ég væri alveg til í að ræða það og einmitt það atriði var rætt mikið á mjög sterkum landsfundi Sjálfstæðisflokksins, mjög öflugum og skemmtilegum fundi, herra forseti, og þar var mikil liðsheild.

Síðan er talað um kjörgengi forseta og það er svo sem allt í lagi. Svo er sagt hvenær hann er kosinn o.s.frv., og um meðmælendur. En síðan byrjar eiginlega í 13. gr. mjög merkilegt ákvæði. Þar stendur, með leyfi forseta: „Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.“

Venjulegur Íslendingur sem les þetta veit náttúrlega ekkert hvað þetta þýðir eða ég þurfti dálítið að velta þessu fyrir mér. Hvað þýðir þetta eiginlega? Hann hefur eitthvert vald og hann lætur einhvern annan framkvæma valdið.

Svo stendur líka í 11. gr.: „Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum.“

Hvers lags er þetta eiginlega? Ber maðurinn akkúrat enga ábyrgð eða hvað er þetta? Þannig les hver Íslendingur stjórnarskrána. Þetta er nú dálítið skrýtið. Hann er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Og hann verður ekki sóttur til refsingar. Þetta er dálítið skrýtið allt saman. Svo er talað um hvar hann hefur aðsetur.

„Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum.“ — Stendur hér, og það má kæra ráðherrann en ekki forsetann.

Svo stendur í 15. gr.: „Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn.“

Ef ég á að vera Íslendingur sem læsi þetta og kynni íslensku þá teldi ég að hann hefði bara heilmikil völd. Hann skipar sem sagt ráðherra og veitir þeim lausn. Þetta eru ekki lítil völd. En þá kemur aftur þessi 13. gr.: „Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.“ Hann hefur sem sagt ekkert vald og þetta er allt í plati. Þetta er ekkert að marka, herra forseti, þetta er dálítið skrýtið.

Svo stendur í 16. gr.: „Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.“ — Það er nú ekki lítið að vera í forsæti fyrir ríkisráði. — „Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.“

Nú kynni maður aftur að halda sem venjulegur Íslendingur, lesandi þetta, að forsetinn hafi heilmikið að segja. Hann stjórnar ríkisráðinu og það á að bera undir hann allar stærri stjórnarráðstafanir. En aftur rekst maður á 13. gr., hann lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Hann hefur í rauninni ekkert að segja þarna. Þetta veit náttúrlega hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir því að hún hefur sjálf verið í ríkisstjórn og veit að þetta er allt saman svona. Þetta er allt í plati.

Svo er talað um ráðherrafundi o.s.frv. Ég ætla ekki að fara nánar út í það. En svo stendur hérna í 19. gr. og það er nefnilega merkilegur punktur:

„Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.“

Og ef maður les 13. gr. lætur hann ráðherra framkvæma vald sitt þannig að þetta hefur ekkert að segja. Hann bara verður að skrifa undir. Það er ráðherrann sem ræður. Og aftur veit hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hvað það þýðir að skrifa undir löggjafarmál.

Í 20. gr. stendur: „Forseti lýðveldisins veitir þau embætti, er lög mæla.“ — Nú kynni maður að halda sem venjulegur Íslendingur að þetta væri mjög valdamikill maður. — „Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt.“ — Já, það er rétt, „nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt“. Það minnir mig á eitthvað, einhvern seðlabankastjóra einhvers staðar. En ég ætla nú ekki að tala meira um það. (Gripið fram í.) Ég ætla nú ekki að fara út í smáatriði.

Svo stendur hérna: „Forseti getur vikið þeim frá embætti, er hann hefur veitt það.“

Maður kynni að halda að hann gæti bara ráðið og rekið fólk í stórum stíl. En það er bara ekkert að marka því að í 13. gr. segir að hann láti ráðherra framkvæma vald sitt. Þetta er allt svolítið skrýtið. Svo getur hann flutt embættismenn til og frá og það er dálítið merkilegt í þessu ákvæði að þarna er verið að tala um kjaramál opinberra starfsmanna í stjórnarskránni. Alveg með ólíkindum. Það stendur nefnilega þarna:

„Forseti getur flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum“ — þetta er sem sagt kjaramál — „og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk.“

Þarna er verið að tala um eftirlit í stjórnarskrá lýðveldisins. Herra forseti. Er þetta nú ekki dálítið mikil smámunasemi? Svo má undanskilja ákvæði um embættismannaflokka auk þess. Ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Svo kemur merkileg grein, 21. gr., hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sem var hæstv. utanríkisráðherra á sínum tíma: „Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki.“

Það er ekkert annað. Hann getur bara flogið til Kína og gert fínan samning við Kínverja um hvað sem er. En aftur kemur þessi 13. gr. sem segir að þetta sé ekkert að marka.

Svo stefnir hann saman Alþingi 10 vikum eftir … Og hann getur ekki einu sinni gert það nema ráðherra samþykki, forsætisráðherra. Hann getur frestað fundum Alþingis sem er líka ekkert að marka, það er ráðherra sem gerir það.

„Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga …“ — Aftur er það ráðherra sem framkvæmir.

Herra forseti. Er ekki kominn tími til að breyta þessu? Ég er búinn að lesa hérna margar greinar sem villa bara um fyrir fólki.

„Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.“

Hann hefur aldrei gert það, enda yrði væntanlega viðkomandi ráðherra að gera það. (Gripið fram í: … stjórnlagaþing.) Væntanlega þyrfti ráðherrann að gera það fyrir hann því að hann framkvæmir vald hans. Þetta er allt mjög skrýtið.

Þetta er þau atriði sem ég hef rekið augun í þegar ég var að stúdera embætti forseta Íslands og þá komst ég að því að ekki er vanþörf á því að breyta stjórnarskránni enda sér maður ákveðinn blæ á henni. Þetta er í rauninni danska stjórnarskráin með kónginn eftir að hann hafði verið gerður valdalaus. Sennilega eftir eitthvert stríðið sem hann tapaði, geri ég ráð fyrir án þess ég þekki það nákvæmlega. Þá hefur kóngurinn verið látinn halda völdunum sisvona bara í plati en ráðherrarnir framkvæma fyrir hann. Og þegar menn settu þetta yfir á Ísland var bara notað „copy/paste“, afritað, herra forseti, þýtt yfir á íslensku og í staðinn fyrir kóng var settur forseti. Það er ekki seinna vænna að fara að breyta stjórnarskránni. Ég ætla að vona að hv. þingmenn séu sammála mér í því.

Þá ætla ég að koma að því: Hvernig sé ég fyrir mér stjórnarskrá? Hvert er hlutverk stjórnarskrár? Hafa menn velt því fyrir sér? Til hvers er eiginlega stjórnarskrá? Breyting á stjórnarskrá er heimspeki. Segja má að stjórnarskráin hafi orðið til eftir frönsku byltinguna þegar menn komust að því að sami maðurinn setti lög, framkvæmdi lögin og dæmdi eftir þeim. Borgarinn var alveg ofurseldur þessum manni. Oft var það keisari eða eitthvað slíkt, kóngur eða zar. Þá komumst menn að þeirri niðurstöðu að vernda þyrfti borgarann fyrir þessu ríki með því að þrískipta því, hafa þrjár óháðar deildir sem gerðu þetta, að setja lög, framkvæma lögin og dæma eftir þeim. Þetta er heimspeki, herra forseti, þetta er ekki lögfræði, þetta er heimspeki. Í rauninni ættu því eintómir heimspekingar að vera á stjórnlagaþinginu, en þar sem flest fólk er heimspekingar í sér þá er það kannski allt í lagi.

Það voru heimspekingarnir í frönsku byltingunni, Rousseau og fleiri, sem bentu á skipta þyrfti valdinu í þrennt, framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald. Þannig að stjórnlagaþing og stjórnarskrá eru heimspeki en ekki lögfræði. Svipað og boðorðin tíu. Mér finnst að stjórnarskráin eigi að vera eins boðorðin tíu, klár, einföld og segja lesandanum það sem hún meinar, bara nákvæmlega, kristaltært. Ekkert fram og til baka eða japl, jaml og fuður. Textinn segir bara nákvæmlega: Heiðra skaltu móður þína og föður, eitthvað svoleiðis, og þú skalt ekki aðra guði hafa. Þetta er mjög klippt og skorið. Það er enginn efi neins staðar. Þannig á stjórnarskráin að vera.

Stjórnarskráin er mannréttindabákn, ekkert annað. Hún er til að vernda hvern einstakling fyrir ofríki annarra einstaklinga, hún er til að vernda einstaklinginn fyrir ríkisvaldinu og hún er til að gera kröfu á aðra einstaklinga fyrir hönd þessa einstaklings. Ég ætla að fara fyrst í gegnum það sem ég tel vera mikilvægustu mannréttindin og ætti að vera I. kafli, 1. gr.

Engan má drepa. Punktur. Ef drepa mætti fólk hafa hin ákvæðin ekkert að segja, eignarrétturinn o.s.frv. Þau skipta ekki máli ef drepa má fólk. Þannig að 1. gr. ætti að segja klippt og skorið: Engan má drepa. (Gripið fram í: En líknardráp?) Líknardráp og sjálfsvörn eru undantekningar. En þetta er grunnurinn og þetta á að vera mjög klippt og skorið. Ekki einu sinni: Engan má deyða eða eitthvað svoleiðis, heldur: Engan má drepa. Menn skilja það strax.

Síðan koma frekari mannréttindi fyrstu gráðu sem er eignarrétturinn, málfrelsið o.s.frv. Þar er verið að vernda einstaklinginn fyrir öðrum einstaklingi. Rétturinn á líkama, það má ekki pynta hann o.s.frv. Það er verið að vernda einstakling fyrir öðrum einstaklingi. Svo koma mannréttindi annarrar gráðu sem eru kröfur einstaklingsins á annað fólk. Og ég vil taka fram að þessi fyrsti flokkur er óháður landamærum. Hann er óháður landamærum. Rétturinn á lífi, eignum o.s.frv. er jafnmikill í Sómalíu og á Íslandi, Kína og annars staðar.

Svo kemur krafa á annað fólk, herra forseti. Krafa barna á foreldra sína um framfærslu t.d. Það ættu að vera mannréttindi annarrar gráðu. Krafa aldraðra og öryrkja og annarra á samfélagið til framfærslu er af sama meiði. Þessi ákvæði eru háð landamærum. Þessi krafa er önnur á hungursvæði þar sem móðirin er að deyja úr hungri. Þá mundu menn telja að líf móðurinnar í sjálfsvörn gæti gengið framar rétti barnsins á framfærslu. Þetta eru mjög harkalegar aðstæður sem ég er að lýsa en því miður, herra forseti, koma þær upp. Þá eru mannréttindi fyrstu gráðu sterkari en mannréttindi annarrar gráðu, þ.e. rétturinn á framfærslu. Svona mundi ég vilja byggja stjórnarskrána upp, bara mjög einfalt. Hún á ekki að vera meira en þrjár síður.

Svo kem ég að þessu: Til hvers höfum við ríki? Ég ætla að vona að hv. þingmenn hafi velt því fyrir sér, til hvers höfum við ríki? Við höfum ríki til þess að framkvæma fyrstu og annarrar gráðu mannréttindi til að vernda borgarana fyrir öllu hinu fólkinu. Það er enginn annar tilgangur með ríkinu en að vernda hitt fólkið. Þess vegna kæmi í t.d. IV. kafla stjórnarskrárinnar: Halda skal ríki eða stofna skal ríki. Það á að vera til ríki og það skal vera þrískipt til að borgarinn verði ekki ofurseldur þessu ríki því að þá væri betra að hafa ekkert ríki. Þá förum við að tala um þrískiptingu valdsins, Alþingi, framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnina og svo dómsvaldið.

Það er svo merkilegt að í þessari ágætu stjórnarskrá Íslands er ekki orð um Hæstarétt. Ekki orð og það er miður, því að ég hefði viljað hafa heilmikinn kafla um Hæstarétt og m.a. að Hæstiréttur geti orðið stjórnlagadómstóll þegar hann dæmir um það hvort lög frá Alþingi standist stjórnarskrá. Hann á að gera það en þá verður hann líka að vera fullskipaður, með öllum sjö, þ.e. ef það verður niðurstaðan úr þessu stjórnlagaþingi að Hæstiréttur sé með sjö fulltrúa. Þá þurfa menn líka að taka Hæstarétt sem stjórnlagadómstól til að takmarka vald löggjafans gagnvart stjórnarskránni.

Menn þurfa að ræða mjög ítarlega um það til hvers stjórnarskráin er, til hvers ríkið er o.s.frv. og hér þykist ég hafa farið nokkuð vel í gegnum það af hverju þetta er svona.

Stjórnarskráin á að vera stutt og hnitmiðuð og mjög segjandi. Hver einasta grein á að segja fólki nákvæmlega sannleikann. Ekki eitthvert japl, jaml og fuður og helst eins og ég sagði áðan, þrjár síður.

Þetta var sem sagt um hlutverk stjórnarskrár. Ég hef reyndar sett upp svona stjórnarskrá, ég á þetta til heima hjá mér í tölvunni, ég held að það séu þrjár síður. Það væri gaman að sýna þetta þeim sem hafa áhuga á því.

Svo þarf náttúrlega að ræða um það hvernig stjórnarskránni er breytt og þá kemur að því hvernig þröskuldarnir verða í stjórnarskránni, hver breytir stjórnarskránni. Ég tel eðlilegt að það sé Alþingi en að þjóðin greiði um það atkvæði, eins og hér er reyndar lagt til í 2. gr. Spurningin er sú hve stór hluti þingmanna þarf að samþykkja stjórnarskrárbreytingu. Mér finnst reyndar tveir þriðju hlutar fullmikið en 50% finnst mér fulllítið. Það mætti vera einhvers staðar þarna rétt fyrir ofan. Kannski að 60% þingmanna þurfi til að samþykkja stjórnarskrá eða að 37 eða 40 þingmenn af 63 þurfi að samþykkja stjórnarskrá.

Ef við tökum ráðherrana út, ég er mjög hlynntur því að þeir segi af sér þingmennsku þegar þeir verða ráðherrar, gætum við fækkað þingmönnum um 12 niður í 51. Ég mundi leggja það til til þess að ekki verði aukakostnaður af breytingunni og svo vantar líka stóla inn í þingsalinn sem er mjög jákvætt að þingsalurinn skuli vera svona lítill. Það takmarkar útgjöld og fjölgun þingmanna, enda hefur þeim ekkert fjölgað í mjög langan tíma af því að þingsalurinn er svo lítill.

Þetta var sem sagt um stjórnarskrána og hvernig henni er breytt, þrískipting hennar í framkvæmdarvald o.s.frv. Ég get nefnt ýmislegt í sambandi við það hvernig stjórnarskrár hafa þróast. Sumar eru orðnar óskaplega þungar og miklar eins og Lissabon-samkomulagið sem Evrópusambandið er að reyna að kúga eða plata inn á Evrópuþjóðirnar. Einu sinni átti þetta að verða stjórnarskrá og þá var það fellt. Kjósandinn var svo ósvífinn að fella þetta. En svo fóru þeir þá leið að láta ríkisstjórnirnar, þ.e. framkvæmdarvaldið samþykkja þetta. Kannski tekst þeim það, en ég held að Írar hafi fellt það.

Það er ljóst að Evrópusambandið er að þróast mjög hratt í átt til ríkis. Ef maður lítur 60 ár aftur í tímann er það á fleygiferð í átt til ríkis. Eftir 60 ár í viðbót — það eru 40.000 eða 50.000 manns í Brussel sem mæta alla daga á fundi og hvað er þetta fólk allt að gera? Það er að búa til ríki. Það er önnum kafið við að búa til ríki úr öllu Evrópusambandinu, leysa vandann og setja meiri reglugerðir, búa til myntir og utanríkisþjónustu og meira að segja her. Þetta er að verða eitt allsherjarríki.

Ef Ísland gengi inn í þetta, illu heilli, yrði Ísland eins og smáhreppur í þessu risaríki eftir ekki langan tíma. Mig mundi ekki langa til að vera í þeirri stöðu. (Gripið fram í: … ekki?) Það yrði bara svona smáhreppur inni í þessu feiknalega mikla ríki. (Gripið fram í.) Já, og það er fallegt á Ströndum. Það er miklu betra að vera með mikil áhrif utan Evrópusambandsins, geta gert samninga við Kínverja ef okkur sýnist svo eða Tævanbúa eða Japani o.s.frv. Það gætum við ekki lengur ef við gengjum í Evrópusambandið. Það væri búið spil. (Gripið fram í.) Þetta yrði búið spil.

Sem betur fer er umræðan um Evrópusambandið nánast horfin nema það er einstaka þingmaður sem sér þar lausnir á öllu, hvort heldur það eru vandamál með barnaverndarmál eða fangelsismál eða hvað það nú er, þá er alltaf lausnin að ganga í Evrópusambandið. Ég ætla að vona að það fari að minnka eitthvað, sérstaklega þegar næsta ríkisstjórn kemur sem verður vinstri ríkisstjórn þar sem flokkarnir geta ekki komið sér saman um Evrópusambandið. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þm. Atli Gíslason samþykki að ganga í Evrópusambandið og þá verður það náttúrlega ekki gert. Menn munu svo gleyma þessu eins og öðru. Menn eru fljótir að skipta um kúrs þegar þeir komast í ráðherrastólana. Það sáum við best þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð þar sem vinstri grænir tóku þvílíkar U-beygjur í öllum málum að þeir fengu svima, þeir snerust svo hratt í hina áttina. Bæði hvað varðar Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem var óalandi og óferjandi og svo var hann allt í einu orðinn vinur þeirra, besti vinur meira að segja. Og það er hægt að nefna Icesave-reikningana sem voru eitthvað ægilega vont þangað til að þeir urðu ráðherrar. Þá var bara hægt að spjalla við menn um þetta o.s.frv. Við upplifum margar U-beygjur í þessum málum öllum.

Ég ætlaði rétt aðeins, herra forseti, að fara í gegnum umsagnir vegna þess að það er dálítið athyglisvert. Menn binda greinilega miklar væntingar við stjórnarskrána. Því miður er það svo að í mjög mörgum umsögnum er kvartað undan miklum hraða. Hér er t.d. ein frá Ágústi Þór Árnasyni, Háskólanum á Akureyri, og hann segir svo, með leyfi forseta:

„Kæri viðtakandi. Óskað var umsagnar Háskólans á Akureyri um frumvarp til stjórnskipunarlaga, þskj. 648, 385. mál, um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Einnig var óskað eftir frekari athugasemdum sendanda eftir fund með stjórnarskrárnefnd Alþingis þriðjudaginn 17. mars. Því miður gildir hið sama í báðum tilfellum að tími til umsagnar um svo viðamikið mál er of skammur til að forsvaranlegt sé að senda skriflega umsögn um málið. Þó ber að fagna þeirri viðleitni flutningsmanna að auka aðkomu þjóðarinnar að mikilvægum ákvörðunum svo sem stjórnarskrárbreytingum.“

Hér er sagt beinum orðum að það sé verið að flana að einhverju með þessari breytingu. Það sé hreinlega ekki hægt á þessum stutta tíma að gefa umsögn.

Svo er dálítið athyglisvert hérna þar sem menn tala um að þjóðin komi að hlutum og hvernig kosið verði á þetta stjórnlagaþing. Það er frá Samtökum um lýðræði og almannahag, frá Þór Saari, og er skrifað 19. mars 2009. Þar stendur:

„Samtök um lýðræði og almannahag telja að mest allt frumvarpið sé ólýðræðislegt og þarfnist gagngerrar endurskoðunar við.“ — Og til vara leggja þeir til að 2. gr. falli út o.s.frv.

Hugmyndir þeirra eru þessar, með leyfi forseta:

„Valið verði á stjórnlagaþing úr röðum almennings samkvæmt hefðbundnu 600 manna úrtaki frá Gallup“ — þetta yrði bara eins og skoðanakönnun — „og einnig verði valdir eins margir til vara og þurfa þykir vegna forfalla, áhugaleysis eða vanhæfis.“ — Það væri gaman að vita hver ætti að tékka það af. Þurfa menn að kunna að lesa eða hvað, kunna ensku? Ég veit það ekki. — „Stjórnlagaþingseta verði fullt starf.“ — Svo segja þeir: „Stjórnlagaþingið skal skipulagt og verkinu stýrt af fimm manna sérfræðingahópi með sérþekkingu á stjórnskipunarrétti, mannréttindamálum og lýðræðisumbótum. Æskilegt er að a.m.k. tveir af hópnum séu erlendir sérfræðingar.“

Það er þetta dekur við útlendinga sem er mjög vaxandi núna. Það eru allir góðir sem koma frá útlöndum hvort sem það eru seðlabankastjórar eða saksóknarar, bara ef þeir eru útlenskir þá er það gott. (Gripið fram í.) Enda má kannski segja að þeir séu þá lausir við alls konar tengsl innan lands og það er kannski ágætt. Hér er talað um sérfræðingahóp en það gleymist að tala um heimspeki. Ég mundi segja að þessi sérfræðingahópur ætti eiginlega að vera heimspekingar. Það er mín skoðun. En þau vilja að þeir hafi sérþekkingu á stjórnskipunarrétti, mannréttindamálum og lýðræðisumbótum. Þau leggja áherslu á mannréttindamálin sem frumvarpið sjálft gerir ekki ráð fyrir.

Herra forseti. Því miður er tíminn að hlaupa frá mér og ég er ekki nándar nærri búinn með ræðuna mína þannig að ég verð sennilega að melda mig aftur á mælendaskrá. Nú eru ekki nema 16 sekúndur eftir og ég var því miður ekki einu sinni búinn að lesa umsagnirnar.



[01:55]
Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég skal ekki neita því að ég hafi kannski dottað aðeins undir henni. (Gripið fram í.) En það sem hann er að velta fyrir sér og fleiri hafa nefnt í máli sínu varðar persónukjörið og textann sem snýr að persónukjörinu í nefndarálitinu. Menn undrast hvað hann þýði eða velta fyrir sér hvað hann þýði. Í því sambandi er í rauninni hægt að segja að það sé ákveðið inngrip í persónukjör en þær áherslur sem settar eru fram af meiri hlutanum séu mikilvægar þó að þær séu ekki útfærðar, bæði hvað varðar jafnrétti milli kynja og eins að fulltrúar skuli vera úr öllum kjördæmum og landshlutum. Það er þess vegna sem textinn er með þessum hætti að það gæti farið svo að ekki verði um hreint persónukjör að ræða, meira að segja er ýjað að því að svo gæti farið að það þyrfti að fara út í fyrirkomulag sem kallar á uppbótarmenn. En þetta er ekki útfært og verður ekki útfært fyrr en lög hafa verið sett á Alþingi um það hvernig þetta kjör skuli fara fram.

Hv. þingmaður velti líka mikið fyrir sér hvort um tvenns konar stjórnlagaþing verði að ræða og tvö stjórnlagaþing á sama tíma. Ég vil taka svolítið undir með hv. þingmanni hvað það varðar að ekki er hægt að útiloka það að Alþingi samþykki (Forseti hringir.) breytingar á stjórnarskrá og sendi til þjóðarinnar verði 79. gr. breytt og á sama tíma sé stjórnlagaþing að störfum.



[01:57]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Á síðu 35 í frumvarpinu er 12. gr. 11. gr. draga að frumvarpi til laga um stjórnlagaþing. Og ég spurði einmitt hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að því hvort næsta þing verði bundið af þessu og hann taldi svo ekki vera. En þarna er dálítið merkilegt ákvæði um að menn eigi að merkja við sjö frambjóðendur hver.

Við skulum gefa okkur að einhver stór flokkur á Íslandi sé með landsfund. Þar fær hann menn til að kjósa segjum 30 manns, hann fær menn til að styðja 30 manns. Svo eru gefnar út „ordrur“ til allra í flokknum, þessum risastóra flokki, um að þeir eigi að kjósa þessa 30 menn á stjórnlagaþing. Og af því hinn hópurinn er svo dreifður, einn vill fara og annar vill fara o.s.frv. og það er erfitt að fá meðmælendur o.s.frv. þá bara gerist það að þessi ákveðni flokkur nær þessum 30 mönnum inn á þing og er kominn með tvo þriðju. Ég er hræddur um að þá fari dálítið um suma sem sáu þetta einhvern veginn allt öðruvísi fyrir sér. Það er hætt við því að margir muni verða dálítið skelkaðir þegar þeir sjá þetta, að einn flokkur sé farinn að ákveða stjórnarskrána. Það er þetta sem ég er að vara við. Ég er að vara við þessu.

Menn geta líka gert þetta með einhverjum öðrum hætti, með peningum og auglýsingum o.s.frv. Við þekkjum þetta allt saman. Það að einhver hópur manna hafi svona absalút heimild til þess að breyta stjórnarskránni er dálítið hættulegt. Ég er að benda á þetta, herra forseti, til að vara menn við.